Ellinni tekst aldrei að siða æskuna

 

Ekkert í veröldinni finnst mér leiðinlegra en önugt fólk. Sem betur fer er ekki mikið til af því annars væri maður ábyggilega sjálfur miklu önugri ... En það er nú annað mál.

Eiður Guðnason, fyrrverandi fréttamaður, þingmaður, ráðherra, sendiherra og ábyggilega miklu meira er mikill baráttumaður fyrir íslenskt mál. Les hann alltaf mér til dálítils gagns.

Stíll manna er mismunandi. Ósjálfrátt er Eiður bæði leiður og önugur í skrifum sínum. Biðst afsökunar á þessu, veit að það er ekki málefnalegt að ráðast svona að einstaklingi, en þetta er engu að síður satt. Leiður stíllinn dregur úr áhrifum orða hans og gengisfellir tilganginn. Andlegur tvíburabróðir Eiðs heitir Sighvatur Björgvinsson og hefur jafnvel fleiri og fjölbreyttari fyrrverandi titla til að státa af. Hann hefur sitthvað að athuga við samfélagið sem hann átti þátt í að skapa sem stjórnmálamaður. Honum er gjörsamlega ómögulegt að rita vinsamlega um nokkurn skapaðan hlut. Allt dæmir hann til áfellis, allt er kolómögulegt og önugheitin leka af skrifunum mannsins. Enn biðst ég afsökunar á illmælgi minni en svona er'etta nú barasta.

Nokkrir ungir menn hafa spaugað í Kastljósi Ríkisútvarpsins að undanförnum undir nafninu Hraðfréttir. Stundum eru þeir bráðskemmtilegir, stundum ekki, og þetta er bara mitt mat. Margir hafa óskaplega gaman að þessum drengjum en öðrum stekkur ekki bros á vör. Má þá frekar biðja um lífsglöð ungmenni sem reyna að skemmta fólki með ófyrirséðum uppátækjum sínum. Eldra fólk hnussaði og fussaði yfir Útvarpi Matthildi á sínum tíma og ekki þótti mörgum af eldri kynslóðinni mikið varið í Spaugstofuna eða Fóstbræður.

Eiður skilur ekkert í unga fólkinu og skopskyninu hefur hann fyrir löngu tapað. Himininn hefur hrunið vegna Hraðfrétta og jaröðin er í þann vegin að brotna upp.

Sem betur fer ungt fólk sínar leiðir hvað sem Eiður, Sighvatur eða við hin segjum. Þannig var það fyrir á öldum er þeir tvíburabræður voru ungir og mannvænlegir og þannig er það í dag er þeir fussa og sveia yfir síðustu og verstu tímum Íslandssögunnar.

O tempora o mores, segja þeir eins og Cicero forðum. Og þegar upp er staðið hefur ekkert breyst, ellin reynir alltaf að siða æskuna en sem betur fer hefur henni aldrei tekist það. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband