Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2013

Grætur ekki hörmuleg örlög VG

Mikill hiti er í andstæðingum ESB aðildar, ekki síst meðal flokksmanna Vinstri grænna. Þar stendur flokksforystan í daglegri nauðvörn gegn gagnrýni almennra flokksfélaga sem þó fer fækkandi eins og sjá má á skoðanakönnunum um fylgi stjórnmálaflokka.

Vinstri vaktin gegn ESB er eindregið á móti aðild og hefur bent á að aðlögunarviðræðurnar séu stórhættulegar. Á vefnum skrifar GI eftirfarandi í dag:

Sá sem hér heldur á penna í þetta skiptið hér á Vinstri vaktinni telur að hin gömlu gildi "vinstri" og "hægri" verði einfaldlega að setja til hliðar nú um stund á meðan að þessu ófyrirleitna og lymskulega umsátri stendur um sjálfsstæði og fullveldi íslensku þjóðarinnar.

Þjóðin þarf með öllum ráðum að verjast þessum úrtölu- og niðurrisfs öflum sem engu eira í áróðurs lygaþælu sinni við að koma þjóðinni með góðu eða illu undir Brussel valdið. Við getum ekki grátið hörmuleg örlög VG endalaust við þurfum að bíta á jaxlinn og safna liði fram til sóknar.

Við þurfum e.t.v. að huga alvarlega að því að stofna nýtt stjórnmála afl sem getur vill og kann og færi fram í kosningunum í vor í öllum kjördæmum. Flokk sem einarðlega talar máli okkar sem erum hörð í ESB andstöðunni. 

Andstaðan gegn ESB aðild byggist ekki á hefðbundinni skilgreiningu á vinstri og hægri. Til þess er málið alltof mikilvægt og varðar hvorki meira né minna en fullveldi þjóðarinnar. Fjölmargir hafa áhyggjur af þróun mála og það heyrir óneitanlega til tíðinda er vinstri menn gerast svo órólegir að þeir segja VG skipta ekki lengur máli heldur vilja stofna nýjan flokk gegn ESB aðild. Vonbrigðin með VG hljóta að vera alveg rosaleg hjá þessu fólki.


Tafs og tafir hjá Vegagerðinni

Verði mistök á Landspítalanum svo sjúklingur beri sannarleg skaða af þá ber spítalinn ábyrgð. Sama er með aðrar ríkisstofnanir og þar er Vegagerð ríkisins engin undantekning. Vegir landsins eiga að vera í lagi og til þess er þessi ríkisstofnun að hanna og sjá til að vegirnir þoli þá umferð sem mælt er með. 

Ég þekki þjóðvegi landsins nokkuð vel. Hvergi hefur ég þó orðið var við blæðingar á slitlagi vega nema á Holtavörðuheiði og í Húnavatnssýslum en þó aðeins að sumarlagi. Stundum hefur bíllinn hjá manni verið flekkóttur eftir tjöruna og þurft á mikilli hreinsun að halda. Nú bregður svo við að vegirnir eru hreinlega ónýtir á köflum, sérstaklega þar sem slitlagið hefur verið lagfært á síðustu tveimur árum.

Auðvitað ber Vegagerðin ábyrgð. Bíleigendur eiga að gera kröfu til tryggingafélaga sinna og þau væntanlega á Vegagerðina. Hvort henni takist svo að koma ábyrgðinni yfir á einhverja aumingjans verktaka er svo allt annað mál.

Hins vegar er viðhorf Vegagerðarinnar ákaflega stofnanalegt. Allt málið virðist koma henni á óvart og fæstir þar skilja neitt í neinu nema að kenna lífdísel um. Væri um að ræða einkafyrirtæki sætu fjölmiðlar hreinlega um það og stjórnendur myndu aldrei komast upp með tafs og tafir eins og þeir hjá Vegagerðinni. 


mbl.is Kögglar í Hvalfjarðargöngunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðför ríkisstjórnarinnar að Skagfirðingum

Op störf SkagafHún er afskaplega áhugaverð taflan sem fylgir með frétt Morgunblaðsins í morgun um aðför stjórnvalda að Skagfirðingum. Þó ég telji að opinber störf skipti ekki almennt sköpum fyrir búsetu á landsbyggðinni þá er ekki hægt að líta framhjá því að sum störf gera það.

Þetta eru störf við sjúkrahús og heilsugæslu, skóla og löggæslu. Þau eru þess eðlis að þróun byggðar er vonlítil nema fólk eigi kost á þeirri þjónustu sem veitt er á þessum sviðum og þau haldist í hendur við íbúafjölda.

Árið 2008 voru stöðugildi í sjúkrahúsi og heilsugæslu, Fjölbrautarskóla NV, Háskólanum á Hólum og lögreglunni samtals 239. Á síðasta ári hafði þeim fækkað um 23,2% og voru orðin 183,6. Fyrir lítil samfélög munar um minna.

Munum líka hversu mikilvæg þessi störf eru í eðli sínu og að þau eru þokkalega launum. Hvort tveggja skiptir máli í öllum samfélögum. Áhrifin teygja sig út um allt.

Hver skyldi nú ástæðan vera fyrir þessu öllu saman? Jú, ríkisstjórnin heldur því fram að ríkissjóður sé svo fjárvana að draga þurfi úr fjárveitingum til ofangreindra verkefna. Vissulega er það rétt en þá verður einnig að líta til þess að skattar hafa mikið hækkað í tíð ríkisstjórnarinnar sem þó lofaði að standa vörð um byggðamál. Því miður er ekki hægt að festa hönd á neitt í þeim efnum frekar en öðrum.

Þá læðist sú hugsun læðist að manni að tilgangurinn með fækkun opinberra starfa í heilbrigðismálum stafi af því að réttlæta eigi byggingu stórsjúkrahúss í Reykjavík. Landsbyggðin á að blæða fyrir þá framkvæmd.


mbl.is Aðför stjórnvalda að Skagfirðingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlýtt, gott og notadrjúgt við kjötkatla Hörpu

Venjan er sú að þeir opinberir starfsmenn sem taka að sér aukastörf, t.d. þau að sitja í stjórnum og nefndum, missa einskis í fastalaunum en fá þess í stað drjúgan skilding fyrir aukastörfin í Hörpu og tengdum félögum. Þannig hafa silkihúfur Reykjavíkurborgar verið gert kleyft að maka krókinn vegna starfsemi sem að stórum hluta er fjármögnuð af almannafé, skattfé almennings. Föst laun plús aukastörf gera enn hærri laun.

Enginn má vera á móti menningu og enginn þorir að vera á móti menningu. Þess vegna sameinast allir í því að þagga niður misnotkun á almannafé. Byggð hefur verið monthöll sem engan veginn hefur staðið undir sér né mun nokkurn tímann geta það. Þær silkihúfur sem þar hafa vélað um reksturinn hafa auk þess misreiknað stöðu mála og krefjast þess nú að fasteignagjöldum verði breytt eða þá að reksturinn fái til viðbóta sem styrk því sem munar á áður útreiknuðum fasteignagjöldum í rekstaráætlunum og þeim fasteignagjöldum sem lögð hafa verið á.

Enginn gerir kröfu til þess að silkihúfurnar lækki í launum í staðinn. Enginn gerir nokkrar athugasemdir við þverrandi eigið fé Hörpu enda hafa þessar húfur aldrei lagt fé úr eigin sjóðum í starfsemina og munu aldrei gera. Slakari rekstur tónleikahússins hefur því eingöngu áhrif á ríkissjóð og borgarsjóð, ekki á Pétur J. Eiríksson, Þórunni Sigurðardóttur eða félaga þeirra í silkihúfufélaginu.

Það er enginn vandi að sitja í stjórnum félaga sem ríki og Reykjavíkurborg eiga. Því fylgir aðeins óljós ábyrgð en ómældir peningar sem enginn hefur yfirumsjón með nema silkihúfurnar.

Eflaust eru þau Pétur, Þórunn og allir hinir skarpgáfaðir og kunnáttufólk í menningu, markaðsmálum og peningum. Það breytir því þó ekki að þau hafa klúðrað málum í Hörpu, gert villu í rekstraráætlunum og rakað til sín peningum.

Er ekki komin tími til að nýtt fólk fái að komast að kjötkötlunum og reyna sig við rekstararáætlanir í þessari monthöll sem allir elska? 


mbl.is Segir Hörpu kosta 17,5 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fór maðurinn mismunandi leið niður?

Orðalagið í fréttinni á mbl.is er dálítið undarlegt:

Maðurinn var á ferð á Kerhólakambi ásamt félaga sínum og hugðust þeir fara mismunandi leiðir niður af fjallinu.  

Vissulega kunna tveir menn hafa farið á Kerhólakamb en ætlað hvor sína leið niður. Annar gæti hugsanlega ætlað aftur niður sömu leið og hinn niður Lág-Esju eða austur á Þverfellshorn og þaðan niður. Hvorugur gæti hafa farið mismundandi leið niður, það er eiginlega útilokað.

Get ímyndað mér að hafi annar ætlað að fara sömu leið niður þá sé hann bílstjórinn og ætlað að ná í hinn, annað hvort við Blikadal eða bílastæðinu við Mógilsá. 


mbl.is Leita að manni í Esjunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ögmundur breytir um skoðun

Þann 16. júlí 2009 greiddi Ögmundur Jónasson atkvæði gegn því að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort Íslandi skyldi óska eftir aðild að Evrópusambandinu. Hann kom í veg fyrir að „hinn eiginlegi valdhafi“ yrði spurður álits. Nú tæpum fjórum árum síðar vill Ögmundur þjóðaratkvæðagreiðslu. „Auðvitað spyrjum við þjóðina álits,“ skrifar innanríkisráðherra í Morgunblaðið þegar stutt er til kosninga og aðildarviðræðurnar í ógöngum.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, lögðu fram eftirfarandi breytingtillögu við þingsályktun um aðildarumsókn að Evrópusambandinu:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort Ísland skuli sækja um aðild að Evrópusambandinu. Skal þjóðaratkvæðagreiðslan fara fram hið allra fyrsta og eigi síðar en innan þriggja mánaða frá samþykkt tillögu þessarar. Verði aðildarumsókn samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu skal ríkisstjórnin leggja inn umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Tillagan var felld með 32 atkvæðum en 30 þingmenn studdu hana. Ögmundur Jónasson var andvígur tillögunni líkt og átta aðrir þingmenn VG.

Af vef Óla Björns Kárasonar, www.t24.is. 


Stórkostlegt afrek, fordæmalaust

920430-163

Líklega gera fæstir sér grein fyrir því hversu mikið afrek það er að ganga einn á Suðurskautið líkt og Vilborg Arna Gissurardóttir er nú að klára. Íslendingar eru orðnir of góðu vanir. Mörgum óar við slagveðursrigningu, fjölmiðlavíkingar draga upp þá mynd að þá aðeins að sól skíni sé veðrið gott. Þoka er vont veður, einnig hvassviðri (sem oftast er nefnt vindur og þá lítill eða mikill eftir atvikum). 

Það var svo rétt sem Guðmundur Einarsson frá Miðdal sagði í bók sinni Fjallamenn:

Íslendingar eru skyldugir til að leggja stund á göngur og skíðaíþrótt, þá vaxa þeim ekki fjarlægðir í augum. Sund, leikfimi og fleiri íþróttir eru ágætur undirbúningur fyrir fjallgöngumann jafnframt því, að hann beri virðingu fyrir líkama sínum. Ég veit, að fyrstu tilraunum fylgir nokkur hætta, ef ekki er reynt fólk með í för. En það aftrar mér ekki frá að hvetja fólk til að ganga á fjöll. Fleiri og voðalegri slys hljótast af hreyfingarleysi en fjallgöngum. Ég hef séð kunningja minn hrapa til dauða í Alpafjöllunum, en það fékk mér ekki eins mikillar sorgar og að sjá fjölda fólks, sem ég þekki, grotna niður af fitu, leti og óreglu. 

Ég vitna oft í þessa hugsun Guðmundar þegar fólk tekur andköf yfir meintum afrekum fólk í gönguferðum, fjallaferðum eða skíðaferðum hér innanlands og eru þó þau miklu minni og „ómerkilegri“ en afrek Vilborgar Örnu.

Og hvers vegna skyldi fólk ekki takast á við náttúruöflin? Í fyrsta lagi veitir sú reynsla afar mikla ánægju og gleði. Í öðru lagi fylgir því holl og góð líkamsrækt ekki síður fyrir heilabúið en skrokkinn. Í þriðja lagi sameinar útivist og ferðalög fólk, þetta er félagsleg íþrótt, einstaklega heillandi að því leyti. Fólk á ekki að taka mark á linnulausum aumingjaáróðri fjölmiðla um veðurfar. Með reynslu og þekkingu í bakgrunni og góðan klæðnað verður manni fátt að fjörtjóni.

En Vilborg Arna er ekki enginn aukvisi. Ekki er laust við að maður kannist aðeins við tilfinninguna sem hlýtur að grípa hana á síðustu metrunum. Oft er það þannig í skíðagönguferðum hér innanlands að nokkrar vegalengdir séu á milli göngumanna þegar veður er gott. Stundum ganga menn þannig tímunum saman. Yfirleitt hef ég alltaf verið síðastur í hópi. Flestir fullyrða að ég sé miklu síðri fjallamaður en aðrir. Ég kenni hins vegar myndavélinni um. Á jöklum er maður oft einn svolitla dagsstund en sextíu daga einvera. Ég egi nú bara Ómægod ...

Ég veit sem er að allir sem stundað hafa skíðagönguferðir fagna þessum stórkostlega áfanga Vilborgar Örnu og um leið veit ég að það örlar örugglega fyrir pínulítilli öfund hjá flestum. Öll viljum við ganga á Everest, fara á bæði skautin og njóta náttúrunnar. En það eru aðeins hörkutólin sem láta þetta eftir sér.

Guðmundur Einarsson frá Miðdal orðaði hugsun sína svona: 

Mikið er talað um jafnrétti og frelsi, en niðurstaðan er samt sú, að sumir eru ofþjakaðir af vinnu, aðrir eyðilagðir af iðjuleysi. Báðir tveir, iðjuleysinginn og tímaleysinginn, eru afsprengi þjóðar, sem ekki kann að lifa, eða eins og Indíánar segja: „Hvítir menn, sem hafa ekki tíma til að lifa.“  

Líklega eru um fimmtíu ár síðan bókin Fjallamenn kom út og allt breyst í íslensku samfélagi, væntanlega til góðs. Þó eru ofangreind orð Guðmundar eins sönn í dag og er hann ritaði þau.

Ég óska Vilborgu Örnu Gissurardóttur til hamingju með afrekið. 


mbl.is Takmarkinu væntanlega náð í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Niðurstaðan verður ekki samningur við ESB heldur aðild

Stöðugar tafir hafa verið vegna andstöðu innan raða stjórnarflokkanna. Á ráðherraferli sínum náði Jón Bjarnason nánast að stöðva viðræðurnar með andófi innan ráðuneyta sinna. Á heildina litið má segja að umsóknarferlið hafi þegar tekið alltof mikla orku og tíma frá þjóðinni. Samningur hefði átt að vera á borðinu nú og þjóðin að kynna sér innihaldið og mynda sér afstöðu.

Ég botna ekkert í Reyni Traustasyni, ritstjóra, DV. Ofangreint er úr forystugrein blaðsins í dag. Hann ræðir um ESB málið og heldur því fram að hann snúist um samning. Það er alrangt. Aðildarferlið gengur alls ekki út á samning. Það gengur út á inngöngu. Af hverju skilur Reynir og fjöldi manns þetta ekki.

Um er að ræða aðlögun Íslands að stjórnarskrá ESB, Lissabonsáttmálanum. Við getum í hæsta máta búist við tímabundnum undanþágum, engu meira. Við þurfum að samþykka Lissabonsáttmálann í öllu, smáu sem stóru.

Það var Jón Bjarnason sem vakti athygli þjóðarinnar með andófi sínu innan ráðuneyta sinna og það er ekki lítið sem hann afrekaði. Því er engin ástæða fyrir Reyni að agnúast út í Jón nema því aðeins að hann vilji að við göngum í ESB. Hann ætti á einfaldlega að segja það upphátt.

Auðvitað les Reynir Traustason ekki þetta blogg, en engu að síður skora ég á hann að færa einhver rök fyrir því að um samning sé að ræða í aðlögunarviðræðunum við ESB.

Nú, svari Reynir ekki þá er aðeins tvennt uppi, annað hvort hefur hann ekki séð þessa áskorun eða hann getur ekki orðið við henni. Í raun skiptir enginn hvort er. Enginn samningur verður gerður í lok aðlögunarviðræðnanna. Ísland er að ganga í ESB en ekki öfugt.


Samstaða dó er Lilja hætti

Lilja Mósesdóttir, alþingismaður, gerði þau reginmistök að vilja ekki vera formaður Samstöð og að hætta þingmennsku næsta vor. Hvort tveggja leiddi Samstöðu til dauða. Flokkurinn var stofnaður í kringum Lilju og þreifst á þeirri hugmyndafræði sem hún lagði honum til. Með fullri virðingu fyrir öðrum forystumönnum hefur enginn þeirra næga pólitíska vigt til að draga vagninn.

Þetta er orðið eins og í íþróttunum. Samstaða komast of fljótt í keppnisform og síðan hefur dregið af henni. Formaðurinn er gjörsamlega óþekktur, hefur vart komist á blað í pólitískri umræðu. Allt þetta skiptir miklu máli og því er flokkurinn týndur. Hann sést ekki fyrir Bjartri framtíð og Hægri grænum.

Þetta er mikil synd vegna þess að Lilja Mósesdóttir vildi vel og fólk trúði henni. 


mbl.is Framtíð Samstöðu verði ákveðin á landsfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinn málglaði þekkir ekki dyggðina að hlusta

„Nú er valið mjög skýrt fyrir þjóðina í kosningum. Ísland er í aðildarsamningum við 27 ríki og þarf forystuafl í stjórnmálum sem leiðir þá samninga til farsælla lykta. Minn flokkur þarf að útskýra fyrir þjóðinni mikilvægi þess að landið verði opið og frjálst og að við útilokum ekki að óþörfu kosti okkar í samvinnu við aðrar þjóðir. Þeir flokkar sem vilja loka landinu þurfa þá að hafa fyrir því að sannfæra þjóðina um ágæti einangrunarstefnu og hafta.

Ofangreint ef haft eftir Árna Páli Árnasyni, alþingismanni og frambjóðanda í formannskjöri Samfylkingarinnar, í Morgunblaðinu í morgun. 

Takið eftir talsmátanum í þingmanninum. Hann og flokkur hans býður upp á „opið og frjálst“ land með inngöngu í ESB en hinir sem ekki vilja inn í ESB vilja „loka landinu“. Þetta er ámælisverð túlkun á ólíkum viðhorfum og býður hvorki upp á heilbrigð skoðanaskipti né er manninum vænlegt til framdráttar í baráttu sinni.

Miklu frekar mætti til sanns vegar færa að þeir sem vilja aðild að ESB væru að loka landinu. Þetta er samt ekki rétt fullyrðing. Það sem Árni Páll heldur fram er einungis leiðinleg framsetning manns sem virðist ekki hafa neinn skilning á afstöðu þjóðarinnar vegna þess að hann hlustar ekki. 

Sagt hefur verið að ein mesta dyggð sem um getur er sú að hlusta. Einn versti löstur á einum manni er að hlusta ekki en tala ómælt. Þeir eru margir tölugir í Samfylkingunni og geta látið móðan mása um mikilvæg mál án þess að komast nokkurn tíma að kjarnanum, hvað þá að þeir sem leggi við eyrun séu nokkru nær um hvað ræðumaður á eiginlega við. Fyrir nokkrum árum var þessi málglaða list kölluð umræðustjórnmál.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband