Ráðherra hrekst undan í flæmingi

Dómgreindarleysi Guðbjarts Hannessonar ríður ekki við einteyming og kemur það gleggst fram í launastefnu hans. Það er að segja að hækka laun forstjóra Landspítalans um 450.000 krónur en neita öðrum starfsmönnum spítalans um hlutfallslega sömu hækkun. Auðvitað á maðurinn að segja af sér, þetta er ekki launastefna heldur pólitískt klúður.

Guðbjartur reynir að afsaka sig með því að halda því fram að allir starfsmenn Landspítalans eigi að vera vel launaðir. Gott, en hvað ætlar hann að gera í því?

Frekari rök fyrir því að Guðbjartur segi af sér koma fram í seinni forystugrein Morgunblaðsins í morgun. Þar segir: 

Björn Zoëga, forstjóri Ríkisspítalanna, hefur tilkynnt að hann hafi afþakkað þá launahækkun sem Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra hafði boðið honum. Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu þeirra. „Björn segir að hann hafi afþakkað kjarabreytinguna í ljósi þeirra miklu deilna sem sprottið hafi í kjölfarið.“

Þessi niðurstaða forstjórans er rétt, en dómgreindarleysi ráðherrans sem ákvörðunina tók blasir við eftir sem áður. Þegar öldur risu hátt eftir að launaákvörðuninni hafði verið lekið til fjölmiðla fullyrti Guðbjartur að hann einn hefði borið ábyrgð á henni. Það er einnig augljóslega rétt. En fráleitt er að ætla að ráðherrann hafi ekki kynnt sína ákvörðun, svo óvenjuleg sem hún var, fyrir forsætisráðherranum. Hafi hann ekki gert það er dómgreindarleysið yfirþyrmandi. Hafi hann sinnt upplýsingaskyldu sinni, sem nær öruggt má telja, væri fróðlegt að fá skýringar á hver hafi verið afstaða forsætisráðherrans. 

Forsætisráðherra neitar vafalaust vitneskju um þetta og reynir að mjaka sér fjarri ráðherranum. Sé eitthvert vit í fjölmiðlum eiga þeir að pressa á forsætisráðherra og kjósendur eiga að krefjast þess að velferðaráðherra sæti ábyrgð. 

Hvað þýðir svo þessi ábyrgð ráðherra. Jú, eftir pólitískt klúður á ráðherra að segja af sér, sérstaklega í ljósi þess hversu umfangsmikið það er. Afsögn er kannski eina leiðin til að róa starfsmenn Landspítalans. Að öðrum kosti blasa við kjaradeilur og verkföll.

Þegar málið er skoðað nánar verður að segjast eins og er að staða forstjórans er völt. Dómgreindarleysi hans er ekki minna en ráðherrans. Hann mun segja af sér og líklega hverfa til Svíþjóðar. Hvernig má það annars vera að þjóðin kosti offjár við að mennta fólk og það telji sig að engu skuldbundið hér á landi þrátt fyrir ofurlaun?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband