Ragnar Arnalds

Og aftur lágu leiðir okkar Ragnars saman löngu síðar. Nú í Heimssýn, hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum. Tilraun „vinstrimanna“ til að sameinast í eina pólitíska hreyfingu 1999 strandaði m.a. á utanríkismálum. Áhugi sumra á aðild að ESB klauf þessa fylkingu.

Þetta segir Jón Bjarnason, fyrrum alþingismaður og ráðherra, í minningargrein í Morgunblaði dagsins um Ragnar Arnalds en útför hans er í dag. Jón skrifar fallega um gamla félaga sinn og nefnir margt athyglisvert.

Ég þekkti Ragnar Arnalds lítillega, nær eingöngu úr heita pottinum í sundlauginni í Laugardal. Stundum var fámennt í pottinum og þá gafst einstakt tækifæri til að ræða við Ragnar um stjórnmál og jafnvel sagnfræði. Í báðum greinum var þekking hans mikil. Mér kom á óvart hversu auðvelt var að tala við hann um stjórnmál dagsins og ekki síður liðna tíma. Margt sagði hann mér sem kom á óvart, atburði sem ekki voru á allra vitorði en töldust samt engin leyndarmál. Hann var glöggur, talaði vel um alla en gat sagt broslegar sögur af ýmsum stjórnmálamönnum.

Oft voru fleiri í pottinum og þá var stundum tekist hressilega á. Kjöftugt fólk átti það til að segja það sem í brjósti þeirra bjó og ekki var það allt „elsku mamma“ um VG og aðra vinstri menn. Ragnar rökræddi, hann var ekkert að trana sér fram eins og við hinir en þegar hann tók til máls hlustuðu allir, líka þessir kjöftugu.

Ragnar las bloggið mitt enda skrifaði ég mikið um makalausa tilraun vinstri stjórnarinnar 2009 til að koma landinu inn í Evrópusambandið. Við vorum í sitthvorum stjórnmálaflokknum, það vissi Ragnar, en í Evrópusambandsmálum vorum við samherjar, báðir á móti. 

Jón Bjarnason segir í minningargrein sinni:

Ragnar var trúr hugsjónum sínum og gekk til liðs við þann flokk sem vildi standa vörð um fullveldi landsins. Hann var algjörlega andvígur umsókn eða aðild að Evrópusambandinu. Vildi þar ekkert „bjölluat“. Ragnar taldi að barátta gegn inngöngu í ESB væri svo mikið grundvallarmál að það væri hafið yfir hina hefðbundnu flokkadrætti. Þannig hlaut hann að vera í fylkingarbrjósti þverpólitískra samtaka; Heimssýnar, hreyfingar sjálfstæðissinna í Evrópumálum. Ragnar varð fyrsti formaður þeirra samtaka.

Vonbrigði Ragnars voru því mikil þegar nokkrir forystumenn í flokknum sem hann hafði gengið til liðs við stóðu að fyrirvaralausri umsókn að ESB með beiðni um inngöngu. Rökfastur og baráttuglaður tók hann slaginn. Undir forystu Ragnars Arnalds varð Heimssýn að stórri og áhrifaríkri fjöldahreyfingu með félagsdeildir út um allt land. Og barátta Heimssýnar skilaði árangri. Okkur sem voru mjög andvíg ESB-umsókninni tókst að kæfa hana, enda fól hún í sér óafturkræft framsal á fullveldi þjóðarinnar og sjálfstæði.

Í þessu felst kjarni málsins og því voru Jón og Ragnar á móti ESB-aðildinni og svo við hinir, minni spámennirnir. Bjölluatið, er mergurinn málsins. Samfylkingin og Vinstri græn héldu að hægt væri að semja um aðild að ESB, fá það fram sem þeir vildu og sleppa öðru. Rétt eins og þegar boðið er úr konfektkassa. Því var nú öðru nær og við lá að embættismenn ESB hlægju að vitleysunni hjá íslenskum stjórnmálamönnum sem töluðu um „samning“.

Aldrei var það af reiði er Ragnar talaði um samherja sína í Vinstri grænum sem samþykkt höfðu hina makalausu aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Hann var framar öllu málefnalegur og kurteis en skoðanalaus var hann aldrei. Hann var einfaldlega ekki sammála, punktur.

Hann spurði mig oft hvort ég vissi um viðhorf Sjálfstæðismanna um einstök pólitísk mál. Auðvitað hef ég aldrei verið á dyramottunni að innsta kjarna flokksins en þekkti þó marga og vissi ýmislegt. Svo spjölluðum við Ragnar, hann hlustaði, hugsaði, og sagði síðan hug sinn, hvort sem hann var sammála okkur eða ekki. Oft velti ég því fyrir mér hversu eftirsóknarvert það væri að öðlast hógværð sem pottavinur minn.

„Þið kommarnir ...“, sagði ég stundum við Ragnar, þegar við ræddum um Viðreisnarárin eða aðildina að Nató. Hann brosti, fannst gaman að hispursleysinu en lét ekki raska ró sinni og rökræddi og ég reyndi að svara. Þetta voru skemmtilegar stundir. 

Ragnar hætti að koma í sundlaugina fyrir nokkrum árum. Ég frétti að heilsan væri ekki góð en vonaði auðvitað hið besta. Ég velti því fyrir mér hvaða skoðun herstöðvaandstæðingurinn Ragnar hefði á innrás Rússa í Úkraínu og viðbúnað íslenskra stjórnvalda vegna hennar. Ég leyfi mér að trúa því að hann væri mjög hlynntur stefnu ríkisstjórnarinnar og hvernig forsætisráðherra og utanríkisráðherra hafa tekið á málunum. En þetta er bara ágiskun.

Þannig minnist ég í stuttu máli Ragnars Arnalds. Mér þótti afskaplega gaman að hafa kynnst honum, þó ekki væri nema lítillega. Þegar ég las minningargreinarnar um hann í Morgunblaðinu skildi ég hvers vegna maðurinn var jafn vinsæll og farsæll sem raun ber vitni. Yfir minningu Ragnars er heiðríkja. Svo segir einn vina hans sem þekkti hann hvað lengst.


Auðvitað veit Nató að Rússar skemmdu Nord Stream leiðslurnar

Screenshot 2022-09-29 at 13.12.42Dettur nokkrum manni í hug að Atlantshafsbandalagið viti ekki hver stóð að skemmdarverkum á gasleiðslunum sem liggja eftir endilöngu Eystrasalti, Nord Stream eitt og tvö? Viti Nató ekki hver olli verður að segjast eins og er að það stendur sig ekki.

Milli Íslands og Grænlands annars vegar og Íslands og Bretlands hins vegar er svokallaða GIUK hlið. Fram til ársins 2006 rak Nato hlustunarkerfi sem námu hljóð frá kafbátum sem fóru í gegnum hliðið og þeir voru eingöngu  frá Sovétríkjunum og síðar Rússlandi. Svo háþróuð var þessi tækni að hægt var að greina eftir vélarhljóði hver kafbáturinn var.

GIUK gapRætt hefur verið um að taka aftur upp þessar hleranir.

Hafsvæðið milli ofangreindra landa er gríðarlega stórt, margfalt stærra en svæðið frá Borgundarhólmi til Póllands, Þýskalands eða Litáen.

Er það raunverulega svo að engar hleranir séu milli Nató-landanna við Eystrasalt? Kanntu annan? segir einhver og glottir.

Vandamálið lítur út fyrir að vera á þann veg að Nató þori ekki upplýsa um skemmdarverkin og kenna Rússum um. Líklega er það talið vera ógnun við einræðisríkið í austri. Munum að Nató veit margt, mun betur en fjölmiðlarnir sem mata okkur með teskeiðum.

Áhyggjur íslenskra stjórnvald af öryggi sæstrengja við landið hafa ekki orðið til úr engu. Innrás Rússa í Úkraínu og hryðjuverk þeirra á Nord Stream gasleiðslunum hafa vakið upp óhug hér og hjá stjórnvöldum í Evrópu og í Kanada og Bandaríkjunum. Um leið hafa þau opinberað hversu varnarlausar lýðræðisþjóðirnar eru fyrir skemmdarverkum. Um leið og sæstrengir og gasleiðslur í fullri notkun eru skemmdar munu samfélög beggja vegna Atlantshafsins lenda í óskaplegum vandræðum. Viðskipti milli landa munu dragast saman og á mörgum sviðum leggjast af með tilheyrandi tekjutapi og atvinnuleysi. Rússar þjást vegna viðskiptabanns og munu án efa reyna að spilla fyrir samstöðu Evrópuríkja með skemmdarverkjum, tölvuárásum og undirróðri.  

Screenshot 2022-09-29 at 13.12.16Verra er með gasið, „skemmist“ leiðslur eða borpallar á hafi úti.

Um leið og Evrópubúar fara að finna fyrir orkuskorti, heimilin kólna og atvinnuleysi eykst mun viðhorfið gagnvart Rússum og stríði þeirra við Úkraínu breytast. Hvað erum við að skipta okkur af málefnum þarna fyrir austan, mun fólk hrópa? Og milljónir manna fara í kröfugöngur og krefjast af stjórnvöldum að öllu verði breytt í fyrra horf.

Rússar munu róa undir öllum mómælum rétt eins og Sovétríkin gerðu á sínum tíma. Og allt þetta mun gera ríkjum í Evrópu erfitt fyrir, þúsundir mótmæla og eining Evrópusambandsins og Nató mun hugsanlega bresta.

Líklega stendur Evrópa á krossgötum um þessar mundir. Ætlar hún að berjast gegn útþenslustefnu Rússa eða lyppast hún niður?


Samfylkingin, Viðreisn og Píratar skrökva um aðildarviðræður að ESB

Alþingi ályktar að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla fyrir árslok 2023 um hvort halda skuli áfram aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið.

Þetta er úr furðulegri þingsályktunartillögu vinstri flokkanna á Alþingi. Ófyrirgefanlegt er að Samfylkingin, Viðreisn og Píratar skrökvi í henni. Hvort það sé gert vísvitandi eða óafvitandi vegna þekkingarleysis skal ósagt látið. Ósannindi eru það engu að síður.

Mikilvægt er að átta sig á því að aðild að ESB er ekki eins og tyrkneskt markaðstorg þar sem hægt er að prútta eftir þörfum og loks komist að niðurstöðu sem er meðaltal af því sem lagt var upp með. Svo virðist sem Samfylkingin, Viðreisn og Píratar haldi það.

Staðreyndin er einföld. Engar „aðildarviðræður“ hafa farið fram við ESB. Með þingsályktunartillögu vinstri stjórnarinnar árið 2009 var sótt um aðild Íslands að ESB. Evrópusambandið samþykkti hana. Í kjölfarið hófust aðlögunarviðræður, ekki aðildarviðræður, þær eru ekki lengur til í reglum Evrópusambandsins.

Afar mikilvægt er að stjórnmálamenn sem og aðrir átti sig á muninum á orðalaginu aðildarviðræður og aðlögunarviðræður.

Á ensku nefnast aðlögunarviðræður „Accession negotiations“. Þær eru fyrir ríki sem ætla sér að ganga inn í ESB. Þetta eru ekki aðildarviðræður og ESB varar beinlínis við þeirri túlkun. 

ESB segir einfaldlega að aðildarviðræður séu ekki lengur í boði. Ríki sem sækir um aðild hlýtur að vilja aðild, þau eru ekki að prófa, kanna aðstæður, stunda þreifingar.

Aðlögunarviðræður eru í því fólgnar að lög og reglur umsóknarríkisins eru lagaðar að stjórnskipun Evrópusambandsins, Lissabonsáttmálanum. Undanþágur eru ekki veittar.

Í reglum ESB segir:

First, it is important to underline that the term “negotiation” can be misleading. Accession negotiations focus on the conditions and timing of the candidates adoption, implimentation and application of EU rules – some 90,000 pages of them. And these rules (also known as “acquis”, French for “that which has been agreed”) are not negotiable.  

Þetta hlýtur að vera skýrt, engar samningaviðræður, aðeins aðlögunarviðræður. Umsóknarríki verður að taka um ESB reglur, 90.000 blaðsíður, samþykkja þær eða hætta við.

Ofangreinda þingsályktun leggja eftirtaldir þingmenn fram:

  • Logi Einarsson
  • Þorgerður K. Gunnarsdóttir
  • Halldóra Mogensen
  • Helga Vala Helgadóttir
  • Þórunn Sveinbjarnardóttir
  • Oddný G. Harðardóttir
  • Kristrún Frostadóttir
  • Jóhann Páll Jóhannsson
  • Björn Leví Gunnarsson
  • Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir
  • Gísli Rafn Ólafsson
  • Þórhildur Sunna Ævarsdóttir
  • Valgerður Árnadóttir
  • Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir
  • Sigmar Guðmundsson
  • Hanna Katrín Friðriksson
  • Guðbrandur Einarsson

Ólíklegt er að þingmennirnir hafi lesið regluna sem er hér fyrir ofan.

Eftirfarandi skjal er lýsing á aðlögunarviðræðum, „skref fyrir skref“ eins og það er orðað: https://neighbourhood-enlargement.ec.europa.eu/system/files/2022-09/eu_accession_process_clusters.pdf.

Svo er ekki verra að þessir þingmenn hlusti á ræðu Samfylkingarmannsins Össurar Skarphéðinssonar þáverandi utanríkisráðherra sem fór með rangt mál á blaðamannafundi. Á fundinum var Stefan Füle, þáverandi stækkunarstjóri ESB, og leiðrétti hann Össur svo eftirminnilega að líklega hefur sviðið undan. Sjá hér: https://www.youtube.com/watch?v=0O4fkcYwpu8.

Nú kunna ýmsir með yfirborðsþekkingu að halda því fram að Svíþjóð hafi fengið samning og jafnvel fleiri ríki. Þeir sem þetta segja hafa rétt fyrir sér. Á árunum þegar rætt var um aðild Noregs, Austurríkis, Finnlands og Svíþjóðar var farið í viðræður við þessi lönd, þá hét það „negotiations“. Það er ekki lengur gert, ESB hefur breytt reglunum.

Kostirnir og gallarnir við aðild að ESB liggja fyrir, samningurinn er klár. Hann gengur undir nafninu Lissabon-sáttmálinn. Hann vilja Píratar, Viðreisn og Samfylkingin að  Íslandi samþykki. 

Að öllum líkindum mun Alþingi fella tillöguna og er það vel.

 

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband