Skriftanna botnlausu pyttir

Ég hef í mörg ár stundað skriftir, þó fyrst og fremst til heimabrúks en stundum fyrir aðra. Tel mig hafa náð nokkrum þroska frá því sá góði íslenskumaður Ólafur Oddsson reyndi með lagni að kenna mér ritsmíðar í MR forðum daga. Enn er langt í land og því víðsfjarri að hægt sé að sætta sig við árangurinn. Auðvitað er sjálfsgagnrýni er nauðsynlegt en hún getur þó verið miskunnarlaus og botnlaust sjálfskaparvíti og ofan í það féll ég snemma.

Eitt að því sem á síðari árum hefur angrað mig er ofnotkun á persónufornafninu „það“. Einhvern veginn finnst mér aldeilis ómögulegt að byrja setningu á þessu orði. Dæmi: „Það er mjög algengt að menn aki bílum ...“ eða „Við töluðum við um að það mætti auka...“.

Auðvitað er ekki rangt að beita fornafninu á þennan hátt en mér finnst það kauðskt sérstaklega vegna þess hversu auðvelt er að breyta orðalaginu. Yfirleitt verður þá setningin og raunar málsgreinin öll miklu betri. Stundum tekst mér þetta. Verra er að pirrast yfir blaða- og fréttamönnum sem falla í þennan pytt og svo vart er lesandi pistill eða hlustandi á ræðu fyrir þessu. 

Svo eru það ábendingarfornöfnin. Af hverju í ósköpunum þarf maður að bæta inn í mál sitt tafsorðum?Dæmi: „ Um tíu ára reynsla fyrir framleiðslu á þessum vörum ...“. Þetta er svo sem ekki rangt en oft eru ábendingarfornöfnunum ofaukið og það sést á samhengi málsins. Hugsunin skerðist á engan hátt þótt maður spari við sig ábendingarfornöfnin.

Ég held að vandamálið sé framar öðrum leti, að nenna ekki að hugsa textann fyrirfram eða laga hann. Fyrir vikið verður ritverkið leiðinlegt og flatt. Vonandi átta lesendur mínir á því að ég er ekki að amast við eðlilegri notkun ákveðinna orða heldur fyrst og fremst ofnotkun og misnotkun og þá sérstaklega minni eigin.

Svo má hér bæta við að Halldór Laxnes sagði einhvern tímann að aðalatriðið væri að skrifa og láta sér bara í léttu rúmi liggja stafsetning og málfar. Allt væri hægt að laga síðar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband