Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2011

Besta frá báðum, hinum er sparkað

Íslandsbanki auglýsir nú að Byr sameinist honum. Auglýsing er kaldhæðnisleg, ekki fyrir það sem hún segir vegna þess sem hún segir ekki. Fyrirsögn hennar er:

Besta frá báðum
 
Ósjálfrátt hugsar lesandinn: Ójá, hið besta frá báðum og svo rekur bankinn hina, en samkvæmt fréttum eru það að meginuppistöðu kvenfólk. Engu að síður heldur hann því fram í auglýsingunni að innan Byrs sé „rík þjónustumenning og góður starfsandi sem endurspeglast í jákvæðri og góðri þjónustuupplifun “ (þvílík bullandi suða er nú þessi texti). 
  
Ég hef oft velt því fyrir mér hvers vegna ég er í viðskiptum við bankann minn, af hverju notar maður ekki bara seðla og geymir peningana undir koddanum. Bankinn myndi áreiðanlega segja að það sé stórhættulegt ef allir gerðu þetta, glæpamenn ættu þá auðvelt með að brjótast inn að stela þeim. Á móti kemur sú staðreynd að peningarnir komast þá fljótar í umferð og slíkt myndi hafa í för með sér eftirsóttan hagvöxt. Mér skilst að bankarnir liggi á þúsundum miljarða sem þeir telja sig ekki geta lánað vegna efnahagsástandsins! 

 
 

Gýs vestan við Kötluöskjuna, ofan Þórsmerkur?

2011

„Líklegasta skýringin á þessu er að Katla sé í raun og veru alltaf alveg á nipppinu að gjósa. þetta kom fram 1999, þá virðist hafa orðið smá gos af svipuðu tagi og þetta. Því fylgdi órói, líka breyting á skjálftavirkni og aukning á jarðhita næstu árin á eftir,“ segir Páll Einarsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands.

Orð Páls vöktu athygli enda sjaldgæft að jarðfræðingar taki svo sterkt til orða að Katla sé eiginlega alltaf við það að gjósa ...

En það hefur gleymst að spyrja Pál um hvar gjósi í Mýrdalsjökli. Líklega er það mikið álitamál. Kötluaskjan er líkleg en þeir vita sem vilja að víða hefur gosið í jöklinum. Verði gos á næstunni er engin vissa fyrir því að það eigi upptök sín þar. 

2010

Myndin hér fyrir ofan er af skjálftakorti Veðrustofunnar fyrir Eyjafjallajökul og Mýrdalsjökli og það sýnir upptök alla jarðskjálfta á þessu ári. Á miðjum Mýrdalsjökli eru dregnar útlínur Kötluöskjunnar. Innan hennar hafa orðið gríðarlega margir skjálftar. Athygli vekur þó að skjálftar utan hennar eru mjög margir og þá sérstaklega vestan hennar, á því svæði sem jarðfræðingar telja til Goðabungu. Það er mjó ræma á milli jöklanna og tekur yfir Mýrdalsjökul þar sem hann tekur að halla til vesturs. 

Þarna sperrir maður augun. Jarðskjálftarsvermurinn nær að mestu leyti yfir Goðalandsjökul, þar með talinn Tungnakvíslajökul, Krossárjökul og Merkurjökul.

2009

Verði eldgos á þessu svæði er allt önnur hlið uppi á tengingnum en gjósi í Kötluöskjunni. Þarna verður flóð niður Krossárdal og því munu fylgja gríðarlega skemmdir á Þórsmörk og Goðalandi og án efa gera það ónothæft til sem útivistarparadís næsta áratuginn.

Hvaða líkindi eru á að það gjósi á þessu svæði? Ég hef ekki grænan grun. Með því að skoða skjálftakort undanfarinna tuttugu ára, setja sér forsendur má hugsanlega draga líklegar ályktanir.

Gerum til dæmis ráð fyrir því að jarðskjálftar bendi til kvikuhreyfingar, því fleiri jarðskjálftar þeim mun meiri kvika sé á leið upp að yfirborði og fjöldi jarðskjálfta bendi til eldgoss ...

2008

Séu þessar forsendur færðar yfir á Kötluöskjunnar eru allir sammála um að þar muni fara að gjósa.

Hitt fær minni athygli að eldgos gæti allt eins orðið vestan við öskjuna með jökulflóði niður Krossárdal og síðan í farveg flóðsins úr Eyjafjallajökli í fyrra, það er Markarfljótið. 

Já, hvaða líkindi eru á gosi vestan við Kötluöskjuna? Hérna eru nokkur skjálftakort síðustu ára. Greinilegt aðSkjálftakort síðustu ára eiga aðeins eitt sameiginlegt og það er þéttur jarðskjálftasvermur vestan við Kötluöskjuna.

Skjálftakortin eru til frá árinu 1992 og ég skoðaði þau öll. Vissulega er það rétt sem fram kemur í viðtalinu við Pál Einarsson, jarðeðlisfræðing í Ríkissjónvarpinu, að skjálftavirknin í Mýrdalsjökli komi í hviðum. Hins vegar virðast hviðurnar vera svo til eingöngu í Kötluöskjunni. Vestan við hana er varla neitt lát á jarðskjálftum þó Katla sé róleg.

1982

Síðasta kortið sem ég birti hér er frá árinu 1992. Þá voru ferleg læti undir Goðalandsjökli, fleiri jarðskjálftar þar en innan Kötluöskjunnar.

Aðdragandi eldgossins í Eyjafjallajökli var langur og merkilegur. Lengi vel virtust jarðskjálftar eiga uppruna sinn ofan við Steinsholtsjökul en skyndilega gaus á Fimmvörðuhálsi. Jarðfræðingar urðu jafn forviða og hagfræðingar yfir bankahruninu 2008. Ekki dró úr undrun jarðfræðinga er gosið á Hálsinu snérist í gos í toppgíg jökulsins.

Ljóst má því vera að enginn getur sagt fyrir um hvar gjósi í Mýrdalsjökli. Jökullinn er líklega ólíkindatól og sé við það að gjósa en ekkert gerist, rétt eins og Páll Einarsson segir. 

Skjálftakortin er að finna á þessari slóð: http://hraun.vedur.is/ja/myr/myr_map.html#img.

DSC_0115 110827 Morinsheiði í A, Tungur, Hruni, Mý - Version 2

Hér er mynd sem tekin er Morinsheiði og sýnir vesturhluta Mýrdalsjökuls. 


Pólitík göngumannsins - enn og aftur

Jakob nokkur Björnsson, fyrrverandi orkumálastjóri, skrifar oft greinar í Morgunblaðið um virkjanir og stóriðju. Hann er af þeirri kynslóð sem þekkir eflaust ekki eina mikilvægustu og þá sem skiptir alla miklu máli. Jakob hefur vafalaust ekki varið lífi sínu til gönguferða og náttúruskoðunar sem nú er orðinn afar mikilvægur „iðnaður“ og orkuuppspretta fyrir tugþúsundir landsmanna og einnig útlendinga.
 
Að mínu mati fer ekki saman að sökkva landi undir uppistöðulón fyrir virkjanir, breyta landi svo það verði óþekkjanlegt frá því sem var og byggja upp ferðaþjónustu eða leyfa fólki frjálsar ferðir um landið.
 
Ég virði skoðanir Jakobs en ég er langt í frá sammála öllu því sem hann segir. Er það ekki sárgrætilegt að þurfa að segja við barnabörnin sín að við breytum landi til þess að við getum haft það gott en í leiðinni veldur það oft einskærum óþægindum fyrir okkur? Því hverju skiptir það ef við eignum öll auðæfi heimsins en glötum um leið uppruna okkar, sál landins.
 
Því er ekki úr vegi að birta hér pistil sem ég skrifaði fyrir margt löngu í þeim tilgangi að átta mig á því sem ég raunverulega vil. Úr varð nokkurs konar stefnuyfirlýsing á tilfinningalegum nótum. Við hana stend ég.
 
 
Pólitík göngumannsins 
 
Ungur asnaðist ég á fjöll, þeim ávana hef ég haldið hingað til og væntanlega verður engin breyting þar á í fyrirsjáanlegri framtíð. Þetta er hins vegar alls ekki til eftirbreytni, frekar myndi ég letja fólk til fjallaferða en hvetja. Þær eru dýrar og erfiðar. Útgjöldin felast í alls kyns klæðnaði og græjum og gangan sjálf er bara puð og sviti. Ég hef verið á sólarströndum í suðrænum löndum. Þar er lífið létt og skemmtilegt, puðið er ekkert og svitinn kemur af hreyfingarleysi í sólskini. Sælast er að sitja á sínum rassi og gera ekkert.
Fátt er varið í fjallaferðir nema ef vera skyldi útsýnið, ef gefur, fjölbreytileg náttúran nær og fjær, stundum ferðafélagarnir, ýmiskonar sögulegur fróðleikur og fleira, í lokin hríslast endorfínið um kroppinn og það er bara gott. Annað er það nú ekki, - held ég …
 
Samningurinn
Það er sem sagt ekki þrautalaust að ferðast um landið og sá er vandinn mestur að halda náttúrunni óspjallaðri, þó ekki sinni eigin heldur þeirri landsins, ganga varlega um og gæta þess að verða ekki til skaða. Hinn vandinn er sá að halda lífi, gera ekki neina þá dómsdags vitleysu sem gæti orð manni að fjörtjóni þar sem maður er að flækjast fótgangandi í alls kyns aðstæðum, og stundum jafnvel einn. Ferðamaðurinn verður að kunna að búa sig, þekkja takmörkin, geta brugðist rétt við óvæntum aðstæðum og svo framvegis. Vart er að treysta á heppni í þessum efnum.
 
Þó ég sé svona yfirleitt frekar heppinn hef ég lært að treysta ekki á tilviljanir og þess vegna hef ég komist að samkomulagi við náttúruna. Það var ekki erfitt, reyndar auðsótt. Efni samningsins er einfalt, eiginlega í tveimur liðum: Hún ógnar mér ekki lengur því ég kann að búa mig til ferða, og ég kem fram við hana að nærgætni, stíg létt til jarðar, raska engu og skil við alla staði nánast eins og ég kom að þeim. Þannig hefur það verið lengi og báðir aðilar una vel við sitt.
 
Stíga skal létt til jarðar. Í orðsins fyllstu merkingu þarf að gæta að svo mörgu, hugsa og framkvæma þar á eftir. Þess vegna gremst manni förin eftir torfærumótorhjól, utanvegaskrens eftir bíla, sárin sem myndast við átroðning ferðafólks. En allt eru þetta þó smámunir miðað við þau sem stóru vinnuvélarnar valda. Tæknin er slík að með réttum tækjum er hreinlega hægt að flytja fjöll úr stað (þá heitir fjallið „efni“).
 
Tæknilega er hægt að byggja nýtt fjall þar sem það vantar og malbika þar yfir sem áður stóð einhver skítahrúgan. Það er hins vegar ekki gert en þess í stað eru fellin og fjöllin fjarlægð, kroppað í önnur og landi „drekkt“ eins og það heitir. Aldrei virðist hugsað til samræmis, hvorki í „efnistöku“, mannvirkjagerð eða skipulagi. Rétt eins og sárin í landslaginu eftir „efnistöku“ þá eyðileggja mannvirki oft fallegt land.
 
Sporin göngumannsins  
Mikill er máttur nútímamannsins sem hefur stolið litlum og stórum fellum og spillt öðrum til lífstíðar ef svo má segja.
 
Enginn segir lengur orð vegna fimmtíu ára gamalla gróðurskemmda hjá Vífilsfelli, fáir nenna að tuða yfir örlögum Ingólfsfjalls sem þjáist af lýtum sínum og þar á að höggva enn frekar í sama knérunn. Hver man eftir litla fellinu sem kannski hét Gvendarselshæð í Undirhlíðum ofan Hafnarfjarðar? Austan við Skíðaskálann í Hveradölum eru stórir gígar sem muna mega fífil sinn fegurri, í þá var svo ótæpilega sótt efni að einn þeirra er horfinn. Þannig var með annan fagran gíg við Selkletta við Nesjavelli. Engann hef ég heyrt kvarta yfir örlögum Hellisskarðs sem áður hét Yxnaskarð og er ofan við Kolviðarhól, neðan Hellisheiðar. Þar sem Búi Andríðarson vó Kolfinn fóstbróður sinn forðum daga liggur nú hraðbraut og sú kemur í staðinn fyrir þá götu sem vegfarendur í þúsund ár bjuggu til í hart helluhraunið. Af hrokanum einum saman eru lögð gufurör og rafmagnslínur í háspenntan hnút án upphafs eða endis. Nútímamanni hefur á tveimur árum breytt landslaginu meir og varanlegar en forfeðrum hans tókst á tíu öldum. Ábyrgð Ölfushrepps, sem á lögsögu þarna og samþykkti framkvæmdir er mikil og Orkuveita Reykjavíkur er þarna í djúpri, djúpri for sem vart á sér fordæmi hér á landi.
 
Og hvað má svo einn göngumóður ferðamaður með móral vegna þess að spor hans kunna að sjást. Hversu lítil eru þau ekki í þessum samanburði og til dæmis miðað við miðlunarlónið sem kennt er við Hágöngur við Sprengisand? Þar gekk ég eitt sinn á skíðum um miðjan vetur og undraðist þessi tvö, nær ókleifu en háu tvíburafjöll, og landslagið í kring. Þar er nú þrjátíu og sjö ferkílómetra lón, frekar grunnt. Þannig aðgerð heitir „að drekkja“ landi og er í eðli sínu ekki óskylt því að drekkja ráðherra enda hvort tveggja óafturkræft.
 
Tilfinningar eru vanmetin rök
Ekkert hryðjuverk er svo slæmt að ekki sé hægt að gera enn verr, „toppa það“ eins og unglingarnir segja.
 
Nokkrum árum eftir að landinu við Hágöngur var „drekkt“ átti að kaffæra Eyjabakka, sem er merkileg gróður- og náttúruvin norðan Vatnajökuls. Ýmis konar rök voru notuð. Sumir sögðu lítinn skaða í því að „sökkva“ landi sem sárafáir þekkja eða nýta til útiveru, þáverandi umhverfisráðherra fannst reiturinn tilkomulítill. Var mér þá hugsað til þeirra staða sem ég held að aðeins örfáir hafi barið augum. Þetta eru ekki svonefndir ferðamannastaðir, náttúruvætti eða undur bara einfaldlega staðir, snotrir, fallegir eða sérstakir unaðsstaðir, flestir langt út úr alfaraleið og verða þess vegna aldrei mærðir af atvinnuljósmyndurum eða söguriturum, aðkoman að þeim er aðeins fyrir gangandi.
 
Ítalskir sprengdu í Kárahnúkum. Ég sá atburðinn í sjónvarpi og það var eins og að verða vitni að morði og kannski var þetta morð, undanfari þess að landi er „drekkt“.
 
Hér má ekki misskilja mig. Sá sem hefur villst um fjöllin stóran hluta ævinnar er náttúrulega bilaður, enda bera tilfinningarnar hann ofurliði á svona tímamótum. Náttúrulausir rökhyggjumenn gera lítið úr tilfinningum slíkra. „Komdu með skýringu, helst í krónum og aurum og þá skal tekið mark á þér“. Gott og vel. Elskar þú börn þín upp á tíu milljónir fjögur hundruð og tuttugu þúsund eitthundrað þrjátíu og sjö krónur, konu þína upp á upp á níutíu prósent af þeirri fjárhæð, og móður og föður upp á sjötíu og aðra ættingja minna? Ekki satt?
 
En ég spyr í einlægni, getur einhver komið í stað dóttur þinnar eða sonar? Er hægt að meta fjölskylduna til fjár? Er hægt að meta mannslíf til fjár?
 
„Nei, þetta er ekkert að marka, bara útúrsnúningur“, segir húmorslausi rökhyggjumaðurinn, náttúrulaus utan fjögurra veggja þar sem hann getur ekki stuðst við Excel.
 
Svo sannarlega er þessi rökleiðsla marktæk. Þau tryggðarbönd sem verða til af uppeldi og lífi einstaklings í nánu sambandi við fjöllin vera ekki frekar metin til fjár en fjölskyldutengsl eða ást milli tveggja einstaklinga. Það er svo margt sem grundvallast af tilfinningum. Börnin elskar maður skilyrðislaust af því að slíkt er tilfinningaþrungið samband, önnur verða varla rökin. Eða eru þetta hin einu rök? Að sjálfsögðu vega tilfinningarnar þyngst og margur hefur vanmetið gildi tilfinninga í stjórnmálum. Það skyldi enginn gera.
 
Lýðræðið
Lýðræðið er skítlegt apparat, þunglamalegt og afkáralegt, en um leið verður að viðurkennast að annað vitrænt kerfi er ekki í boði. Ég tek ekki dýpra í árinni en aðstæður leyfa. Um leið þarf maður að undirgangast leikreglurnar enda fylgdist ég vel með Alþingi þegar það samþykkti Kárahnjúkavirkjun með miklum meirihluta atkvæða og undir þá ákvörðun hlýt ég að beygja mig. Hins vegar segir ekkert í leikreglum lýðræðisins að ég þurfi að vera sáttur við niðurstöðuna enda er ég það ekki, kannski meira undrandi en reiður …
 
Og yfir hverju er maðurinn reiður? Reiðist hann stórvirkum vélum sem mola niður landið sem hann áður gekk sporléttur eða beinist reiði hans kannski að uppbyggingu álvers? Er hann fúll yfir afgerandi meirihluta Alþingis sem samþykkti framkvæmdina? Er hann ekki bara einn af þessum öfgafullu  náttúruverndarmönnum sem eru á móti öllu, hvaða nafni sem það nefnist? Brigslar hann meirihlutanum um landráð og baktjaldamakk, svik?
 
Maður er bara það sem aðrir vilja, kjáni, spámaður, vitleysingur, spekingur eða bara venjulegur náungi, andlitið sem stundum er sjáanlegt, annars bara hluti af fjöldanum. Sú persóna sem hér tiplar um tölvuborð er ekki aðalatriðið í svona umræðu heldur málefnið sjálft, sú stefna sem tekin er og forsendurnar sem að baki liggja. Þar verða menn að gera greinarmun á tvennu, sjálfri orkuöfluninni og notkun orkunnar. Mér sýnist vandamálið hafa alltaf snúist um hið fyrrnefnda. Ég brigsla ekki neinum um svik, þvert á móti ber ég virðingu fyrir ákvörðun sem tekin er á lýðræðislegan hátt, en ég er ekki sammála.
 
Hvaða máli skiptir til hvers orkan er notuð? Vilji einhver gera það að umræðuefni þá er það allt annar handleggur en uppspretta orkunnar. Mín rök eru gegn misnotkun lands, spillingu lands, óþarfa skemmdum.
Í aðdraganda virkjananna fyrir austan var mikið fjallað um þá möguleika til að útvega orku fyrir stór álver og þá kom í ljós nokkuð uggvænleg staðreynd. Framsýni þeirra sem ráðskast með orkumál hér á landi var ekki meiri en svo að enn var gripið til sama ráðs og Einar Benediktsson vissi best er hann hvatti til uppbygginu íslensks atvinnulífs fyrir eitt hundrað árum. Skáldið skynjaði skiljanlega ekki auðinn í afli í háhitasvæða, en á þeirri öld sem liðið hefur höfum við aðeins uppgötvað og virkjað fallvötnin og eiginlega látið reka á reiðanum með allt annað. Hversu framsýnir og tæknilega sinnaðir erum vér Íslendingar? Hvernig hefur verið staðið að stefnumótun í orkumálum?
 
Hefði ekki verið hægt að verja tímanum betur en einblína um of á vatnsaflsvirkjanir og vera hreinlega lens þegar spurt var um gufuaflið?
 
Virðingin
Eitt lítið spor eftir vegmóðan göngumann hefur óveruleg áhrif miðað við þær stórtæku vinnuvélar sem svipt geta burtu heilu fjalli og valdið varanlegum lýtum á landslagi. Hér er ekki verið að mælast til þess að göngumenn leggi af flæking sinn um landið né heldur að vötn séu virkjuð og lagt í margvíslegar framkvæmdir. Þeir sem í hlut eiga verða hins vegar að hugsa sjálfstætt og gera sína eigin samninga við landið um gagnkvæma virðingu og þá gerir ekkert til þó halli á mannskepnuna. Gæta skyldi samræmis í allri mannvirkjagerð. Kárahnúkar og Hellisheiði eru dæmi um hrikalega mistök.
 
Sú hugmynd er einstaklega falleg að við höfum landið að láni, það er í eigu afkomenda okkar og við eigum að standa þannig að málum að okkur sé sómi að arfleifðinni, jafnt landinu sem þjóðfélagsgerðinni. Hér er áreiðanlega auðveldara um að tala en framkvæmda, tekur þar pólitíkin við og þá skiptir máli að hinir bestu menn taki ákvarðanir eins og sagt var til forna.
 
Höfum við slíka á Alþingi Íslendinga?

Ást yðar mælist eingöngu í verðmæti jólagjafa

Hvernig í ósköpunum komst verslunin inn í kristna trú. Ég velti þessu fyrir mér vegna þess að nú er mánuður er til jóla, fyrsti í aðventu er á sunnudaginn. Hvernig sem ég reyni rekur mig ekki minni til þess að verslun hafi haft einhverja þýðingu í hinum kristilega boðskap þó svo að með einfaldri rökleiðingu megi álykta sem svo að hún hafi fylgt manninum frá örófi alda í einhverri mynd.

Jólagjafir eru sosum ágætar, líklega vegna þess að þar á hugur að fylgja máli og enn er því haldið fram að betra sé að gefa en þiggja. Samkvæmt „jólaguðspjalli“ verslunarmanna verða líka að vera þiggjendur annars stæðu gefendur uppi í ráðaleysi með allar sínar gjafir. Það er þó ekki svo því gefendur eru líka þiggjendur og þiggjendur gefendur.

Krafan um jólagjafir er líklega það heimskulegasta sem þróað hefur verið í nafni kristinnnar. Jól án gjafa eru vafalítið jól með hinum siðferðilega boðskap í öndvegi. Hversu efins og vantrúaðir við erum um sjálfa kristnina geta skilið það sem trúin býður og jafnvel verið sammála stærstum hluta þess. Þurfum við virkilega að setja okkur á hausinn vil að halda upp á jól á þann hátt að það fari gjörsamlega þvert á kristinlegan boðskap?

Rannsóknarsetur verslunarinnar hefur án efa meiri áhrif en boðskapur samanlagðra biskupsdæma og prestakalla landsins. Boðskapur erkibiskups kemur nú ekki að utan heldur er hin hreina og tæra yfirlýsing Rannsóknarsetursins um að jólagjöfin í ár sé iPad spjaldtölva. Hún kostar aðeins frá um 85.000 og upp í 150.000 krónur.

Boðskapur erkibiskups er meðal annars eftirfarandi:

  • Ást og umhyggja yðar mælist eingöngu í verðmæti jólagjafa (látið því verðmiðann fylgja til skýringar)
  • Níska er bölvaldur jólanna, gefið og þér munuð hólpnir verða
  • Þér skuluð að lágmarki verja 38.000 krónum í jólagjafir (fyrir utan iPad)
  • Sá sem eyðir ekki meira en 38.000 krónum í jólagjafir telst nískur
  • Veltuaukning í jólaversluninni er mælikvarði á hamingju þjóðar
  • Jólagjafir eru ekki mælikvarði á efnishyggju
  • Hin æðsta dyggð er að hefja jólagjafainnkaup snemma (varðar boðorð um rekstrarleg hagkvæmni)
  • Friður á jörð er ekki söluvara og á því ekki erindi á óskalista
  • Sannkristinn maður skal ekki láta kristinn boðskap stjórna undirbúningi jólanna

Kaupum, verslum, stormum um verslanir, étum, drekkum, ropum og prumpum í anda hins kristilega boðskaps Rannsóknarseturs verslunarinnar. Halelúja og amen eftir efninu.


Capacent ehf. er fyrst og fremst starfsfólkið

Fyrirtækið Capacent er fyrst og fremst fólkið sem þar vinnur. Efnislegar eignir eru þar hverfandi á móti mannauðnum. Þetta verður fólk að átta sig á.

Ár er nú frá því að fyrirtækið breyttist í ehf. Margt hefur breyst á þessum tíma.

Afleiðing ákvörðunar skiptastjóra verður einfaldlega sú að stofnað verður nýtt félag sem líklega mun heita Capa ehf. og allt starfsfólkið mun stökkva frá borði sökkvandi skútu og á nýtt fley.

Vonandi heldur það síðan áfram góðri siglingu, því starfsfólk Capacent ehf. hefur staðið sig afar vel og orðstír þess góður. 


mbl.is Þrotabú krefst riftunar á sölu Capacent
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jósafat sem týndi vitinu

Jósafat Semingsson frá Koti við Skagaströnd var eitt sinn á ferð við Hraunsvatn í lok nítjándu aldar. Hann reið skjóttum hesti og hafði annan til reiðar en sá var rauður. Með í för var líka unglingspiltur er Guðjón hét en ekki er vitað hverra manna hann var. Þó er ætlað að hann hafi verið sonur foreldra sinna. Hann reið bleikri bykkju er Snót var kölluð.

Þeir Jósafat og Guðjón veiddu silung í net og þótti mikil búbót af silungnum ekki síst þar sem Jósafat bjó kotbúi í Koti. Nú, það gerist svo í þessari ferð að Jósafat missti vitið. Hann neitaði að ríða hrossum sínum heldur gekk til byggða. Unglingspilturinn Guðjón reið hefðbundna leið heim og hafði með hrossin og veiðina.

Jósafat skilaði sér heim og var upp úr þessu frekar óþægur enda vitlaus með öllu. Kona nokkur bjó þá í Langadal er Sólfríður hét. Hún vissi lengra nefi sínu. Til hennar var leitað vegna vitleysu Jósafats og ráðlagði hún aðstandendum að farið yrði með karlinn aftur upp að Hraunsvatni í þeirri von að hann fyndi það sem hann hefði tapað.

Þegar komið var fram á haust árið eftir að Jósafat missti vitið var þá gerð ferð upp að Hraunsvatni . Til hennar völdust þeir Guðjón unglingspiltur og Jósafat fékk líka að fara með enda átti hann nokkuð undir því að árangur yrði af ferðinni. Sátu þeir sömu hesta. Þó hafði Snót orðið sjálfdauð veturinn á undan og var því uppétin. Fékk hann því til reiðar góðan fola er Sörli hét enda voru engar bykkjur eftir á bænum.

Komu þeir nú að Hraunsvatni og gætti Guðjón þess að þeir færu nákvæmlega í sömu slóðir og árið áður. Þótti það skynsamlegt hjá drengnum enda árangurinn eftir því. Hann fann fljótlega forláta vasahníf er hann hafði týnt og fagnaði mjög. Á meðan ráfaði Jósafat ráfaði út í þétta þokuna og fannst ekki aftur.

Eftir að hafa veitt nokkra kippur silungs, reið Guðjón heim í kotið og sagði ekkju Jónatans frá því hvað hafði gerst og urðu samfarir þeirrar góðar upp úr því. Fannst flestum að þessi málalok væru hæfileg úr því að Jósafat fann ekki vit sitt. Guðjón notaði hins vegar hníf sinn lengi síðan og er hann nú að finna í Árnesi á Skagaströnd þar sem geymdir eru gamalt og ónothæft dót. Vit Jósafats hefur hins vegar ekki fundist þrátt fyrir mikla leit allt fram á þennan dag.


mbl.is Fann gleraugun á reginfjöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spámenn, sérfræðingar eða sjimpansar

Hver gat spáð fyrir gosinu á Fimmvörðuhálsi? Hver spáði fyrir brunann í Lækjargötu? Hverir eru svo spámannlega vaxnir að þeir geti spáð fyrir um ókomna tíð fyrst þeir sáu ekki hrunið fyrir?

Fjöldi manns segist núna hafa spáð fyrir um hrunið. Hver stjórnmálamaðurinn á fætur öðrum hefur ruðst fram í fjölmiðlum og sagt si svona: Tja, ég skrifaði nú fjölmargar greinar þar sem ég varaði við að allt kynni nú að fara á versta veg en á mig var ekki hlustað. Um að gera að segja það svona óljóst og vona bara að enginn nenni að leita að þessum greinum. 

En það eru eiginlega hinir, þessir draumspöku, sjáendurnir, þeir sem leika sér að beinum, innyflum, spilum og góna á himintungl. Enginn þeirra sá þann merkilegasta atburð sem riðið hefur yfir þessa þjóð á síðustu áratugum. Enginn ...  Ekki nokkur maður stóð upp ári fyrr eða þar um bil og sagði að allt væri við það að fara til andsk...

Árni Matthíasson, blaðamaður í Mogganum, er afar ritfær og stundum skemmtilega áhugaverður. Hann er það í dag. Grein hans í blaðinu í dag nefnist „Varúð: Sérfræðingur!“. Hann ræðir um þessa spámenn:

Ytra hafa menn þó gert slíkar skipulegar rannsóknir. Ég nefni sem dæmi rannsókn sem gerð var á vegum vísindaráðs Bandaríkjanna á níunda áratugnum þar sem um þrjú hundruð sérfræðingar voru fengnir til að spá reglulega fyrir um framtíðina; stjórnmálafræðingar, hagfræðingar og blaðamenn. Rannsóknin stóð í nokkur ár og alls náðu rannsakendur að smala saman tæplega 30.000 spádómum sem voru síðan metnir eftir því hversu vel þeir rættust. Í ljós kom, en ekki á óvart, að spádómar sérfræðinganna voru ekki betri en handahófsval sjimpansa.

Það kemur ekki á óvart þegar rýnt er í niðurstöður rannsóknarinnar að þeim gekk best í tilrauninni sem höfðu ekki trú á framtíðarspám, þar með talið sínum eigin spám. Þeim, sem voru með allt á hreinu og vissu nákvæmlega hvað væri framundan, gekk verst allra, enda byggðu þeir spádóma sína á nánast trúarlegri vissu um réttmæti skoðana sinna og þekkingar. Það er svo kaldhæðnislegt að þeir spámannanna sem mest bar á í fjölmiðlum, sem oftast var leitað til af því að þeir voru svo afdráttarlausir, stóðu sig verst allra. Það breytir því ekki að slíkir spámenn eru alltaf jafn sælir með sig og sannfærðir um að þeir hafi í raun haft rétt fyrir sér ef niðurstöðurnar eru túlkaðar rétt, þeir kunna nefnilega að spá um fortíðina. 

 


Gistináttagjald fyrir svefninn langa ...?

Það væru um 1.500 aðilar á fyrstu drögum að þessum lista, en Skúli Eggert segir að það eigi eftir að fækka á honum og líklegra sé að um þúsund aðilar í ferðaþjónustu innheimti skattinn. Reynt verði að fylgjast með innheimtu eins og þurfa þykir.

Þetta hefur Moggin eftir eftir Skúla Eggerti Þórðarsyni, ríkisskattstjóra, þurrpumpulegum að vanda að hætti þreyttra embættismanna. 

RSK er umsvifamikil stofnun og stendur undir stórum hluta hagvaxtar í landinu. Hún sinni öllu, allt frá skattamálum í beina sýslu með fyrirtækjaskrá, ársreikningaskrá og núna hýsir hún „Eftirlitsstofnun með skammtímaleigu á rúmum, fletum eða torfum“, skammstafað ESRFT. Sér um innheimtu, viðurlög og dæmir í vafamálum.

Ekki nóg með það, hún sendir út menn í dulargervi til að kanna hvort einhverjir séu að vinna svart. Þetta er „Eftirlitsstofnun með vonda fólkinu sem borgar ekki skattinn sinn í kreppunni“, EMVFSBESSK. Sér um innheimtu, viðurlög og dæmir í vafamálum.

Þegar'ann Indriði réði ríkjum hjá RSK var ekkert ESRFT eða EMVFSBESSK. Þá var ekki heldur neinn sem sveik að ráði undan skatti. Að vísu var eitthvað um skiptivinnu. Múrarinn fékk smiðinn til að slá upp fyrir sig og borgaði honum með því að skreppa heim til hans og sletta nokkrum múrskeiðum á vegg. Sama háttinn á höfðu píparinn og bifvélavirkinn. Engum datt í hug að þetta gæti verið ólöglegt enda allir vinir - ólíkt því sem nú er, smiðir og bakarar hengdir á víxl.

Nú má maður ekki einu sinni eiga pening inni á bankareikning um áramót, þá kemur Skúli Eggert, Steingrímur Joð og aðrir ofaníannarramannakopp-skoðendur og sekta mann.

Hef heyrt að Steingrímur þessi Joð, en hann ræður yfir Skúla Eggerti, ætli að stofna Víkingasveit skattskoðunar-, eftirlits-, njósna- og forvitnismanna, skammstafað VSENF sem verði vistuð hjá RSK, a.m.k. um tíma, þ.e.a.s. kannski. Þetta lið verður gert út eins og eftirlitsmenn með stöðumælum. Þeir þjóti um og spotti þeir einhvern sem þeir gruna um skattsvik af einhverju tagi, er viðkomandi dæmdur og sektaður á staðnum. Geti hann það ekki er sent eftir víkingasveit löggunnar.

Slagorð VSENF verður: Sultur er betri en svik við Steingrím Joð. Að sjálfsögðu er grunnhugsunin rétt, dauður maður svíkur ekki undan skatti, né heldur vinnur hann svart og síst af öllu getur hann svikist um að greiða gistináttagjald.

Dettur kannski einhverjum í hug að hægt sé að sofa svefninum langa án þess að greiða gistináttagjald?


mbl.is Gistináttagjald á svefnpoka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki einstakt vanhæfi heldur undarlegt

Í fljótu bragði sá ég ekkert athugunarvert við yfirlýsingu Ríkisendurskoðunar þess efnis að „stofnunin biðst undan því að gera úttekt á áætluðum kostnaði, forsendum og fleiri þáttum sem tengjast fyrirhuguðum Vaðlaheiðargöngum.“

Ástæðan er sú að ríkisendurskoðandi „tengist einum stjórnarmanna Vaðlaheiðarganga hf. fjölskylduböndum og væri því, ef á reyndi, vanhæfur til að sinna þessu verkefni með vísan til siðareglna stofnunarinnar og óskráðrar hæfisreglu stjórnsýsluréttarins.

Í leiðara Morgunblaðsins í morgun er fjallað um þetta mál afar stuttlega en lesandinn er skilinn eftir með áleitnar spurningar. Þar segir:

Ríkisendurskoðun hefur hafnað beiðni umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis um að gera arðsemismat á Vaðlaheiðargöngum vegna þess meðal annars að hann sé vanhæfur vegna fjölskyldutengsla við Kristján Möller, alþingismann og stjórnarformann Vaðlaheiðarganga ehf.

Hvernig fer þetta vanhæfissjónarmið saman við endurskoðun ríkisreikninga, skýrslur um framkvæmd fjárlaga eða aðrar skýrslur sem snerta störf fyrrverandi samgönguráðherra á liðnum árum?

Spyrja má hvort það sé ríkisendurskoðanda að velja þau mál sem hann vill bera fyrir sig fjölskylduböndin? Eða er það svo að ríkisendurskoðandi sé vanhæfur í öllum málum þar sem mágurinn kemur nálægt? Ætti þá annar hvor ekki að fá sér nýtt starf, þingmaðurinn eða ríkisendurskoðandinn?

Lati póstlistinn 

Ríkisendurskoðun gefur þeim sem þess óska kost á að skrá sig á póstlista stofnunarinnar. Þá fær maður fréttir og upplýsingar án þess að hafa fyrir þeim. Sá galli er nú á gjöf Njarðar, að stofnunin hefur þann hátt á að senda fyrst fréttir sína til fjölmiðla. Um það bil fjórum klukkustundum síðar fá þeir sem skráðir eru á tölvupóstlistann sendingu með öllum þeim upplýsingum sem maður hefur þegar lesið um á helstu fréttavefsíðum landsins.

Til hvers er nú stofnunin að monta sig með póstlista þegar húnhefur þennan háttinn á?

 


Tölur án samanburðar eru gagnslausar

Gangslaust er að spyrjast fyrr um kostnað vegna utanferða starfsmanna fjármálaráðuneytisins ef ekki fylgir samanburður við fyrri ár. Tölur án samhengis eru afskaplega leiðinlegar, engin saga fylgir.

Annars finnst mér dorg á borð við það sem þingamaðurinn stundar frekar tilgangslaus. Verið er að gefa eitthvað í skyn sem ætti að vera fordæmanlegt. Í þessu felst engin pólitík, í mesta lagi eitthvurt óvisst aðhald sem þingmenn eiga að beita framkvæmdavaldinu.

Við hljótum að gera þær kröfur til ráðuneyta að þeim sé stjórnað af aðhaldsemi. Þannig held ég að það sé i langflestum tilvikum. Nema því aðeins að samhengið sýni einhverja stórkostleg frávik frá fyrri árum. Þá væri kannski ástæða fyrir bóndann að gelta. En dorg í gruggum polli skilar engu.


mbl.is Ferðakostnaðurinn nam 50 milljónum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband