Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2011
Annað hvort voru lög brotin eða ekki
31.1.2011 | 21:07
Ég hlustaði á viðtalið við fyrrverandi formann landskjörstjórnar. Hann var sannfærandi en virtist þó ekki geta gert það upp við sig hvort hann ætti að vera málefnalegur eða láta pólitíska sannfæringu sína ráða. Því miður var hann helst til pólitískur.
Hann svaraði einfaldlega ekki þeirri spurningu sem Hæstiréttur virtist vera með á hreinu og hún er sú hvort landskjörstjórn eða ráðuneytið hafi rétt til þess að fara á svig við lög um opinberar kosningar. Frá mínum sjónarhóli séð þá hefur Alþingi eitt þann rétt að setja lög eða breyta og ég er örugglega ekki einn um þá skoðun, raunar sýnist mér það vera niðurstaða Hæstaréttar enda segir hann þetta í úrskurði sínum:
Það fellur í hlut löggjafans að setja skýrar og ótvíræðar reglur um framkvæmd opinberra kosninga þar sem tekið er réttmætt tillit til aðstæðna sem leiða af sérstöku eðli þeirra. Það var á hinn bóginn ekki á færi stjórnvalda að víkja frá skýrum fyrirmælum laga um framkvæmd þeirra vegna fjölda frambjóðenda eða nýs verklags sem hentugt þótti vegna rafrænnar talningar atkvæða.
Mér varð það á að stopp ekki við gatnamót heldur tók vinstri beygju á rauðu ljósi. Ég slapp með skrekkinn enda enginn umferð. Samkvæmt skýringum manna eins og fyrrverandi formanns landskjörstjórnar þá hefði lögreglan ekkert átt með að stöðva mig vegna þess að enginn varð fyrir skaða við aksturslag mitt. Lögreglan tekur hins vegar ekkert mark á svona útskýringum. Lög og reglur ber að virða, - alltaf.
Lái mér hver sem vill en ég er þeirrar einföldu skoðunar að lög beri ávallt að virða. Þess vegna finnst mér holur hljómur í röksemdum þeirra sem gagnrýna niðurstöðu Hæstaréttar og halda því fram að lögbrot fyrrverandi landskjörstjórnar og ráðuneytisins hafi verið léttvæg og skipti ekki máli.
Segir Hæstarétt hafa farið út fyrir sitt svið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vanskilaskrárnar eru meira íþyngjandi
31.1.2011 | 13:29
Persónulegar upplýsingar t.d. um fjármál einstaklinga eru jafnan misnotaðar. Allir geta komist í þær og nýtt sér þær eins og um sé að ræða karaktereinkunn. Atvinnurekendur fletta gjarnan upp í þessum skrám þegar verið er að skoða ráðningar á nýjum starfsmanni. Það sem menn átta sig hins vegar ekki er fyrir mjög fjölbreytilegar ástæður á vanskilaskrám, allt frá skuldum fólks sem telja má til glæplalýðs niður í smáfjárhæðir sem engum er greiði gerður með að halda reiður á. Einnig er um að ræða ábyrgðir af ýmsu tagi.
Creditinfo Lánstraust hf. er ábyggilega ekki eins slæmt fyrirtæki eins og bankarnir, ríkisbankarnir, gömlu bankarnir sem hrundu eða þeir sem nú starfa. Þrátt fyrir gott starfsfólk eru þar starfandi vondu kallarnir í þjóðfélaginu sem mismuna fólki jafnvel því sem er á þeirra eigin vanskilaskrá. Bankarnir gleyma aldrei neinu, þeir eru eins og fíllinn, muna allt og hefna sín.
Og nú hefur Persónuvernd tekið upp hanskann fyrir fólk í greiðsluaðlögun. Talið eftir þessari tilvitninu í frétt mbl.is:
Það að upplýsingarnar yrðu sérgreindar ásamt upplýsingum um gerða kaupmála og fjárræðissviptingar myndi ekki breyta hinu íþyngjandi eðli skráningarinnar. Af framangreindu verður ráðið að með lagasetningu um greiðsluaðlögun sé m.a. verið að bregðast við greiðsluvanda einstaklinga sem er til kominn vegna atvika sem þeir gátu ekki ráðið við.
Ég hef áður skrifað um þessar vanskilaskrár og held því fram að þær séu stórhættulegar enda mismuna þær fólki á þann hátt að það sem engu skiptir er skyndilega orðið aðalatriði. Um afleiðingarnar er minna fjallað.
- Með gjaldþroti fer viðkomandi á vanskilaskrá sem í raun hefur miklu alvarlegri afleiðingar fyrir fólk en sjálft gjaldþrotið. Svo lengi sem það er á slíkri skrá er lífið afar erfitt og nær ómögulegt að taka lán og byrja upp á nýtt þó borðið eigi að heita nýtt. Allt verður að vera staðgreitt og jafnvel kreditkort fæst ekki útgefið þeim sem í gjaldþroti hafa lent.
- Fílsminni bankanna er stórkostlegt vandamál. Þeir hafa komið sér upp afar þróuðum hugbúnaði og í þeim er að finna þeirra eigin vanskilaskrá. Hafi banki, hvaða nafni sem hann nefnist, hversu oft hann hefur orðið gjaldþrota, hvort sem tilvera hans hófst fyrir eða eftir hrun, á þessari eða síðusu öld, þá man hann allt. Bankarnir samþykkja aldrei aftur þann sem eitt sinn hefur farið í gjaldþrot. Viðkomandi er sí og æ snýtt upp úr þessari lífsreynslu sem fólki verður um alla framtíð meinað að gleyma.
Þetta virðist Persónuvernd skilja en hún fær engu ráðið um hefðbundnar vanskilaskrár sem eru eyðileggjandi en ekki uppbyggjandi vegna notkunar þeirra og hversu opnar þær eru hverjum sem vill. meira að segja sakaskrá er betri en vanskilaskrá vegna þess að sú fyrrnefnda spyr hver er tilgangurinn með sakavottorði. Vanskilaskráin er hins vegar opin bók.
Fær ekki að safna upplýsingum um greiðsluaðlögun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Skriftanna botnlausu pyttir
31.1.2011 | 09:54
Ég hef í mörg ár stundað skriftir, þó fyrst og fremst til heimabrúks en stundum fyrir aðra. Tel mig hafa náð nokkrum þroska frá því sá góði íslenskumaður Ólafur Oddsson reyndi með lagni að kenna mér ritsmíðar í MR forðum daga. Enn er langt í land og því víðsfjarri að hægt sé að sætta sig við árangurinn. Auðvitað er sjálfsgagnrýni er nauðsynlegt en hún getur þó verið miskunnarlaus og botnlaust sjálfskaparvíti og ofan í það féll ég snemma.
Eitt að því sem á síðari árum hefur angrað mig er ofnotkun á persónufornafninu það. Einhvern veginn finnst mér aldeilis ómögulegt að byrja setningu á þessu orði. Dæmi: Það er mjög algengt að menn aki bílum ... eða Við töluðum við um að það mætti auka....
Auðvitað er ekki rangt að beita fornafninu á þennan hátt en mér finnst það kauðskt sérstaklega vegna þess hversu auðvelt er að breyta orðalaginu. Yfirleitt verður þá setningin og raunar málsgreinin öll miklu betri. Stundum tekst mér þetta. Verra er að pirrast yfir blaða- og fréttamönnum sem falla í þennan pytt og svo vart er lesandi pistill eða hlustandi á ræðu fyrir þessu.
Svo eru það ábendingarfornöfnin. Af hverju í ósköpunum þarf maður að bæta inn í mál sitt tafsorðum?Dæmi: Um tíu ára reynsla fyrir framleiðslu á þessum vörum .... Þetta er svo sem ekki rangt en oft eru ábendingarfornöfnunum ofaukið og það sést á samhengi málsins. Hugsunin skerðist á engan hátt þótt maður spari við sig ábendingarfornöfnin.
Ég held að vandamálið sé framar öðrum leti, að nenna ekki að hugsa textann fyrirfram eða laga hann. Fyrir vikið verður ritverkið leiðinlegt og flatt. Vonandi átta lesendur mínir á því að ég er ekki að amast við eðlilegri notkun ákveðinna orða heldur fyrst og fremst ofnotkun og misnotkun og þá sérstaklega minni eigin.
Svo má hér bæta við að Halldór Laxnes sagði einhvern tímann að aðalatriðið væri að skrifa og láta sér bara í léttu rúmi liggja stafsetning og málfar. Allt væri hægt að laga síðar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Við, nokkrir veiðimenn, viljum fund með Ögmundi
30.1.2011 | 16:14
Það skyldi þó ekki vera að kominn sé vísir að nýjum þrýstihópi í þjóðfélaginu. Grínlaust sagt er ugglaust ástæða til þess fyrir kjörna fulltrúa á stjórnlagaþing að kanna stöðu sína og forvitnast um viðbrögð stjórnvalda vegna ógildingar kosninganna.
Lítið mun þó fást uppúr innanríkisráðherra. Hann hefur lýst því yfir að honum komið málið eiginlega ekki við. Þá ályktun má draga af því að hann telur sig hvorki eiga að biðja þjóðina afsökunar né að segja af sér vegna málsins. Þess vegna gætu hinir kjörnu fulltrúa allt eins rætt við öryggisverði á Alþingi eða mig ...
Hins vegar væri gaman að vita hvort Ögmundur verði spurður að því hvort hann sjái einhverja möguleika á því að tuttugu og fimmmenningarnir fái að koma saman á kostnað ríkissjóðs og setja þjóðinni stjórnarskrá?Ekki síður verður forvitnilegt að frétta af svari ráðherrans.
Annars erum við hérna nokkrir félagar sem höfum stundað rjúpnaveiðar í mörg ár (án viðunandi árangurs) en við viljum endilega hitta innanríkisráðherra sem fyrst og ræða niðurstöðu Hæstaréttar um ógildingu kosninganna til stjórnlagaþings. Tekið skal fram að við lítum, ... sko eiginlega ... ekkert obboðslega á okkur sem þrýstihóp en erum tilbúnir til að ræða við ráðherrann. Hann má tiltaka stað og tíma hérna í athugasemdakerfinu.
Fundað um stjórnlagaþingið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Óvönduð skrif eru smitandi sjúkdómur
30.1.2011 | 11:08
Jónas Kristjánsson er einn þeirra höfunda á netinu sem ég les oft. Ég er ekki alltaf sammála honum enda les ég hann eins og marga aðra til að afla mér upplýsinga, vita svona hvernig landið liggur.
Ég ber engu að síður mikla virðingu fyrir Jónasi enda er hann góður skríbent. Held að margir mættu til dæmi lesa og læra einfaldar reglur um stil sem hann birtir á vefsíðu sinni. Og hann skrifar stutt sem að sumu leyti er kostur en getur valdið ónákvæmni og misskilningi.
Stór hluti þeirra sem skrifa að staðaldri í blöð og vefsíður láta fara frá sér slæma pistla, hugsa ekki hugsun sína til enda, skrifa einfaldlega það sem þeim dettur í hug, strika ekkert út, láta allt vaða og lesa aldrei yfir. Ónefnd er hér nástaða orða sem alla frásögn ætlar lifandi að drepa í bloggi, útvarpi, sjónvarpi og prentuðum texta. Og allt þetta verður til þess að fleiri og fleiri halda að það sé bara allt í lagi að vanda sig ekki, þetta er eins og smitandi sjúkdómur sem breiðist út um landið og miðin.
Reglur Jónasar eru þessar:
- Skrifaðu eins og fólk, ekki eins og fræðimenn.
- Settu sem víðast punkt og stóran staf.
- Strikaðu út óþörf orð, helmingaðu textann.
- Forðastu klisjur, þær voru sniðugar bara einu sinni.
- Keyrðu á sértæku sagnorði og notaðu sértækt frumlag.
- Notaðu stuttan, skýran og spennandi texta.
- Sparaðu lýsingarorð, atviksorð, þolmynd og viðtengingarhátt.
- Hafðu innganginn skýran og sértækan.
Daglega birtast greinar í dagblöðum sem eru allt of langar, jafnvel minningargreinarnar í Mogganum reynast oft innihaldsrýrar en þeim mun meira af mærðarfullu lofti. Jafnvel vel hugsaðar greinar líða fyrir framsetninguna.
Og fyrirsagnirnar, maður lifandi. Hvers vegna vanda pistlahöfundar ekki meira til þeirra atriða sem mestu skipta? Fyrirsagnirnar laða fólk að, þær eiga að vera lýsandi fyrir efni greinarinnar og um leið grípandi.
Stjórnmálamenn eiga í miklu basli með þetta. Jóhanna er óskýr, Steingrímur skrifar og langt, var betri í stjórnarandstöðu, Ögmundur er óskaplegur langhundur og óskemmtilegur, Einar Kr. skrifar of langar setningar og er afar lengi að koma sér að efninu, Ómar Ragnarsson skrifar alltof langt og mikið en er hefur þó léttan stíl, mætti þó salta marga pistla og endurskoða, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er nokkuð glúrinn skríbent en vantar þjálfun, Sigurður Kári Kristjánsson er hefur einfaldan stíl og árangursríkan en skrifar alltof, alltof langt og fleiri mætti nefna.
Yfirleitt þjáist blogg og greinaskrif af ómálefnalegri nálgun þar sem kappið hleypur með menn í göngur og talsmátinn verður eins og hjá unglingum eða á kaffistofum þar sem allt má flakka í hita leiksins. Þannig ætti enginn að skrifa.
Skrif kosta tíma og fyrirhöfn en verða að nokkru leyti auðveldari með tímanum.
Úbbs. Þetta er orðið langt blogg með mörgum innsláttar- og stafsetningarvillum og ekkert sagt um upplýsingaöflun. Mál að hætta, en ég hef þó lesið pistilinn yfir og lagað.
Lilja biðji þjóð sína afsökunar á Alþingi
29.1.2011 | 22:00
Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri grænna, hefur beðist afsökunar á Fésbókarsíðu sinni á þeim mistökum sem gerð voru við samþykkt frumvarps um stjórnlagaþing. Það er gott og blessað, hefði ekki uppgötvað þetta hvísl nema af því að frétt um það birtist á mbl.is. En áttum við okkur ekki á því að þetta er rangur vettvangur og miður að Lilja skuli ekki átta sig á því?
Lilja á að standa upp á Alþingi og biðja þjóð sína afsökunar, þar er staðurinn og enginn annar. Síðan getur hún fjallað um málið á öðrum þeim stöðum sem henni hentar. Alþingi er löggjafarsamkundan, þar gerði stjórnarmeirihluti Vinstri grænna og Samfylkingarinnar mistök sín, þar upphófst klúðrið, og þar ber þessu fólki að biðjast afsökunar en ekki á amerískri vefsíðu. Þarna er afsökunarbeiðnin skráð í fundargerðarbækur og geymist fyrir framtíðina.
Þetta voru taktísk mistök hjá Lilju og óskandi að hún standi við afsökunarbeiðni sína á Alþingi.
Lilja biðst afsökunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ofbeldisfólk kemur óorði á byltinguna
29.1.2011 | 14:42
Alls staðar þar sem almenningur fer út á götur borga sinna til að mótmæla valdhöfum fylgir lýður sem hefur allt annað markmið. Meðan aðrir mótmæla fer lítill minnihluti fram með ofbeldi og skemmdarverkum. Þannig gerðist það í Túnis og nú er það að gerast í Egyptalandi. Og stjórnvöld opna fangelsins til þess að hafa ástæðu til að halda því fram að almenningur sé ekkert annað en glæpalýður sem þurfi að berja niður með valdi.
Munið búsáhaldabyltinguna hér á landi. Var það hugsjónafólk sem kveikti í jólatré, grýtti lögregluna og skemmdi almannaeignir? Þessi lýður er alls staðar til.
Fornminjum ógnað í óeirðunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Forsætisráðherra kennir öðrum um ófarir sínar
29.1.2011 | 14:37
Hún sem ekki býr yfir þeim styrk eða sannfæringu að völdum fylgi ábyrgð ætti ekki að setja út á fólk sem kvartar undan framgöngu verklausrar ríkisstjórnar.
Jóhanna Sigurðardóttir og ríkisstjórn hennar ber stjórnskipulega ábyrgð á því að þjóðaratkvæðagreiðslan um stjórnlagaþingið klúðraðist og var dæmd ógild. Hvorki flögrar að henni að hún skuldi þjóðinni afsökunarbeiðni eða hún ætti að segja af sér.
Innanríkisráðherra ber einnig ábyrgð á klúðrinu og ekki dettur honum í hug að hann skuldi þjóðinni eitthvað annað en útúrsnúningar.
Þó rannsóknarskýrsla Alþingis um hrunið sé á ýmsan hátt aðfinnsluverð þá tekur hún skýrt á hugtökunum valdi og ábyrgð. Vinstri stjórnin virðist ekki setja þetta tvennt í samhengi og þaðan af síður að ábyrgð fylgi störfum hennar. Hún hreykir sér af árangri eins og að atvinnulausum hafi fækkað þegar ástæðan er einfaldlega sú að þúsundir Íslendinga hafa flúið land, hún hreykir sér af lækkun verðbólgu þegar ástæðan er einfaldlega sú að efnahagur þjóðarinnar eru í spennitreyju fjármálaráðuneytis og
Seðlabanka. Og þegar talið berst að klúðrinu við þjóðaratkvæðagreiðsluna benda forsætisráðherra og innanríkisráðherra á undirmenn sína og kenna þeim um.
Þurfum við að fara út á göturnar aftur og krefjast réttlætis og ábyrgðar.
Eru að leika sér að eldinum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hvers vegna að biðjast afsökunar ...?
28.1.2011 | 16:10
Hvers vegna ætti Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, að biðjast afsökunar á því að þjóðaratkvæðagreiðsla á Íslandi var dæmd ógild. Þetta eru ástæðurnar:
- Margir komu að framkvæmdinni
- Framkvæmdin var flókin
- Frambjóðendur voru margir
- Tíminn var naumur
- Svona kosning er einsdæmi
Nú ætti landslýður að hætta að velta sér upp úr þessum Hæstaréttardómi, hætta að leita að blórabögglum og líta til framtíðar. Þar blasa við fjöldi verkefna: Icesave, efnahagsmál, atvinnuleysi, kjarasamningar, fjárskortur fyrirtækja og svo framvegis.
Þó er ekki laust við að það hvarfli að manni sú lævísa spurning hvort sú ríkisstjórn sem ekki getur látið klakklaust framkvæma einfalda þjóðaratkvæðagreiðslu geti leyst þau verkefni sem nú blasa við. Svari svo hver sem getur.
Biðst ekki afsökunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Svaf hann, mætti eða man hann ekki ...?
28.1.2011 | 15:07
Er hugsanlegt að Jón borgarstjóri hafi sofið á fundi meirihlutans þar sem ákveðið var að einkavæða Orkuveituna eða gleymdi hann að mæta eða man hann ekki eftir fundinum eða ...
Æ, það er svo margt sem kemur upp í hugan þegar Jón borgarstjóri tekur til máls. Oftast fær maður það á tilfinninguna að hann sé ekki alveg að fylgjast með því hvernig hún Regína stjórnar borginni. Það er slæmt því hann gæti eflaust lært eitthvað af henni.
Svo gæti nú alveg gerst að Jón borgarstjóri reki nú stjórnarformann Orkuveitunnar fyrir skoðanir hans, munar lítið um það, til stendur að reka svo marga hvort eð er ...
Orkuveitan ekki einkavædd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |