Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2012

Prófkjör ráði framboðslistum

Samband ungra sjálfstæðismanna hefur alla tíð verið rótækt og krefjandi í stefnu sinni. Þeim eldri hefur oft þótt nóg um en fræg eru ummæli Geirs Hallgrímssonar, þáverandi formanns flokksins, sem sagði einhverju sinni að SUS væri samviska Sjálfstæðisflokksins. 

Auðvitað er það rétt stefna sem ungir Sjálfstæðismenn hafa markað að prófkjör eigi að ráða framboðslistum flokksins í öllum kjördæmum. Allt annað er tómur aumingjaskapur sem kemur i bakið á flokknum fyrr eða síðar. 

Prófkjör þurfa reglur og séu þær sanngjarnar og lýðræðislegar hvetja þær fólk til að gefa kost á sér. Og Sjálfstæðisflokkinn vantar fólk, nýtt fólk sem tekið getur málefnalega á pólitík vinstri stjórnarinnar. Framar öllu þarf flokkurinn að segja kjósendum sínum hvað hann ætli að gera í mikilvægustu málum þjóðarinnar; skattamálum, skuldamálum heimilanna, gjaldeyrismálum, ríkisfjármálum og atvinnumálum.


mbl.is SUS vill prófkjör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mörður reynir að rugla umræðuna

Alveg er hann furðulegur njóli, hann Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar.Og hann fær að komast um með orðhengilshátt vegna umræðunnar um aðlögunarviðræðurnar við ESB og snýr málinu algjörlega á haus.

Málið snýst einfaldlega ekki um að Ögmundur innanríkisráðherra og Jón fyrrverandi telji að „því lengra sem við komust í þeim, þeim mun betra er það fyrir kosningarnar“, eins og Mörður leyfir sér að orða það. Það er alls ekki það sem efst er í huga VG liða. Þeir eru einfaldlega flestir á móti aðild Íslands að ESB og vilja með öllum ráðum komast út úr þeirri klemmu sem þeir komu sér í með stjórnarsáttmálanum.

Kæru lesendur, hugsið ykkur. Stjórnmálaflokkur samþykkir aðildarviðræður að ESB þvert gegn öllum flokkssamþykktum og aðildarviðræðurnar reynast vera aðlögunarviðræður. Látum vera hversu illa þessir VG aðilar voru að sér í upphafi og að þeir töldu jafnvel sjálfstæði Íslands og fullveldi fórnandi fyrir aðildina. Augu þeirra hafa hins vegar opnast og nú vill VG út.

Og hver skyldi ástæðan vera? Jú, komandi kosningar. Þjóðin er að langmestum hluta á móti ESB og fylgið hrynur af flokknum. Ástæðan er einfaldlega að flokkurinn verður með lágmarksfylgi um næstu kosningar vegna þessara hrakferðar sem umsóknarferlið hefur í raun verið.

Mörður gerir lítið úr þessu og heldur að hann geti varpað umræðunni á dreif. En auðvitað veit hann sem er að fylgishraun VG vegna ESB er hrikalega alvarlegt og Samfylkingin fer ekki varhluta af andstöðunni. Þess vegna er ekki ólíklegt að þessir tveir flokkar nái samkomulagi um að setja málið á ís.

Hitt er þó alveg ljóst að ESB fylgist grannt með jarðhræringum í stjórnmálum hér á landi. Umsóknin er því mikil ávirðing fyrir Ísland vegna þess að allir vita núna að engin innistæða var fyrir henni í upphafi.


mbl.is Mörður tekur undir með Jóni Bjarna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Arfavitlaus frétt um GPS tæki hjá Ríkisútvarpinu

Hægt er að greina hraðamyndavélar í staðsetningartækjum sem seld eru í bíla. Sérfræðingur hjá Umferðarstofu vonar að sú tækni verði ekki misnotuð og fólk noti eigin dómgreind við aksturinn.

Fréttastofa Ríkisútvarpsins kemur manni oft á óvart. Ofangreint er úr fréttum laugardagsins 11. ágúst og er ferlega vitlaus. Raunar svo heimsk að varla er hlægjandi að vitleysunni.

Útilokað er hægt að greina hraðamyndavélar í staðsetningatækjum. Það er einfaldlega rangt að GPS tæki greini hvar verið er að mæla hraða bíla. Slík tækni er ekki til eftir því sem best er vitað. Hins vegar má setja alls kyns staðsetningar inn í þessi tæki og til þess eru þau.

Tækin greina ekki vegi heldur eru landakort inni í tækjunum. Merkja má vegamót, beygjur og annað sem umferð viðkemur. Um leið er hægt að láta tækið gefa viðvörun er komið er að þeim stöðum sem fyrirfram hafa verið merkt.

Göngumenn nota GPS staðsetningartæki mikið og svo góð eru þau bestu að hægt er að ganga með þeim rétta leið í niðadimmri þoku eða um nótt og komast auðveldlega á áfangastað. Þar af leiðandi eru þau mikið öryggisatriði. Komi eitthvað fyrir getur ökumaður á sama hátt látið vita nákvæmlega hvar hann er staddur. Staðsetninguna greinir GPS tækið. Það er í raun eini galdurinn.

Engin takmörk eru fyrir því hvað merkja má í staðsetningatækin og þar með má telja staði þar sem komið hefur verið upp föstum hraðamyndavélum. Ef þessar staðsetningar fylgja ekki tækinu getur eigandi þess komið þeim sjálfur fyrir.

Og svo sveia menn og fussa yfir þessari tækni í útlistun fréttastofu Ríkisútvarpsins. Hvað skyldu þessi sömu segja ef næsta frétt sömu fréttastofu myndi hljóða á þessa leið:

Hægt er að greina vínbúðir, vínveitingahús og bari um allt land með staðsetningatækjum sem  seld eru í bíla. Sérfræðingar SÁA vonar að tæknin verði ekki misnotuð og fólk noti eigin dómgreind á ferðum sínum.

Auðvitað er þetta jafnvitlaus frétt og sú í upphafi. GPS staðsetningatæki greina ekki neitt, þau eru heimsk og segja bara það sem ætlast er til að þau segi.

Þá kemur stóra spurningin, var fréttamaðurinn sem samdi þessa frétt að segja það sem hann átti að segja eða gleymdi hann skynseminni heima þennan vinnudaginn? 


Frekar bláeygðir vinstri menn ...

Man fólk eftir kröfu Sjálfstæðisflokksins um að efnt væri til þjóðaratkvæðagreiðslu um umsókn ríkisstjórnarmeirihlutans um aðild að Evrópusambandinu? Þetta var sumarið 2009 er vinstri meirihlutinn á Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu um aðildina.

Og vinstri menn hlógu sig máttlausa fyrir þessari heimsku Sjálfstæðismanna að krefjast þjóðaratkvæðis um svona mál. Og ástæðan var sú að ríkisstjórnin ætlaði fyrst að kíkja í pakkann, gá hvað komi út úr viðræðunum. Og, sko, svo, verður þjóðaratkvæðagreiðsla um pakkann. Tóm della að hafa tvær þjóðaratkvæðagreiðslur um sama málið. Ha, ha, ha, ha ...

Hvernig er nú staðan eftir þriggja ára aðlögunarviðræður að sambandinu? Jú, Samfylkingin laug því að okkur að um tvíhliða viðræður yrði að ræða og hægt væri að kíkja í einhvern pakka að þeim loknum. Þeim láðist að geta þess að þetta var umsókn um aðild og viðræðurnar hafa miðast og eiga að stefna að því að aðlaga íslenskt stjórnkerfi, reglur og lög að því sem gildir hjá ESB. 

Vissu vinstri grænir þetta? Hafi þeir ekki vitað þetta eru þeir bláeygðari en vinstri mönnum sæmir. Og Vinstri grænir sögðu það hina mestu heimsku að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildina. Í þokkabót hafa þeir rekið ráðherra, breytt stjórnkerfinu, samþykkt aðlögun og hent út óþægum samningamönnum sem voru eitthvað að bera á borð hagsmuni Íslands.

Styrmir Gunnarsson segir á Evrópuvaktinni í dag:

Það voru grundvallarmistök hjá núverandi ríkisstjórn að fallast ekki á kröfur um þjóðaratkvæðagreiðslu hér á Íslandi sumarið 2009 um aðildarumsóknina. Hefði sú atkvæðagreiðsla farið fram og verið samþykkt, sem ekki var óhugsandi á þeim tíma væri ríkisstjórnin í allt annarri stöðu nú.

Í þess stað er málið dautt og einungis eftir að ákveða hverng aðildarumsókninni verður lokið með formlegum hætti. 

Allir vita pólitíska stöðu aðlögunarviðræðnanna. Þær eru dauðar vegna þess að ESB veit að þjóðin er á móti aðildinni, ríkisstjórnin heldur áfram viðræðunum vegna þess að hún kann ekki að játa sig sigraða. Veit sem er að geri hún það eru dagar hennar taldir.

Hefði verið efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB væri ríkisstjórnin í skárri málum, hvernig sem niðurstaðan hefði orðið. 

Nú er hin pólitíska staða sú að íslenska ríkisstjórnin er talin veikburða og varhugavert að treysta henni, ráðherrar hennar hafa ítrekað verið staðnir að ósannindum eða í það minnsta farið með fleipur um afstöðu þjóðarinnar til aðildarinnar. Kommissararnir hjá ESB kunna að lesa og þeir eru með sendiherra hér á landi og þurfa ekki að styðja sig við upplýsingar frá ríkisstjórninni.

Niðurstaðan er því sú að ósk ríkisstjórnarinnar um aðild Íslands að ESB hefur stórlega skaðað orðstír landsins og hún verður henni að falli. 


Óhreinlæti gesta í almenningslaugum

Um fátt er meira rætt en að keppnismenn í sundi mígi í laugarnar á meðan á æfingum eða keppni stendur. Vissulega ógeðfeld hugsun. Læknar segja ýmsar örveirur í þvagi afar óæskilegar fyrir aðra gesti.

Þetta er þó smáræði miðað við það sem fylgir óþrifnaði margra innlendra og erlendra ferðamanna sem sækja sundlaugar. Sumt af þessu fólki þvær sér ekki áður en það fer ofan'í. Ástæðan er meðal annars sú að misjafn siður er í hverju landi og fólki finnst það reglulega andstyggilegt að þurfa að afklæðast og þvo sér „fyrir opnum tjöldum“ ef svo má segja. Innlendum þykir það hins vegar ógeðslegt að fylgjast með fólki vaða ofan í laugar með skítakleprana hangandi utan á sér, t.d. eftir margra daga ferðalag á hálendi landsins.

Það sem þó skiptir mestu er að ekki er farið eftir reglum, t.d. í sundlaugunum í Reykjavík. Starfsfólk er fyrir löngu hætt að fylgjast með því hvort fólk þvo sér. Þetta er mikill skaði og verður æ verri eftir því sem fleiri sækja laugarnar.

Að mínu mati þarf að laga þrennt. Annars vegar viðhorf sundlaugarvarða, krefjast af þeim að þeir hafi eftirlit með því að gestir fari í bað áður en þeir fara í laug.

Í öðru lagi þarf að afhenda útlendingu sem greiða fyrir sudlaugarferð lítinn miða . Á honum að vera leiðbeiningar um um þrifnað, hvernig og hvar eigi að því sér sérstaklega vel og auk þess skýringar um nauðsyn hreinlætis fyrir almenningslaugar. 

Í þriðja lagi þurfa að vera fyrir hendi sturtur sem hægt er að loka með hengi fyrir þá sundlaugagesti sem eru ekki vanir nekt í almenningslaugum.


Þjófnaður á skattpeningum borgarinnar

Harpan fer 405 milljónir króna fram úr tekjum yfirstandandi árs. Þetta er alvöru frétt og fjölmiðlar leita víða fanga til að skýra stöðuna fyrir lesendum sínum. Það vekur þó mesta athygli, jafnvel meiri en tapreksturinn sjálfur, að borgarstjórinn í Reykjavík hefur engar skoðanir á málinu.

Enginn fjölmiðill leitar til hans og svo lítinn áhuga hefur Jón Kristinsson, borgarstjóri, á málinu að hann ritar ekki einu sinni blaðagrein um það.

Ef til vill er hann enn í fríi í Noregi, má vera að hann sé að máta búninga fyrir hinseign daga, hann kann að vera að semja opnunarræðu fyrir menningarnótt, hugsanlega er hann að skipuleggja framboð til þings ...

Vissulega er starf borgarstjórans í Reykjavík mikilvægt. Það er þó hvorki réttlátt né sanngjarnt að hlífa núverandi borgarstjóra við rökræðum um starf hans eða verkefnum hans. Annað hvort sinnir hann starfinu eða segir af sér.

Fjölmiðlar hafa ekki leyfi til að hlífa manninum og leita annarra í borgarkerfinu. Sé það gert þarf að koma fram í fréttinni að ekki hafi náðst í borgarstjóra eða hann ekki gefið kost á viðtali. Enginn fjölmiðill hefur sinn skyldu sinni að þessu leyti.

Jón Kristinsson hefur hingað til komist upp með að gera ekki annað í starfi sínu en að hirða launin og fara svo í frí. Það er hvorki réttlátt né sanngjarnt. Raunar má með rökum kalla þetta þjófnað á skattpeningum. 


Önugur Eiður skammast

Eiginlega er hægt að fyrirgefa allt í netheimum nema önuglyndi. Hins vegar má hafa gaman af slíkum enda er það ekki skilyrði að kátt og hresst fólk hafi eitt rétt fyrir sér. Og eitthvað má nú á milli vera.

Oft les ég málfarspistla Eiðs Guðnasonar, fyrrum þingmanns, ráðherra og sendiherra, með mikilli athygli. Oft leiðist mér þegar hann leiðist út í að kasta skít í þá sem hann er í nöp við. Í dag hnýtir hann í þul Ríkisútvarpsins:

Molaskrifari fylgdist með úrslitum 100 metra spretthlaups karla á OL á BBC. Sá svo þennan sama atburð endursýndan í Ríkissjónvarpinu (06.08.2012). Það var eiginlega hálf óhugnanlegt að heyra gargið í íslenska þulnum.

Hann kýs að kalla lýsinguna „garg“. Þulurinn hefur þó fengið einróma lof fyrir lýsingar sýnar og þekkingu á svo til öllum íþróttagreinum er hann kemur nálægt. 

713.000 lítrar láku út, segir í fyrirsögn á mbl.is (07.08.2012) Fréttin var um áfengissölu fyrir verslunarmannahelgina. Hvaða kjánaskapur er hér á ferðinni? Eða á þetta að vera fyndið?

Persónulega hefði ég skipt út sögninni að leka og sett í staðinn þá að streyma. Í raun er þetta hin prýðilegasta fyrirsögn. Eiður hefur þó engan skilning á gerð fyrirsagna, hann starfaði lengst af við útvarp og sjónvarp. Og þó svo að þetta sé léleg fyrirsögn, sem vel má vera, takið eftir orðalaginu hjá Eiði. „Hvaða kjánaskapur er hér á ferðinni? Eða á þetta að vera fyndið?“ Þetta er bráðfyndið, hann er eins og fúll kall sem skammast út í litlu strákana sem missa fótboltann sinn yfir í garðinn hjá þeim leiðinlega.

Veröldin er lífleg og skemmtileg en Eiður skilur ekkert í því heldur skammast og reitir hár sitt.

Svona dettur af og til inn í pistlana hjá Eiði, gerir þá auðvitað skemmtilegri aflestrar.


Niður með fjöllin

Fjármálaráðherra ku einnig vera að vinna að sameiginu allra launþegasamtaka í einn. Markmiðið er að stuðla meiri jöfnuði. Æskilegt væri að sameina banka landsins og fækka inneignarreikningum í einn sameiginlega. Um leið væri æskilegt að landmenn allir notuðu sama greiðslukortið. Allt þetta myndin stuðla að meiri jöfnuði enda ætlunin að ná honum með því að draga úr tekjum þeirra sem hafa einhverjar og bæta þeirra sem engar hafa.

Niður með fjöllin, upp með dalina. Það mun óneitanlega skapa jöfnuð. 


mbl.is Oddný undirbýr einn lífeyrissjóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hættið að gera við Hvanná, hún lagar sig sjálf

DSC_0141

Fátt leiðist mér meir en þegar ég geri mig sekann um villur í landafræði, nema ef vera skyldi þegar blaðamenn lenda í sama pytti. Hægt er að komast í Þórsmörk án þess að fara yfir Hvanná. Höfum það á hreinu.

Gangandi fólk kemst í Mörkina um Almenninga eða yfir Fimmvörðuháls og farið á göngubrú yfir Krossá.

Jeppamenn geta ekið yfir Markarfljót, þó ekki sé beinlínis greiðfært yfir hana á þessum tíma árs. Möguleikinn að að minnsta kosti fyrir hendi. Einnig er hægt að aka fyrir Merkurrana og í Húsadal, það er gert talsvert áður en komið er að Hvanná.

Ætli fólk í Langadal í Þórsmörk eða í Bása á Goðalandi þarf hins vegar að aka eða vaða Hvanná.

Svo er það annað að í fréttinni er hermt eftir Vegagerðinni að unnið sé að „viðgerðum“. Hvenær í ósköpunum hefur verið gert við ótamda á, skaðræði sem eiginlega má flokkast með jökulám?

Ekkert vað er á Hvanná vegna þess að áin tekur breytingum frá einum tíma til annars. Það er tilviljun ein að hægt sé að aka sömu leiðina yfir ána í einhvern tíma. Byggist það á því að lítið vatn er í ánni. Að öðrum kosti er hún alltaf erfið viðureignar.

Ég hef hvorki þá trú né traust á Vegagerðinni að hún geti nokkurn tímann „gert við“ Hvanná. Þetta segi ég með fullri virðingu fyrir þessari stofnun. Raunar á ekki að vera að grauta í ánni, hún lagast alltaf af sjálfsdáðum, án mannsvits. Stundum tekur það smátíma. 

Meðfylgjandi mynd tók ég fyrir tveimur árum er aska var í lofti. Horft er inn Hvannárgil og nær því upp á Fimmvörðuháls.  


mbl.is Leiðin yfir Hvanná enn varhugaverð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórkostlegir Ólympíuleikar

Í stað þess að flækjast um fjöll og hafa það skemmtilegt með góðu fólki um verslunarmannahelgina var ég heima. Lá flatur með einhverja hitasótt, nær dauða en lífi í marga sólarhringa. Ójá, þetta voru mikil veikindi og skiptir engu þó þeir sem til þekkja hlægi að mér og haldi því fram að ég hafi einungis þjáðst af léttvægri flensu ...

Hvað sem því líður þá horfði ég dálítið á viðburði á Ólympíuleikunum í sjónvarpinu þegar ég mátti vera að því í dauðateygjum mínum. Og mikið svakalega er gaman að þessum viðburði. Skipulagning Bretanna er frábær, myndatakan framúrskarandi góð og myndefnið, maður lifandi. Allt þetta glæsilega unga íþróttafólk sem kemur í þeim tilgangi að vera með, skara framúr og setja met.

Og ríkissjónvarpið á skilið hól fyrir góða þuli. Held að handboltaleikjum hafi aldrei nokkru sinni verið lýst jafn vel og af eins mikilli yfirvegun. Sama er með aðrar greinar. Lýsingarnar eru lifandi og skemmtilegar og ekki spillir fyrir skrækur aðstoðarþulurinn í frjálsu íþróttunum sem með áhuga sínum og innlifinu grípur mann með. Hann hefur einstaklega góða innsýn í allar greinar og getur bætt við fjölda upplýsinga, t.d. um kalk og klísturnotkun stangastökkvara, „svif“ á hlunki sem nefndur er kringla og svo framvegis. 

Ég hef líka horft á útsendingar nágrannaþjóðanna frá leikunum og held að þar beri af umfjöllun Norðmanna. 

Sigurvegarar taka misjafnlega við verðlaunum sínum. Í gær hágrét gullhafinn í grindahlaupi er hann fékk verðlaunin afhent þannig að maður komst jafnvel við ... Aðrir standa hnarreistir og horfa á fána sína rísa að húni.

Vonandi eigum við eftir að fá sigurvegara í handboltanum. Ég spái gulli ... 

Ólympíuleikarnir eru stórkostleg skemmtun sem ég hefði áreiðanlega misst af hefði ég ekki verið svo heppinn að veikjast ... eða þannig. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband