Enn hefur Píratinn Jón Þór ekki kært ákvörðun Kjararáðs

Ef þessir þrír aðilar bregðast allir þá mun ég kæra ákvörðun Kjararáðs til dómstóla og hef nú þegar fengið til þess lögfræðing.

BessastaðirRúmir þrír mánuðir eru nú síðan Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata hótaði kærum vegna úrskurðar Kjararáðs. Honum fannst hann fá ofskömmtuð laun og skrifaði þann 8. nóvember síðast liðinn grein í Fréttablaðið þar sem hann segir meðal annars þetta hér að ofan.

HérðasdEnn bólar ekkert á kæru Jón Þórs þingmanns. Samt hefur hann verið á hækkuðum launum í tvo mánuði. Má vera að honum veiti ekkert af og hafi því snúist hugur með kæruna eða vonast eftir því að allir séu búnir að gleyma henni.

Verst var þó að grein þingmannsins var ekkert svo ýkja skörp. Hann ætlaði sumsé að kæra nema eftirfarandi gerðist:

  1. Forsetinn setti bráðabirgðalög gegn ákvörðun Kjararáðs (hann heldur að forsetinn geti sett bráðabirgðalög)
  2. Kjararáð hætti við launahækkanirnar (er tæknilega ekki hægt)
  3. Formenn þingflokkanna lofi því að þeir láti Kjararáð draga launahækkanirnar aftur (sem þeir hafa enn ekki haft tíma til)

Ekkert af þessu hefur nú gerst. Forsetinn dúllar sér með börnunum á Bessastöðum, Kjararáð hefur ekki komið saman frá því í haust og formenn flokkanna eru uppteknir við að sinna börnum og ríkisbúi. Og hann Jón Þór gat gert vel við sig í mat og drykk um jólin, þökk sé veglegri launahækkun Kjararáðs.

Nema auðvitað að þingmaðurinn hafi lagt mismuninn til hliðar og geymi til þess tíma að launin verði lækkuð aftur. Þá skilar hann þessum aurum, skilvíslega með vöxtum.

Nei ... auðvitað hefur maðurinn eytt þessum launum. Þannig er mórallinn í alvörunni hjá flestum hrópendunum.

Og svona er nú pólitíkin stundum. Sumir stjórnmálamenn eru fátt annað en froðan, rísa upp í hita leiksins, hóta, skella hurðum, frussa og lemja á potta og pönnur.

Svo batnar þeim, hin vel leikna reiði „hjaðnar“ og vanagangur lífsins nær yfirtökunum. En seðlarnir, maður lifandi, seðlarnir, þvílíkur munur og búdrýgindi voru þessar launahækkanir fyrir ... suma.

Af skepnuskap mínum bendi ég á fyrri skrif mín um manninn sem þóttist ætla að kæra en hefur ekki enn komið sér að verki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband