Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010
Lónið í upphafi goss og núna
30.4.2010 | 20:34
Til vinstri er mynd af lónstæðinu gamla eins og það er í dag, 30. apríl. Inni í sprungunni má sjá mikla gufubólstra.
Gufan myndast vegna þess að hraunið er komið langt niður brattan undir Gígjökli. Bæði er að hraunið bræðir jökulinn þarna neðarlega og vatnið er því sjóðheitt þegar það kemur fram við sprunguopið.
Fram hefur komið hjá jarðvísindamönnum að hraunbrot séu tekin að falla niður með bráðvatninu. Haldi gosið áfram mun þeim smám saman fjölga og loks mun hraunið skriða niður gamla lónstæðið. Þetta eins og þegar jökull fellur fram af bjargbrún, safnst saman fyrir neðan og heldur áfram að skríða. Þetta má til dæmis sjá í Morsárdal í Skaftafelli, innst inni í Kálfafellsdal í Suðursveit og víðar.
Til samanburðar er svo mynd frá því 16. apríl, þá hafði gosið staðið í tvo daga. Ég valdi þessa mynd frá Vodafone vegna þess að hún er tekin síðla dags og er nokkuð björt. Samt þurfti ég að lýsa hana upp til að ummerki innst inni í skugganum kæmu í ljós.
Myndin var tekin eftir að stóru flóðin tvö höfðu komið undan jöklinum.
Samanburðurinn er alveg ljós. Bráðvatn, leir, aska og möl og ís kemur að mestu leyti út úr sprungunni innst inni.
Breytingin er sú að frá 16. apríl hefur stöðugt bæst við ofan í lónstæðið og alltaf sest meira og meira efni fyrir. Nú er brekkan orðin miklu brattari en frá því í upphafi og hún á eftir að aukast svo lengi sem gýs.
Fremst, við skarðið, voru átta metrar niður á gamla lónstæðið þegar mælingamenn áttu síðast erindi þangað inneftir. Eflaust er dýptin núna orðin meiri.
Virkni aðeins brot af því sem áður var | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kjósendur fíflast ekki á kjördegi
30.4.2010 | 18:57
Enginn þorir að segja sannleikann um Besta flokkinn. Allir eru dauðhræddir um að verða kallaðir húmorslausir og leiðinlegir. Hins vegar hugsa flestir á þá leið að þetta sé nú meiri bölvuð vitleysan.
Besti flokkurinn er ekkert annað en grín manna sem hafa engan áhuga á stjórnun, fjármálum, stefnumörkun eða öðru því sem tilheyrir. Ekki þar fyrir að margir þeir sem bjóða fram í öðrum flokkum eru ekki mikið skárri að þessu leyti. Hins vegar myndi nú heyrast hljóð úr horni ef slíkir myndu segjast vera í stjórnmálum til að græða, koma ættingjum og vinum að í borgarkerfinu eða banna íbúum nágrannasveitarfélaga að nýta sér þjónustu borgarinnar.
Auðvitað er Besti flokkurinn hvorki alvöru flokkur né er hann að hæðast að þeim stjórnmálaflokkum sem fyrir eru. Hann er bara uppstand manns sem er þekktur sem leikari og útvarpsmaður.
Flestar líkur benda til þess að kjósendur séu ekki fífl. Þar af leiðandi er ekki ólíklegt að úr fylgi Besta flokksins dragi eftir því sem nær dregur kosningum.
Hvað skyldi gerast nái Besti flokkurinn að verða stærsti flokkurinn á kjördegi. Vá ... það væri svipað eins og Ólafur Magnússon myndi rísa upp frá ... þeim stað sem hann er núna ... og gerast borgarstjóri. Ekki veit ég hvort ég myndi hlægja eða gráta ef það gerðist.
Besti flokkurinn fengi fjóra kjörna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Nokkur verkefni fyrir Morgunblaðið
30.4.2010 | 10:40
Þar sem ekkert stórkostlegt fjör er í gosinu í Eyjafjallajökli væri ráð fyrir Morgunblaðið að kanna dálítið aðstæður. Nefni eftirfarandi til dæmis:
- Þórsmerkurvegur er í sundur frá Langanesi og að Gígjökli. Hversu umfangsmiklar eru skemmdirnar? Hvað er eftir af varnargörðum sem reistir voru á síðustu árum?
- Hvernig er hægt að endubyggja veginn, þ.e.a.s. hætti gosið? Eða er nokkur ástæða til að endurbyggja hann? Hvernig eru aðstæður fyrir framan jökulgarða Gígjökuls, er fært þar fyrir bíla hætti gosið eða er nýji jarðvegurinn erfiður, t.d. í vætutíð?
- Þarf brú yfir affallið úr Gígjökli?
- Haldi gosið áfram í þeim dúr sem það er núna er ástæða til að gera veg yfir Markarfljótsaura og kannski brú (bílabrú eða göngubrú) yfir Markarfljót svo hægt sé að komast í Húsadal, Langadal og Bása?
- Hvernig er staðan á Fimmvörðuhálsi? Er hægt að leggja gönguleið yfir nýja hraunið á þeim stað þar sem hún var?
- Er ástæða til að friða eldgígana og hraunin á Fimmvörðuhálsi og koma þannig í veg fyrir að þeir verði fyrir átroðningi?
- Í hvernig ástandi er gönguleiðin milli Bása og hraunsins á Fimmvörðuhálsi eftir umferðina vegna gossins? Umhverfisstofnun hyggst laga þá, en hvernig ætlar hún að gera það og hversu varanleg er sú viðgerð?
50 tonn af hrauni á sekúndu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sigur fyrir landsbyggðina
29.4.2010 | 21:30
Til hamingju Hólmarar. Þetta er í fyrsta sinn sem Íslandsmeistaratitillinn í körfuknattleik lendir utan suðvesturhluta landsins. Því ber að fagna og rétt eins og leikmaður Snæfells sagði í viðtali á Stöð2 Sport: Þetta er sigur landsbyggðarinnar.
Með dugnaði og þolinmæði hefur lið Snæfells styrkst með hverju árinu sem líður. Nú vinna þeir tvöfalt. Það er stórkostlegur árangur og fyllilega verðskuldaður.
Þegar íþróttalið í bæjarfélag með 1100 íbúa verður Íslandsmeistari þá telst það til tíðinda og hvatning til íþróttaliða og sveitarfélaga út um allt land. Ekkert er ómögulegt lengur í íþróttum.
Titillinn í Stykkishólm | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Haldbetri upplýsingar um gosið vantar
29.4.2010 | 21:23
Fróðlegt væri nú að fá frekari fréttir af gosinu. Einna mikilvægast er að fá að vita hversu langt hraunið hefur runnið niður úr toppgígnum.
Hafi Björn Oddsson, jarðfræðingur, farið í könnunarflug yfir gosstöðvarnar í dag, þá á hann í fórum sínum radarmyndir af fjallinu þar sem líklega hefur ekki viðrað til hefðbundinnar myndatöku. Blaðamaður Moggans hlýtur að geta fengið afnot af þessum myndum og birt eins og eina, ef hann biður fallega.
Moggin þarf að venja sig á að birta ekki bara frétt heldur frétt með haldgóðum upplýsingum. Dálítið hefur vantað upp á það í gosinu í Eyjafjallajökli.
Sami gangur í gosinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Röng lýsing stjórnmálafræðingsins
29.4.2010 | 18:47
Þetta er tómur misskilningur hjá stjórnmálafræðingnum að íslensk umræðuhefð sé stóryrt með aulabröndurum frekar en skoðanaskiptum. Slíkt gerist í öllum löndum og þykir ekki tiltökumál þó ræður séu kryddaðar á þann veg. Í heildina má segja að hefðin sé frekar með rökum þó um það megi kannski deila hvort einstaka stjórnmálamenn kveði heldur fast að orði.
Stóri gallinn á umræðunum og þá sérstaklega hjá ráðherrum, ýmsum stjórnmálamönnum og embættismönnum er hversu ómarkvissir þeir eru í röksemdum sínum. Menn forðast eins og þeir lifandi geta að taka klára afstöðu, tala hreint út. Þeir eru hræddir við að snúið verði út úr máli þeirra, hræddir um að hafa rangt fyrir sér, hræddir um að þeir séu ekki nógu rökfastir og sumir eru það ekki. Þess vegna verður umræðuhefðin eins og tipl kattarins í kringum heita grautinn.
Sé skortur á virðingu fyrir sérfræðingum þá er það fyrst og fremst vegna þess að þeir eru margir hverjir rétt eins og hér var lýst að framan, tala ekki hreint út.
Íslensk umræðuhefð líkist Morfís-keppni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Óróamælingar á fjármálaráðherranum
29.4.2010 | 14:00
Guðbjartu Hannesson, forseti Alþingis, segir réttilega að það hafi tíðkast að ráðherrar gefi út yfirlýsingar um fjárútlát ríkisins án samráðs við Alþingi.
Svona eru menn nú fljóti að gleyma. Var þetta ekki nákvæmlega eitt af því sem núverandi stjórnarherrar og konur gagnrýndu fyrri ríkisstjórnir fyrir? Ó, jú.
Nú standa mál þannig að fjármálaráðherra sem áður var einn af þeim kjaftforustu á þingi passar manna best upp á kerfið. Forsætisráðherrann sem áður þandi sig og barðist um af hæl og hnakka fyrir þá sem minna mega sín segir minnst um annað en Sjálfstæðisflokkinn. Viðskiptaráðherrann semvar framarlega í búsáhaldabyltingunni miðlar lítt upplýsingum, veit ekkert hverjir eiga bankanna og passar ofurvel upp á kerfið.
Tímarnir hafa breyst. Nú halda þeir sér saman sem áður stóðu á götuhornum, nú verja gagnrýnendur kerfisins sjálft kerfið af öllum mætti og síðast en ekki síst hunsa þeir Alþingi og breyta fjárlögunum í hvert sinn sem þeir halda ræðu. Einu sinni var forsætisráðherra hér á landi sem var heldur málglaður og mátti sjá að gengi íslensku krónunnar lækkaði við hverja ræðu sem hann flutti.
Fjárlögin eru að verða eins og óróamælingarnar í Eyjafjallajökli. Í hvert sinn sem fjármálaráðherra opnar munnin verða breytingar á fjárlögum - til útgjaldamegin.
Ráðherrar útdeili ekki peningum í sjónvarpsviðtölum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lítið að marka leikrit frambjóðenda
28.4.2010 | 14:08
Fjöldi dæma eru til um svona axarsköft stjórnmálamanna í kosningabaráttu. Man eftir því að Gorge W. Bush kallaði einhvern fréttamann asshole sem er ívið sterkara en að kall mann asna. Bush tapaði nú ekki miklu á þessu en talverð læti urðu út af munnsöfnuði forsetaframbjóðandans.
Draga má þá ályktun að Brown og Bush séu beinlínis hrokafullir náungar og svokallaðar heimsóknir til almennings eru ekkert annað er leikrit sem geta floppað vegna þess að annar aðilinn fer eftir handriti en hinn ekki. Þess vegna er Brown fúll út í þá sem skipulögðu leikritið. Afsökunarbeiðnin er hins vegar tilraun til að klóra í bakkann.
Axarskaft Browns rétt fyrir kjördag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ríkið innheimtir félagsgjöld fyrir Vinstri græna
27.4.2010 | 21:41
Ríkisvaldið innheimtir félagsgjöld af almenningi fyrir pólitísk hagsmunasamtök sem nefnast Vinstri hreyfingin grænt framboð. Með öðrum orðum ríkið kreistir peninga út úr almenningi og gefur pólitískum félögum til að leika sér með.
Rétt er að ríkið á ekki að innheimta gjöld fyrir aðila út í bæ. Skiptir þá engu hvort sá aðili heitir Samtök iðnaðarins, Ríkisútvarpið eða Vinstri hreyfingin grænt framboð. Að þessu leyti er ég alveg sammála Ungum vinstri grænum.
Ríkisvaldið ver skattpeningum sínum miklu ver en almenningur sjálfsaflafé sínu. Því meiri hluta sem fólk heldur af tekjum sínum því betra.
Hvað svo sem segja má um Samtök iðnaðarins þá er iðnaðarmálagjaldið ekki félagsgjald heldur skattur á ákveðinn rekstur. Raunar nauðungarskattur og óréttlátur í sjálfu sér þar sem innheimtur skattur endar hjá Samtökum iðnaðarins.
Ef það er skoðun Ungra vinstri grænna að ríkið eigi ekki að innheimta félagsgjöld fyrir pólitísk hagsmunasamtök þá er ég alveg sammála þeim. Best væri að stjórnmálaflokkarnir öfluðu sér styrkja hjá almenningi og ... kannski bönkunum sem nýbúið er að endurreisa og einkavæða ...
Segja SI pólitísk hagsmunasamtök | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Nú fellur hraun niður með Gígjökli
27.4.2010 | 14:11
Þessa ályktun má draga af gufumekki sem leggur upp úr Gígjökli, skammt fyrir neðan Skoltana, hef merkt hann með rauðum hring.
Meðfylgjandi mynd kemur af vefmyndavél Mílu um klukkan 13:30. Hún er frekar dökk vegna þess að sólin er því sem næst í suðri og dimmur jökullinn verður enn dimmari þegar myndavélin horfir á hann móti sól.
Á meðfylgjandi korti má betur gera sér grein fyrir stöðu hraunrennslisins.
Eflaust berast innan skamms fréttir frá jarðfræðingum sem flugu í morgun yfir gosstöðvarnar. Gera má ráð fyrir að þeir hafi rekið augun í gufuna af hrauninu og geti staðsett það nákvæmar en við leikmenn.
Og í þann mund sem ég var að birta þessa færslu þá sá ég fréttina á mbl.is. Hvergi í henni er þó nefnt hvert hraunið er komið. Kannski þeir hafi ekki tekið eftir gufumekkinum.
Hraun komið um 1 km frá gígnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)