Bloggfærslur mánaðarins, október 2013

Menntamálaráðherra skerðir rekstrargrundvöll fjölmiðla

Með því að lækka framlag ríkissjóðs til Ríkisútvarpsins af útvarpsgjaldi og heimila stofnuninni að sækja sér enn frekari tekjur á auglýsingamarkaði er menntamálaráðherra að festa í sessi og raunar auka við mikið óréttlæti.

Ríkisútvarpið hefur stuðning ríkissjóð í samkeppni við aðra fjölmiðla og það hefur veitt þeim yfirburðastöðu í áhorfi sem engum hefur tekist að hnekkja, hvorki í útvarpi né sjónvarpi. Um leið sækir stofnunin rekstrarfé í sölu auglýsinga, gerir eins og önnur fyrirtæki en notar ríkisstyrkta markaðsráðandi yfirburði til þess. 

Önnur fjölmiðlafyrirtæki í útvarpi og sjónvarpi sækja stóran hluta tekna sinna í auglýsingasölu. Þær takmarkanir sem Ríkisútvarpið hefur átt að sæta, en svikist um, eru nú opnaðar og leyfist því að selja tólf auglýsingamínútur á klukkustund í stað átta áður. Dettur einhverjum í hug að þetta hafi ekki áhrif að rekstrargrundvöll annarra fjölmiðlafyrirtækja og þá er ég ekki aðeins að tala um útvarp eða sjónvarp.

Með þessu ætlar menntmálaráðherra að safna sér peningum til að ráðstafa í óskyldar greinar. Það á til dæmis ekki að efla kvikmynda- eða dagskrárgerðar. Nei, þetta á að fara í háskóla landsins. Gott og blessað, en einkastöðvarnar blæða fyrir þessar breytingar.

Það er hins vegar ekki nýtt að markaðir tekjustofnar ríkisins séu notaðir í allt annað en þeim var ætlað að gera. Segjum það líka gott og blessað.

Hitt er fjarri því að vera gott og blessað að ráðherra Sjálfstæðisflokksins skulu ekki breyta þeim lögum sem skikka mig til að greiða tæplega tuttugu þúsund krónur á mánuði í áskrift að stofnun sem ég vil ekki vera áskrifandi að.

Hefur það ekki flögrað að honum á þeim tíma sem tekjuskattur er lækkaður um þrjú þúsund kall að meðaltali að nærri átján þúsund króna skattalækkun gæti komið fleirum til gagns?

Er ekki fleirum Sjálfstæðismönnum sem finnst ofangreint vera allt orðið svo ansi öfugsnúið og andstyggilega fjarri stefnu Sjálfstæðisflokksins. Og á svo á maður að klappa menntamálaráðherra á axlirnar og kyngja þessum bruggi.

Nei, ég held að fáir kunni ráðherra þakkir fyrir þetta. 


mbl.is Rýmka auglýsingaheimildir RÚV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nokkrir hraunmolar sem færðir eru úr stað ...

GalgahraunÞetta er fróðleg og vel samin grein af Hirti Guðmundssyni, blaðamanni Morgunblaðsins, eins og hans er von og vísa.

Frá því ég fór að ganga um Gálgahraun fyrir mörgum áratugum minnist ég þess ekki að hafa heyrt örnefnið Garðahraun fyrr en núna í tengslum við veglagninguna. Hins vegar eru ábyggilegar til betri heimildir í örnefnafræðum en ég, hitt er þó nokkuð víst að göngu- og útivistarfólk talar fyrst og fremst um Gálgahraun.

Annars langar mig til að biðja lesendur að líta á meðfylgjandi mynd sem Ragnar Axelsson, hinn ágæti ljósmyndari Morgunblaðsins tók, og birtist með greininni.

Þarna er komið ljótt sár í hraunið. Til eru þeir sem spyrja hvers vegna mikið veður sé gert út af því að nokkrir hraunmolar séu færðir úr stað á landi sem er eiginlega ekkert annað en hraun ... Þegar gamlir og góðir vini spyrja svara ég eitthvað á þessa leið.

Í fyrsta lagi er þetta ekki bara spurning um magn eða fjölda hraunmola heldur viðhorf til lands og landslags. Við eigum að sýn landinu okkar virðingu og haga mannvirkjagerð þannig að ekki valdi óþarfa skemmdum, hvorki fyrir núlifandi kynslóðir né heldur þær sem erfa landið. að öðrum kosti fáum við hrylling eins og best sést á Kolviðarhóli þar sem svokölluð Hellisheiðarvirkjun stendur.

Þeir sem engar áhyggjur hafa af hraunmolunum láta sér ábyggilega örlög Rauðhóla í léttu rúmi liggja sem og annarra gervigíga og eldgíga sem hafa verið fjarlægðir og settir í götur og íbúðagrunna.

Í sannleika sagt er svo afskaplega auðvelt að breyta landinu miðað við þá tæknigetu sem við höfum yfir að ráða. Þar sem tæknin er fyrir hendi er þó enn meiri ástæða til að nota heilbrigða skynsemi.

Í öðru lagi er hér um að ræða afskaplega harða gagnrýni á stjórnvöld og viðhorf þeirra til skoðana sem ganga eitthvað á skjön við þeirra eigin.

Gangi einhver að mér og kalli mig fífl, firrist ég auðvitað við og fer í varnarstöðu. Komi hins vegar einhver að máli við mig og bendi mér á að ég hafi til dæmis ekki farið með rétt mál í pistli eru miklar líkur til þess að ég skoði minn gang.

Í nærri tvo áratugi hafa einstaklingar bent stjórnvöldum á Álftanesi og síðar Garðabæ á að haga mætti skipulagi á Gálgahrauni á annan máta. Vegagerðinni var fullkunnugt um þessar athugasemdir. Viðbrögð þessara aðila voru allöfgakennd. Engu líkar var en einhver hefði kallað þau ónefnum og hótað hryðjuverkum. Þau tóku skynsamlegri gagnrýni sem persónulegar árásir.

Þannig var gagnrýnin ekki meint og síst af öllu fram borin. Viðbrögð bæjarstjórnar Garðabæjar og Vegagerðarinnar er ámælisverð og alls ekki til eftirbreytni. Þau þurfa að skoða sinn gang. Temja sér að hlusta og fagna gagnrýni.

Í þriðja lagi felst í mótmælunum krafa um að stjórnvöld vandi sig í skipulagsmálum, taki tillit til náttúrulegs landslags, framar öllu hlífi því. Ríkisvald, sveitarstjórnir, stofnanir og fyrirtæki hafa ekki siðferðilegt leyfi til að vaða fram, jafnvel þó þau hafi lýðræðislegt umboð og lagalegan rétt. Þannig er ekki samfélag byggt upp, að minnsta kosti ekki á Íslandi.

Hér skiptir umhverfi og náttúra svo ákaflega miklu og fyrir því er vaxandi skilningur meðal almennings. 

Ég held að spurningin um nokkra hraunmola sem færðir eru úr stað sé eiginlega eins og melgresið í kvæði Jóns Helgasonar, Áfangar:

Séð hef ég skrautleg suðræn blóm
sólvermd í hlýjum garði;
áburð og ljós og aðra virkt
enginn til þeirra sparði;
mér var þó löngum meir í hug
melgrasskúfurinn harði,
runninn upp þar sem Kaldakvísl

kemur úr Vonarskarði. 

 

 

 

 


mbl.is Gálgahraun eða Garðahraun?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fækkar nú óðum skreytifjöðrum Obama

Þegar Barack Obama bauð sig fram í embætti forseta Bandaríkjanna varð hann samstundis eftirlæti allra. Hann hafði fallega framkomu og margir líktu honum við John F. Kennedy sem enn þann dag í dag er talinn hafa verið flekklaus forseti þrátt fyrir alla flekkina ...

Heimurinn stóð eiginlega á öndinni þegar Obama var kjörinn og víða féllu gleðitár. Norska Nóbelsverðlaunanefndin skenkti honum samstundis friðarverðlaunin sem hann tók þó við, en að því er virtist.

Margt hefur breytst síðan Obama varð forseti eða ætti maður að segja fátt hefur breyst. Guantanamo er enn í fullri notkun. Bandaríkjamenn reka ferðaskrifstofu sem sérhæfir sig í ferðum með þá tegund fanga sem hættulegir þykja og senda í upprifjunarvist í löndum sem hafa ekki leiðinleg mannréttindaákvæði í lögum. Þeir senda mannlausar flugvélar í hernaðaraðgerðir, bora eftir olíu í Alaska, menga og sóða út eftir bestu getu.

Obama þykir, eftir því sem þessi frétt á mbl.is ber með, sér ekkert tiltökumál að láta hlera síma stjórnmálamanna í Evrópu, vina jafnt sem andstæðinga.

Svo ótraustar eru hins vegar bandarískar njósnastofnanir, að þær mígleka. Jafnvel lágt settir starfsmenn eins og Edward Snowden geta gripið sér þar hnefa og horfið á braut með nægar upplýsingar sem borga ævilanga dvöl í landi Pútíns.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, er sár. Uppvíst hefur verið um að sími hans hefur verið hleraður í að minnsta kosti ellefu ár, það er þremur árum áður en hún varð kanslari. Þó hafa bandarískir njósnarar aldrei verið svo forspáir að geta bent á þann sem í framtíðinni verður útvalinn sem kanslari. Líklegra er að allir séu hleraðir og það rækilega.

Sárindi kanslarans kunna að vera dálítil uppgerð því ljós má vera af öllum því umstangi sem fylgir njósnastarfsemi að Bandaríkjamenn eru ekki einir um að njósna um vini og samstarfsaðila. Munurinn er hins vegar sá að ekki hefur enn komist upp um þannig njósnir Þjóðverja að Bandaríkjamenn hafi ástæðu til að verða sárir. Raunar vantar mikið einhvern uppljóstrara á borð við Snowden í Þýskalandi og jafnvel öðrum Evrópulöndum. Þjóðverjar kunna þó margir til verka í hlerunum enda eru enn margir uppistandandi sem voru á launum hjá Stasi. Þeir kalla ekki allt ömmu sína og telja ábyggilega að þýskir stjórnmálamenn geti nú bara unað vel við sitt, færri njósni um þá en áður.

Hitt stendur nú eftir að fjaðrirnar eru teknar að falla af eftirlætinu honum Barack Obama en ekki er víst að hann skaðist mikið, ekki frekar en minning John F. Kennedys við allar uppljóstranir um pólitík hans og einkamál.


mbl.is Obama upplýstur um hleranir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kassinn hafnaði 10.000 króna seðlinum

Ég fór í verslun, þurfti ýmsar nauðsynjar og annan varning. Þegar ég taldi mig vera búinn að fá hæfilega mikið fór ég að kassa til að greiða.

Þar tók ég upp veskið, leit á debetkortið og kreditkortið, hugsaði mig tvisvar um, dró síðan upp tíu þúsund króna seðillinn og rétti afgreiðslustúlkunni hann.

Hún sló eitthvað á kassann svo leit hún á mig afskaplega undrandi á svip og sagði:

„Því miður, þessum seðli er hafnað. Hér stendur að ekki sé næg innistæða fyrir honum. Því miður, þú verður bara að greiða með korti.“

Og svo reif hún tíuþúsund króna seðilinn og kastaði honum í ruslið. 

Ég gapti ... og gapi enn. 


Að vera ólæs sér til gagns

Í dag eru of mörg börn ólæs sér til gagns við lok grunnskóla.

Þegar ég las þetta í grein Sturlu Kristjánssonar, kennara, í Morgunblaðinu í morgun, stoppaði ég og hváði, líklega upphátt. Svo hló ég enda er þetta merkingarleysa.

Sturla hefur þetta úr fréttatilkynningu frá borgarstjórnarflokki Sjálfstæðismanna frá því 18. september. Og hann tínir til annað gullkort til:

Sjálfstæðismenn telja nauðsynlegt að nú þegar verði sett skýr markmið um að fækka börnum sem geta ekki lesið sér til gagns.

Ég var hættur að hlægja þegar ég las þetta og eiginlega fannst mér svona hrærigrautur hræðilegur til aflestrar, skiptir engu hver á í hlut. Er ekki einhver sem hefur einhverja reynslu sem les yfir bókanir og fréttatilkynningar borgarstjórnarflokksins? Honum er ekki sæmandi að senda svona bull frá sér.

Tekið skal fram að feitletranir hér að ofan eru á mína ábyrgð. 


Þeir njósna hver um aðra og sjálfa sig í þokkabót

Fjölmiðlar hér á landi og erlendis hafa birt mynd af Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, þar sem hún veifa síma. Nú er komið í ljós að Bandaríska þjóðaröryggisstofnunin (NSA) hefur hlerað síma kanslarans og líklega þrjátíu og fjögurra annarra þjóðarleiðtoga, vinaþjóða sem annarra.

Við njósnum ekki um vini okkar“, sagði Merkel eða einhver annar í hennar nafni.

Bandaríkjamenn ku hafa gefið út yfirlýsingu að sími kannslarans væri ekki hleraður né heldur væri það ætlunin. Þögn þeirra um hvað þeir hafa gert er ansi hávær og bendir allt til að þeir hafi lengi hlerað síma kanslarans.

Allt þetta bendir til tveggja ályktana. Annað hvort hefur þýska þjóðaröryggisstofnunin (eða hvað þýska njósnastofnunin heitir) ekki vitað um hlerun NSA á síma kanslarans eða þá að hún hefur ekki sagt frá því.

Líkur benda til þess að vestræn ríki, Kína, Rússland og líklega flest önnur, njósni um alla þá þjóðarleiðtoga sem þeir geta komist í tæri við og það sé óformlegt samkomulag að þegja um slíkt. Hins vegar stendur leikurinn um tæknilegar útfærslur, að reyna að komast undan njósnunum, hafa síma, húsakynni og fundarstaði þjóðarleiðtoga þannig að ekki sé hægt að hlera og sjá það sem þar fer fram.

Hins vegar ættum við ekki að láta það koma okkur á óvart þótt í ljós komi að NSA hleri síma forseta Bandaríkjanna, þýska njósnastofnunin hleri síma kanslara Þýskalands, breska MI5 og MI6 hleri síma forsætisráðherra Bretlands og svo framvegis ... Þeir njósna sem sagt hver um aðra og í þokkabót um eigin stjórnmálamenn og leiðtoga auk þess að hlustað er á öll símtöl almennings.

Og hvers vegna allar þessar njósnir? Jú, af því að þær eru tæknilega mögulegar ... Það sama er með hundinn sem mígur utan í ljósastaura, hann gerir það af því að hann getur það.

Þeir sögðu það sjálfir, Árni Páll Árnason, Össur Skarpéðinsson, Jón Baldvin Hannibalsson, Svavar Gestsson og örfáir aðrir, að sími þeirra hafi verið hleraðir. Þá tökum við trúanlega ...

Geti ekki látið hjá líða að vísa til annars njósnapistils: Eineygður öðru megin.


Útvarpsgjald út yfir gröf og dauða

Yfirskattanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að látinn maður nýti sér ekki Ríkisútvarpið og skuli því ekki greiða skatt sem nefnist hinu áferðarfagra nafni „útvarpsgjald“.

Ekki er talið fullsannað að látinn maður hlusti ekki á Ríkisútvarpið eftir dauðann. Því gæti verið skynsamleg ráðstöfun að setja í lög að látnir skuli greiða „útvarpsgjald“. Það gæti reddað ýmsu fyrir stofnunina.

Enn muna margir þá tíð, enda ekki svo ýkja langt síðan, er útvarpsgjald var lagt á öll heimili. Þá „áttu“ allir að eiga útvarp eða sjónvarp.

Gekk það svo langt að hringt var heim til fólks og ef börn svöruðu voru þau plötuð til að kjafta frá útvarp- eða sjónvarpseign með því að spyrja hvort ekki væri gaman að hlusta á þessi apparöt ... Ástæðan var sú að það var talið „hafið yfir skynsaman vafa“ (svo gripið sé til þýðingar á alkunnum frasa úr amrískum löggumyndum) að allir hlustuðu og horfðu á Ríkisútvarpið. Þeir sem sögðust ekki gera það væru að skrökva.

Þættist maður ekki eiga útvarp eða sjónvarp var viðkvæðið yfirleitt það hjá innheimtudeild Ríkisútvarpsins að maður þyrfti að sanna það ...

Fátt hefur breyst í innheimtumálum fyrir Ríkisútvarpsins. Nú þarf maður eflaust að sanna það að maður sé dauður. Og helst að koma í eigin persónu með bevísið.


mbl.is Útvarpsgjald á dánarbú stóðst ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hafa skynsamleg og málefnaleg rök ekkert að segja?

VegurForsíðumynd Morgunblaðsins í dag af vegargerð um Gálgahraun er óhugnanleg og ekki er síður sláandi auglýsing þeirra sem vernda vilja Gálgahraun.

Í auglýsingunni sem birt er í Morgunblaðinu sést hversu illa hefur verið staðið að hönnun vegar í Gálgahrauni af hálfu bæjarstjórnar Garðabæjar og Vegagerðar ríkisins - hversu stórkallalega og ruddalega veginum er valinn staður.

Á tveimur myndum sést hvernig hefði verið hægt að leggja Álftanesveg mun snyrtilegar og án þess að skerða hraunið.

Sumir spyrja hvaða máli skipti þó einn og einn hraunmoli sé færður úr stað. Um það snýst ekki málið heldur hvernig samfélagi við viljum búa í. Mér finnst ekki í lagi að við ryðjumst fram með allri þeirri tækniþekkingu og framkvæmdagetu sem við höfum yfir að ráða og böðlumst yfir landslag sem telst af bestu manna yfirsýn afar mikils virði

Engin þörf er fyrir hraðbraut á þessum slóðum en hins vegar er eilíf eftirspurn eftir grænum svæðum, ósnortnum stöðum sem fólk getur nýtt til útivistar. Gálgahraun er einfaldlega frábært eins og það er. Falleg, fjölbreytilegt, liggur í sjó fram og þar eru fjöldi fornra gönguleiða og staða.

Moggin

En nú er hún Snorrabúð stekkur, eins og segir í ljóðinu. Á forsíðu Morgunblaðsins er mynd sem tekin er úr flugvél og sýnir ljótt ör yfir hraunið. Þarna hefur jarðýtan ruðst í gegn, ýtt við hrauni, mosa og birkihríslum. Til að rýma fyrir jarðýtunni var fólki vísað í burtu og suma bar lögreglan og flutti til yfirheyrslu og bauð sektargreiðslu fyrir mótmælin.

Nú er það síst af öllu svo að einhver lýður hafi verið að mótmæla mótmælanna vegna. Heldur kom saman heiðarlegt og gott fólk sem biður hrauninu vægðar og bendir á aðrar leiðir sem hægt er að fara í staðinn - bókstaflega.

Upplýst og góð stjórnvöld hefðu átt að taka málið til gagngerrar endurskoðunar. Þau áttu að sjá að hugmyndir um breytingar á skipulaginu eru afskaplega málefnalegar og góðar. Um leið hefði bæjarstjórn Garðabæjar, Vegagerð ríkisins og jafnvel innanríkisráðherrann sagt einum rómi: Gott framtak hjá ykkur. Þrátt fyrir að við höfum lögin okkar megin er þetta betri kostur en sá sem við höfum fengið framgengt og í þokkabót ódýrari. Við sneiðum framhjá hrauninu og afpöntum jarðýtuna ljótu.

Nei, þess í stað standa þeir sem teljast til stjórnvalda berskjaldaðir og reyna vonlausri baráttu að verja málstað sem er sá versti sem hugsast getur, er engum er til hagsbóta og síst af öllu framtíðarkynslóðum.

Einu rökin eru lagalegs eðlis, má vera að þau séu öll rétt, og við sem mótmælum eigum ekkert erindi upp á dekk. Önnur rök standast alls ekki, ekki rökin um umferðarþunga, slysatíðni né heldur önnur. Allt hefur verið hrakið og nú standa þau einfaldlega með vondan málstað að verja og hugsa si svo: Betra er að veifa raungu tré en aungu - og gera það svo aðdáunarlega vel að margir freistast til að trúa.

Mikil eru nú vonbrigði mín með flokksfélaga mína í bæjarstjórn Garðabæjar og innanríkisráðherrann. Einhvern veginn hélt ég að gott fólk væri móttækilegt fyrir skynsömum og góðum rökum. Eflaust er eitthvað ranglega ályktað í þessum síðustu orðum.

 


Mogginn á heiður skilinn fyrir 100 daga hringferð um landið

100_dagar_kort

Ég ætla að segja það hreint út og án nokkurs fyrirvara: Morgunblaðið hefur með 100 daga heimsóknum sínum um landsbyggðina sýnt og sannað að það hefur gríðarlega yfirburði í fjölmiðlun. Kynningin á langflestum þéttbýlisstöðum er stórkostleg og sýnir og sannar hversu skemmtileg og þróttmikil byggðin er víðast hvar um landið.

Blaðið á heiður skilinn fyrir framtakið.

Í umfjöllum Morgunblaðsins sé ég landsbyggðina eins og ég þekki hana best, bæði af því að hafa búið víða um land og eins eftir ferðir mínar.

Mannlífið er alls staðar þróttmikið og íbúar stunda vinnu af ýmsu tagi og menningin blómstrar. Ekki þarf nauðsynlega að fá „menningarvita“ að sunnan til að varpa birtu á samfélagið. Menningin verður til heima. Og hvað er menning? Jú, allt það sem fólk tekur sér fyrir hendur sér til afþreyingar, skemmtunar eða annars. Þetta gerir fólk, oftast í sjálfboðaliðsvinnu og án nokkurs stuðnings nema samfélagsins á staðnum.

Hversu forvitnilegur er ekki að lesa greinar úr 100 daga hringferð Morgunblaðsin. Mér þótti frábært að lesa um bóndann í Fossárdal sem stundar hlaup og kvartar yfir því að sauðféð sé hlaupi lítið. Eða menningarstarfið á Höfn í Hornafirði sem blómstrar, eða fólkið á Stöðvarfirði sem keypti frystihúsið og stofnar sköpunarmiðstöð, eða blakspilarana á Neskaupstað, ratsjárstöðvarmanninn á Bakkafirði, bandarísku konuna sem flutti á Vopnafjörð, hvannateið í Hrísey, safnamenninguna á Siglufirði og sprotastarfið þar, sjávarlíftæknifyrirtækið BioPol á Skagaströnd, Svíann sem ræktar íslenska fjárhunda í Víðidal, Vilko-framleiðsluna á Blönduósi, harðfiskverkun á Flateyri, mjólk og skyr úr vestfirskum kúm og allt hitt ... Upptalningin er nær endalaus. 

Vita lesendur hér hversu mikið er spunnið í fólkið út á landi? Vita menn hversu yndislegt er að búa þar? Og hvar er eiginlega betra að ala upp börnin en á landsbyggðinni?

Ég hitti fyrir stuttu fólk sem nýlega er flutt út á land og við fórum að tala um allt það sem hægt væri að sækja hér í Reykjavík; bíóin, leikhúsin, listasöfnin, fundina og allt þetta. Jú, vissulega saknar maður þess stundum úti á landi en hvað gerist þegar maður er á höfuðborgarsvæðinu? Jú, sinnir í flestum tilvikum fjölskyldunni, hittir annað fólk, býður til sín fólki og fer svo af og til í bíó, leikhús eða einhverja aðra viðburði. Þannig er þetta úti á landi en munurinn er sá að þegar maður kemur suður í „menninguna“ þá gerir maður fjölmargt á skömmum tíma og fer svo aftur heim með gleði í hjarta.

Orðtakið segir; tvisvar verður sá feginn sem á steinninn sest. Því má breyta og segja; tvisvar verður sá feginn sem á mölina kemur, það er þegar hann rennir inn í bæinn og þegar hann fer ...

Fái Morgunblaðið ekki fjölmiðlaverðlaunin fyrir 100 daga hringferð sína þá eru þau ekki mikils virði. 

 


Á villigötum við gerð fjárlaga

sulurit

Alþingi getur ekki tekið ákvörðun um vaxtabætur, framleiðslustyrki í landbúnaði, framlög til stjórnmálaflokka, listamannalaun, skógrækt, framlög til rannsókna eða lista svo dæmi séu nefnd, fyrr en nægilegt fjármagn hefur verið tryggt í heilbrigðisþjónustu, rekstur menntakerfisins, til löggæslu, aðstoðar við þá sem standa höllum fæti og til annarra þátta í samræmi við meginhlutverk ríkisins.

Þessi heiðskýru hugsun er í grein Óla Björns Kárasonar, varaþingmanns, í Morgunblaðinu í morgun. Hann er öðrum mönnum gleggri á stjórnsýslu ríkisins og spara sig ekki þessari ágætu grein. Hann ræður um grunnskyldur ríkisins og síðan það sem næst geti komið. En hverjar telur Óli Björn vera grunnskyldur ríkisins:

Grunnhlutverk ríkisins:

  • Tryggir heilbrigðisþjónustu.
  • Tryggir menntun.
  • Ver mannlega reisn, aðstoðar þá sem standa höllum fæti og hjálpar fólki til sjálfshjálpar.
  • Tryggir innra og ytra öryggi landsmanna - dómstólar, lögregla, landhelgisgæsla.
  • Setur lög og reglur.
  • Sinnir samskiptum við önnur lönd.
  • Tryggir innviði samgöngukerfisins. 

Þetta er sá rammi sem Óli Björn telur til grunnsins. Hann heldur því fram að ríkið sé að veita 220 milljörðum króna í verkefni sem teljast utan rammans meðan fjárskortur háir sárlega þeim sem eru innan hans. 

Þegar röðin kemur að því að forgangsraða takmörkuðum fjárráðum ríkissjóð þurfa þingmenn að hugsa sig vel og vandlega um. Raunar eru nægir peningar til fyrir grunninn og hann á ekki að líða. Síðan á að skipta því sem eftir er í verkefni sem teljast utan grunnsins. 

Súluritið sem hér fylgir með er stórmerkilegt og ég hvet fólk til að lesa þessa grein Óla Björns og velta efni hennar fyrir sér. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband