Færsluflokkur: Pepsi-deildin

Einn besti þjálfari Íslands rekinn

Heimir Guðjónsson er einn besti þjálfari landsins. Þekki manninn ekki en hef lengi dáðst að FH liðinu sem hann þjálfaði svo lengi. Leikmenn hans voru skipulagðir og kunnu að halda boltanum og sækja. Hann hafði svo mikla þekkingu á leikmönnum að vart nema úrvalsleikmenn hafa leikið undir hans stjórn.

Ég fullyrði að fá lið hafa verið eins öflug og ekkert lið spilað eins skemmtilegan fótbolta og FH. Þó hef ég aldrei haldið með liðinu en alltaf dáðst að því undir niðri.

Þáttur Heimis Guðjónssonar í íslenskri knattspyrnusögu er stór. Það verður aldrei frá honum tekið. Sömu sögu verður ekki að segja um þá sem sýndu honum þá óvirðingu að sparka honum.

Árangur FH á síðasta Íslandsmóti skrifast fyrst og fremst á leikmenn, ekki þjálfarann.


mbl.is Veit ekki hvað breyttist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Greinilegt sigurmark í landsleiknum

MarkGreinilegt er af meðfylgjandi skjáskoti úr fótboltaleik Íslands og Finnlands í gærkvöldi að boltinn fór yfir línuna og þar af leiðandi í markið.

Boltinn hafði verið á marklínunni en Alfreð Finnbogason sparkar honum inn og á myndinni er boltinn nærri því komin í andlit finnska markmannsins og Alfreð stígur á línuna á þeim stað þar sem boltinn hafði áður verið.

Boltinn er því að minnsta kosti tveimur „boltum“ fyrir innan.

Á möl fyrir framan bílskúrshlera í Hlíðunum í gamla daga hefði þetta verið talið mark og engin mótmæli tekin gild - sérstaklega ekki þeirra sem fengu markið á sig. Betur get ég varla rökstutt þetta álit mitt.

Þetta sést allt ágætlega í frétt á mbl.is.

Já, og svo er það annað. Markmaðurinn var með aðra hönd ofan á boltanum þegar Alfreð sparkaði honum (boltanum) inn. Telst það brot?

 

 


mbl.is Var þetta löglegt mark? (myndskeið)
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sterkt landslið, góðir þjálfarar

Geir Þosteinssyni, formanni og öðrum stjórnarmönnum KSÍ verður í framtíðinni minnst fyrir tvennt. Annars vegar að hafa ráðið Lars Lagerbäck sem þjálfara íslenska karlalandsliðsins í fótbolta og hins vegar fyrir að gefa honum aðstöðu, frið og tíma til að sinna starfi sínu og að hafa valið Heimi Hallgrímsson sem aðstoðarmann. 

Nú, þegar sú staðreynd blasir við að landsliðið fer á Evrópumótið í fótbolta í Frakklandi á næsta ári ber okkur að þakka þessum mönnum ekki síður en landsliðsmönnunum.

Næst þegar ég sé Geir mun ég taka ofan svo framarlega sem ég verð með eitthvurt pottlok á höfðinu.


mbl.is „Draumurinn rættist“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugsanlega sigrar liðið sem skorar fleiri mörk ...

Hefur það forspárgildi um leik Íslands og Króatíu þann 15. nóvember að landsliðsmenn beggja liða hafi skorað jafn mörg mörk í leikjum helgarinnar?

Nei, auðvitað ekki. Miklu nær væri að leita til draumspakra manna eða þeirra sem kunna spá í innyfli hrafna og fá álit þeirra (það er þeirra sem kunna að lesa í innyflin, ekki hrafnanna). Og það er einmitt það sem ég gerði eftir að hafa lesið þessa frétt í Morgunblaðinu.

Hrafnainnyflislesarinn kvartaði yfir skorti á dauðum hröfnum. Hann leyfði mér engu að síður hafa það eftir sér að það liðið sem skoraði fleiri mörk myndi hugsanlega hafa sigur.

Sá draumspaki var talsvert sammála og bætti því við að annað liðið þyrfti jafnvel ekki að skora nema einu marki meira en hitt til að hafa sigur.

Ekki veit ég hvort þessi svör spakra manna séu skýrari en frétt Morgunblaðsins en oft má gefa prik fyrir viðleitnina. 

 


mbl.is Ísland – Króatía 1:1
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Getur fagmaður starfað hjá óhæfum stjórnendum

Logi Ólafsson er tvímælalaust fagmaður, það hefur hann sýnt og sannað í sínu fagi. Vandinn við góða stjórnendur, skiptir engu á hvaða sviði það er, í íþróttum, viðskiptum og jafnvel stjórnmálum, eru hinir, þessir sem ekki eru fagmenn.

Hver þekkir ekki þá stöðu að hafa starfað hjá eða með óhæfu fólki? Þegar miklum kröfum er mætt með góðum afköstum og ágætum árangri eru alltaf einhverjir sem gagnrýna og halda því fram að betur hefði mátt gera. Þegar rætt er um málin kemur í ljós að þessir „gagnrýnendur“ eru síst af öllu með allt á hreinu, ef til vill að velta ímynduðu vandamáli fyrir sér í fyrsta sinn. Slíkir eiga það til að hrapa að einhverri niðurstöðu, á ensku „jump to a conclusion“.

Svo eru þeir til sem eigna sér heiður og segja þegar vel gengur: Nú get ég. Svo gengur hvorki né rekur og allt fer í handaskolum.

Staðreyndin er einfaldlega sú að góður árangur næst hvergi nema með góðum undirbúningi, mikilli vinnu. Oft er verkefnið sjálft aðeins lítið og jafnvel ómerkilegt miðað við þá vinnu sem lögð er í aðdragandanum. Stjarnan kann að hafa tapað úrslitaleik um bikarinn en sú staðreynd að liðið komst í þennan leik segir mikla sögu. Sá sem gagnrýnir þjálfarann og leikmenn fyrir tapið hefur ekki framtíðarsýn. 


mbl.is Logi: Kom mér algjörlega í opna skjöldu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

KR-ingurinn Bjarni Guðjónsson til Fram

Bjarni Guðjónsson hefur verið einn af máttarstólpum KR-inga undanfarin ár. Við eigum eftir að sakna hans. Hann var einstaklega lipur með boltann, gat átt stórkostlegar sendingar fram á völlinn sem gáfu mörk. Stóð sig með afbrigðum vel, jafnt í vörn sem framar.

Vonandi kemur hann með nýtt hugarfar inn í Fram og ekki veitir af eftir frekar slappa framgöngu síðustu árin að undanskildu árinu í ár. Hver veit nem Frammarar eigi á ný eftir að verða stórveldi í knattspyrnu og það undir stjórn KR-ingsins og ÍA-mannsins, Bjarna Guðjónssonar.

Í Fram er nú einn KR-ingur fyrir, Viktor Bjarki Arnarson, sem kom til félagsins í fyrra. Mér hefur alltaf þótt Viktor góður knattspyrnumaður og hefði viljað sjá hann áfram í KR.


mbl.is Yfirlýsing frá Bjarna Guðjóns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjarnan var betra en KR í þessum leik

Varla er hægt að halda öðru fram með nokkurri sanngirni að Stjarnan hafi verið betra liðið í þessum undanúrslitaleik við KR. Munaði þó ekki miklu. Það sem gerði gæfumuninn að mínu mati er að Stjörnumenn voru duglegri, boltinn féll þeim í vil og KR-ingar voru alltof seinir að pressa á þá. Þeir léku boltanum vel á milli sín og KR-ingar voru bara sáttir við að liggja í vörn í stað þess að stjórna leiknum eins og við stuðningsmenn félagsins krefjumst.

Ég er þess fullviss að ekkert annað félag en Stjarnan geti veitt KR meiri keppni um Íslandsmeistarabikarinn. Og þeir síðarnefndu þurfa að girða sig í brók og taka nú á honum stóra sínum og ná titlinum. Liðið er afskaplega vel mannað en nær allir leikmenn þurfa að taka sig á. Þeir þurfa að byggja betur upp sóknir og framlína þarf að vera meira vakandi. Verst þykir mér uppgjöf margra leikmanna. Þeir hætta eftir að hafa tapað boltanum í návígi í stað þess að berjast eins og ljón og gefa aldrei neinum grið.

Ánægjulegt er að sjá nýjan mann í vörninni. Norðmaðurinn virðist vera góður og sendingar hans eru nákvæmar sem hefur ekki alltaf verið aðalsmerki varnarmanna KR. 


mbl.is Halti maðurinn hetjan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leikur FH og KR var frábær skemmtun

Þegar tvö bestu knattspyrnulið landsins eigast við er ástæða til að borga sig inn á völlinn. Jafnvel að fara til Hafnafjarðar og láta sig hafa það að standa í tuttugu mínútur í biðröð til að fá miða ... FH-ingar voru gjörsamlega óviðbúnir mikilli aðsókn og önnuðu vart eftirspurn eftir miðum. Þrjár stelpur í einum skúr með einn posa er ekki til að auðvelda aðgang.

Hvað um það, leikurinn var stórskemmtilegur. Markvörður FH fékk réttilega rautt spjald eftir að Baldur KR-ingur Sigurðsson var í þann mund að komast framhjá honum og hefði væntanlega skorað. Bjarni Guðjónsson skoraði úr vítaspyrnu. Baldur skoraði svo mark örskömmu síðar og eiginlega hélt maður þá að leikurinn væri búinn. Það var nú örðu nær.

FH-ingar eru með frábært lið. Þeir leika vel saman og hefðu þeir náð að stýra liði sínu skynsamlegar hefðu þeir ábyggilega náð að halda tvö-tvö jafnteflinu. En þeir gleymdu sér, vildu, manni færri, eðlilega fleiri mörk en fengu þess í stað tvö á sig.

Bjarni Guðjónsson er límið í KR liðinu. Sendingarnar hjá honum eru stórkostlegar og hann virðist sjá tvær eða þrjár sendingar fram í tímann. Verst er að hann er hægfara, þyrfti að létta sig. 

KR-ingar nýta sér ekki nógu vel breidd vallarins, spilið gengur ekki alltaf nógu vel upp. Engu að síður eru þeir frábærir. Þeir hefðu getað skorað eitt eða tvö til viðbótar, svo vel stóðu þeir sig.

Leikur FH og KR var frábær skemmtun. Annað hvort þessara liða verður Íslandsmeistari nema Valsarar haldi áfram á sinni sigurbraut. 


mbl.is Baldur samur við sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf fyllerí að fylgja bjórneyslu

Það væri nú aldeilis gaman ef maður ætti þess kost á að fá sér bjórglas á landsleik. Hver veit nema maður legði á sig að fara á völlinn í stað þess að sitja heima fyrir framan sjónvarpið og horfa á sama leik.

Fyrir tveimur árum sat maður nokkur fyrir aftan mig í stúkunni á Laugardalsvelli og hafði hátt enda raddsterkur með afbrigðum. Talaði við sessunaust sinn eins og hann væri með síma við eyrað og hrópaði af og til hvatningarorð út á völlinn. Öllum var hann til ama sem í kringum hann sátu. Skyndilega birtust tveir drengir, vallarstarfsmenn og hvísluðu einhverju að manninum. Hann ætlaði að gera sig digran en þeir voru ákveðnir. Annað hvort læturðu okkur fá áfengið eða þú ferð út, sögðu þeir.

Þetta endaði með því að maðurinn afhenti pela af einhverjum vökva og horfði á bikarúrslitaleikinn til enda, án mikils hávaða.

Jú, mikið væri nú gaman ef maður gæti fengið sér bjór á vellinum. Vandinn er hins vegar sá að oft fylgir fyllerí bjórneyslu. Getur verið að hægt sé að bjóða upp á áfengi án þess að fyllerí fylgi? Eða þarf maður að velja.


mbl.is Borgin hafnaði fyrstu umsókn um bjórsölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baldur var frábær á móti Keflvíkingum

Baldur Sigurðsson átti stórkostlegan leik fyrir KR á móti Keflavík í kvöld. Hann var einn besti maður vallarins, duglegur og ógnandi upp við mark andstæðinganna. Hefði átt að skora tvö í viðbót hefði hann náð aðeins að róa sig niður í góðum færum.

KR-liðið var afar sannfærandi á móti sprækum Keflvíkingum og hefði getað unnið með meiri mun. Hins vegar er margt sem KR-ingar geta lagað hjá þeim. Sérstaklega þurfa að halda boltanum meira innan liðsins í stað þess að lenda oft í leiðinlegum „eltibolta, láta aðra stjórna ferðinni langtímum saman og þurfa þá að verjast.

Hins vegar var sigurinn í kvöld aldrei í hættu. Áhorfendur í kaldri stúkunni veltu bara fyrir sér hversu mörg mörkin gætu orðið. 


mbl.is Baldur: Boltinn fór á góðan stað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband