Bloggfærslur mánaðarins, desember 2012

Hvað er að gerast á Litla-Hrauni?

Hvernig getur það verið að maður sem dæmdur hefur verið fyrir stórhættulega líkamsárás skuli geta sloppið út úr fangelsi? Og hvernig má það vera að eftirlit á Litla-Hrauni sé svo lélegt að maðurinn geti einfaldlega labbað út, húkkað sér far og komist hvert á land sem hann vill? Er ekkert eftirlit utan Litla-Hrauns?

Manni verður eiginlega orðfall við svona fréttir.

Hvað er eiginlegar gert fyrir fanga á Litla-Hrauni? Er fangelsisvist í því einu fólgin að halda fólki frá samfélaginu eða fer þar fram einhvers konar betrun? Að óreyndu hefði maður haldið að þar færi fram linnulaus kennsla og mannbætandi áróður í ljósi þeirrar kenningar að hver einstakur eigi þess kost á að bæta sig, fái að koma aftur út í samfélagið sem betri maður, gera aðra tilraun til að lifa heiðarlegu lífi.

Sé þetta ekki raunin hefur fangelsisvist engan tilgang. 


mbl.is Konunni komið í öruggt skjól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölbreytt úrval af starfsskyldum ...

Fréttamiðlarnir vita ekkert, blaða- og fréttamenn skjálfa því þeir vita ekkert. Enginn veit hvað það þýðir að vera leystur frá vinnuskyldu vegna „brots á starfsskyldu“. 

Um hvað er verið að ræða með starfsskyldu og í hverju gæti brotið legið? Um þetta er til dæmis rætt um í lögum um starfsskyldur ríkisstarfsmanna og er um að ræða fjölbreytt úrval þeirra. Þær geta ekki verið mikið frábrugðnar skyldum starfsmanna sveitarfélaga.

 

  • Aukastarf 
  • Ábyrgðar- og trúnaðarskyldur 
  • Fjárhagslegar skyldur
  • Hlýðniskylda
  • Leiðbeiningarskylda
  • Mætingar- og viðveruskylda
  • Stjórnunarskylda
  • Vammleysisskyldan
  • Vinnuskylda
  • Yfirvinnuskylda
  • Þagnarskylda 

 

Nú, brot á þessum skyldum eru misalvarleg eins og gengur. Með tilliti til þess að bæjarstjórinn er í eina viku leystur undan starfsskyldum sínum má ætla að meint brot sé ekki alvarlegt. Gæti sem best trúað að það væri fólgið í því að hann hafi hugsanlega talað af sér og upplýst einhvern, sem ekki átti að vita, um stöðu bæjarins, t.d. vegna verklegs útboðs.

Hafi brotið verið alvarlegt hefði bæjarstjóranum örugglega verið vísað úr starfi. 

Svo er bara að vona að fjölmiðlar fái upplýst hvað gengur á uppi á Akranesi svo þeir geti tekið gleði sína á ný. 


mbl.is Settur bæjarstjóri leystur frá störfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég er frjáls og sýni kurteisi, segir leikarinn Depardieu

Ég hló dálítið inni í mér þegar ég las um franska leikarann Gérard Depardieu sem heldur því fram að forsætisráðherra Frakka hafi „sært“ sig með því að segja það „aumingjalegt“ af honum að flytja lögheimili sitt frá Frakklandi til Belgíu, eins og það var orðað á vef Evrópuvaktarinnar.

Svo gerðist það merkilega að ég fór að hugsa og velta nánar fyrir mér orðum leikarans eins og sagt er frá þeim á vefnum.

Þar kemur að því merkilega og raunar heimspekilega hugtaki sem er virðing, því Gérard Depardieu segir:

“Aumingjalegt„, sögðuð þér “aumingjalegt„? En hvað það er aumingjalegt! […] Ég geri enga kröfu um að hljóta samþykki, það væri þó að minnsta kosti unnt að sýna mér virðingu! Margir hafa yfirgefið Frakkland en enginn hefur verið særður á sama hátt og ég.

Í sjálfu sér skiptir mál leikarans hér litlu, miklu frekar það sem hann segir efnislega. Staðreyndin er einfaldlega sú að í lífi hvers einstaklings skiptir tvennt afar miklu máli, hvort sem hann gerir sér grein fyrir því eða ekki.

Annars vegar er það hvernig hann kemur fram og hins vegar hvaða tillit hann tekur til annarra. Eflaust fjallar hið fyrrnefnda um hið margtuggða hugtak „dyggð“ og hið síðara um annað sem ekki síður hefur verið mikið umrætt, „virðing“.

Í óvæginni samfélagsumræðu hér á landi og líklegast víðast um heiminn taka menn djúpt í árinni, ausa aðra óhróðri, jafnvel að ástæðulausu, oft fyrir misskilning eða þekkingarleysi. Fæstir myndu hins vegar brúka slíkan munnsöfnuð um náskyldan ættingja eða náinn vin. 

Það er eiginlega svo að dyggð hvers manns felst í því að koma af virðingu fram við annan mann en þegja ella. Oft verður á þessu misbrestur í umræðuþáttum í útvarpi og sjónvarpi, pistlum á bloggsíðum, í athugasemdadálkum þeirra eða með veffréttum. Þetta er afskaplega miður og slæmt en ugglaust er ekkert við þessu að gera. Mannskepnan er einfaldlega skepna og við kunnum ekki að aga okkur. Hins vegar er fjöldinn allur afar málefnalegur og þá er gaman að lesa og fylgjast með.

Á vef Evrópuvaktarinnar eru skoðanir franska leikarans þessar:

Ég kasta ekki grjóti að þeim sem hafa of mikið kólestról eða alkóhól í blóði sínu eða sofna á vélhjóli sínu, ég er einn í þeim hópi,“ segir hann og vísar þar til nýlegra samskipta sinna við lögregluna. „Þrátt fyrir eigin öfgar, matarlyst mína og ást mína á lífinu er ég frjáls vera, herra, og ég sýni kurteisi,“ segir í lok bréfsins. 


Greiddur skattur skattlagður hátt

Þessar vísur eftir Ágúst Valfells bárust á fjörur mínar. Þær eru skrambi smellnar þó þær hafi verið ortar fyrir margt löngu eða þegar þar síðasta vinstristjórn var mynduð. Efnið á þó ekki síður við núna enda eru meðöl vinstri stjórnar alltaf hin sömu og jafnan þau að rýja almenning inn að skinni og kryfja gullgæsina lifandi.

Ríkistjórnin okkar, hún ræddi um það í dag,
hvað réttast væri að gera fyrir þjóðarhag.
Hugsað var í þaula, og haft var fyrir satt,
hentugasta ráðið að leggja á nýjan skatt.

Skulu menn nú gjalda skattinn fyrir loft,
skattinn fyrir vatnið, drekki þeir það oft.
Að mega borga skatta, það meta á til fjár.
Mun nú á þá fjárhæð lagður skattur hár.

Í sameinuðu þingi, samþykkt voru ráð.
Sanngjörn þóttu gjöldin, er betur var að gáð.
Þegnum ber að greiða og þykja ekki raun.
Þing sér um að eyða og hækka eigin laun.

Á. V.

P.S.  Vísurnar má nota sem áramótaljóð og passa við lagið „Stóð ég úti í tunglsljósi“. 

Draumspakur maður spáir hvítum eða rauðum jólum

Held að þetta geti ábyggilega staðist hjá Páli Bergþórssyni enda mun ábyggilegri maður en sá draumspaki sem ég hef mest samband við. Sá spáir rigningu um jólin hér syðra en snjókomu, rigning eða úrkomulausu veðri annars staðar. Sem sagt slær í og úr eins og hans er vandi.

Sá draumspaki hefur átt erfiðar draumfarir upp á síðkastið. Veraldlegar truflanir eru miklar og því erfitt að greina hvort draumar eigi við um stjórnmálaástandið eða veðrið. Draumaráðningafólki finnst slíkt óskaplega tafsamt að ráða í drauma við slíkar aðstæður. 

Til að mynda er erfitt að átta sig á því hvort snjókarlinn í drauminum með gulrót í stað nefs eigi við hríðaráhlaup að norðan eða einfaldlega að Steingrím J. Sigfússon, atvinnu- og efnahagsráðherra sé hreinlyndur í stjórnmálum og gulrótin sé táknið um ESB aðild sem hann trúir að leysi allan vanda ríkisins.

Þá má nefna að í drauminum grætur kona með stóra hvíta slæðu en á hana sæktu afskaplega ljótar flugur. Hvort það sé tákn um að veturinn verði vætusamur og skal hér ósagt látið en sá draumspaki sagði að hitt gæti einnig komið til álita að hér gréti Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sem sér eftir að hafa sótt um ESB aðild og grætur. Eða hér felldi fjallkonan tár, tákn íslensku þjóðarinnar, óspillt og saklaus, sem bandaði frá sér aðsókn ESB aðildarríkja sem komast vilja að henni og verpa í hana eggjum sínum og spilla á allan þann mögulega hátt sem þau geta fullveldi þjóðarinnar vegna  smæðar hennar og stærðar landsins svo ekki sé talað um auðlindir þess og framtíðarmöguleika ... 

Þegar þarna var komið sögu hins draumspaka sleit ég símtalinu enda kominn tími á morgunverð. 


mbl.is Páll spáir jólaveðrinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhugaleysi fyrir formanni VG er nær algjört

Að hugsa sér að maður sem nýtur persónufylgis 199 einstaklinga skuli hafa mest um það að segja hvernig hin 320.000 eigi að lifa lífinu...

Svona hnyttilega kemst Ómar R. Valdimarsson að orði á Fésbókinni sinni og má alveg taka undir með honum.

Þetta er auðvitað ekki eðlilegt að formaður Vinstri grænna, ráðherra atvinnumála og fyrrverandi fjármálaráðherra og í þokkabót alþingismaður í nærri þrjátíu ár skuli aðeins ná fylgi 199 kjósenda í prófkjöri þar sem 261 kusu.

Pressunni varð það á að segja að hann hefði fengið 76,1% atkvæða í þessu prófkjöri. Formanninum, ráðherranum og alþingismanninum þótti þá við hæfi að senda Pressunni leiðréttingu þess efnis að hann hafi fengið 90,4% atkvæða þar sem 41 atkvæði hafi verið ógild og ekki rétt að reikna þau með.

Þvílíkur sparðatíningur er þetta hjá manninum. Þetta skiptir alls engu.

Gerir maðurinn sér alls enga grein fyrir því að þátttakan í prófkjörinu og staða hans sjálfs er langt fyrir neðan það að vera viðunandi. Áhugaleysi fyrir formanninum, ráðherranum og þingmanninum er því sem næst algjört.

Skiptir hundraðshlutfallið einhverju máli þegar kjörsókn og greidd atkvæði eru svona nálægt því að vera í núlli?

Einhvers staðar hefur manninum orðið á í stjórnun landsins. Fólk er einfaldlega óánægt með hann. 


Sporrækt á tunglinu eftir 40 ár

apollo-12-landing-site

Einu sinni gleymdi ég myndavélinni minni á áningarstað skammt fyrir ofan Sandfell í Öræfum. Ég var ásamt fleium á leið á Hvannadalshnúk. Uppötvaði myndavélarleysið fyrr en ég var kominn talsvert ofar. Þá nennti maður ekki að ganga um þúsund metra niður og sömu vegalengd aftur upp. Fann síðan myndavélina í lok dags er við komum niður eftir vel heppnaða göngu á Hnúkinn.

Held þó að maður þurfi að gæta betur að myndavélinni á tunglinu. Vissara að gleyma henni ekki þar. Aldrei að vita hvers konar lýður á leið þar um.

Þó langt sé um liðið frá því að menn gengu á tunglinu er veðurlag með þeim hætti þarna uppi að enn má sjá sporin eftir geimfaranna.

apollo-14-landing-site

Efri myndin var tekin í fyrra af lendingarstað Appollo 12 sem lenti á tunglinu 1969 og sporin eftir geimfaranna eru greinileg. Sama á við um lendingarstað Appollo 14 sem er á neðri myndinni.

Leiðangrar á tunglið hafa skilið eftir ýmis konar tæki á tunglinu. Til dæmis þennan jeppa úr farangri Appollo 17. Ég er að leita mér að bíl og frétti að þessi gæti fengist fyrir lítið, en maður þarf víst að sækja hann sjálfur.

apollo-17-cernan-rover
mbl.is Skildi myndavél eftir á tunglinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sparisjóðirnir og fjárfestingabankarnir

Víða um land störfuðu sparisjóðir fyrir hrun og eru jafnvel enn við lýði. Þeir voru og eru jafnvel enn burðarásar á sínum stöðum. Flestir störfuðu að hagsmunum samfélagsins, fæstir stunduðu útrás, hvorki í önnur héruð né önnur lönd. Þeir studdu einfaldlega við bakið á einstaklingum og fyrirtækjum eins og kostur var. Þeir keyptu víst aldrei fyrirtæki eða seldu í heilu lagi aftur eða hlutum, stunduðu ekki brask með innlánin, lánuðu sjaldnast kúlulán eða gerðu eitthvað annað sem var út úr allri skilgreiningu starfseminnar.

Þetta er hollt að hafa í huga þegar menn ræða um efnahagshrunið, íslenska bankakerfið og framtíð þess.

Styrmir Gunnarsson, fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins, ræðir um bankamálin í pistli í blaðinu undir fyrirsögninni „Er eftirsjá að veröld sem var?“. Spurninguna verður að velta vel fyrir sér áður en henni er svarað. Þessi hugleiðing mín er ekki mikið ígrunduð en samt langar mig til að svara henni.

Ég er einn af þeim fávísu sem skil ekki að bankar þurfi að vera öðru vísi en önnur fyrirtæki. Morgunblaðið skilgreindi sig fyrir mörgum árum sem þjónustufyrirtæki, ekki blaðaútgáfu. Það var rétt afstaða. Á sama hátt eru bankar ekkert annað en þjónustufyrirtæki, ekki fjármálafyrirtæki. Þeir eiga auðvitað að starfa á þann hófsama hátt sem sparisjóðirnir gerðu. Án hroka, án yfirgagns, fyrir almenning og fyrirtækin. Mikið er spurt eftir slíkri þjónustu og þörfin gríðarleg. Henni þarf að svara.

Störfuðu sparisjóðirnir sem viðskiptabankar og fjárfestingabankar? Nei, almennt gerðu þau það ekki. Þeir þraukuðu samt. Hvað hefði orðið um atvinnulífið í nánasta samfélagi sparisjóðanna ef þeir hefðu allt í einu farið að starfa sem fjárfestingabankar? Hvað hefði orðið um hagsmuni almennings? Ég er ansi hræddur um að byggðaþróunin hefði orðið öðru vísi og miklu verri hefði sú stefna verið tekin.

Það má vel vera misskilningur hjá mér en ég held að bankar á Íslandi þurfi að vera viðskiptabankar. Þörfin fyrir slíka er miklu meiri og aðkallandi en fyrir fjárfestingabanka.

Svarið við spurningu Styrmis Gunnarssonar er því sú að flestir geti séð eftir þeirri veröld sem var fyrir einkavæðingu bankanna en ekki þeirri sem óforsjálir bankaeigendur og meðreiðarsveinar þeirra byggðu upp. 


Hetja

Þrátt fyrir alla mannvonsku sem af og til veður upp í heiminum eru til hetjur sem rísa skyndilega upp yfir allan hversdagsleika og sýna hvað í þeim býr. Slíkt fólk hefur alltaf verið til. Fólkið sem ekki fer mikið fyrir dags daglega en gerir allt hvað það getur þegar stundin er komin. 

Ég hef oft velt því fyrir mér hvers vegna svo auðvelt hefur virst að fá ósköp venjulegt fólkt til að taka sér vopn í hönd og beita því á aðra rétt eins og var gert í stríðinu sem varð eftir að Júgóslavíu liðaðist í sundur. Þar urðu til ófáar hetjusögurnar en því miður aðrar hræðilegar og niðurdrepandi. 

Hvað veldur allri þessari vonsku í heiminum og hvers vegna eru skilin svona óskaplega skörp á milli þeirra sem drepa og hinna sem verja sig og sína? 

Kennarinn Kaitlin Roig er tvímælalaust ein af hetjum síns samfélags. Hún er öðrum mikil fyrirmynd.


mbl.is „Ég hugsaði: Við erum næst“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég fékk fimmfalt fleiri atkvæði en Steingrímur

Flokkur sem er með 722 flokksbundna og aðeins 261 sjá ástæðu til að kjósa í prófkjör á í vanda. Formaður flokks sem hlýtur 199 atkvæði á í enn meiri vanda. Og hann er þakklátur fyrir þann stuðning sem hann fékk. Litlu verður Vöggur feginn.

Ég tók þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og fékk fimmfalt fleiri atkvæði en formaður Vinstri grænna sem þó er atvinnumálaráðherra og fyrrverandi fjármálaráðherra og þingmaður til 30 ára. Ég kom ekki til álita en Steingrímur er þakklátur fyrir stuðninginn sem var sáralítill.

Staðreyndin er sú að Vinstri hreyfingin grænt framboð er orðið að kaffiborðsframboði. Þrátt fyrir að Steingrímur gapi um ótrúlega góða frammistöðu ríkisstjórnarinnar og hvessi sig við þá sem mótmæla hrynur fylgið af flokknum sem og af Samfylkingunni. Hvers vegna? Jú hér eru nokkur dæmi:

  1. Ríkisstjórninni hefur ekki tekist að vinna gegn atvinnuleysinu
  2. Ríkisstjórnin hefur ekki unnið neitt vegna bágrar skuldastöðu heimilanna
  3. Ríkisstjórnin skattar landsmenn og fyrirtækin
  4. Ríkisstjórnin hefur ekki náð árangri í uppbyggingu atvinnulífsins
  5. Ríkisstjórnin hefur ekki stefnu gegn verðtryggingu lána
  6. Ríkisstjórnin stuðlar að óeiningu ekki samvinnu 
  7. Ríkisstjórnin hefur unnið gegn hagsmunum landsbyggðarinnar
  8. Ríkisstjórnin sótti um aðild að ESB að þjóðinni forspurðri
Er nokkur furða þótt Steingrímur sé þakklátur fyrir 199 atkvæði?

 


mbl.is Steingrímur: Sterkur listi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband