Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Þorvaldur Gylfason ritar níðlausa grein

Þau tíðindi gerðust í dag að Þorvaldur Gylfason, prófessor, ritaði grein í Fréttablaðið sem ekki var níðgrein um Sjálfstæðisflokkinn eða ríkisstjórnina sem flokkurinn á aðild að.

Maður varð næstum því fyrir vonbrigðum.

Þess í stað fjallaði hann um Lyndon B. Johnson, fyrrum Bandaríkjaforseta, dr. Martin Luther King, mannréttindafrömuð í Bandaríkjunum, Barrack Obama, sem nýlega lét af embætti forseta Bandaríkjanna og svo Donald Trump, nýkjörinn forseta. Og án þess að uppnefna þann síðast nefnda. 

Þetta er allt svo fallegt og vel skrifað hjá prófessornum að hrein unun er að lesa. Svei mér þá, ef ég viknaði ekki við lesturinn, sérstaklega þegar höfundurinn gerði að því skóna að Johnson forseti hefði komið því til leiðar að dr. King fékk friðarverðlaun Nóbels árið 1964.

Ekki gerist það oft að Þorvaldur skrifi svona grein.


Eiður Guðnason, minning

Sviplegt fráfall Eiðs Svanbergs Guðnasonar, fyrrverandi alþingismanns, ráðherra og sendiherra er sorglegt. Ekki aðeins er horfinn á braut ágætur stjórnmálamaður, víðsýnn og fjölfróður, heldur einnig ötull baráttumaður fyrir íslensku máli. Nú er bókstaflega skarð fyrir skildi.

Flestir áhugmenn um stjórnmál og íslenskt mál þekkja bloggið hans, „Skrifað og skrafað, molar um málfar og miðla“ undir linknum eidur.is.

Eiður var hatrammur baráttumaður og oft á köflum grimmur, hugsanlega grimmari en hann ætlaði sér. Hann gaf engan afslátt af réttu máli og hafði ágæta tilfinningu fyrir því.

Við deildum oft um pólitík og hann skammaðist í mér í tölvupóstum og ég tók á móti og reyndi að rökræða við hann á móti. Stundum reyndumst við sammála en oft var talsverður meiningarmunur okkar á milli, sérstaklega í pólitík.

Ég kynntist Eiði um 1991 er hann kom sem umhverfisráðherra til að vera við vígslu Fimmvörðuskála. Ég keyrði með hann frá Skógum og upp á Hálsinn. Löngu síðar skrifaði ég þetta um ferðina:

Á leiðinni upp komum við auga á bíl með útlenskum númerum sem hafði verið ekið út af veginum og smáspöl á gróðurlendi, sem á þessum slóðum er sorglega lítið. Eiður spurði hvort ekki væri nauðsynlegt að benda ökumanninum á yfirsjón sína. Mér þótti það tilvalið.

Við gengum að bílnum og hafði Eiður orð fyrir okkur en varla er hægt að nefna ræðuna tiltal. Miklu frekar má segja að ráðherrann hafi hundskammað aumingja ökumanninn sem nærri því beygði af. Ég vorkenndi manninum mikið og fannst það vart á bætandi að segja honum að sá sem sagt hefði honum til syndanna væri enginn annar en umhverfisráðherrann í ríkisstjórn Íslands og sleppti því þess vegna.

Mér til mikillar ánægju svaraði Eiður í athugasemdum við pistilinn. Hann skrifaði:

Ég man vel eftir ferðinni, Sigurður, en ekki eftir skömmunum. Átti hann það bara ekki skilið????

Það var blíða á Skógum, þegar  við fórum þaðan.  Þetta var stuttur  spölur sem við þurftum að ganga, en   maður varð  gegndrepa næstum samstundis. Hávaðarok og ekta slagveður, - lárétt rigning.  Þetta gleymist ekki !

Þótt sé liðinn næra aldarfjórðungur,  Sigurður, þá held ég að ég hafi ekkert breyst í þessu efni. Mundi gera þetta aftur í dag, ef tilefni væri til. Verður oft hugsað til þessarar ferðar. Úr ráðuneytinu var dr. Jón Gunnar Ottósson með mér.

Já, svona eiga sýslumenn að vera og þarna held ég að Eiði sé rétt lýst. Ekkert hálfkák.

Málfarspistlar Eiðs voru mikið lesnir. Hann sagði mér að hann væri ekki viss hvort að fjölmiðlarnir tækju mark á honum. Í tölvupósti sagði hann:

Annað er, að blaðamenn taka ábendingum og leiðréttingum illa, - telja  engan þess umkominn að segja þeim til. Þetta hef ég fundið og veit að ég er ekki hátt skrifaður hjá  fréttastofu Ríkisútvarpsins til dæmis að taka. 

Sé svo finnst mér þetta afar sorgleg, ekki Eiðs vegna heldur Ríkisútvarpsins. Raunar var ég þeirrar skoðunar að á fyrsta ritstjórnarfundi dagsins hefði átt að byrja á því að fjalla um pistla Eiðs. Þar að auki hefði það átt að vera metnaðarmál hverrar ritstjórnar að Eiður hefði ekki tilefni til að nefna nefna nafn fjölmiðilsins vegna málfarsvillna.

En nú er Eiður farinn og fleiri pistlar verða ekki skrifaðir á þeim vettvangi sem hann markaði sér. Í því er raunar mesta sorgin fólgin, en hver veit nema einhver glöggur og góður íslenskumaður taki upp þráðinn og veiti fjölmiðlum landsins aðhald. Ekki veitir nú af.

 

 

 


mbl.is Andlát: Eiður Guðnason
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrýtin gagnrýni Rósu B. Brynjólfsdóttur þingmanns VG

Vandlifað er í henni veröld, sérstaklega ef fara á eftir bullinu í Vinstri grænnum. Einn af nýju þingmönnum flokksins telur það eitt gagnrýnisvert að utanríkisráðherra hafi brugðist við ferðabanni forseta Bandaríkjamanna of seint og of veikt.

„Hæst­vist­ur ráðherra lagði áherslu á að tísta á Twitter og senda færsl­ur á Face­book,“ sagði Rósa Björk. Form­leg­um mót­mæl­um hefði ekki verið komið til skila fyrr en í dag, en þá hefðu þau komið skýrt fram.

Þetta er haft eftir Rósu Björk Brynjólfsdóttur á mbl.is.

Hvaða máli hefðu nokkrar klukkustundir skipt? Dettur þessum þingmanni til hugar að forseti Bandaríkjanna bíði fyrir framan póstkassann sinn eftir mótmælum og meti þau eftir því hversu snemma þær berast? Nei, honum er ábyggilega nokk sama.

Að sjálfsögðu er ástæða til að mótmæla ruglinu í stjórnsýslunni í Bandaríkjunum. Það verður þó aðeins gert á skynsaman og yfirvegaðan hátt. Nokkuð sem Rósa Björk, þingmaður VG, virðist ekki búa yfir.

 


mbl.is Tísti á Twitter og sendi færslur á Facebook
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miklu fleiri skotnir til bana í USA en falla í hryðjuverkum

Gun ViolenceNýjasta tilskipun Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, vekur undrun um allan heim, ekki síst innanlands. Hann hefur sem sagt bannað flóttamönnum frá Sýrlandi að koma til landsins sem og fólki frá Íran, Líb­ýu, Sómal­íu, Súd­an, Jemen og fleiri löndum.

Með sterkum rökum má benda á að byssueign Bandaríkjamanna valdi þar miklu meiri hættu en hryðjuverk, hvað þá hryðjuverk fólks frá ofangreindum löndum og fleirum.

Á línuritin hér hægra megin er sýnt hversu margir Bandaríkjamenn hafa fallið vegna byssuofbeldis innanlands á móti hryðjuverkastarfsemi. Svo hrottaleg eru staðreyndirnar að um 36 manns eru skotnir til bana á degi hverjum í Bandaríkjunum. Samlandar þeirra eru ábyrgir, ekki hryðjuverkamenn frá íslömskum löndum.

EyjanFrá árinu 2005 til 2015 hefur sjötíu og einn Bandaríkjamaður fallið í hryðjuverkum innanlands. Á þessum tíu árum hafa hvorki meira né minna en 301.797 manns fallið fyrir byssukúlum. Aðeins 2% fallinna teljast hafa dáið í fjöldamorðum.

Að hugsa sér, fleiri eiga tíu byssur í Bandaríkjunum en sem nemur íbúafjölda í Danmörku, þar búa 5,7 milljónir manna.

Egill Helgason, bloggari, vekur athygli á tilskipunum Bandaríkjaforseta. Hann birtir í pistli sínum þessar töflur sem hér eru til hægri og segir:

Tölur sýna glöggt hversu tilhæfulausar ákvarðanir Donalds Trump í innflytjendamálum eru, að þær byggja einungis á lýðskrumi, duttlungum og þjónkun við öfgaöfl. Þarna má sjá hversu þessar aðgerðir eru í raun algjörlega þarflausar, bjarga ekki mannslífum – miðað við til dæmis ef settar væru harðari reglur um notkun skotvopna.

Eyjan2Töflurnar innihalda hrikalega sláandi staðreyndir um hið stóra, margbreytilega og volduga ríki sem Bandaríkin eru. Þau eru svo sannarlega land þversagna.

Hinn almenni borgari er í mestri hættu vegna samlanda sinna. Byssur verða þar í landi jafnmörgu að aldurtila eins og umferðin. 

Tilskipun Donalds Trump hefur sáralítið að segja miðað við staðreyndir mála. Honum væri eflaust nær að leggja til atlögu á öðrum sviðum, draga úr byssuglæpum og umferðaslysum.


mbl.is Munu framfylgja tilskipun Trumps
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fleiri slys hljótast af hreyfingarleysi en fjallgöngum

Íslendingar eru skyldugir til að leggja stund á göngur og skíðaíþrótt, þá vaxa þeim ekki fjarlægðir í augum. Sund, leikfimi og fleiri íþróttir eru ágætur undirbúningur fyrir fjallgöngumann jafnframt því, að hann beri virðingu fyrir líkama sínum. Ég veit, að fyrstu tilraunum fylgir nokkur hætta, ef ekki er reynt fólk með í för. En það aftrar mér ekki frá að hvetja fólk til að ganga á fjöll. Fleiri og voðalegri slys hljótast af hreyfingarleysi en fjallgöngum. Ég hef séð kunningja minn hrapa til dauða í Alpafjöllunum, en það fékk mér ekki eins mikillar sorgar og að sjá fjölda fólks, sem ég þekki, grotna niður af fitu, leti og óreglu.

MogginnÞessi tilvitnun flaug mér í hug þegar ég frétti af því að fjallamaður hefði látið lífið í snjóflóði undir Hátindi í Esju. Þetta er sorglegur atburður, átakanlegt slys. Þrír hraustir menn eru að ganga niður af fjallinu lenda í óvæntu snjóflóði, einn deyr og tveir slasast.

Aðeins miklir og traustir fjallamenn leggja í Hátind um þetta leyti árs. Þremenningarnir eru hetjur, ekki sá hluti mannkyns sem „grotna niður í fitu, leti og óreglu“, eins og Guðmundur Einarsson frá Miðdal orðaði það í bók sinni „Fjallamenn“. Tilvitnunin hér að ofan er úr þeirri bók.

Guðmundur var sjálfur hreystimenni, stundaði útiveru og ferðalög, gekk á fjöll og stundaði skíði. Hann var einn af stofnendum Fjallamanna, hóps sem byggði skála á Fimmvörðuhálsi 1949 og ferðafélagið Útivist endurbyggði 1991. Skálinn er tileinkaður minningu frumherjanna í fjallamennsku hér á landi.

ÞverárkotshálsÁsýnd Esju eru margvísleg. Árstíðirnar setja mark sitt á hana, veðurfar og ekki síst markast viðhorf göngufólks til hennar á því hvernig til tekst. Flestir ganga aftur og aftur á Esju og fá aldrei nóg. Sá sem þetta skrifar er einn þeirra.

Gönguleiðir eru fjölmargar. Ég hef að vetrarlagi séð ummerki um snjóflóð nokkuð víða og örugglega falla mörg snjóflóð í fjallinu, fleiri en tölu verður á komið. Eðlilega falla snjóflóð einkum í brattlendi en brattinn þarf ekki að vera mjög mikill og ekki heldur þarf mikinn snjó til að flóð skríði af stað.

Kort EsjaVont er að lenda í litlu snjóflóði. Um það get ég borið og get því ímyndað mér hvílík ógnaröfl börðu á þremenningunum undir Hátindi. Það er ekki aðeins snjórinn sem veldur skaða, líka grjót og möl sem flóðið rífur með sér. 

Ég er ábyggilega einn af hinum kærulausu fjallamönnum. Nær aldrei höfum við ferðafélagar kannað snjóalög áður en lagt er í brattlendi. Líklega erum flestir þannig. Hins vegar vita margir hvernig á að bera sig að til að kanna þau.

Grafin er lítill þverskurður, nokkuð djúpur. Síðan er rýnt í snjóalögin. Þá kemur oft í ljós að lögin eru mismunandi. Sum er fínkorna og þett, önnur grófari. Vandamálið lýtur að því hvernig þessi snjóalög bindast hverju öðru. Séu aðstæður þannig að hnífi megi auðveldlega koma á milli laga má telja það merki um að snjóflóðahætta sé fyrir hendi. Auðvitað eru þessi vísindi talsvert flóknari en hér má skilja.

Myndir

Efri myndin er úr frétt mbl.is, hana tók Kristinn Magnússon.

Hin myndin er tók ég af svipuðum slóðum fyrir nokkrum árum. Lengst til hægri eru Móskarðshnúkar sem teygja sig upp yfir Þverárkotsháls. Hæst ber svo Hátind, 909 m.

Á kortið hef ég svo merkt þau svæði sem ég minnist að hafa séð ummerki um snjóflóð á gönguferðum mínum.

Ég vitna oft í Guðmund Einarsson frá Miðdal. Hann var afar vel ritfær og mikill forystumaður í útiveru og ferðalögum, löngu fyrir minn tíma. Jafnvel voru margir sem lögðu honum það til lasts að hann skuli hafa ferðast um landið, skildu ekkert í þessari áráttu.

Hluti af orðum Guðmundar hér að ofan eru mér afar hugstæð. Vil gera þau að lokaorðum þessa pistils, þau eiga ekki síst við daginn í dag en þá tíð er Guðmundur lifði. Munum samt að við eigum aldrei að sætta okkur við slysin:

Fleiri og voðalegri slys hljótast af hreyfingarleysi en fjallgöngum.

 

 


Þegar þjóðin er sátt við ´óréttlætið´?

Og fyrst bréfritari er byrjaður að vitna í sannfæringu sína sem heimild meitlaða í stein er hann viss um að kosningar færu ekkert verr en þær gera sumar nú orðið, þótt látnir nýttu kosningarétt sinn. Ef sú sanngjarna regla hefði t.d. gilt þegar bréfritari tók síðast þátt í kosningabrölti, að þeir sem hefðu látist síðustu þrjátíu árin eða svo héldu áfram sínum kosningarétti, er aldrei að vita nema hann hefði marið það.

En hefði það verið til góðs?

Það er önnur saga.

Vel skrifaður texti með þokkalegu innihaldi er eftirsóknarverður. Þannig er Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins oft og er hér að ofan er vitnað í niðurlag hans í helgarblaðinu. Stíllinn er léttur og þægilegur og hnyttnin fer ekki framhjá lesandanum. Höfundurinn ræðir um Donald Trump og bandarísk stjórnmál frá öðrum sjónarhóli en tíðkast í flestum fréttum og fréttaskýringum íslenskra fjölmiðla.

Höfundurinn segir vel frá, tekur stundum afstöðu en viðurkennir um leið að hann sé ekki óskeikull:

Hitt er annað mál að þótt það kunni að vera staðreynd að Donald Trump eigi auðvelt með að sannfæra sjálfan sig um eitthvað óljóst og raunar sannfæri fleiri en sig kann hann iðulega að hafa rétt fyrir sér. Síðastliðin tvö ár hefur hann háð kosningabaráttu með öðrum hætti en nokkur annar.

Ótal sinnum hafa þeir sem þykjast vita sitthvað um kosningabaráttu verið vissir um að Trump hafi skotið sig illilega í fótinn. En annaðhvort hafa þessir spekingar (bréfritari með talinn) vitað minna en þeir héldu, Donald Trump verið margfætla eða hann hafi haft ríkulegra innsæi en hið vitiborna fjölmenni.

Bréfritari ræðir nokkuð um kosningakerfið í Bandaríkjunum sem margir hafa fordæmt en nefnir meint kosningasvindl í Illinois og kröfu Repúblikana um að þær yrðu rannsakaðar:

Nixon hafnaði því. Þegar furðu lostnir stuðningsmenn hans spurðu hvort hann áttaði sig ekki á því að niðurstaðan í ríkinu fékkst með svindli sagðist Nixon ekki hafa minnstu efasemdir um það. Og sú væri ástæðan fyrir afstöðu sinni. Það yrði óbærilegur álitshnekkir fyrir fremsta lýðræðisríki heims ef þetta yrði sannað.

Kosningakerfið í Bandaríkjunum er getur líklega ekki gefið rétta mynd af vilja kjósenda sé lítill munur á milli þeirra tveggja sem flest atkvæði hljóta eins og gerðist í síðustu kosningum. Hins vegar þýðir ekkert að tala um það, þetta er það kerfi sem notað er og stjórnmálaflokkarnir eru sáttir við.

Þannig er kosningakerfið í Bretlandi. Eftir síðustu þingkosningar fengu Íhaldsmenn mikinn meirihluta á þinginu þrátt fyrir að hafa aðeins 37% atkvæða. Bréfritari segir:

Af hverju er þetta minna óréttlæti en lítilræði sem munar á Hillary og Trump og mest er tuðað um? Kannski vegna þess að bresku þjóðinni þykir þetta ekki óréttlæti. Hún vill hafa þetta svona. Hvernig er hægt að fullyrða það? Jú, hún var nýlega spurð.

Í kosningunum á undan þeim sem færðu Cameron hreinan meirihluta neyddist hann til að mynda samsteypustjórn með Clegg, leiðtoga Frjálslyndra. Sá flokkur hefur farið illa út úr kosningakerfinu. Hann notfærði sér því samningsstöðuna og sagðist ekki myndu skjóta stoðum undir stjórn Camerons nema fram færi bindandi þjóðaratkvæði um það hvort ekki ætti að breyta stjórnskipuninni þannig að fjöldi þingmanna yrði í réttu hlutfalli við atkvæði. Og auðvitað myndi hvert atkvæði vega jafnt í því þjóðaratkvæði.

Þjóðaratkvæðagreiðslan fór fram og Clegg lá kylliflatur. Breskur almenningur vildi miklu fremur hafa hreinar línur í pólitík en að upp rynni tími samsteypustjórna og smáflokkafargans þar sem nördar hefðu úrslitaáhrif á stjórn landsins.

Hér á Íslandi halda sumir upp þeirri gagnrýni að landið sé ekki allt eitt kjördæmi. Vel má vera að skotheld rök séu fyrir því. Hins vegar var meirihluti fyrir núgildandi kjördæmakerfi og eiginlega ekkert annað við því að gera en að hvetja til þess að vægi atkvæða verði sem réttlátast.

í Reykjavíkurbréfinu er rætt um kosningasvindl, kosið sé í nafni látins fólk og fjallað um þá staðreynd að skortur á stjórnarskrá háir ekki Bretum. Allt forvitnileg umfjöllunarefni.


Fjórir hafa fallið af Grímsfjalli og í Grímsvötn

910710-60Nú bætist við í þann hóp sem fallið hafa fram af Svíahnúk hinum eystri og ofan í Grímsvötn. Þeir eru nú orðnir fjórir.

Fyrstur gekk þar fram af Leifur Jónsson, læknir og kunningi minn úr Útivist. Þeir voru fjórir á ferð á gönguskíðum norður Vatnajökul og áðu í skálanum á Grímsfjalli.

Daginn sem þeir lögðu af stað var blindbylur á fjallinu en engu að síður héldu þeir áfram, vitandi að bylurinn væri bara á fjallinu, neðar væri bjart. Einhvern veginn atvikaðist það svo að Leifur og Magnús Hallgrímsson, félagi hans beygja lítilsháttar til vinstri í upphafi, þrátt fyrir að hafa áttavitastefnu austur af fjallinu.

Skyndilega missti Leifur jarðtengingu og féll, heillengi, að því að hann sagði síðar. Lenti einu sinni á bakinu og þá bjargaði bakpokinn honum og síðan í snjó undir hömrunum. Magnús var nærri því farinn á eftir honum og stóð heillengi á brúninni án þess að sjá hvað orðið hefði af Leifi. Eftir nokkurn tíma áttaði hann sig á því hvar hann var og þá tók við mikill barningur að finna Leif og koma honum upp. Leifur var nær óskaddaður og hefur stundum sagt frá þessu ævintýri í góðra vina hópi. Fallið var um sjötíu metrar ef ekki meira.

910710-69Þetta var þó ekkert miðað við raunir jarðfræðingsins Bryndísar Brandsdóttur sem ók í svipuðu veðri sömu leið fram af fjallinu, féll 200 metra, og hafði það af án þess að slasast mikið. Kraftaverk bjargaði henni og ferðafélaga hennar.

Í þriðja sinn hefur maður fallið fram af Grímsfjalli og vonandi er hann óslasaður.

Grímsvötn eru heillandi staður þegar gott er veður. Í fyrsta sinn er ég kom þangað var bjart og fallegt. Náði að ganga með félögum mínum vestur eftir endilöngu fjallinu og niður á vötnin, undir því og aftur upp austast. Þetta var gríðarlega löng leið en virtist í upphafi vera svo ósköp lítil og stutt.

Allt í Grímsvötnum vekur ógn. Stærðin, auðnin, víðáttan og saga eldgosa. Samt er óskaplega gaman að koma þangað en eins og oft er sagt, mjög gott að komast í burtu. Ekki er á það bætandi að ég er gríðarlega hræddur við jökulsprungur, sem er ekki gott fyrir fjallamann sem fer víða um á gönguskíðum.

Efri myndin er tekin vestarlega á Grímsfjalli, Grímsvötn hægra megin.

Neðri myndin er tekin á Grímsvötnum, ísilögðum eða öllu heldur snævi þöktum. Horft er upp í hamrastálið nokkuð vestan við þann stað sem líklegt er að ferðamaðurinn hafi fallið.


mbl.is Gekk fram af og féll 150 metra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hentistefna Þorvaldar Gylfasonar

Svanur rökstyður ályktun sína með því að benda á opinberar upplýsingar sem fv. ríkisstjórn hélt leyndum fyrir kjósendum í haust leið, upplýsingar um Panama-skjölin o.fl. sem hefðu getað haft afgerandi áhrif á úrslit kosninganna og girt fyrir myndun meirihlutastjórnar á Alþingi með 47% atkvæða að baki sér.

Þannig skrifar Þorvaldur Gylfason, prófessor, í Fréttablað dagsins. Hann lætur ekki deigan síga í atgangi sínum gegn núverandi ríkisstjórn.

Vandinn er hins vegar sá að allt lendir í hnút í hausnum á Þorvaldi þegar kemur að mati á hlutfallstölum og hversu marktækar þær eru.  

Með rembingi reynir hann að halda því fram að ríkisstjórnin sitji með minnihluta atkvæða. Hann bendir líka á að hefði stjórnarskráin, sem hann átti þátt í að semja, verið samþykkt hefði til dæmis Sjálfstæðisflokkurinn ekki fengið tuttugu og einn þingmann heldur átján eða nítján og þar með hefði ríkisstjórn hans með Viðreisn og Bjartri framtíð ekki orðið til. Við liggur að Þorvaldur tárfelli.

Nú ber þess að geta að þjóðaratkvæðagreiðslan sem hann nefnir hafði hið opinbera heiti samkvæmt þingsályktunartillögunni: „Ráðgef­andi þjóðar­at­kvæðagreiðsla um til­lög­ur stjórn­lag­aráðs að frum­varpi til stjórn­ar­skip­un­ar­laga og til­tek­in álita­efni þeim tengd.“

Þessi „ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla“ fór fram 20. október 2012 og tóku 48% þátt í henni. Sem sagt minnihluti þeirra sem voru á kjörskrá. 

Hefði „ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla“ verið samþykkt með meirihluta atkvæða hefur hún allt annað gildi ... þó sem ráðgefandi, ekki skuldbindandi.

Munurinn á meirihluta í þingkosningum og meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslu er hins vegar afar mikill. Í þingkosningum er leikreglurnar þær að kosið í kjördæmum. Niðurstöðurnar í október 2016 urðu þær að ríkisstjórn var mynduð á þingi með meirihluta atkvæða þingmanna. Í því er þingræðið fólgið. Svo einfalt er það.

Nú kann einhver að segja að það sé óréttlátt að kjósa í kjördæmum. Aðrir eru því fylgjandi og rök eru fyrir hvoru tveggja. Meðan reglurnar eru þessar verða menn að una niðurtöðunum, þrátt fyrir þá annmarka sem hugsanlega kunna að fylgja.

Ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslan“ 2012 fór hins vegar svo að hún varð ekki nothæf, hún var hvorki ráðgefandi né skuldbindandi. Menn geta ekki haldið því fram að þjóðaratkvæðagreiðsla sé gild með 48% kosningaþátttöku og um leið fullyrt að ríkisstjórn með 47% greiddra atkvæða sé ógild.

Í „ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslunni“ var spurt:  „Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?“ Aðeins 31% þeirra sem voru á kjörskrá samþykktu, en 15% voru á móti. 

Væri ætlunin að taka þessa spurningu sem skuldbindandi niðurstöðu mætti allt eins halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn með sín 29% atkvæða ætti að hafa meirihluta á Alþingi. Enginn gerir það. Þeir eru til sem fulyrða að ný stjórnarskrá hafi verið samþykkt.

Hins vegar er Þorvaldur Gylfason þannig innréttaður að hann grípur þau rök eða rökleysur sem hann hefur handbær og kjaftar sig að þeirri niðurstöðu sem honum hentar. Að því leitinu til eru þeir Þorvaldur og Donald Trump eins og tvíburar, sálufélagar.

Kjaftaskar eru alltaf til leiðinda, hvers lenskir sem þeir kunna að vera. Þeir eru ómarktækir vegna þess að það sem þeir segja er sífellt í bölvaðri þversögn.

 


Mjök erum tregt tungu at hræra ...

DSC_0002 111114 Sólarlag, ÁrbakkasteinarMjök erum tregt
tungu at hræra
eða loptvætt
ljóðpundara;
esa nú vænligt
of Viðurs þýfi
né hógdrægt
ór hugar fylgsni.

Svo segir í hinu ódauðlega kvæði Egils Skallagrímssonar sem hann orti sorgum hlaðinn vegna dauða sonar síns. Skáldið segist orða vant, eigi erfitt með að tjá sig og ólíklegt að úr verði kvæði eða að hugsanir hans skýrist.

Agndofa hefur þjóðin fylgst með rannsókn lögreglunnar á hvarfi ungrar stúlku og örvæntingafullri leit björgunarsveita. Fátt annað hefur komist að í heila viku en fréttir af rannsókninni og leitinni. Svona atburður er sem betur fer einsdæmi en eitt skipti er samt einu of mikið. Sorgin er gríðarleg, ekki síst vegna þess að fráfall ungu stúlkunnar virðist ekki hafa verið nein tilviljun heldur skelfilegur glæpur ...

Lífið á að vera gott en þannig er það ekki alltaf. Umferðin tekur sinn toll. Andartaks óaðgæsla ökumanns veldur tjóni, slysum á fólki og oft dauða. Örstutt er síðan ung stúlka lést í bílslysi á Grindarvíkurvegi og heilt bæjarfélag syrgir hana.

Við verðum að taka höndum saman og koma í veg fyrir ótímabæran dauða fólks. Þetta er undarlega að orði komist en byggist á því að fólk þarf fylgist með hverju öðru. Við þurfum að sinn uppeldi barna okkar á þann veg að þau beri ævilangt virðingu fyrir lífi og heilsu annarra. Lífið er síst af öllu eins og frá er sagt í kvikmyndum eða tölvuleikjum; morð, limlestingar og ógnir.

Við þurfum líka að sjá til þess að öryggismálum sé sinnt eins og kostur er. Vegir séu öruggir, greint sé á milli akstursstefna, krossgötur séu hættulausar, brýr ekki einbreiðar og svo framvegis. Framar þarf ökukennsla að verða mun betri. Það er til dæmis hræðilegt að sjá unga ökumenn upptekna við að handleika síma í akstri og gefa um leið engan gaum að umhverfinu.

Dauði Birnu Brjánsdóttur þarf að skipta máli fyrir þjóðina. Við verðum að taka okkur taka og gera ungu fólki lífið bjartara og öruggara.

Ógæfufólkinu sem ber ábyrgð á dauða Birnu verður refsað, þó ekki sem hefnd heldur til að betrumbæta, gera það að nýtum samborgurum.

Um leið verðum við að átta okkur á því að ekkert þjóðerni og enginn kynþáttur ber ábyrgð á gjörðum einstaklings. Hver er sinnar gæfu smiður.  


Enn hefur Píratinn Jón Þór ekki kært ákvörðun Kjararáðs

Ef þessir þrír aðilar bregðast allir þá mun ég kæra ákvörðun Kjararáðs til dómstóla og hef nú þegar fengið til þess lögfræðing.

BessastaðirRúmir þrír mánuðir eru nú síðan Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata hótaði kærum vegna úrskurðar Kjararáðs. Honum fannst hann fá ofskömmtuð laun og skrifaði þann 8. nóvember síðast liðinn grein í Fréttablaðið þar sem hann segir meðal annars þetta hér að ofan.

HérðasdEnn bólar ekkert á kæru Jón Þórs þingmanns. Samt hefur hann verið á hækkuðum launum í tvo mánuði. Má vera að honum veiti ekkert af og hafi því snúist hugur með kæruna eða vonast eftir því að allir séu búnir að gleyma henni.

Verst var þó að grein þingmannsins var ekkert svo ýkja skörp. Hann ætlaði sumsé að kæra nema eftirfarandi gerðist:

  1. Forsetinn setti bráðabirgðalög gegn ákvörðun Kjararáðs (hann heldur að forsetinn geti sett bráðabirgðalög)
  2. Kjararáð hætti við launahækkanirnar (er tæknilega ekki hægt)
  3. Formenn þingflokkanna lofi því að þeir láti Kjararáð draga launahækkanirnar aftur (sem þeir hafa enn ekki haft tíma til)

Ekkert af þessu hefur nú gerst. Forsetinn dúllar sér með börnunum á Bessastöðum, Kjararáð hefur ekki komið saman frá því í haust og formenn flokkanna eru uppteknir við að sinna börnum og ríkisbúi. Og hann Jón Þór gat gert vel við sig í mat og drykk um jólin, þökk sé veglegri launahækkun Kjararáðs.

Nema auðvitað að þingmaðurinn hafi lagt mismuninn til hliðar og geymi til þess tíma að launin verði lækkuð aftur. Þá skilar hann þessum aurum, skilvíslega með vöxtum.

Nei ... auðvitað hefur maðurinn eytt þessum launum. Þannig er mórallinn í alvörunni hjá flestum hrópendunum.

Og svona er nú pólitíkin stundum. Sumir stjórnmálamenn eru fátt annað en froðan, rísa upp í hita leiksins, hóta, skella hurðum, frussa og lemja á potta og pönnur.

Svo batnar þeim, hin vel leikna reiði „hjaðnar“ og vanagangur lífsins nær yfirtökunum. En seðlarnir, maður lifandi, seðlarnir, þvílíkur munur og búdrýgindi voru þessar launahækkanir fyrir ... suma.

Af skepnuskap mínum bendi ég á fyrri skrif mín um manninn sem þóttist ætla að kæra en hefur ekki enn komið sér að verki.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband