Ég er ekki að kvarta en breytist Reykjavík ekki helst til hratt?

Reykjavík æsku minnar tekur hröðum breytingum, hún breytist og stökkbreytist frá ári til árs. Ekki það að mikil eftirsjá sé í borginni eins og hún var á sjöunda áratugnum enda er það líklega ekki kjarni málsins. Hitt má ábyggilega virða til einhvers að kynslóðirnar geti fundið sér sameiginlegan vettvang í umhverfi sínu og notið þess sem er gamalt og gott. Hið nýja er ekki alltaf best.

Þegar húsin á horni Austurstræti og Lækjargötu brunnu um daginn flögraði að mér hvort nú yrðu einhver háhýsi byggð í staðinn. Og ég litaðist um í miðborginni. Litlu bryggjurnar í höfninni týna nú tölunni, Þar er núna verið er að byggja upp einhvers konar tónlistarkassa. Bárujárnsklæddu timburhúsunum við Laugaveg fækkar en í staðinn spretta upp sviplaus, steinsteypt hús án nokkurra einkenna annarra en að vera hlutlaus og leiðigjörn til lengdar.

Brimið svarrar ekki lengur utan í Skúlagötu og flest húsin sem áður setu svip sinn á norðurströnd Reykjavíkur eru horfin en í stað hafa vaxið upp undarleg flóra af skýjaklúfum.

Sama er að segja við Borgartún, þar er saman komið safn sálarlausra húsa að því best verður séð, kassar í undarlegum formum og stærðum.

Reykjavík er að alþjóðavæðast, það gerist á þann veg að gömlu húsin eru rifin eða send upp í Árbæ og í staðin eru önnur byggð sem eiga uppruna sinn í magn á grunnfermtra og þar af leiðandi verða þau sífellt hærri svo hagnaðurinn verði nú sem mestur.

Ég er svo sem ekkert að kvarta en finnst ekki fleirum en mér að Reykjavík breytist helst til hratt? Mér finnst bara sárt að enginn byggir hús eins og Næpuna eða við fáum aldrei aftur hús með bárujárni í miðbæinn, hús sem eru klædd íslensku grágrýti eins og gamli Útvegsbankinn var eða Alþingishúsið. Mér finnst líka leiðinlegt ef ég get ekki eftir tuttugu ár gengið um höfnina og bent barnabörnunum á hvar ég veiddi ufsa og kola, hvar ég datt í sjóinn, eða gengið um Laugaveg og Austurstræti og rifjað upp gamlar minningar sem tengjast húsunum úr æsku minni.

Kannski Villi og félagar hafi þetta í huga þegar skipulagið ber á góma.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband