Kristinn Haukur með örn

Kristinn Haukur
Hún var í sjálfu sér dálítil skondin fréttin á blaðsíðu tvö í Morgunblaðinu í morgun. Þar var sagt frá sárum erni og mynd birt af gömlum skólabróður mínum Kristni Hauki með örninn í fanginu. Er alveg viss um að fuglafræðingur sem ber nafnið Haukur hefur oft fengið á sig misgóða orðaleikjabrandara.

Alltaf hefur mér þótt stórmerkilegt að sjá örn. Eitt sinn sátum við nokkur ofarlega í Þaralátursnesi sem er á milli Reykjarfjarðar og Þaralátursfjarðar á Hornströndum. Við snæddum í mestu makindum nesti í skjóli. Bratt var niður og útsýnið magnað. Þá gerist það allt í einu að örn flýgur rétt hjá okkur í sömu hæð. Ekkert okkar var með myndavél handbæra en í miklu óðagoti náði ég minni og tók nokkrar myndir. Þá var örninn auðvitað kominn langt í burtu og myndirnar reyndust í þokkabót hreyfðar þegar þær komu úr framköllun.

Eitt sinn vorum við, niðjar hjónanna Skúla skipstjóra Skúlasonar og Guðrúnar Jónsdóttur, á ættarmóti í Stykkishólmi. Við ókum upp að Helgafelli og gengum upp. Á undan var ítarlega farið í hefðina, ekki síst fyrir börnin. Hringina í kringum leiði Guðrúnar Ósvífursdóttir, og svo var rölt upp í þögn og ekki mátti líta til hægri eða vinstri enda allt gert til að geta borið fram óskina uppi á fjallinu.

En þar sem ég hafði svo oft gengið á Helgafell og óskir mínar aldrei ræst væri ég frekar að skoða útsýnið á göngunni. Skyndilega sá ég örn sem hnikaði hringi fyrir ofan okkur og í æsingnum hrópaði ég: Þarna er örn ... Held að flestir hafi litið upp og þar sem var óskin ónýt fyrir flestum. Fyrir þetta skammaðist ég mín doldið.

Nokkru eftir að upp var komið vakti ein systir mín athygli mína á því að dóttir mín, sem þá var tíu ára, var orðin óvenju þögul, en hún kippir í kynið og hefur afar mikið líkst öðrum kvenkyns úr ættinni, frekar vel máli farin og liggur sjaldnast á skoðunum sínum. Við karlarnir eru hins vegar þöglir og íhuglir ...

Jæja, ég finn stelpuna og sé að hún ráfar um þögul og ein. Hvað er að, spyr ég, með mikilli fyrirframgerðri samúð en fæ ekkert svar. Aftur og aftur reyni ég og líst eiginlega ekkert á blikuna. Loks, þar sem ég sit með hana í fanginu kemur svarið: Ég hélt ég mætti ekki tala fyrr en óskin mín hefði ræst. Óskaplega þótti mér vænt um hana á þessari stundu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband