Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Stolt Reykjavíkur og stórveldi sem tapar

Rétt eins og tappi sem er tekinn úr vaski þá varð seinna mark Víkinga til að stúkan í Frostaskjóli nær tæmdist af KR-ingum.

Hinn frábæri karlakór KR söng um „stolt Reykjavíkur“ og þeir áttu ekki við Víkinga. Þegar tilkynnt var um leikmannaskipti hjá Víkingum söng kórinn „... okkur kemur það ekkert við, okkur kemur það ekki rassgat við“. Þeir söngluðu uppnefndu einn leikmann Víkinga  og kölluðu hann „afa“. Áhorfendur brostu út í annað og hlógu jafnvel. Fyndnir þessir strákar í kórnum.

KR er vissulega stórveldi í fótboltanum. Umgerðin vallarins er glæsileg, stuðningsmennirnir flottir, kórinn meinhæðinn, þjálfarinn einn sá besti norðan Alpafjalla og ekki vantar að leikmennirnir virðast hverjum öðrum betri, í liðinu er næstum því rjómi íslenskra knattspyrnumanna. En þetta dugar ekki alltaf til árangurs einfaldlega vegna þess að  liðsheildin, leikgleðin og samvinna leikmanna skiptir svo óskaplega miklu máli. Það sönnuðu Víkingar sem samkvæmt öllum sparkspekingum áttu að hafa verið búnir að tapa leiknum áður en þeir gengu inn á völlinn.

Og svo lauk leiknum, „stoltið“ tapaði, „stórveldið“ laut í lægra haldi. Við sem styðjum Víkinga grétum ekki ekki í leikslok, okkur er kemur það eiginlega ekkert við þó KR standi sig illa, okkur er bara rassgats sama þó stórveldið verði sér til skammar og stuðningsmennirnir verði æ oftar fyrir vonbrigðum með sína menn.

Svona er nú stutt í hrokan hjá manni og það er ekki gott, hvorki fyrir Víking né sjálfa íþróttina. Nei, snúum við blaðinu, sýnum drengskap, styðjum þá sem gera sitt besta. Fögnum því sem vel er gert en niðurlægjum ekki andstæðinginn. Áfram KR, vonandi gengur betur næst!


Síðasti musterisriddarinn er léleg bók

Tryllingslega æsandi spennusaga sem felur í sér óvæntar flækjur og krassandi uppákomur.“

„Spennusaga ársins“.

„Lesandinn bókstaflega negldur niður.“

Kynningar á spennubókmenntum eru að verða eins og á bíómyndum í myndbandaleigum, engu er trúandi. Ég glaptist til að kaupa mér bókina „Síðasti musterisriddarinn“ eftir Raymond Khoury og dauðsé eftir því. Bókin er almennt illa skrifuð, svona formúlubók. Spennandi upphaf, góða löggan sem hefur aldrei getað verið í neinu sambandi, vondi kallinn sem var góður en klikkaðist þegar hann missti konu og barn, fornleifafræðingurinn sem er svo fallega og klár og svo er allt krydda pínulitlu kynlífi og skorthríð, eltingarleik og óveðri. Inn í allt blandast svo frásögnin af síðasta musterisriddaranum frá miðöldum, líklega skársti hluti bókarinnar. Spennukúrfan hríðfellur eftir því sem lesið er lengra og því miður er ég einn af þeim sem endilega þarf að ljúka við bækur hversu vitlausar sem þær eru.

Það er óskemmtileg stund þegar maður uppgötvar að maður hefur verið hafður að fífli. Þannig leið mér þegar ég hafði lesi hálfa bókina. Þá fékk ég það á tilfinninguna að jafnvel þýðandi bókarinnar væri orðinn dauðleiður á skrifunum enda fátt um andagift eða tilfinningu í bókinni. Og kynningarnar á bókinni standa alls ekki undir væntingum.

Að vísu er það rétt að sagan felur í sér óvæntar flækjur og krassandi uppákomur en því miður er þetta allt svo óskaplega máttlaust. Hins vegar eru nokkrar sagnfræðilegar tilvísanir í bókinni sem mér þóttu doldið áhugaverðar, en höfundur fór nú alveg með eigin söguþráð þegar upp komst að sjálfur Jesú frá Nasaret hefði haldið dagbók og í henni kom það fram að hann hefði einfaldlega verið maður. ... og svo hentu fornleifafræðingurinn og góða löggan dagbókinni  í sjóinn af umhyggju fyrir kirkjunni og þeim trúuðu ... Út af fyrir sig merkilegt viðhorf.

Ég þekki ekkert til höfundarins en hann minnir mig að nokkru leyti á Dan Brown með sín ósennilegu og slöppu plott. 


Ég er ekki að kvarta en breytist Reykjavík ekki helst til hratt?

Reykjavík æsku minnar tekur hröðum breytingum, hún breytist og stökkbreytist frá ári til árs. Ekki það að mikil eftirsjá sé í borginni eins og hún var á sjöunda áratugnum enda er það líklega ekki kjarni málsins. Hitt má ábyggilega virða til einhvers að kynslóðirnar geti fundið sér sameiginlegan vettvang í umhverfi sínu og notið þess sem er gamalt og gott. Hið nýja er ekki alltaf best.

Þegar húsin á horni Austurstræti og Lækjargötu brunnu um daginn flögraði að mér hvort nú yrðu einhver háhýsi byggð í staðinn. Og ég litaðist um í miðborginni. Litlu bryggjurnar í höfninni týna nú tölunni, Þar er núna verið er að byggja upp einhvers konar tónlistarkassa. Bárujárnsklæddu timburhúsunum við Laugaveg fækkar en í staðinn spretta upp sviplaus, steinsteypt hús án nokkurra einkenna annarra en að vera hlutlaus og leiðigjörn til lengdar.

Brimið svarrar ekki lengur utan í Skúlagötu og flest húsin sem áður setu svip sinn á norðurströnd Reykjavíkur eru horfin en í stað hafa vaxið upp undarleg flóra af skýjaklúfum.

Sama er að segja við Borgartún, þar er saman komið safn sálarlausra húsa að því best verður séð, kassar í undarlegum formum og stærðum.

Reykjavík er að alþjóðavæðast, það gerist á þann veg að gömlu húsin eru rifin eða send upp í Árbæ og í staðin eru önnur byggð sem eiga uppruna sinn í magn á grunnfermtra og þar af leiðandi verða þau sífellt hærri svo hagnaðurinn verði nú sem mestur.

Ég er svo sem ekkert að kvarta en finnst ekki fleirum en mér að Reykjavík breytist helst til hratt? Mér finnst bara sárt að enginn byggir hús eins og Næpuna eða við fáum aldrei aftur hús með bárujárni í miðbæinn, hús sem eru klædd íslensku grágrýti eins og gamli Útvegsbankinn var eða Alþingishúsið. Mér finnst líka leiðinlegt ef ég get ekki eftir tuttugu ár gengið um höfnina og bent barnabörnunum á hvar ég veiddi ufsa og kola, hvar ég datt í sjóinn, eða gengið um Laugaveg og Austurstræti og rifjað upp gamlar minningar sem tengjast húsunum úr æsku minni.

Kannski Villi og félagar hafi þetta í huga þegar skipulagið ber á góma.

Aldrei áður hefur fyrsti þingmaður allra kjördæma verið Sjálfstæðismaður!

Kosningaúrslitin voru fyrirsjáanleg. Fáir hafa þó tekið eftir því að í öllum kjördæmum er fyrsti þingmaðurinn úr Sjálfstæðisflokknum. Ég held að það sé í fyrsta sinn sem það hefur gerst. Yfirleitt hefur Framsóknarflokkurinn átt tvo eða þrjá nú eru nýjir og betri tímar, ... allt annað líf, eins og Vinstri grænir orðuðu það í kosningabaráttunni.

Hvað tekur nú við? Davíð Oddssyni taldi að ríkisstjórn með eins manns meirihluta á þingi væri vart starfhæf. Er ætlunin að semja áfram við Framsókn? Það vekur upp efasemdir. Hvað gerist þegar Siv Friðleifsdóttir fer næst öfugu megin framúr eins og þegar hún vildi fá auðlindaákvæði í stjórnarskránna? Hvað gerist þegar Bjarni Harðarson fer að vaða í vinstri villu og svíma? Hvar er mannval Framsóknarflokksins?

Okkur Sjálfstæðismönnum huggnast nú ekkert sérstaklega vel að ganga til ríkisstjórnarsamstarfs við Samfylkinguna, nógu ósvífin og rætin reyndist hún gegn Davíð Oddssyni, það gleymist seint.

Aðrir kostir eru vart í stöðunni nema samstarf við „stopp flokkinn“, Vinstri græna sem frá upphafi hefur verið á móti öllu því sem til framfara hefur horft í íslensku þjóðfélagi.

Þessi vika á eflaust eftir að verða nokkuð áhugaverð ákveði Geir Haarde að láta hendur standa fram úr ermum. Eftir hverju ættum við svo sem að bíða?


Nýjir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins

Miklar líkur benda til þess að breytingar verði gerðar á ráðherraliði Sjálfstæðisflokksins vilji svo til að flokkurinn verði í næstu ríkisstjórn. Horft er til þess að Björn Bjarnason og Sturla Böðvarsson séu búnir að vera mjög lengi í ráðherraembættum og kominn tími á breytingar hjá þeim ekki síst til að undirstrika að þrátt fyrir langa setu Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn þá endurnýjar hann sig reglulega, nýjar kynslóðir koma inn með önnur viðhorf og áherslur. 

Meðal Sjálfstæðismanna er einkum rætt um þessir verði ráðherrar:

  • Geir H Haarde
  • Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
  • Árni M. Mathiesen 
  • Einar K. Guðfinnsson
  • Ásta Möller
  • Guðlaugur Þór Þórðarson

Einnig er rætt um menn eins og Kristján Júlíusson, Ragnheiði E. Árnadóttur og Guðfinnu Bjarnadóttur.

Í formannstíð Davíðs Oddssonar var við val á ráðherrum einkum litið til forystumanna í kjördæmum og árangurs þeirra í kosningum. Þó þessi gildi séu enn virt þá er einnig haft í huga sérfræðiþekking þingmanna, t.d. eins og Ástu Möller en sem heilbrigðisráðherra fæst varla betri kandídat, hún er hjúkrunarfræðingur, með próf í opinberri stjórnsýslu, með gríðarlega stjórnunarreynslu og hefur reynst vera harður stjórnmálamaður.

Guðlaugur Þór leiðir lista Sjálfstæðismanna í norðurkjördæmi Reykjavíkur. Hann hefur getið sér góðs orðs sem borgarfulltrúi og alþingismaður, hefur reynst vera harður nagli í stjórnmálum en hefur engu að síður lagt mikla áherslu á fjölskyldugildi og hin „mjúku“ mál.

Fyrir utan Geir er Árni sá sem hefur lengstan starfsaldur af ofangreindum fjórum ráðherrum. Mjög ólíklegt verður að telja að hann hætti sem ráðherra enda nýtur hann óskoraðs trausts Sjálfstæðismanna fyrir störf sín. Sama má segja um Einar Kr. sem þykir hófsamur og góður stjórnmálamaður og nýtur virðingar fólks í öllum flokkum.

Komist Sjálfstæðisflokkurinn vel út úr kosningunum og eigi aðild að næstu ríkisstjórn eiga formaður og varaformaður erfitt verkefni fyrir höndum. Óhætt er að fullyrða að mannvalið hafi sjaldan verið meira meðal þingmanna flokksins en líklega er farsælast að bíða kosninga áður en lengra er haldið í svona spekúlasjónum.

 


Seinheppinn Össur

Hann er seinheppinn hann Össur Skarphéðinsson alþingismaður. Vart var hann búinn að rita glaðhlakkanlega grein á heimsíðu sína þar sem hann hélt því fram að ríkisstjórninn sigli hraðbyri í kosningaósigur er ný skoðanakönnun frá Gallup leit dagsins ljós.

Líklega er hann ekki eins kátur með hana enda fær Sjálfstæðisflokkurinn þar 40,2% atkvæða á landinu öllu og 27 þingmenn. Það sem meira er, flokkurinn fær 48,5 atkvæða í Reykjavík suður, kjördæmi formanns Samfylkingarinnar.

Meira að segja Framsóknarflokkurinn virðist vera á uppleið, er kominn með 10% fylgi á landinu öllu og 6 þingmenn. Ríkisstjórnin heldur því velli, einkum vegna góðs árangurs Sjálfstæðisflokksins.

Það er þó huggun harmi Össurar gegn að hann virðist ætla að ná mun betri árangri í Reykjavík norður en formaðurinn í Reykjavík suður. Eflaust mun það draga úr flokkadráttum í Samfylkingunni.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband