Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2012
Straumnesfjall og fjaran
25.11.2012 | 21:39
Aðalvík markast í suðvestri af fjallinu Ritur og í norðaustri er Straumnesfjall. Þar norðvestast er Straumnesröstin, mætast þar straumar og getur stundum verið mjög ókyrrt þar, sérstaklega fyrir minni báta.
Straumnesfjaran allt frá Straumnesi og inn að Látrum í Aðalvík getur verið viðsjálverð. Þar er ekkert annað en fjaran og nær þverhnípt fjallið fyrir ofan.
Utarlega í fjörunni strandaði Goðafoss, nýtt skip Eimskipafélagsins 30. nóvember 1916. Enn sést ryðbrunnið járn úr skipinu í fjörunni og svolítil skipsmynd er á því.
Á efstu myndinni, sem tekin er af Ritnum, sést Straumnesfjall. Langt fjall og mikill bergveggur.
Á næstu mynd, sem ég tók úr flugvél, sést hversu fjaran undir fjallinu er lítil. Engu að síður er hægt að fara þarna um. Fyrir mörgum árum gekk ég frá Straumnesi og inn að Látrum í afskaplega góðu veðri. Engu að síður varð manni nóg um þegar öldur náðu að falla svo að segja á lappirnar á manni. Stundum varð maður að hlaupa undan þeim upp í bratta hlíðina. En þetta tókst. Veit ekki hvort ég myndi treysta mér til þess að ganga þarna í dag.
Þriðju myndina tók ég einhvern tímann af sjó og þarna sést flakið af Goðafossi. Ég á betri myndir af því sem ég tók úr fjörugöngunni en þær eru ekki enn á tölvutæku formi. Á einni þeirra sést hluti af mastri sem beinist skáhalt upp í loftið. Það er fyrir löngu fallið
Af þessum myndum má sjá að vistin undir Straumnesfjalli er ekki góð fyrir skipsbrotsmenn, sérstaklega ekki í myrkri í nóvember. Þegar Goðafoss strandaði komst áhöfn og farþegar ekki í land fyrr en eftir þrjá daga vegna veðurs og þurfu flestir að hírast í köldu skipinu allan þennan tíma.
Bætti við mynd af Straumnesvita sem ég tók úr lofti og á henni má sjá hversu lítið undirlendi er þarna á Straumnesi.
Mennirnir heilir á húfi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 26.11.2012 kl. 00:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Persónuleg vonbrigði en ...
25.11.2012 | 10:22
Oft eru margir kallaðir en fáir útvaldir. Ég var talsvert langt frá því að ná árangri í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Þegar þetta er ritað er mér ekki enn ljóst hver niðurstaðan er. Hins vegar fékk ég uppgefið að í sæti eitt til sjö fékk ég 855 atkvæði sem er feikilangt frá viðunandi árangri.
En svona er lífið. Ég eyddi ekki miklu fé í prófkjörsbaráttuna. Var talsvert langt undir þeim 400 þúsund krónum sem eru mörk Ríkisendurskoðunar um skil. Tek eftir því að allir nýir frambjóðendurnir sem góðum árangri náðu eyddu miklu meira en það, frá einni milljón króna og meira. Ef til vill er það enn svo að auglýsingar ráði meiru en allt annað.
Jú, þetta eru vonbrigði. Árangurinn breytir þó engu um skoðanir mínar og áherslur í stjórnmálum. Ég er og verð með áherslur í umhverfis- og náttúruverndarmálum, ég tel að við þurfum að lagfæra halla vegna verðtryggingarinnar, gengislánanna og framar öllu þurfum við að útrýma atvinnuleysi með því að efla atvinnuvegi landsmanna. Þetta gerum við ekki með því að skattleggja almenning og fyrirtæki á þann hátt sem núverandi ríkisstjórn gerir.
Ég þakka þeim fjölmörgu sem studdu mig. Ekki síst þeim sem sendu mér fyrirspurnir og hringdu í mig. Það var gaman að rökræða við ókunnugt fólk um mikilvæg málefni.
Að sjálfsögðu óska ég þeim sem náðu góðum árangri til hamingju. Ég gleðst yfir stöðu Hönnu Birnu Kristjánsdóttir, Pétur Blöndal stóð sig vel, og Birgir Ármannsson hélt stöðu sinni og ég er ánægður með það. Guðlaugur Þór átti í erfiðleikum en litlu munaði á honum og þeim sem voru í þremur sætum fyrir ofan hann. Sigríður Andersen má vel við una, hún er baráttukona og býr yfir miklu pólitískum eldmóði.
Vinur minn, Brynjar Níelsson er ásamt Hönnu Birnu ótvíræður sigurvegari prófkjörsins. Brynjar er fyrst og fremst mannvinur og býr yfir mikilli réttlætiskennd.
Mér þótti leitt að Jakob F. Ásgeirsson skyldi ekki komast ofar. Hann er djúpur pólitískur hugsuður og greinilega vanmetinn.
Svona er nú lífið og svona verður það ...
Lúxusvandamál Sjálfstæðisflokksins leyst
24.11.2012 | 16:40
Mikill lúxus fyrir Sjáflstæðisflokknum Norðvesturkjördæmi að geta valdið á þriggja einstaklega góðra manna, Eyrúnar Sigþórsdóttur, Sigurðar Ágústssonar og Guðmundar Kjartanssonar.
Þekki þá Sigurð og Guðmund ágætlega og get fullyrt að þeir hefðu verið góðir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins á þingi. Eyrún hefur mikla reynslu í stjórnmálum og verður afburðaþingmaður.
Er viss um að Sjálfstæðisflokkurinn fær fjóra menn kjörna í Norðvesturkjördæmi í næstu Alþingiskosningum.
Eyrún verður í þriðja sæti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bóndi á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn
24.11.2012 | 16:04
Svo maður grípi til talsmáta sjónvarpsmanna í RÚV: Hér eru töluverð pólitísk tíðindi að gerast ... Haraldur er nýr maður í stjórnmálum og afskaplega sterkt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að fá mann með yfirburðaþekkingu á landbúnaði inn á þing. Hann hefur staðið sig vel gegn ásælni ESB sinna í aðlögunarviðræðunum.
Þó neita ég því ekki að ég hefði viljað sjá Eyrúnu Ósk Sigþórsdóttur fá þessu sæti. Hún hefði ekki verið síðri fyrir Sjálfstæðisflokkinn en Haraldur.
Haraldur náði öðru sætinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Traustur maður í fyrsta sæti
24.11.2012 | 15:47
Einar Kr. Guðfinnsson er traustur maður með yfirburðaþekkingu á sjávarútvegsmálum. Hann þó fyrst og fremst góður og heiðarlegur og mannvinur. Slíkir eiga erindi í stjórnmálin.
Ástæða er til að óska honum til hamingju með að vera aftur orðinn leiðtogi Sjálfstæðismanna í Norðvesturkjördæmi. Fróðlegt verður að sjá hverjir skipi næstu sæti.
Hins vegar er ástæða til að gagnrýna kjördæmisráð Sjálfstæðisflokksins fyrir að leggja ekki í að efna til prófkjörs. Þau eru miklu mikilvægari og sterkari pólítískt séð en kjördæmisþing.
Myndin er af tveimur góðu, Einari Kr. og Ólafi Bernódussyni í göngu á Spákonufell við Skagaströnd.
Einar verður í fyrsta sæti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Draumspakur og Kverfjallaskjálftinn
24.11.2012 | 15:42
Draumspakur maður hafði samband við mig og afhenti mér greinargerð um hættur er stafa af jarðskjálftum. Hann sagði það samróma álit draumspakra að brátt dragi til tíðinda. Þeir hafa krosstengt drauma sína og staðsett sjálfa sig í beinni tengingu við efni og hnattstöðu. Með rafrænni tilvísun í svefnvenjur og siði er hægt að finna nákvæmlega út til dæmis hvar mest hætta er á eldgosum.
Þetta félag draumspakra heldur því fram að á Íslandi muni bresta á með eldgosi, einu eða fleirum, innan við viku héðan í frá, en þó kann að vera lengra í það, jafnvel mánuður, hálft ár eða meira. Þó vart meir en tíu ár. Með tölfræðilegri nákvæmni drauma er rökstutt að innan áðurnefndra tímatakmarkana verði eldgos og að yfirgnæfandi líkur er að það sé nálægt þeim stað er hraun rennur. Þó er hugsanlegt að það verði þar sem reykur stígur upp fjarri mannabyggði eða skammt frá, þó vart í byggð. Á sjó eða landi. Kannski fjöru ...
Er við kvöddumst benti draupspaki maðurinn á að jörð skelfur í Kverkfjöllum og það er frekar kalt og snjór yfir öllu. Þarf að rökstyðja þetta nánar, sagði hann með fullvissu þessi sem allt veit, og gekk út til þess eins að hrasa í hálkunni. Honum varð ekki meint af nema hann hafi meitt sig ...
Meðfylgjandi mynd var tekin skálann í Kverkfjöllum árið 1991. Fólk að búa sig til gönguferðar yfir jökulinn.
Jarðskjálfti við Kverkfjöll | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þrjú ráð til kjósenda í prófkjöri
24.11.2012 | 11:38
Ég kaus í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í morgun um klukkan hálf ellefu. Arkaði inn í Valhöll og merkti við átta frambjóðendur þar á meðal kaus ég sjálfan mig.
Þrjú ráð get ég gefið þeim sem eiga eftir að kjósa:
- Minnislisti: Best er að skrifa heima niður nöfn þeirra sem maður ætlar að kjósa og fara svo með þann minnislista á kjörstað. Þannig er fljótlegra fylla út atkvæðaseðilinn og fyrir vikið er minni hætta á að gera einhver mistök, gleyma einhverjum eða kjósa óvart einhvern sem ekki var ætlunin að merkja við.
- Forystusætin: Við þurfum að vanda valið á fólki í tvö efstu sæti listans. Þessi sæti eru forystusæti í norður og suður kjördæmum Reykjavíkur og þar á einfaldlega að velja forystumenn. Ég óska til dæmis eftir sjötta sætinu, ætla mér ekki að leiða listann, aðrir keppa um þann heiður. Og til þess að endanlegur listi sé trúverðugur tel ég brýnt að við veljum vandlega þá sem við treystum til forystuhlutverksins. Blöndum ekki öðrum í þá baráttu.
- Endurskoða: Í lokin er mikilvægt fyrir kjósandann að fara vel yfir það sem maður hefur skrifað á atkvæðaseðilinn. Telja merkingarnar því hvorki má velja fleiri eða færri en átta frambjóðendur. Enginn má vera með sama númer, munum það.
Ef til vill finnst mörgum óþarft að nefna þetta, en engu að síður er það alltof algengt að atkvæði séu dæmd ógildi vegna fljótfærni á borð við þá sem verið er að vara við hérna.
Mikilvægast er að niðurstaðan verði góð fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Við fáum frambærilegan og traustan lista út úr þessu prófkjöri, fólk sem getur unnið landi sínu gagn.
Myndina hér að ofan er tók ég skammt frá Hattveri en það er innst inni í Jökulgili, ekki langt frá Landmannalaugum. Fjallið fyrir aftan ferðafélaga mína er Gullfjallið sem margir nefna svo, því það glóir í sólskininu eins og það sé úr gulli gert. Heillandi og stórkostlegt umhverfi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Íhald leitar stuðnings
23.11.2012 | 17:48
Á morgun en komið að því. Þá er kosið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Ég sækist eftir stuðning í 6. sætið en er öllum óbundinn nema stefnu minni og skoðunum sem ég hef lengi viðrað hér á þessari bloggsíðu og einnig á vefsíðu minni, www.sigsig.is. Eftir því sem ég hef orðið eldri hef ég orðið íhaldasamari og þá á ég við í jákvæðri merkingu þess orðs.
Kosningaréttur
Allir mega kjósa séu þeir búsettir í Reykjavík, eru félagar í Sjálfstæðisflokknum eða undirrita inntökubeiðni inn í flokkinn. Hið síðarnefnda má gera mínútu áður en kosið er.
Grænt íhald
Ég er ekki nýkominn í stjórnmál. Hef lengi starfað innan Sjálfstæðisflokksins og barist þar fyrir skoðunum mínum og stefnu.
Ég er grænn, vil vernda landið. Ég hef notið þess að ferðast um það eiginlega mestan hluta æfi minnar. Ég hef tekið ástfóstri við það og vil vernda það og verja. Það þýðir ekki að ég sé á móti virkjunum eða öðrum mannvirkjum. Alls ekki. Hins vegar vil ég fara varlega. Ég sætti mig ekki við landspjöll og vil ekki að við breytum landinu bara vegna þess að við getum það. Hellisheiðarvirkjun er víti til varnaðar. Það sem þar gerðist vil ég kalla hryðjuverk, sætti mig ekki við slíkt.
Blátt íhald
Svo er það allt annað mál að við þurfum að byggja upp atvinnulífið. Það á í miklum vanda vegna hrunsins. Án atvinnulífsins verður engin framþróun. Verðmætasköpunin kemur ekki af opinberum störfum, hún byggist á m.a. útflutningi, öflugum útflutningi. Við þurfum að endurskipuleggja skattkerfið sem alla er lifandi að drepa og gerir það að verkum að frumkvæði fólks og fyrirtækja verður ekki neitt. Okkur vantar hvatningu til að halda áfram, byggja upp.
Rautt íhald
Vandi samfélagsins er mikill eftir nær fjögurra ára vinstri stjórn. Ég er ekki sáttur við ástandið í þjóðfélaginu, mér eins og mörgum er eiginlega ofboðið. Dæmi:
- Atvinnuleysi er 10%, þúsundir komast ekki á atvinnuleysisskrá og fólk flýr land.
- Skuldastaða heimilanna: Eignarhluti fólks í íbúðum tapaðist, en skuldirnar björguðust einhverra hluta vegna (!) og þær eru rukkaðar af fullu afli.
- Fátækt: Kannanir benda til þess að um 16 þúsund manns eigi stundum eða oft ekki fyrir nægum mat.
- Verðtrygging lána: Við verðum að vinna að afnámi verðtryggingarinnar
Ég vil að við höfnum átakastjórnmálum og vinnum að því að sameina þjóðina, snúa ofan af letjandi ofurskattkerfi, berjast fyrir hagsmunum almennings og byggja upp atvinnulífið öllum til hagsbóta.
Kjósa íhaldsmann
Ég hvet þá sem meta skoðanir mínar einhvers til að kjósa í prófkjörinu. Það er svo auðvelt, jafnvel þó viðkomandi sé ekki flokksbundinn.
Ekki geta allir sem fá þetta lesa kosið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins. Þeir sem vilja styðja mig geta aðstoðað, t.d. mæla með mér við þá sem geta kosið, hvatt fólk í Reykjavík til að kjósa. Ég væri þakklátur fyrir alla aðstoð.
Eitt held ég að sé víst. Framundan geta orðið miklar breytingar í íslenskum stjórnmálum. Mig langar til að taka þátt og óska eftir stuðningi til þess.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Hressandi að hitta Ómar Ragnarsson
23.11.2012 | 14:06
Stundum er skammt á milli önugheita og gleði. Því kynntist ég í morgun. Hitti að máli bólstrara í Kópavogi út af hægindastól sem skemmdist í flutningum fyrr á árinu, leðurlíkið er að flagna af. Ekkert er við því að gera, sagði fagmaðurinn. Settu bara teppi á stólinn.
Ég ók fúll heimleiðis, lenti í því að tveir bílar svínuðu illilega fyrr mig og varð enn fúlli. Í bakaríinu var biðröð og það kemur stundum fyrir að maður er síðastur og svo bætist enginn við og þá er magnast fýlan. Og með brauðið í hendinni hraðaði ég mér fúll út úr bakaríkinu, rekst næstum því á konu sem ég þó gef ekki neinn gaum í önugheitum mínum. Þá heyri ég að hún segir ofurlágt en skýrt:
Ég kaus þig nú, Sigurður.
Ég snarstoppa og lít í kringum mig og síðan á konuna. Sá þá skyndilega að þetta var hún Helga Jóhannsdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Auðvitað heilsaði ég henni með virktum og skammaðist mín um leið að hafa ekki tekið eftir henni.
Og ég spyr hana hvort hún sé enn í Sjálfstæðisflokknum því maðurinn hennar fór yfir til Samfylkingarinnar fyrir nokkrum árum. Já, hún hélt nú það.
Ég fer nú ekki að yfirgefa minn gamla flokk, sagði hún með áherslu. Við gengum saman út úr húsinu og þar á bílastæðinu var eiginmaðurinn, Ómar Ragnarsson og beið eftir Helgu sinni.
Það er alveg met hvernig Ómar tekur á móti fólki. Hann veifaði báðum höndum og hóaði eins og jólasveinn:
Þarna ertu, ég las bloggið þitt í gær og þú hafðir alveg rétt fyrir þér. Ég er búinn að skrifa blogg um þetta sama. Og svo sagði hann mér frá hremmingum sínum á Kanaríeyjum og drukknum eldri borgurum sem sumir geta aldrei haft hóf á drykku sinni eða sýnt neina kurteisi.
Ég hélt að þú ætlaðir að nefna við mig bloggið mitt um greinina þína um Eldvörpin við Grindavík sem þú birtir í Fréttablaðinu í gær, sagði ég. En Ómar hafði ekki séð hana og við ræddum stuttlega um þau hryðjuverk sem þar eru í uppsiglingu.
Þegar við kvöddumst hvatti hann mig til að standa mig í grænu málunum. Um daginn kallaði hann mig kjarkmann að leggja áherslu á umhverfis- og náttúruverndarmál í prófkjöri í Sjálfstæðisflokknum. Hann átti líklega við að allur flokkurinn myndi sparka mér út í hafshauga fyrir vikið.
Ég er nú ekki á þeirri skoðun. Fái ég ekki gott gengi í prófkjörinu á morgun þá verður það áreiðanlega ekki þess vegna. Fæ ekki annað séð en að allir sem ég tala við séu sammála áherslum mínum í þessum efnum. Tímarnir eru að breytast og nýjar kynslóðir eru komnar sem ferðast um landið, njóta þess og taka ástfóstri við það, eins og ég hef svo oft sagt. Við þurfum ganga varlega um landið.
Mikið afskaplega leið mér nú vel eftir að hafa hitt Ómar. Hann er mannbætandi. Eða eins og sagt var um Ópal; bætir, hressir og kætir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Ellinni tekst aldrei að siða æskuna
23.11.2012 | 10:34
Ekkert í veröldinni finnst mér leiðinlegra en önugt fólk. Sem betur fer er ekki mikið til af því annars væri maður ábyggilega sjálfur miklu önugri ... En það er nú annað mál.
Eiður Guðnason, fyrrverandi fréttamaður, þingmaður, ráðherra, sendiherra og ábyggilega miklu meira er mikill baráttumaður fyrir íslenskt mál. Les hann alltaf mér til dálítils gagns.
Stíll manna er mismunandi. Ósjálfrátt er Eiður bæði leiður og önugur í skrifum sínum. Biðst afsökunar á þessu, veit að það er ekki málefnalegt að ráðast svona að einstaklingi, en þetta er engu að síður satt. Leiður stíllinn dregur úr áhrifum orða hans og gengisfellir tilganginn. Andlegur tvíburabróðir Eiðs heitir Sighvatur Björgvinsson og hefur jafnvel fleiri og fjölbreyttari fyrrverandi titla til að státa af. Hann hefur sitthvað að athuga við samfélagið sem hann átti þátt í að skapa sem stjórnmálamaður. Honum er gjörsamlega ómögulegt að rita vinsamlega um nokkurn skapaðan hlut. Allt dæmir hann til áfellis, allt er kolómögulegt og önugheitin leka af skrifunum mannsins. Enn biðst ég afsökunar á illmælgi minni en svona er'etta nú barasta.
Nokkrir ungir menn hafa spaugað í Kastljósi Ríkisútvarpsins að undanförnum undir nafninu Hraðfréttir. Stundum eru þeir bráðskemmtilegir, stundum ekki, og þetta er bara mitt mat. Margir hafa óskaplega gaman að þessum drengjum en öðrum stekkur ekki bros á vör. Má þá frekar biðja um lífsglöð ungmenni sem reyna að skemmta fólki með ófyrirséðum uppátækjum sínum. Eldra fólk hnussaði og fussaði yfir Útvarpi Matthildi á sínum tíma og ekki þótti mörgum af eldri kynslóðinni mikið varið í Spaugstofuna eða Fóstbræður.
Eiður skilur ekkert í unga fólkinu og skopskyninu hefur hann fyrir löngu tapað. Himininn hefur hrunið vegna Hraðfrétta og jaröðin er í þann vegin að brotna upp.
Sem betur fer ungt fólk sínar leiðir hvað sem Eiður, Sighvatur eða við hin segjum. Þannig var það fyrir á öldum er þeir tvíburabræður voru ungir og mannvænlegir og þannig er það í dag er þeir fussa og sveia yfir síðustu og verstu tímum Íslandssögunnar.
O tempora o mores, segja þeir eins og Cicero forðum. Og þegar upp er staðið hefur ekkert breyst, ellin reynir alltaf að siða æskuna en sem betur fer hefur henni aldrei tekist það.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)