Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2012

Aðeins einn jarðskjálfti á einum sólarhring

MúrdalsjÍ gær, laugardaginn 7. janúar 2012, bar það til tíðinda að aðeins einn jarðskjálfti mældist í Mýrdalsjökli. Segi og skrifa eitt stykki, 1. Telst það nú vera frekar aumt miðað við umtal og vísindalegar kröfur til eldfjalls sem komið er langt fram yfir eðlilega meðgöngu.

Meðfylgjandi er jarðskjálftakort Veðurstofunnar frá því í dag. Þar má sjá að skjálftinn í gær var 2,1 að stærð, sem þykir líklega vel í látið þrátt fyrir allt. Þess ber að geta að svo nákvæm eru mælitæki Veðurstofunnar að jafnvel hóstakjöltur í Vík í Mýrdal mælist á óróamælum.

Við leikmenn kunnum engin ráð önnur en að skoða hvenær Katla hefur gosið og svo reiknum við meðaltal á milli gosa og segjum að fimmtíu ár séu nægilegur meðgöngutími.

Haraldur Sigurðsson jarðeðlisfræðingur, segir þetta hins vegar hina mestu firru og telur jarðeðlisfræðilegu merkin í eldstöðinni og nágrenni hennar merkilegri. En hvað veit Haraldur svo sem. Hann hefur bara rannsakað eldgos alla sína starfsæfi og er aðeins jarðeðlisfræðingur að mennt.

Við leikmenn vitum miklu meira. Marga hefur margsinnis dreymt fyrir Kötlugosi, miðlar og sjáendur eru á þeirri skoðun að einhvern tímann muni gjósa í Kötlu og svo eru það hinir almáttugu og alvitru fjölmiðlar sem benda á að Kötlugos sé í aðsigi. Þessa vitnisburði er ekki hægt að leiða hjá sér. Eða hvað?

Svo gerist það að jarðskjálftum fer fækkandi, ekkert bendi til þess að kvikan undir Kötlu sé á hreyfingu, líklega hefur hún bara kólnað þarna undir freranum. 


Björt framtíð, en hvað með daginn í dag?

Stjórnmálamenn verða ekkert betri þó þeir misnoti eða ofnoti klisjur eða falleg orð. Sósíalistar gerði forðum allt í nafni alþýðunnar og jafnvel mestu grimmdarverk sögunnar voru unnin í nafni framtíðarinnar. Menn geta því talað endalaust og tvinnað saman fallegustu orðum íslenskrar tungu og vonað að það fleyti þeim inn á Alþingi. En til hvers?

Hvers vegna er Guðmundur Steingrímsson alþingismaður? Ég hefði borið meiri virðingu fyrir honum hefði hann notað tíma sinn þar til að drita út frumvörpum til laga til styrktar atvinnulífi þjóðarinnar, skuldavanda heimilanna og öðru því sem til framtíðar horfir. Þess í stað þrumir hann í horni, gerir ekki neitt, tekur ekki þátt til stjórnmálabaráttu, lemur ekki á þeim sem stýrt hafa landinu úr hruni í enn meira hrun.

Vel má vera að framtíð Guðmundar sé björt en hann hefur hjálpað ríkisstjórninni að gera daginn í dag helsvartan fyrir tugþúsundir mann.


mbl.is Björt framtíð heldur nafninu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stærðfræðingur rasskellir Jón Bjarnason

Jón Bjarnason stóð innan ríkisstjórnarinnar fastur fyrir gegn aðild að ESB. Fyrir það má taka ofan fyrir honum. Jón er þó ekkert ofurmenni. Hann er eins og margir aðrir vinstri menn sem komast í ráðherrastólanna, lætur ekki alltaf málefnalegar forsendur ráða för. 

Pawel Bartoszek, stærðfræðingur, skrifar stundum góðar greinar í Fréttablaðið. Í gær gerir Pawel Jón Bjarnason að umræðuefni og segir eftirfarandi undir fyrirsögninni „Gegn lögum og vísindum“:

Jón Bjarnason réð sér til aðstoðar mann sem hafði þurft að segja af sér þingmennsku fyrir að ráðast að fólki með nafnlausum tölvupóstum. Ráðningin var kærð til umboðsmanns Alþingis. Umboðsmaður taldi að margt hefði mátt bæta til að ráðningin hefði verið í betra samræmi við góða stjórnsýsluhætti. Þó taldi hann sig ekki geta fullyrt að svokölluð „rannsóknarregla" stjórnsýslulaga hefði ekki verið brotin „með tilliti til þess að vikið var að huglægum sjónarmiðum í auglýsingu um starfið". Sem sagt: hæfniskröfurnar voru of loðnar til að hægt væri að sjá hvort þeim hafi verið fylgt.

Eins komst umboðsmaður að því að ákvarðanir ráðherrans í tollamálum stæðust ekki lög. Við hvorugu álitinu var brugðist. Það er erfitt að losna við þá tilfinningu að ráðherranum hafi ekki þótt þessi álit vera stórmál. Þrátt fyrir að þau gæfu til kynna stjórnarskrárbrot af hans hálfu.

Vondri stjórnsýslu og stjórnarskrárbrotum á ekki að kyngja. En það er ekki síður alvarlegt þegar stjórnmálamenn fara að skipta sér af því hvað vísindamenn megi rannsaka og hver niðurstaða þeirra rannsókna eigi að vera. 

Þó hæla megi Jóni Bjarnasyni fyrir að hafa staðið gegn ESB sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er ekki þar með sagt að hann hafi verið góður ráðherra. Pawel bendir á nokkur mál sem benda til hins gagnstæða. Hann segir í grein sinni:

Eitt síðasta embættisverk Jóns var að reka stjórnarformann Hafrannsóknastofnunar. Fráfarandi stjórnarformaður hafði doktorspróf í tölfræði og hagnýtri líkindafræði. Sú sem látin var taka við er með meistarapróf í viðskiptafræði og er forstjóri fiskvinnslufyrirtækis. Hér skal ekki níða skó af þeirri konu. En að velja fólk til að stýra vísindastofnun með þessum hætti er fráleitt: Maður rekinn án ástæðu og eftirmaður, hagsmunaaðili sem gagnrýnt hafði niðurstöður stofnunarinnar, ráðinn, án auglýsingar.

Já, maður er rekinn án ástæðu. Gæti verið að sá sem skipaður hafi verið í staðinn sé þóknanlegri VG? Að minnsta kosti gerir núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ekki athugasemdir við gerðina. Hefur hann þó gagnrýnt forvera sinn alvarlega.

Pawel gagnrýnir Jón harðlega fyrir aðför hans að Hafrannsóknarstofnun. Hann bendir á að rannsóknir á fiskistofnunum sé vísindalegar en ekki pólitískar. Mér er til efs að margir hafi rasskellt Jón Bjarnason eins eftirminnilega og Pawel Bartoszek og hann gerir það svo snyrtilega að Jón mun ekki finna til nokkurs sársauka fyrir en hann sest á óæðri endann. 

í lok greinarinnar segir Pawel svo afar snyrtilega: 

Það breytir engu hvort meirihluti þings eða hagsmunaaðila telji meiri fisk vera í sjónum. Gagnrýni á vísindalegar niðurstöður þarf að vera vísindaleg. Sannleikurinn er ekki lýðræðislegt fyrirbæri. Skoðanir hagsmunaaðila á stofnstærðarmati Hafró eru auðvitað bjagaðar. Þeir vilja hafa sem mestan fisk í sjónum til að veiða sem mest af honum. Eru þeir þá endilega besta fólkið til að stýra stofnstærðarrannsóknum?

Ef ríkisstjórn ræki seðlabankastjóra sem neitaði að lækka vexti og réði í staðinn formann Samtaka atvinnulífsins yrði líklegast eftir því tekið. Hafrannsóknir eru fáum þjóðum mikilvægari en okkur svo þessi ákvörðun er ekki minna alvarleg. En því miður er hún dæmigerð fyrir fremur vondan ráðherraferil Jóns Bjarnasonar. 


mbl.is Forysta VG með of bogin hné
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðeins einn maður sleppur við gagnrýni Jóns Baldvins

Framar öllu þarf að leggja Jón Baldvin niður ... eða þannig Hann er einn af þessum málglöðu mönnum sem jarma um allt og alla. Besservisserinn. Það er auðvitað réttur hvers og eins.

Hann gagnrýndi forvera sinn, formann Alþýðuflokksins. Sagði hann ekki „fiska“ og því þyrfti að skipta um karlinn í brúnni. Jón var þá kosinn. Hann náði að vera ráðherra í nokkrum ríkisstjórnum. Hafði samt ekki erindi sem erfiði, hann „fiskaði“ ekkert enda gera kjaftaskar það aldrei. Þá dugði ekkert minna en að leggja Alþýðuflokkinn af og stofna nýjan flokk. Enginn eftirspurn var eftir Jóni Baldvini í starf formanns hins nýja flokks. Fyrsti formaður þess flokks hefur aldeilis fengið dembuna frá þeim sem lengst af hefur verið án eftirspurnar.

Hann nýtti sér pólitísk tengsl og fékk sig skipaðan sendiherra enda ekki heldur eftirspurn eftir þessum manni í heiðarleg störf innanlands.

Sífellt er verið að taka viðtöl við Jón Baldvin. Ástæðan er einföld, hann er ófyrirleitinn kjaftaskur. Ræðst óhikað á gamla samstarfsmenn, gerir lítið úr samferðarmönnum sínum og ófeiminn segir hann frá því hvað þeir hefðu átt að gera. Enginn stendur sig nógu vel. Aðeins einn maður sleppur við gagnrýni Jóns Baldvins og það er hann sjálfur. Hann þekki ekki sjálfsgagnrýni.

Persónulega finnst mér alveg nóg komið af viðtölum við Jón. Hann getur ekki lengur átt mikið ósagt. 


mbl.is Forsetinn heldur áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þverrandi virðing fyrir því gamla

Ekkert gamalt og gott má standa. Allt skal rifið og nýir og ljótir kassar byggðir svo miðbær Reykjavíkur verði því sem næst óþekkjanlegur frá því var fyrir tuttugu eða þrjátíu árum. Er það þetta sem við viljum? Á ekkert samræmi að vera í tilverunni? Á maður ekki að geta gengið um bæinn með barnabörnunum og sagt frá þeim stöðum þar sem forfeðurnir gengu um, þar sem maður sjálfur dorgaði á bryggjunum eftir marhnút eða ufsa?

Nei, þetta er hin nýja stefna. Öllu skal breytt. Jafnvel landslag tekur gríðarlegum breytingum á nokkrum árum. Heilu fellin hverfa, kroppað er í stærðar fjöll og úr sárinu blæðir. Búin eru til gríðarstór lón þar sem maður gekk einu sinni um, rör og háspennulínur spilla landslagi og tefja för. Nú á jafnvel að virkja lengsta fljót landsins í byggð þannig að landið verður gjörsamlega óþekkjanlegt.

Virðingin fyrir því gamla er engin. Íhaldsemin virðist horfin og enginn spáir í umhverfið. Ég held engu að síður að þetta sé alls ekki það sem Reykvíkingar vilja, það sem þjóðin vill.


mbl.is Nasa rifið í sumar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandi Tryggva Herbertssonar er mikill

Tryggvi Þór Herbertsson, hagfræðingur og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, burðast með þyngri byrðar en flestir aðrir stjórnmálamenn. Vandi hans er skýrslan sem hann skrifaði árið 2006 ásamt Frederic Mishkin, hagfræðingi, um fjármálalegan stöðugleika á Íslandi. 

Í skýrslunni munu þeir félagar hafa mært fjármálalegan stöðugleika á Ísland, töldu litlar líkur á fjármálakreppu. Skemmst er frá því að segja að tveimur árum síðar skalla á kreppa með alvarlegri afleiðingum fyrir Íslands en líklega nokkura aðra þjóð.

Nokkrar staðhæfingar í skýrslunni standast illa tímans tönn í ljósi þeirra atburða sem áttu sér stað um 30 mánuðum síðar. Þannig er t.a.m. um þá staðhæfingu okkar Mishkins að stofnanaumgjörð sé með besta móti á Íslandi og spilling nær engin. Það lítur ekki vel út í ljósi atburðanna í október 2008. Óhætt er að segja að við höfum haft rangt fyrir okkur varðandi þessa þætti skýrslunnar. Þau mistök skýrast af því að við, eins og aðrir, misreiknuðum kerfið — fjármálahrunið leiddi síðar veikleika þess í ljós. Jafnframt ber að hafa í huga að þegar við skrifuðum skýrsluna var stærð fjármálakerfisins á Íslandi um 40% af því sem það var við hrunið.

Þetta segir Tryggvi í grein á evropuvaktin.is. Honum er pólitískt séð nokkur vandi á höndum. Andstæðingar hans nota þessa skýrslu óspart til að koma höggi á Tryggva og ekki síður Sjálfstæðisflokkinn. Hið síðarnefnda er algjörlega óþolandi fyrir flokksmenn. Hann er einnig gagnrýndur fyrir að hafa verið forstjóri hjá Askar Capital fjárfestingarbanka og síðast en ekki síst sem efnhagasráðgjafi forsætisráðherra á árinu 2008.

Óneitanlega virðast vopn andstæðinga Tryggva vera nokkuð beitt. Hann sá ekkert fyrir í skýrslu sinni árið 2008, enda segist hann frekar vera greinandi en spámaður. Í ljósi atburða duga þessi viðbára alls ekki.

Hann verður verður svo forstjóri Askar sem endar í alvarlegu gjaldþroti, raunar eftir að Tryggvi hættir þar. Þar að auki er hann efnahagsráðgjafi forsætisráðherra á því örlagaríka ári 2008. Þetta lítur því ekki vel út fyrir stjórnmálamanninn.

Tryggvi hefur í viðtölum lýst starfi sínu í Askar nokkuð og telur verk sín síst af öllu hafa valdið fyrirtæki skaða. Hins vegar minnist ég þess ekki að hann hafi gert upp starf sitt sem efnahagsráðgjafi. Öllum til mikillar undrunar varð það að samkomulagi að hann hætti. Mig minnir að það hafi gerst í ágúst 2008, rúmum mánuði fyrir hrunið. Fleiri en ég velta því fyrir sér hvað þá hafi gerst.

Grein Tryggva á Evrópuvaktinni er nokkuð vel skrifuð en hún er ekkert varnarskjal, til þess er hún alltof stutt og án nægilegra raka. Ég held þó að Tryggvi eigi talsverða vinnu fyrir höndum. Hann þarf að minnsta kosti að sannfæra flokksmenn sína miklu betur um að hann sé verðugur fulltrúi flokksins. Að öðrum kosti kann illa að fara fyrir honum í næsta prófkjöri.


Unglingar rannsaka gamla fólkið

Bölvaðir vitleysingar eru nú þessir bresku vísindamenn. Þeir fara með tómt bull, maður lifandi, ekkert skilst, halló gaman. Það er ekkert mál að vera fertugur og ekkert finn ég til þess að andlegri heilsu hafi hrakað, hrakað, hrakað ...

Snjór er yfirleitt utandyra á veturna. Auðvitað verður að taka í taumanna og leiðbeina unglingunum sem stóðu að rannsókninni. Yfir kaldan eyðisand enda er ríkisstjórnin svo ákaflega góð og stendur með almenningi í gegnum alla brotsjói og snjóskafla á köldum eyðissandi.

Að lokum er ekki úr vegi að benda á norðurljósin sem speglast í haffletinum á hálendinu. Niður með fjöllin, upp með dalina. Ég man að ég ætlaði að skrifa eitthvað um jólin ...


mbl.is Andlegri getu hrakar eftir fertugt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær fær ASÍ endanlega nóg af ríkisstjórninni?

Loksins rumskar Alþýðusamband Íslands. Ekkert hefur gerst í atvinnumálum þjóðarinnar frá hruni, ríkisstjórnin situr aðgerðarlaus og skrökvar því að almenningi að afrek hennar séu ofurmannleg. Hún hefur þó ekkert gert annað en að sinna helstu skrifstofustörfum.

Nú þurfti loksins formannafund ASÍ til að vekja samfylkingarmanninn Gylfa Arnbjörnsson af svefninum langa. Hann tekur þó ekki dýpra í árinni en að segja ríkisstjórnina á skilorði ... Hvers konar talsmáti er þetta? Hvernig er hægt að gefa ríkisstjórn lengri séns en þrjú ár til að koma hlutunum í gang? Hversu lengi á skilorðið að standa? Er tímafresturinn til 20. janúar, eins og forseti ASÍ segir í viðtalinu við Morgunblaðið í morgun? 

Þrjú ár hlýtur að vera nægur tími fyrir ríkisstjórn að koma með frambærilega atvinnustefnu og framfylgja henni. Þessi ríkisstjórn hefur ekkert gert annað en að skrökva að þjóðinni. Það er útilokað að halda því fram að samviskusamlegt starf opinberra starfsmanna í þrjú ár sé afrek ríkisstjórnarinnar.

Skip með ónýta vél og stöðugan leka verður ekkert betra þótt daglega sé ausið og tekið til. Jafnvel þótt það reki í rétta átt er ekki þar með sagt að skipstjórinn standi sig vel.


Ögmundur er hentistefnustjórnmálamaður

Og ég sem hélt að Ögmundur Jónasson væri að lagast. Nei, þvert á móti hann er að versna. Hann gerir sér ekki grein fyrir því að ríkisstjórnin sem hann situr í gerir ekkert. Atvinnulausum fjölgar, skattar hækka og draga kjarkinn úr fólki og atvinnulífinu, ekkert er gert vegna skuldastöðu heimilanna og svo lýgur hún að almenningi. Og enn ætlar Ögmundur Jónasson inn í ESB hvað svo sem flokksmenn hans segja.

Best að hafa það alveg klárt. Við sjálfstæðismenn höfum hvorki áhuga á nokkru samstarfi við stjórnmálaflokk eins og VG sem selur sig purkunarlaust fyrir ráðherrastóla né heldur höfum við áhuga á samstarfi við mann eins og Ögmund sem slær í og úr, hleypur inn og út úr ríkisstjórn eftir því hvorum megin hann fer framúr á morgnanna. 

Og Ögmundur veit ekki í hvorn fótinn hann á að stíga. Hann daðrar við stjórnarandstöðuna í VG, klappar hana og kjassar, talar svo blíðlega við stjórnarsinnanna í flokknum. Þvílíkur hentistefnustjórnmálamaður sem hann er. Best færi nú á því að hann tæki einu sinni ákvörðun um hvorum meginn hann ætlar að vera og standi við hana. Líklega þykir honum ráðherrastóllinn orðinn svo mjúkur að hann annað hvort getur ekki staðið upp úr honum eða nennir því ekki. Ég veit ekki hvort er verra.


mbl.is Vilja ekki Sjálfstæðisflokkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áramótaspár fjölmiðla reynast tómt rugl

Um hver áramót, svo lengi sem elstu menn muna, hefur svokölluð Völva Vikunnar stokkið fram og „spáð“ fyrir um framtíð þjóðarinnar. Hún hefur reynst vera ákaflega góð söluvara svo fleiri fjölmiðlar hafa tekið upp á því að framleiða sínar eigin „spár“.

Auðvitað eru ekki til neinir spámenn eða spámiðlar, það veit allt skynsamt fólk. Engu að síður kaupir fjölmargt skynsamt fólk spádómablöð og les af mikilli áfergju. Minna fer síðan um þá staðreynd að fæst af því sem „spáð“ er stenst.

Ragnar S. Ragnarsson, sálfræðingur, gerir þetta að umtalsefni í grein í Mogganum í morgun. Hann skoðaði „spárnar“ sem fjölmiðlar birtu í upphafi árs 2010 og segir um þær:

Undirritaður fann 18 mælanlegar fullyrðingar úr spá Fréttablaðsins og 36 fullyrðingar úr DV spánni og kannaði hvort þær hefðu ræst. Í Fréttablaðinu reyndust 12 af 18 rangar og 35 af 36 í DV. Samtals 47-7 sem þættu skelfileg úrslit fyrir taplið í handboltaleik og ættu líka að þykja svo meðal spámannlega vaxins fólks.

Dæmi um spádóma sem rættust ekki eru: „Ríkisstjórnin fellur í febrúar“; „Jóhanna mun hætta afskiptum af stjórnmálum“; „Sumir þekktustu útrásarvíkingarnir verða dæmdir í fangelsi“; „Miklir skjálftar í Gjástykki í Mývatnssveit“; „Þjóðarleiðtogi á Norðurlöndum mun falla frá“; „Gilzenegger kvænist um mitt ár og brúðurinn er talsvert eldri en hann og þjóðþekkt fyrir störf í sjónvarpi“; „Jónína Benediktsdóttir verður áhrifameiri í rekstri Krossins“ og „Hanna Birna sætir mikilli gagnrýni frá Sjálfstæðisflokknum síðla árs þegar svört skýrsla um stjórntök hennar veldur uppnámi innan flokksins.“ Þessar niðurstöður verða að teljast lélegar svo ekki sé dýpra tekið í árinni.

Og Ragnar velti fyrir sér þeim stórmálum sem fjölmiðlarnir sáu alls ekki fyrir og segir:

Sé jafnframt skoðað hvað spárnar sögðu ekki, kemur enn frekar í ljós hversu rýrar og lélegar þær eru. Þessum spám mistókst til dæmis að sjá fyrir ógildingu stjórnlagaþingskosninganna; úrsögn Lilju og Atla úr þingflokki VG; afdrif Icesave málsins; frásögn Guðrúnar Ebbu; bröltið í kringum ráðningu forstjóra Bankasýslu ríkisins; breytingarnar í ríkisstjórninni og áhuga kínversks auðjöfurs á Gríms- stöðum svo eitthvað sé nefnt. 

Ég held að Ragnar S. Ragnarsson hafi gert þessu spárugli góð skil. Hann segir þó ekki því frá því hvernig fjölmiðlarnir standa að þessum spám sínum. Heimildir mínar herma að saman komi hópur fólks sem skemmtir sér við að fjalla um einstök mál og hvernig þau þróast á árinu. Ekki er um neina spámenn eða sjáendur að ræða (þeir eru ekki til) heldur eru þetta fólk af ritstjórninni. Má líklega taka undir það sem Ragnar S. Ragnarsson segir í lok greinar sinnar:

En vonandi sér annað fólk að „spárnar“ eru bara marklaust skemmtiefni sem birtir þá skýru mynd að samband spámiðla við framtíðina er ekki neitt. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband