Bloggfærslur mánaðarins, desember 2012
Loksins koma áramót
31.12.2012 | 16:27
Einu sinni fundust mér áramót vera stórkostlegur viðburður. Í raun má það vera þegar litið er á almanakið og síðar á mannlífið kann svo að vera. Þegar maður horfir til veðurs og náttúrufars er ekkert sem bendir til þess að merkilegur atburður sé í þann mund að verða. Um leið og ég skrifa þetta braust sólin fram úr skýjunum og skín inn um gluggann hjá mér og varpar yl í stofuna.
Ár er bara fjöldi daga, umferð jarðar í kringum sólu. Auðvitað stórkostlegt til umhugsunar og hefur áhrif á daglegt líf þó við skynjum þetta ekki í stórleika sínum. Við horfum einfaldlega til þess sem náttúran og umhverfið færir okkur, hvernig við getum notið þess.
Ég valdi nokkuð snemma að fara út, ganga á fjöllin og njóta náttúru landsins. Þetta hefur gefið mér ákaflega mikla lífsfyllingu og ekki síður hef ég átt gönguleið með fjölmörgu góð fólki og nokkrum nánum vinum. Fyrir það er maður óendanlega þakklátur.
Síðustu mánuði hef ég haft tíma til að taka til í risastóru myndasafni, skannað inn nær allar þær slidesmyndir sem ég á og komið þeim í tölvutækt form. Á núna aðeins eftir að skanna inn negatívurnar mínar. Þessu verkefni fylgdu góðar og slæmar tilfinningar. Ég hélt ég væri góður ljósmyndari en ég hef uppgötvað að svo er ekki. Hins vegar hef ég getað upplifað fjölda skemmtilegra ferða og atvika sem ég hafði nær gleymt en vegna myndanna geymist þetta.
Í sumar fór ég með góðu fólki í Hattver. Efri myndin er tekin á stafræna myndavél og er horft til Landmannalauga. Neðri myndin er tekin í júlí 1981 í hveragilinu innst í Innstadal. Læt þetta duga á þessu ári - held ég ...
VG er í eðli sínu stjórnarandstöðuflokkur
31.12.2012 | 15:16
Vinstri hreyfingin grænt framboð er óhefðbundinn stjórnmálaflokkur. Hann er fyrst og fremst stjórnarandstöðuflokkur, hefur hvorki getu né vilja til að vera í stjórn. Þetta sést best á því að hann óx og dafnaði eftir því sem hann formælti ríkjandi stjórnvöldum meir og meir. Þá gerast þau ólíkindi að flokkurinn þarf að mynda ríkisstjórn og það með hrunflokknum Samfylkingunni.
Síðan hefur allt farið á verri veg. Hann svíkur helstu kosningaloforðin, kjósendur hans hrökklast frá honum og síðast en ekki síst hrökklast þingmennirnir í burtu. Þingmenn flokksins eru nú þessir:
- Álfheiður Ingadóttir
- Árni Þór Sigurðsson
- Björn Valur Gíslason
- Jón Bjarnason, órólega deildin
- Katrín Jakobsdóttir
- Lilja Rafney Magnúsdóttir
- Ólafur Þór Gunnarsson
- Steingrímur J. Sigfússon
- Svandís Svavarsdóttir
- Þráinn Bertelsson
- Þuríður Backman
- Ögmundur Jónasson, órólega deildin
Hins vegar hafa þessir horfið á braut:
- Atli Gíslason, úrsögn vegna ágreinings
- Ásmundur Einar Daðason, úrsögn vegna ágreinings
- Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, hætti vegna ágreinings
- Lilja Mósesdóttir, úrsögn vegna ágreinings.
Guðfríður Lilja hættir um áramótin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Piers Morgan tekur til varna
30.12.2012 | 14:46
Árlega eru skotið með byssu á að meðaltali 100.000 Bandaríkjamenn. Þar af falla 31.000 manns, 11.000 eru myrtir og 18.000 taka eigið líf. Meira en ein milljón manna hafa fallið fyrir byssum í Bandaríkjunum frá því árið 1968 er Martin Luther King og Bobby Kennedy voru ráðnir af dögum.Hlutfall byssumorða í Bandaríkjunum er 19,5 sinnum hærra en næstu tuttugu og tveggja þéttbýlustu og tekjuhárra ríkja í heiminum. Og Bandaríkjamenn eiga um 80% þeirra skotvopna sem finnast í Ameríku.
Krafa á þingmenn Sjálfstæðisflokksins
29.12.2012 | 14:37
Alþingi samþykkti að næturlagi korteri fyrir jól lagafrumvarp um viðskipti með kvóta í losun svokallaðra gróðurhúsalofttegunda og er frumvarpið hluti af aðlögun okkar að ESB.
Hvaða afleiðingar hefur aðlögunin að ESB haft á lagasetningu, reglugerðir og stjórnsýslu hér á landi? Ofangreind tilvitnun er úr vefsíðunni Vinstrivaktin gegn ESB. Þar er greint frá minnihlutaáliti umhverfis- og samgönguáætlunar Alþingis sem heldur því fram að ekki hafi verið hægt að afgreiða þetta lagafrumvarp vegna fullveldisákvæðisins í stjórnarskránni.
Engu að síður var það gert og þar að auki gegn niðurstöðu lagahóps samningarnefndar vegna ESB viðræðnanna.
Ég hef margsinnis vikið að því að höfum ekki aðeins sótt um aðild að ESB heldur erum við beinlínis á leið inn í það. Alþingi hefur samþykkt aðildina og ESB hefur samþykkt hana. Niðurstaðan eru aðlögunarviðræður þar sem breytingar eru gerðar á stjórnsýslu íslenska ríkisins, lögum og reglum.
Samningaviðræður eru engar, ALLS ENGAR. Um er að ræða aðlögun vegna þess að Ísland á að verða fullgildur aðili. Þegar þessum aðlögunarviðræðum er lokið verður Ísland fullgildur aðili. Engir samningur, enginn pakki, eins og svo oft hefur verið lofað. Hugsanlega aðeins tímabundnar undanþágur frá stjórnarskrá ESB. Jú, og svo þessi þjóðaratkvæðagreiðsla en má ekki fara í hana samhliða þingkosningunum næsta vor? Miðað við eðli máls skiptir litlu þó farið verði í þjóðaratkvæðagreiðsluna áður en aðlöguninni lýkur.
Þingmenn Sjálfstæðisflokksins bregðist við
Aðlögunarviðræðurnar byggjast á 35 köflum sem eru umræðuefnin. Að loknum viðræðum um hvern kafla er sú staða uppi að annað hvort samþykkir ESB stöðu málsins eða þá að Ísland þarf að gera breytingar á lögum, reglum eða stjórnsýslu.
Ég geri kröfu til þingmanna Sjálfstæðisflokksins, af því að ég er í þeim flokki. Þingmenn mínir eiga að gera eftirfarandi þríhliða fyrirspurn til forsætisráðherra á fyrsta þingdegi ársins 2013:
- Hvaða lögum og reglum íslenska lýðveldisins hefur verið breytt vegna aðlögunar að Evrópusambandinu?
- Hvaða breytingar hafa verið gerðar á stjórnsýslu íslenska ríkisins vegna aðlögunar að Evrópusambandinu?
- Hvaða breytingar eru fyrirhugaðar á lögum, reglum og stjórnsýslu vegna aðlögunar að Evrópusambandinu?
Svör við þessum spurningum eru grundvallaratriði í umræðunni um aðildina að ESB.
Ríkisstjórnin hefur ekkert látið uppi um breytingarnar enda kunna þær að gjörbreyta afstöðu almennings til aðildarinnar og gera ljóst að ekki er um samningaviðræður sem ljúka mun með einhverjum samningi.
Þjóðin á rétt á því að vita hvaða breytingar hafa verið gerðar. Er til dæmis áherslan á nýja stjórnarskrá komin til vegna aðlögunarinnar? Eða breytingarnar á ráðuneytunum?
Enginn samningur verður gerður. Þetta vita allir en engu að síður lætur ríkisstjórnin sem svo að um sé að ræða eitthvert samningaferli eins og þegar Noregur sótti um aðild að ESB árið 1992. Reglum um aðildina hefur síðan verið gjörbreytt og nú er ekki um samningaviðræður heldur aðlögun enda gert ráð fyrir því að með umsókn sé viðkomandi ríki staðráðið í að ganga í sambandið - ekki til að kíkja á einhvern samning eða pakka.
Staðan í samningaviðræðunum
Til skýringar er gott að fara yfir stöðuna í aðlögunarviðræðunum. Hér að neðan má sjá þá kafla sem um er fjallað í aðlögunarviðræðunum.
Munum að til að geta rætt um þessa kafla þarf aðlögunarnefnd Íslands að geta sýnt fram á hver sé munurinn á íslenskum aðstæðum og aðstæðum ESB og hvernig Ísland eigi að brúa bilið. Munum líka að ekki er gert ráð fyrir að Evrópusambandið komi til móts við íslenska hagsmuni einfaldlega vegna þess að það er ekki að sækja um aðild að Íslandi - heldur öfugt.
Nú er lokið viðræðum um eftirfarandi kafla:
- Utanríkis-, öryggis- og varnarmál
- Hugverkarétt
- Félagarétt
- Neytenda- og heilsuvernd
- Frjáls för vinnuafls
- Menntun og menningu
- Vísindi og rannsóknir
- Iðnstefnu
- Réttarvörslu/grundvallarréttindi
- Evrópsk samgöngunet
- Samkeppnismál
Viðræður eru hafnar um eftirfarandi kafla og þá upplýsir aðlögunarnefnd Íslands hverju hafi verið breytt í lögum, reglum og stjórnsýslu og hverju eigi eftir að breyta til að þóknast Evrópusambandinu:
- Opinber útboð
- Upplýsingatækni og fjölmiðlun
- Orka
- Samgöngur
- Félagsmála- og atvinnustefna
- Framlagsmál
- Fjárhagslegt eftirlit
- Hagtölur
- Fjármálaþjónusta
- Tollabandalag
- Frjálst vöruflæði
- Gjaldmiðilssamstarf
- Utanríkistengsl
- Umhverfismál
- Skattamál
- Byggðastefna
Nú er ljóst hver staða Íslands er í næstu tveimur köflum og beðið er eftir því að viðræður hefjist.
- Matvælaöryggi
- Dóms- og innanríkismál
Svo eru eftir fjórir mikilvægustu kaflar aðlögunarviðræðnanna og sagt er að samningsafstaðan sé í vinnslu sem þýðir einfaldlega það að ekki er samstaða um málið hjá Samfylkingunni og Vinstri grænum. Fyrrnefndi flokkurinn veit svo sem hvað hann vill en sá síðarnefndi er hræddur um komandi kosningar og vill fresta umræðunni í þeirri von að útreiðin í næstu kosningum verði ekki eins hræðileg og skoðanakannanir benda til:
- Sjávarútvegsmál
- Landbúnaður og dreifbýlisþróun
- Frjáls för fjármagns
- Staðfesturéttur og þjónustufrelsi
Svo geta lesendur farið yfir hvern og einn kafla og velt því fyrir sér hvort þeir snerti fullveldi landsins samkvæmt stjórnarskránni eða brýna þjóðarhagsmuni.
Byrjum málið á þremur ofangreindum spurningum sem ég hvet þingmenn Sjálfstæðisflokksins til að leggja fyrir forsætisráðherra á fyrsta degi Alþingis á nýju ári. Spurningarnar eru einfaldar og ábyggilega mjög einfalt að fá skýr svör.
Bendi lesendum á vefinn vidraedur.is en hann er opinber vefur utanríkisráðuneytisins og svokallaðrar samningaviðræðunefndar Íslands um aðlögunarviðræðurnar við ESB.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
Hefði ríkisstjórnin átt að skattleggja flugeldasölu?
28.12.2012 | 15:58
Ríkisstjórn vinstri manna og norrænnar velferðar missti af gullnu tækifæri til að skattleggja innflutning áramótaflugelda. Rökstuðningurinn gæti verið til dæmis sá að flugeldar væru bara tómt rugl og eyðsla á takmörkuðum gjaldeyri. Einnig væri hægt að halda því fram að þeim sköpuðu ekkert annað en mengun og væru í þokkabót stórhættulegir almenningi.
Miðað við allt hefði ríkissjóður getað hagnast um tvo milljarða króna á skattlagningunni. Tekjunum hefði verið hægt að verja í tækjakaup á Landspítalanum ...
Svo er það allt annað mál hvort skattlagningin hefði yfirleitt skilað sér í kassann. Myndi ekki almenningur einfaldleg hætta að kaupa flugelda ef verðið væri of hátt. Á móti gæti ríkisstjórnin borið höfuðið hátt og fullyrt að markmið skattlagningarnar hafi náðst, miklu minni eða engin svifryksmengun hafi á gamlaárskvöld og nýársnótt.
En nú er tækifærið farið forgörðum. Næst væri eflaust hægt að setja á þorramatarskatt fyrir þorrablótin, saltskatt fyrir sprengidag, bolluskatt fyrir bolludag og páskaeggjaskatt fyrir páska. Slíkur neysluskattur gæti skilað ótrúlega mörgum aurum í ríkissjóð.
Nú, ef peningurinn skilar sér ekki er hægt að fullyrða með einhvers konar tölfræði að skatturinn hafi bjargað fullt af fólki frá bráðum bana eða veikindum.
Svona gæti verið gaman að vera í ríkisstjórn og leika sér og alltaf haft rétt fyrir sér, hversu illa sem fer í tekjuöfluninni.
Útlit fyrir töluvert svifryk á nýársnótt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Geimvera tekur stjórnina af Birni VG
28.12.2012 | 15:39
Lýst er eftir Birni Val Gíslasyni, alþingismanni og fyrrverandi formanni þingflokksformanni Vinstri grænna. Hann er talinn hafa verið numinn á brott af geimveru og fluttur til annarra stjörnukerfa. Eigi einhver leið um á þeim slóðum er sá hinn sami beðinn um að hafa augun hjá sér.
Hér á jörðu hefur líklega geimvera tekið yfir skrokkinn á Birni Val. Þetta er rökstutt með því að vitna til eftirfarandi orða og er Björn ekki þekktur fyrir svona skoðanir en engu að síður birtust þær á bloggsíðu hans. Þarna ræða hann um meint svindl útgerðafélagsins Samherja og rannsókn Seðlabankans á því:
Ég tók mig til sl vor og kafaði aðeins ofan í þetta mál, spurði spurninga, leitaði mér upplýsinga og nýtti mér þekkingu mína. Niðurstaða mín var sú í stuttu máli að fyrirtæki af þeirri stærðargráðu sem Samherji er stendur ekki í því að svindla á nokkrum tonnum af karfa eða bleikjutittum. Það er of mikið í húfi til að leggja fyrirtækið allt undir fyrir svo lítið. Stjórnendur fyrirtækisins eru einfaldlega ekki svo klikkaðir. Það þarf líka of margra starfsmenn með einbeittann brotavilja þvert á landamæri til að þannig svindl sé gerlegt.
Gamli góði Björn Valur telur útgerðarfyrirtæki vera ljótt auðvald sem misnoti aðstöðu sína og kvóta sinn til að svindla á íslenskri alþýðu. Og hann myndi aldrei taka afstöðu með íslensku fyrirtæki, síst af öllu Samherja. Fáheyrt er að þingmaður VG kafi ofan í mál eins og geimveran orðar það.
Ómálga Drengur Nafnleysuson
27.12.2012 | 11:40
Enn gerist það að hin forneskjulega nefnd sem ber heitið mannanafnanefnd sendir út boðskap sinn í nafni þjóðfrelsis, fullveldis og tungumáls. Svo hefur hún gert frá landnámi að því er bestu heimildir herma. Jafnlengi hafa miðaldra karlar haft af henni ómælt gaman. Þeir senda henni ótal erindi sem bera þann ávöxt að ómálga börn munu þurfa að bera hin skrýtilegustu nöfn.
Á veitingastað í miðborg Reykjavíkur er sex manna borð úti við glugga. Vikulega hittist þar afskaplega skemmtilegt fólk og spjallar saman í rúman klukkutíma, skiptist á skoðunum og hlær dátt og slær sér á lær. Mest verða þó hlátrasköllin þegar farið er yfir þau nöfn sem Mannanafnanefnd hefur samþykkt.
Þar er nú fagnað enda fær ungur drengur að burðast með fuglsnafnið Kjói. Jón Kjói Pétursson, hljómar aldeilis vel. Guðrún Íseldur Jónsdóttir eða Jón Íseldur Pétursson. Veit ekki betur en nafnið henti báðum kynjum.
Karlkynsnöfnin Huppur, Pungur, Kjálki og Breiðifoss þykja einnig vænlegt á ómálga og varnarlaus börn sem þurfa að burðast með þessi nöfn alla ævi.
Og svokölluð Mannanafnanefnd verður að taka fyrir öll bréf og svara þeim málefnalega þó borðliggjandi sé að verið er að gera at í henni. Þetta segir mér að minnsta kosti maður sem nefndur er Ofskattur Hagnaður Skógarfossson, vararformaður hópsins sem getið var um í upphafi. Næst mun reynt að fá samþykki fyrir nöfnunum Barn og Nafnleysa. Verður þá um síðir að barn verði skírt Ómála Drengur Nafnleysuson
Svo má ekki taka upp nafnið Christa vegna þess að fyrir því er engin hefð. Hef verður ekki til fyrr en búið er að sækja þrisvar um sama nafnið og fá jafnoft synjun eða ár hefur liðið frá fyrstu umsókn.
Má heita Kjói | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Aðlögunarviðræðurnar teyma Ísland inn í ESB
27.12.2012 | 11:18
Fékk þessa grein birta í Morgunblaðinu í morgun.
Við greiðum atkvæði um það á eftir hvort rétt sé eftir sem áður að láta reyna á í viðræðum hvers konar samningi sé hægt að ná til þess að þjóðin geti að því loknu hafnað honum eða samþykkt hann komi til niðurstöðu.
Þetta sagði Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna og þáverandi fjármálaráðherra, 16. júlí 2009 þegar Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu um aðildarumsókn að Evrópusambandinu.
Samþykkt aðild
Um hvaða samning og hvaða niðurstöðu er Steingrímur að tala? Hvað erum við að láta »reyna á«? Annað hvort fór maðurinn þarna með rangt mál eða hann vissi ekki betur.
Staðreyndin er sú að ekki er verið að semja, enginn samningur verður lagður fram. Þetta eru langt í frá samningaviðræður við ESB heldur er verið að aðlaga stjórnskipun, lög og reglur íslenska lýðveldisins og gera landið betur í stakk búið til að vera aðili að bandalaginu.
Í þessu er alvarlegasti misskilningurinn um ESB fólginn. Búið er að sækja um aðild og hún hefur í raun og veru verið samþykkt.
Viðræðurnar núna eru um þá þrjátíu og fimm kafla sem ESB krefst að við aðlögum okkur að. Þeir fjalla t.d. um fiskveiðar, landbúnað, flutninga, orkumál og fleira og fleira.
Aðlögunin
Utanríkisráðherrann og nefnd embættismanna íslenska ríkisins eru núna að telja embættismönnum ESB á skýran og skilmerkilegan hátt trú um að við höfum tekið upp skilyrði ESB í öllum þessum köflum. Þetta er rætt á svokallaðri ríkjaráðstefnu og þar samþykkja ríki ESB hvern áfanga aðlögunarinnar fyrir sig.
Þegar Noregi, Austurríki, Finnlandi og Svíþjóð var boðin innganga var einn samningur látinn duga fyrir þau öll, merkilegra var það nú ekki. Noregur felldi aðildina í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1992 en hin ríkin urðu meðlimir 1995. Síðan hefur inntökureglunum verið breytt og nú er enginn samningur í boði. Fyrir alla muni ekki rugla gamla umsóknarferlinu saman við aðlögunarferlið.
Enginn samningur
Að loknum aðlögunarviðræðunum gerist tvennt. ESB samþykkir að Ísland verði fullgildur aðili og hins vegar samþykkir Ísland boðið, annað hvort að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu eða án hennar. Þá rennur Ísland smurt inn.
Hingað til hafa engar sérkröfur verið lagðar fram af Íslands hálfu. Ef slíkar kröfur koma fram verða þær ræddar á næstu ríkjaráðstefnu og útkljáðar þar.
Steingrímur mun því miður ekki fá neinn samning til að velta fyrir sér og ekki heldur þjóðin.
Þjóðin á móti
Meirihluti ríkisstjórnarinnar á Alþingi hló þegar Sjálfstæðisflokkurinn lagði til að aðildarumsóknin væri fyrst lögð fyrir þjóðaratkvæði. Ríkisstjórnarmeirihlutanum fannst alveg ómögulegt að fara í tvær þjóðaratkvæðagreiðslur, gerði í bjartsýni sinni ráð fyrir að þjóðin legðist ekki gegn aðildinni. Annað hefur þó komið á daginn.
Ekki er nokkur möguleiki á að þjóðin samþykki aðild að ESB, allar skoðanakannanir benda í þá átt að aðildin verði kolfelld. Í raun skiptir ímyndaður samningur Steingríms engu máli.
Svik
Niðurstaðan er einfaldlega sú að ríkisstjórn Íslands sagði þjóðinni ósatt. Aðildarumsókninni fylgja ekki samningaviðræður og enginn samningur verður í boði. Þess í stað er gengið frá inngöngunni með hverjum kafla sem lokið er að ræða um, að því þó tilskildu að ríki ESB hafa látið sannfærast um að Ísland hafi breytt stjórnsýslu sinni, lögum og reglum til samræmis við þeirra eigin.
Ég hef rætt við fjölda fólks úr öllum stjórnmálaflokkum um aðildina. Fjölmargir halda því blákalt fram að ríkisstjórnin sé að semja við ESB um einhvern pakka sem getur verið afar fýsilegur fyrir Ísland. Þetta fólk heldur að enn sé gamla umsóknarferlið í gangi sem endar með snyrtilegum samningi sem aðilar pára nafn sitt á undir húrrahrópum aðkeyptra skemmtikrafta.
Þjóðaratkvæðagreiðsla
Við erum hins vegar komin langleiðina inn í ESB og ég sé ekki hvers vegna núverandi ríkisstjórn muni sætta sig við þjóðaratkvæðagreiðslu að lokinni aðlöguninni.
Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að hætta aðlögunarviðræðunum og efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið samhliða þingkosningum í apríl 2013.
Aðildin að ESB á að vera kosningamál og í því verður hið mikla fall Steingríms og Jóhönnu Sigurðardóttur fólgið.
Stjórnandi CNN kallar viðmælanda heimskan
26.12.2012 | 12:14
Mikið hefur verið rætt um morðárásina barnaskólanum í Newton í Connecticut. Rakst í morgun á viðtal Piers Morgans, hins enska þáttastjórnanda hjá CNN, við Larry Pratt hjá Gun Owners of America sem birtist rétt fyrir jól.
Flestir hljóta að vera á þeirri skoðun að það er engin lausn að fjölga skotvopnum til að verjast vitskertu fólki sem af einhverjum ástæðum telur sig þurfa að myrða aðra á leið sinni yfir móðuna miklu. Um þetta ræddu þeir af miklum móð í sjónvarpsþættinum sem eiginlega var lítið annað en hávaði og leiðindi, engin röksemdafærsla af neinu viti. Báðir gripu framm í fyrir hinum og Piers Morgan kallaði viðmælanda sinn heimskan.
Svona þættir eiga að geta verið mjög áhugaverðir og skemmtilegir fyrir áhorfendur og stundum eru þeir mjög fræðandi hjá Piers Morgan. Ekki þó að þessu sinni. Það kann ekki góðri lukku að stýra þegar þáttastjórnandinn hefur skoðun og notar tækifærið til þess eins að berja á viðmælanda sínum. Í senn er það hvort tveggja afar ókurteist og einnig misnotkun á aðstöðu sinni. Síst af öllu er svona upplýsandi fyrir áhorfendur.
Ég er þess fullviss að Piers Morgan hefði getað með einfaldri og hnitmiðaðri röð spurninga gert viðmælanda sinn rökþrota, snúið hann niður hávaðalaust. Þá komum við að þeirri spurningu sem eiginlega er mest knýjandi að fá svar í þessu sambandi. Er það hlutverk fjölmiðils að koma höggi á viðmælanda sinn? Munum að hér er aðeins verið að tala um viðræðuþátt, ekki fréttaflutning.
Sumir kunna að segja að svo geti verið í vissum tilvikum, til dæmis að sýna fram á tvískinnung og heimsku vopnaeigenda. Jafnvel finnst sumum þetta eiga alveg eins við þegar viðtöl eru tekin við dæmda glæpamenn.
Aðrir segja þetta varhugaverðan braut sem fjölmiðlar séu sumir hverjir að feta sig inn á. Þá koma alltaf upp ótal álitamál um efni og efnistök. Málin eru ekki alltaf svo borðliggjandi sem sumir halda. Það sem einum finnst mikið réttlætismál telur annar lítils virði.
Álit mitt er að það kunni aldrei góðri lukku að stýra ef þáttarstjórnandi taki afstöðu í þætti sínum. Hann á að sjálfsögðu alltaf að vera gagnrýninn á viðmælanda sinn, vera the devil's advocate svo maður brúki nú útlensku til að vera sennilegur. Framar öllu finnst mér þó að hann eigi að vera kurteis af þeirri einföldu ástæðu að fæstir vilja vera viðmælendur froðufellandi stjórnanda sem á það til að kalla menn heimska.
Svo er það hitt sem fæstir nefna og það eru leikir. Við erum líklega flest þannig innrætt að enn höfum við yndi af opinberri hýðingu. Að minnsta kosti verð ég að viðurkenna að ég hafði í aðra röndina dálítið gaman af þessum þætti ... og er nú áreiðanlega kominn í hring í röksemdafærslu minni.
Þrjár einstakar en ólíkar myndir
25.12.2012 | 12:26
Jóladagsmorgun er alltaf einstaklega fallegur í hógværð sinni og kyrrð. Hvergi heyrist hljóð, þögn ríkir, jafnvel hér í Reykjavík. Þessar fyrstu stundir eru yndislegar og sú spurning dettur inn í kollinn, af hverju getur þetta ekki verið svona á hverjum degi ...? Svarið er afar einfalt. Þá myndi jóladagsmorgun ekki lengur skera sig úr öllum öðrum 365 dögum ársins.
Ég hef búið við Húnaflóa. Þar finnast mér fallegt. Skýjafar við flóann eru stórkostleg og engin hógværð í tilbrigðum náttúrunnar á þeim slóðum. Fyrsta myndin er af bát sem siglir inn flóann í október árið 2009 og ég tók myndina frá Spákonufellshöfða á Skagaströnd. Þarna var kyrrðin algjör og þó langt væri í bátinn mátti heyra lávært vélarhljóðið. Þetta myndu einhverjir kalla stemmingsmynd og vissulega er hún það.
Margir halda að ég hafi eitthvað fiktað í næstu mynd og breyta henni. Það kann ég ekki. Hún er eins sönn og aðstæður voru á þessum degi í nóvember 2010. Ég var á leiðinni til Skagastrandar og þarna ólmuðust skýin í skammdeginu fyrir ofan bæinn og fjær sést engu að síður yfir til Stranda. Myndina tók ég út um bílgluggann og dauðsé eftir því að hafa ekki stillt upp með þrífót.
Þriðja og síðasta myndin er ekkert merkileg ljósmynd sem slík en hún sýnir skemmtilegt fyrirbrigði. Þarna er horft inn eftir Húnafirði. Regnþrungin ský hanga yfir hafi og landi en svo gerist það smám saman að skýr fellur á og þá er eins og himinn og haf tengist.
Man ekki hvort ég hef birt þessar myndir áður en mér þykir afar vænt um þær. Lesendur gætu haft gaman af því að smella á myndirnar og stækka þær allt upp í skjástærð. Þannig njót þær sín ágætlega.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)