Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Þögn Píratar um launahækkanir kjararáðs er hávær

Píratar reiddust í fyrrahaust yfir því að kjararáð úrskurðaði að hækka skyldi laun alþingismanna, forseta Íslands og fleiri aðila. Nú hefur kjararáð tjáð sig um enn frekari hækkanir launa ýmissa embættismanna.

Ekkert hefur hins vegar heyrst í Pírötum sem njóta auðvitað launa sinn þó Alþingi sé ekki að störfum.

Þeir sem fengið hafa launahækkun á þessu ári og í þokkabót aftur í tímann eru:

  • Skógræktarstjóri
  • Forstjóri Hafrannsóknar
  • Bankastjóri Íslandsbanka
  • Varformaður kærunefndar útlendingamála (!)
  • Forstjóri tónlistarhússins Hörpu
  • Ríkislögmaður
  • Skrifstofustjóri Alþingis
  • Forstöðumaður Greiningar- og ráðgjafastöðvar ríkisins
  • Forstöðumaður Samskiptamiðstöðvar heyrnalausra og heyrnarskertra
  • Forstjóri Borgunar hf.
  • Ríkissáttasemjari
  • Forstöðumaður og varaformaður úrskurðarnefnda umhverfis- og auðlindamála (!)
  • Forstjóri Umhverfisstofnunar
  • Orkumálastjóri
  • Forstjóri Landsnets hf.
  • Jón Þór ÓlafssonForstjóri Fjármálaeftirlitsins
  • Framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar ehf.
  • Ferðamálastjóri
  • Ríkisendurskoðandi
  • Hagstofustjóri
  • Sendiherrar
  • Forsetaritari
  • Varaforseti Hæstaréttar

Píratar segja ekkert. Hugsjón þeirra byrjar og endar á eigin hag.

Myndin hér til hliðar er af hinum geðþekka þingmanni Pírata Jóni Þór Ólafssyni er hann talar tungum í ræðustól Alþingis þann 1. júní 2017, sjá hér.

Þann 9. júní 2017 fékk sá sem hér stýrir eftirfarandi grein birta í Morgunblaðinu. Ekki er leiðinlegt að berja á hugsjónalausum Pírötum. Auðvitað þegja Píratar þrátt fyrir gagnrýni, en þeim líður illa út af þessu.

 

Jón Þór Ólafsson, alþingismaður Pírata, reiddist illa þegar kjararáð hækkaði rausnarlega laun þingmanna. Honum fannst þessi hækkun á laununum sínum svo ... svívirðileg að hann hótaði að kæra hana eftir því sem hann sagði í eftirminnilegri grein í Fréttablaðinu þann 8. nóvember 2016.

    • Hann hótaði að kæra kjararáð fyrir forsetanum (sem í sjálfu sér er óskiljanlegt)
    • Hann hótaði að kæra kjararáð (líklega fyrir dómstólum)
    • Hann hótaði að kæra formenn þingflokka nema því aðeins að þeir láti ráðið hætta við hækkunina.

Um þrem vikum síðar fékk Jón Þór Ólafsson 338.254 króna hærri laun.

 

Hin háværa þögn Jóns Þórs Ólafssonar

Síðan hefur ekkert heyrst í manninum. Menn hafa þagnað fyrir minna fé. Frá og með 1. desember 2016, er launahækkunin var greidd út í fyrsta sinn, gleymdi Jón Þór hann öllum mótmælum. Hann kærði engan, hann kærði ekkert, og líklega rak hann lögfræðinginn þennan sama dag.

Þetta sama haust lýsti forseti Íslands yfir óánægju með launahækkun kjararáðs og kvaðst ekki hafa beðið um hana og myndi ekki þiggja. Síðan hefur hann mánaðarlega gefið um þrjú hundruð þúsund krónur til góðgerðastofnanna. Þegjandi og hljóðalaust. Já, ólíkt hafast menn að.

 

Hvað varð um launahækkun Jóns Þórs Ólafssonar

Sumir þingmenn þrífast á eigin hávaða, hreinlega elska röddina í sér, og ekki síst andlitið, sérstaklega í fjölmiðlum. Það er svo gaman að standa upp og rífa sig út af réttlætis- og lýðræðismálum. Þeir eru samt svo háværir og óðamála að rökhugsunin týnist í öllum þessum látum ... hafi hún nokkurn tíma verið til staðar. 

Þegar launahækkunin upp á 338.254 krónur bætist í budduna segja menn eins og Jón Þór Ólafsson, Pírati í hálfum hljóðum: Vá ... Svo þegja þeir og vona að enginn muni eftir frumhlaupinu.

Hvað gerði Jón við launahækkunina sína? Um það hefur hann ekkert sagt. Hér eru fjórar spurningar:

1. Afþakkaði hann hana?

2. Lagði hann hækkunina inn á bankabók til að geta skilað síðar, með eða án vaxta?

3. Fór hann að dæmi forsetans og gaf hækkunina til góðgerðarmála?

4. Hirti hann hækkunina þegjandi og óhljóðalaust?

 

2,4 milljón króna gróði Píratans

Nú eru liðnir sjö mánuðir síðan Jón Þór Ólafsson, Pírati, fékk launahækkun frá kjararáði og á þeim tíma hefur hann grætt rúmlega 2,4 milljón króna ofan á föstu launin.

Þó hann sé hættur að tala um kjararáð er hann enn hávær, hefur höndlað sannleikann, réttlætið og lýðræðið í allt öðrum málum.

Þrjúhundruð og þrjátíu þúsund kallinn hjálpaði vissulega til, styrkti eflaust sjálfstraustið.

Svona eru nú margir þingmenn, ekkert nema óhljóðin og sjálfselskan og gjörsamlega hugsjónlausir. Launahækkun þingmanna var aldrei dregin til baka eða felld niður.

Þrátt fyrir hávær mótmæli lifa þeir í vellystingum á þessum ágætu launum og myndu aldrei skila þeim eins og forsetinn ...

Um leið þverr virðing Alþingis. Málið er löngu gleymt og þingmenn eru innst inni guðs lifandi fegnir að hafa fengið þessa feitu launahækkun kjararáðs.

Munum launahækkunina næst þegar píratinn Jón Þór Ólafsson fer hamförum á þingi, að hann meinar ekkert með því. Ekki frekar en þegar hann mótmælti launahækkun kjararáðs til handa þingmönnum.

Þetta er bara leiksýning, spuni.


Bull er bull er bull og ekkert annað

Bullari er hávær kjaftaskúmur, ekki fávís heldur fyrst og fremst varasamur. Sá sem veldur öðrum böli getur verið bullari, en sá bullgjarni þvælir sig undan ábyrgðinni með því að rugla hugsanir fólks.

Bullvirkinn þarf ekki ástæður til að gera hlutina, honum er sama hvort þær leiða til góðs eða ills. Bullari nútímans sér tækifæri til virðingar.

Þetta segir Gunnar Hersveinn í grein í Stundinni 1. mars síðast liðinn. Bullarinn er alltaf bullari, jafnvel þótt hann þykist vera að grínast. Vandinn er sá að enginn getur treyst bullaranum. Þegar honum er mótmælt þykist hann vera að grínast, rétt eins og Andri Þór Sturluson, varaþingmaður Pírata sem lagði til að gera árás á Neyðarlínuna, teppa hana til að mótmæla vopnaburði sérsveitar lögreglunnar.

Gunnar Hersveinn á kollgátuna um bullarann.

Bull er ekki gagnrýnin hugsun, ekki markviss mælskulist og ekki aðferð lygarans. Enginn veit hvort bullarinn lýgur, segir satt eða blekkir óvart eða viljandi. Bull getur verið aðferð til að ná völdum í samfélagi sem ber ekki umhyggju fyrir sannleikanum.

Verkefnið um þessar mundir felst í því að vera gagnrýninn borgari sem efast og vill koma í veg fyrir mistök og tryggja að næsta kynslóð fái einnig að njóta gæða lífsins. Bull er bull er bull, það er engin leið til að komast að annarri niðurstöðu.

Mikið óskaplega er leiðinlegt að hlusta á bullið í varaþingmanni Pírata. Hann er ekki einu sinni fyndinn þrátt fyrir að segjast vera að. Svona fólk er stórhættulegt.


mbl.is Hugmyndin greinilega ekki nógu klikkuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hallæri Pírata með mannval

Það sem við getum gert sem erum á móti sýnilegum vopnaburði lögreglunnar, er að hringja á lögregluna og tilkynna grunsamlega vopnaða menn alltaf þegar við sjáum byssur, sama hver ber þær.

Ef nógu margir hringja stöðugt í neyðarlínuna vegna ógnandi manna með skotvopn þá geta þeir þetta ekki.

Það er ekki verjandi fyrir ríkislögreglustjóra að halda þessu til streitu með fleiri hundruð tilkynningar um hættulega einstaklinga í hvert skipti sem löggan festir á sig vopnin.

Þetta segir Andri Þór Sturluson, varaþingmaður Pírata í Suðvesturkjördæmi, á Facebook-síðu sinni. Með smávægilegum breytingum á orðalagi hefði hann komist í flokk með hryðjuverkamönnum af tagi múslima, Baader-Meinhof ... liðs sem telur lögregluna til óvina, „hún gangi erinda valdsins“ svo gripið sé til kunnuglegs frasa vinstri róttæklinga.

Píratar hafa þurft að glíma við margvísleg hallæri í stuttri tilvist sinni. Lengst af hafa þeir þjáðst af skorti á atkvæðum. Þegar skoðanakannanir virtust gefa þeim nær ótakmarkaðan fjölda þingmanna blasti við þeim sá vandi að finna fólk. 

Þann vanda tókst þeim greinilega ekki að leysa heldur virðast þeir hafa notast við uppsóp af vinstri róttæklingum, anarkistum og „wannabe-um“ (þeir sem langar í upphefðina, upphefðarinnar vegna). Og nú eru tíu manns komnir á þing undir sjóræningjafánanum og stunda þar furðulegar æfingar í ræðustóli Alþingis, hávaða og læti. Hins vegar láta þér sér vel líka launahækkunina sem þeir mótmæltu af miklu offorsi síðasta haust en hafa nú gleymt í velsæld sinni. Margir sem kusu Pírata og svo sem fleiri velta nú fyrir sér hvaða kostum þingmennirnir séu búnir ... og ekki síður varaþingmennirnir.

Hugmyndin um að teppa neyðarlínuna mun ábyggilega vekja athygli á málstaðnum, sérstaklega ef afleiðingarnar verða hræðilegar fyrir þá sem þurfa á bráðaaðstoð að halda.

Til viðbótar má hugsa sér að Príatar hvetji næst til þess að skorið verði á dekk sjúkra- og lögreglubíla. Grjóti verði kastað í lögreglumenn við störf sín. Svo má alltaf taka upp gamlar og notadrjúgar aðferðir eins og að grýta þinghúsið eða stjórnarráðið og valda öðrum skemmdum á sameiginlegum eignum landsmanna. Á þingi geta Píratar mótmælt með því að leggjast á móti hækkunum fjárveitinga til heilbrigðismála.

Andri Þór Sturluson, varaþingmaður Pírata, mun ekki verða flokki sínum til fylgisaukningar, þvert á móti. Seint mun hann flokkast sem happafengur.

Nú hefst fyrir alvöru stóra hallæri Pírata, hallæri vegna fylgistaps.

 


mbl.is Varaþingmaður vill teppa neyðarlínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Augnabliki síðar lá ég óvígur í gólfinu ...

SS logreglan 1977Árin 1976 og 1977 fékk ég sumarvinnu í lögreglunni í Reykjavík. Þetta þótti mikil upphefð í þá daga, vel launað starf og mikil yfirvinna.

Í liðinu var margt gott fólk, sumhvert þekkir maður enn þann dag í dag Til dæmis hann Sævar Gunnarsson, fyrrum varðstjóra, sem nú er að vísu hættur störfum. Drengur góður, fróður og skemmtilegur. Hitti hann aftur í vetur sem leið. Hann hefur ekkert breyst.

Ætli við höfum ekki verið um fimmtán strákar sem fengum ráðningu fyrra sumarið mitt. Ég fékk númerið 208, var líklega sá tvöhundraðasti og áttundi í lögreglunni. Minnir að hæst númerið hafið verið 215. Reyndar löggur gerðu grín að okkur og sögðu okkur bera símanúmer! 

Gamlir félagar

Sumir þeirra sem voru þarna í fyrsta sinn ílengdust í löggunni. Nefna má Jón H.B. Snorrason, sem er nú aðstoðarlögreglustjóri í Reykjavík, og Hörður Jóhannesson, yfirlögregluþjón. Einn náunga þekkti ég en hann var á sínu öðru ári sem sumarlögga. Mundi eftir honum úr MR, er þó, minnir mig, tveimur árum eldri en ég. Hann var oftast á miðborgarstöð lögreglunnar og stóð sig vel, kaldhæðinn og hress. Núna er gæinn ríkislögreglustjóri og heitir ennþá Haraldur Johannessen.

Í lögreglunni 1977Á þessum tíma var Sigurjón Sigurðsson lögreglustjóri, Bjarki Elíasson, yfirlögregluþjónn, Magnús Einarsson yfirlögregluþjónn, var á þessum tíma, minnir mig, varðstjóri. Ásmundur Matthíasson var varðstjóri í umferðadeild, einnig Sigurður Sigurgeirsson. Fleiri mætti telja.

Allir voru þeir einstaklega eftirminnilegir, höfðu sín sérkenni en sinntu sínu starfi af mikilli þekkingu og alúð.

Þannig háttaði til í umferðadeild að salerni var skammt frá herbergi varðstjóra. Einn ónefndur varðstjóri þurfti að bregða sér þangað en heyrði þá að gestur kom í varðstjóraherbergið og vildi hitta hann.

Sagði þá varðstjórinn: „Var einhver að kalla á mig“, og snéri sér við og meig í hálfhring út á gólfið áður en hann áttaði sig. Þessi saga var fræg þarna innandyra.

Fyllikall

Á fyrstu vaktinni minni í umferðadeild var tilkynnt um ölvaðan mann sem lent hafði árekstri á Sundlaugavegi. Ég var skráður í bíl með hörkunagla sem ég man ekki í augnablikinu hvað heitir. Við hlupum út í Volvo-löggubíl, rauðu ljósin blikkuðu á þakinu. Félagi minn sagði mér að toga í sírenuhnappinn. Hann var þeirrar gerðar að um leið og togað var í hann vældi lúðurinn á þakinu en hélt áfram að væla með sama tóni nema maður ýtti takkanum inn. Verkefni mitt á þessari stuttu leið var að toga í hnappinn og ýta honum inn til skiptis og um leið reyndi ég að halda mér svo ég ylti ekki um í bílnum. Ökumaðurinn steig pinnann í botn, jafnvel í beygjum.

Við komum að horni Sundlaugavegs og Reykjavegs í sama mund og lögreglumaður á mótorhjóli. Það var hann Sigurður Benjamínsson, annar hörkunagli sem vílaði ekkert fyrir sér.

Þarna á götuhorninu var einhver fyllikall sem nýstiginn var úr bíl sínum og var með dólgslæti og reyndi að segja löggunni hvað hún ætti að gera.

Hvorki fyrr né síðar hef ég séð tvo lögreglumenn handtaka mann á jafn fumlausan og skjótan hátt eins og þarna gerðist. Manninum var einfaldlega skellt á húddið á bílnum, í loftinu var hann kominn með hendur aftur fyrir bak og er hann lenti var handjárnum skellt á. Andartaki síðar var hann kominn í aftursætið í Volvóinum. Atburðurinn var handtakan var svo hröð og einföld að fyllikallinn vissi ekkert af sér fyrir en hann var kominn í fangaklefa.

Ég varð oft síðar vitni að svona handtökum og átti þátt í þeim sjálfur en þessi atburður greyptist í minni mitt umfram flestar aðra.

Námskeið

Áður en okkur nýliðum fyrra ársins var sleppt „á götuna“ þurftum við að fara á hálfsmánaðar námskeið. Þar var okkur kennt og sýnt hvernig við ættum að hafa okkur. Grunnurinn var sá að við værum þjónar laga og reglu en engu að síður lögreglumenn. Við voru stöðugt minntir á að við værum ekki upp yfir aðra hafnir, værum ekkert merkilegri en aðrir borgarar þrátt fyrir einkennisbúninginn, kylfuna, handjárnin ... og flautuna. Önnur „vopn“ voru ekki notuð.

Sá sem stjórnaði skotæfingum og raunar æfði hann alla nýliða hét Guðbrandur Þorkelsson, varðstjóri. Hann var einstakur maður. Stjórnaði með heraga og tók ekki vel í neinar málamiðlanir en engu að síður afar skemmtilegur.

Man eftir því einu sinni að hann ræddi frammi á gangi í umferðadeild um hættuna sem stafaði af síðu hári lögreglukvenna og ekki síður hárprúðum lögreglumönnum. Þá höfðu tvær lögreglukonur orðið fyrir líkamsárás, önnur þeirra snúin niður á hárinu.

Við vorum þarna nokkrir og viðhöfðum karlrembulegar athugasemdir um lögreglukonurnar. Guðbrandur tók það óstinnt upp og sagði að við ættum ekki að tala svona heldur andskotast til að láta klippa okkur. Ég var kotroskinn og sagði að enginn myndi nú geta snúið mig niður. Augnabliki síðar lá ég bjarglausí gólfinu og með annað hné Guðbrands á bringunni.

bankaræningi aJæja, Sigurður minn. Hann glotti en sagði ekkert annað. Kennslustundinni var lokið.

Guðbrandur hafði einfaldlega þrifið aftan í hárlubbann á mér og snúið mig eldsnöggt niður.

Félagar mínir sem þarna stóðu hlógu auðvitað af óförum mínum, en þarna hafði dálítið merkilegri atburður gerst en að mér hefði verið skellt. Þetta var lexía.

Fullyrði þó að í dag geti enginn snúið mig niður á sama hátt ...

Byssur

Við fengum að skjóta úr skammbyssum ... Já, á þessum tíma voru skammbyssur notaðar í lögreglunni. Í sumum bílum, sérstaklega þeim sem fóru út á land voru byssur, bæði skammbyssur og haglabyssur. Þetta þótti ekkert tiltökumál. Þær voru víst notaðar til að aflífa dýr, lömb sem höfðu lent fyrir bílum, rottur, minnka og annað. Aldrei nokkurn tímann var byssu miðað að fólki.

Á miðju sumri var skotkeppni haldin meðal lögreglumanna. Hún fór fram yst á Seltjarnarnesi, skammt frá Golfklúbbnum Nes, en þar voru nokkur gömul hús og inni í einu þeirra hafði verið útbúið skotæfingasvæði. Við fengum byssu í hönd, revolver, hlóðum og skutum.

Ég man að ég lenti í öðru sæti á minni vakt og þótti það nokkuð gott hjá nýliða. Ég lét á engu bera en gat þess þó að aðrir en góðar skyttur ættu ekki að taka sér byssu í hönd. Þessi athugasemd þótti mörgum sem heyrðu frekar hrokafull en ekki jafn fyndin og mér.

Bankaræninginn

Mér þótti það mikil lífsreynsla að vera lögreglumaður. Eitt sinn gripum við þýskan bankaræningja, Lugmeier að nafni. Þá voru meðfylgjandi myndir teknar af okkur og birtar í þýsku tímariti. Höfundur er lengst til vinstri á efri myndinni en aftast til hægri á hinni.

Síðan ég gekk um ganga á lögreglustöðinni hefur allt gjörbreyst. Tæknin er allt önnur, mannskapurinn miklu betur þjálfaður og ég er þess fullviss að enn gildir það sem mér og öðrum nýliðum var kennt í upphafi að lögreglan er ekki yfir neinn hafin, lögreglumaður er þjónn laga og reglna.

bankaræningiGangbrautarglæpurinn

Á þessum árum fengum við það verkefni að ganga niður Laugaveginn, Skólavörðustíg, Hverfisgötu og götur í miðbænum. Það var erfitt fyrst en svo vandist það. Einu sinni handtók ég mann sem gekk yfir Snorrabraut á rauðu ljósi. Þrátt fyrir að hann sæi lögreglumanninn vildi hann storka honum, ég var ímynd valdsins. Og ég beitti því.

Ég flutti manninn inn á lögreglustöð og fyrir varðstjóra. Sá rak upp stór augu, sagði mér síðar að hann minntist þess ekki að lögreglan hafi handtekið mann fyrir að ganga yfir á rauðu ljósi - og svo glotti hann.

Ég sá dálítið eftir handtökunni, hafði þá ekki gert neitt rangt. Maðurinn reyndis hundleiðinlegur, kjaftfor, húmorslaus og vildi helst boða til byltingar. Honum var sleppt, án sektar eða áminningar en hefði átt að fá sekt fyrir leiðindi.


Hvað opnar Gröndalshús?

GröndalshúsÞjóðhátíðardagurinn er ekki aðeins tengdur sjálfstæði okkar heldur einnig tungumálinu.

Núna er svokallaður tyllidagur og ótal ummæli benda til þess að það sem sagt er á slíkum dögum sé ekki nefnt á öðrum, hvað þá að efndir fylgi. Auðvitað eru þetta ekki nein algild sannindi en ...

Látum þetta gott heita en stígum á stokk og strengjum heit um að byrja á því að standa okkur betur á tyllidögum og smám saman gera betur alla aðra daga. 

Þennan stutta formála er tilhlýðilegt að setja með áminningu vegna auglýsingar frá Reykjavíkurborg.

Annað hvort kunna stjórnvöld í borginni ekki rétta íslensku eða þeim er alveg sama. Í auglýsingu á blaðsíðu níu í Morgunblaðinu stendur:

Gröndalshús opnar á þjóðhátíðardaginn 17. júní.

Æ, æ, æ ... Þvílíkt klúður. Þetta fallega, rauðmálaða hús í auglýsingunni opnar ekki neitt.

Hús hafa hvorki vilja né getu til að opna eitt eða annað. Þau eru bara þarna og bíða þess að aðrir sjái um að opna dyr eða glugga og bjóða gesti velkomna.

Með rassbögu, orðalagi sem er er án tengsla við íslenskt mál, er minningu skáldsins Benedikts Gröndal enginn greiði gerður, síður en svo.

Auglýsing er hins vegar vel hönnuð, snyrtileg og lesendur taka ábyggilega vel eftir henni. Hönnuðir hennar hefðu samt átt að grípa í taumanna og segja við Reykjavíkurborg að hús opni ekki ... nema því aðeins að þeir viti ekki betur. Fátt er verra en rangt mál hjá blaðamanni og auglýsingahönnuði.

 


Heilbrigðir læknast ekki

Ég er hærddur um að það sé verið að draga okkur inn í of mikla „lækningavæðingu.“ Læknar geta gert margt gott fyrir fólk sem er veikt o slasað. En þeir geta gert ill verra þegar þeir meðhöndla fólk sem ekki er veikt.

Þetta segir Gilbert Welch, prófessor við Dartmouth-stofnunina í Bandaríkjunum, í viðtali við Morgunblað dagsins.

Það er nokkuð til í þessu hjá manninum, að minnsta kosti frá sjónarhóli leikmannsins. Fjölmiðlar eru óskaplega uppteknir af því að kenna okkur almenningi hvað sé rétt. Við eigum að borða rauðrófuduft til þess að koma í veg fyrir krabbamein. Við eigum að smyrja líkamann einhverri froðu sem á að lækna öll innanmein og jafnvel bólgur í liðum.

Svo eigum við að éta vítamín sem kennd eru við allt stafrófið. Þetta minnir mann á brandarann um manninn sem fór til læknis því hann kenndi sér meins, auðvitað þurfa læknar að lifa og komi enginn til þeirra fá þeir engin laun, sagði náunginn. Hann sagðist hafa lýst verknum og læknirinn skrifaði upp á einhver lyf. Auðvitað fór ég í apótekið, því lyfsalinn þarf að lifa, og ég keypti þetta lyf. Svo fór ég heim og henti lyfjunum af því að ég vil líka lifa.

Auðvitað er lífið allt öðru vísi en hér er lýst. Staðreyndin er einfaldlega sú að flestir eru heilbrigðir og þurfa ekki neinna lyfja við. Engu að síður er þeim haldið að fólki. Lækningaiðnaðurinn er rosalega stór. Jafnvel ég fæ það á tilfinninguna að ég sé eitthvað lasinn og þurfi rauðrófuduft til að lifa af.

Svo eigum við að drekka tvö rauðvínsglös á dag því rauðvínið lengir lífið og eyðir krabbameinsfrumum.

Sá sem best lýsir þessari óáran í vestrænum þjóðfélögum er læknirinn Björn Geir Leifsson, en hann heldur úti Vitleysisvaktinni á Facebook.

Niðurstaðan er einfaldlega sú að heilbirgður maður þarf ekki lækninga við. Raunar er það svo að heilbrigðir læknast ekki ... eðlilega.


Orðræða Vinstri grænna er leiðinlegur áróður

Upplýst hefur verið að króatískar fótboltabullur hafi ætlað sér að eyðileggja leik Íslands og Króatíu síðasta sunnudag. Eftir ábendingar yfirvalda í Króatíu ákvað lögreglan að handtaka nokkra þeirra sem hingað komu, bullur án miða á leikinn.

Samkvæmt kenningum Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna, og Andrésar Magnússonar, þingmanns sama flokks, hefði lögreglan átt að láta vita hvað stæði til og líklega tilkynna það á fleiri en einu tungumáli. Þess í stað vinnur lögreglan þegjandi og hljóðalaust sín störf og við hin vitum ekkert um málið fyrr en öllu er lokið. Þetta er ástæðan fyrir því að við treystum lögreglunni betur en Vinstri grænum.

Ekkert tilefni var til að banna þessum bullum inngöngu í landið né heldur að halda þeim öllum fögnum fram að brottfarardegi.

Eitthvað var þess valdandi að lögreglan greip til varúðarráðstafanna í hátíðarhöldum vegna sjómannadagsins og litahlaupsins. Hún lét loka götum, lagði bílum og hindrunum á götur svo enginn kæmist akandi að fólki sem var að skemmta sér. Hvers vegna gerði lögreglan þetta?

Stutta svarið er að svona telst til fyrirbyggjandi aðgerða. Sem betur fer gerðist ekkert en þar með er ekki hægt að segja að aðgerðirnar hafi verið marklausar eða tilgangslausar.

Fróðlegt er að fylgjast með talsmáta forystumanna Vinstri grænna. Þau láta að því liggja að hér þurfi engan viðbúnað gegn ógnum sem aðrar þjóðir í Evrópu hafa þurft að þola. Þau reyna með rugla fólk, orðalagið er til þess að gera lítið úr starfi lögreglunnar. 

  • „Almenningur sé upplýstur ...“
  • „Vopnaburður lögreglu á fjölskylduhátíð ...“
  • „Umbreyting á ásýnd lögreglunnar ...“

Takið eftir orðræðunni og ekki síður samhenginu.

Hvaða vit hefur Katrín Jakobsdóttir og Andrés Magnússon á starfi lögreglunnar? Hið eina sem þetta fólk kann er áróður eða öllu heldur undirróður. Þau reyna að gera lítið úr lögreglunni sem stjórnvaldi og varpa rýrð á það ágæta starf sem þó er unnið.

Svona gengur ekki lengur. Látum lögregluna vinna sitt starf í friði. Ef þingmenn hafa einhverjar athugasemdir þá eiga þeir að bera þær fram á á þingi, ekki básúna þær út um allar jarðir til þess eins að upphefja sig sjálfa.

Þegar öllu er á botninn hvolft virðist tilgangur Vinstri grænna sá einn að varpa rýrð á lögreglu og stjórnvöld. Þeir halda að það sé hluti af stjórnmálum og þannig græðist atkvæði. Hversu leiðinlegir eru ekki Vinstri grænir og viðhorf þeirra?

Flestir eru þó þeirrar skoðunar að lögreglan hafi bara staðið sig nokkuð vel.

 


mbl.is Vill að almenningur sé upplýstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Illskiljanleg frétt

Embættismenn í Maryland-ríki í Bandaríkjunum og höfuðborginni Washington hafa hafið málsókn gegn Donald Trump Bandaríkjaforseta vegna þess að hann hafi tekið við greiðslum frá erlendum ríkisstjórnum í gegnum viðskiptaveldi sitt.

Þannig hefst frétt um Trump á mbl.is í morgun. Stundum skil ég ekkert í fjölmiðlum, jafnvel Mogganum. Skil til dæmis ekkert í því hverjir þessir „embættismenn“ eru sem hafa ákveðið að fara í mál við Trump kallinn.

Velti því fyrir mér hvort til sé „félag opinberra starfsmanna í Maryland“ sem hafi ákveðið að fara í mál við forsetann. Dreg það við nánari umhugsun í efa að slíkt félag (sé það æa annað borð til) standi á bak við lögsóknina.

Þá bögglast það fyrir mér hvort „félag stjórnenda ríkisstofnanna í Maryland“ (ef það er nú til) hafi farið í mál við forsetann.

Svona er ég illa að mér í innviðum bandarísks samfélags og enn síður einstakra ríkja. Ég treysti einfaldlega íslenskum fjölmiðlum. Dreg hins vegar ekkert í efa að Mogginn hafa áreiðanlegar heimildir fyrir því að embættismenn í Washington ætli að stefna Trump.

Á vef CNN fréttastofunnar stendur hins vegar um sama mál:

The attorneys general of Maryland and the District of Columbia plan to file a lawsuit on Monday alleging that foreign payments to President Donald Trump's businesses violate the U.S. constitution, according to a source familiar with the situation.

Hér eru það saksóknarar í Maryland og District of Columbia, sem er opinbert heiti á höfuðborginni Washington (Washington D.C.) tilheyrir, sem ætla að stefna forsetanum. Og um leið verður fréttin miklu skiljanlegri.

Vissulega er saksóknari embættismaður, það er opinber starfsmaður. Það er Trump líka. Því er vont að einn embættismaður fari í krafti embættis síns í mál við annan fyrir embættisfærslu hans. Séu svo allir nefndir embættismenn flækist málið enn frekar og var það þó ekki einfalt í upphafi. Vissara er nú að fara ekki lengra út í þessa sálma.

Ansi þykir mér samt hart ef maður þarf að fara á milli erlendra fréttamiðla til að öðlast skilning á orðalagi í þeim íslensku.

 


mbl.is Embættismenn í mál við Trump
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leyndardómurinn um forna ljósmynd upplýstur

Bær orginalÞessa mynd tók Johannes Klein (1854-1928), danskur málari og ljósmyndari, á ferð sinni um Ísland árið 1898. Hann var í fylgd með Daniel Bruun, dönskum fornleifafræðingi, sem kom oft hingað til lands að kanna fornar minjar.

Myndin er varðveitt á dönskum söfnum og má meðal annars leita að henni hér.

Þetta er ákaflega falleg mynd af bæ, fyrir framan hann er afgirtur kálgarður, öll hús opin og í fjarska nokkur fjöll.

Myndin var kynnt í mars á þessu ári á Facebook síðu sem nefnist „Gamlar ljósmyndir“. Síðan hefur margt gerst, tæplega fimmhundruð færslur hafa verið skrifaðar um myndina og margir vísir menn og konur tjáð sig, þar á meðal höfundur þessara lína.

Kort leið KleinSitt sýndist hverjum um myndina og hvar hún gæti verið. Margir vildu vita hvar Johannes Klein hefði farið um landið og upplýst var að hann hefði aðeins einu sinni komið hingað.

Hann tók land á Eyrarbakka, reið líklega yfir Selvogsheiði og til Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Þaðan sigldi hann yfir Faxaflóa, fram hjá Búðum, Ólafsvík og Stykkishólmi, síðan yfir Breiðafjörð og fór í land á Reykhólum. Þaðan reið hann með fygdarliði sínu um Dali, yfir í Húnavatnssýslur og Skagafjörð, yfir Kjöl og til Reykjavíkur.

Hér er lítið kort yfir þá staði sem Klein kom á og tók ljósmyndir, teiknaði myndir eða málaði.

Á þeim þremur mánuðum sem liðu frá því að myndin birtist á Facebook áttu margir andvökunætur yfir kortum og ljósmyndum sínum. Lásu í kort á tölvum og mynduðu hugmyndir og kenningar. Undirritaður var fyrst sannfærður um að myndin væri tekin í Skagafirði og væri jafnvel af Mælifelli. Sú hugmynd gekk ekki, nokkrir voru til að leiða höfundinn frá villum síns vegar.

BærinnÞá lá leiðin í Reykhóla og Dali en ekkert fannst þó svo að mikil líkindi fundur í landslagi víða sé myndin borin við það. Samt voru alltaf einhver smáatriði sem trufluðu, fjallstopp vantaði, bæinn vantaði og svo framvegis. Og smáatriði í ljósmynd verður víst að taka með.

Aðrir stungu upp á Hvalfirði, Haukadal, Víðidal, Vatnsdal og fleiri og fleiri stöðum. Allt án árangurs.

Þá gerist það einn góðan sumardag að sá sem kynnti myndina í upphafi leysti gátuna. Sverrir Þórólfsson birti mynd sem sýndi og sannaði að sú gamla var tekin af bænum Miðdalskoti sem er skammt norðan við Laugarvatn og fjöllin í fjarska tilheyra Klukkutindum. Þeir eru norðaustan við Þingvallavatn, skammt frá Skjaldbreið. Á kortinu hér við sést afstaðan milli bæjarins og tindanna.

Gríðarlegar breytingar hafa orðið á landslagi á þeirri rúmu öld sem liðin er frá því að myndin var tekin. Bærinn er löngu horfinn og samnefnt kot komið neðar í landið og er eiginlega stórbýli, að því er manni sýnist.

Gróðurinn er mikill, birkið hefur vaxið upp um allar hlíðar og þar sem á gömlu myndinni virðist lítill gróður er nú þéttur skógur.

Bær 2Og hér er nú mynd tekin í dag, klippt úr stærri mynd, og sú gamla til samanburðar. 

Ekki fer á milli mála að hér er um sama landslagið að ræða.

Bær aGaman að þessu og ekki síður hversu það kom áhugasömum fylgjendum með síðunni á óvart að þarna ætti myndin heima, þar á meðal mér. Hér eru nokkrar athugasemdir:

  • Guðný Þórarinsdóttir: NEI! hjálp! ég á sumarbústað í Miðdal og horfi á þetta útsýni nánast um hverja helgi!
  • Baldur Garðarsson: 4 km fyrir austan Laugarvatn (þar sem bjáninn ég vinn og er búinn að keyra þarna um margoft í vetur á sama tíma og ég hef skoðað myndir af Vestur- og Norðurlandi í leit að staðnum), en þarna eru frístundahús, gætum líka leigt eitt slíkt og haldið fund. Þetta andleysi mitt heitir að sækja vatnið yfir lækinn.

Bær5Leitin að staðnum sem myndin var tekin var afar fróðleg og þótt margar tillögur hafi komið fram stóð upp úr hversu margt fólk býr yfir miklum fróðleik og þekkingu á landinu og sögu þjóðarinnar. Fyrir það má þakka.

Hér eru loks þrjár myndir sem Sverrir Þórólfsson birti með færslu sinni og sanna svo ekki verði um villst hvar gamla myndin var tekin.

Gott er að smella á myndirnar til að stækka þær.


Elsku afiiii, viiiiltu halda á mér?

IMG_9201 - Version 2Kl. 19.02: - Afi, viltu halda á mér?

- Nei, elsku vina.

Kl. 19:03: - Aaaafi, viiiiltu halda á mér?

- Nei, elskan.

Kl. 19:04 Elsku afiiii. Viiiiltu halda á mér?

- Nei, þú ert orðin svo stór að ég get ekki haldið á þér.

Eitthvað á þessa leið hljóðaði samtalið við hana Unni, sonardóttur mína, á göngustígnum upp á Esju. Hún er sex ára. Pabbi hennar hljóp upp göngustíginn á eftir dætrum sínum, þeim Írisi og Rakel, og átti eflaust fullt í fangi með að hafa við þeim spretthörðu lömbum.

Við vorum á á leið á tónleika Aron Can, Þuru Stínu, Úlfs Úlfs og Emmsje Gauta ofarleega í hlíðum Esjunnar. Þúsund sinnum eða oftar hef ég gengið á Esjuna en aldrei sé annan eins fjölda á göngustígnum. Ábyggilega á annað þúsund manns fóru upp, krakkar, unglinga, ungt fólk, kallar og kellingar. Fólk á öllum aldri og allir í banastuði. Ekki endilega vegna tónlistarinnar heldur líklega miklu frekar vegna vímunnar, adrennalínvímunnar, sem leggst á alla sem reyna á sig líkamklega og er svo indæl þegar lagst er niður.

IMG_9190Við Unnur gengum hægt. Ekki vegna þess að ég væri svo hægfara, frekar vegna þess að hún kvartaði og kveinaði í upphafi. Hreinlega nennti ekki þessu labbi. Hún læddi hönd sinni í lúkuna hjá afa sínum og lét hann toga sig áfram.

- Aaafi, viltu halda á mér? spurðu hún hvað eftir annað. Stundum svaraði ég en fannst best að nota öndunina til annars en að masa.

- Aaafi ... kallaði hún ísmeygilega.

IMG_9202- Eigum við að setjast á stein? spurði afi.

- Sjáðu, afi, sagði hún, og var enn ósest. Sjáðu hvað allir bílarnir eru orðnir litlir. Hún benti niður á bílastæðið þar sem við blöstu hundruð bíla í kvöldsólinn.

- Ég get tekið bíl í hendina á mér, sagði Unnur, og þóttist taka örsmáan bíl í lófann sinn.

- En hvað bílarnir eru orðnir litlir, sagði afi. Þú getur sett þá í vasann.

- Nei ... sagði sú litla, hálfhneyksluð. Það eru engir vasar á buxunum mínum.

Afi hló inni í sér en lét á engu bera. Við sátum á steini og horfðum á útsýnið. Svo héldum við áfram, fundum okkur stað í nær óslitinni röðinni og smám saman komumst við hærra.

- Hvenær komum við? spurði Unnur litla.

-Hlustaði, sagði afi. Heyrirðu ekki í tónlistinni. Við hljótum að vera næstum því komin.

Sú litla stoppaði og hlustaði. Já, sagði hún. En eru tónleikarnir byrjaðir?

IMG_9214 - Version 2- Já, mér heyrist það, sagði afi.

- Flýtum okkur þá, sagði Unnur, og hún greikkaði sporið, fór helst til hratt fyrir afa.

- Sjáðu, sagði Unnur, allt í einu. Þetta eru ekki tónleikarnir, þetta er hátalari.

Og viti menn þarna var hátalari á mel fyrir ofan göngustíginn, bein útsending frá sviðinu fyrir ofan.

- Og þarna er annar, sagði Unnur, stuttu síðar og benti á hátalarabox, skammt fyrir ofan litla lækinn sem rennur úr mýrinni og yfir göngustíginn. Glymjandi tónlist barst úr honum, eins og þeim fyrri. Ekki beinlínis sú tónlist sem ég kann best við en ég var ekki á leið upp á Esju til að hlusta á tónlist.

Við vorum nú komin upp fyrir mesta brattann og göngustígurinn sveigði austur fyrir mýrina og svo upp hlíðina að svokölluðum Steini og síðan áfram upp hamranna.

Unnur gerðist nú djarfari, sleppti hönd afa síns og skokkaði áfram. Svo stoppði hún og snéri sér við og horfið glettnislega á afa sinn sem puðaði á eftir henni. Hún vildi ekki týna honum í mannmergðinni. Afi blikkaði hana, hún brosti en það var ekki fyrr afi hafði náð henni að hún skokkaði hún af stað. Þetta endurtók sig nokkrum sinnum. Þannig bjó hún til sitt eigi öryggi.

Svo sáum við glitta í sviðið en göngustígurinn lá ekki beint að því heldur aðeins ofar. Unnur gekk að litla læknum í lægðinni við göngustíginn og velti því fyrir sér hvort hún ætti að stökkva yfir.

IMG_9233 - Version 2- Stökktu, kallaði afi, hvetjandi, en öryggið var henni mikilvægara, hún vildi ekki missa af afa. Hún greip í hönd hans og þau leiddust upp þar sem flestir héldu út af göngustígnum og yfir þúfurnar að melnum þar sem sviðið blasti við. Sko, þar stóð hann pabbi og systurnar hennar og veifuðu. Unnur þaut af stað eins og ör og í áttina að pabba sínum. Hann virtist kalla eitthvað en orðin týndust í hávaðanum frá tónlistarmönnunum.

- Ég sagði, passaðu þig á bleytunni, sagði pabbi brosandi, þegar hann hélt yngstu dóttur sinni í fanginu.

- Ég er ekkert blaut, bara sveitt, sagði sú stutta, losaði sig og stökk til systra sinna.

- Afi, afi, afi ..., kölluðu Íris og Rakel. Við erum votar, bara á einum fæti ekki hinum ... Svo kom sagan af því hvernig þetta vildi til og þær sögðu sömu söguna í kappi við hvora aðra. Nú kom það sér einstaklega vil að afi er með tvö eyru og gat einbeitt sér að því að hlusta á tvær sögur í einu. Auðvitað eru hæfileikar afans bundir við smásögur, eða öllu heldur örsögur. Sko, þær stigu í bleytu, vatn seitlaði í annan skó beggja og þær kipptu fætinum upp og pabbi reddaði öllu. Tók þær úr og vatt sokkanna. Þetta er í stuttu máli endursögn afa.

Fjöldi fólks var þarna uppi og tónlistin bergmálaði á milli Þverfellshorns og Gunnlaugsskarðs og kastaðist svo til baka frá hömrunum í Kistufelli og fór þaðan út í algleymið þar sem hún ferðast enn og er komin á tífaldan hraða ljóssins á leiðinni framhjá Satúrnusi.

Börnin, krakkarnir, unglingarnir, unga fólkið, kellingarnar og kallarnir voru þarna í banastuði, ölvuð af adrennalíninu eftir gönguna upp. Fólk talaði og hrópa, hló og kættist.

Jú, og sumir komu upp með þyrlum en þótt það sé gaman er það aldrei eins gaman og að ganga upp. Í því felst hinn sanna gleði sem endurspeglaðist í andlitum fólks sem var rjótt og kátt eftir gönguna. Alveg stórkostlegt að sjá.

Við hlustuðum á listamennina spila og syngja. Frábærir tónlistarmenn og stórkostlegt umhverfi.

- Afi, þú lofaðir að halda á mér niður, sagði Unnur, og horfði ómótstæðilegum augum sínum á afa sinn.

IMG_9283 - Version 2Afinn hikaði, reyndi að slíta augnsambandið, og velti því fyrir sér hvernig hann gæti komist hjá því að efna áður gefið loforð.

- Ég ætla að hlaupa, sagði Íris.

- Ég líka, hrópaði Rakel.

Skyndilega var Unnur tekin á sprett. Hún ætlaði sko ekki að bíða eftir að afi sinn ákveddi sig og þar að auki var miklu skemmtilegra með systrum sínum.

- Fariði varlega, hrópaði pabbinn, og tók stórstígur á rás á eftir dætrum sínum. Þær svöruðu engu, að minnsta kosti heyrðum við það ekki. Afinn rúllaði áfram á eftir syninum, en þeir höfðu ekkert í stelpurnar.

- Sjáðu þær, sagði pabbinn, og í augunum hans ljómaði föðurlegt stolt.

Afinn var hræddastur um að þær rynnu í brattanum á göngustígnum enda bara á strigaskóm. Þær kunnu þó fótum sínum forráð og ferðin niður gekk aldeilis klakklaust. Margir fullorðnir áttu þó í vandræðum því strigaskór eru fjarri því góður búnaður til gönguferða í Esju. Þó gangan upp hafi verið tiltölulega þægileg runnu margir á rassinn á niðurleiðinni, þó enginn skaðaðist mikið, eftir því sem best er vitað. 

Nokkru fyrir ofan næst neðsta lækinn beið Unnur. Hún brosti til pabba síns, leyfði honum að ganga framhjá en beið eftir þeim gamla. 

- Veistu hvað? afi, spurði hún. Afi vissi ekki.

- Sko, ég pissaði upp og nú þarf ég aftur að pissa. Finnst þér það ekki skrýtið?

- Nei, sagði afi. Þegar við þurfum að pissa, þá pissum við. Það er ekkert skrýtið við það.

- En hvar? spurði Unnur.

Afi fann stað innan við lúpínurnar, við stóru tréin, í hvarfi frá göngustígnum. Eftir þetta stutta stopp hlupum þau niður, það er sú stutta hljóp en afi stikaði stórum. Þarna var pabbi og Unnur stökk í fangið á honum..

- Heyrðu Unnur? Var afi ekki búinn að lofa að halda á þér niður? spurði afi.

- Jú, sagði hún, og brosti með tilhlökkun, fattaði ekki gabbið.

- Komdu, sagði afi, og setti hana á háhest. Unnur hrópaði af fögnuði og saman stikluðu þau yfir brúna og grjótið. 

IMG_9295 - Version 2- Og nú erum við komin niður, sagði afi, prakkari, einni mínútu síðar.

- Þetta var stutt, sagði Unnur, hin djúpúðga, og pældi ekkert meira í gabbinu heldur hljóp til systra sinna og þær fóru í kapphlaup að bílnum.

Afi þykist fyrir löngu hafa fært sönnur á að tregða barna að ganga upp brattar brekkur eða á fjöll stafar ekki af leti eða getuleysi. Þeim finnst bara svo leiðinlegt að ganga bratt, finnst það jafnvel tilgangslaust. Aðferð hans, sem er hvort tveggja pabbi og afi, er að gera gönguna skemmtilega. Hér áður fyrr greip hann til þess ráðs að segja sonum sínum sögur af álfum, tröllum og hamförum sem hann spann upp á leiðinni. Það reyndist ágætlega en krafðist ansi mikils súrefnis svo að pabbinn var nærri því blár er upp var komið.

- Teldu upp á eitthundrað, sagði afi við Unni. Hún taldi, hægt og rólega, gleymdi að stoppa og gekk upp. 

- Hvað kemur næst, sagði hún, og hafði komist í tuttugu og níu. Afi hjálpaði til eftir því sem þörf var á.

- Fimmtíu, sagði Unnur. Við eru komin að brúnni og ég ekki einu sinni komin upp í hundrað.

Systurnar sofnuðu vært þetta kvöld. Daginn eftir var lífið harla gott eins og æskuárin eiga að vera því litlar stelpur fá ekki harðsperrur eftir fjallgöngu. Afinn var aftur á móti doldið stirður þegar hann vaknaði. Það lagaðist samt enda er lífið honum harla gott.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband