Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

To love og að elska, fallbeygingar og anda með ... afturendanum

Orðlof og annað

Maður og þú

Hér áður fyrr þótti ekki gott að nota orðið maður sem e.k. óákveðið fornafn. 

Þannig segir t.d. í Íslenzkri setningafræði Jakobs Jóh. Smára frá 1920: 

„Allmjög tíðkast nú í ræðu og riti orðið maður sem óákv. forn. (í öllum föllum); er sú notkun af útl. uppruna (d. og þ. man), og er alröng.“ 

Margir amast enn við þessari notkun, en þó hefur hún öðlast nokkra viðurkenningu í seinni tíð. Það stafar ekki síst af því að upp er komin önnur villa hálfu verri; þ.e. sú að nota annarrar persónu fornafnið þú í sama tilgangi, þ.e. sem e.k. óákveðið fornafn. Sú notkun er komin úr ensku, og hana ber skilyrðislaust að forðast.

Málsnið og málnotkun eftir Eirík Rögnvaldsson.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„„Ég myndi elska að eyða öllu kvöldinu að tala um Hatara““

Fyrirsögn á dv.is.          

Athugasemd: Ofangreind fyrirsögn er höfð eftir bandarískum sjónvarpsmanni. Hún fær mann til að velta fyrir sér íslensku sögninni að elska og samsvarandi sögn á ensku, „to love“.

Ég hef það á tilfinningunni að enska sögnin sé mun viðtækari en sú íslenska. Enskumælandi fólk, sérstaklega Bandaríkjamenn, virðist elska hvað sem er en sú tilfinning á ekki alltaf við um ást eða djúpa væntumþykju, þó hún geti vissulega verið það.

Líklega hefur blaðamaðurinn sem þýddi ekki sömu tilfinningu fyrir íslensku og hann hefur fyrir ensku máli. Mér þykir líklegra að sjónvarpsmaðurinn eigi við að honum þætti skemmtilegt, ánægjulegt að geta talað um Hatara allt kvöldið.

Í orðabókinni segir til dæmis:

Love: feel deep affection or sexual love for (someone): do you love me? 

Like or enjoy very much: I´d love a cup of tea: I just love dancing.

Og: 

Love: a great interest and pleasure in something: his love for football; we share a love of music.

Dálítill munur á að elska konu og þykja varið í tóbak og viskí. Í gömlum slagara sem Þorsteinn Eggertsson samdi og Rúnar Júlíusson söng segir meðal annars: 

Betri bíla, yngri konur, eldra viskí, meiri pening.

Ekki er nú þetta mikil speki þó maður hafi nú stundum sungið með. En áfram úr orðabókinni:

Love: [count noun] a person or thing that one loves: she was the love of his life; their two great loves are tobacco and whisky.

Bretar eru kunnir fyrir að nota sögnina „to love“ við ólíklegustu tækifæri. Í orðabókinni segir:

British informal a friendly form of address: it´s all right, love.

Um daginn var ég í London, átti erindi í búð og konan sem afgreiddi mig sagði: „Here you are love“, og rétti mér skiptimynt og kvittun. Ekki flögraði að mér að þýða þetta beint. Hún sagði: Gerðu svo vel, vinur.

Tillaga: „Mikið þætti mér gaman að því að eyða öllu kvöldinu í spjall um Hatara“

2.

Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri, og Páll Magnússon, þingmaður og fyrrverandi útvarpsstjóri, greinir á …

Frétt á dv.is.          

Athugasemd: Nefnifallsvæðing tungumálsins felst í því að fólk sleppir því að fallbeygja nafnorð, hefur þau í nefnifalli. Þetta er sérstaklega meinlegt þegar fréttir í fjölmiðlum eru með þessum galla, þær eru þá einfaldlega skemmdar.

Á malid.is segir:

Sögnin greina getur verið ópersónuleg og stendur þá með henni frumlag í þolfalli. Bræðurna greinir á um sjávarútvegsmálin. Oftast er þó sögnin persónuleg. Hann getur ekki greint þær í sundur.

Hugsanlega ruglar það blaðamanninn að nöfn útvarpsstjórans eru eins í nefnifalli og þolfalli, hins vegar er það engin afsökun. Þetta er vond villa.

Fréttin hefði mátt vera betur skrifuð: 

Fána-uppákoman var ekki gerð í samráði við RÚV eða fararstjórn. Heldur alfarið frá Hatara komin. 

Hér hefði betur hefði farið á því að sleppa sögninni að gera. Ekki ætti að vera punktur á eftir „fararstjórn“. „Heldur“ er hér samtenging og í beinni tengingu við setninguna á undan. Þarna hefði því átt að vera komma. Fleiri athugasemdir mætti gera við fréttina.

Tillaga: Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóra, og Pál Magnússon, þingmann og fyrrverandi útvarpsstjóra, greinir á …

3.

Lennon andaði með rassgatinu.

Yfirfyrirsögn á dv.is.          

Athugasemd: Fyrir stuttu var kynntur til sögunnar ný ritstjóri á DV. Líkleg er svona orðalag honum/henni þóknanlegt.

Í fréttinni er þetta haft eftir fótboltamanni:

Vonandi kemst ég í betra form því ég andaði með rassgatinu í dag. 

Útilokað er að skilja hvernig íþróttamaðurinn getur andað með þessum líkamshluta. Enn erfiðara er að átta sig á því hvað blaðamanni og ritstjóra gengur til með svona orðalagi. DV setur niður fyrir vikið.

Tillaga: Engin tillaga.

4.

… en spænska höfuðborgin er sögð heillandi vegna áherslu sinnar á sjálfbærni, hjólastíga, breiðar gangstéttar og aðra umhverfisvæna ferðamáta.

Frétt á visir.is.          

Athugasemd: Fallbeyging nafnorða þarf að vera rétt, hún er ein af einkennum íslensks máls. Þarna er orðið gangstétt í eignarfalli eintölu, af samhenginu má ráða að það ætti að vera í fleirtölu. Orðið beygist svona:

Í eintölu: Gangstétt, gangstétt, gangstétt, gangstéttar.

Í fleirtölu: Gangstéttir, gangstéttir, gangstéttum, gangstétta.

Enginn er svo góður í íslensku að hann hafi ekki gott af því að leita eftir staðfestingu á vafamáli, til dæmis fallbeygingu orða. Vefurinn malid.is er frábær heimild og afar þægilegur í notkun. Sá sem hér skrifar notar hann yfirleitt áður en hann fer að agnúast út í málfari í fjölmiðlum. Betra er að hafa vaðið fyrir neðan sig.

Tillaga: … en spænska höfuðborgin er sögð heillandi vegna áherslu sinnar á sjálfbærni, hjólastíga, breiðar gangstéttir og aðra umhverfisvæna ferðamáta.


Umfang og stig meiðsla, hótelbyggingar opna og relevant fólk

Orðlof og annað

Baggamunur

Eitthvað ríður baggamuninn: Eitthvað ræður úrslitum, eitthvað (eitt) hefur úrslitaáhrif eða mikla þýðingu.

Orðatiltækið er kunnugt frá fyrri hluta 19. aldar: Eitthvað ríður baggamun.

Líkingin er sennilega af því dregin er baggar voru fluttir á hestum og setið þannig á milli bagganna að jafnþungt var hvorum megin á hestinum enda er kunnugt af brigðið eitthvað ríður af baggamuninn.

Einnig er hugsanlegt að líkingin sé dregin af því er eitthvað var bundið við „léttari“ baggann, samanber afbrigðið rétta við baggamuninn og orðasambandið jafna baggamun á klárnum.

Mergur málsins eftir Jón G. Friðjónsson.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Umfang og stig meiðsla var þá ekki ljóst en eitthvað um beinbrot og skrámur.“

Frétt á visir.is.              

Athugasemd: Hvað skyldi vera „stig meiðsla“ eða „umfang meiðsla“? Hvorugt er gott. Sama er með orðalagið „eitthvað um beinbrot“. Þetta er illa skrifað og ónákvæmt, jaðrar við bull.

Þetta er ekki góð umfjöllun hjá blaðamönnum á Vísi jafnvel þó þeir hafi fengið orðalagið frá Landsbjörg. Þeim ber að skrifa góðan texta, ekki að breiða út vitleysur. Mestöll fréttin er hnoð, stíllaus og óáhugaverð.

Í fréttinni er talað um „viðbragðsaðila“. Enginn veit hverjir bera þetta heiti enda fráleitt opinbert heiti á einum eða neinum. Giska má á að það séu akandi, gangandi, hjólandi og ríðandi vegfaraendur, lögregla, sjúkraliðar, björgunarsveitir, landhelgisgæslan, íbúar og bændur í nágrenninu. Nær allir sem að slysi koma. Af þessu leiðir að orðið er merkingarleysa og gerir fréttina ónákvæma.

Hvaðan kemur þetta orð, „viðbragðsaðili“. Má vera að blaðamenn þekki enska orðalagið „response team“ og þýði það sem „viðbragðsaðili“ sem er lélegur kostur.

Á vef Wikipediu segir:

An incident response team or emergency response team (ERT) is a group of people who prepare for and respond to any emergency incident …

Algjör óþarfi að kalla björgunarsveit annað er því nafni eða öðru sem það ber. Sama er með lögreglu, slökkvilið, landhelgisgæslu og sjúkraflutningamenn.

Á malid.is segir:

Oft eru til góð og gegn orð í málinu sem fara mun betur en ýmsar samsetningar með orðinu aðili.

T.d. fer mun betur á að segja ábyrgðarmaður, dreifandi, eigandi, hönnuður, innheimtumaður, seljandi, útgefandi en „ábyrgðaraðili“, „dreifingaraðili“, „eignaraðili“, „hönnunaraðili“, „innheimtuaðili“, „söluaðili“, „útgáfuaðili“.

Í upptalninguna vantar letiorðið „viðbragðsaðili“ sem má alveg hverfa úr málinu vegna þess að auðvelt er að nefna þá sem koma að óhöppum, slysum eða náttúruhamförum sínum réttu nöfnum.

Tillaga: Ekki er enn vitað hversu alvarleg meiðslin eru.

2.

„33 voru í rút­unni er slysið var, en farþeg­arn­ir 32 voru all­ir kín­versk­ir ferðamenn.“

Frétt á mbl.is.           

Athugasemd: Af og til sjást fréttir með setningum sem byrja á tölustöfum en það er mikill ósiður og þekkist óvíða.

Nokkuð er um nástöðu í fréttinni. Hún gæti verið hnitmiðaðri ef blaðamaðurinn hefði sleppt óþarfa málalengingum og endurtekningum. Gallinn við margar fréttir eru of mörg orð sem gera þær illskiljanlegar Dæmi:

Allri vett­vangs­vinnu á slysstað var lokið í gær og í dag mun lög­regla ræða við farþega og bíl­stjóra.

Hver er hér munurinn á vettvangi og slysstað? Enginn. Þetta hefði því mátt orða svona:

Vinnu lauk á slysstað í gær. Í dag mun lögregla ræða við farþega og bílstjóra.

Í fréttinni segir að „flestir farþeganna enduðu á Hellu í nótt …“. Fer ekki betur á því að segja að þeir hafi gist á Hellu í nótt?

Tvisvar í fréttinni er sagt að „allir farþegarnir“ hafi verið kínverskir ferðamenn. Einu sinni dugar.

Í upphafi fréttarinnar er sagt að rútan hafi farið út af Suðurlandsvegi. Af myndum má samt ráða að hún hafi oltið.

Tillaga: Þrjátíu og tveir kínverskir farþegar voru í rútunni og auk bílstjórans.

3.

„Sjö nýjar hótelbyggingar opna á næsta ári í Reykjavík og tólf á teikniborðinu.“

Frétt á visir.is.           

Athugasemd: Hús opna ekki, þau eru opnuð. Þetta er með algengustu villum í fjölmiðlum.

Blaðamaðurinn sem þetta skrifar er einbeittur í brotavilja sínum. Hugsanlega veit hann ekki betur. Í upphafi fréttarinnar skrifar hann aldeilis grandalaus:

Búist er við að 800 ný hótelherbergi opni í Reykjavík á næsta ári. […] Gert er ráð fyrir að Marriott hótel opni í byrjun næsta árs.

Þarna heggur blaðamaðurinn í sama knérunn án nokkurrar eftirsjár og hefur ekki hugmynd um að hvorki gömul né ný herbergi opna heldur eru þau opnuð og þaðan af síður hefur Marriot hótel neina getu í þá veru.

Tillaga: Sjö ný hótel verða opnuð í Reykjavík á næsta og tólf á teikniborðinu.

4.

„Exsklúta ákveðna hópa, targeta, sweet spot, lonsa, actually, funnel, relevant fólk, retargetað, event, teaser efni, interests, lookalikemengi ...

Viðtalsþáttur á Facebook á síðu Sahara.           

Athugasemd: Hef í nokkurn tíma haft áhuga á auglýsingum og kynningum á Facebook og notið til þess aðstoðar manns sem er nokkuð fær í þessum efnum.

Ég rakst fyrir nokkru á viðtalsþátt (e. podcast) á Facebook. Tveir afar skýrmæltir ungir starfsmenn segja frá fyrirtækinu sínu og gera það nokkuð vel. Hins vegar tók ég fljótlega eftir því að þau slettu mikið eins og lesa má hér að ofan. Fyrir vikið dró fljótlega úr áhuga mínum og ég lauk ekki við að hlusta á þáttinn heldur gerði þessa athugasemd:

Furðulegt hvað þetta ágæta fólk á erfitt með að tjá sig á íslensku án þess að sletta enskum orðum og orðasamböndum.

Þrem vikum síðar sá maður nokkur ástæðu til að svara mér. Hann sagði:

Það má vera að þér finnst þetta slæmt, en fyrir þá sem eru að vinna með Facebook auglýsingar er þetta jákvætt. Því að ef öll þessi orð væru íslensku yrði töluvert erfiðara að skilja um hvað þau eru að ræða og myndi rýra gildi umræðunnar fyrir þá sem eru að vinna við þessi sömu hugtök á ensku.

Sem sagt, ef nógu mikið er slett þá skilja fleiri umræðuna. Er það jákvætt? Auðvitað stenst þetta enga skoðun. Slettur eru óþrif í málinu. Annað hvort á að tala íslensku eða eitthvað annað tungumál. Ég skil hvað maðurinn á við en í orðum hans felst uppgjöf, íslenskan hentar ekki. Of margir eru á þessari skoðun.

Þetta er nú meðal annars ástæðan fyrir því að ég er ekki bjartsýnn á framtíð íslenskunnar í höndum ungu kynslóðarinnar, sérstaklega þeirra sem starfa í tölvugeiranum.

Þess má geta hér í lokin að engin umræða var um þennan viðtalsþátt á Fb síðunni.

Tillaga: Engin tillaga gerð.


Prestsstarf, hann útvegaði vopn og skortur varð á lyfjum

Orðlof og annað

Hurð og dyr

Sumir menn virðast ekki vissir um merkingu orðanna hurð og dyr. 

Hurð er úr efni og orðið þýðir fleki eða einhver slíkur hlutur til þess að loka dyrum eða opi. 

Orðið dyr þýðir inngangur í hús eða herbergi. 

Orðið hurð getur verið bæði í et. og flt., þ.e. ein hurð, tvær hurðir, en orðið dyr er fleirtöluorð, þ.e. menn tala um einar dyr, tvennar dyr o.s.frv.

Gott mál eftir Ólaf Oddsson.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Þegar sam­ein­ing prestakall­anna í Foss­vogi, Bú­staðaprestakalls og Grens­ásprestakalls, geng­ur í gegn verða þrjár presta­stöður þar.“

Frétt á mbl.is.              

Athugasemd: Uppbygging málsgreinarinnar er slæm, nástaðan er æpandi og má vera að þekking blaðamannsins sé lítil, sem er afleitt. Bera má saman ofangreint og tillöguna hér fyrir neðan.

Yfirleitt er talað um prestsembætti, ekki „prestastöður“. Prestakall er starfsvæði eins eða fleiri presta. Prestur er ekki karl sem kallaður er kall eins og margir kunna að halda. Kall er skylt köllun sem er trúarlegt ætlunarverk prests og með prestakalli er átt við svæðið sem hann sinnir, það er fólkið sem þar býr.

Í fyrirsögn fréttarinnar segir:

Stöður í sam­einuðu Foss­vog­sprestakalli verða aug­lýst­ar í júní.

Rangt er að tala um stöður presta, þetta eru embætti. Til eru embætti ráðuneytisstjóra, sýslumanna, lögreglustjóra og jafnvel er talað um embætti forseta Íslands eða biskups. Við hin gegnum störfum sem oft eru nefndar stöður; kennarar, lögreglumenn, skrifstofumenn, blaðamenn og verkamenn svo dæmi séu nefnd.

Tillaga: Eftir sameiningu Fossvogs-, Bústaða- og Grensásprestakalla verða til þrjú prestsembætti.

2.

Hann út­vegaði vopnið sama morg­un.

Fyrirsögn á mbl.is.              

Athugasemd: Eitthvað gengur ekki upp í þessari setningu, er ekki alveg viss um hvað það er. Í sjálfri fréttinni segir svo:

 … að grunaði kom hönd­um yfir skot­vopnið sama morg­un og ódæðið var framið.

Ekkert er að þessu.

Veit ekki alveg hvað er að, held að sögnin að útvega þurfi að fylgja persónufornafni til að merkingin gangi upp. Ekki er hægt að nota afturbeygða fornafnið: 

„Hann útvegaði sér vopnið sama morgun“ 

Væri sá er um ræðir að vinna fyrir aðra mætti segja svona:  

Hann útvegaði honum/henni/því/þeim vopnið sama morgun“.

Þannig er setningin eðlileg þegar notað er persónufornafn. 

Á norsku kann fyrirsögnin að vera svona:

Han fikk våpenet samme morgen.

Þetta skýrir samt ekki íslenska orðalagið því maðurinn fann, varð sér út um, aflað sér eða tók vopnið þennan sama morgun. Má vera að blaðamaðurinn hafi verið undir áhrifum af enska orðinu „to provide“ er hann skrifaði fyrirsögnina. Hún yrði þá svona á ensku:

He provided the weapon that same morning.

En þetta er alls ekki það sama.

Ég treysti á að lesendur sendi mér línu og leiðrétti mig. Dýrt er að festast í svona „smáatriðum“.

Tillaga: Hann varð sér út um vopnið sama morgunn.

3.

Skortur varð á 45 lyfjum fyrstu fjóra mánuði ársins.

Undirfyrirsögn á blaðsíðu 4 í Morgunblaðinu 15. maí 2019.             

Athugasemd: Hérna er nafnorðið sem ræður en ekki sögnin. Mjög auðvelt er að laga þetta, sjá tillöguna. Munum að íslenska er tungumál sagnorða, enskan er elsk að nafnorðum.

Tillaga: Fjörtíu og fimm lyf skorti fyrstu fjóra mánuði ársins.

4.

Haukum svall móður á síðustu tíu mínútunum.

Undirfyrirsögn á blaðsíðu 27 í Morgunblaðinu 15. maí 2019.             

Athugasemd: Reglulega gaman er að sjá svona tekið til orða á íþróttasíðu fjölmiðils. Aðeins reyndir og vel lesnir blaðamenn geta skrifað á þennan veg.

Sögnin að svella merkir samkvæmt orðabókinni að bólgna, þrútna eða ólga.

Nafnorðið móður merkir hér baráttuhugur en getur líka þýtt  reiði, ákafi og æsingur. Í orðabókinni segir:

Orðstofn þessi er algengur liður í mannanöfnum, sbr. Móðólf(u)r, Móðrek(u)r, Hermóður, Þormóður, Mó(h)eiður. Sjá móðugur, móðga, Móði, móð(u)r (4), -mæði og móð (3). 

Merkilegt er að sögnin af móðga er dregið lýsingarorðið móðugur. Þetta vissi ég ekki fyrr en ég sá þetta í orðabókinni. Leikmennirnir hafa því verið móðugir í merkingunni æstir.

Hér hafa íþróttablaðamenn Morgunblaðsins oft verið gagnrýndir (ekki ítrekað gagnrýndir), rétt eins og kollegar þeirra á öðrum fjölmiðum. Því er ástæða til að gleðjast yfir kjarngóðu málfari. Dæmi um góða málnotkun í fréttinni:

  • Sölvi gekk berserksgang.
  • Leikmönnum féll allur ketill í eld.
  • Sölvi dró úr þeim tennurnar, eina af annarri.
  • Rimman um Íslandsmeistaratitilinn.

Þetta kætir, en á malid.is segir um orðið klisja:

Orðalag sem hefur í upphafi verið frumlegt og snjallt en verið notað svo mikið að það hefur glatað áhrifamætti sínum. […] Í staðinn fyrir tökuorðið klisja færi oft betur á að nota orðin orðaleppur, tugga.

Gaman er að lesa vel skrifaðar og skýrar fréttir og ekki spillir alltaf fyrir þegar blaðamenn nota skrautlegt orðalag. Vandamálið er þegar orðalag er notað of mikið, þá verður það að orðalepp, tuggu, það er klisju, og engum til skemmtunar.

Tillaga: Engin tillaga


Kvikmynd heiðruð, bílvelta varð og hans fangavist

Orðlof og annað

Lítt, miður, minnst

Atviksorðið lítt stigbeygist: miður, minnst. Meirihlutahópurinn „lítt þekktir listamenn“ skyggir á annan hóp sem nefnist þó ekki „lítt þekktari listamenn“. 

Standi einlægur vilji til að nota lítt eru þeir „miður þekktir“ (en hinir). Annars eru listamenn þessir bara (lítið) – minna – (minnst) þekktir.

Málfar á blaðsíðu 16 í Morgunblaðinu, 13. maí 2019.

 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Heiðra kvikmyndina A Star is Born.“

Fyrirsögn á mbl.is.              

Athugasemd: Ekki er hægt að heiðra kvikmynd enda aðeins fólk sem er heiðrað, nýtur heiðurs. 

Útilokað er að heiðra bók, málverk, myndastyttu, steinvölu, tré, flugu, hest, kind, hund, stöðuvatn, á eða úthaf, svo dæmi séu tekin. 

Hins vegar er auðvelt að heiðra höfunda listaverka þar með taldar kvikmynda, og er það iðulega gert, eða eftirlifandi aðstandendur.

Oft eru hús endurbyggð og þá sagt að þeim sé sýndur tilhlýðilegur sómi. Má vera að þannig megi gera með kvikmynd, sýna henni sóma með tónleikum.

Sá sem ætlar sér að heiðra kvikmynd er ekki góður í íslensku. Dreg stórleg í efa að þetta sé hægt á ensku („to honour a movie“ eða „to pay respect“).

Tillaga: Engin tillaga.

2.

Bíl­velt­an varð á fjórða tím­an­um og fór lög­regl­an á Norður­landi vestra á vett­vang ásamt sjúkra­liði.

Frétt á mbl.is.               

Athugasemd: Einfaldara er að orða þetta þannig að bíllinn hafi oltið á fjórða tímanum. 

Þetta er skrifað í svokölluðum nafnorðstíl. Kristján Árnason segir um nafnorðastílinn í erindi sem hann kallar Hugleiðingar um íslenskt lagamál:

Þegar rætt er um sérhæft og uppskrúfað málfar verður mörgum tíðrætt um stofnanamálið svokallaða og nafnorðastílinn sem helst er talinn einkenna það. [...]

En hvaðan kemur þá nafnorðastíllinn? Ég hygg að að hluta til megi rekja hann til eins konar misskilinnar trúar á skýrleik hans eða tilfinningar um að nafnorðastíllinn sé á einhvern hátt hlutlægari eða vísindalegri.

Margir blaðamenn eru ansi góðir í ensku en því miður ekki eins góðir í íslensku. Þeir þýða beint og jafnvel hugsunarlaust og þá verður til frásögn sem oft er menguð enskri setningaskipan.

Tillaga: Bíllinn valt á fjórða tím­an­um og fór lög­regl­an á Norður­landi vestra á vett­vang ásamt sjúkra­liði.

3.

Hans fangavist varði í 27 ár.

Grein á blaðsíðu 8 í Morgunblaðinu 12. maí 2019.                

Athugasemd: Ofangreind tilvitnun hefði mátt vera einfaldari og þar með skýrari. Eignarfornafnið í íslensku er yfirleitt á eftir nafnorðinu sem það á við. Í fjölmiðlum er nú æ oftar haft á undan og finnst mörgum að þá sé áherslan meiri eða tónninn sennilegri en þarna eru þeir sem skrifa undir enskum áhrifum og átta sig ekki á því.

Dæmi: Bíllinn minn er betri. Minn bíll er betri.

Svona viðsnúningur hefur mikil áhrif á íslensku. Fjölmiðlar bera mikla ábyrgð en geta með samræmdu átaki stöðvað þróunina.

Annars er alltaf fróðlegt er að lesa vel samda grein, jafnvel þó maður sé ekki sammála efni hennar. Þannig er það oftast með pistlana sem bera nafnið „Úr ólíkum áttum“. Höfundur þeirra er Ögmundur Jónasson, fyrrum ráðherra og alþingismaður. Hann skrifar yfirleitt ágæta íslensku þó honum hafi orðið fótaskortur að þessu sinni.

Tillaga: Hann var í fangelsi í tuttugu og sjö ár.


Nafn afhjúpað, samankomin kvöld og magn ábendinga

Orðlof og annað

Skammstafanir

Í samfelldu rituðu máli fer best á að hafa skammstafanir sem fæstar. Sérstaklega fer illa ef skammstöfuð eru fallorð. „Hann ráðlagði frkvstj. að segja af sér.“ „Frkvstj. baðst undan því í lengstu lög.“ 

Hefð hefur hins vegar skapast um skammstafanir nokkurra orða og orðasambanda sem sjaldnast eru skrifaðar fullum fetum í samfelldu máli: t.d., þ.e.a.s., þ.e., o.s.frv., o.fl., u.þ.b., s.s. og ýmsar fleiri.

Málfarsbankinn.

Skammstafanir eru mjög víða í fornum skinnhandritum. Þær voru aðallega notaða til að spara pláss. Á síðari tímum voru þær að öllum líkindum til að spara pláss í blýsetningu og að auki að auðvelda setninguna. Núorðið skipta skammstafanir litlu máli, nóg er plássið á netinu. Fjöldinn er mikill og mikil vinna að geta sér til um merkinguna, það tefur lesandann, nefna má Íslensku orðsifjabókina sem er á malid.is.

Svo er það hinir óhefðbundnu nettengdu skammstafanir. Þær hafa bæði komið til vegna plássleysis (til dæmis á Twitter) og til að lýsa tilfinningum. Margt ungt fólk skilur ekki lengur texta, svo sem fyndni, kaldhæðni og annað álíka nema myndir fylgi. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Nafn kon­ung­lega drengs­ins af­hjúpað.“

Fyrirsögn á mbl.is.              

Athugasemd: Vart er hægt að afhjúpa það sem ekki er á einhvern hátt hulið. Á malid.is segir:

hjúpa kv. † ‘yfirhöfn, kápa’; hjúpur k. ‘það sem sveipað er um e-ð, blæja; hula’; hjúpa s. ‘sveipa e-u um e-n, vefja í hjúp’.

Í Stóru orðabókinni um íslenska málnotkun er þessi gagnlega upptalning um hjúp:

Lofthjúpur, gufuhjúpur, veðrahjúpur, veðurhjúpur, skýjahjúpur, þokuhjúpur, skuggahjúpur, nátthjúpur, næturhjúpur, veturhjúpur, kuldahjúpur, klakahjúpur, jökulhjúpur … dularhjúpur, helgihjúpur, huliðshjúpur, töfrahjúpur, þagnarhjúpur, gleymskuhjúpur, tilfinningahjúpur, blekkingarhjúpur, lygahjúpur … efnishjúpur, silkihjúpur, líkhjúpur.

Allt falleg orð og sum háfleyg og jafnvel skáldleg. 

Þegar eitthvað er afhjúpað felst í því að hjúpurinn tekinn af. Líklega má segja að nafn barns sé afhjúpað, til dæmis við skírn. Þannig er aldrei tekið til orða, það strandar á máltilfinningu flestra.

Ég hef það á tilfinningunni að afhjúpun sé eitthvað sem er áþreifanlegt, eins og til dæmis þegar minnisvarði er afhjúpaður, spilling, eða einhver er afhjúpaður vegna glæps.

Þetta er ef til vill langt mál um það sem sumir segja smáatriði en ég er ekki sammála. Orð verða að hæfa tilefni. Til dæmis er trúlofun ekki afhjúpuð, enginn er afhjúpaður sem væntanlegur maki, nýr formaður húsfélagsins er ekki afhjúpaður og svo framvegis.

Á ensku er til dæmis sagt um nafn prinsins: „the name has been announced“ eða „the name has been revealed“.

Hefði ekki mátt kalla „konunglega drenginn“ prins? Það er einfaldara enda er hann í senn drengur og konunglegur.

Tillaga: Nafn prinsins opinberað.

2.

Saka dómsmálaráðherra Bandaríkjanna um vanvirðingu gagnvart þinginu.“

Fyrirsögn á mbl.is.              

Athugasemd: Meirihluti dómsmálanefndar fulltrúadeildar Bandaríkjanna sakar dómsmálaráðherrann um að óvirða þingið, sýna því óvirðingu, ekki tilhlýðilega virðingu. Það gerir hann með því að afhenda því ekki ákveðna skýrslu.

Vanvirðing er nafnorð. Sagnorðið er að vanvirða. Íslenska er mál sagnorða en enska er nafnorðavætt tungumál. Þeir blaðamenn sem kunna vel ensku eru  ekki endilega góðir í íslensku. Það sannast best í þessu tilviki.

Í stað sagnarinnar að vanvirða má nota aðrar sagnir sem hæfa betur tilefninu, til dæmis að óvirða eða lítilsvirða.

Tillaga: Saka dómsmálaráðherra Bandaríkjanna um lítilsvirða þingið.

3.

„Þrjú klikkuð knattspyrnukvöld í röð og hér eru þau samankomin.

Fyrirsögn á visir.is.               

Athugasemd: Margir íþróttablaðamenn skrifa eins og þeir tala og láta allar ambögur og vitleysur fylgja. Hins vegar er mikill munur á talmáli og ritmáli. Þetta er ómöguleg fyrirsögn, raunar órökrétt og fáránleg. Látum samt vera að kvöldin hafi verið klikkuð.

Kvöld geta ekki komið saman, aðeins eitt kvöld er á hverjum sólarhring. Þetta vita allir, jafnvel sá sem skrifar svona, en hann er blindur á eigin verk. Íþróttafréttamaðurinn hefur tekið saman valdar myndaklippur af þremur áhugaverður fótboltaleikjum og það heitir hjá honum að kvöldin hafi komið saman. Þetta er ekki góður stíll

Orðaforðinn virðist ekki vera upp á marga fiska. Í stuttri frétt er óþægileg nástaða. Orðið „dramatík“ kemur tvisvar fyrir í þremur línum. Hefði blaðamaðurinn lesið skrif sín yfir, og vitað hvað nástaða er, hefði hann getað sleppt orðinu á öðrum hvorum staðnum og talað um áhrifamikinn fótboltaleik, tilkomumikinn leik eða eitthvað annað. 

Blaðamaðurinn hefur mikið dálæti á persónufornafninu það og setur líka í nástöðu. Góðir blaðamenn reyna að forðast þennan leiðindalepp sem margir kalla svo. Orðið er yfirleitt merkingarsnautt. Fæstir virðast átta sig á þessu, sérstaklega þeir sem hvorki eru vanir lestri né skrifum. Sá nánar til dæmis hér.

Það er ekki á hverjum degi …“ stendur skrifað. 

Hvað er ekki á hverjum degi? má spyrja á móti. 

Jú, „knattspyrnuveislan“, er líklegt svar. 

Byrjaðu þá á því sem máli skiptir, maður. Ekki nota leppinn þegar í boði er fínt orð eins og „knattspyrnuveisla“.

Upphafnar lýsingar á fótboltaleikjum eru leiðinlegar fyrir lesendur. 

Sjaldnast vinna lið þess í stað „landa þau sigri“. Svona klisjur eru ofnotaðar og verða við það ómerkilegar og leiðinlegar fyrir lesendur. 

Þegar eitt lið er miklu betra en annað í fótboltaleik er talað um að það „yfirspili“ andstæðinginn. Hvað þýðir það? Af hverju má ekki segja að liðið hafi verið betra, leikið betur, verið klókara …?

Tillaga: Klippur frá þremur frábærum fótboltaleikjum á einum stað.

4.

Gríðarlegt magn af ábend­ing­um berst dags­dag­lega frá íbú­um Reykja­vík­ur­borg­ar til borg­ar­yf­ir­valda um það sem bet­ur má fara í sam­göngu­mál­um borg­ar­inn­ar.

Frétt á mbl.is.            

Athugasemd: Fer ekki betur á því að tala um fjölda ábendinga en magn? Magn getur hvort heldur er verið í kílóum eða fjölda. Þó fer betur á að orðsendingar séu nefndar sem fjöldi.

Í orðinu ábending felst að athugasemd, verið er að benda á eitthvað, þó ekki endilega um það sem betur má fara, kvartanir fylgja líka án efa. Hér er tillaga um einfaldari og styttri málsgrein.

Tillaga: Gríðarlegur fjöldi ábendinga berst dags­dag­lega frá íbú­um um það sem bet­ur má fara í sam­göngu­mál­um borg­ar­inn­ar.

 


Skotinn kallaði eftir, og Jón tekinn við Keflavík

Orðlof og annað

Tilbrigði í málfari

Málnotendur hafa oft um ýmsar leiðir að velja til að orða hugsun sína. Margs kyns tilbrigði í málfari eru til en þau eru ekki öll jafngild við allar aðstæður. Sumt er talið við hæfi á einum stað og stund en annars ekki. 

Einn liður í málkunnáttu málnotenda er að hafa vald á því að fella orðaval, orðalag, beygingar, framburð og svo framvegis að því málsniði sem um ræðir hverju sinni.

Sjá nánar á Vísindavefnum.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„„Þetta er hræðileg staða til að vera í, …““

Frétt á visir.is.              

Athugasemd: Aðstæður geta verið slæmar, vondar og jafnvel hræðilegar fyrir þann sem í hlut á. Í stuttu máli má orða þetta þannig að staðan sé hræðileg. Punktur. Orðalagið „… til að vera í“ hjálpar ekkert. Blaðamaðurinn hefur verið að bögglast við að þýða úr ensku með þessum hörmulega árangri.

Fleira má gagnrýna í þessari stuttu frétt. Blaðamaðurinn byrjar setningu á tölustöfum. Hann veit ekki eða kann ekki betur. Slæmt.

Svo hroðvirkur er blaðamaðurinn að hann bullar með nöfn. Í upphafi fréttarinnar er sagt frá flugmanni sem heitir Chris Brady. Etir önnur greinaskilin heitir flugmaðurinn Turner en það er ekki nóg. Eftir næstu greinaskil heitir hann Brady og svo koma önnur greinaskil og þá heitir aumingja flugmaðurinn Turner. Frétt um sama mál er á mbl.is. Þar ber flugmaðurinn sama nafnið í allri fréttinni, Chris Brady og Turner kemur ekkert við sögu.

Þetta er stórgölluð frétt og blaðamanninum og Vísi til áborinnar skammar. Telur ritstjórnin að hægt sé hella einhverju bulli yfir lesendur, bjóða upp á blaðamennsku sem stendur ekki undir nafni. Er engin gæðastefna hjá Vísi?

Tillaga: Þetta er hræðileg aðstaða.

2.

„Skotinn kallaði m.a. eftir því að strákurinn fengi tvo miða á úrslitaleik Meistaradeildarinnar í Madríd og ársmiða á Anfield fyrir framlag sitt í leiknum gegn Barcelona í gær.“

Frétt á visir.is.              

Athugasemd: Enska orðalagið „to call for“ má ekki þýða á sem að kalla eftir. Skotinn í tilvitnuninni kallað ekkert, hækkaði ekki rödd sína. Hins vegar hefur hann líklega óskað eftir, hvatt til, krafist eða heimtað að strákurinn fengi tvo miða.

Munum að mörg ensk orð hafa ekki sömu merkingu og íslensk orð sem eru eða virðast samstofna. Í enskutímum fyrir óralöngu, á skólastigi sem þá var kallað gagnfræðaskóli, tók kennarinn eitt sinn ágætt dæmi sem festist í kolli þess sem þetta skrifar.

Hvað þýðir þetta: „Look out“? Hugsunarlitlir blaðamenn eru vísir með að segja að það þýddi „líttu út“ og það er rétt, svo langt sem það nær. Hins vegar verður alltaf að líta til samhengisins vegna þess að það getur líka þýdd varaðu þig eða passaðu þig. Viðvörun vegna yfirvofandi hættu.

Annað kunnuglegt er orðasambandið „to step aside“ sem klúðraðar í blaðamennsku þýða beint; „stíga til hliðar“. Í flestum tilfellum merkir það hins vegar að hætta. Sjá nánar hér.

Af þessu má ráða að ekki er allt sem sýnist og betra að huga að samhenginu áður en maður fer að bulla einhvern fjárann. Sjá nánar hér. 

Tillaga: Skotinn hvatti til þess að strákurinn fengi tvo miða á úrslitaleik Meistaradeildarinnar í Madríd og ársmiða á Anfield fyrir framlag sitt í leiknum gegn Barcelona í gær.

3.

„Jón Hall­dór tek­inn við Kefla­vík.“

Frétt á mbl.is.               

Athugasemd: Skyldi Jón þessi hafa verið tekinn fyrir of hraðan akstur við Keflavík? Nei. 

Er Jón Halldór skip sem tekið var við veiðar í landhelginni við Keflavík? Nei. 

Var Jón kannski ráðinn bæjarstjóri í Keflavík? Nei.

Svona er nú hægt að misskilja einfalda og „skýra“ fyrirsögn. Líklegast best að taka það fram að Jón Halldór tók við þjálfun körfuboltaliðs Keflavíkur í meistaraflokki.

Auðvitað skilst fyrirsögnin í réttu samhengi, ekkert rangt við hana þó hér sé gerð tillaga.

Tillaga: Jón Hall­dór þjálfar í Kefla­vík.


Hringja símtal, go crazy og holy grail í skíðagöngu

Orðlof og annað

Samtengingar

Aðalhlutverk samtengingar er að vera tengiliður milli einstakra orða, orðasambanda eða setninga. Í setningunni Jón og Gunna eru systkin er og samtenging, […]

Samtengingum er gjarnan skipt í aðaltengingar og aukatengingar. Aðaltengingar eru yfirleitt ekki í upphafi setningar en þó má finna mörg dæmi um það í ritmáli þar sem höfundur notfærir sér þennan möguleika sem stílbragð, til dæmis:

    • Og að því búnu strunsaði hann út.
    • En ekkert ljós kviknaði í glugganum.
    • Bæði drengurinn og stúlkan munu vera orðin veik.

Oft er þessi leið valin til að leggja áherslu á það sem verið er að segja.

Sjá nánar á Vísindavefnum.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Albert hringdi stórkostlegt símtal og lét henda félaga sínum út.“

Fyrirsögn á dv.is.             

Athugasemd: Er rétt að segja að einhver hafi hringt símtal? Flestir hringja og eiga þar á eftir tal í símanum, samtal, við einhvern sem svarar. Slíkt kallast símtal.

„Fréttin“ er um hrekk og blaðamaðurinn er yfir sig hrifinn. Hringingin var ábyggilega ekki stórkostlegt, en í því laug þessi Albert að starfsmanni veitingastaðarins Peterson, kom því til leiðar að vini hans var hent út.

Þó svo að ég hafi glott finnst mér engum sómi af svona frétt, ekki fyrir þennan Albert, ekki veitingastaðinn, ekki fyrir DV og síst af öllu blaðamanninn, sem þarf að vanda skrif sín miklu betur. Bull á ekki erindi í fjölmiðla.

Tillaga: Albert laug í síma um félaga sinn og lét henda honum út af veitingastað.

2.

„Go Crazy lýkur á mánudag.“

Fyrirsögn í auglýsingu Ilva á blaðsíðu 5 í Fréttablaðinu 6.5.2019.            

Athugasemd: Er til of mikils mælst að íslensk fyrirtæki auglýsi á íslensku í íslenskum fjölmiðlum þegar ætlunin er að ná til íslenskra neytenda?

Íslensk tunga á í varnarbaráttu gegn ensku. Fyrirtæki sem nefnist Ilva tekur afstöðu gegn íslenskunni, heldur væntanlega að það sé svo svalt og  vænlegt til árangurs að sletta. Hægt er að bera þessa auglýsingu saman við aðrar í blaðinu, ekkert við þær að athuga nema DAS auglýsinguna sem er í upphæðum þegar aðrir auglýsa vinninga í fjárhæðum. 

Auðvitað er þetta ekkert annað en óvirðing og ruddaskapur, fyrirtækinu til skammar. Ekki mun ég kaupa neitt í þessari verslun og ég hvet aðra til að sniðganga hana.

Tillaga: Engin tillaga.

3.

1. september 2013 fékk bakarinn …

Frétt á visir.is.             

Athugasemd: Ekki byrja setningar á tölustöfum. Hvernig er slíkt gert, ekki á íslensku, ekki ensku, þýsku, frönsku, spænsku eða öðrum málum. 

Af hverju? Vegna þess að tölustafur er annað tákn er skrifstafur. Á heilbrigðissviði Háskólans á Akureyri eru leiðbeiningar um ritgerðaskrif og þar stendur:

Ef setning hefst á tölustaf er hún skrifuð með bókstöfum. Dæmi: Tíu prósent einstaklinga …

Mjög auðvelt er að komast hjá því að byrja setningu á tölustöfum, annað hvort með því að umskrifa eða nota bókstafi.

Tillaga: Þann 1. september fékk bakarinn ... 

4.

„The holy grail“ í skíðagöngu á Íslandi.

Frásögn á ferðalög og útivist á mbl.is.           

Athugasemd: Þessi samsetning kemur á óvart. Enskan er líklega notuð vegna þess að íslenskt mál er svo máttlaust og illskiljanlegt. Gralið heilaga eða gralinn heilagi … Sjáið bara hversu illa íslenskan lítur út miðað við elskulega enskuna: „The holy grail“ ... Eða hvað?

Tenging gralsins við skíðagöngu er heldur vafasöm. Ég hef áhuga á fjallaferðum og gralið heilaga í þeirri íþróttagrein er Syðsta-Súla eða er það Hekla, nei Hvannadalshnúkur.

Heilaga gralið í inniskóm eru töfflur. Heila gralið í bílavarahlutum er Bílanaust. Heilaga gralið í (gagnslausum) náttúrulyfjum er rauðrótarduft. „The holy grail“ í landbúnaði er þurrkað tað. Af þessu má sjá hversu mikil vitleysa tengingin við gralið er, hvort heldur á íslensku eða ensku.

Tilvitnunin er úr ansi skemmtilegri og fróðlegri grein sem má mæla með. Samt lá við að ég hætti lestrinum strax í upphafi þegar tilvitnunin blasti við. Engin skýring, enginn rökstuðningur, bara fullyrðing á blendingi af íslensku og ensku.

Fyrir utan þetta er helsti gallinn við greinina annars vegar skortur á greinaskilum og hins vegar ofnotkun á tölustöfum. Hið fyrrnefnda hjálpar til við lestur. Margir segja um hið síðarnefnda að rétt sé að rita tölur undir tíu með bókstöfum. Aðrir miða tölur undir eitt hundrað. Auðvitað er þetta spurning um smekk, en fyrir alla muni ekki ofnota tölustafi í fréttum eða greinaskrifum.

Tillaga: Engin tillaga.


Hlaupa hlaup, viðkomandi og upphæðir eða fjárhæðir

Orðlof og annað

Stuttur texti er skýr

Texti er hafður einfaldur til að verða spennandi. Fréttatexti á að vera stuttur, skýr og spennandi. Stuttur texti er skýr. Skýr texti er spennandi. 

Fréttastíll er bestur stuttaralegur. Þú þarft að vera góður í íslensku og skilja málfræði og setningafræði.

Fréttaskrif eftir Jónas Kristjánsson.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„… er að fara ásamt sjö öðrum Íslendingum til Annecy í Frakklandi að hlaupa fjallahlaup.“

„Kynningarblað“ (Fólk, Heilsa) í Fréttablaðinu 30.4.2019.             

Athugasemd: Hlaupa hlaup ... Til þess að skrifa sig framhjá kjánalegu orðalagi þarf að sjá vitleysuna og skilja hana. Í öðru lagi þarf að lesa textann yfir og í þriðja lagi þarf að … tja, vera vakandi, svo ekki sé tekið dýpra í árinni.

Maðurinn sem segir frá er að fara í fjallahlaup, hann ætlar að hlaupa um fjöll.

Í næstu málsgrein á eftir tilvitnuninni hér að ofan segir:

… stefnir á 115 kílómetrana sem felur í sér um 7.000 metra hækkun, svipað og að hlaupa upp rúmlega 12 Esjur í röð.

Aftur er orðalagið hið sama, hlaupa hlaupið og vegalengdin „felur í sér“. Í staðinn hefði hann getað sleppt þessum þrem orðum og bætt við sögninni að vera, er: 

… stefnir á 115 kílómetrana sem er um 7.000 metra hækkun, svipað og að hlaupa upp rúmlega 12 Esjur í röð.

Höfundurinn er ekki vel skrifandi. Hann endurtekur „hlaupa fjallahlaup“ strax í upphafi textans. Annars staðar segir að viðmælandi hafi verið „viðloðandi“ hlaup lengi. Átt er við að hann hafi lengi stundað hlaup.

Þetta er þó ekkert einsdæmi í fjölmiðlum. Þeir segja frá fólki sem „gengur kröfugöngur“, þó er því aldrei haldið fram að fólk „labbi kröfugöngur“ og má þakka fyrir það. Þó hefur ekki sést að einhverjir syndi sund sem er líka þakkarvert.

Loks má nefna þetta úr fréttinni:

gerir HOKA fjölbreytta línu af hlaupaskóm fyrir götu- og utan- vegahlaup.

Sem sagt verksmiðjan gerir skó en framleiðir þá ekki. Skrýtin breyting á merkingu orðs.

Tillaga: … er að fara til Annecy í Frakklandi í fjallahlaup með sjö öðrum Íslendingum.

2.

„Skömmu fyrir klukkan eitt í nótt var tilkynnt um einstakling berjandi í hús með málmhlut í miðborginni. Viðkomandi fannst ekki.“

Frétt á visir.is.             

Athugasemd: Alltaf fyndið að lesa löggufréttir og þá helst á milli línanna. Líklega er þetta orð viðkomandi búið að vinna sér þegnrétt í málinu en það fékk hér hæli úr dönsku. 

Hér áður fyrr þótti fínt að nota það, svo var eitrað fyrir því og það kallað dönsk sletta. Núna er öllum sama nema okkur í kverúlantaliðinu, við notuð það ekki, slíkt var uppeldið.

Hins vegar er svo skrýtið að yfirleitt er hægt að sleppa orðinu og nota hann eða hún í staðinn eða álíka eftir samhenginu.

Hvað þýðir viðkomandi. Á vefnum er dönsk synonymbog og þar stendur:

Vedkommende betyder omtrent det samme som Pågældende. Se alle synonymer nedenfor. Synonymer; pågældende, førnævnte, hin, omtalte.

Þetta er nú gott að vita. Hins vegar hefur maður doltlar áhyggjur af honum viðkomandi sem ekki fannst. Í fréttinni segir þó frá viðkomandi og hafði viðkomandi sparkað í bíla í Hafnarfirði:

Við afskipti lögreglu kom í ljós að viðkomandi var mjög ölvaður og vistaður í fangageymslu sökum ástands.

Viðkomandi var settur í geymslu sökum ástands, ekki vegna eða fyrir, sem er gott. Og ekki er getið um að málið þurfi að rannsaka („settur í fangaklefa fyrir rannsókn málsins“ eins og oft er sagt).

Í löggufréttum er maður ýmist nefndur manneskja, einstaklingur eða viðkomandi. Alltaf að tala kurteislega um fólk sem skemmir eigur annarra, stelur eða brýtur af sér á annan hátt. Ekki má kalla það lögbrjóta, bófa, glæpamenn, skemmdarskrín, leiðindaseggi eða álíka. 

Tillaga: Skömmu fyrir klukkan eitt í nótt var tilkynnt um mann sem barði í hús með málmhlut í miðborginni. Hann fannst ekki.

3.

Cross­fit-fólk tætti upp Esj­una.

Frétt á mbl.is.              

Athugasemd: Ekki líst mér á’ða, maður, að verið sé að tæta Esju upp. Eru það ekki umhverfisspjöll?

Af fréttinni má þó ráða að fólk er í kapphlaupi upp undir Þverfellshorn í Esju. Sögnin að tæta er skemmtileg. Hún getur þýtt að rífa eitthvað í sundur eins og segir á malid.is: 

tæta, †tœta s. ‘rífa, reyta; dreifa, tvístra; tæja ull’, […] Af sama toga (og sagnleidd) eru no. tæta kv. ‘pjatla, tætla’, tæti h. ‘ögn,…’, sbr. nno. tøte ‘spunaefni’, og ótæti, tætingur k. ‘ullarvinna, tvístringur’ og tæsla kv. ‘ullartæting’. Sjá (2) og tætildislegur og tætla.

Orðabókin getur þó ekki um unga fólkið sem hér áður fyrr tætti á bílum um götur bæja og borgar. Þá tættu vélarmiklir bílar upp malbikið, að minnsta kosti í óeiginlegri merkingu. Rétt eins og nú tæta hlauparar upp Esju og hverfa í rykmekki.

Svo eru til vélar sem tæta, jarðvinnustæki sem tætir upp mold fyrir ræktun, í bókstaflegri merkingu.

Tillaga: Skömmu fyrir klukkan eitt í nótt var tilkynnt um mann sem barði í hús með málmhlut í miðborginni. Hann fannst ekki.

4.

Fleiri vinningar og hærri upphæðir en nokkru sinni fyrr.

Auglýsing í ýmsum fjölmiðlum.              

Athugasemd: Þannig freistar Happdrætti DAS landsmanna. Líklega er það bara gott, við styrkjum góðan málstað og getum hugsanlega unnið nokkurn pening.

Þegar ég var strákur sagðist ég hafa fengið stóra fjárhæð fyrir að bera út Vísi. Eldri bróðir minn sem var með ár og reynslu umfram mig vísaði þá til forsætisráðherrans Bjarna Benediktssonar eldri sem hafði einhvern tímann sagt: 

Peningar eru í fjárhæðum en drottinn allsherjar í upphæðum.

Síðan hef ég talað um fjárhæðir af því að mér þótti þetta bæði rökrétt og snjallt.

Í textanum lofar Happdrætti DAS að peningum og því er ekki nema eðlilegt að textinn sé þá eins og í tillögunni hér fyrir neðan.

Mér finnst það einnig fara betur að nota atviksorðið áður en orðalagið nokkru sinni fyrr, en ekki er víst að allir séu því sammála.

Tillaga: Fleiri vinningar og hærri fjárhæðir en áður.


Framkvæma flug, bakið á símanum og hæpaður blaðamaður púllar

Orðlof og annað

Fjálglega

„Andagift, andakt, ákefðarmælska, innlifun, lotning, mærð, tilfinningahiti“ eru nokkrir kollegar orðsins fjálgleiki í Samheitaorðabók. 

Fjálgur merkir háfleygur í tali. Að vera fjálglegur í tali eða tala fjálglega er því nokkurn veginn að tala á upphafinn hátt. Ekki „frjálslega“ eða „gálauslega“.

Málið á blaðsíðu 21 í Morgunblaðinu 30.4.2019.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Logi leikur tveimur skjöldum.“

Fyrirsögn á blaðsíðu 8 í Morgunblaðinu 29.4.2019.              

Athugasemd: Sá sem leikur tveimur skjöldum er tvöfaldur í roðinu, það er hann er ekki heiðarlegur. Í stríðum leika njósnarar tveimur skjöldum, á því leikur enginn vafi. 

Af fréttinni má ráða að Logi sé góður og gegn maður, ekki bara snjall í fótbolta heldur semur hann líka tónlist.

Hæfileikar á fleiri en einu sviði eru ekki einsdæmi og þeir sem sinna mörgum áhugamálum eru síst af öllu að leika tveimur skjöldum. Þeir teljast fjölhæfir.

Í Mergur málsins (blaðsíðu 559) segir:

Líkingin er af því dregin að algengt var að menn bæru merki (herkuml) á skjöldum. Sá sem átti eða bar tvo skildi (með ólíkum herkumlum) gat ekki verið tveimur trúr.

Fjöldi orðatiltækja er runnin frá hernaði til forna, nefna má ganga fram fyrir skjöldu, koma í opna skjöldu, halda hlífiskildi, skarð fyrir skildi og mörg fleiri.

Tillaga: Logi er fjölhæfur.

2.

Rúmlega 270 starfsmenn indónesísku þing- og forsetakosninganna hafa látist úr ofreynslutengdum sjúkdómum.

Frétt á visir.is.              

Athugasemd: Finnst ekki fleirum þetta orð „ofreynslutengdur“ dálítið skrýtið? Það finnst ekki í orðabók en flestir vita hvað ofreynsla er.

Á fréttavef BBC segir:

More than 270 election workers in Indonesia have died, mostly of fatigue-related illnesses caused by long hours of work counting millions of ballot papers by hand, an official says.

Annað orðalag er notað á vef Reuters, þar segir í fyrirsögn:

More than 270 died from overwork-related illnesses in Indonesia elections.

Mér finnst ótækt að nota „ofreynslutendum sjúkdómum“. Í fljótu bragði finn ég þó ekki annað. Þegar þannig stendur á reyni ég oftast að skrifa framhjá vandamálinu, komast hjá nafnorðavæðingu setningarinnar. Tillagan hér fyrir neðan er tilraun í þá átt.

Blaðamenn sem þurfa að þýða úr erlendum málum mega ekki láta íslenskuna lúta í lægra haldi fyrir orðalagi frummálsins. „Fatigue-related illnesses“ eða „overwork-related illnesses“ á ekki þýða sem „ofreynslutengdir sjúkdómar“. Leyfilegt er að umorða hugsunina sem að baki liggur til að koma henni til skila á eðlilegri íslensku.

Tillaga: Rúmlega 270 starfsmenn indónesísku þing- og forsetakosninganna hafa látist úr sjúkdómum sem tengjast ofreynslu eða ofþreytu.

3.

Sagði Muilenburg af því tilefni að fyrirtækið hefði nú þegar framkvæmt 146 flug á 737 MAX-vélunum sem skilað hefðu 246 flugtímum með hinum uppfærða hugbúnaði.

Frétt á blaðsíðu 12 í Morgunblaðinu 30.4.2019.             

Athugasemd: Hvort var flogið eða flug framkvæmt? Blaðamaðurinn lætur villast af ensku orðalagi og þýðir beint. Á fréttavefnum SkyNews segir:

Insisting that the company is getting close to a software fix, Mr Muilenburg said 146 flights of the 737 MAX had been completed, roughly 246 hours of air time, with the updated software.

Þó textinn sé líklega ekki heimild blaðamannsins er orðalagið mjög svipað og íslenska tilvitnunin. Á íslensku byrjum við sjaldan setningar á sagnorði nema í spurningum, en í ensku er það mjög algengt.

Að mestu er fréttin vel skrifuð enda blaðamaðurinn vel máli farinn. Þó má  velta fyrir sér orðalaginu að þessi tiltekna tegund séu „öruggustu flugvélarnar til að fljúga með“. Er ekki síðustu fjórum orðunum ofaukið?

Tillaga: Muilenburg sagði af því tilefni að fyrirtækið hefði nú þegar látið fljúga 737 MAX-vélunum 146 sinnum, samtals í 246 flugtíma með uppfærðum hugbúnaði.

4.

Sam­sung stend­ur þétt við bakið á nýja Galaxy S10 5G-sím­an­um eft­ir …

Frétt mbl.is.             

Athugasemd: Hvernig er hægt að standa þétt við bakið á síma sem er á að giska fjórtán til tuttugu sm á hæð?

Nú kann lesandinn að segja að þetta sé sagt í óeiginlegri merkingu, ekki bókstaflegri.

Má vera, en er þá ekki betra að velja orðalag sem hæfir? Í fréttinni segir að fyrirtækið sé að verja símann sinn, koma honum til varnar.

Tillaga: Sam­sung ver nýja Galaxy S10 5G-sím­an­um eft­ir …

5.

„Bæði er ég enn mjög hæpaður og … Lífið er mjög erfitt þessa stundina og ég gæfi allt til að geta púllað smá Costanza. Fokking opin vinnurými.“

Frétt visir.is.             

Athugasemd: Hver er tilgangurinn með því að blanda saman ensku og íslensku? Þykjast meiri en maður er, reyna að ganga í augun á lesendum, monta sig ... Markmiðið er hins vegar ekki að gera mál sitt skýrara, vera gagnorðari.

Málfarið í þessari grein er fyrir neðan allar hellur. Auðvitað má skrifa frjálslega, jafnvel upphafinn eða fjálglegan texta en blaðamaður þarf að gæta sín. Hann ber ábyrgð, getur ekki boðið lesendum sínum upp á svona skrif. Hér eru nokkur dæmi: 

  • … sem var btw eitthvað það besta sem boðið …
  • … þetta var líklegast besta sjónvarp sem ég hef nokkurn tímann séð
  • Það gerði mikið fyrir þáttinn …
  • Tökurnar, tónlistin, hasarinn, spennan og dauðdagarnir.
  • Í engri sérstakri röð dóu Theon, Jorah, Beric, Melisandre og …
  • … sem fékk reyndar svalasta dauðdaga þáttarins, …
  • Ég átti von á fleiri dauðdögum …
  • Ég fór næstum því úr axlarlið við að fistpumpa út í loftið …
  • Jon Snow var einhvern veginn bara í ruglinu allan þáttinn.
  • Það var ljóta ruglið og þau beisiklí gáfu …
  • Mögulega var þetta besta „Come at me bro“ móment heimsins.
  • Sá eini sem var í einhverju aksjóni var …

Þetta er aðeins brot af skrifum blaðamannsins sem eru langt í frá gagnorð. 

Sé á einhvern hátt hægt að réttlæta þau mun það ekki rökstyðja annað en að vegur íslenskunnar sé á hraðri niðurleið.

Svona skrifar enginn sem ber virðingu fyrir íslenskri tungu. Engin útgáfa birtir svona skrif sé henni annt um íslenskt mál.

Tillaga: Engin tillaga gerð.


Fær sá flest atkvæði sem er atkvæðamestur?

Orðlof og annað

Óþarfa orð

Reynið að umorða og stytta setningar eins og hægt er. Athugið þessar setningar:

a. Eins og kom fram í umfjölluninni um eldfjöllin eiga allir jarðvísindamennirnir mjög erfitt með að segja mjög nákvæmlega fyrir um eldgos.

b. Jarðvísindamenn eiga erfitt með að segja nákvæmlega fyrir um eldgos.

Setning b er betri því þar er sleppt öllum óþörfum orðum og hún verður markvissari.

Askur leiðbeiningar við ritgerðaskrif.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Ópal und­ir tíðu eft­ir­liti MAST.“

Fyrirsögn á mbl.is.              

Athugasemd: Ekki þarf mikið til að gleðja þann sem þetta skrifar. Hann varð alveg steinhissa við lestur á Moggavefnum er hann rakst á þessa fyrirsögn. Í einfaldleika sínum blasir hún við lesendum rétt eins og allar aðrar fyrirsagnir og fréttir eiga að gera og málfarslega á ekkert að vera við hana að athuga. Fyrirsögn á að segja sögu, vekja athygli, forvitni.

Blaðamaðurinn sem skrifar hana og fréttina hefur góðan málskilning og svo drjúgan orðaforða að hann notar þarf ekki hið margtuggna, gegnjórtraða og ofnotaða lýsingarorð „ítrekað“.

Í ómerkilegum fréttavefsíðum hefði staðið: „Ópal undir ítrekuðu eftirliti Mast.“.- Og enginn hefði sagt neitt vegna þess að margir halda að allt sé rétt sem stendur í fjölmiðlum. Því miður er það ekki svo, málfræðilegar skemmdar fréttir eru ótrúlega algengar. Þó ekki þessi, alls ekki.

Tillaga: Engin tillaga

2.

Níu fjall­göngu­menn frá Suður-Kór­eu fór­ust á fjall­inu í októ­ber þegar þeir hröpuðu af kletti í blind­byl.

Frétt á mbl.is.              

Athugasemd: Eitt er að falla fram að kletti og annað að hrapa eða falla fyrir björg. Flestir hafa eflaust þá tilfinningu að klettur sé miklu minni en bjarg. Þó segir í orðabók að samheitin séu bjarg, bjargdrangur, hamar og  hamrabelti. Skyldi þá enginn vanmeta klettinn.

Hér er fjallað um hið gríðarlega fjall Annapurna í Nepal. Ég skildi ekki alveg málsgreinina né heldur fréttina og leitaði því heimilda. Á vefnum Channel News Asia, CNA segir:

Nine South Korean climbers were killed last October after a snowstorm swept them off a cliff on Mount Gurja, west of Annapurna.

Þarna er lýsingin dálítið önnur en á Moggavefnum. Síðasta haust varð ofsalegur blindbylur í öllum vesturhluta Nepal, náði yfir mjög stórt svæði. Þá fórust Kóreumennirnir en þeir voru á Mount Gurja eða Gurja Mimal (7.193 m). Það er hins vegar ekki sama fjallið og Annapurna (8.091 m). Hér er linkur um slysið á Gurja.

Mikilvægt er að blaðamenn segi skilmerkilega frá. Þegar kastað er til höndum verður afleiðingin efnislega takmörkuð frétt. Almenningur á betra skilið.

Tillaga: Engin tillaga

3.

„Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti veika konu á Esjuna.

Fyrirsögn á visir.is.           

Athugasemd: Vont er að veikjast í fjallgöngu og því les almenningur áfram. Í meginmáli fréttarinnar segir:

Ekki var talið ráðlegt að sækja konuna landleiðis og því var þyrlan fengin til þess að ná í konuna sem var uppi í Móskarðshnjúkum þegar hún var sótt.

Hvort var veika kona á Esju eða Móskarðshnúkum? Þetta eru tvö ólík fjöll, ekki bara landfræðilega, að útliti, gróðurfari og þar að auki er jarðfræðing gjörólík og svo má áfram telja.

Almennt er ekki notaður ákveðinn greinir á örnefni, að minnsta kosti ekki í ritmáli. Í fréttinni er ekki samræmi í notkun á greini.

Nástaðan í fréttinni sker í augu og er hún þó örstutt. Hér er öll fréttin, nástaðan auðkennd með raðtölum í hornklofum:

Þyrla [1.] Landhelgisgæslunnar sótti [1.] konu [1.] á sjötugsaldri upp á Esjuna og flutti á Landspítalann í Fossvogi um klukkan eitt í dag. Sækja [2.] þurfti konuna [2.] vegna skyndilegra veikinda hennar [1.].

Ekki var talið ráðlegt að sækja [3.] konuna [3.] landleiðis og því var þyrlan [2.] fengin til þess að ná í konuna [4.] sem var uppi í Móskarðshnjúkum þegar hún [2.] var sótt [4.].

Blaðamaðurinn kastar til höndum, les ekki yfir það sem hann hefur skrifað eða veit ekki betur. Þetta er slæm fréttamennska sem stendur ekki undir nafni. 

Hins vegar eru vinnubrögðin ekkert einsdæmi í íslenskum fjölmiðlum. Fjölmargir blaðamenn kunna ekki til verka, fréttastjórar og ritstjórar gera engar athugasemdir, vita hugsanlega ekkert betur.

Finnst neytendum, lesendum, í lagi að fjölmiðlar sendi út skemmdar fréttir?

Tillaga: Engin tillaga.

4.

„Sósíalistaflokkur forsætisráðherra atkvæðamestur í kosningunum á Spáni.

Fyrirsögn á visir.is.           

Athugasemd: Blaðamaðurinn veit ekki hvað lýsingarorðið atkvæðamikill merkir. Það á ekki við þann sem fær flest atkvæði heldur mann sem mikið kveður að. 

Þingmaður getur verið atkvæðamikill í þingsal, jafnvel atkvæðameiri en aðrir og hugsanlega atkvæðamestur. Það þýðir hins vegar ekki að hann hafi fengið flest atkvæði til að fá að vinna þar. Miklu frekar að það sópi að honum í umræðum.

Orðabókin nefnir atkvæðamikinn leikmann. Mér fannst til dæmis Guðjón Baldvinsson vera mjög atkvæðamikill í fótboltaleik milli Stjörnunnar og KR síðasta laugardag. Fleiri má auðvitað nefna.

Afar alvarlegt er að blaðamaður hafi ekki góðan orðaforða, miklu verra er að hann fái óátalið að dreifa málvillum. Hnignum tungumálsins er staðreynd. Fjölmiðlar eiga stóra þátt í henni en ættu auðvitað að vera traustustu stoðir íslenskunnar.

Tillaga: Sósíalistaflokkur forsætisráðherra fær flest atkvæði í kosningunum á Spáni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband