Atvinnuleysi á vakt norrænnar velferðarstjórnar

Atvinnuleysi

Ekkert hefur gerst á þriggja ára valdatíma núverandi ríkisstjórnar. Atvinnuleysið er þjóðarharmleikur sem stjórnin vill ekki skilja eða getur ekki skilið. Það er enn óbreytt.

Rekur einhvern minni til að árlegrar ræðu Jóhönnu Sigurðardóttur um, forsætisráðherra, sem heldur því statt og stöðugt fram að svo óskaplega margt sé í pípunum. Fjárfestingar og svoleiðis ... 

Atvinnuleysið kostar ríkissjóð árlega um 20 milljarða króna og er þá ekki tekið til tapaðra skatttekna, tekjur upp á um 50 milljarða króna.

Hvað er eiginlega að þessari ríkisstjórn? 

Í frétt Morgunblaðsins í morgun er frétt um atvinnuleysi og fjölda fólks á vinnumarkaði og er stuðst við tölur frá Hagstofunni. Í fréttinni segir m.a.:

Leitni atvinnuleysis leiðir í ljós að sl. 12 mánuði hefur atvinnulausum fækkað tiltölulega jafnt eða um 1.500 manns yfir tímabilið. Ekki er þó hægt að greina miklar breytingar á leitni fjölda atvinnulausra ef litið er aftur til síðustu þriggja mánaða.

Helgi mynd

Ekki er því furða þó Helgi Sigurðsson, skopmyndateiknari Morgunblaðsins, birti meðfylgjandi mynd í blaðinu í dag. Á meinlegan hátt lýsir hann aðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna „glufu“ á gjaldeyrishöftunum. 

Hörður Ægisson, blaðamaður morgunblaðsins, segir í stuttum pistli í viðskiptakálfi blaðsins í morgun:

Það nálgast orwellíska misnotkun á tungumálinu þegar Seðlabankinn heldur því fram fullum fetum að gjaldeyrishöftin hafi verið hert enn frekar í því augnamiði að auðvelda afnám þeirra. Svart verður hvítt. 

...

Í stað þess að eyða tímanum í tilgangslaust karp um aðild að ESB og upptöku evru – sem yrði aldrei að veruleika á þessum áratug – þá er orðið brýnt að hugsa upp nýjar leiðir til að afnema gjaldeyrishöftin. 


Steingrímur skrökvar og bullar fyrir Landsdómi

Sjaldnast hefur einn maður runni jafn illilega á rassinn í vitnaleiðslum og þessi Steingrímur J. Sigfússon, ráðherra ótal ráðuneyta. Vitnisburður hans fyrir Landsdómi í gær var pólitískur og var ætlað að koma höggi fá Geir en honum mistókst það gjörsamlega. Í Mogganum í morgun er frétt um framgang hans. Hún er grátbrosleg eins og alltaf þegar pólitísk atlaga snýst í höndum gerandans og hann stórskaðar sjálfan sig. Í fréttinni er eftirfarandi:

Og það var skrautlegt er Andri Árnason, verjandi Geirs, spurði út í orð Steingríms um „samning“ sem gerður hefði verið samhliða gjaldmiðlaskiptasamningnum og „stungið ofan í skúffu“, eins og Steingrímur lýsti því. Þegar Andri spurði Steingrím hvar orðið samningur hefði komið fyrir á skjalinu svaraði Steingrímur: „Formið á þessu er samningur ... samkomulag ... yfirlýsing.“ 

Ráðherrann er gerður afturreka með orð sín, kemst að því að ekki er gleypt við öllu sem hann segir. Þess er krafist að hann sé nákvæmur í máli sínu, nokkuð sem hann hefur hins vegar aldrei vanið sig á. Og áfram var maðurinn krafinn sagna:

Samtalið hélt áfram og Andri spurði hvar Steingrímur hefði heyrt að yfirlýsingunni hefði verið „stungið ofan í skúffu“. [...] „Það eru mín orð,“ svaraði Steingrímur. „Það endurspeglar þá tilfinningu sem ég fékk. Líklega á fundi mínum með Stefan Ingves [sænska seðlabankastjóranum].“ 

Sem sagt engu var stungið ofan í skúffu, allra síst samningi, og því ekkert að marka þessi orð Steingríms. Svona pólitískt orðahnoð og skrök verður ekki Geir til sakfellingar.

Andri spurði þá hvort ítarleg svör Seðlabanka Íslands 8. júlí og 16. september árið 2008 hefðu ekki þótt fullnægjandi.

„Annaðhvort það eða þeir voru ósáttir við að ekki væru meiri efndir,“ svaraði Steingrímur.

Var talað um efndir?“ spurði Andri og lét færa Steingrími yfirlýsingu stjórnvalda og spurði hvað af atriðunum hefði ekki verið efnt. Steingrímur las stuttlega og svaraði:

„Eins og ég segi, það var ekki farið út í þetta þannig. Ekki farið út í svör. Þetta bar almennt á góma og það var lýst óánægju.“

Bara svona þannig, ekki svör, bar bara almennt á góma, líklega í samræðum við leigubílstjórann á leiðinni til baka á hótelið.

Þvílíkt bull ... aftur skrökvar Steingrímur og svo reynir hann að kjafta sig út úr horninu sem hann hafði málað sig út í. Ekki verður þetta til sakfellingar Geirs. En þetta var ekki nóg því hinn skilmerki blaðamaður sem skrifar fréttina, Pétur Blöndal, lætur eftirfarandi fylgja með ofangreindum orðum ráðherrans:

Skömmu áður hafði Árni Mathiesen sagt fyrir Landsdómi að eitt atriði yfirlýsingarinnar hefði snúið að starfsemi Íbúðalánasjóðs og þess vegna heyrt undir Jóhönnu Sigurðardóttur sem þá var félagsmálaráðherra. „Það var kannski það atriði af þeim sem þarna voru sem ekki gekk eftir,“ sagði Árni.

Steingrímur lét vera að minnast á það.

Auðvitað er það þannig með Steingrím, þann vana stjórnmálamann, að hann reynir að komast hjá því að skrökva. Hálfsannleikurinn er nóg til að hann komi boðskap sínum á framfæri. Með hálfsannleikann að vopni var stokkið til og efnt til pólitískra réttarhalda yfir Geir H. Haarde. Nú hefur hins vegar komið í ljós að aðahvatamaðurinn að þessum málaferlum hefur ekkert markvert að segja, getur ekki veitt neinar upplýsingar sem geta sakfellt Geir af þeirri ástæðu einni að sökin er ekki fyrir hendi. Fengi hann hins vegar sama „málfrelsi“ og á þingi yrðu honum ekki skotaskuld úr því að bera vitni um að Jón Bjarnason bæri ábyrgð á hruninu.

Þetta breytir þó því ekki að Steingrímur heldur því statt og stöðugt fram að hann hafi varað við hruninu. Hvað hann á við veit enginn. Að minnsta kosti mætti hann ekki á fund hjá ríkisstjórninni og „fór hamförum“ eins og Davíð Oddsson. Ekki heldur stóð hann upp á Alþingi og messaði yfir þingheimi. Í hvert skipti hefði hann þó átt að brjóta ræðupúltið. Það hefði verið hið eina rétta miðað við boðskap um fyrirsjáanlegt efnahagshrun haustið 2008. En nei, nei. Steingrímur bjó ekkert yfir neinni spádómsgáfu, hann var jafngrandalaus eins og við hin ... og þagði um þessi mál.

 


Enn bendir allt til sýknu Geirs fyrir Landsdómi

Enn hefur ekkert komið fram í vitnaleiðslum sem varpar sök á Geir H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra. Þvert á móti bendir allt til þess að stjórnvöldum hafi í raun verið allar bjargir bannaðar í viðleitni þeirra til að stemma stigu við útþennslu bankanna.

Enginn hefur komið með nein rök sem dugað hefðu. Jafnvel enn þann dag vefjast lausnirnar fyrir skörpustu mönnum jafnt sem einföldustu stjórnmálamönnum.

Hrunið var upphafið að miklum ósköpum fyrir landsmenn en að mörgu leiti má þakka fyrir það. Hvernig væri annars staðan í dag með öll þessi krosseignatengsl, yfirtökur á fyrirtækjum, kúlulán og sérhagsmunagæsku?Held að staðan þjóðarinnar væri jafnvel enn verri en undir þessari norrænu velferðarsstjórn.

Niðurstaða Landsdóms verðu einfaldlega á þá leið að Geir H. Haarde verður sýknaður. Engin rök benda til annars. Í kjölfar þess held ég að ríkisstjórnin segi af sér. Meirihluti þingsins getur ekki haldið áfram með tvær þjóðaratkvæðagreiðslur á bakinu og ónýtan málatilbúnað gegn pólitískum andstæðingi.

Svo þarf þjóðin í sannleika sagt að ræða hlut Davíðs Oddssonar og verk hans hruninu og kjölfar þess. Held að þar muni koma fram óvænt rök sem benda til þess að hin pólitíska ófrægingarherferð gegn honum sem hófst með Borgarnesræðu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og endaði með brottrekstri hans frá Seðlabankanum muni koma þægilega á óvart og sýna manninn í allt öðru ljósi. Svo virðist sem að orð Davíðs í hinu fræga Kastljósviðtali í nóvember 2008 hafi verið rétt mat á aðstæðum.


mbl.is Íhuguðu að hóta bönkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Davíð úthúðar bankamönnum með stóryrðum ...

Engar sögur ganga um illar draumfarir vegna yfirvofandi bankahruns, enginn spámaður stóð upp og flutti viðvörunarræður, engir spekingar vöruðu við hættu á bankahruni, engir stjórnmálamenn ræddu opinberlega þessa yfirvofandi hættu, enginn æsti sig nema Davíð Oddsson. Og svo kvartar Ingibjörg Sólrún yfir því að hann hafi úthúðað bankamönnum og útrásarliðinu með stóryrðum og slætti ... Er það ekki annars þannig sem umræðan í dag er um bankamennina og útrásarliðið?

Hvað myndi sómakær og heiðarlegur embættismaður gera þegar hann sér fram á banka- og efnahagshrun. auðvitað sleppir hann sér þegar hann horfir í augun á geðlitlu og hugmyndasnauðu fólki sem að öllu jöfnu ætti að láta hendur standa fram úr ermum. Hvað hefðir þú gert, lesandi góður, hefðir þú vitað um stöðu mála á þessum tíma?

Og Davíð Oddsson er gagnrýndur fyrir varnarðarorð sín, hann er gagnrýndur fyrir aðgerðir eigenda bankanna, manninum er eiginlega kennt um allt. Og núna er hann sagður hafa „tekið hamskipti“ á fundi með ráðherrum. Auðvitað átti hann að messa yfir þessu liði og brjóta í lokin fundarborðið. En ekkert haggaði Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra. Hvað átti Davíð að gera til að vekja hana?


mbl.is „Tók hamskiptum á fundi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugmyndir um gjörbreytingu lands

Tæknigeta mannsins og afköst hans eru slík að það er ekkert því til fyrirstöðu að breyta grunngerð landsins. Okkur er í lófa lagið að taka niður heilu fjöllin og flytja „efnið“ (úr hverju eru fjöllin annars gerð?) eitthvurt annað. Það hefur raunar verið gert.

Við getum auðveldlega lokað dölum eða lægðum og fylla þá með vatni. Um leið getum við grafið okkur ofan í jörðina eða inn í fjöllin og búið þar til mikla sali þar sem listamenn flytja ódauðlega tónlist til dýrðar afrekum okkar. Allt þetta kallast víst framþróun.

Ég var svo heppinn hér á árum áður að geta farið með börnin mín um landið og sýnt þeim staði sem mér þykir vænt um. Er núna einmitt að að velta því fyrir mér hvort ég geti gert það sama fyrir barnabörnin mín eða verð ég of seinn. 

Hvers vegna í ósköpunum þurfum við að breyta landi og til hvers? Ég held að fólk þurfi ekki að skiptast í virkjunarsinna eða andstæðinga virkjanna til að átta sig á því að framtíðinni er stórkostleg hætta búin höldum við áfram að breyta því eftir smekk okkar. Er ekki til einhvað sem heitir réttur nýrra kynslóða til að njóta landsins eða er bara í lagi að sökkva landi eða flytja fjöll úr stað?

Þetta er svo ofboðslegur yfirgangur að minnir á andlitsbreytingar fræga fólks í eilífðri og tapaðri leit þess að útliti æskunnar. Breytingar á líkama fólks eru venjulega gerðar með samþykki viðkomandi en hver er umboðsmaður náttúru landsins?


mbl.is Vara við breyttri röð virkjana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeim varð ekki allt að gulli

MidasSkopmynd dagsins í Morgunblaðinu er af fyrrum bankstjórum Kaupþings sem eru búnir að keyra bíl sinn á ljósastaur. Annar þeirra heldur því fram að óhappið sé ljósastaurnum að kenna.

Höfundur myndarinnar er Helgi Sigurðsson hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir hárbeittar ádeilur sínar í skopmyndum sínum. Hann virðist vera fyrir smáatriðin, hann Helgi því á númeraplötu bílsins stendur „Midas“. Nafnið krefst smávægilegrar þekkingar til að geta skilið húmorinn í myndinni.

Midas var í grísku goðafræðinni konungur. Einn af grísku guðunum veitti honum eina ósk og óskaði hann þess að allt sem hann snerti yrði að gulli. Ekki varð þetta til þess að lífið yrði honum betra eða léttbærara. Hann snerti dóttur sína sem varð samstundis að gulli, matur varð að gulli, einnig drykkir og annað. Ágirndin bar skynsemina ofurliði.

Sagt var að hæfileikar stjórnenda bankamanna fyrir hrun væru slíkir að allt yrði þeim að gulli. Það reyndist rangt.


Saksóknari sýnir ekkert nýtt fyrir Landsdómi

Enn er beðið eftir þeim upplýsingum sem réttlæta eiga landsdóm gegn Geir H. Haarde. Ekkert hefur komið fram sem sýnir neitt annað en að stjórnvöld reyndu að snúa við því óhjákvæmilega. Að því var unnið af heilum hug.

Og andskotar Geirs héldu því fram innan þings sem utan að með landsdómsmálinu gæti hann fengið að hreinsa sig. Enn hefur hann ekki þurft þess, jafnvel ekki þó fyrrum bankastjóri Kaupþings byrsti sig í vitnastól. Geðsveiflur hafa bara alls engin áhrif á dómara.

Landsdómur getur ekki sakfellt á grundvelli þess sem fram þegar hefur komi, nema því aðeins að allt sem maður les og heyrir í fjölmiðlum sé tóm vitleysa. Að minnsta kosti hefur saksóknari Alþingis ekki enn getað sýnt fram á að ákæran hafi við eitthvað að styðjast. Og hvað ætti það eiginlega að vera? Það er ekki nóg að ákæra fyrir það eitt að einhver er pólitískur andstæðingur, jafnvel þó það hafi verið gert.


mbl.is Spáir 40% heimtum í þrotabúið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna þola þessar viðræður ekki sannleikann?

Sláandi upplýsingar koma fram í leiðara Morgunblaðsins í dag um aðlögunarviðræður Íslands og Evrópusambandsins. Ef til vill hafa þær koma fram í fréttum blaðsins en farið framhjá mér. Í leiðaranum segir:

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hefur haldið því fram að ástæða þess að viðræður um sjávarútvegsmál hefjast ekki sé að endurskoðun sé í gangi hjá Evrópusambandinu á sameiginlegu fiskveiðistefnunni. „Af þeim ástæðum er ESB ekki á þessu stigi í stakk búið að hefja viðræðurnar. Þannig að ég get ekki sagt til um það hvenær þær byrja,“ sagði Össur á nefndarfundi Alþingis í nóvember í fyrra.

Í sama streng tók Stefán Haukur Jóhannesson, aðalsamningamaður Íslands, í viðtali við Morgunblaðið í febrúar sl. Hann sagði Ísland hafa lagt áherslu á að „erfiðu kaflarnir“ yrðu opnaðir sem fyrst en ESB hefði sitt verklag. Sambandið væri ekki tilbúið til að opna sjávarútvegskaflann að sinni vegna endurskoðunar á sjávarútvegsstefnu þess.

Morgunblaðið leitaði til Stefans Füle, stækkunarstjóra ESB, til að fá fram afstöðu sambandsins og þá reyndist hún allt önnur en íslensk stjórnvöld hafa lýst. Spurður að því hvort bíða þyrfti eftir að endurskoðun ESB á fiskveiðistefnunni lyki áður en hægt væri að hefja viðræður um sjávarútvegsmál í tengslum við umsókn Íslands sagði Füle: „Nei, við þurfum ekki að bíða eftir endurskoðun fiskveiðistefnu ESB.

Skýrara gat það ekki verið, en þá stendur eftir spurningin um hver segir satt og hver ósatt. Íslensk stjórnvöld segjast vera að bíða eftir Evrópusambandinu, en sambandið segir að ekki standi á neinu sín megin. 

Er virkilega verið að fela eitthvað fyrir þjóðinni? Eða er hér um pólitískan leik, verið að bíða með þessa „erfiðu kafla“ þangað til betur árar í þjóðmálaumræðunni á Íslandi. Eða eins og Mogginn segir: „Hvers vegna þola þessar viðræður ekki sannleikann?“  


Ekkert nýtt, gjörsamleg óþörf réttarhöld

Fjölmiðlar hafa sagt vel og skilmerkilega frá réttarhöldum Landsdóms í máli Alþingis gegn Geir H. Haarde fyrrum forsætisráðherra. Raunar er óskiljanlegt að ekki skuli vera sjónvarpað eða útvarpað frá þessa sögufræga atburði. Styrmir Gunnarsson, fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins segir af þessu tilefni á Evrópuvaktinni og flestir sem ég hef rætt við eru sammála honum:

Það er ótrúleg afdalamennska, að réttarhöldum fyrir landsdómi skuli ekki útvarpað og sjónvarpað. Sama þröngsýnin og olli því, að yfirheyrslur rannsóknarnefndar Alþingis fóru ekki fram fyrir opnum tjöldum.

Fólkið í landinu á kröfu á því að geta fylgzt með þessum réttarhöldum.

Sakborningurinn, Geir H. Haarde, ætti kröfu á því að réttrhöldunum yrði útvarpað og sjónvarpað.

Það er enn hægt að bæta úr þessu.

Það á að gera strax. 

Hitt er svo annað mál í réttarhöldunum hefur ekkert markvert komið fram sem setur sök á Geir H. Haarde. Allur vitnisburður bendir í eina átt. Ekki var hægt án bóta að hrófla við bönkunum. Þetta var eiginlega pattstaða.

Hitt vekur athygli mína, og eflaust margra annarra, hversu saksóknarar virðast vera bitlausir í spurningum sínum. Þeir spyrja almenns eðlis og vitni fá að ræða málin fram og til baka án þess að spurningum sé fylgt eftir. Raunar sannast það sem andskotar Geirs á þinginu sögðu að ekkert nýtt hefði komið fram í málinu. Þau orð og framganga saksóknara benda til þess að réttarhöldin séu gjörsamlega óþörf. Og hvernig hefði staðan verið ef öll þáverandi ríkisstjórn hefði verið saksótt fyrir Landsdómi. Það hefði nú verið meiri langavitleysan. Á móti hefur nú verið opinberað enn einu sinni að stjórnvöld höfðu miklar áhyggjur af ástandinu og mikið var unnið bak við tjöldin til að koma í veg fyrir hið óumflýjanlega. 

Komi ekkert nýtt fram við þessi réttarhöld liggur beinast við að sýkna Geir. Að öðrum kosti þurfa saksóknarar að benda á hvað forsætisráðherra hefði getað gert á árinu 2008. Og þá þurfa þeir að að sanna með óyggjandi hætti að þær aðgerðir hefðu komið í veg fyrir hrunið.

Hefðu slík ráð verið til kann að vera að fyrrverandi eigendur bankanna væru enn að stýra þeim. Eru það aðstæður sem við viljum miðað við allt sem fram er komið um þetta lið?

 


Málefnalegur eða skítlegur

Ómálefnaleg umræða kemur alltaf í kollinn á þeim sem hana stundar. Auðvelt er að viðhafa skítleg ummæli til ófrægingar. Þó furðulegt megi telja gengur slíkur málflutningur ansi oft upp. Sá sem um er rætt tapar stöðu sinni og verður framvegis illa þokkaður jafnvel þó rök hans í umræðunni séu traust og góð.

Enginn atar þá auri sem hann þekkir. Afar ólíklegt er að sá ausi á vefnum ómálefnalega úr reiðiskálum sínum yfir móður sína, föður, systkini, vini eða samstarfsfélaga. Auðveldara er að hatast við einhvern sem maður þekkir ekki nokkur deili á.

Ef til vill er alveg út í hött fyrir mig að vera með einhverjar svona orðaræður. Ég get þó ekki orða bundist. Mér gremmst þegar vegið er að fólki sem ég met mikils. Enn verra er að ég hafi þann í einhverjum metum sem heggur á þennan hátt.

Oft finnst mér gaman að lesa vefinn amx.is. Stundum finnst mér ummæli á honum fara algjörlega yfir velsæmismörk og oft er vanþekkingin mikil. Í gær mátti lesa eftirfarandi umfjöllun sem spannst upp vegna líkamsárásar á lögmannsstofu við Lágmúla í Reykjavík:

Að Marínó G. Njálsson telji það skiljanlegt að einhver fari vopnaður hnífi og risti menn á hol í Lágmúla í Reykjavík lýsir hugarheimi sem smáfuglarnir töldu að væri aðeins til í huga sjúkra manna. Marínó virðist þó ætla að sýna fram á annað.

Ég skil hreinlega ekki hvers vegna Marinó G. Njálsson er dreginn inn í þessa umræðu. Ég hef lesið ummæli hans um árásina í Lágmúla og var fyllilega sammála honum. Ég þekki manninn ekki persónulega en hef oft lesið bloggið hans og fullyrði að þar heldur á penna grandvar og góður maður. Það sem meira er hann er málefnalegur og hefur unnið mikið og þarft verk vegna skuldastöðu heimilanna í landinnu. Og betri baráttumann gegn vondri ríkisstjórn er vart hægt að hugsa sér.

Er það mat aðstandenda amx.is að þeir megi ofbjóða lesendum sínum með ómálefnalegri umfjöllun og jafnvel rangri? Er það réttlætanlegt að vefurinn geri sjálfan sig ómarktækann með umfjöllun sinni?

Þegar öllu er á botninn hvolft er líklegra skynsamlegra að vera málefnalegur, leita sér bandamanna gegn vondri ríkisstjórn frekar en að vera skítlegur til skemmtunar.

 


Krakað í sjávarútveginn með skóflu

Auðvitað má breyta íslenskum sjávarútvegi en það verður að gerast rólega. Það verður þó ekki gert með skóflu enda er atvinnulífið ekki moldarköggull. Þetta var gert hér fyrir hrun, fyrirtæki keypt, skuldsett og seld aftur á óheyrilegu verði, bankalán til kaupanna fylgdi jafnan. Þessi fyrirtæki áttu sér enga viðreisnar von í höndum nýrra eigenda, hversu mikill sem vilji þeirra var.

Ragnar Árnason, hagfræðingur, ritar grein í Morgunblaðið í morgun. Hann bendir á að samkeppnisstaða íslensks sjávarútvegs kunni að verða lakar haldi íslensk sjórnvöld áfram að veikja hann.

Við þær aðstæður er einungis tímaspursmál hvenær hinir erlendu samkeppnisaðilar ná að hrekja íslenska framleiðendur út af bestu mörkuðunum með undirboðum og öflugri markaðssetningu. Þá mun þróun liðinna ára snúast við. Í stað þess að þjóðin fái stöðugt hærra verð fyrir sjávarafurðirnar mun verðið fara lækkandi og okkar útflytjendur smám saman hrekjast út í lökustu markaðshornin. Framlag sjávarútvegsins til landsframleiðslu mun minnka að sama skapi. Okkur mun einfaldlega verða minna úr auðlindum sjávarins. Þjóðin í heild mun tapa.

Þessi orð Ragnars eru athyglisverð. Menn verða að hugas dæmið til enda, taka með í það sölu- og markaðsmál atvinnugreinarinnar. Hún þrífst á þeim og það er ekkert sem segir að sú staða sem sjávarútvegurinn er í dag á erlendum mörkuðum muni halda sér. Það er einmitt skoðun Ragnars sem segir í niðurlagi greinarinnar:

Sagan kennir okkur að búi stjórnvöld innlendum atvinnuvegum lakari samkeppnisskilyrði en atvinnuvegir annarra þjóða njóta er þess skammt að bíða að þessir atvinnuvegir lúti í lægra haldi í hinni alþjóðlegu samkeppni, dragist saman og visni. 


Snoppufríðar vilja til Bessastaða en hvað með hinar?

Snoppufríðar fjölmiðlakonur virðast á mikill rás til Bessastaða. Athygli vekur að hinar, þessar sem samkvæmt hefðbundinni (úreltri) viðmiðun teljast ekki snoppufríðar, eru í kyrrstöðu. Hvað veldur því að við almenningur teljum fallega fólkið miklu betur til þess fallið að vera forseti?

Nú er dálítið erfitt að halda áfram svona spjalli því lesandinn krefst þess án efa að skrifari nefni þær konur sem hann telur einhverra hluta vegna ekki snoppufríðar. Ég segi nú bara eins og Steingrímur Joð sagði, maður er sko ekki fæddur í gær og fellur ekki svo auðveldlega oní svoleiðis gryfju.

Lítum þó á að báðar fjölmiðladæturnar sem eru að hugsa málið, báðar hafa þær gert garðin frægan í sjónvarpi. Hvorug þeirra á „frægð“ sína úr útvarpi. Segir það ekki dálitla sögu?

Þekkt fjölmiðlafólk á einfaldlega mun meiri sjéns í framboðum en aðrir. Sú forgjöf er mikilvæg. Við kjósendur þurfum þó að hugað að öðru. Spyrjum hvað hugsanlegir frambjóðendur til embættis forseta Íslands leggja með sér annað en útlitið sem þegar nánar er að gáð skiptir ekki nokkru máli. 

 


Ánægjan að hafa stútað einum vesælum

Útilokað er að verja árásina á starfsmenn Lagastoða í gær. Ég held að enginn málstaður réttlæti ofbeldi af neinu tagi og því hlýtur maður að fordæma ofbeldið. En umræðan hefur fleiri hliðar og málavextir eru margir.

Í ljósi atburðarins er engu að síður nauðsynlegt að líta til verkefna lögmanna og hvernig þeir og kröfuhafar iðka sín störf. Fjöldi dæma eru um að þeir elti skuldara nær því út yfir gröf og dauða. Fyrir getuleysi, mistök, óheppni, vitleysisgang eða hver ástæðan hefur verið fyrir því að skuld var ekki greitt, er hefnt grimmilega. Tölvan á lögmannsstofunni gleymir engum. Hún minnir lögmanninn á að halda við kröfunni. Það kostar hann ekkert. Hann sendir bara kópi/peist bréf.

Dæmi eru frá gríðarlegri óhamingju og erfiðleikum vegna þess að lögmenn og kröfuhafar sýndu ekkert annað en hörku og óbilgirni. Í þessu sambandi má vitna til orða Marinós G. Njálssonar sem segir eftirfarandi í pistli á bloggi sínu:

Margoft er búið að biðja fjármálafyrirtækin og innheimtulögfræðinga þeirra um að sýna skilning, manngæsku og auðmýkt. Því miður hafa þessir aðilar ekki hlustað nægilega vel. 

Ég þekki persónulega dæmi þess að lögmenn og kröfuhafar opinberra stofnana eins og Lánasjóður íslenkra námsmanna hundelti skuldara þrátt fyrir gjaldþrot.

Og tuttugu árum eftir að krafan myndaðist, tíu árum eftir að skuldarinn fór í gjaldþrot hefur hann náð sér upp úr versta öldudalnum og eignast íbúð. Hver er þá fyrsti gesturinn sem bankar uppá? Jú, lögmaðurinn með hina fornu kröfu frá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Og þeir hirða íbúðina, kasta skuldaranum, án efa réttilega, aftur út í skógganginn. Og hvað fær Lánasjóðurinn og lögfræðingurinn fyrir vikið. Kannski ekkert nema ánægjuna að hafa stútað einum vesælum utangarðsmanni og þessir aðilar vita ekkert um að sá tók í kjölfarið líf sitt.

Ekki misskilja, lögmenn eru ekki verri en annað fólk. Sumt fólk metur hins vegar meira budduna sína en manngæsku og auðmýkt.

 


Réði hefndarfýsn gerðum fyrrum forstjóra FME?

Fyrir tæpum 30 árum var starfsmanni hjá stóru íslensku fyrirtæki með starfsemi í mörgum löndum sagt upp vegna erfiðleika í samskiptum hans við yfirmenn sína. Til að hefna sín fyrir uppsögnina greip þessi maður til þess úrræðis að reka hnífinn í bakið á starfsmönnum fyrirtækisins með því að fóðra helsta sorpblað landsins á trúnaðarupplýsingum og ósannindum um fyrirtækið, sem hann hafði starfað hjá. Með því kveikti hann þann eld, sem varð að mesta galdrabrennumáli 20. aldarinnar, og var kallað Hafskipsmálið.
 
Axel Kristjánsson, virtur lögmaður, sem þekktur er fyrir allt annað en að fara með fleipur, ritar athyglisverða grein í Morgunblaðið í morgun en ofangreind tilvitnun er úr henni. Maður rekur eiginlega upp stór augu við letsurinn. Hvað á maðurinn við? Um hvern er hann að tala?
 
Þessum manni, sem kveikti galdrabrennueldana forðum, tókst síðan að klifra eftir krókaleiðum upp í eitt af æðstu embættum ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms J. og hefur verið áberandi í fjölmiðlum síðan í eftirliti með siðferði fjármálakerfisins.
Nú virðist svo, að ekki hafi honum tekist betur til en svo, að hann hefur notað stöðu sína til að hnýsast í einkamál annarra með atbeina þeirra, sem hann átti að halda á hinni vandrötuðu braut siðferðis í fjármálum. 
 
Á Axel hér við Gunnar Andersen, fyrrverandi forstjóra FME? Sé svo kann stjórn FME að hafa farið enn lengra aftur en til ársins 2001 til að finna ávirðingar á Gunnar? 
 
Það sem verst er eiginleg fyrir Gunnar er að málið vegna uppsagnar hans virðist engan enda vera að taka. Fleiri og fleiri blandast í málið. Núna Axel Kristjánsson og ekki síður Fréttablaðið í morgun. Í því fullyrðir Gunnar að Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, hafi komið gögnunm til Kastljóssins sem fór mjög óvægnum höndum um forstjórann þáverandi.
 
Svo virðist sem að í þessum ping-pong leik taki fleiri en tveir þátt. Ásakanir eru á alla bóga um leka úr Landsbankanum um persónuleg málefni Guðlaugs Þórs og líka Gunnars. 
 
Allt þetta mál ber þess merki að vera orðinn farsi. Fjármálaeftirlitinu er enginn greiði gerður með því að halda áfram málarekstrinum í fjölmiðlum og trúverðugleiki Gunnars Andersen fer óneitanlega hraðminnkandi eftir því sem fleiri gögn benda til þess að gerðum hans ráði beinlínis óslökkvandi hefndarfýsn. Annað fæ almenningur ekki séð eftir því sem fleiri upplýsingar verða til um þetta mál.
 


Þarf olnboga-, tilfinningalegt og praktískt rými

Skapti

Skapti Hallgrímsson, hinn skemmtilegi blaðamaður Morgunblaðsins í „höfuðstað Norðurlands“ ritar að venju frábæra grein í Moggann í morgun. Í henni telur hann upp þá sem koma til greina sem forsetaframbjóðendur vegna forsetakjörs þann 30. júní næstkomandi.

Því miður gleymir hann mér, sem er mjög alvarleg yfirsjón. Í gær átti ég nebbnilega notalega kvöldstund með bekkjarfélögum úr Hlíðarskóla 1965-68 er við voru níu til tólf ára. Og þarna, yfir frábæru matarborði hennar Kristínar Bladursdóttur, hrökk upp úr Dóru Axelsdóttur að ég ætti að bjóða mig fram sem forseta. Hún Dóra var nú afskaplega framsýn og skörp og með þessari áskorun sannar hún svo ekki verður um villst að engu hefur hún tapað á þeim fáu árum sem liðin eru.

Mig minnir að meira að segja einn eða tveir í samkvæminu hafi tekið undir áskorunina með mikilli hrifningu. Að sjálsögðu stóð ég upp (um leið fækkaði umtalsvert í boðinu, skil ekkert í því) og flutti langa, fróðlega og skemmtilega ræðu um forsetaembættið, stöðu þess og nauðsyn á breytingum. Um það bil þremur klukkustundum síðar lauk ég henni (var þá Kristín gestgjafi farin að sofa) með því að segja að ég mun hugsa málið framyfir helgi (fann þá úlpuna mína og læddist út). Þjóðin verður bara að bíða og skilja að þessi áskorun kemur notalega flatt upp á mig en ég þarf olnboga-, tilfinningalegt og praktískt rými til að hugsa minn gang. Væntanlega mun ég kalla saman blaðamannafund á tröppum Bessastaða, í það minnsta bekkjarfund í gömlu stofunni okkar í Hlíðaskóla, og tilkynna ákvörðun mína. 

Þegar upp er staðið er þetta ágætis innidjobb, felur í sér ferðalög og fjölda samkvæma og ríkið borgar mat, húsnæði og bús fyrir mann. Á móti kemur að minni tími gefst til að ganga á fjöll, leika golf, detta í'ða, fara á kvennafar, blogga, ... 


Ert'að djók'í mér?

Er Landsbankinn að gera at í manni? Hvernig eiga skuldarar að gera fyrirvara á greiðslum sínum? Flestir greiða greiðskuseðla í heimabankanum. Þar er ekkert pláss fyrir neinar athugasemdir eða fyrirvara.

Fari maður í banka og greiði hjá gjaldkera þá nægir eflaust af hvísla fyrirvaranum að honum ... Eða hvað? Best er líklega að deponera eða senda aðalbankastjóranum línu með hverri greiðslu. 


mbl.is Sendir áfram út óbreytta innheimtuseðla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ástþór á ekkert erindi í framboð en ...

Hafi einhverjir verið að spjalla um forsetaframboð Ástþórs Magnússonar þá hefur það ekki verið í spaugi. Maðurinn hefur ekkert fylgi til þessa embættis eftir að hafa reynt sig tvisvar við það fékk. Árið 1996 fékk hann 4.422 atkvæði, 2,7% af heild. Árið 2004 fékk hann 2.001 atkvæði, 1,9%.

ýmsir kunna að halda því fram að hann sé svo illa gefinn að hann átti sig ekki á því að hann eigi ekki nokkurn séns með framboði sínu. Aðrir vita betur, Ástþór er ekki að hugsa um embættið, hann veit að það er vonlaust. Hann getur þó haldið áfram að nota framboð til embættis forseta Íslands sér til framdráttar erlendis. Það hefur hann gert hingað til með góðum árangri eins og sjá má á heimasíðu Friðar 2000:

Peace 2000 has been awarded for its Santa aid flights to war torn areas done under a special permission of the UN Security Council, by the Gandhi Foundation, UNESCO and the Greek Orthodox Church who decorated its founder, Icelandic Presidential Candidate Thor Magnusson with their Holy Gold Cross for humanitarian work at a ceremony in memory of Mother Theresa and Princess Diana.  

Niðurstaðan er sú að þessi maður er ekki í vinsældarkosningu á Íslandi heldur í business í útlöndum. Sem frambjóðandi á Ástþór ekki nokkurn sjéns jafnvel þó hann skreyti sig með heimsþekktum nöfnum og kallar sig Thor Magnússon.


mbl.is Framboð til forseta í þriðja sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umferðin í Reykjavík

Þetta er það sem mér leiðist mest í umferðinni í Reykjavík:

  1. Fólk sem lullar á vinstri akrein eða hangir á henni langtímum saman, jafnvel frá Ánanaustum og upp í Grafarholt. Vinstri akrein er til framúraksturs. Ef allir myndu nota hana þannig gengi umferðin hraðar fyrir sig.
  2. Þeir sem aka á strætóakreinum til þess eins að komast nokkrum sekúndum fyrr á áfangastað
  3. Borgaryfirvöld sem gera ekkert í því að greiða fyrir umferðinni á álagstímum
  4. Fólkið sem leggur í bílastæðin við Sundlaugina í Laugardal en fer ekki þar í sund.
  5. Allt þetta fólk sem er fyrir mér í umferðinni Smile

 


Verjum fé til fyrirbyggjandi aðgerða

Mjög óvenjulegt er að útlendingar skilji hversu erfiðar aðstæður geta oft verið til leitar að fólki hér á landi. Ekki síður er óalgengt að fólk átti sig á því að björgunarsveitirnar eru reknar af samskotafé og í þeim starfi eingöngu sjálfboðaliðar. 

Miklu máli skiptir því að styrknum sem aðstandendur Daniels Markusar Hoij verði varið á réttan hátt, rétt eins og Landsbjörg ætlar að gera. Ég hefði þó talið betra að hluti hans yrði varið til fyrirbyggjandi aðgerðir. Fólk má ekki bíða skaða af því að ferðast um landið, það á að vera upplýst um hættur sem ferðalögum eru samfara. Það er grundvallaratriði.


mbl.is Færðu Landsbjörg minningargjöf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

AGS skilur ekki tilfinningar aðeins Excelskjöl

forgangur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er að fyrst kemur ríkið síðar, löngu síðar, borgararnir og fyrirtækin.

Þetta er röng aðferðarfræði og sést einna gleggst á Ísland og Grikklandi. Á báðum stöðum hefur þessi makalausi alþjóðasjóður ásamt ESB knúið fram gríðarlegt atvinnuleysi svo leysa megi fjárhag ríkisins.

Hin rétta aðferðarfræði er sú að hvetja til almennrar neyslu, ýta almenningi og fyrirtækjum út í fjárfestingar og framkvæmdir. Þannig verða til tekjustofnar fyrir ríkissjóð. Þeir hverfa með auknu atvinnuleysi, minni umsvifum í þjóðfélginu, minni fjármagnshreyfingum og fleiri aurum sem læstir eru inn í bankahvelfingum.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn þekkir ekki tilfinningar fólks enda sjást þær ekki á Excelskjölum eða reiknilíkönum. Starfsmenn sjóðsins þekkja ekki atvinnuleysi af eigin raun. Þetta er hálaunalið, skattlaust og leggja ekkert til, hvorki í heimalandi sínu né annars staðar.

Vísum Franek Rozwadowski, sendifulltrúa AGS á Íslandi og Julie Kozack, yfirmanni sendinefndarinnar AGS, úr landi. Eða það sem betra er, látum sérstakan saksóknara kyrrsetja skötuhjúin og sækjum þau til saka fyrir ómanneskjulegar aðgerðir gegn íslenskri þjóð. Tillögur sjóðsins hafa reynst stórhættulegar og hrakið fjölda fólks í atvinnuleysi og úr landi. Þær hafa þrengt svo mikið að þjóðinni að hún hefur aldrei verið nærri því að missa fullveldi sitt til ESB.


mbl.is Andvíg almennri skuldaniðurfærslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband