Ef Erling Ásgeirsson hefði tekið afstöðu með Gálgahrauni

Erling Ásgeirsson, formaður bæjarráðs Garðabæjar virðist ekki skilja eðli umhverfis- og náttúruverndar og því ritar hann grein í Morgunblaðið um veglagningu yfir Gálgahraun í morgun. Hann telur upp vegi af Álftanesi og segir:

Engin þessara leiða kemur í raun til greina sem framtíðartenging íbúa Álftaness við þjóðvegakerfi landsins þar sem þær bjóða ekki upp á þá greiðfærni og umferðaröryggi sem nútímasamgöngur gera kröfu til. Þar að auki eru þær ekki í samræmi við ríkjandi skipulag sem íbúarnir eiga kröfu á að yfirvöld virði og standi við. 

Af því að Erling skilur ekki um hvað málið snýst fullyrðir hann að engin upptalinna leiða komi til greina og því sé í lagi að leggja veg þar sem vill og skeytir engu um það sem fyrir verður.

Gaman hefði verið ef Erling hefði tekið öðru vísi til orða og sagt að auðvitað þurfi að tryggja framtíðartengingu íbúa Álftanes en þar sem hann vilji að Gálgahrauni væri hlíft þyrfti að finna betri lausn en að vaða inn á það.

Hvað hefði gerst í kjölfarið ef bæjarstjórn Garðabæjar hefði tekið þessa afstöðu? Jú, fundin hefði verið önnur lausn og líklega sú að endurbæta núverandi veg.

Ég vil undirstrika þá skoðun mína að við eigum að sníða mannvirki að landinu en ekki öfugt. Þetta er grundvallaratriði sem Erling verður að hafa í huga. Vegur er aðeins mannvirki sem úreldist, náttúruminjar gera það ekki, hversu gamlar sem þær verða.

Auðvitað skilur Erling Ásgeirsson þetta. Hann veit líka að nú eru að verða þáttaskil hjá þjóðinni. Hún krefst þess að við lítum til umhverfis- og náttúruverndarmála með öðrum augum en fyrri kynslóðir. Hvers vegna? Jú, við þökkum fyrir þó það sem náðst hefur að gera í þeim málum á undanförnum áratugum. Stendur til dæmis einhver upp og segir: Jú, við hefðum átt að gera veg yfir Búrfellsgjá ...

Á sama hátt væri nú alveg óskandi að niðjar Erlings geti sagt með stolti: Það var hann afi sem tók af skarið og lagðist gegn því að vegur væri lagður inn í Gálgahraun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband