Jósafat sem týndi vitinu

Jósafat Semingsson frá Koti við Skagaströnd var eitt sinn á ferð við Hraunsvatn í lok nítjándu aldar. Hann reið skjóttum hesti og hafði annan til reiðar en sá var rauður. Með í för var líka unglingspiltur er Guðjón hét en ekki er vitað hverra manna hann var. Þó er ætlað að hann hafi verið sonur foreldra sinna. Hann reið bleikri bykkju er Snót var kölluð.

Þeir Jósafat og Guðjón veiddu silung í net og þótti mikil búbót af silungnum ekki síst þar sem Jósafat bjó kotbúi í Koti. Nú, það gerist svo í þessari ferð að Jósafat missti vitið. Hann neitaði að ríða hrossum sínum heldur gekk til byggða. Unglingspilturinn Guðjón reið hefðbundna leið heim og hafði með hrossin og veiðina.

Jósafat skilaði sér heim og var upp úr þessu frekar óþægur enda vitlaus með öllu. Kona nokkur bjó þá í Langadal er Sólfríður hét. Hún vissi lengra nefi sínu. Til hennar var leitað vegna vitleysu Jósafats og ráðlagði hún aðstandendum að farið yrði með karlinn aftur upp að Hraunsvatni í þeirri von að hann fyndi það sem hann hefði tapað.

Þegar komið var fram á haust árið eftir að Jósafat missti vitið var þá gerð ferð upp að Hraunsvatni . Til hennar völdust þeir Guðjón unglingspiltur og Jósafat fékk líka að fara með enda átti hann nokkuð undir því að árangur yrði af ferðinni. Sátu þeir sömu hesta. Þó hafði Snót orðið sjálfdauð veturinn á undan og var því uppétin. Fékk hann því til reiðar góðan fola er Sörli hét enda voru engar bykkjur eftir á bænum.

Komu þeir nú að Hraunsvatni og gætti Guðjón þess að þeir færu nákvæmlega í sömu slóðir og árið áður. Þótti það skynsamlegt hjá drengnum enda árangurinn eftir því. Hann fann fljótlega forláta vasahníf er hann hafði týnt og fagnaði mjög. Á meðan ráfaði Jósafat ráfaði út í þétta þokuna og fannst ekki aftur.

Eftir að hafa veitt nokkra kippur silungs, reið Guðjón heim í kotið og sagði ekkju Jónatans frá því hvað hafði gerst og urðu samfarir þeirrar góðar upp úr því. Fannst flestum að þessi málalok væru hæfileg úr því að Jósafat fann ekki vit sitt. Guðjón notaði hins vegar hníf sinn lengi síðan og er hann nú að finna í Árnesi á Skagaströnd þar sem geymdir eru gamalt og ónothæft dót. Vit Jósafats hefur hins vegar ekki fundist þrátt fyrir mikla leit allt fram á þennan dag.


mbl.is Fann gleraugun á reginfjöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Olgeir Engilbertsson

Fyrir allmörgum árum var Daníel í Akbraut ásamt fleirum í fjárleit á Veiðivatnasvæðinu milli Snjóöldufjallgarðsins og Tungnaár. þurftu þeir að bera þreytt lamb og bjuggu til burðarpoka úr peysu. Hafa eflaust þurft að skera snærisspotta og stakk Daníel hnífnum sínum í mosaþúfu og gleymdi honum þar. Næsta haust bað hann um að fá að fara í sömu leitina og viti menn. Hann fann hnífinn í þúfunni á Tungnaöræfum ! Ekkert GPS tæki á þeim tíma. Olgeir

Olgeir Engilbertsson, 22.11.2011 kl. 12:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband