Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2017

Bendir aukinn órói til Heklugoss?

170427 Heklukort óróiSagt er að Hekla sé kominn á fremsta hlunn með að gjósa. Ég er nú ekkert að velta mikið vöngum út af svona sögusögnum. Árlega er næstum því farið að gjósa einhvers staðar.

Lengi hélt ég að fjölgun jarðskjálfta væri glöggt merki um væntanlegt eldgos. Svo er nú ekki, að minnsta kosti ekki nema í undantekningatilfellum.

Þá var mér sagt frá því undri að jarðfræðingar hlustuðu á hljóð úr iðrum jarðar. Með hliðsjón af þeim og öðrum rannsóknum og athugununum geta þeir metið hvort eldgos sé líklegt.

Jarðarhljóðin kalla jarðfræðingar óróa. Beggja vegna við Heklu eru tæki sem mæla óróa.

Annar staðurinn er norðan við Heklu, við móbergshryggi sem nefnast Feðgar og eru skammt frá fjallsrótunum. Hinn er sunnan við fjallið þar sem heitir Mjóaskarð og er á milli Fremri- og Innri-Vatnafjalla. Sjá kortið sem ég fékk hjá Landmælingum Íslands.

170403 Hekla órói fed170403 Hekla órói mjoLítum  nú á óróamælingar frá því í byrjun mánaðarins eins og þær eru birtar á vef Veðurstofu Íslands.

Hér til vinstri eru mælingar frá Feðgum sem gerðar voru 4. apríl og hægra megin eru mælingar frá Mjóaskarði.

Tek það fram að þarna er óróinn orðinn miklu meiri en hann var til dæmis í mars, en því miður var ég ekki farinn að safna þessum mælingum og á vef Veðurstofunnar er engin leið að skoða þær aftur í tímann. Hins vegar er ég með nokkrar mælingar frá því í apríl. 

170427 Hekla órói fed170427 Hekla órói mjoSkoðum nú mælingar dagsins í dag og berum þær saman við mælingarnar hér að ofan.

Lesandinn þarf ekki að vera sérfræðingur í jarðfræði til að átta sig á að talsvert mikið hefur breyst.

Getið er um tíðnisvið mælinganna efst í vinstra horninu. Það er einna helst bláa tíðnin sem vekur athygli. Mikill munur er á tveimur efri kortunum og þeim neðri. Það er ekki eini munurinn heldur er umtalsvert meiri órói sem mælist í Mjóaskarði en við Feðga, norðan við Heklu.

Skoðum þá hvað þetta gæti þýtt. Þessir þrír litir skilst mér að geti sýnt gosóróa sem verða vegna kvikuhreyfinga djúpt í jörðu eða þá ... kviku sem rennur í upp að yfirborði jarðar. Óróinn er mestur í bláu línunni. Þar skjótast upp óhljóð með mjög reglubundnum fresti sem hugsanlega má túlka sem afleiðingar ruðnings kvikunnar upp í móti. Hversu hratt kvikan fer veit ég ekki.

Um tuttugu og þrír dagar eru á milli þessara mælinga. Má vera að þær haldi áfram með sama vaxandi hraða sem endi með eldgosi ... einhvern tímann. Hugsanlega eftir nokkra daga eða einni mánuð eða ár.

IMG_3589 - Version 2Mér skilst að jarðfræðingar viti ekki enn hvað það er sem kveikir í Heklu. Má vera að jarðskjálftar, jafnvel mjög litlir, geti komið gosi af stað. Það er hins vegar staðreynd að þegar Hekla ætlar að gjósa fylgja margir litlir skjálftar.

En munurinn á milli Feðga og Mjóaskarðs? Ég veðja á að verði gos á næstunni verði það sunnan Heklu, frekar en í toppgígnum. Mælingarnar í Mjóaskarði benda til að þar sé skemmra í hugsanlegar kvikuhreyfingar en norðan fjallsins. Nóg er nú af gígum á þessum slóðum, bæði í Hekluhlíðum og í nágrenni; í Vatnafjöllum og raunar út um allar trissur þarna.

Að endingu vil ég taka það fram að ég er ekki jarðfræðingur og hef ekki hundsvit á þessari virðulegu fræðigrein. Ég hef samt ánægju af ferðalögum um landið okkar, helst gangandi. Sérfræðiþekking mín er aðeins bundin við að hafa gengið nokkuð oft á Heklu.

Myndina hér að ofan tók ég í síðustu Heklugöngu, í júlí 2015. Þyrla Landhelgisgæslunnar fylgdist grannt með því að ég reyndi ekki að koma af stað eldgosi.

Neðri myndin er af toppgígnum. Horft í vestur.

IMG_3616 - Version 2


Mistök eru mistök af mannlegum ástæðum - engu öðru

Andstæðan við mannleg mistök er náttúruleg orsök eða af vélrænum toga, engin mistök þar, bara galli. Þegar fólk klikkar á einhverju eru það hreinlega mistök, óþarfi að bæta þessu mannlega við.

Væntanlega er það þekkingarleysi ef framsóknarmenn skipa í nefnd án þess að gæta að skilyrðum um hæfi. Útilokað er að kenna hraða eða töfum um slíkt. Mistök, mistök, stundum kjánaleg mistök.

Mas Þórunnar Egilsdóttur, þingflokksformanns Framsóknarflokksins í frétt á mbl.is, um að einhver „mannleg mistök“ hafi valdið því að ekki var tilefndur maður með réttan bakgrunn í kosningu til útvarpsráðs er varla boðlegt.

Hún hefði einfaldlega átt að segja að Framsóknarflokkurinn hafi gert mistök. Punktur. Þess í stað förum við hin, sem ekki erum í þessum flokki, að velta því fyrir okkur hvaða börn stjórni honum eða jafnvel hvort honum sé ekki treystandi. Hvur veit svo hvað óbreyttir framsóknarmenn hugsi.

Niðurstaðan er samt þessi. Mistök verða ekkert minni mistök af því að þau eru kölluð mannleg ... þá eru þau bara alvarlegri.

Hafi orðið árekstur vegna þess að tveir bílar óku á móti hvorum öðrum og báðir á grænu ljósi þá vandast málið, lagsmaður. Engin mistök þar.


mbl.is Kjör Stefáns Vagns „mannleg mistök“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Strigakjaptar

Þór Saari og Björn Valur Gíslason, tveir af þeim pólitískum sem mest blaðra í íslenskum stjórnmálum og hafa sjaldnasst verið þekktir fyrir málefnalega umræðu. Þeir sitja í bankaráði Seðlabanka Íslands vegna hæfileika sinna og menntunar og þiggja fyrir ofurlaun.

Nú held ég að kominn sé tími fyrir guð almáttugan að blessa Ísland aftur.

 


mbl.is Þór Saari í bankaráð Seðlabanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrynur verð á notuðum bílum á næstunni?

BílasalaLíklega hefur enginn þorað að segja þetta fyrr en Guðfinnur S. Halldórsson, bílasali, bendir á það í frétt í Morgunblaði dagsins, að verð á notuðum bílum sé of hátt.

Ég er sammála honum og hef sjaldan séð jafnmarga bíla á bílasölum höfuðborgarinnar eða á bilasolur.is. Og verðlagið ... maður lifandi! Það er alltof hátt.

Hvað finnst þér, lesandi góður um þessi dæmi:

  • Toyota Landcruser jeppa, árgerð 2003, ekinn tæplega 400 þúsund km á 1,5 milljón króna?
  • Eða sömu tegund, ellefu ára gamla á 3.000.000 milljónir króna?
  • Eða tíu ára gamalan Subaru Forester á eina og 1,5 milljón ...
  • Eða tólf ára gamla Hondu CR-V ES á 1,2 milljónir ...

Ofangreind dæmi eru til vitnis um að notaðir bílar eru verðlagðir alltof hátt. Má vera að það séu bílasalar sem halda verðinu uppi eða þá eigendur sem vilja auðvitað fá nógu mikið fyrir bílinn sinn. Skiptir ekki máli. Óseldir bílar hrannast upp hjá bílasölum.

Staðreyndin er einfaldlega sú að framboðið er meira en eftirspurnin. Einstaka umboð hafa komist upp með að halda verði notaðra bíla uppi með handafli svo mismunurinn á milli nýrra og notaðra er ansi lítill. Hver er þá hvatinn til að kaupa notaðan bíl?

Mér segir svo hugur að á næstunni hrynji verð notaðra bíla um að minnsta kosti 25%. Það mun þá leiða til þess að verð á nýjum bílum mun lækka því bifreiðaumboðin munu alls ekki sitja með hendur í skauti enda geta margir sem kaupa notaða bíla hugsað sér að kaupa frekar nýja.

Má vera að það sé rétt sem Guðfinnur, bílasali, segir í Moggaviðtalinu, að það bílaleigur skekki markaðinn og þær reyni að halda uppi verði á notuðum bílaleigubílum. Að minnsta kosti er það ekki nein tilviljun að flestar stærri leigurnar eru með eigin bílasölur og bjóða þar að auki rekstrarleigu á notuðum bílum til lengri og skemmri tíma. Þetta bendir til þess að markaðurinn sé tregur.


Sómasamleg virðing

Maður nokkur er sterklega grunaður um að hafa orðið öðrum að bana og situr í fangelsi. Öll þjóðin hefur fylgst með rannsókn málsins og syrgir sárt unga stúlku sem átti framtíðina fyrir sér.

Skiljanlega hugsa margir hinum grunaða þegjandi þörfina en sem betur fer taka borgararnir ekki tekið lögin í sínar hendur og hefna sín á manninum. Hefndin er nefnilega ríkisins og hún byggist á ítarlegri rannsókn málavaxta og dómi samkvæmt lögum. Annað er auðvitað ótækt. 

Í fréttum hefur komið fram að fangar í einu af fangelsum landsins ætli hugsanlega að gera þeim grunaða mein þegar hann kemur þar hinn fyrir dyr. Aðrir hvetja til þess að honum sé sýnd virðing.

Virðing, hrópa þá margir í vandlætingu sinni. Myrti hann ekki unga stúlku með köldu blóði. Hann á ekki neina virðingu skilda.

Hér er um að ræða mikinn misskilning. Virðing er nefnilega skrýtið fyrirbrigði sem á alla rót sína í hverjum og einum, þetta er það sem stundum er nefnt sómi en margir hafa misst sjónar af honum í æðibunugangi hefndarhyggju sem gleggst má sjá í bíómyndum og langdregnum sjónvarpsmyndaflokkum. Í þykistulandinu er hefndin ljúf en í raunveruleikanum er hún sár enda segir í fornu orðtaki að aðeins skamma stund verður hönd höggi fegin.

Sá sem finnur hjá sér hvöt til að hrakyrða einhvern eða jafnvel meiða þá er það honum sjaldnast til mikils vegsauka, síður en svo. Má vera að slíkt tíðkist í skáldsögum og bíómyndum en auðvitað verður fólk að gera sér grein fyrir því hvenær skáldskapnum sleppir og raunveruleikinn tekur við.

Það fer ekki endilega saman að bera virðingu fyrir einhverjum og líka við þann hinn sama, kunna að meta hann. Ég viðurkenni hins vegar að stundum er erfitt að fara eftir þessu.


María Mey, Theresa May og heimsstyrjöld í maí

Dagsetningin er engin tilviljun því þennan dag verða 100 ár liðin síðan að María Mey opinberaðist þremur litlum börnum í Fatima í Portúgal. Samkvæmt kaþólskri trú hafa sex opinberanir átt sér stað í Fatima, sú síðasta 13. október 1917 en þá urðu 30.000 til 40.000 manns vitni að því sem fólkið segir vera óvenjulega hegðun sólarinnar en börnin þrjú, sem María Mey opinberaðist fyrir í maí, höfðu sagt fyrir um þennan atburð.

Þetta er úr vefritinu pressan.is sem þekkt er fyrir áreiðanlegan fréttaflutning og afar vel skrifaðar fréttir. Ofangreint er úr „frétt“ um næstu heimsstyrjöld sem hefjast mun á næstu vikum. Hún er höfð eftir manni sem „vissi“ að Trump yrði kostinn forseti Bandaríkjanna. Aðrir voru ekki eins getspakir. Sumir héldu að annað hvort Trump eða Clinton yrðu fyrir valinu.

Blaðamaðurinn gleymir þó að geta þess að Theresa May, sem ábyggilega er náskyld Maríu Mey frá Portúgal, ætlar að halda kosningar í Bretlandi, það er um hálfum mánuði eftir upphaf heimsstyrjaldarinnar. Vonandi að hið fyrrnefnda truflist ekki af hinu síðarnefnda.

Í alvöru ... Hvers vegna í ósköpun er verið að halda úti Pressunni og raunar Eyjunni? Hvorugt ritið skiptir máli í fréttaflutningi hér á landi. Uppistaðan eru illa skrifaðar þýðingar úr erlendum fréttamiðlum. Tilgangurinn er að safna texta á milli auglýsinga, þær virðast vera meginmarkmiðið. Aldrei hafa fréttir í Pressunni verið annað en endurbirting af öðrum sem þegar hafa birst annars staðar, nema auðvitað þegar skrifarar þar reyna að þýða úr erlendum ritum.

Nú virðast fjárfestar komnir inn í útgáfufélagið og vonandi fylgir þá einhver stefnumörkun um fréttaskrif og lágmarkskröfur um kunnáttu í skrifum, íslenskuþekkingu og .. ekki síst skilning á blaðamennsku og fréttamiðlun. Ef ekki er illa farið með aurinn.


Þegar látið er svona í veðrinu vaka ...

Við getum reyndar horft aðeins til Íslands í þessu sambandi. Sjálfstæðisflokkurinn er á Evrópuvettvangi í samstarfi við AKP, flokk Erdogans Tyrklandsforseta. Þetta er í samtökum sem nefnast AECR, en þar eru líka Íhaldsflokkurinn breski, Laga- og réttlætisflokkurinn í Póllandi, Likud í Ísrael en Repúblikanaflokkurinn í Bandaríkjunum hefur aukaaðild.

Þetta segir Egill Helgason, í pistli á Eyjunni. Hann lætur í það skína að Sjálfstæðisflokkurinn sé afar varasamur af því að hann er aðili að samtökum sem nefnast „Aliance of Conserevatives and Reformists in Europe“, AECR, og í þeim er tyrkneski stjórnmálaflokkurinn sem hinn illræmdi Erdogan Tyrklandsforseti er í.

Erfitt er að gera sumum til hæfis. Stundum er Sjálfstæðisflokkurinn gagnrýndur fyrir hatur á Evrópu en Egill gagnrýnir hann fyrir samskipti við aðra evrópska stjórnmálaflokka.

Egill Helgason hefur aldrei þótt hlutlaus í skrifum sínum um Sjálfstæðisflokkinn, þvert á móti. Út af fyrir sig er það í lagi. Hitt er alveg furðulegt þegar gripið er til ómerkilegra aðferða eins og að láta að því liggja að Sjálfstæðisflokkurinn sé í slæmum félagsskap vegna þess að tyrkneski AKP flokkurinn er í sömu samtökum.

Einu sinni reyndi Egill Helgason í pistli á Eyjunni að gera lítið úr Ólafi Ragnari Grímssyni, fyrrum forseta Íslands fyrir að eiga auðugan tengdaföður.

Egill upplýsti svo sem ekkert um Sclomo Moussaieff en tengdi Ólaf við aflandsfélag tengdaföðurins og lét að því liggja að hann væri „ævintýralegur náungi", „margt dularfullt í sögu hans“ og hann beitti vafasömum aðferðum við störf sín. Og svo segir hann orðrétt:

Þetta veikir stöðu Ólafs vissulega, en samt er spurning hvort þetta telst ekki vera það sem heitir á ensku heitir guilt by association.

Sá sem vill koma óorði á einhvern notar þá aðferð að benda á sök vegna samskipta. Hún er afar áhrifamikil en um leið í hæsta máta vafasöm í fjölda tilvika. Sök Ólafs Ragnars Grímssonar er samkvæmt Agli að hafa gifst dóttur manns sem hann telur „vafasaman“. Þessu myndi enginn halda fram nema sá sem vill koma höggi á Ólaf, gera lítið úr honum.

Á sama hátt er það ekki vegna væntumþykju Egils á Sjálfstæðisflokknum að hann bendir á að flokkurinn sé í sömu samtökum og flokkur Tyrklandsforseta. Lesandinn fær það á tilfinninguna að þar sé Erdogan að kenna öðrum trixin, hvernig eigi spilla fyrir lýðræðinu, fangelsa andstæðinga og eitthvað fleira ljótt.

Egill lætur svona í veðrinu vaka eins og Páll Árdal orti:

Ef ætlarðu að svívirða saklausan mann,
þá segðu aldrei ákveðnar skammir um hann,
en láttu það svona í veðrinu vaka,
þú vitir, að hann hafi unnið til saka.

Þetta er hreint ömurlegur málflutningur hjá Agli Helgasyni. Hins vegar lesa margir pistla Egils, áhrif hans eru ábyggilega mikil og þar af leiðandi engin ástæða til annars en að benda á misfellurnar í málflutningi mannsins.

AusturvöllurÍ sama pistli og Egill reynir að gera lítið úr Ólafi Ragnari Grímssyni er mynd af fólki á Austurvelli. Þar berja þrír menn sömu tunnuna í mótmælum vegna spillingar. Einn þeirra er Vilhjálmur Þorsteinsson, fyrrum gjaldkeri Samfylkingarinnar og eigandi fyrirtækja í skattaskjólum, og þarna er líka Illugi Jökulsson, dagskrárgerðarmaður.

Með röksemdafærslu Egils Helgasonar mætti ábyggilega gera lítið úr Illuga, „sakfella“ hann vegna þess að hann stendur þarna við hlið „spillts“ manns.

Er þetta ekki klárt dæmi um „Guilt by Association“ ... eða hvað? 

Einhvern tímann heyrði ég af íslenskum kommúnista sem var í MR, ábyggilega löngu áður en að ég gekk í þann skóla. Hann harðneitaði að læra prósentureikning af því að sú stærðfræði var notuð af ljótum kapítalistum við að hlunnfara alþýðuna.

Þessi litla saga leiðir hugann að því hvað þeir Adolf Hitler, Jósef Stalín, Mao Tse Tung og ábyggilega fleiri einræðisherrar og morðingjar sameiginlegt. Jú, þeir sögðu að einn plús einn væri sama sem tveir. Getur þú, ágæti lesandi, virkilega verið sammála helstu morðingjum tuttugustu aldar?

Ég veit að flestir lesenda minna skilja nú hvað ég á við. En hvenær í ósköpunum mun pólitísk umræða breytast úr rógi í rökræðu? Líklega aldrei, ekki frekar hér en annars staðar í heiminum.

 

 


Almannaskilningur um almannahættu

Í frétt á mbl.is segir í fyrirsögn: Skapaðist gríðarleg almannahætta. Þetta virðist vera spurning og spurningamerkið vantar. Nei, svo svo er ekki. Mjög algengt er að þeir sem skrifa fréttir byrji setningar á sagnorði þó ekki sé verið að spyrja neins.

Til að fyrirsögnin þjóni gildi sínu og skiljist þarf sögnin að vera aftast í setningunni: „Gríðarleg almannahætta skapaðist“.

Að auki hefði verið að nóg að segja að hætta hefði skapast, enda orðið notað yfir það sem er fólki hættulegt. „Almannahætta“ er virðist orðið að stagli í fréttum núorðið.

Svo mun ógæfusami maðurinn hafa „framið rán“ í apóteki. Samkvæmt „almannaskilningi“ mun maðurinn hafa rænt apótekið, en þannig skrifar víst enginn „almennilegur“ blaðamaður lengur.

Í fréttinni segir:

Er það mat lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu að mik­il mildi hafi orðið til þess að eng­inn skaði hlaust af hátt­erni manns­ins.

Aftur byrjar setning á sagnorði sem er svo sem ekki rangt en stíllaust. Veslings maðurinn mun hafa keyrt utan í nokkra bíla og skaðað þá. Í því er kannski „almannaskaði“ fólginn.

Margir hefðu sleppt þessari lengingu hafi orðið til þess ...“.

Fer ekki betur á því að skrifa: „Lögreglan telur mikla mildi að maðurinn slasaði engan á flótta sínum.“

 


mbl.is „Skapaðist gríðarleg almannahætta“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heillandi loftmyndir af hraunum

ÖskuhraunGóðir ljósmyndarar eru margir hér á landi, atvinnumenn og ekki síður leikmenn. Einn af þeim merkilegustu er fyrirtækið sem myndar landið úr lofti, Loftmyndir ehf. Á vegum þess eru teknar gullfallegar og stundum  stórkostlegar myndir af landinu. Jafnvel þó það sé ekki beinlínis ætlunin þá æxlast hlutirnir þannig

Mig langar til að sýna hér nokkrar myndir sem ég hef klippt út úr stórum myndum af hraunum landsins.

Úr lofti séð mynda hraun, rennsli þeirra og straumar afar sérkennilegar myndir. Einna helst er hægt að bera þau saman við æðar í laufblaði.

Hraun hafa runnið hér á landi frá því löngu áður en land var numið og halda því áfram svo lengi sem virkni jarðar leyfir. Þau hreyfast tiltölulega hægt og á endanum storkna þau og sýna þá nákvæmlega stöðuna þegar það gerðist.

BláfelldarhraunHér fyrir ofan er klippa af Holuhrauni hinu nýja. Takið eftir svip hraunsins og „eyjunum“ þremur sem það hefur ekki náð að renna yfir. Samt er hraunið ábyggilega á fjórða metra á þykkt þarna.

Bláfeldarhraun á sunnanverðu Snæfellsnesi er einstaklega fallegt. Hraunið kemur úr eldsprungum í um 560 metra hæð og hefur fallið niður í miklum fossi og dreift sér fagurlega á láglendi. Bærinn Bláfeldur er þarna vinstra megin á myndinni, í skjóli undir hraunjaðrinum.

Á Snæfellsnesi eru gígar oftast kallaðir kúlur og þær eru nokkuð margar. Ofan við hraunflæmið er Rauðakúla. Í henni eru tveir gígar með stefnuna NA-SV. Beggja vegna við hana eru eldsprungur og virðist sem meira hraun hafi fallið úr þeim heldur en Rauðukúlu.

Feðgar við HekluOfar eru aðrar eldsprungur. Má vera að eldvirknin hafi verið á ólíkum tímum. Mig minnir að hafa einhvers staðar lesið að Bláfeldarhraun sé um 7000 ára gamalt.

Í kringum Heklu er fjöldi hrauna sem runnið hafa frá henni eða nálægum eldstöðvum. Segja má að hún sé haldin sírennsli.

Á þriðju klippunni eru tveir hrauntaumar og á milli er lítið fell. Hér erum við komin norðvestan við Heklu. Á korti er fellið nefnt Feðgar og á hugsanlega við bæði fellin sem þarna sjást. Á gamla Atlaskortinu eru þessi fell og eitt að auki nefnd Móhnúkar og er það réttnefni.

Hekla, SVFagri hraunstraumurinn vinstra megin rann í Heklugosinu árið 1845 og sá vinstra megin tæpri öld áður eða í gosinu á árunum 1766 til 1768. Sléttlendið eru vikrar.

Einu sinni, fyrir löngu síðan, ætluðum við tveir tvítugir strákar að ganga á Heklu en þekktum ekki réttu leiðina.

Við álpuðumst um þessar slóðir og upp á Litlu-Heklu þaðan langleiðina á tindinn. Snérum svo við og enduðum á því að tjalda við móbergsfellið á myndinni. Það var ekki góð hugmynd, algjörlega vatnslaust þarna en við fundum um síðir fornan snjóskafl sem við gátum kroppað úr og brætt á gasprímus. Sá dreitill dugði til morguns.

Nokkru vestar er hraun sem sést á fjórðu klippunni og er við Suðurbjalla. Það er hugsanlega á þriðja hundrað ára gamalt. Ofan á því, neðarlega á klippunni, er hraunið sem rann 1947 og líklega er það eldra en hraunið frá 1766.

Snæfellsjökull

Næsta mynd er af hlíðum Snæfellsjökuls. Hann er eldkeila og frá toppgígnum hafa fallið ótrúlegur fjöldi hraunstrauma. Þarna eru þeir eins og dökkt kertavax sem lekur niður kertastjakann, hver straumurinn á fætur öðrum. Alveg heillandi sjón.

Jón Helgason, skáld og fræðimaður, ort kvæðið Áfanga sem ég hef í dálitlu uppáhaldi. Í kvæðinu fer hann um marga áfangastaði og yrkir til þeirra. 

Hann yrkir um Lakagíga og líkir eldunum við ljós á kertastjaka, en í stað þess orðs býr hann til orðið „gígastjaka“. Tær snilld.

Eldflóðið steypist ofan hlíð,
undaðar moldir flaka;
Lakagígarlogandi standa í langri röð
ljósin á gígastjaka;
hnjúkarnir sjálfir hrikta við,
hornsteinar landsins braka,
þegar hin rámu regindjúp
ræskja sig upp um Laka.

Síðasta klippan er einmitt af hrauni norðarlega við Lakagíga. Gígarnir sjást líka og hraunið sem frá þeim rennur er bárumyndað og streymir sjáanlega í næstum allar áttir.

Ég hef mikla ánægju af því af landakortum og nota mest örnefnakort frá Landmælingum jafnt og loftmyndir frá Loftmyndum. Mæli með því að lesendur mínir skoði vefsíður beggja fyrirtækjanna.

 

 

 


Mogginn svindlar - ekkert Reykjavíkurbréf

MoggiÞó svo að Ragnar Axelsson sé einn af fremstu ljósmyndurum landsins og Sæfellsjökull sé eitt af mínum uppáhaldsfjöllum þá er ég alls ekki sáttur við að í Morgunblaði helgarinnar sé ekki Reykjavíkurbréf eins og hefðin býður.

Helgarblað Morgunblaðsins er oft athyglisvert, stöku viðtöl eru ágæt en uppskriftir og annað til heimilisbrúks er ekki meðal þess lesefnis sem ég hef áhuga á.

Yfirleitt flettir maður hratt að Reykjavíkurbréfinu og les það. Eins og gengur er maður ýmist fyllilega sammála eða ekki, mismikið eftir umfjöllunarefninu. Það skiptir svo sem ekki alltaf máli heldur er það stíll bréfritara, röksemdafærsla og yfirgripsmikil þekking sem gerir Reykjavíkurbréfið að góðu efni.

Þessa helgina svindlar Mogginn á lesendum sínum, birtir ekki Reykjavíkurbréf heldur er opnuninni „eytt“ í flennistóra mynd af efsta hluta Snæfellsjökuls, horft í austur yfir ský og hnúka sem standa upp úr þokunni.

Þessu mótmæli ég harðlega og er að velta því fyrir mér að hætta áskrift að þessu ágæta blaði ... síðar á þessari öld. Eina afsökunin Moggans er að bréfritari hefi verið lasinn og ekki getað skrifað helgarpistilinn. Þá óska ég honum góðs bata. Ég vona bara að bréfritari hafi ekki lent undir ritskoðun og pistillinn felldur út. Það væri hún meiri skandallinn.

Mikil prýði er af fallegri mynd en hvað veit lesandinn svo sem um myndefnið? Hér er tilraun til að skýra landslagið. Þetta geri ég án leyfis Moggans og RAX.

Má vera að mér skjöplist í einhverjum tilvikum en þá eru lesendur vísir til að skrifa mér leiðréttingu hér fyrir neðan.

Í júlí 2015 gekk ég á gönguskíðum upp á Snæfellsjökul. Tók þá meðfylgjandi mynd undir Miðþúfu. Undir Norðurþúfu eru útlendir ferðamann sem komu upp á snjótroðara.

Jökullinn


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband