Hafa skynsamleg og málefnaleg rök ekkert að segja?

VegurForsíðumynd Morgunblaðsins í dag af vegargerð um Gálgahraun er óhugnanleg og ekki er síður sláandi auglýsing þeirra sem vernda vilja Gálgahraun.

Í auglýsingunni sem birt er í Morgunblaðinu sést hversu illa hefur verið staðið að hönnun vegar í Gálgahrauni af hálfu bæjarstjórnar Garðabæjar og Vegagerðar ríkisins - hversu stórkallalega og ruddalega veginum er valinn staður.

Á tveimur myndum sést hvernig hefði verið hægt að leggja Álftanesveg mun snyrtilegar og án þess að skerða hraunið.

Sumir spyrja hvaða máli skipti þó einn og einn hraunmoli sé færður úr stað. Um það snýst ekki málið heldur hvernig samfélagi við viljum búa í. Mér finnst ekki í lagi að við ryðjumst fram með allri þeirri tækniþekkingu og framkvæmdagetu sem við höfum yfir að ráða og böðlumst yfir landslag sem telst af bestu manna yfirsýn afar mikils virði

Engin þörf er fyrir hraðbraut á þessum slóðum en hins vegar er eilíf eftirspurn eftir grænum svæðum, ósnortnum stöðum sem fólk getur nýtt til útivistar. Gálgahraun er einfaldlega frábært eins og það er. Falleg, fjölbreytilegt, liggur í sjó fram og þar eru fjöldi fornra gönguleiða og staða.

Moggin

En nú er hún Snorrabúð stekkur, eins og segir í ljóðinu. Á forsíðu Morgunblaðsins er mynd sem tekin er úr flugvél og sýnir ljótt ör yfir hraunið. Þarna hefur jarðýtan ruðst í gegn, ýtt við hrauni, mosa og birkihríslum. Til að rýma fyrir jarðýtunni var fólki vísað í burtu og suma bar lögreglan og flutti til yfirheyrslu og bauð sektargreiðslu fyrir mótmælin.

Nú er það síst af öllu svo að einhver lýður hafi verið að mótmæla mótmælanna vegna. Heldur kom saman heiðarlegt og gott fólk sem biður hrauninu vægðar og bendir á aðrar leiðir sem hægt er að fara í staðinn - bókstaflega.

Upplýst og góð stjórnvöld hefðu átt að taka málið til gagngerrar endurskoðunar. Þau áttu að sjá að hugmyndir um breytingar á skipulaginu eru afskaplega málefnalegar og góðar. Um leið hefði bæjarstjórn Garðabæjar, Vegagerð ríkisins og jafnvel innanríkisráðherrann sagt einum rómi: Gott framtak hjá ykkur. Þrátt fyrir að við höfum lögin okkar megin er þetta betri kostur en sá sem við höfum fengið framgengt og í þokkabót ódýrari. Við sneiðum framhjá hrauninu og afpöntum jarðýtuna ljótu.

Nei, þess í stað standa þeir sem teljast til stjórnvalda berskjaldaðir og reyna vonlausri baráttu að verja málstað sem er sá versti sem hugsast getur, er engum er til hagsbóta og síst af öllu framtíðarkynslóðum.

Einu rökin eru lagalegs eðlis, má vera að þau séu öll rétt, og við sem mótmælum eigum ekkert erindi upp á dekk. Önnur rök standast alls ekki, ekki rökin um umferðarþunga, slysatíðni né heldur önnur. Allt hefur verið hrakið og nú standa þau einfaldlega með vondan málstað að verja og hugsa si svo: Betra er að veifa raungu tré en aungu - og gera það svo aðdáunarlega vel að margir freistast til að trúa.

Mikil eru nú vonbrigði mín með flokksfélaga mína í bæjarstjórn Garðabæjar og innanríkisráðherrann. Einhvern veginn hélt ég að gott fólk væri móttækilegt fyrir skynsömum og góðum rökum. Eflaust er eitthvað ranglega ályktað í þessum síðustu orðum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Þessi vegur verður svartur minnisvarði íslenska dómskerfisins. Dómskerfisins sem of margir hafa hingað til trúað að væru raunveruleg verkfæri til  leiðréttingar á stjórnarskrárbrotnu óréttlæti. Annað hefur komið í ljós.

Stjórnarskrá, (hverju nafni sem hún nefnist), er einskis verð, meðan hugarfar samfélagsins í heild sinni, snýst um að komast fram hjá siðferðisþroska og samviskusemi. 

Allt hefur sinn tilgang.

Þessi svarti og siðblindhæðar-vegur mun minna okkur á dómsmorða-staðreyndir "réttarríkisins" Íslands!

Á meðan hjúkrunarfólk og aðrir þrælar landsins fá ekki mannsæmandi laun og tæki? Tæki sem rúmast í húsakynnum núverandi byggingu Landsspítalans! Og á meðan almenningur er svikinn um stjórnarskrárvarinn tilverurétt, á mannúðlegan hátt?

Siðblinda!

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 24.10.2013 kl. 13:24

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Sigurður svo sannarlega tek ég hér undir hvert einasta orð og engu við það að bæta.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.10.2013 kl. 18:11

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Ef það er blessunarlega svo að rökin um slysatíðni standast ekki,leyfi ég mér að taka undir með þeim sem telja að vegurinn (gamli) sé hættulegur.Hvernig væri að menn hefðu augun opin fyrir slysagildrum og vara við,en kemst fyrst í umræðu við óhapp og rakið er beint til þess. Þarna er blindhæð og beygja að sögn eins sem keyrir þar jafnan,það eru agnúar sem á að sníða af vegum. Athuga svo að íbúafjöldi er að vaxa og ekki er ráð nema í tíma sé tekið að gera leiðina greiðfærari. Ætla um helgina að aka þangað og sjá með mínum leikmannaaugum kannski fá svör ef einhver fást,það er áhugavert.

Helga Kristjánsdóttir, 24.10.2013 kl. 20:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband