Bloggfærslur mánaðarins, desember 2012
Hörmuleg frammistaða Brynjars Níelssonar
15.12.2012 | 12:14
Ég varð fyrir miklum vonbrigðum. Hlustaði á þáttinn Í vikulokin á Ríkisútvarpinu. Þar var meðal annarra Brynjar Níelsson, gamall vinur minn sem náði góðum árangri í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík um daginn.
Ekki veit ég hvað hefur komið fyrir Brynjar en slakari árangur upprennandi stjórnmálamanns þekki ég ekki. Hann lét því ómótmælt er Ágúst Þór Ágústsson, samfylkingarmann, hélt því fram óátalið að ríkisstjórnin hefði staðið sig afburða vel vegna skuldastöðu heimilanna, verðtryggingunni, afskriftum lána og það væri allt lygi sem ASÍ, SA, Hagsmunasamtök heimilanna, stjórnarandstaðan og fjöldi annara hefðu fært rök fyrir.
Ekki hrökk upp úr Brynjari eitt orð þegar Ágúst fullyrti að hér væri allt með öðrum og betri blæ ef við værum í ESB og notuðum Evruna.
Hið eina sem Brynjar virtist hafa einhverja meðvitund um var um lögfræðileg málefni sem þó mátti misskilja hrikalega eins og gagnrýni hans á embætti sérstaks saksóknara. Hann veit líklegast ekki að þessu embætti var komið á fót fyrir atbeina Geirs H. Haarde og Björns Bjarnasonar. Í þokkabót fór hann að tala um verðtrygginguna og hélt því fram að verðtrygginguna væri líklegast ekki hægt að afnema. Svona úrtölur ganga hreinlega ekki.Sjálfstæðismenn gera þá kröfu til forystumanna sinna að þeir séu vel að sér í sem flestum málum og verji þann málstað sem þeim er trúað fyrir. Það er einfaldlega ekki nóg að ná góðum árangri í prófkjöri og þegja svo þar á eftir eins og Brynjar og margir aðrir gera.
Krafan er sú að þeir afli sér þekkingar og læri þá einföldu aðferð að rökræða í viðtalsþáttum í fjölmiðlum.
Hér hef ég gagnrýnt Brynjar harkalega en það er einungis vegna þess að hann þarf að fá á sig gagnrýni ef hann stendur sig illa. Nóg er af já-fólkinu í kringum hann og þeir munu áreiðanlega mótmæla þessum pistli. En sá er vinur sem til vamms segir.
Byssumorð í einstökum löndum
14.12.2012 | 20:35
Þjóðfélag sem elur af sér ofbeldi getur ekki verið í lagi. Má vera að mannskepnan sé svo illa af guði gerð, svo misheppnuð framleiðsla, að hún beiti ofbeldi og eigi það til að myrða samborgara sína í meintri vörn eða af einhverjum ástæðum sem öllum nema ódæðismanninum eru kunnar.
Sífelldar fréttir af morðum í skólum í Bandaríkjum eru hræðilegar en hljóta að fá hvern mann til að efast um að samfélagið þar sé gott. Þar þykir sjálfsagt að hver maður megi bera vopn og beita þeim sé á þá ráðist.
Á árinu 2010 voru framin 12.996 morð í Bandaríkjunum, þar af 8.775 með byssum. Meðfylgjandi kort sýnir dreifinguna.
Bandaríkin eru þó ekki í efsta sæti listans yfir byssumorðin. Í El Salvador eru 50 af hverjum 100.000 mönnum drepnir með byssu.
Í Brasilíu er fjöldinn 19 manns en miklu færri í Bandaríkjunum eða 9 morð.
Það kemur á óvart að í Sviss er fjöldinn 6,4, helmingi færri falla i Frakklandi eða 3 en ekki nema 0,22 i Bretlandi á hverja 100.000 manns.
Í Noregi eru byssumorðin 1,78, Svíþjóð 1,47 Danmörku 1,45 og á Íslandi 1,25. Auðvitað er þetta alltof mikið í þessum löndum.
Allt bendir til að því auðveldara sem það er fyrir fólk að komast yfir skotvopn því meiri líkur eru á byssumorðum. Í Bandaríkjunum er snúið út úr þessari staðreynd og sagt að byssur drepi ekki, það geri fólk.
Í Kanada eru 4,78 byssumorð á 100.000 íbúa. Nær helmingi færri en í Bandaríkjunum. Og berum saman stranga vopnalöggjöf í Evrópu saman við Bandaríkin.
Ef sökin er ekki aðgengi að vopnum þá er ekkert annað eftir en að álykta sem svo að í Bandaríkjunum búi grimmara fólk en í Kanada eða Evrópu. Engu að síður veltir maður því fyrir sér hvort ástæðan sé sú sem hér var nefnd í upphafi.
Skaut föður sinn og móður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Gleymdi Gylfi ekki einhverju ...?
14.12.2012 | 14:27
Jæja, Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, hefur loks gert það sem aðrir hafa keppst við að gera upp á síðkastið, snúið baki við Samfylkingunni. Það gerir hann með rökstuddu áliti. Með því hefði hann örugglega líka getað sagt sig úr Vinstri Grænum. Verst að hann var ekki í báðum þessum flokkum, fór þarna gott tækifæri og ígrunduð afstaða á bara hálfu dampi.
Hér á m.a. í hlut hik og aðgerðaleysi í atvinnusköpun, endurteknar skerðingar á réttindum elli- og örorkulífeyrisþega og atvinnuleitenda og nú síðast skattlagning á lífeyrisréttindi almenns launafólks á sama tíma og réttindi ráðherra, þingmanna, æðstu embættismanna og þeirra opinberu starfsmanna sem eiga aðild að opinberu lífeyrissjóðunum eru varin með ábyrgð ríkis og sveitarfélaga.
Þetta er úr rökstuddri úrsögn Gylfa úr Samfylkingunni. Verst er að hann nefnir ekki annað af því sem ASÍ birti i dagblaðaauglýsingunni í gær nema ofangreint, gleymir annarri gagnrýni á ríkisstjórnina sem Samfylkingin á þó aðild að.
Ef til vill hefur hann dregið í land eftir að Steingrímur allsherjarmálaráðherra flengdi hann í Kastljósinu í gærkvöldi fyrir strákskapinn.
Gylfi segir sig úr Samfylkingunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Steingrímur hinn ærlegi og hugljúfi leiðtogi ...
14.12.2012 | 10:48
Þeir voru mættir í fréttatímann Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, með eitt hundrað þúsund illa svikna félagsmenn á bakinu og Steingrímur J. Sigfússon, sem att hefur kappi við sr. Friðrik Friðriksson í KFUM um titilinn ærlegasti og hugljúfasti leiðtogi Íslandssögunnar. [...]Enda sagði Steingrímur að þjóðfélagsvandinn fælist þvert á móti í því að Gylfi kynni ekki mannasiði. Steingrímur er nánasti vinur Björns Vals Gíslasonar, sem er ígildi þess að hafa doktorspróf í mannasiðum.
Partíið er rétt að byrja segja bókahéðnar
14.12.2012 | 10:37
Hverjir skyldu nú vera best dómbærir á bækur og bókakaup? Jú, líklega eru það neytendur, þeir sem kaupa bækurnar. Hins vegar hafa fjölmiðlar í gegnum árin búið til bókajól og spana þá ósjálfrátt upp bæði bókaútgefendur og bóksala svo ekki sé talað um okkur neytendur sem kaupum bækur eins og okkur sé borgað fyrir það en ekki öfugt. Líklega ekki til að lesa heldur gefa, en það skiptir engu.
Mogginn minn bregst ekki þessu erindi í morgun og talar um partí bóksala og bókaútgefenda eins og Bryndís Loftsdóttir, vörustjóri hjá Eymundsson kemst svo smekklega að orði.
Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagisins segir stoltur að offramboð sé af góðum bókum á markaðnum, enda hefur hann lesið þær allar, ekki bara þær sem hann gefur út. Þetta er álit sérfræðings og við hin stökkvum til.
Auðvitað er rætt við Bryndísi, enda hefur hvorki hún né Eymundsson eða aðrir viðmælendur eina einustu hagsmuni að gæta vegna bóksölu. Enda ræður Kristján B. Jónasson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda sér vart fyrir fögnuði.
Ekki einn einasti neytandi er spurður. Ekkert er reynt að komast að því hvers vegna við eigum að kaupa bækur fyrir jólin en ekki á öðrum tíma árs. Enginn er spurður um þau leiðindi að langflestar bækur eru gefnar út fyrir jólin. Þó hrekkur út úr formanni bókaútgefenda að sala á kiljum dreifst um allt árið: ... en fórnarlömb þeirrar þróunar hafi aftur verið innbundnar þýddar bækur, sem eitt sinn voru vinsælasta gjafavaran á bókamarkaðnum en sjást nú varla lengur á toppi sölulistanna. Sem sagt endurunnar restar.
Þetta er auðvitað allt mjög skiljanlegt enda eru jólin vertíði kaupmanna og seljenda alls konar vöru og glingurs. Og við neytendur dönsum með, hlaupum í kringum gullkálfinn fyrir jólin án þess þó að vita hvers vegna ... bara af því það er svo gaman hjá kaupahéðnum. Var einhver að tala um Jésúbarnið ...? Nei, nei, bara kókjólasveina.
Myndin er af bók sem kom út um mitt ár.
Stekkjastaur á Skrokköldu
13.12.2012 | 23:50
Svæðið sem um ræðir er á Sprengisandsleið sem er með fjölfarnari hálendisleiðum landsins og hefur því áhrif á mikilvægar ferðaleiðir. Tilheyrandi 60 km háspennulína myndi gjörbreyta upplifun af svæðinu en hugmyndir eru um 35 MW vatnsaflsvirkjun á svæðinu.
Stekkjastaur við Trölladyngju og Sog
13.12.2012 | 21:42
HS Orka hefur haft áform um að reisa orkuver á jarðhitasvæðinu í Trölladyngju. Rannsóknir hafa þegar valdið miklu raski á viðkvæmu svæðinu, meðal annars er að finna 3000 m2 borplan skammt neðan við Spákonuvatn. Enn er óljóst hvort jarðhitinn verði virkjaður.
Er hægt að vinna á heimsku með stjórnvaldi?
13.12.2012 | 11:34
Fjárhættuspil þar sem veðjað er á móti hugbúnaði sem forritaður er til þess að bera sigur af hólmi má segja að sé ígildi skattlagningar á heimsku.
Grein Arnars Sigurðssonar í Morgunblaðinu er afar góð og vel skrifuð. Ofangreind tilvitnun er úr henni og höfundur bætir eftirfarandi við:
Því má segja að tilvonandi Happdrættisstofa Ögmundar sé tilraun til þess að vinna á heimsku með stjórnvaldi.
Í raun hefði Arnar ekki þurft að skrifa meir. Innanríkisráðherrann, Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, er hérna pakkað snyrtilega saman, slaufa sett utan um pakkann og hann sendur langt út í buskann - svona málefnalega séð.
Ráðherrann mun þó ekki bregðast okkur aðdáendum sínum og er vís með að rita grein þar sem hann mun rökstyðja í löngu og flóknu máli þá ákvörðun sína að stofna Happdrættisstofu ríkisins. Ég vona að hann stofni þessa Happdrættisstofu enda ætla ég að sækja þar um starf enda ábyggilega góð innivinna og róleg enda stundar um það bil eitt prósent þjóðarinnar fjárhættuspil samkvæmt Arnari Sigurðssyni.
Og Arnar segir í grein sinni sem allir ættu að lesa, sérstaklega Vinstri grænir:
Veruleikafirring Ögmundar er reyndar slík að í greinargerð með frumvarpinu er beinlínis viðurkennt að: Enginn vafi er á því að greiðslumiðlunarbann telst hindrun á þjónustufrelsi í skilningi Evrópuréttar.
Að viðurkenna lögbrot í greinargerð með lagafrumvarpi hlýtur að vera nýlunda hér á landi og verðugt rannsóknarverkefni fyrir svokallaða stjórnsýslufræðinga.
Ögmundarstofa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Góður leiðari í Morgunblaðinu
13.12.2012 | 11:18
En þar sem að jafnan stefnir í að mál stjórnarliðs verði ráðandi og eftir lögfestingu bindandi fyrir þjóðina, jafnvel íþyngjandi mjög, er þingforseta beinlínis skylt að tryggja að stjórnarandstaðan hafi fulla aðkomu að afgreiðslu stjórnarfrumvarpa.
Vek athygli á leiðaranum í Morgunblaðinu í morgun. Hann fjallar einfaldlega um Alþingi og ofangreind tilvitnun er úr honum. Hún fjallar um siðferðilega skyldu þingforseta að sjá til þess að umræðan fái þá virðingu sem hún á skilið. Það gagnast þó ekki ef stjórnarsinnar hverfa burtu úr þingsal og taka ekki þátt í umræðunni. Þar með svíkjast þeir um, vanrækja skyldur sínar.
Stjórnarsinnum hefur verið tíðrætt um málþóf stjórnarandstöðunnar og í nær hvert skipti er þingmaður hennar tekur til máls byrja stjórnarsinnar að kyrja sama kórinn. Minna fer þó fyrir því þeirri einföldu staðreynd að stjórnarþingmenn ræða ekki málin. Þeir sitja jafnan hjá og óttast svipuna sem hvín yfir höfðum þeirra ef þeir voga sér ...
Fjölmörgum þingmálum fá þvingað samþykki þingflokka Vinstri grænna og Samfylkingarinnar og þar með er þingmönnum þeirra einfaldlega bannað að tjá sig um málin, hvað þá að gagnrýna þau.
Leiðarhöfundur Morgunblaðsins er glöggur á þessi mál og segir:
Og það dregur ekki úr þeirri tortryggni að gefa stjórnarandstöðunni eingöngu tækifæri til að ræða stórmál um miðja nótt, þar sem enginn er til andsvara og nánast enginn tekur þátt í umræðum af hálfu stjórnarliðsins.
Málatilbúnaður af þessari gerð endurspeglar mikinn hroka gagnvart almenningi, er andstæður forsendum þess að lýðræði virki. Hann ýtir undir tortryggni og allt þetta verður til þess að virðing Alþingis endar í ræsinu. Og það er nákvæmlega sú staða sem er uppi núna.
Það gæti verið verra ...
12.12.2012 | 11:06
Jónas fór mjög í taugarnar á vinum sínum með óþolandi bjartsýni. Það var alveg sama hve slæm staðan var, alltaf gat hann sagt Það gæti verið verra.Vinir hans ákváðu að gera eitthvað í málinu og reyna að venja hann af þessum leiða vana. Þeir ákváðu að finna upp einhverja atburðarrás sem væri svo hræðileg og svo svört að hann gæti með engu móti fundið neitt jákvætt við hana.Þeir komu til hans á hverfispöbbnum eitt kvöldið og sögðu: Jónas, ertu búinn að heyra þetta með hann Guðmund? Hann kom heim í gærkvöldi, kom þá að konunni með öðrum manni og skaut þau bæði og síðan sjálfan sig!Þetta er hræðilegt, sagði Jónas. En það gæti verið verra.Nú urðu vinirnir hlessa. Hvernig í ósköpunum gæti þetta verið verra? spurðu þeir.Ja, sko, sagði Jónas. Ef þetta hefði gerst í fyrrakvöld þá væri ég dauður!