Bloggfærslur mánaðarins, desember 2012
Stóllin sýnist auður jafnvel ...
7.12.2012 | 11:05
Glöggir áhugamenn um sjónvarpsútsendingar frá Alþingi (það er efni þeirra en ekki útsendingarnar sem slíkar ...) hafa séð að forsætisráðherra er ekki lengur í mynd. Yfirleitt var það þannig að fyrir utan ræðustólinn sást forsætisráðherrann eða stóll hans. Þessu hefur verið breytt og nú sést stóll atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra.
Á evropuvaktin.is ritar Björn Bjarnason þessa einstaklega fyndnu lýsingu á aðstæðum.
Sé þetta ekki skýringin er hana að finna hjá Jóhanni Haukssyni, upplýsingastjóra ríkisins, sem hlýtur að gera kröfu til að hafa sitt að segja um sjónvarpsmyndavél ríkisins. Jóhann hefur sennilega talið heppilegt að beina vélinni frá stól forsætisráðherra vegna þess hve oft hann er auður og sýnist jafnvel vera það þótt einhver sitji í honum.
Enn verðlaunar ríkisstjórnin með vonarvölinni
7.12.2012 | 09:40
Félagsmenn í Útvegsmannafélagi Snæfellsnes eru yfir 30. Þetta er fjölmennasta útvegsmannafélag landsins en smæsta félagið í tonnum talið. Þetta eru fjölskyldu- og einstaklingsútgerðir. Skipstjórarnir og vélstjórarnir eiga bátana eða fjölskyldur þeirra. Þetta fólk mun auðvitað ekki sætta sig við að eiga ekki fyrir afborgunum á vöxtum og lenda í vanskilum. Það mun skoða hvort það geti ekki selt sig út úr rekstrinum. Þetta fólk hefur talið sig vera í þokkalegri stöðu og að það ætti þokkalegan lífeyri bundinn í fyrirtækjunum. Miðað við þessa skattaheimtu eru fyrirtækin orðin verðlaus.
Þetta eru nú kvótagreifarnir þegar upp er staðið. Veiðigjöldin eru að sliga harðduglegt fólk sem gerir út báta sína, vinnur þar og taldi sig eiga einhvern lífeyri bundinn í útgerðinni, gæti selt hana þegar komið væri á aldur.
Nei, ríkisstjórn vinstri manna hefur séð fyrir því að fjöldi fólks er að komast í vanda. Ekki nóg með að ríkisstjórnin geri ekkert vegna atvinnuleysisins heldur stendur hún í því að verðlauna fólk fyrir dugnað sinn með þeim alræmda verðlaunagrip, vonarvölinni.
Vilja hætta útgerð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kannski, tja og humm, jafnvel og meira kannski
6.12.2012 | 22:26
Almenningsálitið vegur orðið greinilega þyngra nú hjá Árna Þór Sigurðssyni, þingmanni Vinstri grænna, en það gerði þegar hann samþykkti þingsályktunartillöguna um aðild Íslands að ESB.
Jafnvel stefna Vinstri grænna um andstöðu við ESB hafði þá engin áhrif á Árna.
Hvað veldur nú þessum kannski-viðhorfum? Nei, enga vitleysu. Það hefur ekki neitt með það að gera að kosið verður til Alþingis í lok apríl 2013.
Eða hvað ...?
Ferlið jafnvel lagt til hliðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tollvörður segir fólk ljúga ...
6.12.2012 | 11:32
Við förum fram á að fólk sanni eignarrétt sinn á viðkomandi hlutum. Hafi fólk kvittanir ekki meðferðis ráðleggjum við því að fara í umboðin hér heima og fá nótur enda eru þau sum með skrár yfir seldar vörur," segir Kári Gunnlaugsson, yfirtollvörður á Keflavíkurflugvelli, og bætir við: Fólk getur einnig prentað út kreditkortayfirlit og fært okkur. Þá er fólk stundum tekið í skýrslutöku og ég held að það sé ekki mikið að ljúga að okkur þar. Þessi mál eru flest leyst á þann máta að sannleikurinn er leiddur í ljós.
Þetta er af veðmiðlinum visir.is. Finnst engum það tiltökumál að tollurinn gangi svona fram og nær þjófkenni fólk. Sannaðu eignarétt þinn, annars ...
Hvernig væri ástandi ef lögreglan gengi fram með álíka stefnu? Er möguleiki á því að löggan fari nú að ónáða borgarana og krefjast þess að þeir sönnuðu eignarétt sinn á hinu og þessu, bílum, fatnaði, húsgögnum og jafnvel húsnæði? Nei, það er ekki gert nema fyrir liggi rökstudd ástæða.
Tollinum er hins vegar uppálagt að gera svokallaðar stikkprufur. Tekur sér leyfi að gramsa í farangri fólks sem kemur frá útlöndum. Fólk sem gengur í gegnum gæna hliðið gefur með því út þá yfirlýsingu að það sé ekki með tollskyldan varning. Ástæðan þarf ekki að vera rökstudd. Með stikkprufunum segir tollurinn einfaldlega eitthvað á þessa leið: Þú lýgur og við ætlum að sanna það með því að skoða í töskurnar þína.
Auðvitað eru svona vinnubrögð til háborinnar skammar og ekki síður ummæli yfirtollvarðarins sem heldur því fram að fólk sé ekki mikið að ljúga að okkur. Í þessum orðum hans endurspeglast viðhorf tollsins að fólk ljúgi og svíki vegna þess að það geti það. Fyrir vikið taka tollverðin málin persónulega og úr verður rimma milli almennings og starfsmanna embættisins. Það er ólíðandi.
Neftóbaksárásin eykur skuldavanda heimilanna
6.12.2012 | 10:55
Hvers vegna má ekki ræða fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar vinstri manna? Jú, líklega vegna þess að það byggir á sandi og því er betra að þagga niður umræðuna. Þingmenn ríkisstjórnarinnar gera það með glöðu geði enda eiga þeir ekki rök í málefnalega umræðu.
Í leiðara Morgunblaðsins í morgun kom ágæt rök gegn fjárlagafrumvarpinu. Í honum segir meðal annars:
Ríkisstjórninni er sem kunnugt er sérlega uppsigað við neftóbak. Og hún fær útrás fyrir þá sérvisku í fjárlagafrumvarpinu. En neftóbaksárásin ein þýðir að skuldir íslenskra heimila munu á næsta ári hækka um meira en þrjá milljarða króna. Flestir þeir sem eiga að axla þær byrðar hafa aldrei notað neftóbak. Þessar upplýsingar náðist að draga fram á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í gær. Og þarna er aðeins um að ræða smáanga af óupplýstum afleiðingum fjárlagafrumvarpsins.
Þetta má semsagt ekki ræða, neftóbaksárásina á skuldastöðu heimilanna, heldur skal hún þögguð niður rétt eins og allt annað í fjárlagafrumvarpinu eða annan þann skaða sem núverandi ríkisstjórn hefur valdið almenningi.
Forsætisráðherra fjarri öllum raunveruleika
5.12.2012 | 17:06
Forsætisráðherra er svo gjörsamlega rökþrota að hún gleymir aðalatriðum máls og heldur að það Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður, sé óvinur.
Til hvers er hún að skensa Guðlaug fyrir að vekja athygli á þeim áhrifum sem hækkanir ríkisstjórnarinnar hafa á vísitölu og þar með á verðtryggð lán? Og svo segir hún að þingmaðurinn eigi að horfa til þess jákvæða sem finnst í fjárlögunum fyrir heimilin í landinu.
Hvað er svona jákvætt í fjárlagafrumvarpinu? Spyr sá sem ekkert veit.
Og forsætisráðherra er svo fjarri öllum raunveruleika að hún tekur ekki einu sinni þátt í umræðum um fjárlagafrumvarpið, ekki frekar en þingmenn ríkisstjórnarinnar. Hvað skyldu þeir þá vera að gera í vinnunni sinni?
Þetta eru auðvitað vinnusvik.
Hann er oft að leika sér í ræðustól | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hvað hefur Þór Saari gert gott sem þingmaður?
5.12.2012 | 15:58
Ísland er gerspillt samfélag, mikið samkrull er milli stjórnmála og viðskiptalífs. Samtök eins og ETA eða IRA hafa pólitískan arm, LÍU hefur líka arm, hann heitir Sjálfstæðisflokkurinn.
Ef Erling Ásgeirsson hefði tekið afstöðu með Gálgahrauni
5.12.2012 | 13:07
Erling Ásgeirsson, formaður bæjarráðs Garðabæjar virðist ekki skilja eðli umhverfis- og náttúruverndar og því ritar hann grein í Morgunblaðið um veglagningu yfir Gálgahraun í morgun. Hann telur upp vegi af Álftanesi og segir:
Engin þessara leiða kemur í raun til greina sem framtíðartenging íbúa Álftaness við þjóðvegakerfi landsins þar sem þær bjóða ekki upp á þá greiðfærni og umferðaröryggi sem nútímasamgöngur gera kröfu til. Þar að auki eru þær ekki í samræmi við ríkjandi skipulag sem íbúarnir eiga kröfu á að yfirvöld virði og standi við.
Af því að Erling skilur ekki um hvað málið snýst fullyrðir hann að engin upptalinna leiða komi til greina og því sé í lagi að leggja veg þar sem vill og skeytir engu um það sem fyrir verður.
Gaman hefði verið ef Erling hefði tekið öðru vísi til orða og sagt að auðvitað þurfi að tryggja framtíðartengingu íbúa Álftanes en þar sem hann vilji að Gálgahrauni væri hlíft þyrfti að finna betri lausn en að vaða inn á það.
Hvað hefði gerst í kjölfarið ef bæjarstjórn Garðabæjar hefði tekið þessa afstöðu? Jú, fundin hefði verið önnur lausn og líklega sú að endurbæta núverandi veg.
Ég vil undirstrika þá skoðun mína að við eigum að sníða mannvirki að landinu en ekki öfugt. Þetta er grundvallaratriði sem Erling verður að hafa í huga. Vegur er aðeins mannvirki sem úreldist, náttúruminjar gera það ekki, hversu gamlar sem þær verða.
Auðvitað skilur Erling Ásgeirsson þetta. Hann veit líka að nú eru að verða þáttaskil hjá þjóðinni. Hún krefst þess að við lítum til umhverfis- og náttúruverndarmála með öðrum augum en fyrri kynslóðir. Hvers vegna? Jú, við þökkum fyrir þó það sem náðst hefur að gera í þeim málum á undanförnum áratugum. Stendur til dæmis einhver upp og segir: Jú, við hefðum átt að gera veg yfir Búrfellsgjá ...
Á sama hátt væri nú alveg óskandi að niðjar Erlings geti sagt með stolti: Það var hann afi sem tók af skarið og lagðist gegn því að vegur væri lagður inn í Gálgahraun.
Jón og Guðni, ólíkir en góðir
5.12.2012 | 12:03
Tvo ólíkari menn veit ég ekki en Jón Magnússon, lögmann, og Guðna Ágústsson, fyrrverandi alþingismann og ráðherra. Þann fyrrnefnda hef ég þekkt frá unglingsárum. Þann síðarnefnda þekki ég ekki persónulega en í langan tíma hef ég ekki komist hjá því að kynnast honum í fjölmiðlum.
Ég hef alltaf dáðst á mörgum kostum Jóns Magnússonar. Hann er afar vel máli farinn, rökfastur og skynsamur. Það er hægt að hlusta á hann og láta sannfærast. Þó er ég þannig gerður að ég spyrni oft við fótum, hef gagnrýnt Jón, oft ótæpilega, til dæmis á þessum vettvangi.
Þann 18. febrúar 2009 sagði ég þetta um Jón:
Jón Magnússon starfaði hér á árum áður mikið fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann var formaður Heimdallar, formaður Sambands ungra Sjálfstæðismanna, sat í miðstjórn flokksins og gegndi fjölmörgum öðrum trúnaðarstörfum.
Jón yfirgaf Sjálfstæðisflokkinn þegar honum fannst hann ekki ná nógum góðum árangri innan hans. Ég var mjög ósáttur við Jón á þeim tíma, taldi hann hafa hlaupist á brott vegna eigin hagsmuna, hann hafi ekki sætt sig við lélegt fylgi innan flokksins. Ég var og er á þeirri skoðun að Jón gæti bara kennt sjálfum sér um. Slakt gengi þarf ekki endilega að vera þess eðlis að flokkurinn hafi hafnað honum eða flokkurinn hafi færst frá honum svo gripið sé til útslitinna frasa.
En nú er Jón kominn aftur og veri hann velkominn. Staða hans er án efa betri innan Alþingis og væntanlega mun hann framvegis taka þátt í störfum flokksins. Það er engin ástæða að dvelja við það sem á undan hefur gengið heldur horfa fram til næsta landsfundar og svo kosninganna í lok apríl.
Sem sagt, Jón var kominn heim eftir nokkra ára flokkaflakk og leit að sjálfum sér. Í ljós kom að hann átti að leita heima, það er í Sjálfstæðisflokknum.
Um Guðna Ágústsson hef ég nokkuð skrifað, fyrst og fremst vegna þess að ég styð hann ekki í stjórnmálum og er á móti mörgu því sem hann stendur fyrir. Stundum skrifa ég pistla sem ég einhverra hluta vegna kýs að birta ekki. Í desember 2011 ætlaði ég að birta pistil um jólahald, gerði það ekki, einhverra hluta vegna, en í honum er þessi tilvitnun:
Það er alrangt að þrjár máttugustu stoðir mannlífs á Íslandi séu heimilin, skólinn og kirkjan. Þessu heldur framsóknarmaðurinn Guðni Ágústsson fram í fúlustu alvöru. Hann veit ekki að kirkjan hefur fyrir löngu tapað orrustunni við verslunina og þar með því sem næst öllum áhrifum sínum á landsmenn.
Held að þetta þurfi ekki neinna skýringa við. Fyrir tæpu ári skrifaði Guðni alræmda dellugrein um Jóhönnu Sigurðardóttur sem hrökklaðist úr ríkisstjórn 1994 eftir að Guðni horfði á tíu hvíta svani fljúga yfir Þingvelli ... Þetta og fleira varð mér tilefni til að skrifa eftirfarandi:
Kallinn skrifar alltaf of langt mál, setningar eru langar og oft ærið flóknar. Að auki virðist hann ekki alltaf viss hvernig hann ætlar að takast á við umræðuefni sitt. Hann fer út um víðan völl og innihaldið sömuleiðis. Hann kann alls ekki að skipuleggja hugsanir sínar og setja þær markviss í greinarform.
Ekki svo að skilja að ég hafi aldrei verið sammála Guðna. Það var ég vissulega er hann að mínu mati flengdi Samfylkinguna með grein í Morgunblaðinu þann 5. október á þessu ári. Þá skrifaði ég eftirfarandi á bloggsíðuna:
Þetta segir Guðni Ágústsson, fyrrum þingmaður og ráðherra, í afspyrnugóðri grein í Morgunblaðinu í morgun (feitletranir og greinaskil eru mín). Auðvitað er þetta hárrétt hjá Guðna. Ábyrgir stjórnmálamenn tala ekki niður gjaldmiðil sinn. Það gera hins vegar ráðherrar Samfylkingarinnar. Þeim er ekki lengur neitt heilagt og enga virðingu bera þeir fyrir krónunni.
Og nú eiga Jón Magnússon og Guðni Ágústsson saman grein í Moggann í morgun og vilja að við Íslendingar sækjum hundraða milljarða skaðabætur á hendur Bretum.
Fínt ... ég er sammála.
Tímamót í umræðu um verðtrygginguna
5.12.2012 | 11:26
Niðurstaða Elviru Mendes Pindo, dósents í Evrópurétti við Háskóla Íslands, um að verðtryggingin sé ólögmæt markar tímamót. Í viðtali á bls. 30 í Morgunblaðinu í morgun segir:
Elvira segir verðtryggingu brjóta gegn neytendaverndarlögum með tvennum hætti. Annars vegar sé það tilgreint í neytendalögum að lántaki verði að geta séð hvernig höfuðstóll lánsins muni þróast út lánstímann. Hins vegar megi ekki misbjóða lántaka með því að breyta lánsupphæð eftir á.
Einfaldari verður niðurstaðan varla sé horft til laganna. Elvira nefni einnig sanngirnisregluna sem ég vil kalla svo og segir í viðtalinu:
Þetta snýst um að neytendur standa uppi með alla áhættu af verðbólgunni sem reiknast á lánin eftir á. Þetta eru í raun okurlán þar sem verðbólgan, sem er háð óvissuþáttum, fellur á neytendur með tvöföldum hætti, bæði í gegnum vexti og verðbætur.
Þó ekki sé talað um annað en efnahagshrunið þá voru lántakar, neytendur, látnir bera allan þungann af stökkbreyttri verðbólgunni. Lánveitendur höfðu allt sitt á þurru og hafa raunar búið við svo góðan kost frá því að verðtrygging launa var afnumin.
Tímamótin felast í því að nú má búast við því að fleiri alþingismenn vakni og skilji alvöru málsins. Spái því að afnám verðtryggingarinnar verði meðal kosningamála og hún afnumin með lögum á næsta ári.