Bloggfærslur mánaðarins, október 2011
Ávann sér ýmsilegt annað en dauðann
31.10.2011 | 11:27
Fyrirsagnir skipta máli, þær eru mikilvægari en margir blaðamenn skilja. Þess vegna þurfa reyndir og góðir textamenn að lesa yfir það sem þeir óvanari gera.
Hann ávann sér andlátið. Þetta er hræðilega léleg fyrirsögn og alls ekki í samræmi við góða málvenju í þessu samhengi. Líklega hefur Jobs áunnið sér ýmsilegt annað en dauðann þó það megi svo sem til sannsvegar færa.
Eftirmæli systur Steve Jobs eru frábærlega vel samin og áhugaverð. Svokölluð andlátsorð eru alls ekki það eftirminnilegasta úr þeim. Margt annað er þar fallega sagt og lýsandi fyrir manninn.
Bókin um Steve Jobs kom út fyrir skömmu. Hún er afskaplega góð, er þó aðeins búinn að lesa um það bil fimmtunginn. Jobs bað höfundinn, Walter Isaacson, að skrifa bókina og fékk til þess frjálsar hendur. Þar af leiðandi varð hún ekki eintómt lof og prís.
Steve Jobs var furðufugl. Hann var eins og hippi fyrstu árin með Apple, þvoði sér varla, lyktaði, gekk berfættur og óheftir skapsmunir hans gerðu honum og öðrum erfitt fyrir. hann notaði LSD og önnur fíkniefni og teldi sig þurfa á þeim að halda til að skilja tilveruna!
Svo illa samdi honum við flesta í Apple fyrirtækinu að hann var settur til hliðar þegar verið var að vinna að Apple III eða Lisu. Það varð upphafið að furðulegri atburðarás sem endaði með fyrstu Macintosh tölvunni. Upphafið að Makkanum var ekki hans, þetta var einhvers konar rannsókn sem var utan við allt í fyrirtækinu, unnin af snillingum sem , síður en svo. Hefði hann ekki komið
Þess má geta að bókin um Jobs fæst hjá Apple umboðinu og kostar þar tæplega fimm þúsund krónur
Hann ávann sér andlátið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sönn jól í boði Moggans og IKEA
28.10.2011 | 10:21
Jólin eru að koma. Aðeins tæpir tveir mánuðir þangað til. Obboðslega hlakka ég til. Og Mogginn minn er með sérútgáfu í dag þar sem hann útlistar hvernig við getum eytt ótrúlegum fjárhæðum í tilefni jólanna. Blaðið heitir Sönn jól.
Mogganum er tíðrætt um gömlu hefðirnar. Þær eru skemmtilegastar. Í desember í fyrra fór ég í fyrsta sinn á hlaðborð á ónefndum veitingastað. Þetta er hefð sem varið er í. Núna ætla ég að fara á einhvern annan og búa til nýja hefð ... nema auðvitað að ég borði heima.
Munum eftir anda jólanna. Eyðum, kaupum gjafir, étum á okkur gat, drekkum frá okkur vit, förum á tónleika og hlustum á frábæra tónlistarmenn hrista hreindýrabjöllur. Þeysumst af stað í rússíbanareið jólanna í boði IKEA, Pennans og Bónussussar. Jólasveinarnir eru ókeypis og koma í boði Kókakólakompaní.
Ha, hvað áttu við með anda jólanna? Hvað fæst þessi andi og hvað kostar'ann? Dsísös, bíddu við, ég kannast við nafnið, var hann ekki einn af vitringunum frá Japan? Hvað er að'ér, kanntu ekki boðorði; sælla er að gefa en þiggja? Dsísös, þvílíkur rugludallur ...
Sönn jól, og dýr ertu nú orðinn kæri Dsjísös. Kann annars enginn sér hóf í neinu?
Japanir, Arabar, Kínverjar ....
28.10.2011 | 08:54
Fyrir nokkrum áratugum reið bylgja japanskra fjárfestinga yfir hinn vestræna heim. Japanir stóðu sig vel, framleiddu mikið, auðurinn safnaðist til þeirra. Þeir keyptu upp byggingar, hótel og fyrirtæki í Bandaríkjunum og Evrópu.
Svo komu Arabarnir með olíupeningana sína. Sheik þetta og sheik hitt og þeir keyptu að því er virtist upp London og fjárfestu í bönkum, framleiðslufyrirtækjum og ferðaþjónustu. Og eru líklega enn að nema hvað nokkrir hafa safnast til feðra sinna og skilið eftir auðævin og aðrir eru í frystingu vegna meðferðar á þegnum sínum.
Og allt í einu standa Kínverjar uppi sem megaveldi. Þeir hafa gert nákvæmlega það sem Japanir gerðu heima hjá sér eftir síðari heimstyrjöldina, ferðast skoðað, dregið ályktanir, lært og framkvæmt. Kommúnismi eða ekki ... hann er alla vega með kapítalísku yfirbragði þarna fyrir austan. Og þeir fara víða um heim, skipulega og varlega, troða engum um tær en veifa seðlabúntunum. Þeir eignast Saab og vilja Grímsstaði á Fjöllum.
Staðreyndin er sú að enginn sá múr er svo hár að asni klyfjaður gulli komist ekki inn fyrir hann ... Seðlabúntin eru ákaflega sannfærandi og hvers vegna ekki? Eini munurinn er höndin sem heldur á þeim eða ætti ég að segja ætterni asnans. Og svo sannfærandi eru þessi rök að Evrópusambandið gengur grátandi fyrir Kínverja og fær þá til að aðstoða við að bjarga sökkvandi Evru.
Þegar bylgja Kínverja hefur riðið yfir hinn vestræna heim koma ... einhverjir aðrir. Þeir sem eru duglegir og útsjónasamir eignast oft fé og þeir fara í útrás.
Saab í eigu Kínverja | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Svik Björns Vals Gíslasonar við land og þjóð
27.10.2011 | 11:19
Fyrir stuttu átti ég samtal við framkvæmdastjóra í stóru fyrirtæki innan vébanda Samtaka iðnaðarins. Sá var fullur heiftar út í stjórnvöld eins og títt er um marga vel stæða og sterkefnaða menn enda telja þeir öðrum fremur að of þungar kreppu byrðar séu lagðar á herðar þeirra. Þessi sagðist telja rétt að ég (og reyndar fleiri) fengi skot í hnakkann, rétt eins og Quisling forðum.
Þannig byrjar Björn Valur Gíslason, alþingismaður Vinstri Grænna pistil á bloggsíðu sinni. Að sjálfsögðu er það ákaflega ljótt að hóta nokkrum manni og síst af öllu dauða. Hins vegar verður að taka það fram að stjórnmálamenn eru hégómlegir, sumir finna afar mikið til sín í stöðu sinni. Þeim er hugsa mikið um eigið sjálf og aðalatriðið er að vera í umræðunni. Þannig er Björn Valur.
Stjórnmálmönnum finnst það voða sniðugt ef teiknaðar eru af þeim skopmyndir, þá eru þeir inni að eigin mati. Þeir vilja láta berja á sér, þá telja þeir sig vera á réttri leið. Þeir vilja vera í hasarnum, þá komast þeir í fjölmiðlanna. Svo keyra þeir og fljúga út um allt land, enginn friður fyrir þeim í jarðarförum, fundum og ráðstefnum.
Góðir fundarmenn, ég ætla nú ekki að tefja fundinn en vil benda á það sem ég hef áður sagt ... í grein minni í Fréttablaðinu sagði ég ... og ef menn muna þá stóð ég fastur fyrir og varaði við hruninu ... lét Davíð Oddsson heyra það óþvegið ... þið hefðuð átt að sjá andstæðinginn ...
Kjaftagangur á borð við þetta er svo óskaplega algengur hjá þingmönnum og hégómleikinn lekur af mörgum hverjum.
Björn Valur er harðjaxl og kemur fram við aðra í ræðu og riti eins og hann vilji gera útaf við þá. Persónulega myndi ég ekki vilja mæti Birni á fáförnum stað í myrkri ... hann er til alls líklegur miðað við kjaftháttinn.
Auðvitað lýgur Björn Valur um morðhótunina. Ástæðan er einföld. Hann er að troða sér í fjölmiðlanna. Í dag eða á morgun kemur meintur tilræðismaður í fjölmiðla og segir eitthvað á þá leið að hann hafi einfaldlega bent þingmanninum á að ríkisstjórnin væri að svíkja land sitt og þjóð með aðgerðum sínum. Hann hafi aldrei hótað þingmanninum á einn eða neinn hátt. Orð gegn orði.
Þingmaðurinn stendur þó höllum fæti vegna þess að hann hefur staðið að árás á almenning. Skattar hafa hækkað síðustu tvö árin, skuldir fjölskyldna hafa hækkað en eignarhlutur lækkað, 22.500 störf hafa ekki komið aftur frá hruni þrátt fyrir loforð stjórnvalda, um 20% geta ekki staðið undir húsnæðislánum sinum og 40% eiga í erfiðleikum með þau, þörfin fyrir mataraðstoð hefur margfaldast, fólk flýr landi ...
Lærdómurinn af þessu öllu er einfaldlega sá að Björn Valur, flokkur hans og Samfylkingin, hafa svikið þjóð sína og land. Náungi hjá Samtökum iðnaðarins átti auðvitað að reyna að koma þingmanninum í skilning um þetta.
Er stjórnarandstaðan utan Alþingis?
26.10.2011 | 11:03
Sjálfstæðisflokkurinn gaf nýlega út blað um efnahagstillögur sínar og dreifði því í öll hús á landinu. Í kjölfarið hafa formaður, varaformaður og þingmenn flokksins haldið stjórnmálafundi víða um land. Ég var á einum slíkum í gærkvöld.
Ég hef lítið gert að því að gagnrýna Sjálfstæðisflokkinn hér en get þó ekki orða bundist. Þingmaðurinn sem stóð fyrir svörum á fundinum í gærkvöldi hafði flest svör á reiðum höndum og mæltist að flestu leyti vel.
Hins vegar vafðist honum tunga um höfuð þegar ég gerði að umtalsefni hversu illa flokkurinn hafi staðið að kynningarmálum sínum. Ég veit ekki hvort honum var misboðið með gagnrýni minni eða honum væri ami að návist minni - ef til vill hvort tveggja.
Kannski erum við bara ekki nógu snjöll, kunnum ekki nógu vel að koma málum okkar á framfæri, sagði hann og breytti um umræðuefni. Þetta er auðvitað ekkert svar en alveg dæmigert fyrir rútíneraðan stjórnmálamann sem eftir tuttugu ára dvöl við kjötkatlanna kann að snúa fundum eftir því sem honum hentar best.
Þingmaðurinn hélt því fram að líftími mála stjórnarandstöðunnar væri mjög skammur. Held að það sé rétt hjá honum. Einhverju hlýtur þó að skipta hvernig að kynningunni sé staðið. Efnahagstillögur sem aðeins verða til á dagblaðapappír endast auðvitað ekki. Fylgja þarf þeim eftir á Alþingi, flytja þingsályktunartillögur byggða á efni þeirra, frumvörp til laga, breytingatillögur og svo framvegis. Er það gert?
Það getur ekki verið verkefni ríkisstjórnarinnar einnar að leggja fram mál í þinginu. Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki verið svo skammsýnn að hann haldi að efnahagstillögurnar einar breyti einhverju. Þær þarf að ræða, leggja fram á þingi og ekki síst kynna ítarlega fyrir landsmönnum.
Það er annars umhugsunarefni hversu slöpp stjórnarandstaðan er. Hefur hún alla burði til að ná árangri. Hún á við að etja málaefnalega lélega ríkisstjórn sem ekkert kemur undan sem almenningi og atvinnulífi er til góðs.
Hið eina raunverulega aðhald sem ríkisstjórnin fær er frá þjóðinni. Það var hún sem barði niður Icesave, það er hún sem krefst aðgerða varðandi skuldavanda heimilanna, það er hún sem krefst þess að atvinnuleysinu verði útrýmt, það er hún sem sýnir fram á að staða almennings er miklu, miklu lakari en ríkisstjórnin lætur í veðri vaka.
Hin raunverulega andstaða kemur frá Hagsmunasamtökum heimilanna og fjölda einstaklinga sem stunda sjálfstæðar samfélagsrannsóknir og birta reglulega niðurstöður sínar. Fólk með eldmóð og kraft sem Alþingi skortir svo sárlega um þessar mundir.
Andstaða VG hrakti Alcoa frá Bakka
26.10.2011 | 09:30
Æðstu ráðamenn Alcoa lýstu því yfir á Íslandi í síðasta mánuði að þeir hefðu enn fullan hug á að reisa álver við Húsavík og í síðustu viku fundaði sendinefnd Landsvirkjunar með Alcoa-mönnum í New York.Hörður staðfestir að viðræður standi yfir við Alcoa en kveðst ekki vilja ræða um einstaka aðila. Þegar hann er spurður hvort samningaviðræður séu hafnar um verð eða hvort þetta séu aðeins könnunarviðræður svarar Hörður:
"Nei, þetta eru ekki könnunarviðræður. Þetta eru alvöruviðræður, í fullri alvöru, og að sjálfsögðu er meðal annars verið að ræða um verð. Það er einnig verið að ræða margt annað sem er í svona flóknum samningum. En ég endurtek líka að við erum að ræða við fjölmarga aðra aðila sem eru ekki síður áhugasamir en Alcoa."-Þannig að Alcoa er ekki endilega númer eitt í röðinni?"Það er enginn númer eitt. Þetta eru allt mjög æskilegir viðskiptavinir, mjög góð fyrirtæki, og vonandi náum við bara sem fyrst að landa samningum við einhvern þeirra."Hörður staðfestir að Alcoa er tilbúið að laga sig að orkugetu héraðsins."Ef þeir væru ekki tilbúnir að laga sig að þessu, þá værum við ekki að ræða saman."
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Össur og Árni redda samþykki fyrir kvöldmat
25.10.2011 | 13:40
Ali Tarhuni, olíu- og fjármálaráðherra Þjóðarráðs Líbýu þarf að gera sér grein fyrir því að íslenska ríkisstjórnin þarf að samþykkja dvöl Nató í Líbíu. Gerum okkur grein fyrir því að Vinstri grænir í ríkisstjórn Íslands hafa aðeins gefið leyfi til loftárása á landið en ekki samþykkt neina dvöl herja eða hernaðaráðgjafa í landinu.
Hins vegar hefur vinstri stjórn lýðveldisins, hin norræna velferðarstjórn, sem er á móti byssuleikjum og kjarnorkuvopnum, hingað til ekki verið lengi að samþykkja hernað. Ali Tarhuni þarf ekki að óttast að afstaða hinnar friðelskandi ríkisstjórnar Íslands tefji málið. Líklegast er að utanríkisráðherra og formaður utanríkisnefndar Alþingis reddi þessu fyrir kvöldmat.
Helst er að ríkisstjórnin óski eftir því að fá að senda einhverja af atvinnuleysisskrá til að fylgjast með að allt fari nú sómasamlega fram þarna í henni Líbíu. Ella gæti einhver slasað sig eða drepið á öllum þessum vígtólum.
Vilja hafa NATO áfram | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ómerkilegur vaðall í Helga Hjörvar
25.10.2011 | 12:49
Bankasýsla ríkisins var sett á stofn til að koma bankamálunum lengra en armur fjármálaráðherra nær og forðast þannig pólitísk afskipti. Þau hafa oft verið talin óeðlileg og af mörgum ígildi spillingar. Um það má hins vegar deila.
Þeir sem hæst göptu um pólitísk afskipti gerðast nú sekir um pólitísk afskipti. Ekki aðeins fjármálaráðherra heldur líka naglar eins og alþingismaðurinn Helgi Hjörvar. Hann er á móti þeim sem var ráðinn forstjóri Bankasýslunnar. Líklega vegna þess að nýi forstjórinn var aðstoðarmaður ráðherra á sínum tíma. Hvað maðurinn hafði gert af sér er ekki ljóst. Hins vegar er vitað hvað rök Helgi hefur fyrir því að aðferðafræðin við ráðningu forstjórans hafi verið röng. Hann er bara á móti, svona pólitískt séð.
Ég ber ekki hag nýráðins forstjóra Bankasýslu ríkisins fyrir brjósti. Hitt finnst mér alvarlegra þegar stjórn stofnunar segir af sér vegna pólitískra afskipta þingmanna og ráðherra af faglegum störfum þeirra.
Hálfkveðnar vísur eins og þessi segir meira um höfundinn en þá sem um er rætt:
Ef athafnir manna þola ekki umfjöllun úr ræðustóli Alþingis, þá bendir það til þess að þær athafnir hafi ekki staðið sérlega traustum fótum.
Þessu má auðveldlega snúa á Helga Hjörvar sem virðist enga þekkingu hafa á Bankasýslunni. Mjög auðveld er að semja ræðu eins og maðurinn gerir í viðtalinu við mbl.is og fara í kringum málið án þess að taka á aðalatriðum þess. Þannig ræða verður bara ómerkilegur vaðall.
Þarf að endurreisa trúverðugleika | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bull og vitleysa á mbl.is
25.10.2011 | 10:43
Mikið ansi er ég hræddur um að mbl.is sé að verða sér til skammar. Frétt um eins stigs jarðsskjálfta á sex metra dýpi í Mýrdalsjökli slær út flestar vitleysur sem áður hafa birtst á fréttasíðunni. Af nógu er þó að taka.
Meira að segja hinir grafalvarlegu og húmorslausu jarðfræðingar Jarðvísindadeildar Háskóla Íslands bresta eflaust í hlátur með líkamsskjálfta upp á 2 á Richter við lestur fréttarinnar
Staðreyndin er sú að svona litlir jarðskjálftar heyra ekki til tíðinda. Önnur staðreynd er sú að klukkan 01:13 í nótt varð skjálfti upp á 1,2 á Richter og mældust upptök hans á 6,7 km dýpi skv. vefsíðu Veðurstofunnar. Næst skjálfti varð ekki fyrr en kl. 07:30.
Jarðskjálfti upp á 3,3 á Richter mældis hins vegar kl. 07:13 á mánudagsmorgunn, upptökin voru á 1,1 km dýpi, 4,9 km austnorðaustur af Goðabungu, það er í Kötluöskjunni. Hann gæti hafa fundist í Kerlingardal austan við Vík. Sá dalur er hins vegar langur og óvíst hvort margir hafi verið þar utan gestir og starfsfólk á hótel Höfðabrekku.
Sem sagt, frétt mbl.is er ekki einungis tilbúningur, heldur er hún efnislega rugl og vitleysa. Ritstjórn vefsins er hér með ráðlagt að vanda sig betur.
Vægur skjálfti í Mýrdalsjökli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Leikreglur í samkeppni ekki virtar
25.10.2011 | 09:58
Í dag birta tólf fyrirtæki opnuauglýsingu í Morgunblaðinu. Þau krefjast réttlætis. Hin sláandi fyrirsögn á auglýsingunni er þessi: Við krefjumst þess að leikreglur á samkeppnismarkaði séu virtar!.
Almenningur og fyrirtæki í landinu er búinn að fá nóg af ástandinu. Fyrir tveimur dögum sendi hópur fólks bréf til þátttakenda í alþjóðlegri grobbráðstefnu ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hann hefur áhyggjur af því að ráðstefnan verði einhliða. Ég birti þetta bréf hér á bloggsíðunni í gærkvöldi.
Áðurnefnd tólf fyrirtæki eru í beinni samkeppni við Pennann, Nýjapennann, framleiða eða flytja inn húsgögn. Öll eru þau í einkaeign og eigendur þess eiga ábyggilega ekki eins auðvelt með að auka hlutfé eins og Arion banki getur.
Í texta auglýsingarinnar segir:
- Skilanefnd Kaupþings tapaði um átta milljörðum króna á gjaldþroti gamla Pennans.
- Félag í eigu Arion banka hefur á tveimur árum tapað ríflega einum milljarði króna á rekstrinum.
- Arion banki jók hlutafé Pennans um 200 milljónir króna til viðbótar núna í september sl. - ofan á allt annað!
Penninn keppir við okkur á almennum samkeppnismarkaði, mikið tap er á rekstrinum en Arion banki heldur fyrirtækinu endalaust gangandi með fjármagni sem ekki sér fyrir endann á.
Við sættum okkur ekki við að leikreglur á samkeppnismarkaði séu þverbrotnar á þennan hátt!
Rekstur fyrirtækja er sífellt kapphlaup, endalaus samkeppni, og þannig á það að vera. Í kapphlaupi eru allri keppendur ræstir á sama tíma, ekki gengur að sumir fái forskot á aðra.
Arion banki lifir í þeim veruleika að hann getur þjófstartað þeim fyrirtækjum sem hann kemur höndum sínum yfir. Tilgangurinn er eflaust góður og gegn, að halda þeim í rekstri, sýna fram á að hann er lífvænlegur og selja síðan.
Vandinn er hins vegar sá að Penninn varð gjaldþrota. Hann hætti ekki rekstri, bankinn tók hann yfir, stofnaði nýtt hlutafélag, skildi eftir skuldirnar í því gamla og hélt áfram með Nýjapenna eins og ekkert hefði í skortist.
Samkeppnisaðilar Nýjapennans eiga ekki kost á þessu. Þeir sitja uppi með skuldir og takmarkað hlutafé, geta barist innbyrðis en eiga ekki sjéns í samkeppni við Nýjapenna. Þetta er raunveruleiki dagsins í dag. Fyirtækjum landsins svíður undan fjármálafyrirtækjunum rétt eins og almenningi.