Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2012
Lyftir ómannaðri flugvél
19.8.2012 | 12:33
Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, heldur hér á ómannaðri flugvél í eigu Bandaríkjahers.
Svo segir í myndatexta með frétt mbl.is um að ómönnuðu flugvél á vegum bandaríska hersins hafi gert loftárás í Pakistan.
Myndatextinn er ábyggilega réttur. Einhvern veginn trúi ég því að flugvélin sem Hillary heldur á sé ómönnuð. Á þó í dálitlum erfiðleikum með að rökstyðja þessa tilfinningu mína.
Tveir létust í loftárás | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Undanþágu krafist vegna nauðgunarákæru
19.8.2012 | 11:27
Mál Julian Assange er dálítið undarlegt og um leið dálítið flókið. Það hefur vakið athygli mína hversu mildum höndum fjölmiðlar hér á landi og annars staðar hafa farið um manninn. Hann er næstum því meðhöndlaður sem hetja af því að hann greindi frá fjölmörgum málum og nöfnum á Bandaríkjamönnum sem áttu að fara leynt en bandarísk yfirvöld telja að hafi verið hrikalega skaðlegur verknaður.
Ég velti fyrir mér hvernig umfjöllunin væri ef Assange væri ekki stofnandi Wikileaks. Í dæminu væri þá enn eftir stefna vegna rannsóknar á tveimur nauðgunum í Svíþjóð. Fyrir minni sakir hafa menn verið handteknir og fluttir á milli landa. Það breytir greinilega öllu að vera frægur og á móti bandarískum hagsmunum.
Nú þykir nauðgun svívirðilegur glæpur og hér á landi hefur ýmislegt verið sagt og skrifað til að sporna við honum. Jafnvel hefur verið krafist þyngri dóma fyrir nauðgun því hún er talin miklu meiri en alvarleg líkamsárás eins og margir freistuðust til að halda hér áður fyrr.
Enginn hefur þó skipulagt mótmæli fyrir framan breska sendiráðið og krafist réttlætis fyrir hönd sænsku kvennana. Engin umræða er um nauðgunarkærurnar nema þá helst að gera lítið úr þeim og draga úr málavöxtum sem byggð eru á sænsku lögunum.
Fyrir þá staðreynd að Julian Assange er talinn nokkurs konar krossferðariddari gegn Bandaríkjunum er farið um hann mildari höndum en aðra þá sem gerast sekir um nauðgun. Er þá staðan sú að ákæra um nauðgun sé ekki eins alvarleg ef viðkomandi karlmaður telst hetja í starfi sínu? Getum við samþykkt undanþágur frá nauðgunarákæru?
Um daginn mætti á annað hundrað manns fyrr framan rússneska sendiráðið og mótmælti dómum yfir þremur stúlkum sem höfðu unnið það eitt til saka að hafa truflað friðinn Gjörspillt rússkneskt dómskerfi dæmdi þær tveggja til þriggja ára dóm fyrir svo léttvægt brot að hér á landi myndi það varla duga til annars en lítilsháttar sektar.
Enginn efnir hins vegar til mótmæla til stuðnings tveimur konum í Svíþjóð sem ýtt er út fyrir allt réttlæti vegna þess að meintur nauðgari er stofnandi Wikileaks og hefur sem slíkur, frægur og auðugur, komist upp með að setja skilyrði fyrir að mæta til dóms.
Svíar heiti því að framselja ekki Assange | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sá sem hleypir öllum inn endar utandyra
18.8.2012 | 12:31
Íslenskri menningu getur stafað mikil hætta af of hraðfara efnahagsþróun. Menning lítilla þjóða hefur beðið hnekki af þessum sökum.
Á Grímsstöðum á Fjöllum búa nú um 9 manns af íslensku bergi brotnir.Ferð okkar Íslendinga inn í framtíðna er vandasöm og flókin. Göngum götuna fram til góðs. Við megum hvorki einangrast né opna allt upp á gátt.Sá sem útilokar aðralæsir sjálfan sig inni.Sá sem hleypir öllum innendar utandyra.
Jón Kristinsson skemmtir sér
18.8.2012 | 12:18
Af og til heyrist í borgarstjóranum í Reykjavík. Um daginn tók hann þátt í gleðigöngu hinsegin daga. Í dag vaknaði hann snemma og gaf rithöfundasambandi Íslands fallegt hús. Óskaplega finnst er það ánægjulegt að borgarstjórinn skuli gefa sér tíma í önnum sínum til að taka þátt í skemmtilegum verkum. En hefur hann eiginlega eitthvað annað með höndum en svona tyllidagaverkefni. Ýmislegt bendir til þess að hann sé ekkert annað en einhvers konar tákn borgarstjórnar ekki framkvæmdastjóri.
Betra væri þó að hann tæki þátt í öðrum skyldum sem æðsti framkvæmdastjóri borgarinnar. Hann virðist ekki hafa neina skoðun og tekur ekki afstöðu til neina alvarlegra mála.
- Ekki aukatekið orð um skipulagsbreytingar í miðborginni.
- Enga skoðun á hallarekstri Hörpunnar.
- Ekki aukatekið orð er þúsundir sjómanna flykktust inn á Asuturvöll og mótmæltu fiskveiðistjórnarfrumvörpum ríkisstjórnarinnar sem þó koma dálaglega við hagsmuni Reykjavíkur.
- Enga skoðun á fyrirhugaðri hækkun virðisaukaskatts á gistingu og er þó Reykjavík vinsælasti og þekktast ferðamannastaður landsins.
- Hann hafði þó skoðun á broti borgarfulltrúa Besta flokksins á siðareglum borgarinnar en sá sagðist bara vera borgarfulltrúi frá níu til fimm og þar fyrir utan mætti hann væntanlega haga sér eins og hann vildi. Þetta þótti Jóni Kristinssyni bara fyndið.
- Ekki orð um fjárhagsáætlun Reykjavíkur, stefnumörkun eða annað.
- Sóðaskapur og vanhirtir grænir reitir koma borgarstjóranum ekki við.
- Hann tjáir sig ekki um lögbundna grunnþjónustu sem verið er að skera niður innan borgarinnar
- Hefur miklar skoðanir á gæluverkefnum
Rithöfundar fá hús | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Getur Katla valdið gosi á Fimmvörðuhálsi?
17.8.2012 | 17:52
Fyrir rúmum tveimur árum gaus á Fimmvörðuhálsi og nokkru síðar í Eyjafjallajökli. Í bók minni um gönguleiðina yfir Fimmvörðuháls sem kom út fyrir stuttu skrifar Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur um þessi tvö gos og segir að skjálftaupptök í mars 2010 gáfu til kynna kvikuhreyfingar hafi færst austur undir Fimmvörðuháls þar sem raunar gaus þann 20 mars 2010.
Sem leikmaður freistast ég til að draga þá ályktun af orðum Páls að tilviljun ein hafi valdið að gos kom upp á Fimmvörðuhálsi. Kvikuinnskotið breiddist einfaldlega þannig út að það átti greiðustu leið upp á Hálsinum.
Aðeins tæpir tíu kílómetrar eru frá toppgíg Eyfjallajökuls að gosstöðvunum á Fimmvörðuhálsi. Fjölmargir gígar eru á Fimmvörðuhálsi og líklega ekki í fyrsta sinn sem gos þar hefði með réttu átt að koma upp í Eyjafjallajökli.
Lítum nú á fjarlægðina frá Kötluöskjunni og að gosstöðvunum á Fimmvörðuhálsi. Hún er rétt rúmlega 10 kílómetrar, þ.e. að öskjubrúninni. Líklega eru um átján kílómetrar frá gosstöðvunum að upptökum stóra skjálftans í dag. Enn skemmra er frá gosstöðvunum að upptökum jarðskjálftasvæðisins sem kennt er við Goðabungu og er í rótum Tungnakvíslajökuls eða um átta kílómetrar.
Þetta eru nú ekki vísindalegar pælingar enda kann landslag að vera allt öðru vísi undir Mýrdalsjökli en Eyjafjallajökli.
Staðreyndin er einfaldlega sú að kvikuhreyfingar undir Eyjafjallajökli leiddu til goss á Fimmvörðuhálsi. Það er því forvitnileg pæling hvort hið sama geti gerst við þegar kvikan lyftir sér undir Mýrdalsjökli.
Meðfylgjandi kort tók ég af vef Veðurstofunnar. Setti inn á það tvær línur sem eiga upphaf sitt á gosstöðvunum á Fimmvörðuhálsi. Önnur er að toppgíg Eyjafjallajökuls, hin austur að jarðskjálftasvæðinu við Tungnakvíslajökul.
Jörð skalf við Austmannsbungu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Gunnar er vallakóngur ...
16.8.2012 | 13:00
Fyrst stal hann Íslandsmeistarabikarnum frá KR og gaf Víkingum, síðan hnuplaði hann veitingum frá KR og dreifði til annarra íþróttafélaga loks þverbrýtur hann hlutleysi fjölmiðilsins og peppar Stjörnumenn til sigurs á KR.
Þetta bara gengur ekki og það er öllum ljóst enda voru Stjörnumenn svo forviða að þeir nöguðu neglur sína eins og engin fæða væri í boði. Ofan í allt hélt hann þrumuræðu yfir leikmönnum Stjörnunnar sem skildu auðsýnilega fátt í gagnmerku erindinu.
Gunnar er Vallakóngur (lesist; vadla kóngur) en leyfir sér engu að síður að hrauna yfir Fannar myndatökumann sinn sem virðist frekar hlédrægur. Slíkt einelti má ekki eiga sér stað.
Hins vegar er ekki nýtt að formenn Sjálfstæðisflokksins hafi afneitað KR. Geir Hallgrímsson var Víkingur, Þorsteinn Pálsson er Frammari og Bjarni Benediktsson er í Stjörnunni. Davíð Oddsson er þó KR ingur enda vesturbæingur.
Undarlegast er þó að hinn geðugi bæjarstjóri í Garðabæ skuli styðja Stjörnuna, er hann þó gegnheill Sjálfstæðismaður. Það sannar aðeins eitt, lífið er ekki svart og hvítt, þó það ætti að vera svo.
Gunnar á Völlum hvetur Stjörnuna (myndband) | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Forgengilegir skaflar í Gunnlaugsskarði og Kerhólakambi
16.8.2012 | 01:26
Stundum er gaman að vera áhugaljósmyndari, sérstaklega ef maður hefur hirt vel um myndirnar sínar og geymt þær skipulega. Skannaðar slides myndir eru oft lítið merkilegar í samanburði við stafrænar.
Sá að einn af gæðabloggurum landsins, Emil Hannes Valgeirsson, birti nýlga gamla mynd úr gönguferð á Esjuna, tekin í lok ágúst 1995. Hann gekk upp Gunnlaugsskarð, sem er nún frekar erfitt fyrir göngumenn, þó ekki ófært. Og í skarðinu var enn skafl þó liðið væri langt á sumar. Það þykir Emil skiljanlega merkilegt.
Hann hefur mikinn áhuga á Esjunni, sérstaklega hvernig hún veðrast frá einu ári til annars. Hann hefur meira að segja tekið raðmyndir af henni, ein mynd á dag, frá sama sjónarhorni í heilt ár.
Umfjöllun Emils kveikti áhuga hjá mér, enda er ég líka óskaplega hrifinn af Esjunni. Þess vegna leitaði ég að myndum af fjallinu frá því á níunda áratugnum, mundi að þá hafði ég hafði verið afskaplega áhugasamur um gönguferðir á hana á þessum tíma.
Hér er svo afraksturinn. Efsta myndin er tekin í júlí 1983 í fjörunni við Seltjarnarnes. Esjan var þá hvítflekkótt og þannig þekkir nú engin hana að sumarlagi. Gunnlaugsskarð var hvítt og skaflinn við Kerhólakamb á sínum rótgróna stað. Ég á aðra mynd sem tekin var í lok júní á þessu ári og þar fer ekkert á milli mála að Esjan er fastheldin á snjóskafla.
Næsta mynd var tekin úr Hallgrímskirkjuturni í byrjun september á sama ári. Hún hefur hrist af sér mestan snjóinn en engu að síður eru skaflar í Gunnlaugsskarði eins og vera ber og greina má skafl í Kerhólakambi.
Þriðja myndin er tekin við Laugarnes í lok júní 1985. Myndin er sláandi lík fyrstu myndinni, þeirri sem tekin var tveimur árum fyrr, þó er aðeins minni snjór í fjallinu.
Líklega get ég fundið fleiri myndir sem ég hef tekið af Esju, en er ég var að velta því fyrir mér mundi ég eftir myndunum sem faðir minn, Sigurður Skúlason, hafði tekið. Hann hafði víða farið og tekið myndir og sumar myndirnar eru bara ansi góðar og áhugaverðar heimildir um byggingasögu borgarinnar.
Fjórðu myndina tók faðir minn úr hálfbyggðum turni Hallgrímskirkju. Fyrir neðan er verið að byggja Iðnskólann og dráttarbáturinn Magni er á leið út á Sundin.
Fimmtu myndina tók faðir minn af gamla Útvegsbankanum. Horft yfir svæðið þar sem nú stendur tónlistarhúsið Harpan, tómur grunnur fyrir hótel, Seðlabankinn og fleira. Sannarlega fróðleg mynd enda mikið athafnalíf á þessum slóðum.
Ekki veit ég nákvæmlega hvenær myndirnar tvær voru teknar. Gæti trúað því að það hafi verið um mitt sumar 1966.
Hið merkilegasta við þær er að þeim sjást aungvir skaflar í Esjunni. Skannaði ég þó myndirnar mjög nákvæmlega. Myndirnar eru stækkanlega ef áhugi er fyrir því að skoða þær nánar.
Sem sagt aungvir skaflar 1966, fullt af sköflum 1983 og 1985 og hingnandi skaflabúskapur 2012.
Ekki ætla ég að draga endanlega ályktun af þessum myndum enda varla mögulegt. Hitt er þó ljóst að hitastig að sumarlagi hefur verið ákaflega mismunandi allt frá því að við fórum að góna á Gunnlaugskarð og Kerhólakamb sem endanlega sönnun um hitastig á suðvesturhorni landsins. Líklega liggur lausnin falin í veðurfarslegum gögnum frá því 1966 eða þar um bil.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.8.2012 kl. 00:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Kolvitlaus röksemdafærsla Jóns Bjarnasonar
15.8.2012 | 17:18
Vinstri grænir vildu starfa með Samfylkingunni og það hefur valdið hrikalegu fylgistapi þessara tveggja flokka, ekki síst vegna aðildarumsóknarinnar að ESB.
Jón Bjarnason, þingmaður og burtrekinn ráðherrra landbúnaðar- og sjávarútvegs, segir á heimasíðu sinni:
VG hefur fært miklar fórnir í þessu ríkisstjórnarsamstarfi með Samfylkingunni, misst öfluga þingmenn, stuðningsfólk, félaga og baráttufólk úr forystusveit til þess eins að þóknast Samfylkingunni í ESB-umsókninni, þessu eina baráttumáli hennar.
Þetta er kolvitlaust hjá Jóni og í raun óskiljanlegur samsetningur. Það er engin fórn af hálfu VG að ákveða að styðja aðiladarumsókn í ESB. Flokkurinn ákvað þetta, hélt einfaldlega að hann kæmist upp með að svíkja stefnu sína og flokksmenn myndu ekki gera neinar athugasemdir við það. Í raun má kalla umsóknina pólitískt klúður VG.
Jón Bjarnason reynir nú að friðmælast við formann VG er hann líkir honum við trúmanninn Sturla Sighvatsson sem gekk til Rómar til að öðlast fyrirgefningu synda sinna. Slakari samlíking fyrirfinnst varla.
Steingrímur J. Sigfússon hélt af hroka sínum að hann kæmist upp með að stýra VG inn í Evrópusambandið þvert á allar flokkssamþykktir. Enn hefur hann ekki beðist forláts á þessari stórsynd sinni hvað þá að hann muni nokkurn tímann taki út refsingu á borð við þá sem Sturla lét sig hafa forðum.
Auðvitað verður hann áfram formaður VG þrátt fyrir svikin, og þeir Jón mun fyrr eða síðar fallast í faðma vegna þess að það eina sem skilur að þessa tvo menn er bannsett aðildarumsóknin. VG mun bráðlega falla frá stuðningi sínum við hana vegna þess að flokkurinn er að tapa atkvæðum. Steingrímur mun þá reyna að kjafta sig út úr vandanum eins og hans er von og vísa og flokksmenn hans munu gleypa við því sem hann segir, eins og þeirra er von og vísa.
Þó þjóðin geti verið ánægð með andstöðu Jóns Bjarnasonar gegn ægivaldi ESB er hann engu að síður hluti af ríkisstjórnarmeirihluta sem gert hefur meira ógagn í kjölfar hrunsins heldur en hrunið sjálft.
Miklar fórnir í samstarfinu við Samfylkinguna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lúpínan hörfar í Heiðmörk
14.8.2012 | 11:26
Alltaf finnst mér jafnundarlegt hversu auðvelt er að búa til vandamál. Upp á síðkastið hefur til dæmis verið mikið agnúast út í lúpínuna, hún sé eiginlega vágestur í íslenskri náttúru. Umræðan minnir mann stundum á heiftina sem var stundum vegna grenitrjáa sem gróðursett voru fyrir meira en eitthundrað árum innan þjóðgarðisins á Þingvöllum. En það er nú annað mál.
Ekki eru þó allir á einu máli um lúpínuna og eiginlega verst að við leikmenn vitum varla í hvorn fótinn við eigum að stíga.
Það sem hefur valdið vonbrigðum með þessa plöntu er að menn héldu fyrst í stað að þessi planta myndi bara bæta jarðveginn og svo myndu bara aðrar plöntur taka við og hún myndi fara sem hefur ekki verið raunin. Hún hefur bara styrkst og eflst og dreifst mun víðar en menn kannski áttuðu sig á fyrst.
Þetta segir Ólafur Arnar Jónsson, sviðstjóri náttúruauðlindasviðs Umhverfisstofnunar á vef Ríkisútvarpsins í dag.
Í Heiðmörk ofan Reykjavíkur var lúpína gróðursett fyrst árið 1959. Ágúst Bjarnason ræddi stuttlega um lúpínuna á heimasíðu sinni í byrjun ársins. Hann segir:
Lúpínan er einstaklega öflug landgræðslujurt, en er umdeild. Sumir líkja henni við illgresi og aðrir við þjóðarblómið. Hún er vissulega ágeng og fyrirferðarmikil, en hvernig hagar hún sér?
- Hörfar hún af þeim svæðum sem hún hefur lagt undir sig og víkur fyrir öðrum gróðri?
- Hefur hún tilhneigingu til að fara inn á gróin svæði?
Svo vísar Ágúst í grein eftir Daða Björnsson, landfræðing, sem ritaði á vef Skóræktarfélags Íslands. Þessi grein finnst mér stórmerkileg og í henni segir Daði:
Vegna heitrar umræðu um kosti og galla lúpínunnar að undanförnu hafa ýmsir skorað á mig að endurtaka rannsóknina [frá 1990] og meta breytingar á útbreiðslu lúpínunnar á gamla rannsóknarsvæðinu á þeim tuttugu árum sem liðin eru. Til að koma til móts við þessar áskoranir kortlagði ég hluta af gamla rannsóknarsvæðinu á ný sumarið 2010. Þessa nýju kortlagningu bar ég síðan saman við fyrri niðurstöður og kannaði hvaða breytingar hafa orðið.
Og niðurstöður Daða eru nokkuð athyglisverðar miðað við þann ofsa sem umræðan um lúpínuna virðist stundum haldinn.
Lúpínan hefur því hörfað af helmingi þess lands sem hún hafði áður myndað þéttar breiður á og þróunin, sem sást í eldri rannsókninni, hefur greinilega haldið áfram.
Og síðar segir hann:
Ef gengið er um svæðið í dag er erfitt fyrir óvant auga að greina hvað var melur eða gróðurtorfa áður fyrr. Sjálfsagt hugsa margir sem þarna fara um hve ágeng lúpínan er í vel grónu landi en átta sig síður á því að þar er hún að láta undan. Landið sem lúpínan skilur eftir sig er gras og blómlendi með um það bil 10 cm þykku moldarlagi ofan á gamla melnum. Ég ætla að láta aðra um að lýsa einkennum landsins nákvæmlega, hugsanlega gæti það verið áhugavert verkefni fyrir áhugasaman náttúrufræðing.
Í þessum orðum kveður við allt annan tón en hjá sviðstjóranum hérna fyrir ofan. Í Heiðmörk virðist lúpínan gera það sem í upphafi var spáð, hún myndi um síðir víkja fyrir öðrum gróðri.
Í þessu máli er þó varla neinn einn sannleikur og ekki ætla ég af vanþekkingu minni að taka afstöðu til lúpínunnar. Hins vegar finnst mér hún alveg einstaklega falleg og fara víðast ákaflega vel í landinu.
Einföld ástæða fyrir hugarfarsbreytingu VG
13.8.2012 | 20:39
Þegar litið er á meinta hugarfarsbreytingu þingmanna VG vegna aðildar Íslands að ESB þarf að skoða hvað valdi. Skýringanna er t.d. ekki að leita í eftirfarandi:
- Þingmönnum VG hefur snúist hugur vegna þess að ferlið hefur sýnt þeim eitthvað annað en þeir héldu um ESB.
- Þingmönnum VG viðurkenna að þeim hafi orðið á mistök við samþykkt aðildarumsóknar á árinu 2009.
- Þingmönnum VG hefur skilist að fullveldisafsal Íslands verði alltof mikið við inngöngu í ESB.
- Þingmönnum VG telja að sjálfstæði Íslands sé hætta búið við inngöngu í ESB.
- Þingmenn VG telja útséð um að íslenskum landbúnaði sé hætta búinn vegna inngöngu í ESB.
- Þingmenn VG hafa áttað sig á að engar ívilnanir verða gefna vegna íslensk sjávarútvegs við inngöngu í ESB og landhelgin opnuð öðrmu fiskveiðiríkjum sambandsins.
- Þingmenn VG telja að efnahagskreppan í ESB muni hafa í för með sér mikla erfiðleika fyrir Ísland gangi landið í sambandið.
- Þingmenn VG hafa hlustað á grasrótina í flokki sínum sem er alfarið á móti aðild að ESB
Nei nei, nei. Skýringanna er einfaldlega að leita í hrakförum VG í skoðanakönnunum. Þær benda til þess að flokkurinn verði langt undir 10% í kjörfylgi við næstu þingkosningar.
Þingmenn VG eru einfaldlega orðnir hræddir um þingsætin sín. Steingrímur lofaði þeim í upphafi að samþykt aðildarviðræðna við ESB hefði engin áhrif, hann einfaldlega sæi það ekki fyrir.
En Steingrímur og aðrir forkólfar misreiknuðu almenningsálitið og það er að verða VG dýrt rétt eins og ríkisstjórnin er landsmönnum.
Ekki brot á stjórnarsáttmálanum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)