Þjóðarfjöllin, skiptu skoðanirnar og fjallleysur

DimonFólki þykir gaman að kjósa um hvað sem er. Fallegasta konan, kynþokkafyllsti leikarinn, herra eða ungfrú sveitarfélagsins, vinsælasti stjórnmálamaðurinn, skemmtilegasti skemmtikrafturinn, leiðinlegasti stjórnmálamaðurinn og svo framvegis. 

Við lestur Moggans í morgun rifjaðist það upp fyrir mér að Landvernd hafði haft forgöngu um að kosið yrði „þjóðarfjall“ árið 2002. Fyrir valinu varð Herðubreið, 1.682 m hátt fjall sem er í eðli sínu dyngja, ekki stapi eins og margir kunna að halda. Vissulega er Herðubreið fagurt fjall en það er, þrátt fyrir þetta, ekki „þjóðarfjall“ Íslendinga frekar en Akureyri er „höfuðstaður Norðurlands“, eins og oft er japlað á, eða að Linda Pétursdóttir sé fallegasta kona heims.

Mat eins eða fleiri á fegurð hefur eiginlega ekkert að segja, það stenst varla ekki til lengri tíma. Væri það til dæmis einhver goðgá ef í ljós kæmi að Borgnesingar myndu langflestir telja Hafnarfjall fegursta fjall Íslands og þar af leiðandi „þjóðarfjall“? Ég yrði alveg fyllilega sammála þeim. Grundfirðingar myndu flestir velja Kirkjufell sem „þjóðarfjallið“ og enn væri ég sammála því vali. Hólmarar myndu eflaust velja Drápuhlíðarfjall, Skagstrendingar elska Spákonufell, Akureyringar Súlur, Húsvíkingar fjallið sem kennt er við víkina og svona má telja fjölda fjalla sem standa við eða í sjónfæri við bæi. Að ógleymdum öðrum stórkostlegum fjöllum sem fyrir löngu hafa brennt sig inn í huga þeirra sem séð hafa og skoðað. Ég væri ábyggilega sammála öllum niðurstöðunum.

Ég er oft spurður að því hver sé uppáhaldsstaðurinn minn hér á landi, uppáhaldsfjallið, fjörðurinn, vatnið, áin ... Svo hrifnæmur sem maður er þá kemur oftast upp síðasta fjallið sem maður gekk á eða leit augum. Lengi var ég skotinn í Esju og Móskarðshnúkum, Vífilsfelli ... svo fer maður á Eyjafjallajökul og allt breytist. Það er svo erfitt að velja því allt svona val er breytingum undirorpið. Umhverfið, stemningin, ferðafélagarnir og stundum veðrið (gott eða vont) hefur svo mikil áhrif á val mitt að ég gæti aldrei komist að fullkominni niðurstöðu.

Staðreyndin er einfaldlega sú að fæstir eru við eina fjölina felldir í „fjallamálum“ svo ekki sé talað um „þjóðarfjallamálum“. Úti á Markarfljótsaurum stendur Stóra-Dímon. Er hún fjall, fell eða fjallleysa? Eða Fimmvörðuháls eða Eiríksjökull ...?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband