Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2011

Eigum við að skipta við banka í eigu vogunarsjóða?

Fullyrt er í frétt Morgunblaðsins að 76 milljarðar króna hafi við endurmat á eignum gömlu viðskiptabankanna runnið til erlendra kröfuhafa þeirra og þá sérstaklega Glitnis og Íslandsbanka.

Guðlaugur Þ. Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins fullyrðir að vogunarsjóðir eigi 60% af öllum skuldabréfum þessara tveggja banka. Og jafnvfram að „aðilar sem hafi aðeins skammtímasjónarmið að leiðarljósi séu meirihlutaeigendur að Arion banka og Íslandsbanka“, segir Guðlaugur.

Hverinig getur það samræmst núgildandi gjaldeyrislögum að greiða út úr landinu 76 milljarða króna.

Kerfisbundið hafa þessir vogunarsjóðir keypt á slikk skuldabréf bankanna í þeirri von og jafnvel vissu um að endurgreiðslan, þó lítil sé, verði meiri en kostnaðurinn við uppkaupin.

Guðlaugur segir réttilega að þessi staða torveldi skuldaafskriftir hjá heimilum og fyrirtækjum.

Samrýmist það þá hagsmununum þjóðarinnar að hún skipti við þessa tvo banka?


mbl.is Kröfuhafar njóta ágóðans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heilbrigt hreyfingarleysi gegn útivistarslysum,

DSC_0283

Alveg er það ótrúlegt hversu margir finna hjá sér þörf til að vera útivið, erindið er ekki aðeins að ganga á milli húsa heldur dvelja undir beru lofti í langan tíma. Til hvers í ósköpunum stundar fólk þessa vitleysu? Vita menn ekki að því fleiri sem fara út í gönguferðir, fjallgöngur, skíðaferðir, hestaferðir, köfun, vélsleðaferðir, hlaup og þess háttar rugl, þeim mun fleiri meiða sig.

Skoðum efstu myndina. Hún er tekin við Dyrfjöll. Þarna er göngufólk á ferð í glæfralegum aðstæðum. Takið eftir snjónum sem er hrottalega ógnandi sem og gatið í fjallinu.

DSC_0108, Gengi› á H#58A695

Næsta mynd er tekin á Hvalfelli. Þar er stelpuskjáta á leið upp fjallið. Botnsvogur, Þyrilsnes, Hvalfjörður og Akrafjall í baksýn. Á þessum slóðum leynast hættur við hvert fótmál og undarlegt til þess að hugsa að einhver fari þarna um á stuttbuxum.

Sjórinn er kaldur, brekkur brattar, úr hömrum hrynur og úr skýjum rignir gjarnan. Alls staðar þarna hefur fólk meitt sig og stundum glatast líf vegna hræðilegra útivistarslysa.

Af hinum tíðu útivistarslysum sem Mogginn greinir frá er ekki stafkrók að finna um hælsæri. Erlendar kannanir hafa sýnt fram á að fá slys valda eins miklum sársauka og einmitt blöðrur á fótum. Ekki skiptir máli þó svona sársauki gleymist hratt, aðalatriðið er að ganga ekki neitt. Aðeins labbakútar fá hælsæri.

DSC_0928

Í fjarlægð virðast jöklar vera fallegir og elskulegir. Staðreyndin er þó allt önnur. Þeir eru skaðræðis land ef land má kalla. Banna á skilyrðislaust allar ferði um jökla. Snjórinn er því miður kaldur og veður eru þar alltaf vond. Drangajökull er sem betur fer langt í burtu frá þægindum höfuðborgarsvæðisins.

Þriðja myndin er einmitt tekin þar. Hún hefur ekkert sönnunargildi um að á jöklum geti verið gott veður. Hún sýnir aðeins aðstæður eitt augnablik og þess vegna gætu þeir sem á myndinni eru verið steindauðir oní einhverri sprungunni. Nei, góðir lesendur. Útivistarslysin eru verst slysa.

DSC_0271

Háir hamrar virðast tilsýndar lofa góðu útsýni en hvaða máli skiptir það fyrir fótbrotinn mann sem liggur ósjálfbjarga í gamalli kindagötu? Af útivistarslysastað er útsýni oft af skornum skammti.

Á neðstu myndinni má greina nokkra vitleysinga sem hafa álpast upp á klett við Hesagötur í Goðalandi. Vissulega er fallegt útsýni þarna uppi en hvað veit lesandinn um kvalir göngumannanna; hælsæri þeirra, höfuðverk vegna hæðarinnar, mæði, blóðþrýsting eða sífellda þörf að éta eitthvað til að koma til móts við orkuþörf líkamans.

Af þessu má sjá að best er að halda sig heima. Þó ber að varast rúmið þar enda flestir líf sitt; stórhættulegur staður. Útivistarslysin eru mörg eins og fram kemur í Mogganum og valda lögreglunni bölvuðum vandræðum og töfum frá heilbrigði kaffidrykkju og spjalli við kaffiborð eða rúnti í hlýjum löggubílum..

Stöðugt heilbrigt hreyfingarleysi er án efa besta lífsreglan.


mbl.is Tíð útivistarslys í síðustu viku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Súmm inn og súmm út frá golfmótum

Okkur áhugamönnum um fótbolta myndi örugglega ekki líka ef sjónvarpsútsendingar af knattspyrnuleikjum væru sýndir eingöngu frá endimörkum leikvangs. Hefðin er sú að upptökuvélar eru staðsettar við langhlið vallarins, nákvæmlega til móts við miðju.

Þannig er það ekki í golfi. Hefðin er þveröfug. Upptökuvélar eru staðsettar við teig og sýnir golfarann slá inn á brautina. Önnur vél er einhvers staðar við endimörk hennar. Stjórnendur hafa þá eitt markmið að sýna golfkúlu á flugi, helst að ná henni í fókus og nærmynd af lendingu hennar. Önnur hefð, og sýnu verri, er að brúka óhóflegan aðdrátt sem skekkir allt skyn áhorfenda fyrir vegalengdum á golfvellinum. Á þessu hef ég því miður lítinn áhuga en upptökumenn golfþátta og stjórnendur þeirra stunda líklega ekki sjálfir golf.

Sem golfari eru kröfur mínar einfaldar. Ég vil endilega fá að sjá upphafshögg kylfings á sjónvarpsskjánum. Ég vil líka vita og sjá hversu langt hann slær, ekki í jördum heldur í metrum þó svo að ég viti að fyrrnefnda mælieiningin sé 0,91 af þeirri síðarnefndu. Þetta síðarnefnda er bara varakrafa ...

Í útlandinu er oft trjágróður sem takmarka útsýni til golfbrautar af hlið. Svif kúlunnar má hins vegar sína grafískt. Það er sjaldan gert, en tæknin er fyrir hendi.

Nú, kröfurnar eru fleiri, en hver er sosum að telja. Ég geri þá bjargföstu kröfu að í sjónvarpi sjáist styttri leikur kylfings. Það ætti nú að vera hægt að sýna frá hlið, sérstaklega þegar vegalengd að holu er innan við t.d. fimmtíu metrar.

Þetta virðist engum detta í hug. Og myndavélamaðurinn á að standa kyrr, ekki sveifla vélinni eftir kúlunni. Þess í stað er sýnt þaðan sem kylfingurinn stendur og mundar kylfuna, dregið er að svo öll hlutföll skekkjast. Boltinn er sleginn og þá er skipt yfir á vélina við flötina og þar er súmmað inn og út rétt eins og sá sem upptökuvélinni stjórnar sé á lyfjum. Tíu metra vipp verður við þetta eins og eitt hundrað metra.

Útlendu þulirnir eru oft mistækir, ferlega slappir rétt eins og myndatökumennirnir. Þeir missi sig yfir nákvæmninni eða mistökum kylfingsins, en ég veit ekki neitt. Er fyrir löngu orðinn sjóveikur vegna súmm inn, súmm út, svifi og bakspuna kúlu sem sjaldnast sést í tengslum viðumhverfið. Ekki dettur svo þulinum í hug að segja manni frá því hvaða kylfa er notuð nema um sé að ræða dærver eða pútter. Fjandakornið, þær kylfur þekkja allir í sjón. 

Mikil kvöl er það og pína að hafa ánetjast þessari vitleysu sem golfið er. Vest er þó að vera orðinn svo mikill kverúlant að finna sig nauðbeygðan til að skrifa umkvaranir til þeirra sem aldrei lesa neitt á þessari síðu, vita ekki af henni og skilja í þokkabót ekkert í íslensku. Áður en golfið tók mig heljartökum rámar mig í að hafa gengið á fjöll. Einhvern tímann bariðst ég við óblíð náttúruöflin, lét fyrirberast í skafli í hríðarveðri, stóð í morgunsól á hæsta jökultindi, kleif upp hamrabjörgin, féll í jökulsprungu, synti yfir árósa og gekk matarlaus og votur um Hornstrandir. Nú sit ég í hægindastól og tala við sjónvarpsþulinn sem heyrir ekki einu sinni í mér. Svo hleyp ég út á golfvöll og þykist ætla að endurtaka það sem Tægervúdds gerði svo vel, en ...

 


Íslenski fáninn eða rauða dulan

Það er reyndar undarlegt að fólk sem steytir hnefann og syngur þjóðsöng Sovétríkjanna frá tíð Stalíns undir rauðum fánum skuli sjá ofsjónum yfir því þegar aðrir flagga íslenska fánanum. Og þó, e.t.v. er það rökrétt. Í Austur-Þýskalandi voru allir þeir sem grunaðir voru um skort á hollustu við kommúnismann og Sovétríkin kallaðir fasistar. Grunuðum fasistum fjölgaði svo eftir því sem molnaði undan kommúnismanum.

Hann er skemmtilega ritfær, formaður Framsóknarflokksins, en ofangreind tilvitnun er úr grein í Mogganum í morgun. Þar ræðir hann um stefnu flokksins og árásir krata á flokkinn fyrir meinta þjóðernisöfgastefnu. Hún hefurþó  farið framhjá þorra landsmanna en Samfylkingin þarf á óvini að halda og lemur á Framsókn. Veit að hún á lítið erindi í Sjálfstæðisflokkinn, ætlar líklegast að bíða eftir því að stjórnin springi og eigameð honum möguleika á nýrri ríkisstjórn. Samfylkingin sængar með hverjum sem er, það eru ráðherrastólarnir sem heilla, að minnsta kosti eru það ekki málefnin.

Kommúnismi og fasismi eru af sama ólýðræðislega meiðnum. Það er því reglulega skemmtilegt hvernig formaður Framsóknarflokksins bendir á að andstæðingar fasismans séu þeir sem syngja Internasjonalinn og flagga rauðri dulu. Á meðan flaggar aðrir landsins íslenska fánanum og fá ákúrur fyrir.


Allir vilja komast að eldstöðvunum á 5VH

Leit 2

Enginn veit hvað sænski ferðamaðurinn ætlaði sér. Líklegast er þó að hann hafi viljað fara upp að gosstöðvunum á Fimmvörðuhálsi. Þangað vilja allir komast, að minnsta kosti var það skilningur minn þegar ég dvaldi um hálfsmánaðar skeið í Fimmvörðuskála Útivistar í byrjun september sl. Langflestir sem þangað komu voru útlendingar og allir vildu sjá eldfjöllin.

Hvers vegna skyldi ferðamaðurinn þá hafa valið sér þá leið að leggja upp frá Sólheimajökli en ekki Skógum?Ástæðan er líklega sú að vegurinn upp á Hálsinn er lokað við Skóga, læstur með keðju. Gildar ástæður eru fyrir þessu m.a. sú að koma í veg fyrir að fólk fari sér að voða þarna upp. 

Margir útlendingar halda að ferð á Fimmvörðuháls sé á allra færi, jafnvel í vetrarbyrjun. Í byrjun október hitti ég þar finnskt par, ung fólk sem hafði gengið upp frá Skógum og var uppgefið við Fimmvörðuskála. Þau hefðu aldrei komist niður í björtu svo ég bauð þeim far í bílnum mínum sem þau þáðu og ætluðu aldrei að hætta þökkum og blessunarorðum.

Þau voru hrikalega illa klædd. Sléttbotna strigaskórnir hans höfðu skemmst á leiðinni, táin stóð út. Hann var í bómullarbuxum og íþróttajakka. Hún var í einhvers konar gönguskóm, í nælonbuxum og hettupeysu. Þeim var vissulega heitt á göngunni en kólnuðu hratt þegar þó stöldruðu við. Nokkrar kexkökur voru í nesti og kalt vatn í plastflösku.

Ég hef áður sagt frá útlendum ferðamanni sem týndist í ágúst á leiðinni frá Básum og í Fimmvörðuskála. Í myrkri og þoku um miðja nótt fóru skálaverðir út að leita. Sá á Fimmvörðuhálsi finnur loks manninn, kaldan og hrakinn. Á leiðinni í skálann rekst hann svo á annan göngumann. Sá lá upp við stein, rennblautur og kaldur og beið þess sem verða vildi. Enginn vissi af ferðum hans og enn hafði ekki nokkur maður saknað hans. Báðir voru hjálpinni fegnir og hafa eflaust lært ýmislegt af mistökum sínum.

Ekki eru allir svo heppnir að geta lært af síðustu mistökum sínum. Fréttirnar af sænska ferðamanninum eru askaplega fátæklegar. Ég geri ráð fyrir því að hann hafi verið á leiðinni að eldstöðvunum. Því miður verður að búast við því að útbúnaður mannsins sé lélegur og hann hafi gert ráð fyrir því að hægt væri að komast upp og niður á nokkrum klukkutímum. 

Hann sér að hliðið að slóðanum upp á Fimmvörðuháls og sér á korti að vegur liggur upp að Sólheimajökli. Þangað ekur hann og hugsanlega nær hann að komast yfir torfærann jökulinn og heldur því í áttina að Fimmvörðuhásli. Hann er ekki með gps tæki, ekki með áttavita og skilur ekki aðstæður. Hann snýr ekki við í tíma þegar hann tekur eftir því að farið sé að rökkva. Þetta eru mestu mistök sem flestum fjallamönnum verður á. Menn telja það ósigur að snúa við en hugsa þó ekki rökrétt um framhaldið.

Ég er ekki trúaður á að sænski ferðamaðurinn hafi komist á Fimmvörðuháls. Þangað er of langt að fara miðað við þann tíma sem hann hefur hugsanlega haft. Hafa ber líka í huga að hann hefur tafist við að finna leið yfir Sólheimajökul, hafi hann yfirleitt komist þar yfir. Þá er hugsanlegt að hann hafi gengið upp með jöklinum, jafnvel fundið vegarslóðann að húsum vélsleðaleigunnar sem er í um það bil 800 m hæð.

Þetta bendi ég bara á til að sýna hversu erfitt verkefni björgunarsveita er. Menn reyna að setja sig í spor göngumannsins en það er óskaplega erfitt. Landslagið er torfarið, mikið um gil og gljúfur og jökullinn er stórhættulegur. Hann er háll og mikið um sprungur. 

Á meðfylgjandi kort frá ja.is hef ég dregið tvær örvar sem gætu markað hugsanlega gönguleið hans í áttina að Fimmvörðuhálsi. Blái rastinn markar það svæði þar sem Lágjökull var. Hann er nú orðinn slitinn og víða hafa opnast gil og gljúfur sem erfitt getur verið að komast yfir. Um daginn snjóaði á Hálsinu, þá kunna að hafa myndast snjóbrýr sem auðveldlega geta brotnað og göngumaður horfið ofan í bratt gil og vatn. 

Suðaustan slagviðri var á þessu svæði í gær. Þetta er erfiðasta áttin, það þekki ég og félagar mínir eftir ótal ferðir. Illa búinn ferðamaður á sér vart lífs von við slíkar aðstæður nema hann komi sér fyrir og reyni að spara orkuna, bíða í von og óvon eftir aðstoð. 

Enginn skyldi fara einn á fjöll. Vel búnum ferðamönnum verður ekkert að tjóni kunni þeir að nota útbúnað sinn og tæki. Þetta er einföld staðreynd sem jafnvel flækist fyrir hinu besta fólki. Reglurnar eru annars fáar og auðskiljanlegar. Láta vita af ferðum sínum, sinna tilkynningaskyldunni og ... snúa tímanlega við í stað þess að ana í óvissu.


mbl.is Fundu spor við jökulinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maðurinn verður að finnast fyrir myrkur

DSC_0046 110905 Fimmvörðuháls, Eyjafjallajökull

Hann er lagstur í suðaustanátt á Fimmvörðuhálsi með rigningu. Líklegast er komið slagveður þarna uppi meira en 15 m/s. Því miður er þetta ein versta áttin á Hálsinum.

Eiginlega er allt í óvissu með manninn sem þarna á að vera. Hann er villtur og ekki í símasambandi. Ekki er ljóst hvenær hann lagði af stað á Hálsinn en gera verður þó ráð fyrir að það hafi verið fyrir hádegi í gær. Hugsanlega hefur verið farið að rökkva þegar hann kemur að vaðinu yfir Skógá. Hann hefur engu að síður gengið áfram, líklega getað fylgt stikum en síðan misst af þeim. Hversu lengi hann hefur gengið eftir að þeim sleppti er óvíst. Kannski hefur hann haft einhverja skímu og því stefnt upp að Fúkka. Þegar myrkrið skellur á verður hann óttasleginn og reynir að hringja. 

Mér finnst líklegast að maðurinn hafi smám saman haldið í vestur þar sem stórt gljúfur er honum á hægri hönd upp frá vaði. Geri því ráð fyrir að hann sé einhvers staðar í kringum Fimmvörðuhnúk, en hann er vestast á hryggnum sem Fimmvörðuskáli stendur á. Vandinn er sá að sunnan fyrir hrygginn var jökull en hann hefur minnkað mikið, skaflar sem brúuðu fyrir nokkrum árum stór gil og gljúfur eru horfnir. Í myrkri kann þetta landslag að vera endalausar torfærur.

Allt eru þó þetta getgátur og er skemmst að minnast mannsins sem týndist þarna í fyrra og fannst við Steinsholtsá en var miðaður út fyrir ofan Steinsholtsjökul. Hvernig sá hefur komist niður er óútskýrt.

Nú er hins vegar lífsspursmál að fá sem flesta björgunarsveitarmenn á Hálsinn og leita í breiðfylkingu. Tíminn vinnur gegn leitarmönnum og veðrið fer versnandi. Maðurinn verður að finnast fyrir myrkur.


mbl.is Versnandi veður á leitarsvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur Oddsson, eftirminnilegur kennari

Ákvarðanataka er orð sem ekki er til, sagði Ólafur Oddsson, íslenskukennarinn minn í MR. Þú ákveður, tekur ákvörðun. Þetta er svo einfalt.

Ólafur Oddsson er mér tvímælalaust eftirminnilegastur kennara í MR, en þaðan varð ég stúdent 1977. Hann var hægur og alltaf rólegur. Hafði með sér bláan ópal sem lá opinn á kennaraborðinu meðan á tímanum stóð. Honum tókst að vekja áhuga minn á íslensku máli, fornbókmenntum og skriftum. Þetta rennur nú upp fyrir mér þegar ég horfi á bókahillurnar sem þekja enn langvegginn í stofunni.

Nú er hann dáinn, borinn til grafar í dag. Það finnst mér alveg ótrúlegt. Í minningunni er hann alltaf svo unglegur og frískur. Af lestri minningargreina í Morgunblaðinu sé ég að hann var fæddur 1943, aðeins sextíu og átta ára gamall, hafði verið hjartveikur síðustu árin.

Ólafur skrifaði oft greinar í Moggann, sérstaklega um skólamál. Var rökfastur en aldrei fannst mér hann skrifa þannig að hann einn hefði rétt fyrir sér. Þetta fannst mér alltaf einkenni á kennaranum, hann var alltaf tilbúinn til að ræða málin, hlusta á skoðanir annarra. 

Auvitað lét ég segjast eftir skýringar Óla Odds. Hef ekki síðan notað orðskrípið ákvarðanataka. Sú ákvörðun var létt enda rökin fyrir henni góð. Hins vegar verður að segjast eins og er að orðskrípið lifir góðu lífi og er kannski búið að vinna sér þegnrétt í íslensku, en það er nú allt annað mál.


Apsirnar handteknar?

Ég er að velta því fyrir mér hvort lögreglan standi fyrir því að fjarlægja aspirnar. Hef stundum haldið því fram að hún hafi beinlínis handtekið dýr, hunda og jafnvel hesta. Fyrir hvað skyldu nú aspirnar vera handteknar ... og hvað verður um þær. Verða þær settar fangaklefa?
mbl.is Taka aspir niður við ráðhúsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einar Kr. Guðfinnsson og bloggið hans

Einar Kristinn Guðfinnsson, alþingismaður, bloggar stundum. Þó ekki nógu oft. Hann skrifar yfirleitt ágæta pistla, svona málefnalega séð. Málsgreinar eru yfirleitt stutta þó á því séu stundum meinlegar undantekningar.

Gallinn við greinar Einars er fyrst og fremst sá hversu lengi hann er að koma sér að efninu. Þó starfaði hann sem blaðamaður á yngri árum og eitthvað hlýtur hann að hafa lært þá. Hann byrjar þrjú síðustu bloggin sín svona:

Það er sagt að hver dragi dám af sínum sessunaut. Þetta gamla íslenska máltæki virðist passa sem flís við rass þegar skoðuð er stefna stjórnarflokkanna gagnvart ESB umsókninni. ...

 Og:

Nú er okkur sagt að allt sé verða fínt og flott hér á landi af því að hagvöxturinn sé að taka við sér. Fyrir þessu er Seðlabankinn borinn. Og rétt er það. Hagvaxtartölurnar eru ekki lengur eitt stórt núll eða mínus, eins og ...

Og:

Nú liggur það fyrir. Ekki er þess að vænta að ríkisstjórnin muni leiðrétta fjárlagatillögurnar gagnvart heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni, né raunar annars staðar. Ótilneydd  að minnsta kosti. Svörin eru orði  ...

Aðeins hörðustu stuðningsmenn Einars nenna að halda áfram eftir svona byrjun. Staðreyndin er einfaldlega sú að ef pistlahöfundur hefur ekki komist að kjarna málsins í þremur línum er pistillinn líklegast hundleiðinlegur! Að minnsta kosti býst lesandinn yfirleitt við einhverju bitastæðu í upphafi, komi það ekki, hættir hann ofast að lesa.

Ef til vill er Einar búinn að vera of lengi á þingi, hann var kannski líka of lengi sem ráðherra. Það afsakar samt ekki neitt. Hann veit betur en er eins og margir íhaldsmenn er hann líklega „of feitur og of latur til að berjast“, eins og einhvern tímann var sagt af öðru tilefni. 

Í gær gagnrýndi ég dálítið skrif Bjarna Benediktssonar. Hann fékk frekar slæma dóma. Næst ætla ég að skoða rithæfileika Tryggva Þór Herbertsson, alþingismann. Já, hann er umdeildur af mörgum ástæðum en ég læt mér það í léttu rúmi liggja. Hvernig er annars rithæfileikum hans háttað?


Stjórnmálaþátttaka verða alvarlegustu mistök HH

Pólitískur stuðningur við stefnu Hagsmunasamtaka heimilanna er eitt, stuðningur við hugsanlegt framboð þeirra er allt annað. Raunar er alveg ótrúlegt að þessi ágætu samtök láti sér detta framboð í hug hvað þá að fara með þá hugmynd opinberlega. Margar athugasemdir má gera við framgöngu þeirra. Ég skal nefna nokkur.

Í fyrsta lagi eru stjórnmál miklu meira en aðeins eitt mál. Stuðningsmenn Hagsmunasamtakanna hefði ekki hugmynd um hvar samtökin myndu standa í öðrum málum, t.d. aðild að ESB, atvinnumálum, opinberum rekstri, einkarekstri, skólamálum, heilbrigðismálum og svo framvegis. Það myndi nú aldeilis kvarnast út þessum 30% sem Capacent reiknar út að vilji hugsanlega kjósa HH þegar komin er stefnuskrá. Þannig er það með alla flokka, ekki síst nýja. Allir vita hvernig fór fyrir Borgara/Hreyfingunni og Frjálslynda flokknum, hvort tveggja eins mála flokkar.

Í öðru lagi gera Hagsmunasamtökin sig seka um gríðarlegan dómgreindarskort þegar þau þykjast vera orðið svo mikið afl að þau geti boðið fram til Alþingis. Ósjálfrátt munu stjórnmálaflokkar skoða þau hér eftir sem keppinauta en ekki hagsmunasamtök sem þau geti stutt.

Í þriðja lagi hafa Hagsmunasamtökin ekki staði sig nógu vel í hagsmunagæslu fyrir heimilin. Þau hafa látið stjórnvöld ráðskast með sig fram og aftur, klofningur hefur verið í stjórn samtakanna og þrír stjórnarmenn sagt af sér. Hið alvarlegasta er þó það að samtökin létu það viðgangast að þeirra sterkasti málsvari, Marinó G. Njálson væri hrakinn úr stjórninni. Þau hafa eiginlega ekki borið sitt barr síðan. Síðan það gerðist hefur komið í ljós að áhrif Marinós hafa margfaldast en eiginlega hafa Hagsmunasamtökin staðið í stað.

Fleira mætti eflaust til taka. Samtökin hafa að mörgu leiti staðið sig vel en þau vantar sárlega stabílítet, skipulag og sterka forystu. Rökin í baráttunni gegn verðtryggingu og gengistryggðum lánum eru þó enn þeirra megin og baráttumálin eru góð. Þau kunna þó fátt í PR málum, forystumenn þeirra virðast óundirbúnir í fjölmiðlum, gera ekki alltaf greinarmun á aukaatriðum og aðalatriðum og það sem verst er, stjórnvöld virðast ekkert mark taka á þeim.

 


mbl.is 80% vilja afnám verðtryggingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband