Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2011
Efndir fylgi ályktunum
21.11.2011 | 13:36
Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins voru um tvö hundruð manns á fundi um fjármál heimilanna. Ég mat það sem svo að stór meirihluti væri á þeirri skoðun að afnema bæri verðtrygginguna og vinna að því að létta skuldabyrði hrunsins af einstaklingum vegna húsnæðiskaupa.
Sannast sagna held ég að fleiri en ég hafi haft stefnu Hagsmunasamtaka heimilanna sem fyrirmynd.
Þó ekki hafi tekist að fá nefndina til að samþykkja afnám verðtrygginar náðist nokkur skýr stefna um að færa niður höfuðstól verð- og gengistryggðra húsnæðislána. Ástæðan er einfaldlega sú að flestallir sjá að þetta eru m.a. forsendur fyrir auknum hagsvexti. Það gengur auðvitað ekki til lengdar að almenningur eigi ekki borð fyrir báru í fjármálum sínum.
Samfélagið missir af gríðarlegri veltu vegna þess að í kjölfar hrunsins hefur fólk dregið stórlega úr öllum viðskiptum sínum. Mestu skiptir að sjálfsögðu að halda heimilinu; greiða afborganir og kaupa mat. Annað mætir afgangi. Allir sjá að þessi veltuminnkun hlýtur að hafa áhrif á hagvöxt. Þetta hefur dómínó-áhrif út um allt þjóðfélagið.
Svo er það rétt hjá Hagsmunasamtökunum að nú beinast augu almennings að forystumönnum Sjálfstæðisflokksins á þingi. Hvernig munu þeir reyna að framfylgja stefnu flokksins að þessu leiti.
Ég hef þá eindregnu skoðun að þingmenn Sjálfstæðisflokksins eigi nú að leggja fram ítarlegar ályktanir og lagabreytingar vegna fjármála heimilanna, skiptir engu þó ekki sé meirihluti fyrir þeim. Nauðsynlegt er að sanna að efndir fylgi ályktunum.
Taka undir kröfur Hagsmunasamtaka heimilanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Verðtryggingin og skuldastaða heimila
21.11.2011 | 11:01
Á nýafstöðum landfundi Sjálfstæðisflokksins lagði ég fram tvær ályktanir eða viðaukatillögur við drög að ályktun um fjármál heimilanna.
Tillögurnar eru ítarlega rökstuddar og í sannleika sagt ótrúlegt að þær skyldu ekki hafa fengist umsvifalaust samþykktar. Ekki voru þó allir á einu máli, alltaf þörf á málamiðlun þegar margar skoðanir koma fram. Við því er ekkert að segja, þannig er lífið.
Hér eru þær tvær áyktanir sem ég lagði fram og rökstuðningur þeirra:
Afnám verðtryggingar í áföngum
Sjálfstæðisflokkurinn vill afnema verðtryggingu á húsnæðislánum heimilanna. Það skal gert í áföngum með því að setja þak á árlegar verðbætur sem miðast við 4% fyrir 2012 og 2013, 2% fyrir 2014 og 2015, en verðtrygging verði að fullu afnuminn frá og með 1. janúar 2016.
Samhliða þessu verði sett hámark á vexti, þannig að samtala verðtryggingar og vaxta á lánum ætluðum til húsnæðiskaupa geti ekki verið hærri en 6%.
Rökstuðningur
Markmið með verðtrygginu Ólafslaga, nr. 13/1979, var að verja verðmæti sem fælust í launum, sparnaði og lánum. Með því var gætt að jafnvægi milli tekna fólks og fjárskuldbindinga, þ.e. að þeir sem væru með verðtryggðar fjárskuldbindingar væru jafnframt með verðtryggðar tekjur.
Þetta eru sömu rök og notuð voru þegar gengistrygging var bönnuð að lögum með lögum nr. 38/2001 um vexti og verðbætur. Þau rök voru, að eingöngu þeir sem hefðu tekjur í erlendri mynt ættu að geta tekið lán í erlendri mynt. Mikilvægt væri að tekjumynt væri sú sama og mynt fjárskuldbindingarinnar.
Verðtryggða krónan er í raun ígildi sérstakrar myntar. Síðan Ólafslögin tóku gildi hefur hún haldið fullu verðgildi sínu gagnvart flestum viðmiðunargjaldmiðlum og raunar gott betur.
Af öllum helstu viðskiptagjaldmiðlum þjóðarinnar (þróun evrunnar er tengd við þróun vestur-þýska marksins) er eingöngu svissneski frankinn og japanska jenið eru sterkari í dag gagnvart verðtryggðu íslensku krónunni, en þessi gjaldmiðlar voru árið 1979. Hafi 10.000 gamlar krónur verið hafðar á vaxtalausum verðtryggðum reikning frá 1. janúar 1980, væri verðmæti þeirra núna 5.446 nýjar krónur, þ.e. hefðu margfaldast 54,46 falt. Vissulega hafa laun haldið að mestu í við þessa þróun, en launabreytingar hafa alltaf komið talsvert á eftir.
Verðtrygging fjárskuldbindinga hefur haft veruleg hamlandi áhrif á þau tæki sem Seðlabanki Íslands hefur til peningastjórnar. Raunar má segja að þau hafi verið gerð ónýt. Erfitt hefur verið fyrir Seðlabanka og stjórnvöld að grípa til efnahagsaðgerða án þess að þær leituðu út í verðlag og þar með inn í verðbætur lána. Aðgerð sem átti að draga úr peningamagni í umferð endaði því óvart í því að þetta peningamagn jókst, þar sem hækkun höfuðstóls lána heimila og fyrirtækja leiddi beint af sér meira peningamagn í umferð.
Ekki er hægt að sjá annað af greinargerð með Ólafslögum en að menn hafi hugsað verðtrygginguna sem tímabundið úrræði meðan óstöðugleiki varði.
Undanfarin 20 ár hefur efnahagsástandið verið allt annað en á árunum fyrir setningu Ólafslaga. Á árunum 1970 til 1980 var algengt að ársverðbólga væri um og yfir 50%. Síðustu 20 ár hefur ársverðbólga aðeins einu sinni farið yfir 10% og það var árið 2008. Á móti koma 11 ár þar sem verðbólga er um og undir 4%. Meðalverðbólga síðustu 20 ára er 4,61%, en sé árinu 2008 sleppt úr, þá reynist hún 3,87%. Engin rök eru fyrir því að halda í verðtryggingu við slíkar aðstæður, þó svo að eitt ár skeri sig úr.
Sigurður Sigurðarson
Skuldamál heimilanna
Sjálfstæðisflokkurinn vill að strax skuli gripið til róttækra aðgerða til að létta á skuldabyrði einstaklinga og heimilanna. Það verði gert með því að framfylgja ákvæðum laga nr. 107/2009 um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrisshrunsins.
Í lögunum er lögð áhersla á að laga skuldir að greiðslugetu og eignastöðu og hámarka gagnkvæman ávinning beggja samningsaðila af því að gefa eftir tapaðar kröfur.
Einnig skuli tryggt með lögum að nýju bankarnir láti heimilin njóta að fullu þess afsláttar sem þeir fengu við yfirfærslu lánasafna heimilanna frá gömlu bönkunum.
Rökstuðningur
Markmið laga nr. 107/2009, sem Alþingi samþykkti í október 2009, var eftirfarandi:
... að hraða endurreisn íslensks efnahagslífs í kjölfar banka- og gjaldeyrishrunsins haustið 2008 og að jafnvægi komist á virði eigna og greiðslugetu annars vegar og fjárskuldbindinga einstaklinga, fyrirtækja og heimila hins vegar.
Til að ná þessum markmiðum segir í lögunum:
Í samningi milli kröfuhafa og skuldara um eftirgjöf skulda eða breytingu á skilmálum skuldabréfa og lánssamninga skal fyrst og fremst horft til þess að laga skuldir að greiðslugetu og eignastöðu viðkomandi einstaklings eða heimilis. Skal miðað að því að hámarka gagnkvæman ávinning samningsaðila af því að gefa eftir tapaðar kröfur og komast hjá óþarfa kostnaði og óhagræði.
Hvorki hefur tekist að ná markmiðum laganna né að laga skuldir að greiðslugetu. Þess í stað hafa var heimilunum ætlað að bera skuldir sem þau stofnuðu að stórum hluta ekki til.
Skuldastaðan heimilanna versnaði vegna kerfisbundinna verðbreytinga lána þar sem fjármálastofnanna hirtu beinlínis það eigið fé sem bundið var í íbúðarhúsnæði og rúmlega það. Stjórnvöld stóðu aldrei aðgerðarlaus hjá því þau studdu beint og óbeint eigendur lána á kostnað skuldara.
Úrræði sem bankarnir hafa boðið upp á hafa yfirleitt miðað að því að hámarka endurheimtur bankanna á skuldum sem stökkbreyttust vegna athafna gömlu bankanna í aðdraganda hrunsins. Það kemur hins vegar ekki á óvart því ljóst er hverjir eru eigendur þeirra.
Sigurður Sigurðarson
Ályktun Sjálfstæðisflokksins um skuldir heimilanna
21.11.2011 | 10:08
Ég hef sótt marga landsfundi Sjálfstæðisflokksins, varla misst fleiri en tvo eða þrjá úr frá því ég fékk aldur til að taka átt í starfi flokksins.
Þessi síðasti fundur er án ef með þeim bestu. Hann var að mestu vel skipulagður, málefnalegur, mikið bar á ungu fólki, stjórnmálamenn reyndu ekki að taka fundinn yfir og síðst en ekki síst var andrúmsloft fundarins reglulega skemmtilegt.
Fjármál heimilanna
Persónulega var ég mjög ánægður með niðurstöðu nefndar um fjármál heimilanna. Ég bjóst þar við mjög erfiðum fundi. Makmið mitt var að fundurinn fordæmdi verðtryggingu húsnæðislána og legði áherslu á að leiðrétta upptöku á eigin fé íbúðareigenda í kjölfar hrunsins.
Ég var ekki ánægður drög að ályktun fundarins. Í henni var þessi ómögulega 110% regla sem fyrir löngu hefur reynst gagnslaus. Verðtryggingin var ekki nefnd og fleira má nefna. Hins vegar voru nokkur góð atriði inni í drögunum og sérstaklur kafli sem nefndist úrvinnsla skulda heimilanna eftir hrun.
Ég ræddi við fjölda fólks fyrir fundinn og fékk margvíslegar útleggingar á því hvað ætti að gera. Það endaði svo með því að góður maður aðstoðaði mig við að gera ítarlega rökstudda ályktanir um afnám verðtryggingar og skuldamál heimilanna. Ég mun birta þessar tvær ályktanir í öðrum pistli á þessum vettvangi.
Öflugir baráttumenn gegn verðtryggingunni
Mér kom mikið á óvart að í nefndarstarfinu komu margir öflugir baráttumenn fyrir afnámi verðtryggingarinnar. Þeir sem þar fóru fremstir voru Jón Magnússon, Ólafur Arnarson og ekki síst séra Halldór Gunnarsson í Holti, hjartahlýr og heiðarlegur baráttumaður fyrir réttlæti. Fundinum stjórnaði Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður. Hann þekkti ég lítið fyrir en ég vil hrósa honum fyrir afskaplega góða og málefnalega fundrastjórn. Átti hann þó við mikla nagla að etja á báða bóga.
Fylgismenn verðtryggingarinnar
Auðvitað voru margir á móti afnámi verðtryggingarinnar og sumir færðu góð rök gegn henni. Þarna stóðu líka upp alþingismennirnir Tryggvi Þór Herbertsson og Pétur Blöndal og vöruðu eindregið við afnámi hennar sem og flestum aðgerðum til að lagfæra skuldastöðu heimilanna. Hvaðan á að taka peninganna? spurðu þeir eðlilega. Þetta bitnar allt á lífeyrissjóðunum og endanlega á ríkissjóði og almenningi.
Pétur sagði að vandinn væri ekki verðtryggingin heldur hagstjórnin í landinu. Tryggvi fullyrti að væri verðtryggingin afnumin myndi það kosta í kringum 300 milljarða króna og að stærstum hluta yrði það högg á Íbúðalánasjóð. Þeir voru báðir á þeirri skoðun að ekki væri lengur mögulegt að láta þann afslátt sem nýju bankarnir fengu ganga til lækkunar á íbúðarlánum.
Þeir gátu þó ekki svarað þeirri spurningu hverjir hefðu hagnast á verðtryggingunni frá hruni. Við viljum þó hjálpa þessu fólki sögðu fylgismenn verðtryggingarinnar af og til. Ég fékk það á tilfinninguna að þeir sem þetta segðu væru með allt sitt á þurru og skildu ekki stöðu almennings. Hafði greinilega ekkert samband haft við þetta fólk.
Skilaboð landsfundarins
Ég spurði fundinn hvort hann ætlaði virkilega að senda þau skilaboð út í þjóðfélagið að Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki með skoðun á verðtryggingunni. Eiga að gilda hér tvær krónur, önnur verðtryggð til notkunar fyrir fjármálastofnanir og hin óverðtryggð fyrir almenning.
Ólafur Arnarson fullyrti að verðtrygging lána væru eiginlega ekkert annað en útfærsla á afleiðusamninginum, sumir hafa allt sitt á hreinu vegna verðtrygginarinnar, þar með taldir lífeyrissjóðirnir. Jón Magnússon skóf ekki af því heldur krafðist afnáms verðtryggingar og algjörrar niðurfæslu stökkbreyttra höfuðstóla eins og þeir voru 1. október 2008.
Ég fullyrði að 60 til 70% 200 fundarmanna voru á móti verðtryggingu og fylgjandi ofangreindum viðhorfum.
Niðurstaða fundar þar sem er fólk með ólíkar skoðanir verður þó alltaf málamiðlun. Ég er tiltölulega sáttur við niðurstöðuna. Held að þarna sé komið vopn sem nýst getur almenningi svo fremi sem stjórnmálamennirnir noti það á Alþingi.
Ályktun landsfundarins um fjármál heimilanna hefst á kafla um skuldir heimilanna. Í því felst mjög ákveðin yfirlýsing og krafa um að lögð verði megináhersla á að leiðrétta þann vanda sem stærstur hluti heimila í landinu á í vegna eignaupptöku, þessu fé verði skilað aftur.
Úrvinnsla skulda heimilanna eftir hrun
Sjálfstæðisflokkurinn vill endurskoða lög nr. 151/2010 sem ríkisstjórnin setti í kjölfar ólöglegu gengislánanna. Lagasetningin hefur aukið á óvissu, kallað á málaferli og skaðað stöðu lánþega.
Sjálfstæðisflokkurinn vill að dómsmálum er varða lánasamninga verði hraðað eins og kostur er. Sjálfstæðisflokkurinn vill að lánþegum verði veitt skjól gegn vörslusviptingum á meðan dómsmál um lánasamninga eru ekki til lykta leidd. Óþolandi er að gengið sé að eigum fólks meðan að jafn mikil lagaleg óvissa er uppi og raun ber vitni.
Sjálfstæðisflokkurinn vill færa niður höfuðstól verðtryggðra og gengistryggðra húsnæðislána. Þessi aðgerð og önnur endurskipulagning skulda heimilanna er forsenda fyrir auknum hagvexti og framtíðaruppbyggingu íslensks þjóðfélags.
Aðgerðir til lausnar skulda einstaklinga eiga að vera almennar en ekki það sértækar að leiði til mismununar borgaranna og brjóti gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.
Sjálfstæðisflokkurinn telur nauðsynlegt að upplýsa um efni samninga sem ríkisstjórnin gerði við yfirfærslu á eignum á milli gömlu og nýju bankanna. Án þeirra upplýsinga er erfitt að fjalla um skuldamál heimilanna með málefnalegum hætti.
Sjálfstæðisflokkurinn vill auka möguleika skuldara til þess að vinna sig út úr fjárhagserfiðleikum án þess að til gjaldþrots komi, m.a. með því að heimilt verði að afsala fasteign til lánveitanda svo forðast megi gjaldþrot. Úrræðið gildi tímabundið að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þá er nauðsynlegt að löggjöfin torveldi ekki þeim sem verða gjaldþrota að hefja aftur eignamyndun. Tryggja þarf að afskrifaðar skuldir einstaklinga myndi ekki stofn til álagningar tekjuskatts.
Dauða, dauðakyrrð í Kötlu ...
19.11.2011 | 20:46
Engar fréttir eru góðar fréttir, að minnsta kosti er það þannig stundum. Ég get þó ekki að því gert en ég er orðinn dálítið áhyggjufullur yfir geigvænlegum skortir á jarðskjálftum í Mýrdalsjökli. Þar hefur allt leikið á reiðiskjálfi frá því ... ég man ekki hvenær. Og núna. Eiginlega dauðakyrrð - dauða, dauða ... kyrrð ...
Meðfylgjandi kort er frá Veðurstofunni og þar er eiginlega allt með kyrrum kjörum. Einn jarðskjálfti í gær upp á tvö stig á Richter og nokkrir afar litlir skjálftar.
Raunar var einn skjálftinn fyrr í dag svo grunnur að hann mældist ekki á 0,100 km dýpi, þ.e. 100 metrum, heldur í -0,230 km fyrr í dag. Hann var sem sagt ofanjarðar. Síðar um daginn var þessi sjálfvirka mæling leiðrétt og skjálftinn jarðsettur.
Draumspakur maður tjáði mér fyrir rúmum mánuði að nú myndi gjósa þann 18. nóvember kl. 17:30. Það gerðist ekki. Þess í stað er þessi rosalega eftirspurn eftir jarðskjálftum sem eiga að koma Kötlu af stað. Allir halda því fram að bráðum eigi að gjósa og jarðskjálftarnir komu í röðum eins og samkvæmt pöntun.
Nú bregður svo við að allt er eiginlega stopp. Rétt eins augnablikið þegar maður hefur fyllt lungun og lofti og á eftir að blása frá sér. Eða þegar Strokkur verður skyndilega kyrr, þegar aldan hefur skollið á klettinum og önnur býr sig undir að koma ...
Þetta getur ekki vitað á gott. Best að kanna aftur stöðuna hjá þeim draumspaka.
Lítil spenna á landsfundi vegna formannskjörs
18.11.2011 | 20:17
Stundum er ég hissa á fréttastofu Ríkisútvarpsins. Til dæmis núna er ég hlustaði á fréttirnar í Sjónvarpinu. Þar sagði aldraður þulurinn sem búinn er vera á skjánum frá því menn muna: Mikil spenna er nú á landsfundi Sjálfstæðisflokksins en formannskjör fer þar fram á sunnudaginn.
Þetta er bölvuð vitleysa. Veit ekki í hvaða sambandi fréttamenn Ríkissjónvarpinu eru. Var þó nauðbeygður að horfa á þá frá því borði sem ég sat á.
Í sannleika sagt er sáralítið spenna á landsfundinum; miklu, miklu minni en nokkurn tímann áður. Hef ég þó setið marga landsfundi og jafnvel verið viðstaddur formannskjör.
Í sannleika sagt held ég að niðurstaða formannskjörsins verði sú að Bjarni Benediktsson verði endurkjörinn með um 60 til 70% atkvæða. Þessa spá byggi ég á samtölum við hina og þessa á fundinum.
Bjarna sé ég víða, hann gengur um, spjallar við fólk. Hönnu Birnu hef ég því miður ekkert séð og hélt eiginlega að hún væri ekki á fundinum þangað til ég sá viðtal við hana í Ríkissjónvapinu.
Til viðbótar held ég að málefnavinnan sé landsfundarfulltrúum ofar í huga en formannskjörið. Verið að vinna að tillögum og hugmyndum sem eiga eftir að falla kjósendum afar vel ég geð.
Skynsamlegt að flytjast úr landi
17.11.2011 | 15:01
Til að setja þessa frétt í samhengi þá er fjöldi Íslendinga sem flúið hefur land um 5000 færri en hér eru atvinnulausir. Að vísu er þessi samanburðu ekki alveg réttur vegna þess að ekki eru allir brottflutnir þátttakendur á vinnumarkaði. Engu að síður er brottflutningurinn afskaplega alvarlegt mál því draga má þá ályktun að fólkið sjái sér ekki framtíð hér á landi.
Munum að þó um 12000 manns séu á atvinnuleysisskrá þá eru enn fleiri atvinnulausir, t.d. sjálfstæðir einyrkjar, fólk sem hefur staðið sjálfstætt í einhvers konar verktakabransa.
Ég á tvö börn sem búa erlendis. Elsta dóttir mín er ekkert á leiðinni heim, hún nam og starfar nú í Noregi. Yngri sonur minn er við nám í Hollandi. Þau eiga auðvitað bæði erindi heim en við þær kringumstæður sem nú ríkja hér á landi eftir hrun og undir norrænni velferðarstjórn fer best á því að þau haldi sig annars staðar. Það er enginn leikur að finna sér starf við hæfi hér á landi og svo virðist sem stjórnvöldum sé nákvæmlega sama um atvinnulífið og þar með atvinnulausa. Meðal annars þess vega flýr fólk land.
Tveir og hálfur árgangur fluttur burt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
2.644.730.110.000.000.000.000 lömb
16.11.2011 | 09:36
Þegar Þorgeir Ljósvetningagoði hafði heimt fé sitt af fjalli um haustið árið 1000 sá hann að hin nýju goð höfðu reynst vel.
Þannig byrjar Valdimar H. Jóhannesson grein sína í Morgunblaðinu í dag um verðtryggingu. Stíll greinarinnar er afskaplega skemmtilegur og hann er það ritfær að hann missir aldrei sjónar af dæmisögunni. Hann sýnir hversu fáránleg verðtryggingin er og býr til sögu um Þorgeir Ljósvetningagoða, forföður sinn (sem raunar er forfaðir allra Íslenginga ef út í það er farið).
Fljótlega barst honum notalegt þakkarbréf frá Sylvester II páfa í Róm. Með því var auglýsingabæklingur frá páfastóli sem upplýsti hverjar væru skyldur en einnig réttindi við aðild að heildarsamtökum kristinna. Páfastóll réð til að mynda yfir banka sem allir kristnir menn væru hvattir til að skipta við. Samkvæmt biblíunni væru greiddar rentur á innistæður en boðað væri að menn ættu að renta sínar talentur.
Þó að Þorgeir væri kominn á sjötugsaldurinn vildi hann taka þátt í nýmælum. Hann lagði því eitt lamb inn á reikning í Vatikan-bankanum sem bauð 5% fasta vexti án uppsagnarákvæða. Þorgeir þekkti ekki verðmæti mynta á suðrænum slóðum svo hann samdi við bankann um að innstæðan yrði ávallt reiknuð í lömbum. Án þess að gera sér grein fyrir því sjálfur hafði hann fundið upp verðtryggð bankaviðskipti þúsund árum á undan íslenskum hagfræðingum.
Og Valdimar segist hafa fundið innleggsnótuna í bréfasafni afa sína og vildi nú loka reikningnum. Þá urðu viðbrögð Vatikansins eðlilega ótrúleg:
Fyrst neituðu þeir því að reikningurinn væri til. Þegar það dugði ekki hótuðu þeir mér eilífri útskúfun frá himnaríki. Ég sagði þeim að þeir hefðu misst umboðið til að bannfæra mig eftir siðaskiptin. Síðan hafa þeir ýmist reynt að bera fyrir sig 36. gr. samningalaga eða höfða til miskunnsemi minnar. Benedikt XVI, sjálfur páfinn, liggur í símanum til mín kvölds, morgna og miðjan dag!
Ástæðan er einföld:
Samkvæmt reiknitölvu minni er innistæðan nú pr. 1. nóvember sl. 2.644.730.110.000.000.000.000 lömb eða til þess að segja þetta í mæltu máli: Rúmlega tvöþúsund sexhundruð og fjörutíu milljarðar milljarða lamba, sem svarar til 377 milljarða lamba á hvern jarðarbúa.
Og niðurstaða Valdimars er þessi og hver er ekki sammála?
Upplýstum mönnum hefur verið það ljóst um margar aldir að ekkert efnahagskerfi stenst það að vextir séu settir ofan á verðtryggingu. Slík viðkoma fjármuna gleypir öll heimsins verðmæti á skömmum tíma. Tímans tönn nagar allar eignir; fjármuni, fasteignir og jafnvel jarðir. [...]
Verðtryggða íslenska krónan er fáránleg hugmynd. Hún var réttlætanleg stutt tímabil en hefur fyrir löngu gengið sér til húðar. Engin mynt sögunnar hefur haldið verðgildi sínu frekar en aðrar eignir.
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins
15.11.2011 | 11:09
Burðardýr FlokksinsKjósendur Sjálfstæðisflokksins jafngilda burðardýrum fíkniefnasmyglara. Hinn fjölmenni hópur, sem kýs Flokkinn, er ígildi þeirra, sem flytja eiturlyf á markað. Kjósendur Flokksins bera eins og burðardýrin fulla ábyrgð á hegðun sinni. Því bera þeir sinn hluta ábyrgðarinnar á hruninu, þótt Flokkurinn sem slíkur og valdamenn hans beri mesta. Kjósendur Flokksins geta ekki vikið sér undan ábyrgð. Þeir eru óvinir þjóðarinnar eins og bófaflokkurinn í heild. Þeir eru bara gæzlumenn sérhagsmuna, einkum kvótagreifa og auðróna. Voru það fyrir hrun, voru það í hruninu og eru það enn. Eins og hver önnur burðardýr. [Jónas Kristjánsson, www.jonas.is]
Þingmaður til lífstíðar, a.m.k. til að byrja með
15.11.2011 | 10:00
Leiðarar Morgunblaðsins eru oft stórkostleg lesning, málefnalega góðir og meinlegir oft á tíðum. Í dag er fjallað um Berlusconi, þann undarlega náunga sem var lengur í stöðu forsætisráðherra á Ítalíu en nokkur annar.
Skuldastaða ríkissjóðs Ítala er erfið og ESB gerir kröfur sem Berlusconi varð við með frumvarpi til laga á ítalska þinginu. Hann lofaði að hætta sem forsætisráðherra yrði það samþykkt. Þetta var tilboð sem þingmenn gátu ekki hafnað. Nýr forsætisráðherra hefur nú tekið við völdum en sá var áður háttsettur í ESB. Og leiðarahöfundur Moggans segir:
Og nú fagna menn því mjög að fyrrum kommissar Monti komist til valda bakdyramegin á Ítalíu. Hann er reyndar allt í einu orðinn kjörinn fulltrúi fólksins á þinginu, sem hann hefur aldrei verið áður. Hann hlaut óvænt kjör til Öldungadeildar Ítalíu fyrir fáeinum dögum. Sigraði með yfirburðum. Hann fékk 2 atkvæði. Annað frá Berlusconi sem lét skipa Monti sem kommissar árið 1994 og hitt frá forseta Ítalíu. Til að hafa vaðið fyrir neðan sig ákváðu þessir tveir almennu ítölsku kjósendur að Monti skyldi kosinn öldungadeildarþingmaður til lífstíðar, a.m.k til að byrja með.
Leiðarahöfundur segir frá viðbrögðum vegna afsagnar Berlusconi:
Og í öllum fréttum var einnig sagt að markaðurinn myndi fagna brottför Berlusconis og öllu hans Bunga bunga með hækkun hlutabréfa og lækkun refsiálags á ítölsk skuldabréf. Og fréttaskýrendurnir margreyndu höfðu rétt fyrir sér. Markaðir hækkuðu í þrjá klukkutíma tæpa til heiðurs Monti kommissar, en síðan ekki söguna meir.
Og svo kemur þetta sem er alveg óborganlegt:
Því nú fóru að berast fréttir um að Spánn væri næstur í röðinni. Hann væri þegar kominn með sjáanleg útbrot og Belgía, sem er hérað í kringum Brussel, þar sem ekki hefur tekist að mynda ríkisstjórn í hálft annað ár, væri orðin rauðeyg og farin að svitna. Hvort tveggja dæmigerð evrueinkenni að breiðast út um þjóðarlíkama á óviðráðanlegum hraða. Það er nefnilega svo komið að evran minnir sífellt meira á plágu og minna á peninga.
Þó svo að leiðarahöfundur bregði fyrir sig skopi og meinlegri ádeilu fer ekki hjá því að lesandinn átti sig því efnahagslega svartholi sem Evrópa hefur vitandi eða óafvitandi stefnt í undir forystu ESB. Þar eru ákvarðanirnar teknar, lýðræðislegar stofnanir eru valdalitlar og fréttaflutningurinn allur í skötulíki.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bein tengsl milli atvinnleysis og svartrar vinnu
15.11.2011 | 09:22
Væri forgangsröðunin rétt hjá ríkisstjórninni myndi hún beina öllum sínum kröftum í að útrýma atvinnuleysi og lækka skatta. Um leið myndi draga stórlega úr atvinnustarfsemi sem kölluð hefur verið svört. Það gerir hún ekki vegna þess að ráðherrar hennar ganga ekki heilir til skógar ...
Staðreyndin er einfaldlega sú að atvinnuleysið tekur alltof stóran toll af samfélaginu. Tekjutap ríkisins er því nákvæmlega það sama og þetta undarlega fólk, fjármálaráðherra og liðið frá AGS, heldur fram.
Dettur einhverjum í hug að að engin tengsl séu á milli atvinnuleysis og það sem kallað er svört atvinnustarfsemi?
Staðreyndin er einfaldlega sú að ríkisstjórnin hefur látið atvinnumálin sitja á hakanum. Allir hafa tapað á þessari ríkisstjórn. Inn í samfélagið vantar skatttekjur þeirra sem eru atvinnulausir, einkaneyslu þessa fólks og það veldur beinlínis samdrætti. Þannig hefur myndast hringrás sem erfitt er að rjúfa.
Ríkisstjórnin getur gert það en atvinnustefna hennar felst í allt öðru, beinlínis að stunda hryðjuverk í atvinnulífinu. Hvernig er annars hægt að líta á gjörsamlega misheppnaða atlögu að sjávarútvegnum með frumvarpi til laga um breytta stjórnun á fiskveiðum. Spyrjum Þingeyinga hvort þeir séu sáttir við atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar eða Reyknesinga.
Þessi lýður sem er að reyna að réttlæta einhverjar aðgerðir gegn svokallaðri svartri atvinnustarfsemi hefur engan skilning á ástandinu þjóðfélaginu.
Þrjátíu til fimmtíu milljarða tekjutap ríkissjóðs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |