Ruðningur, spítalar og snjóþekja
4.2.2019 | 10:54
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.
1.
Valskonur teknar að ryðja sér til rúms.
Fyrirsögn á blaðsíðu 3 í íþróttablaði Morgunblaðsins 2.2.2019.
Athugasemd: Í bókinni Mergurinn málsins segir um orðasambandið að ryðja sér til rúms:
Breiðast út, hljóta almenna viðurkenningu, láta til sín taka [ ] Líklegra er þó að líkingin vísi til þess er menn urðu að sanna hreysti sína með því að ryðja eða kippa öðrum úr sæti til að hljóta viðurkenningu.
Körfuboltakonurnar í Val eru vissulega að ryðja sér til rúms, gera það með því að sigra í fleiri leikjum en áður. Þá komast sumar þeirra í lið mánaðarins hjá Morgunblaðinu en aðrar körfuboltakonur komast ekki að, þeim er rutt út.
Orðalagið er vel til fundið hjá íþróttablaðamanni Moggans.
Við fyrstu sýn mætti halda að Valskonur hafi verið teknar við einhverja ósvinnu, ryðjast óboðnar inn. Svo er nú ekki, en skilji lesandinn ekki mælt mál verður bara að hafa það.
Þrátt fyrir hólið hér fyrir ofan ættu blaðamenn að vera sparir á orðtök og orðasambönd. Best er að skrifa einfalt mál sem allir skilja.
Tillaga: Valskonur ryðja sér til rúms.
2.
Spítalar í Illinois telja sig hafa tekið við um 220 manns vegna frostbits og ofkælingar síðan á fimmtudag þegar hitastigið fór niður fyrir 34 gráðu frost á mörgum stöðum í Bandaríkjunum.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Þetta er illa orðað og illa þýtt því sjúkrahús í Illinois í Bandaríkjunum hafa ekki sjálfstæða hugsun. Heimildin er vefur Indipendent. Þar segir:
In Illinois alone, hospitals reported more than 220 cases of frostbite and hypothermia since Tuesday, when temperatures plunged to -34C and lower with a wind chill of -45C or worse in some areas.
Enska orðið frostbite er þarna þýtt sem frostbit. Í gömlu orðabókinni minni (Menningarsjóðs útg.1963) er orðið ekki að finna. Þar er aftur á móti nafnorðið kal og það er þýtt sem skemmd af völdum frosts. Kal er haft um skemmdir á jörðu, túnum sem og á húð. Á hörundi geta orðið til kalsár og sum geta verið svo alvarleg að fjarlægja þurfi útlimi.
Um 220 manns í Illinois hefur kalið, fengið kalsár. Á íslensku er í þessu samhengi ekki talað um frostbit jafnvel þó það kunni að finnast í nýlegum orðabókum og á malid.is.
Sjúkrahús í Illinois hafa tilkynnt um kal og ofkælingu, á ensku; reported. Þau hafa ekki sjálfstæða hugsun og því ekki hægt að segja að þau telji sig hafa .
Orðalagið getur því verið á þann veg að þau tilkynntu um Svo má hreinlega að sleppa tilkynningu því það liggur í orðunum að samanlagður fjöldi er frá sjúkrahúsunum kominn.
Tillaga: Sjúkrahús í Illinois hafa tekið á móti meira en 220 manns vegna kals og ofkælingar síðan á fimmtudaginn er frostið féll niður fyrir 34 gráður, með vindkælingu var það sums staðar 45 gráður eða meira.
3.
Snjóþekja á vegum
Algengt orðalag á fréttum frá Vegagerðinni.
Athugasemd: Snjóþekja er gott og gilt orð og merkti (hér er sögnin með vilja höfð í þátíð) yfirleitt nýfallinn snjó sem þekur jörð. Áður fyrr var bara talað um snjó og það án þess að tilgreina þekjuna.
Nú er hins vegar svo komið að orðið snjóþekja hefur útvatnast og merkir nákvæmlega hið sama og áður var haft um fyrirbrigðið, það er snjór, en sjaldnast nýfallinn.
Þó snjóþekja sé sögð á vegum segir það ekki alla söguna. Á þeim kann að vera snjór að hluta og þekjan þar af leiðandi lítil. Lesendur kannast til dæmis við drög sem verða til þegar snjó skefur þvert yfir veg og liggur stundum eins og rendur yfir veg því autt er á milli. Er slíkt snjóþekja eða bara snjór á vegi? Hvorugt segir til um þekjuna.
Þegar ökumenn hefja ferð sína stað kunna þeir að velta því fyrir sér hvað snjóþekjan á veginum sé. Er hún grámi, hula, föl, gamall snjór sem hefur troðist, grunnur snjór, djúpur snjór, fannir, óruddur vegur og svo framvegis. Þetta segir hins vegar ekkert um þekjuna.
Orð geta tapað merkingu sinni vegna ofnotkunar og ekki síður breyttrar notkunar eða misnotkunar. Orðið sími var forðum haft um þráð. Sérstakt hafa alltof margir um það sem þeim finnst aldeilis frábært. Hér eru nokkur ofnotuð orð upptalin, meðal þeirra sögnin að labba. Menn labba nú um allar koppagrundir en enginn gengur lengur.
Í ritmálasafni Orðabókar Háskólans eru orð sem safnað hefur verið saman úr prentuðu máli frá árinu 1540 og fram á níunda áratug síðustu aldar. Í safninu eru til rúmleg 610.000 orð, sjá hér. Ugglaust má finna nokkuð mörg til viðbótar.
Tiltölulega auðvelt er að koma með annað orð þegar snjóþekja er ekki á vegi heldur snjór með köflum (samanber skúrir með köflum). Minnir að hér áður fyrr hafi einfaldlega verið sagt; víða snjór á vegum.
Á annað hundrað íslensk orð eru til um vind, sjá hér. Að minnsta kosti 58 orð eru til um snjó eða snjókomu, sjá hér og hér. Við erum því ekki á neinu flæðiskeri stödd.
Í lokin er gullkornið: Einu sinni sagði Mogginn frá fjallaskíðamóti í háum snjó, sjá hér.
Tillaga: Engin tillaga.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:04 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.