Færsluflokkur: Pepsi-deildin

Var samið við Hermann á bak við Magnús?

Voru Eyjamenn búnir að hafa samband og semja við Hermann Hreiðarsson um þjálfun ÍBV áður án þess að segja Magnúsi Gylfasyni þjálfara sínum frá því?

Frétti Magnús Gylfason af þessu og óskaði eftir fundi með stjórn ÍBV? Vildi stjórnin ekki staðfesta fréttina?

Setti Magnús stjórn ÍBV þá skilyrði, annað hvort lýsti stjórnin því yfir að fullum stuðningi við sig eða hann hætti á stundinni?

Spyr sá sem ekki veit.


mbl.is Hermann Hreiðars þjálfar ÍBV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjaftbrúk, dýfur og leiðindi leikmanna

Kjaftbrúk leikmanna við dómara fer að vera ansi leiðigjarnt, sérstaklega fyrir okkur áhorfendur. Þó maður heyri ekki oft hvað þeir segja þarna úti á leikvellinum fer ekki á milli mála að sjaldnast eru það neinar gælur ef líkamstjáningin er lögð til grundvallar.

Auðvitað gengur ekki að hreyta einhverjum ónotum í dómara og reyna síðan að afsaka sig með því að það hafi verið sagt í hita leiksins. Þetta er eins og að afsaka umferðarslys með því að hafa verið drukkinn undir stýri.

Menn eiga að hafa stjórn á sér, það er grundvallaratriði. Hitt er síðan til opinberrar umræðu að knattspyrnumenn stunda þann undarlega leik að senda dómurum tóninn til þess eins að halda þeim við efnið, sýna hvar valdið liggur. Þegar bæði lið gera þetta spinnst allt smám saman upp í einn allsherjar kjafthátt sem engan enda tekur.

Ósiðir fótboltamanna eru margir. Flestir kannast við þann sið að leikmaður fleygir sér niður í vítateig andstæðinganna til að fá víti. Þetta eru kallaðar dýfur og þeir sem slíkt stunda dýfingameistarar. Stundum takast dýfurnar, dómarar eru auðvitað mannlegir.

Svo fellur einhver, hefur verið tæklaður, brugðið eða hrynur niður af sjálfsdáðum. Þá bregst það sjaldnast að viðkomandi kútveltist, grípur um legginn og hrín hástöfum. Í flestum tilfellum lagast bágtið fljótast ef viðkomandi fær aukaspyrnu út á veltuna. Hrikalegustu slysin á leikvellinum lagast undrafljótt og eru ábyggilega tilefni til mikilla læknisfræðilegra rannsókna. Væri ráð að Íslensk erfðagreinin tæki þetta til athugunar.

Boltinn á það til að fara útaf leikvellinum og mér skilst að þá eigi það lið að kasta inná sem ekki olli því að hann skrapp yfir hvítu línuna. Langt er síðan leikmenn fóru að taka upp þann sið að hjálpa dómaranum með því að lyfta upp hendi er boltinn fer útaf. Með slíkri tjáningu segjast þeir eiga innkastið. Ekki veit ég til þess að dómarar fari almennt eftir þessum markvissu tilkynningum leikmanna enda vandast málið þegar menn úr báðum liðum veifa fálmurunum og þykjast eiga innkastið. Líklegast ættu dómarar þá að kalla á fund og ræða málið og komast þannig að niðurstöðu, nú eða kasta uppá'ða.

Nei, dómar á leikvelli eru ekki til umræðu. Þeir eru endanlegir. Dómi verður ekki kollvarpað með lýðræðislegri handauppréttingu né heldur á þann veg að sá sem hæst hrópar um meint óréttlæti fái að ráða.

Er ekki best, strákar og stelpur, að halda einfaldlega kjafti og snúa sér frá dómaranum eftir að hann hefur dæmt. Það er svosem í lagi að tauta einhvern andskotann ofan í bringuna á sér eða kasta sér niður og berja á grasinu. Nú, og svo má alltaf fara að gráta. Dómarar eru yfirleitt aumingjagóðir og væru áreiðanlega til í að dæma þeim í haga sem fellir flest tárin og grætur sárast.

Best af öllu væri þó að leikurinn fengi að ganga snuðrulaust fyrir sig, án leiksýningar. Já, ég veit, nú fullyrða margir að án leikrænna tilþrifa væri fótboltinn hundleiðinlegur. Eitthvað kann að vera til í því ...


mbl.is „Ertu þroskaheftur?“ spurði Jón og fékk rautt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gunnar er vallakóngur ...

Fyrst stal hann Íslandsmeistarabikarnum frá KR og „gaf“ Víkingum, síðan hnuplaði hann veitingum frá KR og dreifði til annarra íþróttafélaga loks þverbrýtur hann hlutleysi fjölmiðilsins og peppar Stjörnumenn til sigurs á KR.

Þetta bara gengur ekki og það er öllum ljóst enda voru Stjörnumenn svo forviða að þeir nöguðu neglur sína eins og engin fæða væri í boði. Ofan í allt hélt hann þrumuræðu yfir leikmönnum Stjörnunnar sem skildu auðsýnilega fátt í gagnmerku erindinu.

Gunnar er Vallakóngur (lesist; vadla kóngur) en leyfir sér engu að síður að hrauna yfir Fannar myndatökumann sinn sem virðist frekar hlédrægur. Slíkt einelti má ekki eiga sér stað.

Hins vegar er ekki nýtt að formenn Sjálfstæðisflokksins hafi afneitað KR. Geir Hallgrímsson var Víkingur, Þorsteinn Pálsson er Frammari og Bjarni Benediktsson er í Stjörnunni. Davíð Oddsson er þó KR ingur enda vesturbæingur.

Undarlegast er þó að hinn geðugi bæjarstjóri í Garðabæ skuli styðja Stjörnuna, er hann þó gegnheill Sjálfstæðismaður. Það sannar aðeins eitt, lífið er ekki svart og hvítt, þó það ætti að vera svo.


mbl.is Gunnar á Völlum hvetur Stjörnuna (myndband)
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ósæmileg ummæli þjálfara Skagamanna

Mér fannst Gary Martin ekki geta neitt í dag ef ég á að segja eins og er. Ég hef svo sem séð það áður í sumar að hann hafi verið lélegur þannig að það kom mér ekkert á óvart,“ sagði Þórður Þórðarson [þjálfari Skagamanna].
 
Skagamenn voru fóru illa að ráði sínu í Frostaskjólinu í kvöld. Þeir áttu sárafá tækifæri til að koma tuðrunni í netið hjá KR-ingum en yfirburðir þeirra voru algjörir.
 
Mórallinn er hins vegar svo lélegur hjá þjálfara þeirra að hann þarf á skeyta skapi sínu á Gary Martin sem fyrir stuttu hætti með ÍA og gekk til liðs við KR. Ummælin hérna að ofan eru úr frétt mbl.is. Þau lýsa hvorki stórhug né drengskap, aðeins tuði manns sem reynir að kenna einhverjum öðrum um ófarir sínar. Það er miður, því ÍA er stórveldi í knattspyrnu og saga þess er frækin rétt eins og KR liðsins. Flestum sem líta til Skagamanna með virðingu hlýtur að finnast talsmáti þjálfarans honum óviðeigandi og alls ekki er samboðin þeim er gegnir þeirri virðulegu stöðu að vera þjálfari ÍA.
 
Gary Martin var alls ekki lélegur í þessum leik frekar en í þeim leik er ÍA sigraði KR á Skaganum með þremur mönnum gegn tveimur. Þar var leikmaðurinn allt í öllu fyrir sitt lið. Í kvöld vantaði Skagamenn sárlega mann af hans kalíberi og því fór sem fór.
 
 

mbl.is Þórður: Fannst Gary ekki geta neitt í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smávægilegt um emm Moggans ...

Einkunnagjöf Morgunblaðsins er góðra gjalda verð. Hins vegar virðist hún ekki miðast við sstöður heldur þá sem eru mest áberandi. Markmaðurinn getur staðið sig mjög vel í góðum sigri fær ekkert M en sá sem fær tvö eða jafnvel þrjú M er sóknarmaðurinn sem skoraði þrennuna

Rökstuðningurinn fyrir veitingu M-a er oft frekar lítill og stundum alls enginn. Í sumum tilfellum liggur hann í augum uppi þegar leikmaður stendur sig vel en þá veltir maður því fyrir sér hvernig standi á fátæklegum M-um annarra. Fótboltaleikur er auðvitað ekkert annað en samvinna ellefu eða fleiri einstaklinga. Yfirleitt er það það sem skilar árangri.

Ekki misskilja. Íþróttaumfjöllun Morgunblaðsins er afskaplega góð og ber eiginlega höfuð og herðar yfir aðra fjölmiðla. Fyrir það ber að þakka.


mbl.is 40 síðna fótboltablað Morgunblaðsins í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Besti sjónvarpsþátturinn

Ég hef sagt það áður og segi það enn: Gunnar á Völlunum er eitt það skemmtilegasta sem komið hefur fram í fjölmiðlum á síðustu árum. 

Gunnar þessi er einstaklega húmorískur, gerir lítið úr sjálfum sér og við liggur að hann geri lítið úr okkur stuðningsmönnum liðanna.

„Dómari ...!!!!“, hrópar hann og svo ekki meir. „Fjölmiðill ...“, og maðurinn veður inn á leikvanganna og sest hjá áhorfendum og styður liðin sitt á hvað. „Skrif'etta hjá stjórninni“, „skrif'etta hjá Kjernested ...“. Gunnar kemst upp með allt og hans dýrasta ósk er að drekka kaffi og borða á kostnað fóboltafélaganna. Svo fór hann í sturtu og heita pottinn hjá KR ...

Grindvíkingar hefðu átt skilið að falla því þeir höfðu engan húmor fyrir Gunnari á Völlunum heldur ráku hann í burtu fyrir drykkjuskap. Að vísu gekk Gunnar heldur langt þarna, óð um völlinn með hvítvínsglas í hendi.

Gunnar er skemmtilegur, hann er fyndinn og léttur í lund. Myndatakan er einstaklega góð og tökumaður gleymir sér aldrei, miðpunkturinn er Gunnar. Klippingin er hröð og viðheldur athygli áhorfandans.

Bestu þakkir fyrir skemmtunina. 


mbl.is Gunnar gerir upp knattspyrnusumarið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábær árangur Boltafélagsins og Bolvíkinga

Góður árangur íþróttaliða á landsbyggðinni hefur gríðarleg áhrif fyrir viðkomandi byggðarlag. Ekki aðeins að hann er bein hvatning til ungmenna að stunda íþróttir heldur eykst samheldni og samkennd meðal íbúanna. Að auki er árangurinn gríðarleg auglýsing fyrir byggðarlagið.

Alkunna er að Vestfirðingar hafa átt í margvíslegum vanda. Það hefur ekki beinlínis verið þeim góð auglýsing að vegakerfið var slæmt, kvótinn fluttist í burtu, íbúum fækkaði og svo má lengi telja. Þetta er það sem birtist öðrum landsmönnum og gefur slæma mynd af Vestfjörðum, vont PR ef svo má orða það. Þessi mynd er þó skökk og skæld og alls ekki raunveruleikinn. Hann er allt annar. 

Rétt eins og víðast á landinu býr gott og duglegt fólk á Vestfjörðum, það sinni sínum störfum af alúð og dugnaði, börnin ganga í skóla, heilbrigðisþjónustan er góð, verslanir fínar og menningin er í raun miklu meiri en íbúar á suðvesturhorninu geta ímyndað sér. Og það sem meira er þátttaka almennings er miklu meiri.

Skellur sá sem knattspyrnulið Breiðabliks varð fyrir á Ísafirði er engin tilviljun. Knattspyrnulið BÍ/Bolungarvíkur er skipað hörkunöglum sem gefa ekkert eftir. Og leikgleðin er í fyrirrúmi. Þessi sigur á Íslandsmeisturunum er miklu meiri en einfladur sigur í knattspyrnu. Hann er miklu meiri og ber þess vitni að mannlíf og menning á Ísafirði og Bolungarvík blómstrar og mikil ástæða til að óska íþróttamönnum og íbúum til hamingju með árangurinn.


mbl.is Erum frekar hátt uppi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fótboltafréttir í Mogganum mættu vera betri

Alfreð Finnbogason er tvímælalaust vel að þessari viðurkenningu kominn og ástæða er til að óska honum til hamingjum. Hins vegar er enn ríkari ástæða til að gagnrýna Morgunblaðið fyrir fréttir sínar af knattspyrnunni í sumar. Fyrir þá sem ekki eiga mögueika á að vera á staðnum og fylgjast með leikjum af áhorfendapöllum eða í sjónvarpi eru greinar íþróttafréttamanna Morgunblaðsins stundum ekki nógu góðar.

Nú orðið eru leikjum ekki lýst heldur plássið notað fyrir viðtöl eða hugleiðingar. Því læðist að manni sá grunur að þeir hafi ekki verið viðstaddir þá leiki sem skrifað er um. Sé svo er hreinlegast að segja frá því en þá er ómögulegt fyrir fréttamanninn að dæma einstaka leikmenn og veita þeim emm.

Sem trúfastur lesandi  knattspyrnufrétta Moggans kemur oft fyrir að ég fæ litla tilfinningu fyrir því hvernig knattspyrnuleikurinn þróaðist, hvernig einstakir leikmenn stóðu sig og hvernig mörk urðu til eða aðrir atburðir á vellinum eins og brot eða dómar. Þetta er slæmt því íþróttafréttamenn hljóta að vera sérfræðingar í knattspyrnu og eiga að varpa hlutlausu ljósi á leikina, upplýsa lesandann.

Emmin margumræddu hafa því miður gengisfallið. Ekki virðist vera nein regla í veitingu þeirra heldur virðist þeim annað hvort vera dreift af ótrúlegri gjafmildi meðal leikmanna eða þeim sáldrað upp í vindinn. Hér er ég ekki að tala um hina knáu sóknarmenn íslenska boltans, hetjutenórana sem allir fylgjast með, heldur hina sem fylla töluna, eru þátttakendur í því að eitt lið stendur sig betur en annað. Markmenninga, vörnina, miðverðina, kanntmennina og alla þessa sem sinna sínum hlutverkum svo einhver megi nú skora mark. Og hvernig er það með þjálfarana, eru þeir ekki ómissandi hluti af liði sínu, eiga þeir ekki skilið emm fyrir frammistöðu sína?

Raunar finnst mér einkunnagjöf Fréttablaðsins alls ekki svo vitlaus. Þar fá leikmenn einkunn og með henni fæst nokkuð skilmerkileg mynd af stöðu liðsins sem heildar.

Ég vona svo að íþróttadeildin taki þessa gagnrýni ekki óstinnt upp því vinur er sá er til vamms segir. 


mbl.is „Þarf nýja áskorun“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband