Færsluflokkur: Náttúran

Hljóðin sem berast upp úr jarðskorpunni eru furðuleg

Goðabunga, óróiÞar sem jarðskjálftahrinunni er nú lokið í Mýrdalsjökli langar mig til að ræða suttlega um það sem mér finnst athyglisverðast við þessa þrjá daga. Hér á ég fyrst og fremst við óróann sem mældist undir jöklinum.

Fyrir þá sem ekki þekkja þá eru víða um land tæki sem Veðurstofa Íslands hefur sett upp til að mæla hljóð sem koma úr jarðskorpunni en þau eru á tíðni sem mannlegt eyra getur ekki greint.

Hljóðin eru nefnd órói og er mæld í mælieiningunni Hz (Hertz). Óróinn verður til þegar til dæmis kvika þrengir sér upp í gegnum jarðskorpuna eða þegar jarðskjálftar verða og jafnvel kunna að vera fleiri ástæður.

HeiðarbærÁ Mýrdalsjökli eru tæki sem mæla óróann í Kötlu, t.d. á Goðabungu, Austmannsbungu og víðar.

Hins vegar geta jarðhræringar og jafnvel eldgos orðið víðar í Mýrdalsjökli en í Kötluöskunni og þar af leiðandi eru tæki sett á jökulinn og í kringum hann. 

Á efstu myndinn sést að óróinn hefst um miðjan síðasta fimmtudag og honum lýkur fyrir miðnætti í gær. Þetta er bláa tíðnin sem mæld er frá 2 til 4 Hz. Örvarnar benda á dagsetningar á lárétta ásnum, upphaf og endi jarðskjálftahrinunnar, svona á að giska.

Heiðarbær er vestan Þingvallavatns, 120 km frá Kötluöskjunni. Óróamælirinn þar nemur umbrotin í Mýrdalsjökli þokkalega. Sjá næst efstu myndina. 

FagurhólsmýriNærri 120 km er frá Kötlu og að Fagurhólsmýri. Þar er mælir og á honum má greina jarðskjálftahrinuna í Mýrdalsjökli og þriðja myndin er þaðan.

Um 110 km norðan við Kötlu er Skrokkalda, lengst uppi Sprengisandi. Óróinn mælist líka á mælum þar, en tíðnin þar er nokkuð lægri, en þó mun skýrari mæling en á hinum tveimur stöðunum. Gæti ástæðan verið sú að Skrokkalda er á gosbeltinu en Heiðarbær og Fagurhólsmýri utan þess, það er þess hluta sem er í stefnunni norðaustur og suðvestur, þvert yfir landið?

Auðvitað sést óróinn betur á mælum Veðurstofunnar eftir því sem þeir eru nær Mýrdalsjökli.

SkrokkaldaÞar að auki getur óróinn birst á mælum í mismunandi myndum og sumum ansi skemmtilegum eins og hér skal rakið.

Neðsta myndin er af óróa sem mældist í tækjum við Dyngjujökul þann 26. ágúst. Hugsanlega eru hann ættaður frá bergganginum sem flutti kviku frá Bárðarbungu og að eldstöðinni við Holuhraun árið 2014. Hann er enn í fullu fjöri þó þrýstingur í honum dugi ekki til að valda eldgosi ... ekki enn.

Þarna virðist blá tíðnin birtast eins í hviðum, rétt eins og taktföst tónlist eða kveðandi hjá mannfólkinu.

Dyn Órói 160826Haraldur Sigurðsson, jarðfræðingur, sagði að því er mig minnir að hann hafi „spilað“ hljóð frá eldgosum á um sextíu sinnum meiri hraða en upptakan er áog náð að hlusta á ansi skemmtilega takta.

Hvað skyldi nú heyrast ef við gætum spilað þennan takt frá mælitækinu við Dyngjujökul. Ég er viss um að það væri ansi fróðleg upplifun.

Tek enn og aftur fram að ég er ekki jarðfræðingur, aðeins áhugamaður. Þar sem skilningur minn er takmarkaður svo ég tali nú ekki um gáfur, er vert að fara að dæmi fornra sagnamanna og afsaka fyrirfram sé eitthvurt missagt hér að ofan.

 

 


Gýs vestan við Kötluöskjuna, ofan Þórsmerkur?

2011

„Líklegasta skýringin á þessu er að Katla sé í raun og veru alltaf alveg á nipppinu að gjósa. þetta kom fram 1999, þá virðist hafa orðið smá gos af svipuðu tagi og þetta. Því fylgdi órói, líka breyting á skjálftavirkni og aukning á jarðhita næstu árin á eftir,“ segir Páll Einarsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands.

Orð Páls vöktu athygli enda sjaldgæft að jarðfræðingar taki svo sterkt til orða að Katla sé eiginlega alltaf við það að gjósa ...

En það hefur gleymst að spyrja Pál um hvar gjósi í Mýrdalsjökli. Líklega er það mikið álitamál. Kötluaskjan er líkleg en þeir vita sem vilja að víða hefur gosið í jöklinum. Verði gos á næstunni er engin vissa fyrir því að það eigi upptök sín þar. 

2010

Myndin hér fyrir ofan er af skjálftakorti Veðrustofunnar fyrir Eyjafjallajökul og Mýrdalsjökli og það sýnir upptök alla jarðskjálfta á þessu ári. Á miðjum Mýrdalsjökli eru dregnar útlínur Kötluöskjunnar. Innan hennar hafa orðið gríðarlega margir skjálftar. Athygli vekur þó að skjálftar utan hennar eru mjög margir og þá sérstaklega vestan hennar, á því svæði sem jarðfræðingar telja til Goðabungu. Það er mjó ræma á milli jöklanna og tekur yfir Mýrdalsjökul þar sem hann tekur að halla til vesturs. 

Þarna sperrir maður augun. Jarðskjálftarsvermurinn nær að mestu leyti yfir Goðalandsjökul, þar með talinn Tungnakvíslajökul, Krossárjökul og Merkurjökul.

2009

Verði eldgos á þessu svæði er allt önnur hlið uppi á tengingnum en gjósi í Kötluöskjunni. Þarna verður flóð niður Krossárdal og því munu fylgja gríðarlega skemmdir á Þórsmörk og Goðalandi og án efa gera það ónothæft til sem útivistarparadís næsta áratuginn.

Hvaða líkindi eru á að það gjósi á þessu svæði? Ég hef ekki grænan grun. Með því að skoða skjálftakort undanfarinna tuttugu ára, setja sér forsendur má hugsanlega draga líklegar ályktanir.

Gerum til dæmis ráð fyrir því að jarðskjálftar bendi til kvikuhreyfingar, því fleiri jarðskjálftar þeim mun meiri kvika sé á leið upp að yfirborði og fjöldi jarðskjálfta bendi til eldgoss ...

2008

Séu þessar forsendur færðar yfir á Kötluöskjunnar eru allir sammála um að þar muni fara að gjósa.

Hitt fær minni athygli að eldgos gæti allt eins orðið vestan við öskjuna með jökulflóði niður Krossárdal og síðan í farveg flóðsins úr Eyjafjallajökli í fyrra, það er Markarfljótið. 

Já, hvaða líkindi eru á gosi vestan við Kötluöskjuna? Hérna eru nokkur skjálftakort síðustu ára. Greinilegt aðSkjálftakort síðustu ára eiga aðeins eitt sameiginlegt og það er þéttur jarðskjálftasvermur vestan við Kötluöskjuna.

Skjálftakortin eru til frá árinu 1992 og ég skoðaði þau öll. Vissulega er það rétt sem fram kemur í viðtalinu við Pál Einarsson, jarðeðlisfræðing í Ríkissjónvarpinu, að skjálftavirknin í Mýrdalsjökli komi í hviðum. Hins vegar virðast hviðurnar vera svo til eingöngu í Kötluöskjunni. Vestan við hana er varla neitt lát á jarðskjálftum þó Katla sé róleg.

1982

Síðasta kortið sem ég birti hér er frá árinu 1992. Þá voru ferleg læti undir Goðalandsjökli, fleiri jarðskjálftar þar en innan Kötluöskjunnar.

Aðdragandi eldgossins í Eyjafjallajökli var langur og merkilegur. Lengi vel virtust jarðskjálftar eiga uppruna sinn ofan við Steinsholtsjökul en skyndilega gaus á Fimmvörðuhálsi. Jarðfræðingar urðu jafn forviða og hagfræðingar yfir bankahruninu 2008. Ekki dró úr undrun jarðfræðinga er gosið á Hálsinu snérist í gos í toppgíg jökulsins.

Ljóst má því vera að enginn getur sagt fyrir um hvar gjósi í Mýrdalsjökli. Jökullinn er líklega ólíkindatól og sé við það að gjósa en ekkert gerist, rétt eins og Páll Einarsson segir. 

Skjálftakortin er að finna á þessari slóð: http://hraun.vedur.is/ja/myr/myr_map.html#img.

DSC_0115 110827 Morinsheiði í A, Tungur, Hruni, Mý - Version 2

Hér er mynd sem tekin er Morinsheiði og sýnir vesturhluta Mýrdalsjökuls. 


Pólitík göngumannsins - enn og aftur

Jakob nokkur Björnsson, fyrrverandi orkumálastjóri, skrifar oft greinar í Morgunblaðið um virkjanir og stóriðju. Hann er af þeirri kynslóð sem þekkir eflaust ekki eina mikilvægustu og þá sem skiptir alla miklu máli. Jakob hefur vafalaust ekki varið lífi sínu til gönguferða og náttúruskoðunar sem nú er orðinn afar mikilvægur „iðnaður“ og orkuuppspretta fyrir tugþúsundir landsmanna og einnig útlendinga.
 
Að mínu mati fer ekki saman að sökkva landi undir uppistöðulón fyrir virkjanir, breyta landi svo það verði óþekkjanlegt frá því sem var og byggja upp ferðaþjónustu eða leyfa fólki frjálsar ferðir um landið.
 
Ég virði skoðanir Jakobs en ég er langt í frá sammála öllu því sem hann segir. Er það ekki sárgrætilegt að þurfa að segja við barnabörnin sín að við breytum landi til þess að við getum haft það gott en í leiðinni veldur það oft einskærum óþægindum fyrir okkur? Því hverju skiptir það ef við eignum öll auðæfi heimsins en glötum um leið uppruna okkar, sál landins.
 
Því er ekki úr vegi að birta hér pistil sem ég skrifaði fyrir margt löngu í þeim tilgangi að átta mig á því sem ég raunverulega vil. Úr varð nokkurs konar stefnuyfirlýsing á tilfinningalegum nótum. Við hana stend ég.
 
 
Pólitík göngumannsins 
 
Ungur asnaðist ég á fjöll, þeim ávana hef ég haldið hingað til og væntanlega verður engin breyting þar á í fyrirsjáanlegri framtíð. Þetta er hins vegar alls ekki til eftirbreytni, frekar myndi ég letja fólk til fjallaferða en hvetja. Þær eru dýrar og erfiðar. Útgjöldin felast í alls kyns klæðnaði og græjum og gangan sjálf er bara puð og sviti. Ég hef verið á sólarströndum í suðrænum löndum. Þar er lífið létt og skemmtilegt, puðið er ekkert og svitinn kemur af hreyfingarleysi í sólskini. Sælast er að sitja á sínum rassi og gera ekkert.
Fátt er varið í fjallaferðir nema ef vera skyldi útsýnið, ef gefur, fjölbreytileg náttúran nær og fjær, stundum ferðafélagarnir, ýmiskonar sögulegur fróðleikur og fleira, í lokin hríslast endorfínið um kroppinn og það er bara gott. Annað er það nú ekki, - held ég …
 
Samningurinn
Það er sem sagt ekki þrautalaust að ferðast um landið og sá er vandinn mestur að halda náttúrunni óspjallaðri, þó ekki sinni eigin heldur þeirri landsins, ganga varlega um og gæta þess að verða ekki til skaða. Hinn vandinn er sá að halda lífi, gera ekki neina þá dómsdags vitleysu sem gæti orð manni að fjörtjóni þar sem maður er að flækjast fótgangandi í alls kyns aðstæðum, og stundum jafnvel einn. Ferðamaðurinn verður að kunna að búa sig, þekkja takmörkin, geta brugðist rétt við óvæntum aðstæðum og svo framvegis. Vart er að treysta á heppni í þessum efnum.
 
Þó ég sé svona yfirleitt frekar heppinn hef ég lært að treysta ekki á tilviljanir og þess vegna hef ég komist að samkomulagi við náttúruna. Það var ekki erfitt, reyndar auðsótt. Efni samningsins er einfalt, eiginlega í tveimur liðum: Hún ógnar mér ekki lengur því ég kann að búa mig til ferða, og ég kem fram við hana að nærgætni, stíg létt til jarðar, raska engu og skil við alla staði nánast eins og ég kom að þeim. Þannig hefur það verið lengi og báðir aðilar una vel við sitt.
 
Stíga skal létt til jarðar. Í orðsins fyllstu merkingu þarf að gæta að svo mörgu, hugsa og framkvæma þar á eftir. Þess vegna gremst manni förin eftir torfærumótorhjól, utanvegaskrens eftir bíla, sárin sem myndast við átroðning ferðafólks. En allt eru þetta þó smámunir miðað við þau sem stóru vinnuvélarnar valda. Tæknin er slík að með réttum tækjum er hreinlega hægt að flytja fjöll úr stað (þá heitir fjallið „efni“).
 
Tæknilega er hægt að byggja nýtt fjall þar sem það vantar og malbika þar yfir sem áður stóð einhver skítahrúgan. Það er hins vegar ekki gert en þess í stað eru fellin og fjöllin fjarlægð, kroppað í önnur og landi „drekkt“ eins og það heitir. Aldrei virðist hugsað til samræmis, hvorki í „efnistöku“, mannvirkjagerð eða skipulagi. Rétt eins og sárin í landslaginu eftir „efnistöku“ þá eyðileggja mannvirki oft fallegt land.
 
Sporin göngumannsins  
Mikill er máttur nútímamannsins sem hefur stolið litlum og stórum fellum og spillt öðrum til lífstíðar ef svo má segja.
 
Enginn segir lengur orð vegna fimmtíu ára gamalla gróðurskemmda hjá Vífilsfelli, fáir nenna að tuða yfir örlögum Ingólfsfjalls sem þjáist af lýtum sínum og þar á að höggva enn frekar í sama knérunn. Hver man eftir litla fellinu sem kannski hét Gvendarselshæð í Undirhlíðum ofan Hafnarfjarðar? Austan við Skíðaskálann í Hveradölum eru stórir gígar sem muna mega fífil sinn fegurri, í þá var svo ótæpilega sótt efni að einn þeirra er horfinn. Þannig var með annan fagran gíg við Selkletta við Nesjavelli. Engann hef ég heyrt kvarta yfir örlögum Hellisskarðs sem áður hét Yxnaskarð og er ofan við Kolviðarhól, neðan Hellisheiðar. Þar sem Búi Andríðarson vó Kolfinn fóstbróður sinn forðum daga liggur nú hraðbraut og sú kemur í staðinn fyrir þá götu sem vegfarendur í þúsund ár bjuggu til í hart helluhraunið. Af hrokanum einum saman eru lögð gufurör og rafmagnslínur í háspenntan hnút án upphafs eða endis. Nútímamanni hefur á tveimur árum breytt landslaginu meir og varanlegar en forfeðrum hans tókst á tíu öldum. Ábyrgð Ölfushrepps, sem á lögsögu þarna og samþykkti framkvæmdir er mikil og Orkuveita Reykjavíkur er þarna í djúpri, djúpri for sem vart á sér fordæmi hér á landi.
 
Og hvað má svo einn göngumóður ferðamaður með móral vegna þess að spor hans kunna að sjást. Hversu lítil eru þau ekki í þessum samanburði og til dæmis miðað við miðlunarlónið sem kennt er við Hágöngur við Sprengisand? Þar gekk ég eitt sinn á skíðum um miðjan vetur og undraðist þessi tvö, nær ókleifu en háu tvíburafjöll, og landslagið í kring. Þar er nú þrjátíu og sjö ferkílómetra lón, frekar grunnt. Þannig aðgerð heitir „að drekkja“ landi og er í eðli sínu ekki óskylt því að drekkja ráðherra enda hvort tveggja óafturkræft.
 
Tilfinningar eru vanmetin rök
Ekkert hryðjuverk er svo slæmt að ekki sé hægt að gera enn verr, „toppa það“ eins og unglingarnir segja.
 
Nokkrum árum eftir að landinu við Hágöngur var „drekkt“ átti að kaffæra Eyjabakka, sem er merkileg gróður- og náttúruvin norðan Vatnajökuls. Ýmis konar rök voru notuð. Sumir sögðu lítinn skaða í því að „sökkva“ landi sem sárafáir þekkja eða nýta til útiveru, þáverandi umhverfisráðherra fannst reiturinn tilkomulítill. Var mér þá hugsað til þeirra staða sem ég held að aðeins örfáir hafi barið augum. Þetta eru ekki svonefndir ferðamannastaðir, náttúruvætti eða undur bara einfaldlega staðir, snotrir, fallegir eða sérstakir unaðsstaðir, flestir langt út úr alfaraleið og verða þess vegna aldrei mærðir af atvinnuljósmyndurum eða söguriturum, aðkoman að þeim er aðeins fyrir gangandi.
 
Ítalskir sprengdu í Kárahnúkum. Ég sá atburðinn í sjónvarpi og það var eins og að verða vitni að morði og kannski var þetta morð, undanfari þess að landi er „drekkt“.
 
Hér má ekki misskilja mig. Sá sem hefur villst um fjöllin stóran hluta ævinnar er náttúrulega bilaður, enda bera tilfinningarnar hann ofurliði á svona tímamótum. Náttúrulausir rökhyggjumenn gera lítið úr tilfinningum slíkra. „Komdu með skýringu, helst í krónum og aurum og þá skal tekið mark á þér“. Gott og vel. Elskar þú börn þín upp á tíu milljónir fjögur hundruð og tuttugu þúsund eitthundrað þrjátíu og sjö krónur, konu þína upp á upp á níutíu prósent af þeirri fjárhæð, og móður og föður upp á sjötíu og aðra ættingja minna? Ekki satt?
 
En ég spyr í einlægni, getur einhver komið í stað dóttur þinnar eða sonar? Er hægt að meta fjölskylduna til fjár? Er hægt að meta mannslíf til fjár?
 
„Nei, þetta er ekkert að marka, bara útúrsnúningur“, segir húmorslausi rökhyggjumaðurinn, náttúrulaus utan fjögurra veggja þar sem hann getur ekki stuðst við Excel.
 
Svo sannarlega er þessi rökleiðsla marktæk. Þau tryggðarbönd sem verða til af uppeldi og lífi einstaklings í nánu sambandi við fjöllin vera ekki frekar metin til fjár en fjölskyldutengsl eða ást milli tveggja einstaklinga. Það er svo margt sem grundvallast af tilfinningum. Börnin elskar maður skilyrðislaust af því að slíkt er tilfinningaþrungið samband, önnur verða varla rökin. Eða eru þetta hin einu rök? Að sjálfsögðu vega tilfinningarnar þyngst og margur hefur vanmetið gildi tilfinninga í stjórnmálum. Það skyldi enginn gera.
 
Lýðræðið
Lýðræðið er skítlegt apparat, þunglamalegt og afkáralegt, en um leið verður að viðurkennast að annað vitrænt kerfi er ekki í boði. Ég tek ekki dýpra í árinni en aðstæður leyfa. Um leið þarf maður að undirgangast leikreglurnar enda fylgdist ég vel með Alþingi þegar það samþykkti Kárahnjúkavirkjun með miklum meirihluta atkvæða og undir þá ákvörðun hlýt ég að beygja mig. Hins vegar segir ekkert í leikreglum lýðræðisins að ég þurfi að vera sáttur við niðurstöðuna enda er ég það ekki, kannski meira undrandi en reiður …
 
Og yfir hverju er maðurinn reiður? Reiðist hann stórvirkum vélum sem mola niður landið sem hann áður gekk sporléttur eða beinist reiði hans kannski að uppbyggingu álvers? Er hann fúll yfir afgerandi meirihluta Alþingis sem samþykkti framkvæmdina? Er hann ekki bara einn af þessum öfgafullu  náttúruverndarmönnum sem eru á móti öllu, hvaða nafni sem það nefnist? Brigslar hann meirihlutanum um landráð og baktjaldamakk, svik?
 
Maður er bara það sem aðrir vilja, kjáni, spámaður, vitleysingur, spekingur eða bara venjulegur náungi, andlitið sem stundum er sjáanlegt, annars bara hluti af fjöldanum. Sú persóna sem hér tiplar um tölvuborð er ekki aðalatriðið í svona umræðu heldur málefnið sjálft, sú stefna sem tekin er og forsendurnar sem að baki liggja. Þar verða menn að gera greinarmun á tvennu, sjálfri orkuöfluninni og notkun orkunnar. Mér sýnist vandamálið hafa alltaf snúist um hið fyrrnefnda. Ég brigsla ekki neinum um svik, þvert á móti ber ég virðingu fyrir ákvörðun sem tekin er á lýðræðislegan hátt, en ég er ekki sammála.
 
Hvaða máli skiptir til hvers orkan er notuð? Vilji einhver gera það að umræðuefni þá er það allt annar handleggur en uppspretta orkunnar. Mín rök eru gegn misnotkun lands, spillingu lands, óþarfa skemmdum.
Í aðdraganda virkjananna fyrir austan var mikið fjallað um þá möguleika til að útvega orku fyrir stór álver og þá kom í ljós nokkuð uggvænleg staðreynd. Framsýni þeirra sem ráðskast með orkumál hér á landi var ekki meiri en svo að enn var gripið til sama ráðs og Einar Benediktsson vissi best er hann hvatti til uppbygginu íslensks atvinnulífs fyrir eitt hundrað árum. Skáldið skynjaði skiljanlega ekki auðinn í afli í háhitasvæða, en á þeirri öld sem liðið hefur höfum við aðeins uppgötvað og virkjað fallvötnin og eiginlega látið reka á reiðanum með allt annað. Hversu framsýnir og tæknilega sinnaðir erum vér Íslendingar? Hvernig hefur verið staðið að stefnumótun í orkumálum?
 
Hefði ekki verið hægt að verja tímanum betur en einblína um of á vatnsaflsvirkjanir og vera hreinlega lens þegar spurt var um gufuaflið?
 
Virðingin
Eitt lítið spor eftir vegmóðan göngumann hefur óveruleg áhrif miðað við þær stórtæku vinnuvélar sem svipt geta burtu heilu fjalli og valdið varanlegum lýtum á landslagi. Hér er ekki verið að mælast til þess að göngumenn leggi af flæking sinn um landið né heldur að vötn séu virkjuð og lagt í margvíslegar framkvæmdir. Þeir sem í hlut eiga verða hins vegar að hugsa sjálfstætt og gera sína eigin samninga við landið um gagnkvæma virðingu og þá gerir ekkert til þó halli á mannskepnuna. Gæta skyldi samræmis í allri mannvirkjagerð. Kárahnúkar og Hellisheiði eru dæmi um hrikalega mistök.
 
Sú hugmynd er einstaklega falleg að við höfum landið að láni, það er í eigu afkomenda okkar og við eigum að standa þannig að málum að okkur sé sómi að arfleifðinni, jafnt landinu sem þjóðfélagsgerðinni. Hér er áreiðanlega auðveldara um að tala en framkvæmda, tekur þar pólitíkin við og þá skiptir máli að hinir bestu menn taki ákvarðanir eins og sagt var til forna.
 
Höfum við slíka á Alþingi Íslendinga?

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband