Nafn afhjúpað, samankomin kvöld og magn ábendinga

Orðlof og annað

Skammstafanir

Í samfelldu rituðu máli fer best á að hafa skammstafanir sem fæstar. Sérstaklega fer illa ef skammstöfuð eru fallorð. „Hann ráðlagði frkvstj. að segja af sér.“ „Frkvstj. baðst undan því í lengstu lög.“ 

Hefð hefur hins vegar skapast um skammstafanir nokkurra orða og orðasambanda sem sjaldnast eru skrifaðar fullum fetum í samfelldu máli: t.d., þ.e.a.s., þ.e., o.s.frv., o.fl., u.þ.b., s.s. og ýmsar fleiri.

Málfarsbankinn.

Skammstafanir eru mjög víða í fornum skinnhandritum. Þær voru aðallega notaða til að spara pláss. Á síðari tímum voru þær að öllum líkindum til að spara pláss í blýsetningu og að auki að auðvelda setninguna. Núorðið skipta skammstafanir litlu máli, nóg er plássið á netinu. Fjöldinn er mikill og mikil vinna að geta sér til um merkinguna, það tefur lesandann, nefna má Íslensku orðsifjabókina sem er á malid.is.

Svo er það hinir óhefðbundnu nettengdu skammstafanir. Þær hafa bæði komið til vegna plássleysis (til dæmis á Twitter) og til að lýsa tilfinningum. Margt ungt fólk skilur ekki lengur texta, svo sem fyndni, kaldhæðni og annað álíka nema myndir fylgi. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Nafn kon­ung­lega drengs­ins af­hjúpað.“

Fyrirsögn á mbl.is.              

Athugasemd: Vart er hægt að afhjúpa það sem ekki er á einhvern hátt hulið. Á malid.is segir:

hjúpa kv. † ‘yfirhöfn, kápa’; hjúpur k. ‘það sem sveipað er um e-ð, blæja; hula’; hjúpa s. ‘sveipa e-u um e-n, vefja í hjúp’.

Í Stóru orðabókinni um íslenska málnotkun er þessi gagnlega upptalning um hjúp:

Lofthjúpur, gufuhjúpur, veðrahjúpur, veðurhjúpur, skýjahjúpur, þokuhjúpur, skuggahjúpur, nátthjúpur, næturhjúpur, veturhjúpur, kuldahjúpur, klakahjúpur, jökulhjúpur … dularhjúpur, helgihjúpur, huliðshjúpur, töfrahjúpur, þagnarhjúpur, gleymskuhjúpur, tilfinningahjúpur, blekkingarhjúpur, lygahjúpur … efnishjúpur, silkihjúpur, líkhjúpur.

Allt falleg orð og sum háfleyg og jafnvel skáldleg. 

Þegar eitthvað er afhjúpað felst í því að hjúpurinn tekinn af. Líklega má segja að nafn barns sé afhjúpað, til dæmis við skírn. Þannig er aldrei tekið til orða, það strandar á máltilfinningu flestra.

Ég hef það á tilfinningunni að afhjúpun sé eitthvað sem er áþreifanlegt, eins og til dæmis þegar minnisvarði er afhjúpaður, spilling, eða einhver er afhjúpaður vegna glæps.

Þetta er ef til vill langt mál um það sem sumir segja smáatriði en ég er ekki sammála. Orð verða að hæfa tilefni. Til dæmis er trúlofun ekki afhjúpuð, enginn er afhjúpaður sem væntanlegur maki, nýr formaður húsfélagsins er ekki afhjúpaður og svo framvegis.

Á ensku er til dæmis sagt um nafn prinsins: „the name has been announced“ eða „the name has been revealed“.

Hefði ekki mátt kalla „konunglega drenginn“ prins? Það er einfaldara enda er hann í senn drengur og konunglegur.

Tillaga: Nafn prinsins opinberað.

2.

Saka dómsmálaráðherra Bandaríkjanna um vanvirðingu gagnvart þinginu.“

Fyrirsögn á mbl.is.              

Athugasemd: Meirihluti dómsmálanefndar fulltrúadeildar Bandaríkjanna sakar dómsmálaráðherrann um að óvirða þingið, sýna því óvirðingu, ekki tilhlýðilega virðingu. Það gerir hann með því að afhenda því ekki ákveðna skýrslu.

Vanvirðing er nafnorð. Sagnorðið er að vanvirða. Íslenska er mál sagnorða en enska er nafnorðavætt tungumál. Þeir blaðamenn sem kunna vel ensku eru  ekki endilega góðir í íslensku. Það sannast best í þessu tilviki.

Í stað sagnarinnar að vanvirða má nota aðrar sagnir sem hæfa betur tilefninu, til dæmis að óvirða eða lítilsvirða.

Tillaga: Saka dómsmálaráðherra Bandaríkjanna um lítilsvirða þingið.

3.

„Þrjú klikkuð knattspyrnukvöld í röð og hér eru þau samankomin.

Fyrirsögn á visir.is.               

Athugasemd: Margir íþróttablaðamenn skrifa eins og þeir tala og láta allar ambögur og vitleysur fylgja. Hins vegar er mikill munur á talmáli og ritmáli. Þetta er ómöguleg fyrirsögn, raunar órökrétt og fáránleg. Látum samt vera að kvöldin hafi verið klikkuð.

Kvöld geta ekki komið saman, aðeins eitt kvöld er á hverjum sólarhring. Þetta vita allir, jafnvel sá sem skrifar svona, en hann er blindur á eigin verk. Íþróttafréttamaðurinn hefur tekið saman valdar myndaklippur af þremur áhugaverður fótboltaleikjum og það heitir hjá honum að kvöldin hafi komið saman. Þetta er ekki góður stíll

Orðaforðinn virðist ekki vera upp á marga fiska. Í stuttri frétt er óþægileg nástaða. Orðið „dramatík“ kemur tvisvar fyrir í þremur línum. Hefði blaðamaðurinn lesið skrif sín yfir, og vitað hvað nástaða er, hefði hann getað sleppt orðinu á öðrum hvorum staðnum og talað um áhrifamikinn fótboltaleik, tilkomumikinn leik eða eitthvað annað. 

Blaðamaðurinn hefur mikið dálæti á persónufornafninu það og setur líka í nástöðu. Góðir blaðamenn reyna að forðast þennan leiðindalepp sem margir kalla svo. Orðið er yfirleitt merkingarsnautt. Fæstir virðast átta sig á þessu, sérstaklega þeir sem hvorki eru vanir lestri né skrifum. Sá nánar til dæmis hér.

Það er ekki á hverjum degi …“ stendur skrifað. 

Hvað er ekki á hverjum degi? má spyrja á móti. 

Jú, „knattspyrnuveislan“, er líklegt svar. 

Byrjaðu þá á því sem máli skiptir, maður. Ekki nota leppinn þegar í boði er fínt orð eins og „knattspyrnuveisla“.

Upphafnar lýsingar á fótboltaleikjum eru leiðinlegar fyrir lesendur. 

Sjaldnast vinna lið þess í stað „landa þau sigri“. Svona klisjur eru ofnotaðar og verða við það ómerkilegar og leiðinlegar fyrir lesendur. 

Þegar eitt lið er miklu betra en annað í fótboltaleik er talað um að það „yfirspili“ andstæðinginn. Hvað þýðir það? Af hverju má ekki segja að liðið hafi verið betra, leikið betur, verið klókara …?

Tillaga: Klippur frá þremur frábærum fótboltaleikjum á einum stað.

4.

Gríðarlegt magn af ábend­ing­um berst dags­dag­lega frá íbú­um Reykja­vík­ur­borg­ar til borg­ar­yf­ir­valda um það sem bet­ur má fara í sam­göngu­mál­um borg­ar­inn­ar.

Frétt á mbl.is.            

Athugasemd: Fer ekki betur á því að tala um fjölda ábendinga en magn? Magn getur hvort heldur er verið í kílóum eða fjölda. Þó fer betur á að orðsendingar séu nefndar sem fjöldi.

Í orðinu ábending felst að athugasemd, verið er að benda á eitthvað, þó ekki endilega um það sem betur má fara, kvartanir fylgja líka án efa. Hér er tillaga um einfaldari og styttri málsgrein.

Tillaga: Gríðarlegur fjöldi ábendinga berst dags­dag­lega frá íbú­um um það sem bet­ur má fara í sam­göngu­mál­um borg­ar­inn­ar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband