Bloggfærslur mánaðarins, mars 2012

Litla skrefið hans Ögmundar

„Hvorki þingsályktunartillaga Sivjar né frumvarp Ögmundar ganga eins langt og gert var ráð fyrir í mínu frumvarpi. Það má segja að menn séu sammála um nauðsyn þess að auka heimildir lögreglu en það er raunverulegur eðlismunur á þeim tillögum sem nú eru til umræðu og því sem ég var með í höndunum,“ sagði hann. Um frumvarp Ögmundar sagði hann: „Fyrir Ögmund er þetta stórt skref en þetta er lítið skref fyrir þá sem hafa hugsað málið á öðrum nótum.“

Þetta segir í grein um glæpastarfsemi í Morgunblaðinu í morgun og inni í það eru tilvitnuðu orðin hér að ofan við Björn Bjarnason fyrrverandi dómsmálaráðherra.

Fyrir nokkrum árum var hreinlega hraunað yfir Björn sem leyfði sér að hafa áhyggjur af þessum málum. Forvirkar rannsóknir var frasinn sem fór svo illa fyrir brjóstið á vinstri mönnum. Þeir héldu að Björn ætlaði að stofna leyniþjónustu sem ætti að rannsaka starfsemi vinstri manna. Þetta hentaði þá í pólitíkinni en nú blasir við sú mynd sem hinum forvirku rannsóknum var ætlað að koma í veg fyrir að birtist nokkurn tímann.

Vandinn er glæpastarfsemin og til henni þarf að verjast. Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur látið hafa það eftir sér að sú glæpastarfsemi sem varað var við fyrir um tíu árum er hingað komin.

Og hvernig á að taka á málum nú. Telja menn virkilega að sú hugmynd að banna vélhjólasamtök skapi öryggi meðal almennra borgara? Getur úrsögn úr Schengen skipt einhverju máli? Eða þarf að taka til og byggja upp róttækar aðgerðir til að verjast þessum ófögnuði.

Víst er að innanríkisráðherra þarf að greikka sporið og taka þau stærri til að verjast þessum ófögnuði sem skipulögð glæpastarfsemi er.


VG hefur brugðist öllum meginmarkmiðum sínum

Menn sem verja ekki sín helgustu vé eiga að víkja, þeir hafa misst trúnað og traust fjölmargra félaga sinna og skv. skoðanakönnunum helming kjósenda sinna. Forustan hefur brugðist öllum meginmarkmiðum sem Vinstri græn voru stofnuð til. Það er brýnt að skipta um forustu hjá VG og boða til kosninga þegar í haust. Að ári gætum við hreinlega þurrkast út af Alþingi Íslendinga. Það er eðlileg lýðræðisleg niðurstaða þegar forustan hefur yfirgefið öll meginmarkmið sem Vinstri græn voru stofnuð til að halda vörð um. 
 
Hörður Ingimarsson, félagi í VG, gott ef ekki í flokksráði, skrifa hálfsíðugrein í Morgunblaðið í morgun þar sem hann gagnrýnir forystu flokksins síns harðlega eins og má sjá af ofangreindu sem eru lokaorð greinarinnar.
 
Enn standa upp flokksmenn og undrast stjórnarhætti forystu VG. Hörður gagnrýnir verklag forystunnar í ríkisstjórn og telur upp „afrekin“:
 
Afskrifaðir voru 14 milljarðar vegna Hörpunnar sem er slík sóun á almennafé að fáheyrt er. Jafnvirði Héðinsfjarðarganga. Forusta VG brást í Magma-málinu. Fjármálaráðherrann lá á málinu og Svandís Svavarsdóttir lét sér vel líka þrátt fyrir stór orð. Tvennar þjóðaratkvæðagreiðslur um „Icesave“ (98% höfnuðu lögunum 6. mars 2010, kjörsókn 62,7%) vöktu fjármálaráðherrann ekki til meðvitundar á hvaða villigötur hann var kominn. Þingflokkurinn átti að kokgleypa „Icesave“-sullið á hálftíma. Forseti Íslands bjargaði okkur frá því að kyngja þeim beiska bikar og fól þjóðinni að velja sín örlög. 
 
Og Hörður gagnrýnir afstöðu forystunnar til einstakra þingmanna sem svo hafa hrökklast úr flokknum og hann segir:
 
Jarðfræðingurinn Steingrímur þoldi ekki hugmyndir hagfræðingsins Lilju Mósesdóttur. Þær máttu ekki koma til skoðunar. Steingrímur og Katrín lögðu til í þingflokknum að Jón Bjarnason, ráðherra landbúnaðar og sjávarútvegs, viki úr ríkisstjórninni til að gera samstarfið liprara og geðþekkara forustu ESB. Þá var mælirinn fullur. 

Ég hef lengi undrast langlundargeð hins almenna flokksmanns í Vinstri grænum, hversu mikið hann lætur yfir sig ganga. Ljóst má vera af orðum Harðar Ingimarssonar að honum þykir nóg um. Hins vegar er þó alveg skýrt að forystan fer sínu fram hvað svo sem Hörður segir. Þannig hefur það verið á fundum að flokkurinn kokgleymir allt sem forystan vill og menn eins og Hörður hafa hvorki styrk eða dugnað til að standa upp í hárinu á afvegaleidri forystunni. Og flokksmenn rétta síðan upp hönd og samþykkja loðnar yfirlýsingar sem leyfa Steingrími og félögum að fara sínu fram. Hjarðhegðun flokksmanna VG er með ólíkindum.

Þrátt fyrir allt tuðið í Herði hefur hann rétt fyrir sér að einu leiti þegar hann segir: Að ári gætum við hreinlega þurrkast út af Alþingi Íslendinga. Staðreyndin er nefnilega sú að enginn annar flokkur hefur farið jafn illa með flokksmenn sína, þingmenn, almenna félaga og kjósendur, á jafn stuttum tíma eins og Vinstri grænir. Svikið eiginlega allt sem einn stjórnmálaflokkur ætti að halda í heiðri. Slíkur flokkur fær slæma útreið í kosningum.


Ríkisstjórnin lofar og lofar en ekkert breytist

Birgir Ármannsson, alþingismaður, færir rök fyrir því að atvinnuástandið í landinu hafi ekkert breyst þrátt fyrir hina norrænu velferðarstjórn. Hann tekur saman fjölda þeirra sem eru með fulla atvinnu og segir þá hafa verið í þessum mánuðum:

  • 160.700 í febrúar 2012
  • 160.600 í febrúar 2011
  • 163.700 í febrúar 2010
  • 163.800 í febrúar 2009

Og Birgir segir þetta:

Frá því núverandi ríkisstjórn tók við völdum fyrir rúmum þremur árum hefur forsætisráðherra hvað eftir annað gefið yfirlýsingar um að atvinnumálin séu í forgangi og að aðgerðir stjórnarinnar muni skila þúsundum starfa á næstu misserum

Hann telur síðan upp loforð Jóhönnu Sigurðardóttur sem eru þessi:

  • Í mars og apríl 2009 talaði forsætisráðherra um að nýjar tillögur í atvinnumálum myndu skila 6.000 ársverkum á næstunni, þar af um 2.000 í tengslum við orkufrekan iðnað. 
  • Haustið 2010 var forsætisráðherra svolítið varkárari og talaði um 3.000-5.000 ný störf á næsta ári (2011). 
  • Í febrúar 2011 ræddi ráðherrann sérstaklega um uppbyggingu í orkuöflun og nýtingu og aðrar stórframkvæmdir, svo sem í samgöngumálum. Þá sagði hún: „Þessi verkefni öll gætu skapað 2.200 til 2.300 ársverk fljótt og 500 til 600 varanleg störf við framtíðarrekstur.“ 
  • Við sama tækifæri sagði hún líka: „Við verðum að skapa hér 10 til 15 þúsund ný störf á næstu árum.“ 

Í ljósin þessara fullyrðinga vekur furðu að þeir sem eru með fulla atvinnu séu ekki um 10.000 fleiri, þ.e. tæplega allir þeir sem eru nú á atvinnuleysisskrá.

Niðurstaða hins hógværa og málefnalega þingsmann, Birgis Ármannssonar, er þessi:

Ljóst virðist að í þeim tilvikum sem ný störf hafa orðið til á þessum þremur árum hafa önnur tapast. Sú niðurstaða hlýtur að verða bæði ríkisstjórn og Alþingi umhugsunarefni á næstunni. Það er ekki nóg að tala um að fjölga beri störfum ef raunveruleg stefna stjórnvalda og lagasetning á Alþingi miðar í aðra átt. Það er til lítils að lofa atvinnuuppbyggingu en stórauka á á sama tíma álögur á atvinnulífið, hamla gegn fjárfestingu og reisa sífellt hærri þröskulda gagnvart öllum framkvæmdum í landinu. Stjórnarstefna af því tagi skilar ekki neinum árangri. Hún er ávísun á áframhaldandi stöðnun. 


Er hægt að sakfella mann fyrir "eitthvað"

Það er að sjálfsögðu annað form á meðferð þessara mála heldur en í hefðbundnum sakamálum. 
Sigríður segir ekki hafa verið ástæðu til skýrslutöku eða sjálfsagðrar rannsóknar þegar búið var að ákveða ákæru með þingsályktun. Sigríður segir að sem saksóknari hafi hún verið bundin við ályktun þingsins um það hvað mátti ákæra fyrir.
 
Ofangreint er endursögn blaðamanna Morgunblaðsins á seinni ræðu saksóknara í Landsdómsmálinu gegn Geir H. Haarde.
 
Sem sagt, meirihluti Alþingis taldi sig bundinn af því að þegar væri búið að vísa málinu til saksóknara og þess vegna mætti hvorki breyta né hætta við málsóknina. Saksóknari telur sig bundna við ályktun þingsins.
 
Afsakið, hvers konar hringavitleysa er þetta? Vísar þarna hvor á annan.
 
Auðvitað hlýtur það að vera ámælisvert ef saksóknari afsakar sig með þessu hætti í ræðu fyrir Landsdómi en hefur samt reynt að troða málavöxtum í það form sem henni var skammtað.
 
Krafan á Geir er að hann hefði átt að grípa til einhverra aðgerða til að draga úr tjónshættu, draga úr stærð bankanna, segir Sigríður.
 
Vandinn er hins vegar sá að enginn, hvorki saksóknarinn né aðrir, vitað hverjar þessar „einhverjar aðgerðir“ hafi átt að vera.
 
Er hægt að sakfella mann fyrir „eitthvað“? Auðvitað ekki og þess vegna mun Landsdómur sýkna Geir af öllum ákærum.
 
 

mbl.is Yfirlýsing Geirs H. Haarde
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ákæruvaldið fullyrðir án vitneskju

Það verður ekki ráðið að rannsakað hafi verið á nokkurn hátt af hálfu ákæruvaldsins að hvaða leyti þessar aðgerðir voru raunhæfar. Hvaða áhrif hefði t.d. stórfelld eignasala fyrir tilstilli stjórnvalda getað haft á orðspor bankanna. Ákæruvaldinu bar að rannsaka þetta. Sakfelling verður ekki byggð á hreinum getgátum eða eftiráskýringum. Umrædd hætta sem steðjaði að ríkissjóði hvergi skilgreind.

Svo segir Andri Árnason, lögmaður Geirs H. Haarde fyrrum forsætisráðherra, fyrir landsdómi í morgun í endursögn blaðamanna Morgunblaðsins. Í þessum orðum endurspeglast stór hluti málssóknar meirihluta Alþingis. Hér er um að ræða atlögu að pólitískum andstæðingi. Saksóknari veit það en engu að síður heldur hann málinu áfram - eiginlega í blindni. Orð eru marklaus ef engin rök fylgja.

Tiltölulega auðvelt er að færa sönnur á að gáleysislegt aksturlag bílstjóra hafi getað skapað hættu fyrir aðra í umferðinni. Eða að meðferð eldfimra vökva hafi verið ábótavant. Allir vita hvaða afleiðingar slíkt getur haft.

Málið þegar á að sýna fram á hvað fyrrum forsætisráðherra hefði átt að gera til að koma í veg fyrir hrunið. Átti hann og meirihluti Alþingis að ráðast að bönkunum með löggjöf sem hefði knúð þá til sölu á eignum eða flutning úr landi á hluta eða öllu leyti. Hætt er við því að afleiðingarnar hefður orði þær að bankarnir hefðu fallið, svo illa sem þeir sannarlega stóðu á árinu. Hver bæri þá ábyrgðina?

Það er einfaldlega ekki hægt að ákæra mann og segja að hann hefði átt að gera „eitthvað“. Útskýring og nánari rökstuðningur á þessu „einhverju“ þarf nauðsynlega að fylgja. 

Hins vegar er þessi röksemdafærsla Andra lögmanns í bergmáli frá tísti blaðamanna Morgunblaðsins alveg óborganleg: 

Bankar eiga engan lögvarinn rétt á því að fjármunum skattborgara sé varið til björgunar þeirra.

Er þetta ekki kjarni málsins?


mbl.is „Brot á góðri ráðsmennsku“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfuðsynd hve fast hann blés í flautuna

Í nýlegri mynd um Margréti Thatcher bendir hún andstæðingum sínum í breska þinginu á að beina athyglinni að því hvað hún segi, fremur en að því hvernig hún segi það. Telur járnfrúin að skoðanir hennar myndu við það verða andstæðingum hennar að meira gagni.  
 
Þannig byrjar Tómas Ingi Olrich góð grein sína í Mogganum í morgun og nefnist hún „Vitnaleiðslur fyrir landsdómi. Í henni getur hann um margt af því sem ég hef fjallað um í þessu bloggi. Munurinn er hins vegar sá að Tómas er afar kurteis og málefnalegur en getur um leið verið afar meinlegur í málflutningi sínum. Hann segir nefnir að mörg vitni hafi notað tækifærið til að bera ákaft sakir á Davíð Oddsson:
 
Fyrrverandi forsætisráðherra og seðlabankastjóri er sakaður um að bera ábyrgð á hruninu, sem Geir H. Haarde er sakaður fyrir Landsdómi um að hafa ekki gert fullnægjandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir.
 
En í raun er höfðusynd Davíðs Oddssonar ekki fólgin í því hverju hann varaði við né hve fast hann blés í flautuna. Honum er fyrst og fremst legið á hálsi fyrir að vera það sem hann er. Hann var stjórnmálamaður sem stýrði Íslandi á lengsta efnahagslegu framfaratímabili í sögu lýðveldisins. Slíkt er ófyrirgefanlegt. Á þeirri vegferð allri kom í ljós að maðurinn var ekki skaplaus. Honum rann í skap, þegar hann sá árangrinum, sem þjóðin hafði náð undir hans stjórn, stefnt í voða. Og hann virðist hafa skipt skapi þegar hann fékk fátækleg viðbrögð við áhyggjum sínum. Mörgum hefur hitnað í hamsi af minna tilefni. 
 
Og Tómas nefnir nafn Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem brast dómgreindin af því að hún beindi athyglinn ekki að því sem Davíðs sagði heldur hvernig hann sagði það.
 
Viðvörunum seðlabankastjóra bar að hennar mati að taka með fyrirvara. Skipti þá engu að Seðlabankinn og bankastjórnin í heild stóð í einu og öllu að baki þess mats að mikil hætta steðjaði að ís- lensku efnahagslífi vegna veikrar stöðu bankanna. Utanríkisráðherrann þáverandi var ekki einn um að láta persónulega afstöðu sína og andúð á seðlabankastjóra auka sér dómgreindarleysi. Menntamálaráðherrann taldi ekki ástæðu til að seðlabankastjórinn „dramatíseraði“ þegar ríkisstjórnin var komin sýnu nær bjargbrúninni haustið 2008!
 
Dómgreind beggja brást vegna þess hver talaði og hvernig. Skilaboðin náðu ekki eyrum þeirra vegna fordóma. Það sem er þó athyglisverðast er að þetta dómgreinarleysi ráðherranna hlýtur eins konar löggildingu í rannsóknaskýrslu Alþingis, sem er grundvallarplagg fyrir Landsdómi. 
 
Reyndar held ég að þrátt fyrir orð Ingibjargar og annarra vitna hafi verk Davíðs sem seðlabankastjóra notið viðurkenningar flestra annarra vitna en pólitískra andstæðinga og svo auðvitað bankastjóra föllnu bankanna. En hver greinir svo sem þar á milli?

Þjóðarsátt um vanhæfa ríkisstjórn

Forsætisráðherrann sem siglt hefur þjóðarskútunni úr skerjagerði hrunsins og upp á land kallar nú eftir þjóðarsátt. Samkvæmt skoðanakönnunum er komin þjóðarsátt um að segja henni og félögum hennar upp störfum. Það er alla vega byrjun á endurreisn eftir norræna velferðarstjórn.
mbl.is Vill þjóðarsátt um gjaldmiðil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atvinnuleysi á vakt norrænnar velferðarstjórnar

Atvinnuleysi

Ekkert hefur gerst á þriggja ára valdatíma núverandi ríkisstjórnar. Atvinnuleysið er þjóðarharmleikur sem stjórnin vill ekki skilja eða getur ekki skilið. Það er enn óbreytt.

Rekur einhvern minni til að árlegrar ræðu Jóhönnu Sigurðardóttur um, forsætisráðherra, sem heldur því statt og stöðugt fram að svo óskaplega margt sé í pípunum. Fjárfestingar og svoleiðis ... 

Atvinnuleysið kostar ríkissjóð árlega um 20 milljarða króna og er þá ekki tekið til tapaðra skatttekna, tekjur upp á um 50 milljarða króna.

Hvað er eiginlega að þessari ríkisstjórn? 

Í frétt Morgunblaðsins í morgun er frétt um atvinnuleysi og fjölda fólks á vinnumarkaði og er stuðst við tölur frá Hagstofunni. Í fréttinni segir m.a.:

Leitni atvinnuleysis leiðir í ljós að sl. 12 mánuði hefur atvinnulausum fækkað tiltölulega jafnt eða um 1.500 manns yfir tímabilið. Ekki er þó hægt að greina miklar breytingar á leitni fjölda atvinnulausra ef litið er aftur til síðustu þriggja mánaða.

Helgi mynd

Ekki er því furða þó Helgi Sigurðsson, skopmyndateiknari Morgunblaðsins, birti meðfylgjandi mynd í blaðinu í dag. Á meinlegan hátt lýsir hann aðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna „glufu“ á gjaldeyrishöftunum. 

Hörður Ægisson, blaðamaður morgunblaðsins, segir í stuttum pistli í viðskiptakálfi blaðsins í morgun:

Það nálgast orwellíska misnotkun á tungumálinu þegar Seðlabankinn heldur því fram fullum fetum að gjaldeyrishöftin hafi verið hert enn frekar í því augnamiði að auðvelda afnám þeirra. Svart verður hvítt. 

...

Í stað þess að eyða tímanum í tilgangslaust karp um aðild að ESB og upptöku evru – sem yrði aldrei að veruleika á þessum áratug – þá er orðið brýnt að hugsa upp nýjar leiðir til að afnema gjaldeyrishöftin. 


Steingrímur skrökvar og bullar fyrir Landsdómi

Sjaldnast hefur einn maður runni jafn illilega á rassinn í vitnaleiðslum og þessi Steingrímur J. Sigfússon, ráðherra ótal ráðuneyta. Vitnisburður hans fyrir Landsdómi í gær var pólitískur og var ætlað að koma höggi fá Geir en honum mistókst það gjörsamlega. Í Mogganum í morgun er frétt um framgang hans. Hún er grátbrosleg eins og alltaf þegar pólitísk atlaga snýst í höndum gerandans og hann stórskaðar sjálfan sig. Í fréttinni er eftirfarandi:

Og það var skrautlegt er Andri Árnason, verjandi Geirs, spurði út í orð Steingríms um „samning“ sem gerður hefði verið samhliða gjaldmiðlaskiptasamningnum og „stungið ofan í skúffu“, eins og Steingrímur lýsti því. Þegar Andri spurði Steingrím hvar orðið samningur hefði komið fyrir á skjalinu svaraði Steingrímur: „Formið á þessu er samningur ... samkomulag ... yfirlýsing.“ 

Ráðherrann er gerður afturreka með orð sín, kemst að því að ekki er gleypt við öllu sem hann segir. Þess er krafist að hann sé nákvæmur í máli sínu, nokkuð sem hann hefur hins vegar aldrei vanið sig á. Og áfram var maðurinn krafinn sagna:

Samtalið hélt áfram og Andri spurði hvar Steingrímur hefði heyrt að yfirlýsingunni hefði verið „stungið ofan í skúffu“. [...] „Það eru mín orð,“ svaraði Steingrímur. „Það endurspeglar þá tilfinningu sem ég fékk. Líklega á fundi mínum með Stefan Ingves [sænska seðlabankastjóranum].“ 

Sem sagt engu var stungið ofan í skúffu, allra síst samningi, og því ekkert að marka þessi orð Steingríms. Svona pólitískt orðahnoð og skrök verður ekki Geir til sakfellingar.

Andri spurði þá hvort ítarleg svör Seðlabanka Íslands 8. júlí og 16. september árið 2008 hefðu ekki þótt fullnægjandi.

„Annaðhvort það eða þeir voru ósáttir við að ekki væru meiri efndir,“ svaraði Steingrímur.

Var talað um efndir?“ spurði Andri og lét færa Steingrími yfirlýsingu stjórnvalda og spurði hvað af atriðunum hefði ekki verið efnt. Steingrímur las stuttlega og svaraði:

„Eins og ég segi, það var ekki farið út í þetta þannig. Ekki farið út í svör. Þetta bar almennt á góma og það var lýst óánægju.“

Bara svona þannig, ekki svör, bar bara almennt á góma, líklega í samræðum við leigubílstjórann á leiðinni til baka á hótelið.

Þvílíkt bull ... aftur skrökvar Steingrímur og svo reynir hann að kjafta sig út úr horninu sem hann hafði málað sig út í. Ekki verður þetta til sakfellingar Geirs. En þetta var ekki nóg því hinn skilmerki blaðamaður sem skrifar fréttina, Pétur Blöndal, lætur eftirfarandi fylgja með ofangreindum orðum ráðherrans:

Skömmu áður hafði Árni Mathiesen sagt fyrir Landsdómi að eitt atriði yfirlýsingarinnar hefði snúið að starfsemi Íbúðalánasjóðs og þess vegna heyrt undir Jóhönnu Sigurðardóttur sem þá var félagsmálaráðherra. „Það var kannski það atriði af þeim sem þarna voru sem ekki gekk eftir,“ sagði Árni.

Steingrímur lét vera að minnast á það.

Auðvitað er það þannig með Steingrím, þann vana stjórnmálamann, að hann reynir að komast hjá því að skrökva. Hálfsannleikurinn er nóg til að hann komi boðskap sínum á framfæri. Með hálfsannleikann að vopni var stokkið til og efnt til pólitískra réttarhalda yfir Geir H. Haarde. Nú hefur hins vegar komið í ljós að aðahvatamaðurinn að þessum málaferlum hefur ekkert markvert að segja, getur ekki veitt neinar upplýsingar sem geta sakfellt Geir af þeirri ástæðu einni að sökin er ekki fyrir hendi. Fengi hann hins vegar sama „málfrelsi“ og á þingi yrðu honum ekki skotaskuld úr því að bera vitni um að Jón Bjarnason bæri ábyrgð á hruninu.

Þetta breytir þó því ekki að Steingrímur heldur því statt og stöðugt fram að hann hafi varað við hruninu. Hvað hann á við veit enginn. Að minnsta kosti mætti hann ekki á fund hjá ríkisstjórninni og „fór hamförum“ eins og Davíð Oddsson. Ekki heldur stóð hann upp á Alþingi og messaði yfir þingheimi. Í hvert skipti hefði hann þó átt að brjóta ræðupúltið. Það hefði verið hið eina rétta miðað við boðskap um fyrirsjáanlegt efnahagshrun haustið 2008. En nei, nei. Steingrímur bjó ekkert yfir neinni spádómsgáfu, hann var jafngrandalaus eins og við hin ... og þagði um þessi mál.

 


Enn bendir allt til sýknu Geirs fyrir Landsdómi

Enn hefur ekkert komið fram í vitnaleiðslum sem varpar sök á Geir H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra. Þvert á móti bendir allt til þess að stjórnvöldum hafi í raun verið allar bjargir bannaðar í viðleitni þeirra til að stemma stigu við útþennslu bankanna.

Enginn hefur komið með nein rök sem dugað hefðu. Jafnvel enn þann dag vefjast lausnirnar fyrir skörpustu mönnum jafnt sem einföldustu stjórnmálamönnum.

Hrunið var upphafið að miklum ósköpum fyrir landsmenn en að mörgu leiti má þakka fyrir það. Hvernig væri annars staðan í dag með öll þessi krosseignatengsl, yfirtökur á fyrirtækjum, kúlulán og sérhagsmunagæsku?Held að staðan þjóðarinnar væri jafnvel enn verri en undir þessari norrænu velferðarsstjórn.

Niðurstaða Landsdóms verðu einfaldlega á þá leið að Geir H. Haarde verður sýknaður. Engin rök benda til annars. Í kjölfar þess held ég að ríkisstjórnin segi af sér. Meirihluti þingsins getur ekki haldið áfram með tvær þjóðaratkvæðagreiðslur á bakinu og ónýtan málatilbúnað gegn pólitískum andstæðingi.

Svo þarf þjóðin í sannleika sagt að ræða hlut Davíðs Oddssonar og verk hans hruninu og kjölfar þess. Held að þar muni koma fram óvænt rök sem benda til þess að hin pólitíska ófrægingarherferð gegn honum sem hófst með Borgarnesræðu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og endaði með brottrekstri hans frá Seðlabankanum muni koma þægilega á óvart og sýna manninn í allt öðru ljósi. Svo virðist sem að orð Davíðs í hinu fræga Kastljósviðtali í nóvember 2008 hafi verið rétt mat á aðstæðum.


mbl.is Íhuguðu að hóta bönkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband