Loksins koma áramót

DSC_0076 - Version 2Einu sinni fundust mér áramót vera stórkostlegur viðburður. Í raun má það vera þegar litið er á almanakið og síðar á mannlífið kann svo að vera. Þegar maður horfir til veðurs og náttúrufars er ekkert sem bendir til þess að merkilegur atburður sé í þann mund að verða. Um leið og ég skrifa þetta braust sólin fram úr skýjunum og skín inn um gluggann hjá mér og varpar yl í stofuna.

Ár er bara fjöldi daga, umferð jarðar í kringum sólu. Auðvitað stórkostlegt til umhugsunar og hefur áhrif á daglegt líf þó við skynjum þetta ekki í stórleika sínum. Við horfum einfaldlega til þess sem náttúran og umhverfið færir okkur, hvernig við getum notið þess.

Ég valdi nokkuð snemma að fara út, ganga á fjöllin og njóta náttúru landsins. Þetta hefur gefið mér ákaflega mikla lífsfyllingu og ekki síður hef ég átt gönguleið með fjölmörgu góð fólki og nokkrum nánum vinum. Fyrir það er maður óendanlega þakklátur.

Síðustu mánuði hef ég haft tíma til að taka til í risastóru myndasafni, skannað inn nær allar þær slidesmyndir sem ég á og komið þeim í tölvutækt form. Á núna „aðeins“ eftir að skanna inn negatívurnar mínar. Þessu verkefni fylgdu góðar og slæmar tilfinningar. Ég hélt ég væri góður ljósmyndari en ég hef uppgötvað að svo er ekki. Hins vegar hef ég getað upplifað fjölda skemmtilegra ferða og atvika sem ég hafði nær gleymt en vegna myndanna geymist þetta. 

Í sumar fór ég með góðu fólki í Hattver. Efri myndin er tekin á stafræna myndavél og er horft til Landmannalauga. Neðri myndin er tekin í júlí 1981 í hveragilinu innst í Innstadal. Læt þetta duga á þessu ári - held ég ...

Óska öllum gleðilegs nýs árs.800700 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Gleðilegt ár, myndirnar hér að ofan eru fallegar, hef eigi komið á þessa staði í 50 ár eða svo.

Hef aldrei þolað gamlárskvöld.

Kveðja með þökk fyrir marga góða pistla.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 1.1.2013 kl. 00:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband