Kvikmynd heiðruð, bílvelta varð og hans fangavist

Orðlof og annað

Lítt, miður, minnst

Atviksorðið lítt stigbeygist: miður, minnst. Meirihlutahópurinn „lítt þekktir listamenn“ skyggir á annan hóp sem nefnist þó ekki „lítt þekktari listamenn“. 

Standi einlægur vilji til að nota lítt eru þeir „miður þekktir“ (en hinir). Annars eru listamenn þessir bara (lítið) – minna – (minnst) þekktir.

Málfar á blaðsíðu 16 í Morgunblaðinu, 13. maí 2019.

 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Heiðra kvikmyndina A Star is Born.“

Fyrirsögn á mbl.is.              

Athugasemd: Ekki er hægt að heiðra kvikmynd enda aðeins fólk sem er heiðrað, nýtur heiðurs. 

Útilokað er að heiðra bók, málverk, myndastyttu, steinvölu, tré, flugu, hest, kind, hund, stöðuvatn, á eða úthaf, svo dæmi séu tekin. 

Hins vegar er auðvelt að heiðra höfunda listaverka þar með taldar kvikmynda, og er það iðulega gert, eða eftirlifandi aðstandendur.

Oft eru hús endurbyggð og þá sagt að þeim sé sýndur tilhlýðilegur sómi. Má vera að þannig megi gera með kvikmynd, sýna henni sóma með tónleikum.

Sá sem ætlar sér að heiðra kvikmynd er ekki góður í íslensku. Dreg stórleg í efa að þetta sé hægt á ensku („to honour a movie“ eða „to pay respect“).

Tillaga: Engin tillaga.

2.

Bíl­velt­an varð á fjórða tím­an­um og fór lög­regl­an á Norður­landi vestra á vett­vang ásamt sjúkra­liði.

Frétt á mbl.is.               

Athugasemd: Einfaldara er að orða þetta þannig að bíllinn hafi oltið á fjórða tímanum. 

Þetta er skrifað í svokölluðum nafnorðstíl. Kristján Árnason segir um nafnorðastílinn í erindi sem hann kallar Hugleiðingar um íslenskt lagamál:

Þegar rætt er um sérhæft og uppskrúfað málfar verður mörgum tíðrætt um stofnanamálið svokallaða og nafnorðastílinn sem helst er talinn einkenna það. [...]

En hvaðan kemur þá nafnorðastíllinn? Ég hygg að að hluta til megi rekja hann til eins konar misskilinnar trúar á skýrleik hans eða tilfinningar um að nafnorðastíllinn sé á einhvern hátt hlutlægari eða vísindalegri.

Margir blaðamenn eru ansi góðir í ensku en því miður ekki eins góðir í íslensku. Þeir þýða beint og jafnvel hugsunarlaust og þá verður til frásögn sem oft er menguð enskri setningaskipan.

Tillaga: Bíllinn valt á fjórða tím­an­um og fór lög­regl­an á Norður­landi vestra á vett­vang ásamt sjúkra­liði.

3.

Hans fangavist varði í 27 ár.

Grein á blaðsíðu 8 í Morgunblaðinu 12. maí 2019.                

Athugasemd: Ofangreind tilvitnun hefði mátt vera einfaldari og þar með skýrari. Eignarfornafnið í íslensku er yfirleitt á eftir nafnorðinu sem það á við. Í fjölmiðlum er nú æ oftar haft á undan og finnst mörgum að þá sé áherslan meiri eða tónninn sennilegri en þarna eru þeir sem skrifa undir enskum áhrifum og átta sig ekki á því.

Dæmi: Bíllinn minn er betri. Minn bíll er betri.

Svona viðsnúningur hefur mikil áhrif á íslensku. Fjölmiðlar bera mikla ábyrgð en geta með samræmdu átaki stöðvað þróunina.

Annars er alltaf fróðlegt er að lesa vel samda grein, jafnvel þó maður sé ekki sammála efni hennar. Þannig er það oftast með pistlana sem bera nafnið „Úr ólíkum áttum“. Höfundur þeirra er Ögmundur Jónasson, fyrrum ráðherra og alþingismaður. Hann skrifar yfirleitt ágæta íslensku þó honum hafi orðið fótaskortur að þessu sinni.

Tillaga: Hann var í fangelsi í tuttugu og sjö ár.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband