Straumnesfjall og fjaran

900718-58

Aðalvík markast í suðvestri af fjallinu Ritur og í norðaustri er Straumnesfjall. Þar norðvestast er Straumnesröstin, mætast þar straumar og getur stundum verið mjög ókyrrt þar, sérstaklega fyrir minni báta.

Straumnesfjaran allt frá Straumnesi og inn að Látrum í Aðalvík getur verið viðsjálverð. Þar er ekkert annað en fjaran og nær þverhnípt fjallið fyrir ofan.

Utarlega í fjörunni strandaði Goðafoss, nýtt skip Eimskipafélagsins 30. nóvember 1916. Enn sést ryðbrunnið járn úr skipinu í fjörunni og svolítil skipsmynd er á því.

930810-88

Á efstu myndinni, sem tekin er af Ritnum, sést Straumnesfjall. Langt fjall og mikill bergveggur.

Á næstu mynd, sem ég tók úr flugvél, sést hversu fjaran undir fjallinu er lítil. Engu að síður er hægt að fara þarna um. Fyrir mörgum árum gekk ég frá Straumnesi og inn að Látrum í afskaplega góðu veðri. Engu að síður varð manni nóg um þegar öldur náðu að falla svo að segja á lappirnar á manni. Stundum varð maður að hlaupa undan þeim upp í bratta hlíðina. En þetta tókst. Veit ekki hvort ég myndi treysta mér til þess að ganga þarna í dag.

Þriðju myndina tók ég einhvern tímann af sjó og þarna sést flakið af Goðafossi. Ég á betri myndir af því sem ég tók úr fjörugöngunni en þær eru ekki enn á tölvutæku formi. Á einni þeirra sést hluti af mastri sem beinist skáhalt upp í loftið. Það er fyrir löngu fallið

900718-127

Af þessum myndum má sjá að vistin undir Straumnesfjalli er ekki góð fyrir skipsbrotsmenn, sérstaklega ekki í myrkri í nóvember. Þegar Goðafoss strandaði komst áhöfn og farþegar ekki í land fyrr en eftir þrjá daga vegna veðurs og þurfu flestir að hírast í köldu skipinu allan þennan tíma. 

930810-91

Bætti við mynd af Straumnesvita sem ég tók úr lofti og á henni má sjá hversu lítið undirlendi er þarna á Straumnesi.


mbl.is Mennirnir heilir á húfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigríður Jósefsdóttir

Það er nú ekki svona mikið eftir af Goðafossi í dag.  En mér skilst að báturinn í kvöld hafi farið austan við vitann.  Það hefur ekki verið auðvelt fyrir þyrluna að athafna sig þar.

Sigríður Jósefsdóttir, 25.11.2012 kl. 23:00

2 Smámynd: Vilhjálmur Stefánsson

þessi hlíð sem myndin er af heitir Grænuhið við þessa hlíð stendaði Egill Rauði..

Vilhjálmur Stefánsson, 25.11.2012 kl. 23:38

3 Smámynd: Sigríður Jósefsdóttir

Rétt hjá þér, Vilhjálmur, að Egill Rauði strandaði undir Grænuhlíð, en hún er vestan Aðalvíkur í snýr inn í Ísafjarðardjúp.  Myndirnar sem fylgja með þessari grein eru hins vegar allar teknar í Aðalvík.  Ég get vottað það sem heimamaður sem fer þarna um á hverju sumri.

Sigríður Jósefsdóttir, 25.11.2012 kl. 23:47

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Ég tel mig næstum því heimamann, hef verið lengi í „ástfóstri“ í Aðalvík, eða þannig, og get líka vottað að þetta er Straumnesfjall. Annas færi ég nú ekki að birta þessa mynd ...

Það er hvergi pláss fyrir þyrluna nema þarna á þessu litla Straumnesi, Sigríður. Bætti við í pistil inn loftmynd af vitanum og svæðinu fyrir norðan hann.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 26.11.2012 kl. 00:36

5 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Þakka góða grein. Þessi grein í morgunblaðinu kom mér til að endurvekja baráttu mína og að lögleiða rekakkeri aftur eins og það var fyrir EES samninganna en þá voru þau tekin í burt sem skildu tæki í bátum þrátt fyrir að það voru komin nútíma rekakkeri og samþykkt að siglingamálastofnun. sjá blog ef áhugi er,  http://skolli.blog.is/blog/skolli/#entry-1270141

Valdimar Samúelsson, 26.11.2012 kl. 11:38

6 Smámynd: Guðbrandur Þ Guðbrandsson

Sæll Sigurður og takk fyrir skemmtileg blogg fyrr og síðar.

Fréttaflutningur af þessu strandi var fremur óljós, allavega í gærkvöldi, svo sem eðlilegt má telja miðað við aðstæður. 

Það var hægt að fylgjast með aðgerðum í gegn um AIS kortin og þar sást, að umræddur bátur strandaði ekki undir Straumnesfjallinu sem slíku, heldur norðar og austar, þar sem heita Skorar utanvert við Rekavík bak Látur, en þetta þekkir þú allt saman vel, Sigurður. Svolítil flös er austan við strandstaðinn og vera kann, að skipbrotsmennirnir hafi getað brotist þangað og þyrlan náð þeim þar. Það er eins og þú manst allmikil hvilft í fjallið norðaustur af vitanum og síðan gengur annar fjallsrani fram þar og uppi á honum var ratsjárstöðin, held að kunnugir kalli þetta Bæjarfjall Rekavíkurmegin. Góðar kveðjur. 

Guðbrandur Þ Guðbrandsson, 26.11.2012 kl. 11:39

7 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Þetta með rekakkerið er afar fróðlegt, Valdimar.

Þakka innlitið, Guðbrandur. Ég kannast við það sem þú lýsir. Hef gengið niður frá radarstöðinni og í skálina og þaðan niður að vitanum. Frekar bratt og torleiði. Las einhvern tímann um bónda í Rekavík bak Látur sem fór þessa leið nokkrum sinnum í viku, allan veturinn til að sinna skipta um gaskúta í vitanum. Það hljóta að hafa verið erfiðar ferðir. Þarna niðri er afar lítið undirlendi, eins og þú segir.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 26.11.2012 kl. 12:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband