Óvönduð skrif eru smitandi sjúkdómur

Jónas Kristjánsson er einn þeirra höfunda á netinu sem ég les oft. Ég er ekki alltaf sammála honum enda les ég hann eins og marga aðra til að afla mér upplýsinga, vita svona hvernig landið liggur.

Ég ber engu að síður mikla virðingu fyrir Jónasi enda er hann góður skríbent. Held að margir mættu til dæmi lesa og læra einfaldar reglur um stil sem hann birtir á vefsíðu sinni. Og hann skrifar stutt sem að sumu leyti er kostur en getur valdið ónákvæmni og misskilningi.

Stór hluti þeirra sem skrifa að staðaldri í blöð og vefsíður láta fara frá sér slæma pistla, hugsa ekki hugsun sína til enda, skrifa einfaldlega það sem þeim dettur í hug, strika ekkert út, láta allt vaða og lesa aldrei yfir. Ónefnd er hér nástaða orða sem alla frásögn ætlar lifandi að drepa í bloggi, útvarpi, sjónvarpi og prentuðum texta. Og allt þetta verður til þess að fleiri og fleiri halda að það sé bara allt í lagi að vanda sig ekki, þetta er eins og smitandi sjúkdómur sem breiðist út um landið og miðin.

Reglur Jónasar eru þessar:

 

  1. Skrifaðu eins og fólk, ekki eins og fræðimenn.
  2. Settu sem víðast punkt og stóran staf.
  3. Strikaðu út óþörf orð, helmingaðu textann.
  4. Forðastu klisjur, þær voru sniðugar bara einu sinni.
  5. Keyrðu á sértæku sagnorði og notaðu sértækt frumlag.
  6. Notaðu stuttan, skýran og spennandi texta.
  7. Sparaðu lýsingarorð, atviksorð, þolmynd og viðtengingarhátt.
  8. Hafðu innganginn skýran og sértækan. 

 

Daglega birtast greinar í dagblöðum sem eru allt of langar, jafnvel minningargreinarnar í Mogganum reynast oft innihaldsrýrar en þeim mun meira af mærðarfullu lofti. Jafnvel vel hugsaðar greinar líða fyrir framsetninguna.

Og fyrirsagnirnar, maður lifandi. Hvers vegna vanda pistlahöfundar ekki meira til þeirra atriða sem mestu skipta? Fyrirsagnirnar laða fólk að, þær eiga að vera lýsandi fyrir efni greinarinnar og um leið grípandi. 

Stjórnmálamenn eiga í miklu basli með þetta. Jóhanna er óskýr, Steingrímur skrifar og langt, var betri í stjórnarandstöðu, Ögmundur er óskaplegur langhundur og óskemmtilegur, Einar Kr. skrifar of langar setningar og er afar lengi að koma sér að efninu, Ómar Ragnarsson skrifar alltof langt og mikið en er hefur þó léttan stíl, mætti þó salta marga pistla og endurskoða, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er nokkuð glúrinn skríbent en vantar þjálfun, Sigurður Kári Kristjánsson er hefur einfaldan stíl og árangursríkan en skrifar alltof, alltof langt og fleiri mætti nefna.

Yfirleitt þjáist blogg og greinaskrif af ómálefnalegri nálgun þar sem kappið hleypur með menn í göngur og talsmátinn verður eins og hjá unglingum eða á kaffistofum þar sem allt má flakka í hita leiksins. Þannig ætti enginn að skrifa.

Skrif kosta tíma og fyrirhöfn en verða að nokkru leyti auðveldari með tímanum. 

Úbbs. Þetta er orðið langt blogg með mörgum innsláttar- og stafsetningarvillum og ekkert sagt um upplýsingaöflun. Mál að hætta, en ég hef þó lesið pistilinn yfir og lagað. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband