Mogginn á heiður skilinn fyrir 100 daga hringferð um landið

100_dagar_kort

Ég ætla að segja það hreint út og án nokkurs fyrirvara: Morgunblaðið hefur með 100 daga heimsóknum sínum um landsbyggðina sýnt og sannað að það hefur gríðarlega yfirburði í fjölmiðlun. Kynningin á langflestum þéttbýlisstöðum er stórkostleg og sýnir og sannar hversu skemmtileg og þróttmikil byggðin er víðast hvar um landið.

Blaðið á heiður skilinn fyrir framtakið.

Í umfjöllum Morgunblaðsins sé ég landsbyggðina eins og ég þekki hana best, bæði af því að hafa búið víða um land og eins eftir ferðir mínar.

Mannlífið er alls staðar þróttmikið og íbúar stunda vinnu af ýmsu tagi og menningin blómstrar. Ekki þarf nauðsynlega að fá „menningarvita“ að sunnan til að varpa birtu á samfélagið. Menningin verður til heima. Og hvað er menning? Jú, allt það sem fólk tekur sér fyrir hendur sér til afþreyingar, skemmtunar eða annars. Þetta gerir fólk, oftast í sjálfboðaliðsvinnu og án nokkurs stuðnings nema samfélagsins á staðnum.

Hversu forvitnilegur er ekki að lesa greinar úr 100 daga hringferð Morgunblaðsin. Mér þótti frábært að lesa um bóndann í Fossárdal sem stundar hlaup og kvartar yfir því að sauðféð sé hlaupi lítið. Eða menningarstarfið á Höfn í Hornafirði sem blómstrar, eða fólkið á Stöðvarfirði sem keypti frystihúsið og stofnar sköpunarmiðstöð, eða blakspilarana á Neskaupstað, ratsjárstöðvarmanninn á Bakkafirði, bandarísku konuna sem flutti á Vopnafjörð, hvannateið í Hrísey, safnamenninguna á Siglufirði og sprotastarfið þar, sjávarlíftæknifyrirtækið BioPol á Skagaströnd, Svíann sem ræktar íslenska fjárhunda í Víðidal, Vilko-framleiðsluna á Blönduósi, harðfiskverkun á Flateyri, mjólk og skyr úr vestfirskum kúm og allt hitt ... Upptalningin er nær endalaus. 

Vita lesendur hér hversu mikið er spunnið í fólkið út á landi? Vita menn hversu yndislegt er að búa þar? Og hvar er eiginlega betra að ala upp börnin en á landsbyggðinni?

Ég hitti fyrir stuttu fólk sem nýlega er flutt út á land og við fórum að tala um allt það sem hægt væri að sækja hér í Reykjavík; bíóin, leikhúsin, listasöfnin, fundina og allt þetta. Jú, vissulega saknar maður þess stundum úti á landi en hvað gerist þegar maður er á höfuðborgarsvæðinu? Jú, sinnir í flestum tilvikum fjölskyldunni, hittir annað fólk, býður til sín fólki og fer svo af og til í bíó, leikhús eða einhverja aðra viðburði. Þannig er þetta úti á landi en munurinn er sá að þegar maður kemur suður í „menninguna“ þá gerir maður fjölmargt á skömmum tíma og fer svo aftur heim með gleði í hjarta.

Orðtakið segir; tvisvar verður sá feginn sem á steinninn sest. Því má breyta og segja; tvisvar verður sá feginn sem á mölina kemur, það er þegar hann rennir inn í bæinn og þegar hann fer ...

Fái Morgunblaðið ekki fjölmiðlaverðlaunin fyrir 100 daga hringferð sína þá eru þau ekki mikils virði. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband