Misvísandi yfirlýsingar frá Samfylkingunni
23.1.2009 | 09:21
ER eiginlega ekki nóg komið af aragrúa misvisandi yfirlýsingum frá Samfylkingunni - og raunar Ingibjörgu Sólrúnu líka. Hvorugur ríkisstjórnarflokkanna hefur lýst því yfir að stjórnarsamstarfinu sé lokið. Er þá ekki ótímabært fyrir ráðherra að velta fyrir sér mögulegu stjórnarsamstarfi og það fram til vors ...?
Ljóst er að djúpstæður klofningur sé kominn upp innan Samfylkingarinnar. Flokkurinn er greinilega ekki heill. VG hluti hans vill hætta stjórnarsamstarfinu, varaformaðurinn ryðst fram á vígvöllinn og hefnir þess nú að gengið var framhjá honum þegar ráðherraembættum var úthlutað, reykvískir kratar vilja úr ríkisstjórn, ekki þeir í Kópavogi og svo má lengi telja.
Ráðherrar Samfylkingarinnar þegja á meðan svo verkjar í hlustir ... Össur Skarphéðinsson, staðgengill utantíkisráðherra, formannsins, er greinilega jafnmikið út í kuldanum og varaformaðurinn, og hvorki mælir né ritar. Þeir ráðherrar sem áður hvöttu til vorkosninga, viðskiptaráðherra og umhverfisráðherra, halda sér til hlés og horfa yfir brunarústir flokksins. Félagsmálaráðherra biður enn síns tíma.
Niðurstaðan er sú að ráðherrar þora ekki að taka afstöðu, þora ekki að taka skrefið til fulls þ.e. slíta stjórnarsamstarfinu.
Þá er það áleitin spurning hvernig langlundargeði ráðherra Sjálfstæðisflokksins sé háttað. Óbreyttir flokksmenn horfa til þeirra en eins og fyrri daginn gerist ekkert, þar ríkir dauðaþögn eða ætti ég að segja þögn óttans, þeir þora ekki að mæla jafnvel þó þeir viti að ráðherratíma þeirra sé lokið - endanlega.
Ríkisstjórnin er dauð. Ef annar flokkurinn er klofinn, dottinn úr skaftinu, þá á Sjálfstæðisflokkurinn að sýna þann manndóm að slíta þessu samstarfi.
Kosningar eru ekkert vandamál fyrir sjálfstæðisstefnuna, þær verða hins vegar stórt vandamál fyrir sitjandi þingmenn Sjálfstæðisflokksins ætli þeir sér að fara aftur fram.
![]() |
Allt kemur til greina" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Frá Gleðibankanum: Með bros á vör og ljós í glugga
23.1.2009 | 08:25
Gleðibankinn hvetur þjóðina til að taka ótæpilega út innistæður sínar í bankanum. Þá biður bankinn íbúa þessa lands að sýna friðarhug sinn í verki og setja næstu kvöld áberandi ljós út í þann glugga sem snýr að götu eða friðarkerti við útidyr ef veður leyfir. Megi þeir sem nærast á ofbeldi og eignaspjöllum sjá að landsmenn eru slíku andsnúnir.
Á síðustu vikum hefur nokkur halli verið á viðskiptum Gleðibankans með Bros, Spaug og Hlátra. BSH vísitalan er víst fremur neikvæð þessa dagana.
Það skal undirstrikað að ekki eru bein tengsl milli Gleðibankans og stöðu efnahagsmála. Hins vegar er það Gleðibankanum áhyggjuefni að landsmenn skuli kjósa að leggja inn BSH (bros, spaug og hlátur) en brúka þess í stað YB (ygglibrún) sem er óæskilegur gjaldmiðill í samskiptum fólks.
Um leið og Gleðibankinn óskar eftir því að landsmenn brúki innistæður sínar sem mest og leggi YB af vill hann taka eftirfarandi fram: Innistæður eru nægar, lánalínur tryggar, krosseignatengsl örugg og viðskiptavild ótæmandi.
Í ljósi þessara aðstæðna biður Gleðibankinn mótmælendur efnahagskreppunnar að ganga hratt inn um gleðinnar dyr og stuðla að varanlegum friði milli ólíkra aðila í þjóðfélaginu. Það er rétt sem forðum var mælt að friður er grundvöllur allra góðra þjóðfélagsaðgerða.
Fréttatilkynning frá Gleðibankanum
Aðalútbúið á Skagaströnd
Fyrir hönd Gleðibankans
bankastjórar
Auðvitað er ástæða til að hvetja fólk til að fara nákvæmlega eftir þessum hugmyndum Gleðibankans. Nógir eru erfiðleikarnir víða og og meðfulltri virðingu fyrir þeim sem í þeim standa er samt ástæða til að líta með bjartsíni til framtíða en lítil ástæða að halda við gjaldmiðlinum YB í stað þess hefðbundna, einlægu brosi.
![]() |
Meirihlutinn styður mótmælin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hræddir ráðherra, forystulaus flokkur
22.1.2009 | 10:56
Kratar hafa aldrei kært sig kollótta um formenn sína. Varla er að vegna þess að undirferli sé svo algengt meðal þeirra. Hins vegar vitnar sagan um hrikalega meðferð á formönnum jafnaðarmanna. Nefna má Benedikt Gröndal, Kjartan Jóhannsson og Jón Baldvin Hannibalsson. Öllum var kastað löngu fyrir síðasta söludag.
Og núna, meðan Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, er fjarverandi vegna veikinda, finnst jafnaðarmönnum í Reykjavík það sæma kippa undan henni fótunum og krefjast stjórnarslita.
Stjórnleysið innan Samfylkingarinnar er ótrúlegt og þá ekki síður stjórnarandstaðan innan flokksins sem nær allt til varaformannsins sem með sanni getur hrósað sigri og telur það nú líklega fullhefnt að hafa ekki fengið ráðherraembættið í upphafi sem hann þó krafðist.
Að ráðum almannatengslaráðgjafa síns heldur Össur Skarphéðinsson sér til hlés. Það er eflaust hið besta ráð sem hann hefur nokkurn tímann fengið persónulega en sé litið á það frá öðru sjónarmiði þá virðist sem Össur annað hvort þori ekki að tjá sig eða geti það ekki. Ættu þessir sömu atburðir sér stað í örðum flokkum myndi hann ekki hika við að tjá sig í ræðu og riti.
Raunar þegja allir ráðherrar Samfylkingarinnar þunnu hljóði eða ætti maður að segja að þögn þeirra sé ærandi. Þeir skipta sér hreinlega ekki af atburðarásinni. Það minnir óneitanlega á kratana í Hafnarfirði þegar þeir þorðu ekki að taka afstöðu til stækkunar álversins í Straumsvík. Kannski er forysta Samfylkingarinnar ákvarðanafælin í eðli sínu.
Meðan landið logar í mótmælum heyrist ekkert í ráðherrum Samfylkingarinnar. Þeir þora ekki að taka afstöðu, eru hræddir við mótmælin og bíða þess sem verða vill undir borðum sínum í ráðuneytunum.
Ekki er furða þó æ fleiri Sjálfstæðismenn telji það betri kost að efna til kosninga heldur en að eiga í samstarfi við svona flokk.
![]() |
Samþykktu ályktun um stjórnarslit |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hvetjum til friðar og mótmælum ofbeldi
22.1.2009 | 09:44
Tek undir þetta og mæti að sjálfsögðu. Um er að ræða þverpólitískan fund og alls ekki verið að amast við mótmælum heldur fyrst og fremst að hvetja til friðar í þjóðfélaginu, koma í veg fyrir ofbeldi og eignaspjöll.
Það er í raun alveg útilokað að sætta sig við árekstra á milli lögreglu og mómælenda. Slíkt þjónar engum tilgangi. Lögreglumenn eru fyrst og fremst í vinnu sinni. Margir þeirra gætu án efa hugsað sér að mótmæla ástandinu í þjóðfélaginu en starfið gengur fyrir, hvort sem þeim líkar betur eða ver.
Öll þjóðin situr í sömu súpunni. Vandi okkar allra er hinn sami. Það er því óásættanlegt að mótmæla spillingu sjálfstekt auðmanna upp á marga milljarða og eyðilegga daglega eigur ríkisins eða borgarinnar fyrir margar milljónir á dag. Skilaboðin komast til réttra aðila þó þögn ein ríki eða hróp og bumbusláttur.
Einn af þeim skynsamari í hópi mótmælenda skrifar þetta á bloggsíðu sína:
Þess vegna á ég ekki samleið með ákveðnum hópi mótmælenda sem virðist hafa annað og meira í huga en friðsamar aðgerðir. Þetta spillir málstaðnum og þessi hópur má ekki yfirtaka aðgerðirnar. Ég held að hann njóti álíka mikils stuðnings fjöldans og ríkisstjórnin.
- Ég get barið á potta, klappað og stappað, haft uppi hávaða og sýnt samstöðu með nærveru minni.
- Ég veit að lögreglan er ekki andstæðingur minn.
- Ég get þráast við að færa mig, ef lögreglumenn biðja þess, en myndi þó gegna ef á reyndi.
- Ég mæti ekki til mótmæla til þess eins að ögra lögreglumönnum og reyna að snapa átök.
- Ég fæ mig ekki til þess að kasta grjóti,
- Ég vil kynda bál, en ég kveiki ekki í húsum.
Viðbót: Frásögn af vettvangi:Mótmælendasníkjudýr.
Höfundinn þekki ég ekkert en hann heitir Gísli Ásgeirsson og skrifar á http://malbein.net/. Ekki er verra að Gísli er ágætur hagyrðingur og hann orti eftirfarandi um bata Halldórs Ásgrímssonar.
Andar sjálfur enn á ný
aukin von um borgun
heyrðist meira en hrygla í
Halldóri í morgun.
Auðvitað er þetta afar ósmekkleg vísa og höfundur viðurkennir það.
![]() |
Mótmæli gegn ofbeldi og eignaspjöllum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hverjir aðrir en glæponar fela andlit sín?
21.1.2009 | 21:56
Eflaust er það tjáningarmáti ræningjans að hylja andlit sitt. Auðvitað er það réttur hans - ef rétt skyldi kalla. Hverjir aðrir en ræningjar, glæpamenn, misyndismenn og álíka lýður fela andlit sín? Vill einhver nefna dæmi?
Jafnvel ljótu kallarnir, útrásavíkingarnir, huldu ekki endlit sín þegar þeir iðkuðu það sem þeir best kunnu. Þeir eru nú í felum - kannski kemur það á sama stað niður.
![]() |
Vopnað rán í Lyfju í Lágmúla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stöndum vörð um rétt fólks til fundarhalda
21.1.2009 | 21:27
Ekki veit ég hvaðan þessir mótmælendur koma né hver sé stefna þeirra. Hitt held ég að sé deginum ljósara að þetta eru ekki lýðræðissinnar. Ekki geta þeir unnt Samfylkingarfólki að koma saman til að ráða ráðum sínum.
Einn dýrmætasti réttur hvers einstaklings er þátttakan í lýðræðislegu þjóðfélagi. Slíkt þjóðfélag hlýtur eðli máls samkvæmt að vera opið, starfa fyrir opnum tjöldum og leyfa hverjum og einum þátttöku, hvort sem hann vill tjá sig með einræðu í fjölmiðlum eða á torgum, funda með öðrum, styðja flokk með atkvæði sínu í kosningum og vinnu sinni. Sá sem ræðst gegn þessum heilaga rétti er styður ekki lýðræðið, er andsnúinn heiðarlegum skoðanaskiptum.
Ég fullyrði að tal svokallaðra mótmælenda um meinta spilling í þjóðfélaginu, bankahrunið, kröfur um kosningar og eigin heiðarleika sé yfirskin eitt. Þeir ætla greinilega að skaða þjóðfélagið og gera það óstarfhæft.
Burt með þetta fólk.
![]() |
Þið eruð öll rekin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Taktu hann hálstaki ...
21.1.2009 | 17:36
Taktu hann hálstaki, taktu hann hálstaki, hrópuðu maurarnir á félaga sinn sem skreið upp eftir fílnum.
Hvort skyldi nú flokkurinn vera að reyna að valda klofningi í ríkisstjórninni eða að hjálpa til í afar slæmu efnahagsástandi?
![]() |
Vill verja minnihlutastjórn falli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lýðræðissinnar munu ekki samþykkja árásir á stjórnmálamenn
21.1.2009 | 14:44
Ef það er svona sem fámennur hópur einstaklinga ætlar að haga sér þá held ég að samúðin fjari nú ansi fljótt undan málstað þeirra. Ég fullyrði að meirihluti þjóðarinnar er gjörsamlega á móti árásum eða áreitni mómælenda á forystumenn stjórnmálaflokkana, slíkt megi ekki eiga sér stað.
Hingað til höfum við trúað því að þjóðfélagið væri opið og stjórnmálamenn og embættismenn þyrftu yfirleitt ekki neina sérstaka öryggisgæslu.
Í skjólimótmæla gegn spillingu er nokkuð ljóst að hópur fólks hafði það markmið að ganga ekki til málefnalegra rökræðna heldur að lúskra á þeim ákveðnum einstaklingum. Það verður ekki liðið af lýðræðissinnum hér á landi og gera á þá kröfu til lögreglunnar að hún taki með festi á svona fólki.
Samkvæmt upplýsingum frá svokölluðum aðgerðasinnum er næst ætlunin að koma í veg fyrir landsfund Sjáflstæðisflokksins og verða öll ráð notuð. Þannig er ljóst að hér ekki við stjórnlausan skríl að eiga heldur samtök sem miðað að stjórnleysi og skemmdarverkum á lýðræðisstofnunum landsins.
![]() |
Mótmælendur umkringdu Geir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sorrý, þingi verður slitið og boðað til kosninga í maí
21.1.2009 | 13:18
Samkvæmt áreiðanlegum heimildum hefur verið tekin ákvörðun um þingslit og kosningar í vor, apríl eða maí. Ríkisstjórnin mun sitja þangað til. Sjá nánar http://omarr.blog.is/.
Á meðan mun allt reka á reiðanum vegna forystuleysis í framkvæmdavaldi og stjórnleysis á götunni. Alþingi götunnar hefur loks tekið yfir. Tími kominn til að flýja land eða það sem betra er út á land.
![]() |
Fundað með flokksformönnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Enn einn kratinn án staðfestu eða eldmóðs
21.1.2009 | 13:10
Svo virðist sem stefna Samfylkingarinnar speglast jafnan í því að hún þorir ekki. Þorir ekki að móta sér sjálfstæða stefnu, þorir ekki að koma stefnu sinni í framkvæmd og láti stjórnast af allt öðru en djúpri sannfæringu fyrir eigin ágæti. Ágúst Ólafur hrekst nú með fleiri samfylkingarmönnum sem heldur að mótmælendur séu þjóðin.
Vissulega er afar mikil óánægja með stöðu mála. Samfylkingin ber sína ábyrgð eins og aðrir flokkar, Sjálfstæðisflokkurinn þó mesta. Hins vegar er íslensk stjórnsýsla verulega vanmáttugu og hún megnar ekki að vinna á þeim hraða sem þjóðin krefst. Svo bætir það ekki úr skák að ríkisstjórnin kann hreinlega ekki að miðla upplýsingum til þjóðarinnar. Ég er þess fullviss að takist henni það þá myndi stór hluti þjóðarinnar verða rólegri.
Úr því sem komið er sýnist mér að það verði varla umflúið að efna til kosninga í maí. Það þýðir einfaldlega það að enn hægar mun ganga að fletta ofan af því spillingarrugli sem gegnið hefur yfir þjóðina og bæta úr. Þökk sé stjornmálamönnum eins og Ágústi Ólafi sem hafa ekki staðfestu né eldmóð og kunna ekki að standa í lappirnar.
![]() |
Óhjákvæmilegt að kjósa í vor |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tveir þriðju þjóðarinnar í einu borgríki - della
21.1.2009 | 09:23
Er það virkilega forgangsatriði í sveitarstjórnarmálum að búa til eitt sveitarfélaga sem ber höfuð og herðar yfir öll önnur? Íbúar í sveitarfélaginu verða þá 201.657, tveir þriðju þjóðarinnar sem búa á innan við 5% af landinu. Þetta sveitarfélag verður svo öflugt að það getur einfaldlega boðið löggjafarvaldinu og framkvæmdavaldinu birginn og restin af þjóðinni mun ekki geta rönd við reist.
Þetta er fullkomin vitleysa og mun aldrei verða til annars en að búa formlega til borgríki eiginhagsmuna, dæmigert 101 Reykjavík með þeirri þröngsýni sem þar ríkir um landið allt og þjóðina.
Það sem mestu máli skiptir er að viðhalda fjölbreyttni í sveitarfélögum landsins, leyfa þeim að blómstra, hverju á sinn hátt svo fólk eigi einhverra kosta völ um búsetu og atvinnutækifæri.
![]() |
Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu verði sameinuð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ómerkileg tilraun til að þykjast
20.1.2009 | 16:14
Þessi þingkona Framsókarnflokksins getur þanið sig, blótað og rifið fram og til bak og þóst uppfull heilagri reiði. Hún veit betur. Hún veit að hver og einn mótmælandi ber ábyrgð á sjálfum sér. Enginn er í hættu þó þingfundur sé haldinn.
Nú ætla einhverjir þingmenn að ríða á öldufaldi mótmæla og þykjast nú vera í sama liði. Tengslin við fortíðina verða þó ekki rofin. Framsóknarflokkurinn ber ábyrgð á stöðu mála rétt eins og aðrir flokkar og ábyrgð Helgu Sigrúnar Harðardóttur, þingmanns, er ekki lítil.
Munnsöfnuður hennar er henni ekki til sóma hvað þá sú tilraun hennar að reyna að skilja sig frá öðrum þingmönnum og vera á bandi mótmælenda. Ábyrgð hennar er jafnmikil fyrir því. Ef við eigum að sparka þingmönnum þá flýgur Helga Sigrún líka. Og farið hefur fé betra.
![]() |
Helvítis lyddugangur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Verða hryðjuverkalög sett á íslensku svanina?
20.1.2009 | 11:51
Hvar endar þetta? Fyrst voru það íslensku bankarnir, svo íslenska krónan og nú eru það blessaði svanirnir okkar. Næst verður áreiðanlega kvartað undan áreitni íslenska þorksins.
Nærtækast er fyrir breks stjórnvöld að beita hryðjuverkalögunum gegn þessum svönum. Það gerðu þau alla vega þegar íslensku bankarnir voru farnir að vera til óþæginda. Við skulum bara vona að ekki verði gerðar kröfur til að íslensk þjóð þurfi að greiða fyrir aðgerðina Operation Icelandic Swans ...
![]() |
Vilja íslensku svanina burt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Atvinnuleysi þýðir minni verðmætasköpun
20.1.2009 | 11:43
Atvinnuleysi hlýtur í eðli sínu að vera kreppuvaldandi þar sem neysla mun áreiðanlega dragast saman sem hefur aftur áhrif þau á atvinnulífið að samdráttur hefst með tilheyrandi uppsögnum og þannig heldur spíralþróunin áfram. Atvinnuleysi er mannskemmandi fyrirbrigði, hefur slæm áhrif á sálarlíf hvers einstaklings og dregur óhjákvæmilega úr skapandi hugsun. Niðurstaðan er afar slæm fyrir samfélagið þó ekki sé talað um annað en minnkandi verðmætasköpun. Hins vegar er atvinnleysi á Íslandi enn um það bil það sem er í fjölmörgum öðrum löndum Vestur-Evrópu og jafnvel Bandaríkjunum. Verst er ástandið á Spáni og staðan í Frakklandi og Þýskalandi er svipuð og hér á landi. Fámenn þjóð hefur ekki efni á öðru en að halda öllum sem vettlingi geta valdið að vinnu.
Verkefni ríkisstjórnarinnar er í senn afar einfalt en þó flókið í útfærslu. Það er að koma hjólum atvinnulífsins í gang og halda þeim gangandi auk þess að byggja upp og hvetja til rekstrar sem er verðmætaskapandi. Um leið þarf hann annað hvort að koma í stað innflutnings eða vera miðast við útflutning.
![]() |
Spá 9,6% samdrætti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Gott að fá hægri vænginn aftur
19.1.2009 | 14:36
Ástæða er til að fagna því að Framsóknaflokkurinn ætli að flytjast aftur heim á miðju stjórnmálanna. Þar á hann heima ásamt Samfylkingunni, Frjálslyndum, og stórum hluta VG. Okkur Sjálfstæðismönnum þykir bara ágætt að fá hægri vænginn til okkar nota eftir áralanga misnotkun Framsóknarmanna á honum. Kannski að fuglinn geti nú flogið.
Svo má benda á að skógrækt og landgræðsla geta svo sannarlega verið umhverfisspjöll eða þáttur í þeim. Ræktun barrskóga á Íslandi er t.d. mjög umdeild, framræsing mýra eru umhverfisspjöll en eru í sjálfu sér landgræðsla, útbreiðsla lúpínu þykir mörgum afar mikil landspjöll enda jurt sem upprunnin er úr öðrum vistkerfum og svo má lengi telja. Margir telja uppgræðslu víðáttumikilla sanda vera hin mestu umhverfisspjöll.
Bendi bara á að þessu klifi um náttúruvernd og umhverfismál verða að fylgja einhverjar skynsamlegar meiningar. Það er nefnilega verra að sveifla röngu tré en öngvu.
![]() |
Vill færa flokkinn frá hægri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Yfirlýsing sem vekur enn fleiri spurningar, slakt PR
19.1.2009 | 13:42
Grundvallaratriðið í almannatengslum er að yfirlýsing svari spurningum. Afar slæmt er ef yfirlýsingin vekur upp fleiri spurningar en hún svarar.
Ég hef lesið yfirlýsinguna og þá vakna þessar spurningar:
- Hvers vegna gat Al Thani fjölskyldan ekki keypt í Kaupþingi í eigin nafni eða í nafni fjárfestingafélga í eigu hennar?
- Hvers vegna lánar Kauþing banki stórauðugum aðila fé til fjárfestingar í bankanum? Af hverju fékk fyrirtækið Q Iceland Finance ehf. ekki þetta lán, það var þó kaupandi hlutins?
- Var félagið sem Ólafur gerðist eigandi að sérstaklega stofnað í þeim tilgangi að lána Al Thani fjölskyldunni fé til hlutafjarkaupa.
- Þegar um er að ræða svona gríðarleg viðskipti er það nokkur fráhvarfssök þótt milligönguaðil fái einhverja þóknun eða greiðslu fyrir vikið?
- Hvernig getur umrædd fjölskylda hafa styrkt bankann á þessum tíma? Í yfirlýsingunni segir að þá hafi ríkt umrót á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum. Var það ekki tími fyrir alla fjársfesta og þar með talið Al Thani fjölskylduna að halda að sér höndum?
Þetta er svona það sem flögraði í gegnum kollinn á mér við lestur yfirlýsingarinnar.
Og svo er best að nota tækifærið ... Er mögulegt að fá fé lánað hjá Ólafi Ólafssyni feinar islenskar krónur án persónulegra ábyrgða eða veða. Var að velta fyrir mér smápeningum, ca. 20.000.000 króna.
![]() |
Ólafur segir engan hagnað hafa runnið til sín |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lág verðbólga, mikið atvinnuleysi
19.1.2009 | 11:57
Athyglisvert að sjá vernig heimskreppan er að leika löndin í Evrópusvæðinu. Nú er spáð enn frekari samdrætti og hann hlýtur að koma við hér á landi. Í ljósi umræðna um aðild að ESB er áhugavert að skoða verðbólguna í sambandinu. Þá kemur í ljós aðhún er víðast í ríkjum vestur Evrópu frá 1,8% í Frakklandi og upp í 3,5% í Grikklandi. Við leikmenn getur þar með ályktað að verðlag sé frekar stöðugt í Evrópu. Skoðum þá atvinnuleysistölurnar. Þá kemur í ljós að minnst atvinnuleysi var í Hollandi, 3,4%, en mest á Spáni, 13,8%. Yfirleitt er atvinnuleysið 6,5% eða meira.
![]() |
Spá 1,9% samdrætti á evrusvæði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ekki nýtt að Framsóknarmenn flaski á tölum
18.1.2009 | 16:48
Ástæða er til að óska Framsóknarmönnum til hamingjum með nýja forystu. Vonandi verður hún þeim til gæfu, ekki veitir af, brekkan er löng uppávið.
Hins vegar er það ekki nýtt að heyra um vankunnáttu Framsóknaranna. Einu sinni var talað um Egilsstaðasamþykkt og var þá átt við að þeir samþykktu einhvern timann á Egilsstöðum að Ísland hafi verið skuldlaust í upphafi Viðreisnar. Gátu sem sagt ekki talið heldur létu sér nægja að álykta þvert ofan í staðreyndir.
Fræg er sagan af prófkjöri Framsóknarmanna í Reykjavík þegar barist var á móti Alfreð Þorsteinssyni og hann féll. Þá var talið aftur og aftur þangað til hann komst upp í annað eða fyrsta sætið.
Hins vegar er ekkert grín að vera í talninganefnd, hvort sem það er í prófkjörum, almennum kosningum eða kosningum á landsfundum. Starfinu fylgir álag, mikilvægt er að vera talnaglöggur og skynsamur. Svo sakar ekki að kunna doldið á Excel og brúka það ágæta forrit til að stemma af atkvæðin. Það verður hins vegar að segja að það er mikil ávirðing að kynna röng úrslit. Ábyrgðin er auðvitað formanns kjörstjórnar og hann axlaði hana og sagði af sér. Að þessu leyti mega margir stjórnmálamenn líta til Framsóknarflokksins sem fyrirmyndar.
![]() |
Sigmundur kjörinn formaður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Er Samfylkingin að fara á taugum?
16.1.2009 | 22:28
Það er alltaf gamla sagan með kratanna. Þeir skila sjaldnast sinn vitjunartíma. Eftir tæp tvö ár í ríkisstjórn eru þeir margir enn í stjórnarandstöðu. Ef til vill minnihluti, en hann er afar hávær og það er segin saga að kratar hlusta aðeins á þá sem hæst hrópa. Og nú hefur framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar misst sig, skilur ekkert í öllum þessum hávaða og vill hætta. Taugarnar eru við það að bresta hjá æ fleiri krötum.
Er það ekki rétt hjá honum? Á Samfylkingin ekki að hætta í ríkisstjórninni og leggja í kosningar? Er það ekki það sem er mest áríðandi í miðri kreppu?
Jú, auðvitað. Framkvæmdastjórinn ætti manna best að vita að það er ekkert verið að gera. Engin vinna í ríkisstjórninni eða ráðherrum. Viðskiptaráðherra situr iðjulaus, iðnaðarráðherra áhugalaus, félagsmálaráðherra að snyrta neglurnar og utanríkisráðherra er að spegla sig í mótmælunum. Og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins eru auðvitað að úthugsa einhverjar spillingarleiðir, reyna að klekkja á alþýðunni.
Nei. Nú er eiginlega nóg komið. Þurfa ráðherrar Samfylkingarinnar ekki að standa upp og segja flokksmönnum sínum hvað ríkisstjórnin er að gera, hvað ráðuneytin og stofnanir eru nú að bardúsa frá morgni til kvölds? Meir'að segja ég virðist vita meira um verkefni ríkisstjórnarinnar en þessir huglausu stjórnarandstæðingar í Samfylkingunni.
Þetta stjórnarsamstarf virðist vera endurtekning á ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks undir stjórn Davíðs Oddssonar og Jóns Baldvins Hannibalssonar. Ríkisstjórnin lék þar á reiðiskjálfi vegna innbyrðis átaka ráðherra krata og allt sem sagt var innan stjórnarinnar lak út.
Það er ekki nema eðlilegt að Sjálfstæðismenn spyrji hvort Samfylkunni sé treystandi í ríkisstjórnarsamstarfi.
![]() |
Skúli Helgason: Krafa um breytingar á rétt á sér |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Auðveldar göfugur tilgangur endurnýjun þorskstofnins?
16.1.2009 | 13:23
Bregður nú nýrra við. Varla getur viðgangur þorsksstofnins verið í öfugu hlutfalli við ganginn í efnahagslífi þjóðarinnar. Ekki hef ég heldur mikla trú á því að möguleikar þorskstofnsins til endurnýjunar séu meiri þegar á hann er gengið í þeim göfuga tilgangi að endurræsa efnahagslífið.
Af tvennu illu ætti nú að vera skárra að láta þorskstofnninn óskertan þar sem ljóst er að hann þolir varla 130.000 tonna heildarafla og umræður á síðasta ári leiddu það í ljós að ómögulegt væri að auka við kvótann.
![]() |
Þorskkvóti aukinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |