Heillandi loftmyndir af hraunum

ÖskuhraunGóðir ljósmyndarar eru margir hér á landi, atvinnumenn og ekki síður leikmenn. Einn af þeim merkilegustu er fyrirtækið sem myndar landið úr lofti, Loftmyndir ehf. Á vegum þess eru teknar gullfallegar og stundum  stórkostlegar myndir af landinu. Jafnvel þó það sé ekki beinlínis ætlunin þá æxlast hlutirnir þannig

Mig langar til að sýna hér nokkrar myndir sem ég hef klippt út úr stórum myndum af hraunum landsins.

Úr lofti séð mynda hraun, rennsli þeirra og straumar afar sérkennilegar myndir. Einna helst er hægt að bera þau saman við æðar í laufblaði.

Hraun hafa runnið hér á landi frá því löngu áður en land var numið og halda því áfram svo lengi sem virkni jarðar leyfir. Þau hreyfast tiltölulega hægt og á endanum storkna þau og sýna þá nákvæmlega stöðuna þegar það gerðist.

BláfelldarhraunHér fyrir ofan er klippa af Holuhrauni hinu nýja. Takið eftir svip hraunsins og „eyjunum“ þremur sem það hefur ekki náð að renna yfir. Samt er hraunið ábyggilega á fjórða metra á þykkt þarna.

Bláfeldarhraun á sunnanverðu Snæfellsnesi er einstaklega fallegt. Hraunið kemur úr eldsprungum í um 560 metra hæð og hefur fallið niður í miklum fossi og dreift sér fagurlega á láglendi. Bærinn Bláfeldur er þarna vinstra megin á myndinni, í skjóli undir hraunjaðrinum.

Á Snæfellsnesi eru gígar oftast kallaðir kúlur og þær eru nokkuð margar. Ofan við hraunflæmið er Rauðakúla. Í henni eru tveir gígar með stefnuna NA-SV. Beggja vegna við hana eru eldsprungur og virðist sem meira hraun hafi fallið úr þeim heldur en Rauðukúlu.

Feðgar við HekluOfar eru aðrar eldsprungur. Má vera að eldvirknin hafi verið á ólíkum tímum. Mig minnir að hafa einhvers staðar lesið að Bláfeldarhraun sé um 7000 ára gamalt.

Í kringum Heklu er fjöldi hrauna sem runnið hafa frá henni eða nálægum eldstöðvum. Segja má að hún sé haldin sírennsli.

Á þriðju klippunni eru tveir hrauntaumar og á milli er lítið fell. Hér erum við komin norðvestan við Heklu. Á korti er fellið nefnt Feðgar og á hugsanlega við bæði fellin sem þarna sjást. Á gamla Atlaskortinu eru þessi fell og eitt að auki nefnd Móhnúkar og er það réttnefni.

Hekla, SVFagri hraunstraumurinn vinstra megin rann í Heklugosinu árið 1845 og sá vinstra megin tæpri öld áður eða í gosinu á árunum 1766 til 1768. Sléttlendið eru vikrar.

Einu sinni, fyrir löngu síðan, ætluðum við tveir tvítugir strákar að ganga á Heklu en þekktum ekki réttu leiðina.

Við álpuðumst um þessar slóðir og upp á Litlu-Heklu þaðan langleiðina á tindinn. Snérum svo við og enduðum á því að tjalda við móbergsfellið á myndinni. Það var ekki góð hugmynd, algjörlega vatnslaust þarna en við fundum um síðir fornan snjóskafl sem við gátum kroppað úr og brætt á gasprímus. Sá dreitill dugði til morguns.

Nokkru vestar er hraun sem sést á fjórðu klippunni og er við Suðurbjalla. Það er hugsanlega á þriðja hundrað ára gamalt. Ofan á því, neðarlega á klippunni, er hraunið sem rann 1947 og líklega er það eldra en hraunið frá 1766.

Snæfellsjökull

Næsta mynd er af hlíðum Snæfellsjökuls. Hann er eldkeila og frá toppgígnum hafa fallið ótrúlegur fjöldi hraunstrauma. Þarna eru þeir eins og dökkt kertavax sem lekur niður kertastjakann, hver straumurinn á fætur öðrum. Alveg heillandi sjón.

Jón Helgason, skáld og fræðimaður, ort kvæðið Áfanga sem ég hef í dálitlu uppáhaldi. Í kvæðinu fer hann um marga áfangastaði og yrkir til þeirra. 

Hann yrkir um Lakagíga og líkir eldunum við ljós á kertastjaka, en í stað þess orðs býr hann til orðið „gígastjaka“. Tær snilld.

Eldflóðið steypist ofan hlíð,
undaðar moldir flaka;
Lakagígarlogandi standa í langri röð
ljósin á gígastjaka;
hnjúkarnir sjálfir hrikta við,
hornsteinar landsins braka,
þegar hin rámu regindjúp
ræskja sig upp um Laka.

Síðasta klippan er einmitt af hrauni norðarlega við Lakagíga. Gígarnir sjást líka og hraunið sem frá þeim rennur er bárumyndað og streymir sjáanlega í næstum allar áttir.

Ég hef mikla ánægju af því af landakortum og nota mest örnefnakort frá Landmælingum jafnt og loftmyndir frá Loftmyndum. Mæli með því að lesendur mínir skoði vefsíður beggja fyrirtækjanna.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband