Sparisjóðirnir og fjárfestingabankarnir

Víða um land störfuðu sparisjóðir fyrir hrun og eru jafnvel enn við lýði. Þeir voru og eru jafnvel enn burðarásar á sínum stöðum. Flestir störfuðu að hagsmunum samfélagsins, fæstir stunduðu útrás, hvorki í önnur héruð né önnur lönd. Þeir studdu einfaldlega við bakið á einstaklingum og fyrirtækjum eins og kostur var. Þeir keyptu víst aldrei fyrirtæki eða seldu í heilu lagi aftur eða hlutum, stunduðu ekki brask með innlánin, lánuðu sjaldnast kúlulán eða gerðu eitthvað annað sem var út úr allri skilgreiningu starfseminnar.

Þetta er hollt að hafa í huga þegar menn ræða um efnahagshrunið, íslenska bankakerfið og framtíð þess.

Styrmir Gunnarsson, fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins, ræðir um bankamálin í pistli í blaðinu undir fyrirsögninni „Er eftirsjá að veröld sem var?“. Spurninguna verður að velta vel fyrir sér áður en henni er svarað. Þessi hugleiðing mín er ekki mikið ígrunduð en samt langar mig til að svara henni.

Ég er einn af þeim fávísu sem skil ekki að bankar þurfi að vera öðru vísi en önnur fyrirtæki. Morgunblaðið skilgreindi sig fyrir mörgum árum sem þjónustufyrirtæki, ekki blaðaútgáfu. Það var rétt afstaða. Á sama hátt eru bankar ekkert annað en þjónustufyrirtæki, ekki fjármálafyrirtæki. Þeir eiga auðvitað að starfa á þann hófsama hátt sem sparisjóðirnir gerðu. Án hroka, án yfirgagns, fyrir almenning og fyrirtækin. Mikið er spurt eftir slíkri þjónustu og þörfin gríðarleg. Henni þarf að svara.

Störfuðu sparisjóðirnir sem viðskiptabankar og fjárfestingabankar? Nei, almennt gerðu þau það ekki. Þeir þraukuðu samt. Hvað hefði orðið um atvinnulífið í nánasta samfélagi sparisjóðanna ef þeir hefðu allt í einu farið að starfa sem fjárfestingabankar? Hvað hefði orðið um hagsmuni almennings? Ég er ansi hræddur um að byggðaþróunin hefði orðið öðru vísi og miklu verri hefði sú stefna verið tekin.

Það má vel vera misskilningur hjá mér en ég held að bankar á Íslandi þurfi að vera viðskiptabankar. Þörfin fyrir slíka er miklu meiri og aðkallandi en fyrir fjárfestingabanka.

Svarið við spurningu Styrmis Gunnarssonar er því sú að flestir geti séð eftir þeirri veröld sem var fyrir einkavæðingu bankanna en ekki þeirri sem óforsjálir bankaeigendur og meðreiðarsveinar þeirra byggðu upp. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bragi

Aðskilnaður viðskipta- og fjárfestingarbanka ætti að vera eitt helsta verkefni stjórnmálamanna í dag.

Óstjórnleg bankastarfsemi var það sem felldi okkur, það verður að breyta því áður en við förum í sama far.

Bragi, 15.12.2012 kl. 23:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband