Gálgahraun fer sömu leið og Rauðhólar

Þegar ég sá fyrstu fréttina um að lögreglan hefði látið til skarar skríða í Gálgahrauni í morgun stóð ég upp og gekk út af vinnustaðnum og ók suðureftir. Auðvitað komst ég ekki að vettvangi, lögreglan gætti þess að bílar kæmust ekki að, lokaði við gatnamót. Ég ók því upp á Garðaholt og gekk þar smáspöl niður að hraun.

SS í mótmælum2

Í jaðri Gálgahraun að sunnan var fjölmennt lið lögreglumanna sem gerði enga tilraun til að stöðva för mína inn á hraunið. Ég gekk því óhikað inn og settist við hlið Reynis Ingibjartssonar sem ég kannast dálítið við og við tókum spjall saman. Stuttu síðar gekk að okkur lögreglvarðstjóri og spurði mig sem nýkominn hvort ég vissi hvað til míns friðar heyrði að öðrum kosti þyrftum við að raða saman um verkefni lögreglunnar. Ég kvaðst flest allt vita og frábað mér ræðuna. Þá sagðist hann kannkvís vilja fjarlægja Reyni og það í þriðja sinnið. Ég fengi að sitja á meðan og njóta dvalarinnar.

Þeir röðuðu sér nú á Reyni, hófu hann til himins eins og fis væri og báru á brott. Fyrir framan mig sat hjólreiðamaður í fullum herklæðum og þeir vísuðu honum á brott. Gengu síðan að mér og tóku á mér. Varðstjórinn spurði þá kannkvís hvort ég ætlaði að láta bera mig í burtu. Nei, ég sagðist kunna fótum mínum forráð. Samþykkti hann að ég fengi að rölta út fyrir plastborðan sem þarna markaði fyrirhugaðan veg. Ég gekk hægt í burtu en það dugði ekki einum ungum og yfir sig áhugasömum lögreglumanni því í oflæti sínu potaði hann stanslaust í mig með fingrinum og ekki minnkaði æsingurinn í honum þegar ég gekki lengri leiðina að borðanum.

Allir voru lögreglumenn mjög kurteisir eftir því sem ég gat best séð. Enginn var laminn og í sannleika sagt báru lögreglumenn mótmælendur á höndum sér ... það er nú þónokkuð.

Þetta er þó ekkert grín. Nú kann lesandinn að spyrja hvers vegna ég hafi tekið örlítinn þátt í þessum mótmælum. Ég hafði ekki meiri tíma vegna vinnu minnar. Ég styð þó fyllilega Hraunavini og mótmæli harðlega þeim náttúruspjöllum sem verið er að fremja á Gálgahrauni.

Lítum í dag til Rauðhóla við Suðurlandsveg. Þar var tekið gríðarlegt efni og notað í húsgrunna í Reykjavík og ekki síst í gerð flugvallarins. Á þeim tíma fannst öllum þetta tilvalið enda tíðarandinn allt annar. Ég held þó að nú sé meirihluti fólks sé eins farið og mér að Rauðhólar séu víti til varnaðar og sama megi ekki gerst með Gálgahraun, að það verði stórlega skaðað.

Hvað varðar bæjarstjórn Garðabæjar þá tel ég að þar þurfi menn að hugsa sinn gang upp á nýtt. Nú er það ekki svo að það séu einhverjir æsingamenn sem ganga fram fyrir skjöldu og vilja vernda Gálgahraun og ástæðurnar séu viti bornum mönnum algjörlega huldar eða þær þeim framandi.

Valdið verður að hafa vit og skynsemi. Þeim sem kjörnir til ábyrgðastarfa fyrir sveitarfélög ber að hafa til þá víðsýni og vilja til að gera góða hluti. Taka sönsum þegar því er að skipta. 

Hvað er það sem mótmælendur vilja? Jú, vernda náttúrulegt landslag, koma í veg fyrir óafturkræf spjöll. Hversu vondur getur slíkur málstaður verið að hann verðskuldi að stjórnvaldið loki augum sínum og berjist á hæl og hnakka gegn öllum fyrirhuguðum breytingum?

Málstaður mótmælenda góður og göfugur. Þeir sem fara með valdið fyrir hönd almennings þurfa að taka tillit til góðs málstaðar, þess sem skaðar engan en gerir það að verkum að umhverfi okkar verður einfaldlega betra og yndislegra. Hvar er skilningur bæjarstjórnar Garðabæjar.

Rauðhólar verða aldrei hinir sömu, þeir voru stórskemmdir. Því miður benda líkur til þess að stór hluti af Gálgahrauni verði fyrir óbætanlegum skaða. Jarðýtan sem ruddist yfir þar sem mótmælendur sátu áður eirði engu. Þar eyðilagðist lítil hrauntröð, birkihríslan marðist undir og mosinn tættist. Hugsaðu þér, lesandi góður, og við göngumenn tökum oft á okkur krók til að skemma ekki fallegan mosa, vildum jafnvel ganga í honum berfættir. Nei, jarðýtan fer allt. Tæknilega séð getum við fjarlægt Esjuna. 

Meðfylgjandi mynd er úr mótmælunum 21. október. Þarna situr Reynir Ingibjartsson flötum beinum hægra megin og vinstra megin sér í bakhlutann á undirrituðum. Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari.


mbl.is Spennustigið hátt í hrauninu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Takk fyrir þetta, ég er algjörlega sammála þér.

Úrsúla Jünemann, 21.10.2013 kl. 16:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband