Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010

Stórkostleg náttúrfegurð beggja vegna Hálsins

Ekki er víst að allir geri sér grein fyrir staðháttum á Fimmvörðuhálsi. Í stuttu máli má lýsa honum á þessa leið.

Um fimmtán kílómetra loftlína er frá Skógum og upp á Hálsinn en hann er í um 1000 m hæð. Landslagið sunnan megin er þannig að hækkunin er frekar jöfn alla leiðina. Skógaheiði er stór og um hana rennur Skógá sem á upptök sín meðal annars á Hálsinum. Á honum hefur þegar vorar myndast lítið vatn og rennur úr því um gilið austan við hrygginn sem Fimmvörðuskáli stendur á og svo um lítið en hrikalegt skarð sem er í honum austanverðum.

Norðan við Fimmvörðuháls er er landið með öðrum brag. Það er miklu brattar og til dæmis eru líklega aðeins um fimm kílómetra loftlína frá Krossáraurum og  upp á Hálsinn. Eina gönguleiðin liggur af Bröttufannarfelli, um Heljarkamb og eftir Morinsheiði og þaðan um Foldir og kattahryggi niður á Krossáraura.

Sitt hvoru megin við Heljarkamb eru mikil björg. Austan við hann heita Hrunar og þar fellur Hrunaá um og um síðir í Krossá. Vestan við Kambinn er Hvannárgil, langt og frekar mjótt en um það liggur skemmtileg og falleg gönguleið. Minni gil ganga úr Hvannárgili og inn að hömrunum neðan við Eyjafjallajökul.

Annað gil, nokkru vestaan við Hvannárgil, er í svokölluðu Stakkholti og nefntist Stakkholtsgjá. Margir þekkja það enda rómað fyrir náttúrufegurð. Innst í því er foss sem stundum hefur verið nefnd Tröllasturtan. Enn vestar er svo Steinsholtsjökul og örskammt þar frá er Gígjökull eða Falljökull. Hann er skriðjökull sem fellur úr risastórum gíg sem er í toppi  Eyjafjallajökuls.

Það svæði sem margir kalla Þórsmörk er mjög stórt. Sjálf Þórsmörkin er norðan Krossár en sunnan hennar eru svæði sem bera mörg heiti. Stærst er Goðaland, svo má nefna Stakkholt, Hruna og Tungur.

Fimmvörðuháls er mikill og stór. Þær fimm vörður sem hann er kenndur við kunna að vera vestast á þeim hrygg sem Fimmvörðuskáli stendur á. Fjöldi gíga er á hálsinum. Sá stærsti þeirra hefur stundum verið nefndur Bölmóður og rís sá í rúmlega 1100 m hæð.  Annar, lítill og yfirlætislaus, er á miðjum Hálsinum. Að öllum líkindum er gígaröðin sem eldgosið kemur úr á miðjum Hálsinum og gengur hugsanlega frá gönguleiðinni og upp í Eyjafjallajökul. Raunar segja jarðvísindamenn að mögulegt sé að sprungan stækki og rifni allt upp í toppgíginn.


mbl.is Rýmingu lokið á forgangssvæðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gos á miðjum Fimmvörðuhálsi

Samkvæmt fréttum frá Óla Þór Hilmarssyni og Reyni Sigurðssyni fjallamönnum í Útivist sem eru á ferð um Suðurland er mjög líklegt að gosið sé á Fimmvörðuhálsi vestanverðum. Þar hefur ótal sinnum gosið á síðustu árþúsundum ef marka má fjölda gíga sem eru á Hálsinum.

Árið 1990 endurbyggði Útivist skála sem Fjallamenn byggðu árið 1940. Nú hefur endurbyggður Fimmvörðuskáli fengið að standa í 20 ár, ferðamönnum til miikillar ánægju. Að öllum líkindum er hann farinn og þar með fjölin sem Guðmundur Einarsson í Miðdal lét skera út. Á henni stendur Lífið er stutt, listin er ung.

Viðmælandi Rúv í Fljótshlíðinni lét svo um mælt fyrir nokkrum mínutum að gosbjarmann bæri í Rjúpnafell. Það þýðir einfaldlega að gosið er á miðjum Hálsinum. Öruggt má telja að þetta sé gos í einum gíg og úr honum komi hraun sem fellur að öllum líkindum niður í Hvannárgil. Má þá telja að Básar séu ekki í hættu en Hvannárgil er langt en mynni þess horfir í Langadal þar sem skáli Ferðafélagsins er. Fylgi hraunrennsli þessu gosi má ætla að langur tími líði þar til hraunið nái út úr gilinu nema það sé þeim mun þunnfljótandi.

Velti fyrir mér hvort myndin sem fylgir fréttinni sé af gosstólpanum eða hrauni sem rennur.


mbl.is Eldgosið færist í aukana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjöldi fornra gíga er á Fimmvörðuhálsi

Á Fimmvörðuhálsi eru nokkrir fornir eldgígar. Meðal annars liggur gönguleiðin yfir Hálsinn framhjá einum lágum gíg og annar hærri er nokkru hærri.

Allt landslag á Hálsinum ber merki um eldgos, þarna er mikið um gjall og gjósku sem komið hefur upp eftir því sem snjóalög hafa minnkað. Þau eru nú miklu minni en fyrir 20 árum þegar Fimmvörðuskáli var endurbyggður.

Forðum var jökull á Fimmvörðuhálsi og hann var nefndur Lágjökull og mun Sveinn Pálsson m.a. hafa rætt um hann með því nafni.

Sé þetta rétt að gosið sé ekki í jökli þá er lítil hætta á vatnsflóði. Á móti kemur þá hraun og mikið öskufall. Fimmvörðuskáli stendur á háum hrygg og fyrir norðan hann er mikil slétta sem var áur full af ís en er nú svo til tóm. Handan sléttunnar er hryggir og þar norðan við hallar niður í Hvannárgil og nokkru austar í Hruna.

Svo er ekki úr vegi að beina því til fréttamanna að þeir fari rétt með staðarnöfn. Norðan undir Fimmvörðuhálsi er Goðaland og raunar fleiri svæði. Þórsmörk er norðan Krossár.

 

 


mbl.is Staðsetning gæti þýtt að ekki verði neitt ofanflóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gosið sést á vefmyndavél.

Greinilegur bjarmi frá gosinu í Eyjafjallajökli sést á vefmyndavél Rúv á Búrfelli, sjá http://www.ruv.is/hekla/

Aðrar vefmyndavélar virðast ekki rétt staðsettar, t.d. í Vestmannaeyjum og á Háfelli sunnan Mýrdalsjökuls.

Ef að líkum lætur er gosið í austurhlíðum jökulsins, fyrir ofan Fimmvörðuháls eða á Hálsinum sjálfum.  Gosefni kunna þá að falla ofan í Hvannárgil og það tekur við miklu, eða niður um Steinsholtsjökul.

Samkvæmt ógreinilegri mynd á mbl.is er trúlegast að eldsumbrotin séu á Fimmvörðuhálsi eða mjög neðarlega í Eyjafjallajökli austanverðum. Sama er að segja með vefmyndavélina á Búrfelli. Bjarminn virðist lýsa upp austurhlið Eyjajfallajökuls. Þetta hefur fengiðst staðfest á viðmælanda hjá fréttastofu Útvarps sem segir að kosið sé beint norðan við Skógafoss. Þar með má búast við að Fimmvörðuskáli sé farinn eftir tuttugu ár.

Snjóleysið veldur því að ekki virðist vera margir í skálum Útivistar á Básum á Goðalandi eða skála Ferðafélagsins í Langadal í Þórsmörk. Ekki munu neinir vera í Fimmvörðuskála Útivistar á Fimmvörðuhálsi. Væri almennileg snjóalög á landinu þennan veturinn væru áreiðanlega fjöldi manns í þessum skálum.


mbl.is Eldurinn sést úr Fljótshlíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það sem aldrei var og ekki verður er nú skattlagt!

Skattstofn verður til dæmi 10 milljónir króna vegna afskriftar húsnæðisláns er svipað eins og maður hafi haft 10 milljónir í laun á einu ári. Hann þarf að greiða skatt af þessari fjárhæð eftirá rétt eins og um rekstrartekjur fjölskyldunnar hafi verið að ræða.

Fæstir hafa tíu milljónir króna í árslaun. Fimm milljónir eru nærri heildartekjum útivinnandi foreldra.  

Dettur einhverjum í hug að auðvelt verður að kljúfa þessa skatta? Afskriftirnar eru einfaldlega til þess gerðar að aðstoða fólk vegna þess að það gat alls ekki greitt af lánunum vegna óeðlilegrar hækkunar á höfuðstól þess.

Eitthundrað þúsund króna mánaðarleg afborgun vegna afskriftarskatts setur fólk einfaldlega í sömu stöðu og fyrir afskriftir. 

Skattlagning á afskriftum er einkenni hugsunar kerfiskalla sem þessi ríkisstjórn er svo sannarlega.

Næst má búast við því að hækkun á markaðsverði íbúða frá árinu 2004 til 2007 verði skattlögð. Af miskunsemi sinni og skilningi á kjörum almennings ákveður svo vinstri stjórnin að skattstofninn verði aðeins 50% af hækkun þessara ára.

Hvernig í ósköpun stendur á því að það er hægt að skattleggja eitthvað sem aldrei var og verður ekki? Er næst að skattleggja notkun súrefnis úr andrúmsloftinu? 

Er ekki einfaldara að skipta um ríkisstjórn en að verða troðinn undir skjaldborg hennar?


mbl.is Afskriftir verða skattlagðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pressa ríkisstjórnarinnar skilar engu

Auðvitað lækka stýrivextir. Eitt af þeim atriðum sem fundin voru Davíð Oddssyni fyrrverandi Seðlabankastjóra til ávirðingar var að hann legðist gegn stýrivaxtalækkun sem var efst á óskalista ríkisstjórnainnar. Ríkisstjórnin hefur lengi barist fyrir lægri stýrivöxtum enda nú orðið ljóst að það var ekki Davíð sem stóð gegn lækkuninni heldur efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar. Þess vegna var fundin upp peningamálanefnd Seðlabankans til að stjórn bankans væri ekki einráð um ákvörðunina. 

Í hana var sett valinkunnugt fólk sem sumir skilja þarfir einnar ríkisstjórnar en aðrir eru líklega tregari.Samt lækkuðu stýrivextir ekki. Þeir stóðu lengi í stað og var það af öllum líkindum vegna þess að hvorki nýji Seðlabankastjórinn né peningastefnumálastefnumálanefndin skildi ekki hagfræði vinstri stjórnarinnar hvað þá þarfir hennar. Ekki vantaði þó pressuna af hálfu forsætisráðherra og fjármálaráðherra.

Nú hafa ráðherrar látið af þeim ljóta sið að skattyrðast út í Seðlabankann og láta það nægja að senda honum tóninn á bak við tjöldin. Pressan hefur verið gríðarleg á bankann og peningamálanefndina um að skilja nú til hlýtar efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar sem raunar er ekki til. 

 Svo leið og beið en lítið gerðist. Smám saman lækkuðu stýrivextir en aldrei kom stóra lækkunin (né góðu fréttirnar um Icesave). Þetta var bara eins og Davíð væri enn í bankanum og hann væri einn peningastefnumálastefnumálanefndin.

Og núna loksins eru stýrivextir í 9% sem er miklu hærra en allir seðlabankar í Evrópu og Bandaríkjunum hafa til viðmiðunar í efnahagslægð viðkomandi landa. Já, líklega er kreppa víðar en á Íslandi og það er pottþétt að alls staðar má kenna Davíð Oddsyni um.


mbl.is Stýrivextir verða 9%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samtök heimildarmanna skemmta sér

Ekki er það merkileg fréttamennska eins fjölmiðils að þurfa að vitna athugasemdalaust í aðra fjölmiðla. Fréttablaðið hefur heimildarmann fyrir útgáfudegi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, Rúv á sinn heimildarmann, DV hefur líka heimildarmann, sömuleiðis Pressan. Ef til vill er það bara heiðarlegast að upplýsa um frétt annars fjölmiðlis frekar en að skálda upp heimildarmann að því gefnu að nefndin láti ekki nái í sig.

Nú er verið að prenta skýrsluna. Varla telst það vonlaust að hafa samband við formann nefndarinnar í síma eða með tölvupósti og inna hann eftir útgáfudegi.

Allir sem nálægt útgáfu hafa komið vita að þegar prentun hefst er búið að ákveða útgáfudag. Þess vegna er undarlegast að nefndin skuli ekki þegar hafa tekið af skarið heldur leyfi samtökum heimildarmanna að skemmta sér. Ef í hart fer hlýtur að vera hægt að sitja fyrir formanni nefndarinnar og krefja hann svara um það sem þegar hefur verið ákveðið.


mbl.is Skýrslan tefst enn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vart fréttnæmt þó gengið sé um Vatnajökul

Það telst ekki til tíðinda þó einhverjir gangi yfir Vatnajökul. Nema kannski að þetta séu heimsfrægir pólfarar sem leggi á sig það lítilræði að skrölta vegalengd sem er örlítið brot af leiðinni á annan hvorn pólinn.

Samt er alltaf gaman að frétta af gönguferðum á Vatnajökul. Legg til að Mogginn minn geri öllum gönguferðum á jökla jafngóð skil eins og hetjuferð pólfaranna.

Fyrir á að giska tíu árum ætaði hópur Breta að ganga yfir Vatnajökul frá vestri til austurs og hvað það aldrei hafa verið gert áður. Það var auðvitað tóm vitleysa. Kannski var þetta sami hópur og stal af matarbirgðum Útivistarmanna sem höfðu fengið vélsleðamenn til að flytja nesti sitt í Grímsvatnaskála.

Bestir þóttu mér fræknir jöklafarar sem hjóluðu yfir Vatnajökul. Hvort Haldur Örn hafi verið í þeim hópi man ég ekki. Hetjudáðir verða engu minni þó hann komi ekki við sögu.

Af þessu má skilja að margt forvitnilegt gerist á Vatnajökli og ekki síður fréttatengt en þetta með pólfaranna.


mbl.is Þrír pólfarar saman í Vatnajökulsleiðangri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bílamarkaðurinn hruninn og viðgerðir líka

Umræðan um hugsanlegar afskriftir bílalána má ekki týnast í smáatriðinum. Óhjákvæmilegt er þó að vega og meta tvær aðferðir. Annars vegar þá að afskriftir séu jafnar yfir línuna en hins vegar þá að taka tillit til ólíkra aðstæðna. Báðar aðferðirnar hafa kosti og galla.

Mestu skiptir þó sú staðreynd að flestir sem keyptu bíl eða íbúð á uppgangstímum gerðu það líklega í góðri trú. Engum kom til hugar að verðmæti gjaldmiðilsins myndi hrynja og efnhagskerfið sömuleiðis. Vissulega fannst mörgum að körfulán væru skynsamleg. Ef til vill myndu þau bera lágar afborganir og það er í sjálfu sér eftirsóknarvert. Ef illa færi myndi maður greiða eitthvað hærra en lán með hefðbundnum verðtryggingum. Ekki nokkur maður gerði sér grein fyrir hruninu jafnvel þó fjölmargir segjast nú hafa séð það fyrir. Það er ekki mikil list að spá í fortíðina.

Vandinn lýtur ekki að því að einhverjir hafi keypt dýra bíla. Hver á að úrskurða um slíkt?

Nú er staðan sú að fjölmargir eru í vanskilum, aðrir þráast við og standa nokkurn vegin í skilum og svo eru líklega hinir sem ekki eiga í vanda. Niðurstaðan af öllu þessu er þó þessi: Bílamarkaðurinn er hruninn, hann er ekki til. Viðhald og viðgerðir á bílum er ekki sama atvinnugreinin og var. Fólk haldur að sér höndum vegna viðhalds. Bílaflotinn eldist og verður lakari.

Nú er kominn tími til að taka á bílalánunum. Allir hljóta að sjá að samningur milli lánveitanda og lántaka átti ekki að vera einhliða. Forstjóri SP segir að fyrirtækið fari nú varla á hausinn þó breytingar verðir á borð við þær sem félagsmálaráðherra hefur kynnt. Hins vegar eru þúsundir gjaldþrota eða á leið í gjaldþrot vegna bílalána. Það má alveg gera þá kröfu að lánafyrirtækin taki á sig eitthvað af tapi almennings.


mbl.is Lán dýrra bíla afskrifuð mest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikið að gera en enginn árangur ...

Steingrímur hefur fulla vinnu og hann er þreyttur á því sem hann kallar kjaftæði. Tæplega sextán þúsund manns eru atvinnulausir á landinu. Þeim hefur verið lofað breytingum. Skyldi þetta fólk ekki vera orðið þreytt á kjaftæði ríkisstjórnarinnar og skorti á efndum.

Forsætisráðherra sagði um daginn að ríkisstjórnin hefði gert svo óskaplega margt. Hingað og þangað um Reykjavík væri fólk á vegum ríkisstjórnarinnar að leysa vandann.

Hefur enginn döngun í sér til að standa upp og spyrja fjármálaráðherra og aðra þreytulega kerfiskalla hvers vegna sextán þúsund manns væru atvinnulausir á Íslandi? Aðeins fjöldi atvinnulausra bendir til þess að ríkisstjórnin er ekki að standa sig.

Steingrímur Sigfússon er kjarkmaður að þora að standa upp og halda því fram að ríkisstjórnin sé að gera eitthvað þegar allar tölur um atvinnuleysi, gengi og atvinnutækifæri benda til annars.


mbl.is Þreyttur á þessu kjaftæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband