Bloggfærslur mánaðarins, október 2011
Opið bréf: Skuldsettur almenningur ber byrði hrunsins
25.10.2011 | 00:44
Vinstri stjórnin hefur litlum árangri náð í þeim málum sem skipta mestu fyrir þjóðfélagið eftir hrun. Hún heldur þó öðru fram og virkjar til þess marga meiriháttar galdramenn í almannatengslum og blaðamennsku.
Nýjasta útspilið er alþjóðleg ráðstefna sem á að koma þeirri tilfinningu inn hjá landsmönnum að íslenska hagkerfið sé á batavegi eftir hrunið vegna hæfileika ríkisstjórnarinnar. Kannast einhver við spegilmyndina um snilli útrásarvíkinganna í þessu sambandi.
Til er fólk sem vinnur málefnalega að rökræðunni við stjórnvöld um stöðu atvinnulífs og heimila. Þetta fólk hefur nú skrifað opið bréf sem sent hefur verið á fyrirlesara og þátttakendur í ráðstefnunni sem verður fimmtudaginn 27. október í Hörpu.
Og hver skyldi halda ráðstefnuna? Ekki Háskóli Íslands, ekki Háskólinn í Reykjavík, öngvir hlutlausir fræðimenn ... Nei, ríkisstjórnin og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn! Halló!
Þetta eru þessir tveir aðilar, sem bera að öllu leyti ábyrgðina á aðgerðum eftir hrunið. Nú standa þeir upp og ætla nú að hrósa sjálfum sér. Fyrir hvað? Fyrir að hafa haft fé af íslenskum almenningi til að byggja upp sama fjármálakerfið og var hér fyrir hrun? Minnir á manninn sem sagðist endilega þurfa að hrósa sjálfum sér vegna þess að enginn annar gerði það.
Ég er fyllilega sammála efni bréfsins og tek mér því það bessaleyfi að birta það hér á bloggsíðunni. Ég bið lesendur að lesa það til enda.
Bréfið er vel skrifað, áhrifaríkt og ... í raun og veru sláandi. Það gefur til dæmis allt aðra lýsingu á stöðu mála en forsætisráðherrann og fjámálaráðherran drógu upp á nýafstöðnum landsfundum sínum.
Ég hef leyft mér að feitletra í rauðu nokkrar áherslupunkta og fjölga greinaskilum til að auðveld lesturinn.
Reykjavík 23. október 2011
Kæri herra/frú
Tilefni þessara skrifa er það að þú ert meðal þeirra sem munu taka til máls á ráðstefnunni Ísland á batavegi: Lærdómar og verkefni framundan, sem haldin verður í Reykjavík 27. október næstkomandi.
Við undirrituð höfum áhyggjur af því að þú hafir aðeins fengið valdar upplýsingar um efnahagsástandið á Íslandi frá hérlendum stjórnvöldum. Við viljum því benda þér á mikilvægar viðbótarupplýsingar varðandi fjármál ríkis og sveitarfélaga, fjármálakerfið og stöðu almennings í landinu.
Almennt
Ljóst er að staðan í íslensku efnahagslífi er nokkuð önnur í dag en upphaflegar áætlanir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) gerðu ráð fyrir þegar þeir komu hér að málum í lok árs 2008. Þannig voru erlendar skuldir þjóðarbúsins nærri tvöfalt meiri í árslok 2010 en upphaflega var áætlað; skuldir hins opinbera eru meiri, atvinnuleysi er meira, verðbólga á árinu 2010 var meiri og svo virðist sem samdrátturinn í efnahagslífinu ætli að verða dýpri og vara lengur.
Ríkisfjármálin
Fyrir hrun skuldaði ríkissjóður 26% af VLF. Opinberar tölur yfir skuldir ríkisins eru 111% af VLF en heildarskuldir þjóðarbúsins eru hins vegar 280% af VLF.
Hrein peningaleg eign ríkissjóðs versnaði um 140 milljarða króna milli annars ársfjórðungs 2010 og 2011.
Ef marka má þessar tölur þá er hægt að leiða að því líkum að íslenska ríkið hafi frá hruni tekið að láni fjárhæð sem nemur jafnvirði landsframleiðslu í eitt ár og þá eru lánin frá AGS ekki einu sinni talin með.
Vaxtakostnaður ríkissjóðs af núverandi skuldabyrði er hátt í 20% af tekjum.
Sveitarfélög
Skuldir sveitarfélaganna og skuldbindingar voru 586 milljarðar um seinustu áramót. Ef skuldir Orkuveitu Reykjavíkur, sem eru vel á 300 milljarða, og 47 milljarða lífeyrisskuldbindingar sveitarfélaganna eru frátaldar standa samanlagðar skuldir sveitarfélaganna í 310 milljörðum kr. sem er 20% af VLF og 154% af tekjum þeirra.
Fjármálakerfið
Kostnaður íslenska ríkisins við endurreisn bankakerfisins í kjölfar hrunsins haustið 2008 var 64% af VLF sem er heimsmet.
Nýju bankarnir fengu lánasöfn gömlu bankanna á 45-65% af raunvirði þeirra. Þessi niðurfelling á milli gömlu og nýju bankanna hefur þó ekki skilað sér til almennings þar sem lánin eru rukkuð inn á nafnvirði þeirra.
Afleiðingarnar eru mikill hagnaður bankanna sem byggir á því að þeir eru að eignast stóran hluta af öllum eignum íslenskra fyrirtækja og heimila.
Almenningur
Nú er svo komið að 20% heimila í landinu geta ekki borgað af lánum sínum og 40% eru í miklum erfiðleikum. Í raun eru það bara 10% sem geta greitt af húsnæðislánum með eðlilegum hætti.
Ráðstöfunartekjur heimilanna hafa lækkað um 27,4% síðastliðin þrjú ár á meðan verðlag hefur hækkað um 40%. Af þessum ástæðum hefur neysla þjóðarinnar dregist saman.
Á sama tíma hefur þörfin fyrir mataraðstoð margfaldast en engar opinberar tölur eru til yfir fjöldann. Það eru þó staðreyndir að biðraðirnar við hjálparstofnanir hafa lengst og fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna hefur aukist um 62% frá hruni.
Fram hefur komið í tölum ríkisskattstjóra að skuldir íslenskra fjölskyldna hafi vaxið meira en eignir en á síðasta ári rýrnuðu eignir í fyrsta skipti meira en skuldir.
Fjölskyldum sem eiga meira en þær skulda hefur fækkað um 8,1% milli ára. Þeim sem voru með neikvæðan eignaskattstofn fjölgaði hins vegar um 12,1%.
Samkvæmt síðustu tölum Vinnumálastofnunar er atvinnuleysið 6,7%. Sú tala er hins vegar umtalsvert hærri þar sem markvisst er unnið að því að koma atvinnulausum í nám og af bótum á námslán.
Nálægt 5.600 manns hafa yfirgefið landið í leit að atvinnu og betri lífskjörum, sem jafngildir 1,84% fólksfækkun eða meira en heilli fjölskyldu á degi hverjum.
Í þessu sambandi skiptir líka máli að hópur fólks sem er atvinnulaus en á ekki rétt á atvinnuleysisbótum skráir sig ekki atvinnulausa. Hvatinn til að skrá sig er ekki til staðar þar sem fólk fær engar bætur hvort sem er.
Að lokum er rétt að benda á að samkvæmt tölum sem hafa verið í opinberri umræðu má ráða að störfum á Íslandi hafi fækkað um 22.500 sem er u.þ.b. 8,2% af skráðu vinnuafli 2010.
Niðurstaðan
Meginástæða hrunsins var ofvaxið bankakerfi. Það orkar því tvímælis frá sjónarhóli almenning að horfa upp á þá ofuráherslu sem stjórnvöld leggja á endurreisn þessa sama kerfis í stað þess að stuðla að raunhagvexti í samfélaginu.
Byrðunum af hruninu hefur fyrst og fremst verið dreift á skuldsettan almenning. Ríkisstjórnin hefur staðið gegn því að bæta almenningi tjón af völdum vafasamra vinnubragða fjármálakerfisins með almennri skuldaleiðréttingu og þess í stað boðið sértæk skuldaúrræði sem gefa bönkunum nánast sjálfdæmi um leiðréttingar í hverju tilfelli fyrir sig. Slík úrræði virðast fremur miða að því að viðhalda greiðsluþreki og hámarka endurgreiðslu, heldur en að eiga nokkuð skylt við sanngjarnar bætur fyrir þá stórfelldu eignaupptöku sem hefur átt sér stað.
Þessi afstaða ríkisstjórnarinnar og vinnubrögð bankanna hafa aðeins aukið á misskiptingu. Landsmenn horfa upp á að það er verið að afskrifa skuldir þeirra sem ollu hruninu, en fá svo að halda fyrirtækjum sínum og arði af ólöglegum fjármálagjörningum á sama tíma og almenningur er látinn þola afleiðingarnar.
Hagsmunagæsla kjörinna fulltrúa í þágu fjármálageirans á kostnað almennings er orðin að raunverulegri ógn við samfélagslegan stöðugleika.
Íslenska bankakerfið hefur sett skuldir sínar yfir á almenning eins og gert hefur verið í Grikklandi, Írlandi, Portúgal og víðar. Ísland sker sig því ekkert úr hvað það varðar að lýðræðið hefur orðið fórnarlamb bankaveldisins.
Virðingarfyllst,
Andrea Jóhanna Ólafsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna
Ásta Hafberg, nemandi í viðskiptastjórnun
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, fyrrverandi garðyrkjustjóri
Elínborg K. Kristjánsdóttir, fyrrverandi blaðamaður
Elías Pétursson, framkvæmdastjóri/háskólastúdent
Eyjólfur Kolbeinn Eyjólfsson, hugbúnaðarsérfræðingur
Björg Sigurðardóttir, fyrrverandi bankastarfsmaður
Björk Sigurgeirsdóttir, ráðgjafi
Guðbjörn Jónsson, ráðgjafi kominn á eftirlaun
Guðmundur Ásgeirsson, kerfisfræðingur
Guðrún Skúladóttir, sjúkraliði
Gunnar Skúli Ármannsson, læknir
Helga Garðarsdóttir, ferðamálafræðingur
Helga Þórðardóttir, kennari
Indriði Helgason, rafvirki
Jakobína I. Ólafsdóttir, stjórnsýslufræðingur
Rakel Sigurgeirsdóttir, íslenskukennari
Sigurjón Þórðarson, líffræðingur
Sigurlaug Ragnarsdóttir, listfræðingur
Vilhjálmur Bjarnason, ekki fjárfestir
Þórarinn Einarsson, aðgerðasinni
Þórður Á. Magnússon, framkvæmdastjóri
Afrit sent á erlenda og innlenda fjölmiðla svo og ráðherrana þrjá sem eru í gestgjafahlutverkinu á ráðstefnunni: Iceland´s RecoveryLessons and Challenges sem haldinn verður í Hörpunni n.k. fimmtudag eða þ. 27. október
Verður ný stjórn leiðitamari fjármálaráðherra?
24.10.2011 | 18:25
Afskipti ríkisstjórnarinnar af málefnum Bankasýslu ríkisins eru þess eðlis að stjórn hennar hefur sagt af sér. Fjármálaráðherrann segir nú að reynt verði að leysa málin þannig að þau valdi sem minnstri truflun á starfsemi stofnunarinnar, eins og fram kemur í frétt mbl.is.
Stefna fjármálaráðherra er einfaldlega sú að stjórn Banaksýslu ríkisins eigi að vera sjálfstæð í störfum sínum svo fremi sem ráðherra sé samþykkur.
Stefna fjármálaráðherra er að una afsögn stjórnar Bankasýslunnar og ógilda svo ráðningu hennar á forstjóra.
Fjármálaráðherra þykir miður að stjórn Bankasýslunnar skuli hafa sagt af sér. Nú þarf hann að ganga í það óþægilega verkefni að skipa nýja stjórn. Er hugsanlegt að ný stjórn verði honum leiðitamari en sú fyrri? Spyr sá sem ekki veit.
Harmar afsögn stjórnarinnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ný stjórn yfir Bankasýsluna - NEI, nýja ríkisstjórn
24.10.2011 | 17:59
Þversögnin í máli Bankasýslu ríkisins er himinhrópandi. Hún var sett á laggirnar til að fjarlæga bankaumsýsluna frá skrifborði stjórnmálamannsins í embætti fjármálaráðherra. Það dugði hins vegar ekki. Fjármálaráðherra skiptir sér af daglegum rekstri stofnunarinnar.
Hrunið varð þess valdandi að fjöldi fólks krafðist þess að stjórnsýslan fengi að vinna faglega, án íhlutunar stjórnmálamanna. Ríkisstjórnin tók mark á þessu og hefur hingað til unnið samkvæmt þessu. Undantekningin er þó sú að reglan um afskipti stjórnmálamanna á ekki við ráðherra ríkisstjórnarinnar enda eru þeir óspilltir. Þeir skipta sér aðeins af því sem þörf er á ...
Formaður Sjálfstæðisflokksins heldur því fram að engin þörf sé fyrir Bankasýslu ríkisins. Það er rétt. Hún getur verið ein skúffa í fjármálaráðuneytinu.
Fjölmargir halda því fram að mikil þörf sé fyrir ríkisstjórn í landinu. Það er rétt. Hins vegar er tími núverandi ráðherra liðinn. Það er ekkert fyndið lengur hvernig þessi ríkisstjórn gengur gegn öllum þeim málum sem hún hugðist vinna að.
Stjórn Bankasýslu vill hætta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Langar málsgreinar eyðileggja greinar
23.10.2011 | 16:55
Langhundar eru leiðinlegir. Sérstaklega eru þeir vondir í fréttum og greinaskrifum. Verst af öllu eru langar og flóknar málsgreinar. Þær lifa vegna þess að sá sem skrifar les ekki yfir.
Fréttamenn eru margir góðir og vel skrifandi. Þetta tvennt fer þó ekki alltaf saman sem er eiginlega allt í lagi. Oftast er blaðamennska samvinna og leggur þá hver til það sem hann gerir best.
Fyrr í dag skrifaði ég pistil um langar og metnaðarlausar greinar sem ég fann í helgarblaði Fréttablaðsins. Þegar ég las fleiri greinar og fréttir á vefsíðunum uppgötvaði ég mér til skelfingar hversu margir eru hugsunarlausir í skrifum sínum og jafnvel hroðvirknislegir.
Málsgrein er ein eða fleiri setningar. Sá sem ætlar að veita upplýsingar eða hafa áhrif á aðra skrifar stuttar málsgreinar. Það er farsælast. Stundum hefur verið sagt að 30 til 35 orð séu hámark í málsgrein. Þetta átta margir sig ekki á eða gleyma í dagsins önn.
Ég valdi málsgreinar úr fréttum sem greinilega hefði þurft að laga. Það er einfaldlega ekki nóg að setja mann fyrir framan tölvu og segja honum að skrifa frétt. Hann þarf fyrst og fremst að læra að hugsa eins og almennur lesandi. Verkefni blaðamannsins er öðru þræði að miðla þeim upplýsingum sem hann hefur aflað og koma þeim í leshæft horf.
64 orð málsgrein
Ennfremur segir Kristján það vonbrigði að Samkeppniseftirlitið hafi ekki tekið tillit til boðaðra aðgerða í tengslum við kaupin sem áttu að draga úr mögulegum neikvæðum áhrifum á samkeppnismarkaði, til að mynda kvað viljayfirlýsing sem gefin var út í tengslum við kaupin á um að stefnt væri að því að sameiginlegur eignarhlutur Landsbankans og Arion í Verdis yrði kominn niður fyrir 50% innan þriggja ára.
Morgunblaðið, Skorður settar á svigrúm fjármálafyrirtækja til hagræðingar, 20. Október 2011.
53 orða málsgrein
Íslandsbanki segist vera vel í stakk búinn til að takast á við hugsanleg áhrif dóms Hæstaréttar sem hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur, um að samningur banka um fjármögnunarleigu vegna vinnuvélar væri í raun lánssamningur en ekki leigusamningur Íslandsbanki telur að varúðarreikningur bankans standi undir þeirri niðurstöðu sem í dag var staðfest í Hæstarétti.
Morgunblaðið, viðskiptablað
46 orða málsgrein
Sjóðurinn Vildarbörn er fjármagnaður með eftirtöldum hætti: Með beinu fjárframlagi Icelandair, frjálsum framlögum félaga í Vildarklúbbi Icelandair sem geta gefið af Vildarpunktum sínum, með söfnun myntar um borð í flugvélum Icelandair, sölu á Vildarenglinum um borð í vélum Icelandair og söfnunarbaukum á Keflarvíkurflugvelli og söluskrifstofu Icelandair.
Pressan
Tveir þrír punktar í ofangreindum tilvitnunum og stundum smávægilegar orðalagsbreytingar hefðu verið til bóta.
Margt hefur breyst í fjölmiðlum frá því ég byrjaði sem blaðamaður á Vísi í gamla daga þar sem Elías Snæland Jónsson, fréttastjóri, reyndi að skóla mig til. Hann vildi að ég skrifaði stuttar málsgreinar, gerði mér grein fyrir að upphaf greinar skiptir öllu og fyrirsögnin væri mikilvægust. Þetta hefur staðist tímans tönn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Illa skrifaðar greinar og leigðir pennar
23.10.2011 | 11:55
Margir eiga ýmist erfitt með að skrifa greinar í dagblöð eða á vefsíður eða hafa ekki tíma til þess. Svo eru það þeir sem eiga mjög erfitt með að skipuleggja mál sitt þannig að vel sé. Þeir skrifa oft í greinar, blogg eða athugasemdir og það sést langar leiðir.
Ráðherrar láta aðstoðarmenn sína oft rita fyrir sig geinar. Gefa þeim bara efni og línuna. Borgarstjóri kann til dæmis ekki að skrifa grein og lætur aðra gera það. Nafn hans er við eina í Fréttablaðinu í gær.
Greinin er tvímælalaust ekki eftir manninn. Orðfærið, uppsetningin og hugsunin er svo fjarlæg hinni óskipulegu hugsun borgarstjóra sem hægt er. Stærsti gallinn við greinina er að hún er of löng og án millifyrirsagna.
Annar stór galli eru afar langar málsgreinar, - jafnvel yfir fjörtíu orð. Þær gera langa grein erfiða aflestrar.
Dæmi, 52 orða málsgrein:
Má þar nefna sumarlokanir á götum í miðborginni, lokun Austurstrætis fyrir bílaumferð, að kalla Miklatún Klambratún að nýju, að ýta metan meira, að hefja rannsókn á stjórnun og starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur fyrir hrun, að hækka fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar og fjölmargt fleira. Sumt er enn í vinnslu enda þarf að útfæra góðar hugmyndir vel.
Ekki þarf lengi að leita að öðrum stjórnmálamanni sem skrifar langa grein og illlæsilega. Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra skrifar grein í Fréttablaðið við hliðina á grein Jóns Gnarrs.
Hann hefur líklega skrifað gein sína sjálfur. Hún ber einkenni talsmáta ráðherrans mjög víða. Hins vegar er greinin gölluð. Málgreinar eru of langar, hér er ein með 65 orðum.
Ég fer þó ekki lengra aftur í tímann en hálfa öld, til að rifja upp þegar Alþingi samþykkti árið 1961 lög um launajöfnuð kvenna og karla. Laun kvenna skyldu hækka í áföngum til jafns við laun karla fyrir sömu störf í almennri verkakvennavinnu, verksmiðjuvinnu og verslunar- og skrifstofuvinnu, fyrst með hækkun um 1/6 hluta launamismunarins og síðan árlega þar til fullum launajöfnuði væri náð árið 1967.
Svona má ekki skrifa. Báðar greinarnar eru slæmar. Sú sem sögð er eftir borgarstjórann er þó skárri því víða eru þó stuttar málsgreinar. Þarna má finna fyrstu persónufornöfnin í fleiritölu og er það miklu betra en eintalan. Annað einkenni er að byrja málsgreinar á sagnorði sem er ekki áferðarfallegt og afar leiðigjarnt : Ætti enginn Reykvíkingur að láta vefinn fram hjá sér fara., Verða svörin birt á Betri Reykjavík..
Guðbjartur skrifar eins og bjúrókrat. Engin persónueinkenni eru á greininni. Hún er of löng, millifyrirsagnir eru aðeins tvær og hræðilega illa samdar.
Svo eru það millifyrirsagnirnar. Borgarstjóragreinin nefnist Betri Reykjavík fyrir fólkið. fyrirsögnin vísar til efnis greinarinnar, vefinn betrireykjavik.is.
Ráherrann nefnir sína Launajafnrétti kynjanna - barátta í hálfa öld. Hvorugur hefur skilning á fyrirsögnum.
Báðar eru fyrirsagnirnar flatar og lítt áhugaverðar. Þær skera sig ekkert úr því sem frá þessum stjórnmálamönnum hefur komið. Auðveldlega má koma með betri fyrirsagnir en hafa ber í huga að illa skrifaðar greinar batna ekkert þó þeim fylgi góðar fyrirsagnir. Þetta þarf víst allt að haldast í hendur. Hér má láta það fljóta með að um 400 orða grein er mátulega löng. Það er list að skrifa stuttar greinar, allir geta skrifað langar.
Ekkert að því að fá aðra til að skrifa fyrir sig. Það væri líka ærið órökrétt af mér að gagnrýna slíkt. Ég hef lengi sinnt skrifum fyrir aðra; stjórnmálamenn, fyrirtæki, auglýsingastofur og jafnvel minningargreinar. Slíkir eru kallaðir leigupennar og eru afar algengir austan hafs og vestan og jafnvel hér á landi.
Þá er best að láta langri grein lokið (meira 566 orð), engar millifyrirsagnir en þó ágæt fyrirsögn.
ESB kallar þetta aðlögunarviðræður
21.10.2011 | 12:54
Nokkuð lengi hefur verið deilt um það hvort rikisstjórnin standi í aðildarviðræðum við ESB eða aðlögunarviðræðum. Í greinagóðu viðtali Ólafs Stephensen, ritstjóra Fréttarblaðsins við Stefan Füle, stækkunarstjóra sambandsins er þetta:
Hvað segirðu um þá gagnrýni sumra andstæðinga ESB-aðildar Íslands að viðræðurnar séu ekki neinar samningaviðræður, heldur aðlögunarviðræður um það hvernig Ísland taki upp löggjöf ESB?
Þegar ríki sækir um að ganga í ESB endurspeglar það vilja til að samþykkja lög og meginreglur sambandsins. Annars vegar er svarið þess vegna já; við erum ekki að semja um breytingar á löggjöf ESB. [...] En það þýðir hins vegar ekki að þetta séu ekki raunverulegar samningaviðræður. Þetta er erfitt og langdregið ferli, þar sem við aðstoðum umsóknarríkið við að laga stefnu sína og löggjöf að því sem gerist í ESB, en um leið tökum við sérstöðu og hagsmuni einstakra ríkja til greina.
Svar stækkunarstjórans er mjög afdráttarlaust og heiðarlegt. Um er að ræða aðlögunarviðræður, svo einfalt er það. Samningaviðræðurnar eru engar, aðeins aðstoð við að laga stefnu sína og löggjöf að því sem gerist í ESB ....
Þannig er þetta í stuttu máli. Við erum í aðlögunarviðræðum, punktur.
Að þeim loknum er eiginlega ekkert um að kjósa. Við höfum þá líklega breytt lögum og stjórnkerfi og aðlagað að því sem er hjá Evrópusambandinu.
Engu að síður verður kosið. Samþykki þjóðinn aðildina rennum við inn átakalaust.
Samþykki þjóðin ekki sitjum við hugsanlega uppi með breytt lög og stjórnkerfi sem hentar okkur ekki nema að litlu leyti.
Tillaga Sjálfstæðisflokksins um þjóðaratkvæðagreiðslu áður en lagt var af stað í viðræðurnar var góð. Þá héldum við að um væri að ræða aðildarviðræður. Samfylkingarmenn í báðum ríkisstjórnarflokkunum hlógu ógurlega og stundu upp á milli hláturhviðanna til hvers, nóg væri að kjósa að loknum aðildarviðræðunum.
Nú hefur hins vegar komið í ljós að þjóðinni var sagt ósatt um eðli viðræðanna. Kíkjum í pakkann, sögðu rikisstjórnarflokkarnir. Við vitum ekki hvað okkur stendur til boða, sögðu þeir.
Annað hvort laug ríkisstjórnin að þjóðinni eða hún vissi einfaldega ekki út í hvað hún var að etja þjóðinni. Ég veit ekki hvort er verra fyrir stjórnmálamann; lygi eða þekkingarleysi. Og nú er verið að breyta lögum og stjórnskipulagi og allt byggt á óheiðarlegri framgöngu ríkisstjórnarflokkanna.
Erum við þrátt fyrir allt villimenn?
21.10.2011 | 09:15
Dauði Gaddafís í Líbýu markar tímamót, enginn mótmælir því. Það var hins vegar hrikalegt að sjá fréttamyndir af dauða harðstjórans. Lýðurinn tók Gaddafí, misþyrmdi, niðurlægði, særði og murkaði að lokum lífið úr honum. Ekki var meðferð á líkinu mannlegri. Múgurinn fór með það eins og hvert annað þýfi.
Nú kann einhver að segja að þetta hafi Gaddafí mátulegt eftir áratuga ógnarstjórn. Vissulega var maðurinn skepna. Hann fór illa með sitt fólk, deildi og drottnaði, meiddi og myrti án efa tugi þúsunda af samlöndum sínum, jafnvel miklu fleiri. Utan Líbýu eru þúsundir sem eiga um sárt að binda vegna hryðjuverka sem beinlínis má rekja til mannsins.
Þó allt þetta skipti máli kemur veltir maður fyrir sér hvað æstur lýður getur gert. Honum er ekkert heilagt og þau mistök sem hann venjulega gerir vill enginn einstaklingur viðurkenna, lýðurinn er ábyrgðarlaus, hefur enga hugsun.
Meðferðinn á Gaddafí í andaslitrunum og dauðum var hrottaleg og öllum til skammar.
Er það svona sem mannkynið er þrátt fyrir siði, trú og menningu sem þróast hefur í þúsundir ára. Erum við innst inni bara villimenn? Er sómatilfinningin aðeins til heima í stofu en þegar við söfnumst saman hverfur skynsemin?
Er 23000 manna atvinnuleysi ásættanlegt?
21.10.2011 | 08:59
Ekki er úr vegi að landsfundarfulltrúar Samfylkingarinnar hafi eftirfarandi í huga:
- Um 12.000 manns eru atvinnulausir
- Um 6.000 manns hafa flutt land, flestir beint eða óbeint vegna atvinnuleysis
- Dulið atvinnuleysi er mikið, hugsanlega 5.000 manns, fólk sem ekki fær neinar bætur
Landsfundur Samfylkingar hefst í dag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Opnir kaflar og lokaðir í Esb aðlögunarviðræðum
20.10.2011 | 18:03
Ríkisstjórnin stendur í viðræðum um aðlögun íslenskrar stjórnsýslu að kerfi ESB. Sumir nefna þetta ranglega aðildarviðræður. Spurningin er ekki sú hvort Ísland eigi að ganga inn í Evrópusambandið heldur hvernig. Og þetta er gert án þess að þjóðin hafi verið spurð.
Viðræðurnar hafa einkennilegt yfirbragð sem ég kannast ekki við. Í stað þess að umræður fari fram um tiltekin málefni er verið að ræða eitthvað sem nefnast kaflar. Þeir eru lokaðir. Vonandi þó ekki fyrir íslenskum stjórnvöldum. Þessi blindskák gengur sem sagt út á að ræða um samningskafla.
Í visir.is segir um málið:
Í tilkynningu frá Utanríkisráðuneytinu segir að á fundinum hafi þeir rætt stöðu og framgang aðildarviðræðna Íslands og ESB en á ríkjaráðstefnu í Brussel í gær luku samningsaðilar viðræðum um tvo samningskafla. Þannig hafa alls sex samningskaflar verið opnaðir frá því í lok júní og þar af er viðræðum um fjóra þegar lokið en aðildarviðræðurnarnar snúast alls um 35 samningskafla.
Mér finnst þetta allt með ólíkindum og skil ekki orðfæri kommissara, hvorki þá íslensku né erlendu. Og ekki vex skilningur minn með frekari lestri fréttarinnar:
Á fundinum með Füle lagði utanríkisráðherra áherslu á að Ísland væri reiðubúið að opna allt að helming allra kafla fyrir áramót og lýsti þeirri skoðun sinni að opna ætti þá samningskafla sem ljóst er að verði tímafrekir, svo sem um sjávarútveg og landbúnað, sem fyrst í ferlinu.
Af hverju tala menn ekki mannamál? Hvað þýðir að opna kafla? Hvað eru lokaðir kaflar? Hvernig stendur á því að ég einn skil ekkert í þessu orðfæri?
Ófullnægjandi upplýsingar Fjármáleftirlitsins
20.10.2011 | 13:02
Alveg ótrúlegt er að fylgjast með vinnubrögðum Fjármálaeftirlitsins. Getur þessi stofnun ekki gert annað en að birta hundraðshluta vanskila? Þvílík vinnubrögð, mér liggur við að segja aumingjaskapur.
Staðreyndin er sú að Fjármálaeftirlitinu hlýtur að vera fullkunnugt um fjölda þeirra sem eru í vanskilum við fjármálastofnanir. Til vara vil ég halda því fram að stofnunin á að vera í lófa lagið að afla þessara upplýsinga.
Hver er ástæðan fyrir því að notuð eru hlutföll af hundraði án nokkurrar viðmiðunar? Ég er engu nær þó Fjármálaeftirlitið segi að vanskil útlána séu 30%. Er það mikið eða lítið? Hvað með viðmiðun við síðustu ár, til dæmis tíu ár?
Í stuttu máli vantar þessar upplýsingingar:
- Hversu margir eru í vanskilum, einstaklingar og fyrirtæki?
- Hversu margir einstaklingar eru í vanskilum með íbúðir og ökutæki?
- Hversu mikil eru vanskili af öðrum lánum og hvernig sundurliðast þau?
- Hversu löng eru vanskilin?
- Of fleira tengt
30% útlána í vanskilum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)